Háskaleikur heilbrigðisráðherrans

Háskaleikur heilbrigðisráðherrans

Ekki verður betur séð en að heilbrigðisráðherra þjóðarinnar sé í einhverskonar afneitun þegar kostnaður og gæði heilbrigðisþjónustunnar eru annars vegar. Eitt virtasta tímarit heims í læknisfræði, The Lancet,  birti fyrir nokkrum dögum úttekt  á heilbrigðistengdum gæðavísum og aðgengi að heilbrigðisþjónustu 195 landa fyrir árið 2016. Til að gera langa sögu stutta toppar Ísland þennan lista. Erfitt er að ímynda sér hvernig hægt er að fá betri staðfestingu á góðu kerfi og glæsilegri frammistöðu heilbrigðisstarfsfólks. Sjálfsagt er að óska því fólki til hamingju. Við getum verið stolt af árangrinum enda þótt ráðherrann virðist ekki mega heyra á hann minnst.Hin almenna heilbrigðisþjónusta byggir á þremur grunnstoðum: Heilsugæslu, starfsemi sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsmanna og sjúkrahússþjónustu. Nokkuð góður samhljómur hefur verið um þessa þrískiptingu fram til þessa. Hér skiptir mestu að þarfir neytandans séu ávallt hafðar í forgangi. Sjúklingar hafi gott aðgengi að þjónustunni á sínum forsendum, gæði hennar séu fyrsta flokks og kostnaður, sem ávallt skal greiddur af hinu opinbera, sé samkeppnishæfur við það sem best gerist í nágrannalöndum okkar.

Sérfræðiþjónusta lækna hefur um áraraðir verið kjölfesta góðrar læknisþjónustu hér á landi. Á síðasta ári tóku sérfræðilæknar á rammasamningi við Sjúkratryggingar Íslands á móti um 500 þúsund heimsóknum. Þeir framkvæmdu meðal annars um átján þúsund skurðaðgerðir og þúsundir speglana auk margskonar lífeðlisfræðilega rannsókna. Á sama tíma voru um 244 þúsund komur á göngudeild Landspítala og um 250 þúsund komur á Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Þannig er stofustarfsemi sérfræðilækna stærri en  göngudeildarstarfsemi þessara tveggja stærstu heilbrigðisstofnana landsins.

Um 350 læknar starfa á samningnum í ýmsum sérgreinum. Til viðbótar eru um 300 önnur stöðugildi fagfólks í ýmsum greinum. Enda þótt starfsemin sé afar umfangsmikil er athyglisvert að hún tekur einungis til sín um 6% af heildarútgjöldum til heilbrigðisþjónustunnar. Sérfræðiþjónustan er einfaldlega vel rekin, ódýr miðað við nágrannalöndin og með gott aðgengi sjúklinga. Gæðin þarf enginn að draga í efa. Það er vandséð annað en að hér sé vel sé farið með hverja krónu skattfjárins.

Engu að síður eru þeir til sem þreytast ekki á að agnúast út í þessa sjálfstæðu starfsemi  lækna. Ýmist virðist sá málflutningur byggður á vanþekkingu, þráhyggju eða hagsmunagæslu – og stundum ef til vill allt í senn. Við hvetjum embættismenn í kerfinu, stjórnmálamenn og ekki síst ráðherra heilbrigðismála til að viðurkenna þær staðreyndir um ágæti og hagkvæmni þessarar þjónustu sem blasa við öllum þeim sem skilja vilja.

Samningur sérfræðilækna og SÍ rennur út um næstu áramót. Læknar hafa án árangurs kallað eftir áætlunum ráðherrans um margra mánaða skeið. Vísbendinguna fengu þeir loks í gegnum örstutta sjónvarpsfrétt. Samningurinn er að hennar mati til óþurftar og stórfelld uppbygging göngudeilda sjúkrahúsanna það sem koma skal í staðinn. Nokkuð sem gengur þvert á þróun í öðrum löndum.  Öllum er ljóst að slík uppbygging tæki mörg ár og enginn sparnaður mun af hjótast. Við spurningu fréttamannsins um hvað myndi gerast í millibilsástandinu kom ekkert svar annað en að ráðherrann hefði ekki svarið. Margir sjúklingar eiga bókaða tíma hjá sérfræðilæknum eftir áramót og langt inn í næsta ár. Þeir hafa svarið ekki heldur.

Ein af helstu röksemdum, en um leið rangfærslum, ráðherrans er að samningurinn sé opinn og að til hans streymi ótakmarkað fé. Það er einfaldlega rangt og við leyfum okkur að fullyrða að ráðherrann veit betur.  Sjúkratryggingar tryggja sér „einkarétt“ á þjónustu læknis á samningnum. Nýliðun í stétt sérfræðilækna á stofu hefur algerlega verið stöðvuð í meira en tvö ár. Til þess hafa stjórnvöld reyndar margsinnis þurft að þverbrjóta samninginn  en ráðherrann virðist láta sér það í léttu rúmi liggja, væntanlega með það í huga að tilgangurinn helgi meðalið.

Með því að loka á nýliðun og læsa unga lækna úti í orðsins fyllstu merkingu er ráðherrann ekki að draga úr eftirspurn heldur minnka þjónustu og rýra gæði hennar. Veruleg hætta er á því að læknar sem ekki komast heim þegar þeim hentar ílengist erlendis og snúi jafnvel aldrei til baka. Samninginn þarf að opna strax. Verði hann látinn renna út án endurnýjunar er tvöfalt heilbrigðiskerfi þar sem hinir efnameiri kaupa sér forgang endanlega orðið að veruleika. Þjóðin hefur aldrei getað hugsað sér slíkt fyrirkomulag. Ráðherrann sýnist hins vegar stefna þangað með þessum háskalega leik sínum.

Höfundar:

Stefán E. Matthíasson, formaður Samtaka heilbrigðisfyrirtækja
Þórarinn Guðnason, formaður Læknafélags Reykjavíkur
Sauðfjárbændur og samkeppnin

Sauðfjárbændur og samkeppnin

Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu
Greinin birtist í Morgunblaðinu 13.04.18.

Á aðalfundi Landssamtaka sauðfjárbænda sem haldinn var fyrir nokkru var vandi greinarinnar mjög til umræðu. Ætti það ekki að koma neinum á óvart enda hefur þessi vandi verið til umræðu í einhverri mynd, svo lengi sem undirritaður hefur fylgst með. Á undanförnum árum og áratugum er búið að verja gífurlegum fjárhæðum af opinberu fé í tilraunum til að leysa vandann, bæði með beinum og óbeinum framlögum, m.a. með fjárframlögum til að leita nýrra markaða fyrir íslenskar sauðfjárafurðir. Þrátt fyrir öll þessi opinberu inngrip, er staða íslenskra sauðfjárbúa nú verri en nokkru sinni fyrr. Afurðastöðvarnar, sem eru að mestu í eigu bænda, hafa s.l. tvö ár tilkynnt eigendum sínum um verulega lækkun á afurðaverði. Skýringar sem gefnar hafa verið eru tímabundnir erfiðleikar á erlendum mörkuðum. Enn var því seilst í vasa skattgreiðenda s.l. haust þegar 665 milljónum króna var úthlutað til að leysa hinn tímabundna vanda. Svo vísað sé til mats sauðfjárbænda sjálfra er staðan í greininni sú að búin teljast vart rekstrarhæf.

Erfitt er að sjá hvernig vandi greinarinnar geti verið tímabundinn. Samkvæmt nýútkominni ársskýrslu Sláturfélags Suðurlands er framleiðsla á kindakjöti um 50% umfram innanlandsmarkað. Útflutningur, án opinbers stuðnings, mun í fyrirsjáanlegri framtíð ekki geta skilað þeim tekjum sem réttlætt geta útflutning. Hann skilar afurðastöðvunum 30 – 50% lægra verði en innanlandsmarkaður.

Þrátt fyrir að afurðastöðvar séu flestar í eigu bænda dró formaður Landssamtaka sauðfjárbænda upp þá mynd af stöðunni, að bændur væru valdalausir í verðlagsmálum sínum og vandi þeirra lægi fyrst og fremst í „fákeppni í smásölunni“. Sala og markaðssetning sauðfjárafurða á innanlandsmarkaði er í höndum afurðastöðvanna. Afurðastöðvarnar eru í sömu stöðu og aðrir birgjar á markaði, hvort sem þeir heita heildsalar eða iðnrekendur, afurðir þeirra er í samkeppni við aðrar vörur um hylli neytenda. Sú spurning er óneitanlega áleitin hvort afurðastöðvarnar hafi sinnt þörfum viðskiptavina sinna vel, t.d. varðandi vöruþróun.

Vandi sauðfjárbænda hefur ekkert með aðstæður á smásölumarkaði að gera. Vandi sauðfjárbænda er einfaldlega sá að þeir framleiða langt umfram það sem markaðurinn hefur þörf fyrir. Fyrsta verkefnið til lausnar á vanda greinarinnar hlýtur því að vera að aðlaga framleiðsluna að þörfum markaðarins og að sinna betur þörfum viðskiptavina sinna.

 

Sauðfjárbændur og samkeppnin

Samkeppnisstaða íslenskrar netverslunar

Samkeppnisstaða íslenskrar netverslunar

Andrés Magnússon framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu
Greinin birtist í Fréttablaðinu 28.03.18.

Á Íslandi jafnt sem annars staðar vex netverslun nú hröðum skrefum. Sífellt stærri hópur neytenda kýs að haga viðskiptum sínum með þessum hætti, ekki síst yngra fólkið, s.k. aldamótakynslóð (e. Millennials eða Generation Y). Þessi þróun mun ekkert gera nema halda áfram á næstunni, aðeins á mun meiri hraða en hingað til.

Nýjar áskoranir fyrir alla
Breytingar sem þessar hafa í för með sér nýjar áskoranir fyrir verslunar- og þjónustufyrirtæki. Samkeppnin tekur á sig nýjar myndir, en í netverslun er samkeppnin fyrst og fremst alþjóðleg og þannig þvert á landamæri ríkja. Þó að samkeppnin sé alþjóðleg er engu að síður mikilvægt að allir aðilar á markaði, standi jafnt að vígi, hvar sem þeir eru staðsettir í heiminum. Þessar breytingar hafa nefnilega ekki aðeins í för með sér áskoranir fyrir fyrirtækin sem keppa á þessum markaði. Áskorunin er ekki síðri fyrir tollayfirvöld, en þeim ber að tryggja að greidd séu lögboðin gjöld af viðskiptum sem fara fram með þessum hætti og þannig stuðla að heilbrigðri samkeppni hvað innheimtu gjalda varðar.

Netverslun eykst hröðum skrefum
Á sl. ári voru um 550.000 sendingar til einstaklinga sem keypt höfðu vöru í netviðskiptum tollafgreiddar hér á landi. Var þar um 60% aukningu að ræða frá árinu 2016 og óhætt er að fullyrða að þessi tala fer hækkandi með hverju ári. Samkvæmt lögum eru eingöngu sendingar sem eru annað hvort gjafir eða þar sem verðmæti innihaldsins er 2.000 kónur eða minna undanþegnar virðisaukaskatti. Eins og staðan er núna má fullyrða að stór hluti sendinga komi til landsins án þess að greidd séu af þeim lögboðin opinber gjöld, fyrst og fremst virðisaukaskattur. Ríkissjóður verður þar með af verulegum skatttekjum, sem miðað við umfangið hljóta að nema hundruðum milljóna króna. Þess utan er póstþjónusta í Kína, þaðan sem stærstur hluti þessara sendinga kemur, niðurgreidd af stjórnvöldum þar í landi sem augljóslega vegur þungt í alþjóðlegri samkeppni.

Allir sitji við sama borð
Eins og öllum má ljóst vera er samkeppnisstaða íslenskrar netverslunar mjög þröng við þær aðstæður sem hér er lýst, svo ekki sé fastar kveðið að orði. Aftur á móti er samkeppni mikilvægur hlekkur í að efla innlenda starfsemi og stuðla að framþróun á þeim mörkuðum þar sem samkeppni ríkir. Hins vegar er mikilvægt að tryggja að aðilar sitji við sama borð er viðkemur opinberum kröfum og samspil við leikreglur á samkeppnismarkaði. Því er krafan vegna netviðskipta einfaldlega sú að tryggt verði að greiddur verði virðisaukaskattur af öllum vörum sem keyptar eru í formi netviðskipta til landsins, nema af þeim vörum sem óumdeilanlega eru undanþegnar skattskyldu. Þar sem hér fara saman hagsmunir hins opinbera og hagsmunir íslenskrar verslunar, er þetta svo sjálfsagt mál, að það ætti ekki einu sinni að þurfa að nefna það.

Íslensk verslun nýtur trausts

Íslensk verslun nýtur trausts

Blaðagrein birt í Morgunblaðinu 7. 2.2018
Höfundur: Margrét Sanders, formaður Samtaka verslunar og þjónustu

Í nýrri könnun eins virtasta markaðsfyrirtækis landsins mælist íslensk verslun með 67% traust íslensku þjóðarinnar. Til hamingju verslunarmenn, til hamingju Íslendingar.

Sjálfstæðisbaráttan tengdist verslun
Það er mikilvægt hverri atvinnugrein að starfa í sátt og samlyndi við samfélag sitt. Íslensk verslun hefur um aldir verið nátengd hagsmunum þjóðarinnar, enda var það eitt af stóru hagsmunamálunum í sjálfstæðisbaráttu okkar, að verslunin kæmist í okkar eigin hendur. Sú barátta stóð lengi og var að lokum farsællega til lykta leidd af sjálfstæðishetjum okkar, eins og svo vel er lýst í því stórkostlega ritverki “ Líftaug landsins – saga íslenskrar utanríkisverslunar 900 – 2010”, sem nýlega kom út.

Samfélagsmiðlar gefa rödd
Fullyrða má að fáar ef nokkrar atvinnugreinar hafa búið við jafn óvæga gagnrýni og verslunin hefur mátt sæta, og hefur verslunin margoft verið skotspónn þeirra sem hafa séð sér hag í því að tortryggja hana. Nú í seinni tíð hefur almenningur fengið rödd í gegnum samfélagsmiðlana. Virðist sú umræða vera að ná jafnvægi og snúast meira um neytendavernd, þjónustu og upplýsta umræðu sem verslunin fagnar. Það vita allir sem reynt hafa hversu erfitt getur verið að rísa undir gagnrýni sem þessari. Íslensk verslun hefur hingað til staðið allt slíkt af sér og það er engin ástæða til að ætla annað en svo verði áfram.

Tæplega 70% traust
Það er sérstakt ánægjuefni að finna hversu mikillar velvildar íslensk verslun nýtur núna meðal þjóðarinnar, sérstaklega í ljósi umræðunnar. Í fyrrgreindri könnun kemur fram að um 67% þjóðarinnar bera traust til verslunar á Íslandi. Þessi niðurstaða er mjög ánægjuleg, ekki síst í því ljósi þess að opinber umræða um atvinnugreinina var óneitanlega fremur neikvæð á s.l. ári. Að finna að verslunin nýtur svo mikils trausts og velvildar hjá þjóðinni er greininni mikil hvatning til þess að gera enn betur.

Sóknarhugur á tíma breytinga
Íslensk verslun er í sóknarhug. Framundan eru miklar áskoranir í síbreytilegu umhverfi, umhverfi sem tekur meiri og hraðari breytingum en nokkru sinni fyrr. Íslensk verslun er staðráðin í því að aðlaga sig að þessum breytingum, vera áfram öflugur þátttakandi í íslensku atvinnulífi og halda áfram að þjóna vel kröfuhörðum neytendum. Þannig gerum við betur, þannig eflist íslensk verslun og þannig höldum við þessu öfluga trausti Íslendinga – okkur öllum til hagsbóta.

Blaðagrein 7.2.2018 – Íslensk verslun nýtur trausts

Tillögur SSSK að úrbótum í íslensku menntakerfi

Birt á visir.is 12.10.2017

Skólakerfið
Tökum stór skref í átt að því að skapa fjölbreyttara skólakerfi og hverfum markvisst frá þeirri einsleitni sem þar ræður ríkjum.

Nemandinn
Viðurkennum ólíkar þarfir ólíkra nemenda og kappkostum að mæta þeim.

Foreldrarnir
Veitum foreldrum val og treystum þeim til þess að velja það námsumhverfi sem þau telja að henti sínum börnum best.

Kennarinn
Aukum sjálfstæði kennara og sýnum þeim traust til þess að gera það sem þeir eru bestir í: Að kenna.

Einföldum kröfur á kennara og minnkum tíma þeirra sem fer í skriffinnsku.

Veitum kennurum, líkt og nemendum, möguleika á að velja starfsvettvang í ólíkum skólum og sérskólum þar sem þeirra sérsvið, þekking og áhugi getur nýst sem best
Innleiðum sveigjanleika í nám kennara og möguleikann á því að öðlast viss réttindi til kennslu á skemmri tíma.

Viðurkennum að kennsla er að talsverðu leyti listgrein; Engum dytti í hug að láta listamenn vinna eftir stimpilklukku!

Skólastjórnandinn
Tryggjum skólastjórum faglegt og rekstrarlegt sjálfstæði til þess að skapa sínum nemendum besta mögulega námsumhverfið.

Minnkum miðstýringu að hálfu skólayfirvalda í sveitarfélögum og leggjum meiri ábyrgð á hendur skólastjórnenda og skólaráðs í hverjum skóla.

Höfundur: Kristján Ómar Björnsson formaður SSSK, Samtaka sjálfstætt starfandi skóla

Framsækið miðstýrt menntakerfi eru refhvörf

Birt á visir.is 11.10.2017

Mennta- og skólastarf á Íslandi hefur, í sögulegu samhengi, lengstum verið á höndum annarra aðila en ríkis eða sveitarfélaga. Fram að myndun þéttbýla á Íslandi var slíkt starf að mestu einskorðað við trúarhreyfingar og kennslu í heimahúsum. Stofnun Barnaskóla Reykjavíkur varð fyrir einstaklingsframtak árið 1830 en í byrjun 20. aldar voru 10% allra skólabarna í Reykjavík í því sem þá voru kallaðir einkaskólar. Á 19. öld. voru farandskólar settir upp víðsvegar en jafnvel eftir að íslensk stjórnvöld settu á lög um almenna fræðsluskyldu um 1900 þá hvíldi sú fræðsla að talsverðu leyti á heimilunum.

Elsta starfandi grunnskóla landsins var komið á fót á Eyrarbakka árið 1854 af athafnamönnum þar í sveit og sumir af elstu grunnskólum landsins hafa verið sjálfstæðir frá upphafi. Landakotsskóli var stofnaður 1896, Suðurhlíðarskóli hefur starfað undir ýmsum nöfnum frá 1905 og Skóli Ísaks Jónssonar reis árið 1926. Í seinni tíð hafa svo sjálfstæðir skólar eins og Tjarnarskóli og Hjallaskólarnir fest sig í sessi.

Á leik-, framhalds- og háskólastigi hefur fjöldi sjálfstæðra skóla vaxið sl. ár og fjölbreytni í námsframboði almennt aukist. Í ljósi þess og sögunnar er því merkilega hversu íhaldssöm viðhorf fyrirfinnast enn gagnvart sjálfstæðum grunnskólum. Það endurspeglast t.d. í því hversu torsótt það er fyrir sjálfstæða aðila að fá að stofna grunnskóla, sem útskýrir það að einungis rúm 2% íslenskra grunnskólanema sækja sjálfstæða grunnskóla sem er með því lægsta sem gerist meðal OECD-ríkjanna.

Frá ca. miðri síðustu öld hefur byggst upp einsleitt grunnskólakerfi á Íslandi. Einsleitni er líklega í eðli miðlægra kerfa enda má færa sannfærandi rök fyrir því að það ætti að vera skylda miðstýrðs skólakerfis á hendi hins opinbera að mismuna ekki nemendum sínum heldur bjóða þeim upp á nákvæmalega sama umhverfið, óháð því í hvaða hverfisskóla þeir eru. Vissulega fyrirfinnst nýsköpun og framsækni í opinberum grunnskólum og þá ekki síst í minni sveitarfélögum úti á landi þar sem miðstýringin er lítil og umhverfi skólanna líkara því sem sjálfstæðir skólar búa við.

Ein sterkustu rökin fyrir því að koma á skólakerfi þar sem fjölbreyttir valkostir mæta foreldrum og nemendum eru þau að í slíku kerfi er líklegra að hver nemandi finni nám við sitt hæfi þar sem honum gefst kostur á að nýta styrkleika sína, færni og áhugasvið. Önnur sterk rök fyrir því að æskilegt sé að greiða götu fleiri sjálfstætt starfandi grunnskóla lúta að breyttum kröfum nútímans og framtíðarinnar til starfandi fólks. Skólakerfi 20. aldarinnar kann að hafa dugað til þess að undirbúa nemendur fyrir fyrirsjáanlegt starfsumhverfi þess tíma en stöðugar tæknibyltingar nútímans gera þá kröfu á skólakerfið að það sé sveigjanlegra, frjálsara og í stöðugri framþróun.

Á Íslandi er lögbundin grunnskólaskylda og til þess að halda upp þeirri þjónustu borgar fólk skatta. Sveitarfélög innheimta útsvar til reksturs grunnskólanna í sínu umdæmi og hafa, lögum samkvæmt, algjörlega frjálsar hendur um hvort rekstur grunnskólanna sé á þeirra hendi eða annarra aðila. Það er eðlileg krafa að skattgreiðendur sem kjósa að senda sín börn til náms í sjálfstæðum skóla fái sömu þjónustu fyrir sína skattpeninga og þurfi ekki að greiða skólagjöld. Flestir sjálfstæðir skólar innheimta skólagjöld einfaldlega vegna þess að sveitarfélögin ákveða að útdeila þeim minna rekstrarfé en sínum eigin. Þetta er óréttlátt og útilokar sjálfstæða skólann sem raunverulegt val fyrir þá efnaminni. Fé ætti að fylgja barni, óháð því hvaða skóla það og foreldrarnir velja.

Að lokum er mikilvægt að hafa í huga í umræðu um sjálfstæða skóla að ekki er löglegt að greiða arð út úr starfssemi sjálfstæðra grunnskóla á Íslandi, ólíkt mörgum öðrum löndum. Almennir sem og sjálfstæðir skólar á Íslandi hrærast í krefjandi rekstrarumhverfi og að athuguðu máli ætti engum að detta í hug að stofna grunnskóla á Íslandi til þess að græða pening, heldur til þess að skapa umhverfi þar sem framtíð landsins fær að vaxa og blómstra.

Höfundur er formaður Samtaka sjálfstætt starfandi skóla (SSSK).