Fréttatilkynning: Samkeppnishömlur við hugbúnaðarkaup í heilbrigðisþjónustu

Fréttatilkynning: Samkeppnishömlur við hugbúnaðarkaup í heilbrigðisþjónustu

Samkeppniseftirlitið leggur mat á hvort tilefni sé til rannsóknar á athöfnum einkaaðila og opinberra á markaði fyrir rafrænar sjúkraskrár og tengdar lausnir.

Hinn 12. desember sl. sendi Samkeppniseftirlitið einu einkafyrirtæki og nokkrum opinberum aðilum bréf þar sem óskað var eftir upplýsingum, viðbrögðum og athugasemdum svo stofnunin gæti tekið ákvörðun um hvort ástæða sé til rannsóknar á markaði fyrir rafrænar sjúkraskrár og tengdar lausnir.

Ástæðan er erindi SVÞ til Samkeppniseftirlitsins f.h. aðildarfyrirtækis samtakanna, Skræðu ehf., þar sem vakin var athygli á hegðun Origo á markaðnum og ákvarðanatöku á vettvangi hins opinbera.

Í júlí 2011 taldi Samkeppniseftirlitið sterkar vísbendingar um að Origo væri ráðandi á markaðnum. Í því ljósi hvatti stofnunin tiltekna opinbera aðila í heilbrigðisþjónustu til að huga sérstaklega að þeirri stöðu við innkaup á þjónustu.

SVÞ telur tilefni til að vekja sérstaka athygli á að af svari heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá 10. þingmanni Suðurkjördæmis (þskj. nr. 1615 og 1616 á 149. löggjafarþingi) verður ráðið að verulegu opinberu fé hafi verið ráðstafað til framþróunar og viðhalds á hugbúnaðarkerfunum sem eru í eigu markaðsráðandi aðilans, Origo. Í bréfum Samkeppniseftirlitsins frá 12. desember sl. kemur jafnframt fram að sterkar líkur séu á að hvatning Landspítala til heilbrigðisfyrirtækja þess efnis að taka upp sjúkraskrárkerfið Sögu muni raska samkeppni á markaðnum.

SVÞ, Samtök heilbrigðisfyrirtækja, sem starfa innan vébanda SVÞ, og fleiri samtök í heilbrigðisþjónustu hafa lýst verulegum áhyggjum af innkaupum hins opinbera á heilbrigðisþjónustu eins og fram kom í haust. SVÞ munu eftir sem áður standa við bakið á aðildarfyrirtækjum samtakanna í samskiptum við hið opinbera.

Sérhagsmunir landbúnaðarins – stuðningur úr óvæntri átt!

Sérhagsmunir landbúnaðarins – stuðningur úr óvæntri átt!

Eftirfarandi fréttatilkynning var send á fjölmiðla 9. desember 2019:

Um miðjan nóvember s.l. lagði sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra fram lagafrumvarp á Alþingi sem felur í sér róttækar breytingar á fyrirkomulagi úthlutunar tollkvóta fyrir innfluttar landbúnaðarvörur. Með frumvarpinu vill ráðherra m.a. færa neytendum ábata í formi lægra smásöluverðs tiltekinna matvara.  

Sterkar líkur eru á að þær breytingar sem ráðherra hefur mótað og endurspeglast í frumvarpinu muni lækka verð á innfluttum landbúnaðarafurðum, neytendum til hagsbóta.   

Atvinnuveganefnd Alþingis hefur fjallað um frumvarpið að undanförnu. Frumvarpið virðist vandað og m.a. fengu allir helstu hagsmunaðilar að koma sínum sjónarmiðum að á undirbúningsstigum þess. Ekkert benti því til annars en að málið hlyti fremur hefðbundna afgreiðslu. Í síðustu viku, degi fyrir áætlaðan afgreiðsludag atvinnuveganefndar, átti sá fáheyrði atburður sé stað að ellefu félög hagsmunaaðila ályktuðu gegn frumvarpinu. Fyrir utan Bændasamtök Íslands og ýmis aðildarfélög þeirra stóðu að ályktuninni Félag atvinnurekenda, Neytendasamtökin og Samtök iðnaðarins. Til grundvallar ályktuninni voru færð afar óljós rök, þ.e. að finna þyrfti málinu heppilegri farveg, m.a. til að bregðast við mögulegum frávikum sem alltaf kunna að koma upp í búvöruframleiðslu, sem háð er veðurfari og öðrum ytri aðstæðum. 

Það kemur vægast sagt mjög á óvart að samtök á borð við Félag atvinnurekenda, Samtök iðnaðarins og Neytendasamtökin sameinist um að leggja stein í götu lagafrumvarps sem hafði það að raunverulega markmið að færa íslenskum neytendum ábata sem numið getur fleiri hundruðum milljóna króna á ári. 

Samtök verslunar og þjónustu skora á atvinnuveganefnd Alþingis að afgreiða frumvarpið til 2. umræðu á Alþingi, eftir atvikum án breytinga, og tryggja því þannig eðlilegan þinglegan framgang. Því verður ekki trúað að óreyndu að Alþingi láti mótsagnakennd rök þröngs sérhagsmunahóps, sem hefur hlotið stuðning úr óvæntri átt, stöðva framgang lagafrumvarps sem hefur það raunhæfa markmið að færa íslenskum neytendum ábata sem lengi hefur verið kallað eftir. 

Fjölmenni á málþingi um annmarka á ríkiskaupum í heilbrigðisþjónustu

Fjölmenni á málþingi um annmarka á ríkiskaupum í heilbrigðisþjónustu

Fjölmenni var á Hótel Reykjavík Natura sl. þriðjudag þar sem fjallað var um annmarka við kaup ríkisins á heilbrigðisþjónustu. Að málþinginu stóðu stærstu viðsemjendur Sjúkratrygginga Íslands: Samtök heilbrigðisfyrirtækja, Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu, Læknafélag Reykjavíkur, Félag sjúkraþjálfara og Tannlæknafélag Íslands. 

Á málþinginu kynnti Svanbjörn Thoroddsen, stjórnarformaður KPMG niðurstöður greiningar fyrirtækisins á starfsumhverfi þjónustuveitenda í heilbrigðisþjónustu sem benda til mikilla brotalama í innkaupaferlum ríkisins við kaup á þessari þjónustu 

Í skýrslunni kemur m.a. eftirfarandi fram: 

  • vinnubrögð og fyrirkomulag við innkaup eru óskýr,  
  • starfsumhverfi rekstraraðila sem semja við SÍ er ótryggt,  
  • hlutverk aðila í stjórnkerfinu og ábyrgð eru óskýr og  
  • vegna skorts á mannafla sé takmörkuð fagþekking er hjá SÍ til að annast greiningar, gerð og eftirlit samninga.  


Vantrausti lý
st á gallað fyrirkomulag

Niðurstöður skýrslunnar voru ennfremur staðfestar í máli frummælenda, forsvarsmanna ofangreindra félaga auk Daggar Pálsdóttur, hæstaréttarlögmanns og lögmanns Læknafélags Íslands. Í grein sem birtist sl. mánudag höfðu fulltrúar félaganna jafnframt lýst yfir vantrausti á núverandi kerfi við kaup á heilbrigðisþjónustu og krafist þess að stjórnvöld gripu inn í áður en varanlegar skemmdir yrðu á mikilvægum lykilþáttum heilbrigðisþjónustu landsmanna. 


V
innubrögð SÍ gagnrýnd

Í máli frummælenda kom ítrekað fram gagnrýni á vinnubrögð Sjúkratrygginga Íslands í viðræðum við aðila um kaup ríkisins á heilbrigðisþjónustu og staðfestu þar með flest af því sem kom fram í skýrslu KPMG. Þau atriði sem einkum hlutu gagnrýni voru þau að samningaferli stofnunarinnar þykir óskýrt, misræmi tí undirbúningi og gerð samninga, lítil formfesta sé við samningsgerð og vantraust ríki í samskiptum auk þess sem misræmi sé milli verðlagningar og kröfulýsingar. Af því sem hér kemur fram má ráða að flest, sem aflaga getur farið í samskiptum Sjúkratrygginga Íslands við viðsemjendur stofnunarinnar, geri það. Umræður á málþinginu endurspegluðu þessa stöðu mjög vel og sú skýlausa krafa var uppi að stofnunin tæki þegar upp ný og bætt vinnubrögð.  

Þeir sem að málþinginu stóðu hvetja stjórnvöld og stofnanir til að skoða vel þær ábendingar sem þar komu fram og beita sér fyrir því að koma á samskiptum og samningaviðræðum milli aðila sem byggja á gagnkvæmu trausti og virðingu. Með því móti verði ferlið við kaup á heilbrigðisþjónustu markvissara, þannig að fjármagn nýtist sem best við að hámarka gæði og þjónustu fyrir notendurna, sem er meginmarkmið okkar allra. 

Fréttatilkynning – Neytendasamtökin og SVÞ hafa óskað upplýsinga um útreikning á tollkvótum á kjöti

Fréttatilkynning – Neytendasamtökin og SVÞ hafa óskað upplýsinga um útreikning á tollkvótum á kjöti

Meðfylgjandi er sameiginleg fréttatilkynning Neytendasamtakanna og Samtaka verslunar og þjónustu vegna erindis sem samtökin hafa sent á atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti þar sem óskað er upplýsinga um útreikning á tollkvótum á kjöti. Tilefni þessa erindis er frétt ráðuneytisins frá því í síðustu viku þar sem boðaðar voru breytingar á þeirri framkvæmd.

Nánari upplýsingar gefa:

  • Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri SVÞ, s. 511-3000/820-4500
  • Brynhildur Pétursdóttir, framkvæmdastjóri Neytendasamtakanna, s. 824-1225

Fréttatilkynning

Erindi SVÞ og NS vegna útreikninga tollkvóta á kjöti

Samkeppni er lykilorðið – frétt ASÍ segir alla söguna

Samkeppni er lykilorðið – frétt ASÍ segir alla söguna

Fréttatilkynning send til fjölmiðla 21.2.2018

SVÞ – Samtökum verslunar og þjónustu finnst ástæða til að vekja sérstaka athygli á frétt sem birtist á heimasíðu Alþýðusambands Íslands fyrir helgi. Í fréttinni er vísað í gögn frá Hagstofunni yfir vísitölu neysluverðs og hvernig verðlag á matvörum hefur þróast á undangengnum tveimur árum. Þar kom m.a. fram að verð á matvöru hafi í heild sinni lækkað um 0,7% á síðustu tveimur árum. ASÍ undirstrikaði hins vegar að á meðan að matarverð lækkaði í heild sinni hækkuðu mjólkurvörur um 7,4%.

Samkvæmt þessum gögnum hefur verðþróun á matvörumarkaði verið með þeim hætti að verð á innfluttum matvörum og verð á innlendum matvörum sem búa við samkeppni, hefur lækkað á þessu tímabili. Verð á þeim innlendu vörum sem ekki búa við neina samkeppni hefur hins vegar hækkað umtalsvert á þessu tímabili og sker verðþróun á mjólkurvörum sig algerlega úr í þessu sambandi.

Þó að SVÞ og ASÍ hafi í gegn um tíðina oft tekist á um verðlag á matvöru hér á landi og hvernig það hefur þróast frá einum tíma til annars, bregður nú svo við að SVÞ getur tekið undir allt sem kemur fram í þessari frétt.

Frétt ASÍ segir svo miklu meira en það sem fréttin fjallar beinlínis um. Það er þá sögu, sem aldrei verður of oft sögð, hversu miklu máli það skiptir að efla virka samkeppni í viðskiptum og þar með vinna að hagkvæmri nýtingu framleiðsluþátta þjóðfélagsins. Virk samkeppni leiðir til aukinnar skilvirkni fyrirtækja sem skilar sér í lægra verði og betri gæðum fyrir neytendur. Frétt ASÍ lýsir því vel þeirri stöðu sem enn er hér á landi og mikilvægi þess að úr verði bætt.

SVÞ vilja því enn og aftur hvetja stjórnvöld til dáða í þessum efnum. Það er í þeirra höndum og aðeins þeirra að tryggja að samkeppni fái þrifist á öllum sviðum atvinnulífsins.

Fréttatilkynning 21.2.2018 – Þróun matvöruverðs

Enn frekari tafir á gildistöku landbúnaðarsamnings Íslands og ESB

Fréttatilkynning send á fjölmiðla 12.7.2017
Í september 2015 voru undirritaðir af fulltrúum Evrópusambandsins (ESB) og íslenskra stjórnvalda nýir samningar um viðskipti með matvæli. SVÞ hafa lýst því yfir að samkomulag þetta er sannarlega fagnaðarefni og jákvætt skref í þá átt að auka frelsi í viðskiptum með matvæli sem og veita innlendum neytendum aukið val á þessum vörum á samkeppnishæfu verði. Er um að ræða breytingar sem eiga samhljóm með áralangri baráttu samtakanna fyrir auknu frelsi í innflutningi á landbúnaðarafurðum og öðrum matvælum.

Samkomulagið felur í sér að felldir eru niður tollar af alls 101 tollnúmerum sem koma til viðbótar við þau númer sem tollar hafa þegar verið felldir niður af. Sem dæmi um vörur sem bera núna ekki toll eru sykurvörur, sósur, gerjaðir drykkir o.s.frv. Aftur á móti munu með samkomulaginu falla niður tollar á vörum eins og súkkulaði, sætu kexi, pizzum og fylltu pasta.

Þá felur samkomulagið í sér að stórauknir eru tollkvótar á kjöti, þ.m.t. svína-, alifugla- og nautakjöti en þess ber að geta að tollkvótar þessir verða innleiddir í áföngum en koma að fullu til framkvæmda að fjórum árum liðnum frá gildistöku samningsins.

Gildistaka samningsins er háð samþykki bæði íslenskra stjórnvalda og ESB en hinn 13. september 2016 samþykkti Alþingi þingsályktun sem heimilaði ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd samning milli Íslands og Evrópusambandsins um ívilnanir í viðskiptum með landbúnaðarvörur. Hins vegar hefur dregist af hálfu ESB að staðfesta fyrir sitt leyti samninginn. Upphaflega var gert ráð fyrir að samningurinn kæmi til framkvæmda um næstu áramót. SVÞ hafa hins vegar borist þær upplýsingar frá utanríkisráðuneyti að samningurinn hafi enn ekki verið staðfestur af hálfu ESB og samkvæmt sömu upplýsingum mun mál þetta koma á dagskrá Evrópuþingsins í september nk. Í umræddum samningi er ákvæði um gildistöku þar sem segir að hann muni taka gilda fyrsta dags þess mánaðar að sjö mánuðum liðnum frá staðfestingu hans og því mun hann ekki taka gildi og koma til framkvæmda fyrr en í fyrsta lagi 1. apríl 2018. Því er ljóst að gildistaka þessa samnings mun dragast enn frekar og harma SVÞ þann drátt sem rekja má til atvika er varða samþykkt hans innan ESB.

Fréttatilkynning til útprentunar.