SVÞ telja reglugerðardrög ósanngjörn í garð kvenna

SVÞ telja reglugerðardrög ósanngjörn í garð kvenna

Í drögum að reglugerð kemur fram að merkja eigi umbúðir tiltekinna vara þannig að það sé skýrt að þær innihaldi plast. Þessi krafa kemur frá ESB. Efnislega gerir ESB þá kröfu að merkingarnar séu á íslensku og ekki nægi að þær séu á ensku eða öðru norðurlandamáli.

SVÞ – Samtök verslunar og þjónustu telja að vegna kröfunnar muni innflutningverð varanna hækka og hætt sé við að  vöruúrval kunni að dragast saman. Ef það raungerist er hætt við að staðan geri hag íslenskra neytenda lakari.

SVÞ skiluðu umsögn um drögin, ásamt Samtökum atvinnulífsins þar sem athygli er vakin á hversu harkalega þessi krafa kemur niður á Íslandi, samanborið við fjölmennari málsvæði og stærri hagkerfi.  Auðsætt er að ekki er eins hætt við að innflytjendur og neytendur í stærri ríkjum verði fyrir neikvæðum áhrifum.

SVÞ vilja vekja sérstaka athygli á að krafa ESB mun, umfram aðra, bitna á konum sem nota tíðavörur, þ.e. dömubindi og túrtappa. Það telja SVÞ ómálefnalegt og ekki í takt við tímann.

SVÞ telja jafnframt að framkvæmdastjórn ESB hafi gert mistök við lagasetningu, framkvæmdastjórnin hafi farið út fyrir valdsvið sitt eða lagt rangt mat til grundvallar þegar ákveðið var að ekki nægði að merkja vörurnar á ensku eða öðru norðurlandamáli.

Þó efni reglugerðardraganna beri ekki mikið yfir sér má halda því fram að meðferð stjórnvalda á þessu máli geti orðið prófsteinn á hvort og hvaða tækifæri Ísland hefur til að hafa áhrif á þær reglur sem gilda á innri markaði EES og þá ekki síst hvaða vægi ESB gefur séríslenskum hagsmunum. Undanfarin misseri hafa á almennum vettvangi átt sér stað umræður um mögulega ESB-aðild Íslands. Vera kann að þetta mál geti orðið innlegg í slíka umræðu. Þegar efni og eðli málsins er haft í huga telja SVÞ að íslensk stjórnvöld eigi að láta reyna á lögmæti tungumálakröfunnar og þannig gæta íslenskra hagsmuna, t.a.m. fyrir EFTA-dómstólnum.

Haustréttir SVÞ 2025 – Leiðtogafundur verslunar og þjónustu

Haustréttir SVÞ 2025 – Leiðtogafundur verslunar og þjónustu

Við smölum saman æðstu stjórnendum í SVÞ – Samtökum verslunar og þjónustu – í fyrsta sinn þann 7. október nk.

Haustréttir SVÞ verða haldnir í fyrsta sinn þriðjudaginn 7. október 2025 í fundarsalnum Fantasíu á Vinnustofu Kjarvals kl. 15:00–17:30. 

Rétt eins gerist í haustréttum í víða um land þar sem fólk kemur saman eftir sumarið, verða Haustréttir SVÞ árlegur vettvangur þar sem æðstu stjórnendur í verslun og þjónustu stilla saman strengi, ræða áskoranir og horfa til framtíðar. Þar verða kynnt gögn og greiningar, við fáum að heyra sterkar raddir úr atvinnulífinu og stjórnmálunum og fáum að njóta alþjóðlegrar reynslu sem kann að varpa ljósi á stöðu Íslands í breyttum heimi. 

Markmið Haustrétta er skýrt: Að kalla leiðtoga í greininni saman, rýna í stöðuna, breyta samtali í stefnu – og stefnu í aðgerðir. 

👉 Þetta er viðburður sem enginn æðsti stjórnandi innan SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu, má missa af.
Taktu daginn frá – og fylgstu með þegar skráning opnar svo þú getir tryggt þér sæti. 

Opnum fyrir skráningu 1. september 2025.

Aukum öryggi starfsfólks í verslun – SVÞ tryggir rödd atvinnurekenda

Aukum öryggi starfsfólks í verslun – SVÞ tryggir rödd atvinnurekenda

SVÞ – Samtök verslunar og þjónustu, VR og Landssamband íslenskra verzlunarmanna (LÍV) hafa tekið höndum saman vegna vaxandi áhyggna af ofbeldi og áreitni gagnvart starfsfólki verslana.  Í dag, 16. júní var undirritað sameiginlegt minnisblað sem markar upphaf samstarfs um þetta mikilvæga samfélagsmál.

Settur verður á laggirnar vinnuhópur skipaður fulltrúum atvinnurekenda og launafólks sem er meðal annars ætlað að draga fram áskoranir og hættur m.t.t. öryggis starfsfólks verslana. SVÞ munu tryggja aðkomu atvinnurekenda að hópnum en m.a. er ætlunin að á vettvangi hópsins verði deilt reynslu, þekkingu og viðbrögðum verslunarfyrirtækja á ólíkum sviðum.

Hlutverk hópsins er að taka saman og greina viðfangsefnið og kortleggja úrræði sem fyrirtæki hafa þegar gripið til eða gætu gripið til. Standa vonir til þess að úr verði sameiginlegar hugmyndir að viðbrögðum og góðum starfsvenjum sem auka öryggi allra í verslunum.

Ætlunin er að vinnuhópurinn ljúki störfum fyrir lok október 2025 og niðurstöður hans verða nýttar til að þróa frekara samstarf og samtal við stjórnvöld.

Nýleg könnun VR sýnir að 54% félagsmanna hafa orðið fyrir áreitni eða ofbeldi í starfi á starfsferlinum. SVÞ tekur þessar niðurstöður alvarlega og fagnar því að atvinnurekendur og launþegar sameinist um mikilvægt verkefni sem ætti styðja bæði öryggi og heilbrigt starfsumhverfi.  Sjá minnisblað HÉR! 

SVÞ, VR & LÍV undirrita samstarfssamning 16.júní 2025

Frá undirritun samstarfssamnings milli SVÞ, VR & LÍV 16. júní 2025
Halla Gunnarsdóttir, formaður VR,  Eiður Stefánsson, formaður LÍV, og Benedikt S. Benediktsson, framkvæmdastjóri SVÞ

 

 

Innflutningur á óöruggum vörum, SVÞ kallar eftir aðgerðum

Innflutningur á óöruggum vörum, SVÞ kallar eftir aðgerðum

SVÞ kallar eftir aðgerðum til að tryggja öryggi neytenda og jafnan grundvöll samkeppni

Í frétt á Vísir , frá 11. maí sl., er sagt frá áhyggjum íslenskra stjórnvalda kaupa neytenda á vörum frá kínversku netrisunum Temu og Shein. Af þessu tilefni vilja SVÞ – Samtök verslunar og þjónustu leggja áherslu á mikilvægi neytendaverndar og jafnan grundvöll samkeppni.

Úrtaksrannsóknir hafa gefið til kynna að allt að 70% af vörum sem seldar eru á þessum síðum geti innihaldið skaðleg efni sem eru bönnuð á EES-svæðinu.

„Við höfum áhyggjur af því að íslenskir neytendur setji sig í hættu“ segir Benedikt S. Benediktsson, framkvæmdastjóri SVÞ og bætir við „Þetta snýst hins vegar ekki aðeins um neytendavernd heldur einnig um stöðu íslenskrar verslunar sem þarf ávallt að ganga úr skugga um að þær vörur sem hér eru seldar uppfylli settar kröfur og sætir innlendu eftirliti.“

SVÞ hefur á síðastliðnu ári átt samstarf við norræn systursamtök á vettvangi EuroCommerce þar sem þrýst hefur verið á að sömu kröfur séu sannarlega gerðar til allra sem selja evrópskum neytendum vörur. Það er bæði versluninni og neytendum til hagsbóta að traust ríki, neytendur njóti þess öryggis sem ætlunin er að tryggja og að jöfn samkeppni ríki á markaði.

SVÞ fylgist náið með þróun mála. „Neytendur velja við hverja þeir eiga viðskipti. Það eru þeirra hagsmunir að eiga viðskipti við söluaðila sem fylgja settum reglum.“ bætir Benedikt við. “Ef skaði hlýst af notkun vöru getur neytandinn verið ansi berskjaldaður í viðskiptum við söluaðila í fjarlægum heimshluta þar sem jafnvel gilda allt aðrar reglur um ábyrgð þeirra á tjóni en hér tíðkast”.

Ný stjórn SVÞ 2025 – 2026

Ný stjórn SVÞ 2025 – 2026

Ný stjórn SVÞ kjörin á aðalfundi samtakanna 2025

Aðalfundur SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu var haldinn í morgun, fimmtudaginn 13. mars, á Parliament Hótel í Reykjavík .

Á fundinum var kosið um þrjú sæti meðstjórnenda auk formanns. Alls bárust átta framboð til meðstjórnenda. Eitt framboð barst til formanns og var formaður samtakanna sjálfkjörinn.

Réttkjörin í stjórn SVÞ til tveggja starfsára eru eftirtalin: Formaður, Auður Daníelsdóttir, Orkunni. Meðstjórnendur, Dagbjört Erla Einarsdóttir, Heimum, Jónas Kári Eiríksson, Öskju bifreiðaumboði, Kristín Lára Helgadóttir, Veritas.

Stjórn er þannig skipuð starfsárið 2025-2026:

Auður Daníelsdóttir, forstjóri Orkunnar, formaður SVÞ
Dagbjört Erla Einarsdóttir, meðstjórnandi, framkvæmdastjóri innri rekstrar og yfirlögfræðingur Heima
Edda Rut Björnsdóttir, meðstjórnandi, framkvæmdastjóri innanlandssviðs Eimskipafélags Íslands
Guðrún Aðalsteinsdóttir, meðstjórnandi, framkvæmdastjóri Krónunnar
Jónas Kári Eiríksson, meðstjórnandi, framkvæmdastjóri vörustýringar Öskju bifreiðaumboðs
Kristín Lára Helgadóttir, meðstjórnandi, yfirlögfræðingur Veritas
Pálmar Óli Magnússon, meðstjórnandi, framkvæmdastjóri Daga.

Nánari upplýsingar veitir:

Benedikt S. Benediktsson, framkvæmdastjóri SVÞ benedikt@svth.is

___________

SMELLIÐ HÉR TIL AÐ NÁLGAST ÁRSSKÝRSLU STJÓRNAR SVÞ 2024-2025

SMELLIÐ HÉR FYRIR ÚRSLIT STJÓRNARKOSNINGA 2025

SMELLIÐ HÉR FYRIR FULLTRÚARÁÐ SVÞ Í SA 2025

Ræktum vitið – Nýtt átak sem eflir hæfni í verslun og þjónustu

Ræktum vitið – Nýtt átak sem eflir hæfni í verslun og þjónustu

Mikilvæg skref í starfsmenntamálum

Framtíð verslunar og þjónustu byggir á hæfni starfsfólksins sem stendur að baki henni. Með það í huga hafa SVÞ – Samtök verslunar og þjónustu, VR og Landssamband íslenskra verzlunarmanna (LÍV) tekið höndum saman í metnaðarfullu átaki sem miðar að því að styrkja stöðu starfsfólks og fyrirtækja í greininni til ársins 2030.

Í vikunni var vefsíðan Ræktum vitið formlega opnuð – en hún er mikilvægur þáttur í því að gera markvissa hæfniþróun aðgengilega fyrir íslensk fyrirtæki og starfsfólk þeirra. Verkefnið byggir á samningi sem SVÞ, VR og LÍV undirrituðu árið 2023 og snýr að aukinni sí- og endurmenntun í greininni.

Formleg opnun vefsíðunnar ‘Ræktum vitið’

Sérstakur viðburður um stöðu og mikilvægi sí- og endurmenntunar í verslun og þjónustu var haldin mánudaginn 17. febrúar sl, þar sem fjallað var um leiðir til að efla hæfni starfsfólks í takt við breyttar kröfur atvinnulífsins. Stefán Sveinbjörnsson, framkvæmdastjóri VR, og Benedikt S. Benediktsson, framkvæmdastjóri SVÞ, lögðu áherslu á mikilvægi þess að fyrirtæki taki virkan þátt í menntun starfsfólks og hvernig slík nálgun getur aukið samkeppnishæfni íslenskrar verslunar.

Menntastefna skiptir sköpum

Á viðburðinum kynnti Victor Karl Magnússon, sérfræðingur hjá VR, niðurstöður könnunar sem sýna að menntastefna fyrirtækja hefur afgerandi áhrif á það hvort starfsfólk sækir sér sí- og endurmenntun. Þar kom fram að 70% starfsfólks í fyrirtækjum með menntastefnu hefur nýtt sér slíkt nám, á meðan hlutfallið er mun lægra hjá fyrirtækjum án skýrrar stefnu.

Auk þess kynnti Dr. Edda Blumenstein, fagstjóri við Háskólann á Bifröst, nýtt nám í verslun og þjónustu sem hefst haustið 2025. Námið leggur áherslu á hagnýta þekkingu og leiðtogafærni og markar nýtt skref í uppbyggingu menntunar fyrir starfsfólk í greininni.

Leiðir til árangurs – Nýttu ChatGPT til að hanna Menntastefnu fyrirtækisins.

Rúna Magnúsdóttir, markaðs- og kynningarstjóri SVÞ, fór yfir sérstaka ChatGPT fyrirmæla handbók sem leið fyrir fyrirtæki til að móta skýra menntastefnu og nýta sér nýjustu tækni við hæfniþróun starfsfólks. Þar kom m.a. fram hvernig gervigreindartól á borð við ChatGPT geta einfaldað stefnumótun í sí- og endurmenntun og gert fyrirtækjum auðveldara að innleiða markvissa hæfniþróun.

Metnaðarfull markmið til 2030

Samstarf VR, LÍV og SVÞ byggir á þremur lykilmarkmiðum sem stefnt er að því að ná fyrir árið 2030:

80% starfsfólks í verslun og þjónustu taki þátt í sí- og endurmenntun með það að markmiði að efla hæfni sína.

80% starfsfólks með íslensku sem annað tungumál nái B1 hæfni í íslensku samkvæmt Evrópska tungumálarammanum, sem eykur möguleika þeirra á vinnumarkaði og styrkir þjónustu í greininni.

Þróuð verði aðferðafræði fyrir vottun hæfni sem gerir starfsfólki og fyrirtækjum kleift að sýna fram á viðurkennda færni á sviði verslunar og þjónustu.

Þessi markmið eru ekki aðeins mikilvæg fyrir starfsfólk í greininni heldur fyrir alla íslenska verslun og þjónustu – því betur menntað starfsfólk þýðir sterkari fyrirtæki og betri þjónusta til neytenda.

SVÞ hvetur öll fyrirtæki í verslun og þjónustu til að kynna sér Ræktum vitið og taka þátt í því að móta framtíð greinarinnar.

Stefán Sveinbjörnsson, framkvæmdastjóri VR og Benedikt S. Benediktsson, framkvæmdastjóri SVÞ settu vefinn Ræktum vitið formlega í gang

Jón Ólafur Halldórsson, formaður SVÞ var fundarstjóri

Victor Karl Magnússon, sérfræðingur hjá VR fór yfir niðurstöður könnunar um stöðu sí og endurmenntunar hjá stjórnendum og starfsfólki í verslunar og þjónustugreinum.

Dr. Edda Blumenstein, fagstjóri hjá Háskólanum Bifröst, kynnti nýtt nám í verslun og þjónustu sem skólinn býður upp á frá hausti 2025.

 

Rúna Magnúsdóttir, markaðs og kynningastjóri SVÞ

Rúna Magnúsdóttir, markaðs og kynningastjóri SVÞ sagði frá ChatGPT Fyrirmæla Handbókinni til að hanna skýra Menntastefnu fyrirtækisins.

___________