Rýnt í leiguverð |  Visir.is

Rýnt í leiguverð | Visir.is

Visir.is birtir í dag, 17.maí 2023,  grein eftir Andrés Magnússon, framkvæmdastjóra SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu.

Þar segir m.a.:
Umræða um leiguverð á íbúðarmarkaði hefur verið nokkuð hávær að undanförnu. Í þeirri umræðu hefur verið fullyrt að verðhækkanir á þessum markaði hafi verið úr öllu hófi og ekki í samræmi við almenna verðlagsþróun í landinu. Af þeirri ástæðu er rétt að staldra við og benda á nokkur einföld atriði:

  • a. Húsnæðiskostnaður hefur ávallt verið stærsti útgjaldaliður hverrar fjölskyldu, hvort sem fólk býr í eigin húsnæði eða er á leigumarkaði. Þannig hefur það ávallt verið og verður að öllum líkindum áfram.
  • b. Á tímabilinu frá desember 2019 til mars 2023 lækkaði leiguverð á höfuðborgarsvæðinu um 4,8% á föstu verðlagi á meðan kaupverð á íbúðarhúsnæði hækkaði um 22,4% á sama tíma. Ef horft er á þróunina út frá breytingu á launavístölu á sama tímabili á hækkaði launavísistalan um 31,2%, eða um tæplega 7% á föstu verðlagi. Leiguverð sem hlutfall af launum lækkaði því um 11 % á tímabilinu.
  • c. Fært yfir á mannamál merkir þetta að húsaleigan er hlutfallslega lág í samanburði við verð á fasteignum og fjármagnskostnað. Telja verður meiri líkur en minni á að húsaleigan aðlagist að einhverju leyti þegar horft er til þess að íbúafjölgun hér á landi hefur verið meiri undanfarna mánuði en nokkru sinni fyrr á svo skömmum tíma og framboð á leiguhúsnæði er augljóslega ekki í takt við þarfir markaðarins. Hér mun lögmálið um framboð og eftirspurn einfaldlega ráða þróuninni.
  • d. Könnun sem Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hefur gert bendir eindregið til þess að stærri hluti leigjenda sé ánægðari með stöðu sína en oft áður, enda liggur það fyrir að útgjöld vegna húsaleigu hafa verið svipað hlutfall ráðstöfunartekna allan undangenginn áratug.
  • e. Samkvæmt lífskjarakönnun Hagstofu Íslands töldu 13,8% heimila á leigumarkaði sig búa við íþyngjandi húsnæðiskostnað árið 2022 í samanburði við 25,4% árið 2015. Þessi niðurstaða bendir eindregið til þess að fólk hafi það almennt betra á leigumarkaði en oft áður.

Sú lýsing á ástandinu á leigumarkaði fyrir íbúðarhúsnæði sem birst hefur að undanförnu er því ekki í samræmi við þann raunveruleika sem opinber gögn segja til um. Hér gildir því hið sígilda að yfirveguð umræða, byggð á staðreyndum máls, er líklegust til að leiða umræðuna inn á réttar brautir.

SMELLTU HÉR til að lesa greinina inná Visir.is

Um gróða dagvöruverslana | Visir.is

Um gróða dagvöruverslana | Visir.is

Visir birtir í dag grein frá Andrési Magnússyni, framkvæmdastjóra SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu undir fyrirsögninni: ‘Um gróða dagvöruverslana’.

Umræðan um ofurgróða fyrirtækja í dagvöruverslun er ekki ný af nálinni. Sú umræða hefur sprottið upp með reglubundnum hætti svo lengi sem undirritaður hefur fylgst með, sem er orðinn drjúgur tími. Ýmsir hafa þar lagt orð í belg, en fullyrða má að sá aðili sem hefur haft sig mest frammi á þessu sviði er verðlagseftirlit ASÍ. Nýlega var það t.d. fullyrt þar á bæ að dagvöruverslanir hefðu undanfarið, og í ríkara mæli en áður, velt verðhækkunum frá birgjum yfir á neytendur. Ekki var að sjá að þessi staðhæfing væri sérstaklega rökstutt.

Eins og öllum er kunnugt þá hafa verðhækkanir frá birgjum, bæði vegna innfluttrar vöru og innlendrar, verið nær fordæmalausar undanfarna mánuði. Ástæður þess ættu öllum að vera kunnar, en bæði heimsfaraldur og stríðsátök í Evrópu hafa haft veruleg áhrif á framleiðslu- og flutningskostnað um allan heim, með tilheyrandi áhrifum á vöruverð.

Fyrir nokkru birti Samkeppniseftirlitið sk. framlegðargreiningu fyrir nokkra lykilmarkaði á smásölustigi. Einn þessara markaða var dagvöruverslun. Meðal þeirra fullyrðinga sem eftirlitið setur þar fram er að álagning í smásölu á Íslandi sé há í alþjóðlegum samanburði. Þessi fullyrðing er ein af fjölmörgum ágöllum sem hagsmunaaðilar hafa gert athugasemdir við enda á hún ekki við rök að styðjast. Það er beinlínis ekkert í greiningu eftirlitsins sem styður þessa staðhæfingu. Hvorki framlegðar- né hagnaðarhlutfall fyrirtækja á þessum markaði hefur aukist undanfarin ár. Velta fyrirtækja í þessum greinum jókst mikið á meðan heimsfaraldurinn gekk yfir en álagning jókst hins vegar ekki.

Nú hafa þrjú stærstu fyrirtækin á dagvörumarkaði nýlega birt uppgjör sín. Ekkert í þeim uppgjörum styður fullyrðingar ASÍ og Samkeppniseftirlitsins. Þvert á móti hafa fyrirtæki á þessum markaði tekið á sig framlegðarskerðingu og með því móti lagt sitt af mörkum til að vinna bug á verðbólgunni sem er hinn sameiginlegi óvinur atvinnulífs og heimila.

SMELLIÐ HÉR til að nálgast greinina á Visir.is

Strengjum áramótaheit

Strengjum áramótaheit

Grein er birtist í Morgunblaðinu 7.janúar 2023 frá formanni SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu

Strengjum áramótaheit 2023

Strengjum áramótaheit

Flestum líður best í stöðugu ástandi og bera jólahefðir þess merki. Við endurtökum leikinn ár eftir ár, sama steikin, sömu jólalögin og sama fjölskyldan safnast saman í jólaboðum. Við horfum á sömu kvikmyndirnar og meðtökum sama boðskapinn. Jafnvel á Tene snæddu íslenskir ferðamenn skötu og jólahangikjöt. Svo sprengjum við okkur leið út úr árinu og inn í nýtt ár, byrjum að nýju eftir að hafa rifjað upp liðið ár undir leiðsögn höfunda áramótaskaups og fréttaannála.

Eins og flestir standa atvinnurekendur á tímamótum um áramót. Rekstrarári lýkur og nýtt tekur við. Ársreikningur mun endurspegla athafnir fyrra árs en áætlunum er ætlað að skapa vissan fyrirsjáanleika um gerðir þess næsta. Liðnu ári er ekki unnt að breyta, atburðir þess eru orðnir að reynslu. Nú þarf að huga að því hvernig næsta ár mun þróast.

2022 ár árskorana fyrir fyrirtæki landsins.

Árið 2022 var fyrirtækjum ár áskorana. Snemma árs losnuðu allir sem betur fer undan beinum áhrifum sóttvarnarráðstafana, samkomutakmarkana og jafnvel lokana. Óbeinu áhrifin sitja þó í mörgum tilvikum eftir í formi hás innkaupsverðs vara og jafnvel birgðaskorti. Það bættist í safn áskorana þegar stríðsrekstur Rússa hófst í Úkraínu. Enn hækkaði innkaupsverð og í mörgum tilvikum þurfti að leita á ný mið við öflun vara. Það brotnuðu keðjulásar í virðiskeðju heimshagkerfisins. Allir sitja uppi með þá staðreynd að verðbólgudraugurinn er genginn aftur.

Það er verkefni ríkisstjórnar, Alþingis og sveitarfélaga að stýra þjóðarskútunni í átt að lygnari sjó og verkefni seðlabankans að lægja öldur peningamála. Í ýmsu tilliti tryggðu stjórnvöld að skipið hélt vel vatni þegar heimsfaraldurinn stóð sem hæst. Fyrirtækjum í nauð voru sendar líflínur sem drógu úr neikvæðum áhrifum á launþega. Á heildina litið tókst fyrirtækjum í verslun og þjónustu vel til, almenningi og öðrum fyrirtækjum til heilla. Breyttar áherslur neytenda urðu þess valdandi að hlutur stafrænnar verslunar og þjónustu hefur aukist og samfara hafa skapast tækifæri til hagræðingar og frekari breytinga. Ætla má að reynslan hafi gert fyrirtækin betur í stakk búin til að takast á við breytingar en áður. Við erum komin í var undir Grænuhlíð og þó dregið hafi úr storminum eru veðurhorfur hið minnsta óljósar.

Kjarasamningar á óvissutíma.

Í ljósi óvissu varð gildistími gerðra kjarasamninga frekar stuttur og því munu viðræður um það sem við tekur hefjast á árinu. Á sama tíma eru hagvaxtar- og verðbólguhorfur í Evrópu dökkar og á heimsvísu útlit fyrir að verulega hægi á vexti. Hækkandi orkuverð og hækkandi vextir geta dregið hratt úr erlendri neyslu og fjárfestingu. Ferðamönnum er tekið að fjölga að nýju en ferðaþjónustan er enn að rétta úr kútnum. Við fyrirtækjum í þeim geira blasa þau verkefni að bæta skuldastöðu og efla eigið fé til rekstrar og uppbyggingar. Við fyrirtækjum í verslun og þjónustu blasa fordæmalausar og kostnaðarsamar breytingar í ljósi tækniþróunar, áherslna á sjálfbærni og þörf á að efla þekkingu starfsfólks. Forsendur verðmætasköpunar eru í ýmsu tilliti brothættar.

Vonir um bjarta framtíð munu aðeins raungerast ef allir leggja sitt af mörkum. Sjaldan hefur þörf fyrir ábyrgt mat seðlabankans verið sterkari. Undir þessum kringumstæðum þurfa ríkisstjórnin, Alþingi og sveitarfélög í sameiningu að tryggja skynsamlegar forsendur til skemmri og lengri tíma. Í því samhengi eru jákvæð áhrif á hagkerfið lykilorðin. Fjárfesting þarf að styðja hagræðingu og verðmætasköpun og endurskoðun tekjuöflunar þarf að tryggja eðlilega þátttöku í kostnaði. Til að mynda þarf að huga betur að orkuskiptum í landi hagstæðs orkuverðs og á tímum umbreytinga er endurskoðun forsendna fasteignaskatts, tekjustofns sveitarfélaga, afar brýn. Þá gegna aðilar vinnumarkaðarins vissulega afar mikilvægu hlutverki. Þeir þurfa m.a. að tryggja að til staðar séu forsendur til hagræðingar í rekstri svo atvinnurekendum verði betur fært að mæta hækkandi rekstrarkostnaði án víðtækra áhrifa á verðlag. Í sama skyni þurfa neytendur að sýna því skilning að samhengi er milli kostnaðar sem hlýst af háu þjónustustigi og verðlagningar vöru og þjónustu.

Búum afkomendum okkar stöðugt efnahagslíf.

Ekki eru alltaf jólin en jólatíðin kemur sem betur fer alltaf aftur. Þess á milli sköpum við ró með efnahagsástandi sem gerir okkur fært að takast á við mögulegar áskoranir. Við skulum saman strengja þess heit að búa afkomendum okkar stöðugt efnahagslíf og von um góða framtíð.

Höf. Jón Ólafur Halldórsson, formaður SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu.

Orkukreppan í Evrópu leikur fyrirtæki í verslun grátt.

Orkukreppan í Evrópu leikur fyrirtæki í verslun grátt.

Orkukreppan sem nú gengur yfir í Evrópu, hefur þegar kveikt á aðvörunarbjöllum hjá fyrirtækjum í verslun, bæði í smásölu og heildsölu. Að mati EuroCommerce, Evrópusamtaka verslunarinnar, mun fjöldi fyrirtækja í greininni stefna í alvarlega rekstrarerfiðleika af völdum orkukreppunnar, komi ekki til opinber aðstoð í einhverri mynd. EuroCommece vekur sérstaka athygli á að í húfi sé framtíð þeirra 5 milljóna fyrirtækja sem starfandi eru í smásölu og heildsölu í álfunni. Þessi fyrirtæki hafa um 26 milljónir starfsmanna, en verslunin er sú atvinnugrein sem veitir flestu fólki vinnu í Evrópu. Um 12% vinnuafls í álfunni starfa við verslun.

Í könnun sem EuroCommerce gerði meðal aðildarfyrirtækja sinna kemur fram að orkukostnaður verslunarfyrirtækja hefur í sumum löndum fjórfaldast á stuttum tíma, eða frá því að stríð braust út í Úkraínu í febrúar s.l. Að mati samtakanna er mikilvægt að veita fyrirtækjum í verslun aðstoð á sama hátt og fyrirtækjum í ýmsum öðrum atvinnugreinum, sem þegar hefur verið veitt umtalsverð opinber aðstoð í einstökum aðildarríkjum Evrópusambandsins.

Ákall EuroCommerce til framkvæmdastjórnarinnar og stjórnvalda í einstökum aðildarríkjum, er því að komið verði til móts við fyrirtæki í verslun á þessum sérstöku tímum. Samtökin leggja áherslu á að þar verði um tímabundna aðgerð að ræða, sem gangi til baka þegar orkumarkaðurinn hefur náð jafnvægi á ný. Samtökin daga sérstaklega fram mikilvægi verslunarinnar sem tengiliðarins milli framleiðenda og neytenda, þannig að ef vegið verður að rekstrargrunvelli fyrirtækja í verslun, muni slíkt hafa ófyrirséðar afleiðingar fyrir afkomu heimilanna.

Sú staða staða sem er uppi í orkumálum í Evrópu varpar skýru ljósi á þá öfundsverðu stöðu sem við Íslendingar erum í að þessu leyti.

Nánar má sjá umfjöllun EuroCommerce á meðfylgjandi tengli:https://www.eurocommerce.eu/2022/09/retail-and-wholesale-and-the-energy-crisis-an-urgent-need-for-support/ 

Ríkisstjórn Íslands leggst gegn hröðum orkuskiptum – eða hvað?

Ríkisstjórn Íslands leggst gegn hröðum orkuskiptum – eða hvað?

Vísir [umræðan] birtir í dag grein eftir Jón Ólaf Halldórsson, formann Samtaka verslunar og þjónustu og Egil Jóhannsson, forstjóra Brimborgar undir heitinu: „Ríkisstjórn Íslands leggst gegn hröðum orkuskiptum – eða hvað?“

Þar benda þeir m.a. á að Ísland hefur skrifað undir alþjóðlegar skuldbindingar um 29% samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda árið 2030 miðað við losun ársins 2005. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er sett fram enn metnaðarfyllra landsmarkmið um 55% samdrátt. Það þýðir að draga þarf úr losun um 1,3 milljónir tonna koltvísýringsígilda (CO2í) á næstu 8 árum. Að auki hefur kolefnishlutleysi árið 2040 verið lögfest.

En aðgerðir stjórnvalda hafa undanfarið ekki verið í neinu samræmi við skuldbindingar og metnaðarfull markmið. Á ríkið getur fallið kostnaður sem nemur allt að 10 milljörðum kr. á ári náist samdráttarskuldbindingar ekki í tæka tíð og í því samhengi er rétt að vekja athygli á því að samkvæmt fjármálafrumvarpinu sem lagt var fram í vikunni áformar ríkið að greiða 800 milljónir kr. í ljósi vanefnda á þessu sviði. Nýkynnt fjárlagafrumvarp varpar ljósi á áform sem munu vinna harkalega gegn því að við stöndum við skuldbindingar. Allt útlit er fyrir að útsöluverð rafbíla muni hækka um þriðjung á næsta ári vegna aðgerða stjórnvalda.

LESA ALLA GREININA HÉR