SVÞ setja sér umhverfisstefnu

SVÞ setja sér umhverfisstefnu

Stjórn SVÞ samþykkti á fundi sínum þann 8. október sl. umhverfisstefnu fyrir samtökin. Umhverfisstefnan tekur bæði til innra starfs samtakanna en markmið hennar er ekki síður að vera aðildarfyrirtækjum og atvinnulífinu öllu góð fyrirmynd í umhverfismálum og sjálfbærni, og að leiðbeina, fræða, hvetja og styðja við aðildarfyrirtæki í málaflokknum, enda sé ekki síst skýr ávinningur af því fyrir aðildarfyrirtæki í formi betri afkomu, aukinnar starfsánægju starfsfólks og bættrar ímyndar.

„Umhverfismál og sjálfbærni varða okkur öll og atvinnulífið hefur sett þau mál kyrfilega á dagskrá. Við viljum því ganga fram með góðu fordæmi auk þess að styðja okkar aðildarfyrirtæki í því að skapa betra umhverfi fyrir okkur öll,“ segir Jón Ólafur Halldórsson, formaður SVÞ

Umhverfisstefnuna má lesa í heild sinni hér: https://svth.is/umhverfisstefna-svth/

Tollar af blómum geta numið nær þreföldu innkaupsverði

Tollar af blómum geta numið nær þreföldu innkaupsverði

SVÞ sendi frá sér eftirfarandi fréttatilkynningu rétt í þessu:

SVÞ – Samtök verslunar og þjónustu, f.h. Hagsmunahóps blómaverslana, hafa óskað eftir því við sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að tollar af innfluttum blómum og plöntum verði teknir til endurskoðunar.

Möguleikar íslenskra blómaverslana til innkaupa á innlendum blómum og plöntum hafa farið þverrandi enda hefur samþjöppun í innlendri framleiðslu og heildsölu í mörgu tilliti leitt til fákeppni. Viðskiptaáhugi heildverslana og innlendra framleiðenda virðist vera takmarkaður og vegna takmarkaðs framboðs eru dæmi þess að heildverslanir hafi úthlutað blómaverslunum innkaupakvóta þegar að vinsælum blómum kemur.

Þrátt fyrir að tollarnir hafi í grundvallaratriðum ekki tekið breytingum í 25 ár hefur innflutningur á blómum og plöntum aukist, m.a. vegna mikilla breytinga á eftirspurn neytenda, innlendu framboði og fjölda innlendra framleiðenda. Tollarnir eru afar háir og sem dæmi má nefna getur viðskiptaverð tíu stykkja búnts af rauðum rósum, sem algengt er sé verðlagt í heildsölu erlendis á 500–650 kr., numið 1.460–1.800 kr. eingöngu vegna tolla en þá á eftir að bæta við flutningskostnaði og öðru því sem innflutningi tengist.

Í erindi SVÞ er m.a. vísað til greinargerðar samtakanna þar sem fram kemur að ýmis blóm og plöntur beri í mörgum tilvikum afskaplega háa tolla þrátt fyrir að framleiðsla á þeim sé ekki til staðar innanlands eða afar takmörkuð. Svo rík samkeppnisvernd í þágu innlendra framleiðenda takmarkar ekki einvörðungu verulega getu blómaverslana til þess að bregðast við óskum neytenda heldur kemur hún harkalega niður á rekstri verslananna en þær eru margar smáar að sniðum og í sumum tilvikum fjölskyldufyrirtæki.

Óljóst með greiðslur sveitarfélaga til sjálfstætt starfandi leikskóla á höfuðborgarsvæðinu

Óljóst með greiðslur sveitarfélaga til sjálfstætt starfandi leikskóla á höfuðborgarsvæðinu

Eftirfarandi fréttatilkynning var send út á alla helstu miðla þann 29. apríl:

Samtök sjálfstætt starfandi skóla hvetja sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu til þess að standa með sjálfstætt starfandi leikskólum og foreldrum

Sjálfstætt starfandi leikskólar á höfuðborgarsvæðinu munu fresta því tímabundið að senda greiðsluseðla til foreldra fyrir leikskólagjöldum.   

Í fréttatilkynningu frá Samtökum sveitafélaga á höfuðborgarsvæðinu (SSH) þann 24. mars s.l. er lagt til að gjöld fyrir þjónustu verði leiðrétt í samræmi við hlutfall skerðingar vistunartíma í samkomubanni síðustu vikna, þ.e.  þjónustugjöld leikskóla, grunnskóla og frístundaheimila.  

Ekki liggur þó fyrir hvort né hvernig sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu munu mæta sjálfstætt starfandi leikskólum. Því verða gjöld af foreldrum ekki innheimt fyrr en það liggur fyrir. 

Samtök sjálfstæðra skóla harma þá óvissu sem sveitarfélögin leggja á rekstraraðila sjálfstætt starfandi leikskóla með þessu.  

Það er ljóst að ef framlag til leikskóla skerðist getur það haft gríðarlegar afleiðingar fyrir rekstur skólanna. Samningar við sveitarfélögin eru skýrir en til að uppfylla lögbundið starf þá er samið um heildargreiðslu með hverju barni.  

Öll sveitarfélög utan höfuðborgarsvæðisins ásamt Hafnarfirði hafa mætt sjálfstætt starfandi leikskólum vegna skerts hlutar foreldra í leikskólagjöldum enda er rekstrarkostnaður skólanna óbreyttur.   

Samtök sjálfstætt starfandi skóla hvetja sveitarfélögin til þess að halda áfram því mikilvæga og góða samstarfi sem verið hefur um fjölbreytt leikskólastarf og jafnræði foreldra óháð rekstrarformi leikskólanna. 

 

Uppfært í lok maí: Sveitarfélögin hafa samþykkt að mæta tekjufalli leikskóla vegna skertra foreldragjalda.

SVÞ ráðstefna um stafræna tækni og nýtt hugarfar verður haldin á stafrænan hátt

SVÞ ráðstefna um stafræna tækni og nýtt hugarfar verður haldin á stafrænan hátt

Síðustu ár hefur SVÞ haldið opna ráðstefnu í tilefni af aðalfundi samtakanna sem hefur verið sótt um af 450 gestum, auk þess sem oft hefur bæst í áhorfandafjöldann í gegnum streymi og birtingu á upptökum. Fyrirhugað var að halda slíka ráðstefnu næstkomandi fimmtudag, 12. mars á Hilton Nordica og hafði skráning gengið mjög vel þar til í síðustu viku, og stefndi í aðsóknarmet. 

Eins og alþjóð veit hefur kórónaveiran haft gríðarleg áhrif um allan heim og ein birtingarmynd þess er að þó ekki sé búið að setja á samkomubann hérlendis hafa fjölmargir aðilar aflýst samkomum og viðburðum síðustu daga. SVÞ hefur einnig tekið þá ákvörðun að sýna ábyrgð í verki en þó ekki með því að aflýsa ráðstefnunni, heldur breyta fyrirkomulagi hennar. Það er við hæfi að ráðstefna um stafræna tækni og nýtt hugarfar sé jú haldin á stafrænan hátt – í gegnum netið. Hvernig er betra að sýna í verki hvernig stafræn tækni getur gert margt gott fyrir atvinnulífið og samfélagið okkar allt en með því að leyfa henni að gera okkur kleift að halda okkar striki og fræða íslenskt atvinnulíf og stuðla að frekari framþróun þess – lífið heldur jú áfram. 

Aðalræðumaður dagsins verður umbreytinga- og framtíðarfræðingurinn Nick Jankel. Nick hefur verið ráðgjafi m.a. hjá Hvíta húsinu og No. 10 Downing Street, auk þess að hafa unnið með fjölda stórfyrirtækja að menningar- og breytingastjórnun og markaðsmálum. Hann hefur kennt við Yale, Oxford og London Business School, haldið fyrirlestra víðsvegar og verið fjallað um hann hjá miðlum á borð við The Times, The Financial Times, The Sunday Times og The Guardian. 

Við fáum einnig innsýn í reynslu Kringlunnar, Já og Póstsins af þeim áskorunum sem felast í starfrænni umbreytingu og hvernig þau skapa fyrirtæki til framtíðar. 

Jón Ólafur Halldórsson, formaður SVÞ og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra ferðamála, iðnaðar og nýsköpunar mun opna ráðstefnuna. Andri Heiðar Kristinsson, nýr Stafrænn leiðtogi ríkisstjórnarinnar mun stýra spurningum til Nick og annarra ræðumanna. 

Ráðstefnan fer fram 12. mars kl. 14:00-17:00* í tölvum, spjaldtölvum eða snjallsímum þátttakenda en skráning fer fram hér á vef SVÞ: https://svth.is/radstefna-2020/ 

*vinsamlegast athugið  verið er  aðlaga dagskrána  nýju fyrirkomulagi og líklegt er  hún muni styttast. 

Fréttatilkynning: Samkeppnishömlur við hugbúnaðarkaup í heilbrigðisþjónustu

Fréttatilkynning: Samkeppnishömlur við hugbúnaðarkaup í heilbrigðisþjónustu

Samkeppniseftirlitið leggur mat á hvort tilefni sé til rannsóknar á athöfnum einkaaðila og opinberra á markaði fyrir rafrænar sjúkraskrár og tengdar lausnir.

Hinn 12. desember sl. sendi Samkeppniseftirlitið einu einkafyrirtæki og nokkrum opinberum aðilum bréf þar sem óskað var eftir upplýsingum, viðbrögðum og athugasemdum svo stofnunin gæti tekið ákvörðun um hvort ástæða sé til rannsóknar á markaði fyrir rafrænar sjúkraskrár og tengdar lausnir.

Ástæðan er erindi SVÞ til Samkeppniseftirlitsins f.h. aðildarfyrirtækis samtakanna, Skræðu ehf., þar sem vakin var athygli á hegðun Origo á markaðnum og ákvarðanatöku á vettvangi hins opinbera.

Í júlí 2011 taldi Samkeppniseftirlitið sterkar vísbendingar um að Origo væri ráðandi á markaðnum. Í því ljósi hvatti stofnunin tiltekna opinbera aðila í heilbrigðisþjónustu til að huga sérstaklega að þeirri stöðu við innkaup á þjónustu.

SVÞ telur tilefni til að vekja sérstaka athygli á að af svari heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá 10. þingmanni Suðurkjördæmis (þskj. nr. 1615 og 1616 á 149. löggjafarþingi) verður ráðið að verulegu opinberu fé hafi verið ráðstafað til framþróunar og viðhalds á hugbúnaðarkerfunum sem eru í eigu markaðsráðandi aðilans, Origo. Í bréfum Samkeppniseftirlitsins frá 12. desember sl. kemur jafnframt fram að sterkar líkur séu á að hvatning Landspítala til heilbrigðisfyrirtækja þess efnis að taka upp sjúkraskrárkerfið Sögu muni raska samkeppni á markaðnum.

SVÞ, Samtök heilbrigðisfyrirtækja, sem starfa innan vébanda SVÞ, og fleiri samtök í heilbrigðisþjónustu hafa lýst verulegum áhyggjum af innkaupum hins opinbera á heilbrigðisþjónustu eins og fram kom í haust. SVÞ munu eftir sem áður standa við bakið á aðildarfyrirtækjum samtakanna í samskiptum við hið opinbera.

Sérhagsmunir landbúnaðarins – stuðningur úr óvæntri átt!

Sérhagsmunir landbúnaðarins – stuðningur úr óvæntri átt!

Eftirfarandi fréttatilkynning var send á fjölmiðla 9. desember 2019:

Um miðjan nóvember s.l. lagði sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra fram lagafrumvarp á Alþingi sem felur í sér róttækar breytingar á fyrirkomulagi úthlutunar tollkvóta fyrir innfluttar landbúnaðarvörur. Með frumvarpinu vill ráðherra m.a. færa neytendum ábata í formi lægra smásöluverðs tiltekinna matvara.  

Sterkar líkur eru á að þær breytingar sem ráðherra hefur mótað og endurspeglast í frumvarpinu muni lækka verð á innfluttum landbúnaðarafurðum, neytendum til hagsbóta.   

Atvinnuveganefnd Alþingis hefur fjallað um frumvarpið að undanförnu. Frumvarpið virðist vandað og m.a. fengu allir helstu hagsmunaðilar að koma sínum sjónarmiðum að á undirbúningsstigum þess. Ekkert benti því til annars en að málið hlyti fremur hefðbundna afgreiðslu. Í síðustu viku, degi fyrir áætlaðan afgreiðsludag atvinnuveganefndar, átti sá fáheyrði atburður sé stað að ellefu félög hagsmunaaðila ályktuðu gegn frumvarpinu. Fyrir utan Bændasamtök Íslands og ýmis aðildarfélög þeirra stóðu að ályktuninni Félag atvinnurekenda, Neytendasamtökin og Samtök iðnaðarins. Til grundvallar ályktuninni voru færð afar óljós rök, þ.e. að finna þyrfti málinu heppilegri farveg, m.a. til að bregðast við mögulegum frávikum sem alltaf kunna að koma upp í búvöruframleiðslu, sem háð er veðurfari og öðrum ytri aðstæðum. 

Það kemur vægast sagt mjög á óvart að samtök á borð við Félag atvinnurekenda, Samtök iðnaðarins og Neytendasamtökin sameinist um að leggja stein í götu lagafrumvarps sem hafði það að raunverulega markmið að færa íslenskum neytendum ábata sem numið getur fleiri hundruðum milljóna króna á ári. 

Samtök verslunar og þjónustu skora á atvinnuveganefnd Alþingis að afgreiða frumvarpið til 2. umræðu á Alþingi, eftir atvikum án breytinga, og tryggja því þannig eðlilegan þinglegan framgang. Því verður ekki trúað að óreyndu að Alþingi láti mótsagnakennd rök þröngs sérhagsmunahóps, sem hefur hlotið stuðning úr óvæntri átt, stöðva framgang lagafrumvarps sem hefur það raunhæfa markmið að færa íslenskum neytendum ábata sem lengi hefur verið kallað eftir.