Menntaverðlaun atvinnulífsins

Menntaverðlaun atvinnulífsins

Menntaverðlaun atvinnulífsins verða afhent á Hilton Nordica þriðjudaginn 11. febrúar 2025. Óskað er eftir tilnefningum um fyrirtæki sem hafa staðið sig vel á sviði fræðslu- og menntamála. Fyrirtækjum er velkomið að tilnefna sig sjálf.

Tilnefningar þurfa að berast eigi síðar en þriðjudaginn 28. janúar.  Athugið að einungis má tilnefna skráð aðildarfélög SA.

Verðlaun eru sem fyrr veitt í tveimur flokkum. Menntafyrirtæki ársins er valið og menntasproti ársins útnefndur en fyrirtæki sem tilnefnd eru verða að uppfylla ákveðin viðmið.

Tilnefna: https://form.123formbuilder.com/6570890/menntaverdhlaun-atvinnulifsins-2024

Á myndinni sést þegar Elko tók við verðlaunum sem Menntafyrirtæki ársins 2024

Jólagjöf máttlausu andarinnar

Jólagjöf máttlausu andarinnar

Á næstu einni til tveimur vikum ætlar Alþingi að fá lagagildi fjárlagafrumvarpi 2025 ásamt fylgitunglum.
Meðal fylgitunglanna er frumvarp fjármála- og efnahagsráðherra til laga um kílómetragjald, 7 milljarða
kr., skattahækkunarjólapakki fyrir næsta ár og tugmilljarða skattapakki til jóla næstu ára.
Jólagjöfin er kynnt undir formerkjum nokkurs konar dyggðar. Með hana eiga þegnarnir að vera
ánægðir þar sem henni er ætlað að leiða til jafnræðis, allir borgi. Gjöfin er svo skreytt með borða, u.þ.b.
100% hækkun kolefnisgjalds.

Máttlaus önd
Ríkisstjórnin er starfsstjórn eftir að einn stjórnarflokkanna boðaði skilnað í vor, annar ákvað að þá réttast að slíta sambandinu strax og var
í kjölfarið kallaður svikari. Þriðja flokknum finnst þetta vandræðalegt. Sumir ráðherrar skilnaðarstjórnarinnar gegna enn hlutverki sem embættismenn en eru sem slíkir
ekki í pólitísku hlutverki. Aðrir eruað gera eitthvað allt annað. Erlendis eru starfsstjórnir á ensku nefndar lame duck, máttlaus önd. Upprunalega voru orðin notuð til að lýsa önd sem getur ekki
haldið í við andahópinn og verður af þeim sökum skotspónn ránfugla. Seinna meir voru orðin notuð til að lýsa ógjaldfærum fyrirtækjum og einstaklingum. Á síðari tímum hafa orðin
máttlaus önd verið notuð til að lýsa því pólitíska samhengi þegar þing eða ríkisstjórn missa mátt sinn, t.d. í aðdraganda kosninga.

Er sælla að gefa en þiggja?
Skammur tími er frá því að drög að jólagjöfinni voru kynnt og enn skemmra síðan hún var afhent Alþingi til útdeilingar. Nú er orðið ljóst
að hún er til allra þegnanna. Jólagjöfin leiðir til þess að fyrirtæki sem annast flutning á fiski, matvöru, heyrúlluplasti, skepnufóðri og iðnaðarvöru munu þurfa að huga að því hvernig þau geta mætt 8-10% hækkun
rekstrarkostnaðar á næsta ári og sennilega um 15% hækkun árið 2027. Til viðbótar munu fyrirtækin standa frammi fyrir sambærilegri áskorun vegna hækkandi rekstrarkostnaðar eigin véla og tækja ásamt auknum rekstrarkostnaði þeirra sem veita fyrirtækjunum þjónustu. Skreyting gjafarinnar ber hins vegar vott um glamúr. Hver vill ekki að rekstrarkostnaður strandsiglinga hækki í ofanálag líka fyrst menn eru á annað borð byrjaðir að gefa? Í því samhengi er best af öllu að sú hækkun kemur til viðbótar sambærilegum álögum frá ESB. Gjöf sem heldur áfram að gefa. Allir vita að kostnaðarhækkanir leiðast í ríkum mæli út í verðlagningu. Hækkandi verðlagning hækkar
verðlag, m.a. verðlag á mat og öðrum nauðsynjum. En sanngirni er dyggð er það ekki?

Hangið kjöt
Þegar fjármála- og efnahagsráðherra kynnti jólagjöfina fyrir Alþingi gaf hann til kynna að hún gæti lækkað húsnæðisreikninga allra. Þunnu
hljóði muldraði hann hins vegar að hann vissi ekki alveg hvernig Hagstofan mundi bregðast við. Nú eru viðbrögðin komin í ljós því Hagstofan skaut öndina og nú hangir
hún til meyrnunar. Andfætlingar raunhagkerfisins á fjármálamarkaði andvörpuðu. Alþingi ætlar að ljúka afgreiðslu fjárlagafrumvarpsins og fylgihnatta
um miðjan nóvember. Samkvæmt orðum sem hafa fallið í viðtölum verður unnið eftir þeirri meginreglu að afgreiða málin eins og þau eru lögð fram.

Koma jólin?
Þingmenn geta varla beðið eftir að losna við þingstörfin, komast á kosningaferðalag og halda svo jólin. Þeir mega þó ekki gleyma því að
þeirra hlutverki er ekki lokið því það er m.a. þeirra að passa upp á að jólapakkarnir innihaldi raunverulegar gjafir og en ekki kartöflur og
ýsubein. Undir þessum kringumstæðum vil ég segja við þingmenn: Við vitum að þið eruð í spreng en þetta er
ekki rétti tíminn til að segja „þetta reddast“.


Benedikt S. Benediktsson
Höfundur er framkvæmdastjóri SVÞ
– Samtaka verslunar og þjónustu

BM Vallá og Kapp hrepptu Umhverfisverðlaun atvinnulífsins í ár

Umhverfisverðlaun atvinnulífsins voru tilkynnt við hátíðlega athöfn á Umhverfisdegi atvinnulífsins í dag. Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri SA, afhenti verðlaunin ásamt verðlaunahöfum fyrra árs. Umhverfisfyrirtæki ársins er BM Vallá en framtak ársins á sviði umhverfismála á KAPP.

Það er ljóst á þeim fjölda tilnefninga sem bárust inn til Umhverfisverðlauna atvinnulífsins að umhverfis- og loftslagsmál eru órjúfanlegur hluti af daglegum rekstri og ákvarðanatöku fyrirtækja á Íslandi. Fjölmargar umsóknir bárust og fjöldi fyrirtækja vinna ötult starf á þessu sviði.

Í dómnefnd Umhverfisverðlauna atvinnulífsins sitja formaður dómnefndar, Reynir Smári Atlason, CreditInfo, Elma Sif Einarsdóttir, Stiku  umhverfislausnum og Jóna Bjarnadóttir, Landsvirkjun.

BM Vallá
Umhverfisfyrirtæki ársins 2024

BM Vallá framleiðir hágæða byggingarvörur fyrir mannvirkjagerð, má þar helst nefna steinsteypu, forsteyptar húseiningar, hellur og múrvörur.

Umhverfismál og sjálfbær nýting auðlinda er rauður þráður í starfsemi BM Vallá sem hefur sett sér það markmið að verða umhverfisvænasti steypuframleiðandi landsins með því að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum, efla hringrásarhugsun og stuðla að aukinni sjálfbærni. Markvisst er stefnt að því að starfsemi og steypuframleiðsla BM Vallár verði kolefnishlutlaus árið 2030.

Fyrirtækið er með skýra umhverfisstefnu og forgangsröðun sem miðar meðal annars að því að taka ábyrgð á losun steypunnar í gegnum alla virðiskeðjuna. Markviss fræðsla og innri hvatar (umhverfisátak/keppni) hafa stuðlað að mælanlegum árangri í daglegum rekstri.

Markmið um kolefnishlutleysi í starfseminni kallar á markvissa vöruþróun og nýsköpun ásamt breytingum á verkferlum og metnaðarfullum mótvægisaðgerðum svo hægt verði að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í öllu sem viðkemur framleiðslu og rekstri fyrirtækisins.

Það er forgangsverkefni hjá BM Vallá að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum steypu með því að nota vistvænna sement ásamt því að draga úr notkun þess. Sementshlutinn er um 85-90% af heildarlosun gróðurhúsalofttegunda í starfsemi fyrirtækisins og er það því forgangsmál að bjóða upp á nýjar tegundir steypu sem eru með vistvænna sementi.

Mikil gróska og nýsköpun hefur átt sér stað hjá fyrirtækinu með samstarfsaðilum um vistvænni lausnir í mannvirkjagerð. Fyrirtækið vinnur í samstarfi við birgja og þjónustuaðila við að ná settu marki og hefur það nú þegar skilað vistvænna sementi inn á markað hér á landi. Nú þegar getur fyrirtækið boðið viðskiptavinum sínum upp á Berglindi, vistvænni steypu, sem er með allt að 45% minna kolefnisspor en hefðbundin steypa samanborið við steypu samkvæmt kröfu byggingarreglugerðar.

Nýjar steypuuppskriftir með umhverfisvænna sementi skipta lykilmáli í vöruframboði fyrirtækisins. Þannig styður vegferð BM Vallár við framkvæmdaraðila á byggingarmarkaði sem vilja umhverfisvænni lausnir.

Slagorð fyrirtækisins „Byggjum vistvænni framtíð“ endurspeglar stefnu fyrirtækisins í umhverfismálum, þar sem lögð er áhersla á sjálfbærni og þróun endingargóðra vara fyrir komandi kynslóðir.

Stefna BM Vallá í vistvænni hönnun mannvirkja endurspeglar ekki aðeins umhverfislega ábyrgð heldur einnig fjárhagslegan ávinning, bætt lífsgæði og náttúruvernd. Með skapandi hugsun og sjálfbærum lausnum hefur fyrirtækið sýnt fram á hæfni sína til að stuðla að sjálfbærari framtíð.

Þorsteinn Víglundsson, forstjóri BM Vallár, þakkaði verðlaunin og þá viðurkenningu sem í þeim fælist „Við erum þakklát fyrir þennan heiður sem er til marks um að áherslur okkar í umhverfismálum séu eftirtektarverðar og hafi skilað raunverulegum árangri. Þennan árangur eigum við öflugu starfsfólki, viðskiptavinum og samstarfsaðilum að þakka sem deila þeirri sýn að breyta þurfi nálgun við hönnun og byggingu mannvirkja. Samnefnari þeirra áherslna er metnaður, drifkraftur og þor til að leiða fram breytingar þar sem umhverfisvænni lausnir gegna lykilhlutverki. Að vera valin umhverfisfyrirtæki ársins er mikil hvatning til að gera enn betur í þróun lausna sem hafa jákvæðari umhverfisáhrif. Við hlökkum til að halda áfram til að leggja okkar af mörkum til að byggja vistvænni framtíð,“ sagði Þorsteinn.

 

KAPP
Umhverfisframtak ársins 2024

KAPP er tæknifyrirtæki sem sérhæfir sig í kæliþjónustu, vélasmíði, innflutningi og þjónustu á tækjabúnaði fyrir sjávarútveg, fiskeldi og annan iðnað. Í 25 ár hefur fyrirtækið framleitt OptimICE® krapavélar fyrir sjávarútveg sem notaðar eru í bátum og skipum af nánast öllum stærðum við fjölbreyttar veiðar víða um heim.

OptimICE® krapakerfið kemur í staðinn fyrir hefðbundinn flöguís. Krapaísinn er framleiddur úr sjóvatni eða saltvatni bæði um borð og í landvinnslu. Fljótandi krapaísinn umlykur fiskinn og kælir hann fljótt niður fyrir frostmark og heldur hitastiginu í kringum -0.5°C. Þannig helst hitastigið meðan á veiðiferðinni stendur, við löndun, við flutning til framleiðslu og til neytanda, án þess að frjósa. Hraðkælingin, sem er um 10x hraðari en kæling með flöguís, tryggir ferskleika og hámarksgæði afurðarinnar. Hillutíminn eykst um 5-7 daga. Hraðkælingin minnkar myndum baktería umtalsvert auk þess sem OptimICE® ískrapinn er framleiddur í lokuðu kerfi án snertingar við utanaðkomandi óhreinindi.

Nú er komin ný krapavél, sú fyrsta sinnar tegundar í heiminum, sem nýtir koldíoxíð sem kælimiðli í stað F-gasa með mjög háan hlýnunarmátt. Vélin er hönnuð og framleidd af KAPP ehf í höfuðstöðvum þess við Turnahvarf í Kópavogi.

Krapavélin er nýjung sem stuðlar að samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda með því að skipta út kælimiðlum með mjög mikinn hlýnunarmátt. Auk sjávarútvegs eru möguleikar á að nýta krapavélina til kælingar í annarri matvinnslu eins og í kjúklingavinnslu og stærri bakaríum.

Meðfylgjandi er innslag um KAPP & BM VALLÁ sem sýnt var á Umhverfisdegi atvinnulífsins 2024:

Aðildarfélög SA og ASÍ sameinast í baráttunni gegn vinnumansali

Aðildarfélög SA og ASÍ sameinast í baráttunni gegn vinnumansali

Sameiginleg yfirlýsing ASÍ og SA gegn vinnumannsali.

Í gær, fimmtudaginn 26.september tóku Alþýðusamband Íslands og Samtök atvinnulífsins höndum saman gegn vinnumansali á vel heppnaðari ráðstefnu í Norðurljósasal Hörpu.

Vinnumansal er að mati ASÍ og SA ólíðandi og nauðsynlegt að leita lausna til þess að uppræta slíka háttsemi. Áhyggjur ASÍ og SA lúta ekki síst að stöðu erlendra ríkisborgara á vinnumarkaði enda sýna dæmin bæði hérlendis og erlendis að einstaklingar í viðkvæmri stöðu sem flutt hafa um langan veg í leit að betra lífi eru sérstaklega berskjaldaðir fyrir vinnumansali. Sameiginlegir hagsmunir allra eru að tryggja heilbrigðan vinnumarkað sem tekur vel á móti því fólki sem kemur hingað í atvinnuskyni.

Með vísan í allt framangreint skora ASÍ og SA á stjórnvöld að grípa til almennra aðgerða með sameiginlegri yfirlýsingu sem lesa má á hlekknum hér fyrir neðan.

Yfirlysing-ASI-SA.pdf (vinnan.is)

SVÞ – Samtök verslunar og þjónustu mótmæla órökstuddum ummælum formanns Neytendasamtakanna.

SVÞ – Samtök verslunar og þjónustu mótmæla órökstuddum ummælum formanns Neytendasamtakanna.

SVÞ – Mótmælir ummælum formanns Neytendasamtakanna
Fréttatilkynning 23.ágúst 2024

Í gær lét formaður Neytendasamtakanna efnislega í ljós í viðtali að hann teldi samkeppnisaðila á dagvörumarkaði hafa haft með sér það sem hann kallaði „nokkurs konar þögult samkomulag um að hafa þetta eins og þetta er“.

Framangreind ummæli formannsins verða ekki skilin á annan hátt en að hann telji ráðandi fyrirtæki á dagvörumarkaði hafa átt með sér ígildi samráðs eða samstilltra aðgerða sem fara í bága við bannákvæði 10. gr. samkeppnislaga.

SVÞ mótmæla framangreindum ummælum formanns Neytendasamtakanna. Formaðurinn færði hvorki nokkur rök máli sínu til stuðnings né gerði tilraun til að útskýra mál sitt nánar. Ummælin eru haldlaus. Til að mynda gefa afkomutölur fyrirtækja á dagvörumarkaði hið gagnstæða til kynna.

Í huga SVÞ er alvarlegt að formaður neytendasamtaka skuli hafa látið ummælin falla. Í þeim felst nokkuð harkaleg ásökun sem SVÞ fá ekki séð að eigi við nokkur rök að styðjast.

Aukin samkeppni er af hinu góða. Fyrirsvarsmenn fyrirtækja á dagvörumarkaði hafa í viðtölum fagnað innkomu Prís á markaðinn. SVÞ fagna innkomunni sömuleiðis. Aukin verðsamkeppni kemur neytendum ekki aðeins til góða heldur getur aukin samkeppni hvatt keppinauta á dagvörumarkaði til hagræðingar og nýsköpunar og þannig aukið skilvirkni markaðarins.

Nánari upplýsingar veitir:
Benedikt S. Benediktsson, lögfræðingur SVÞ
Sími: 864 9136

 

Áskoranir vegna fjölgunar greiðslumiðlunarfyrirtækja hjá RSV.

Áskoranir vegna fjölgunar greiðslumiðlunarfyrirtækja hjá RSV.

Samstarf og gagnsæi lykilatriði í þróun viðskiptaveltu RSV

Rekstur greiðslumiðlunarfyrirtækja hefur tekið miklum breytingum að undanförnu, sem hefur haft áhrif á gagnagrunn RSV – Rannsóknaseturs verslunarinnar.

Í frétt frá RSV – segir að mikilvægt sé að tryggja áreiðanleg gögn fyrir verslunar- og þjónustugeirann, og því er RSV í samstarfi við stjórnvöld til að bæta aðgengi að gögnum. Fjölgun nýrra fyrirtækja og hæg gagnaskil frá stærri aðilum hafa skapað áskoranir fyrir RSV sem þakkar þolinmæðina á meðan unnið er að lausnum og munum upplýsa áskrifendur um framvindu mála fljótlega.