Ekkert eftirlit með eftirlitinu?

Ekkert eftirlit með eftirlitinu?

Benedikt Benediktsson, lögfræðingur SVÞ skrifar í Fréttablaðið þann 9. september sl.

Aðvörun: Í þessari grein er orðið „eftirlit“ svo margtuggið að það mætti halda að engin hafi annast eftirlit með skrifunum. Það er í stuttu máli kórrétt og sennilega ámælisvert.

Ef maður gúgglar orðin „eftirlit brást“ fást fjölmargar leitarniðurstöður. Ef tekin eru handahófskennd dæmi virðast menn t.d. telja að eftirlit hafi brugðist á sviði starfsemi vistheimila, opinberra innkaupa, umhverfismála, heilbrigðismála, fjármálastofnana, rekstrar sendiráða, dýravelferðar og matvæla, fiskeldis, landamæragæslu og mannvirkjagerðar. Ef lesið er milli línanna vaknar oft grundvallar spurningin hvort það sé virkilega svo að engin hafi eftirlit með eftirlitinu? Margar ástæður geta reynst vera fyrir því að eftirlit bregst. Til að mynda taldi ein af rannsóknarnefndum Alþingis að slíka ástæðu mætti rekja til útbreidds skeytingarleysis í umgengni við eftirlit, skilningsleysi á því hvað gerir eftirlit virkt og trúverðugt og áhrifa pólitískra ráðninga. Önnur rannsóknarnefnd taldi ekkert mikilvægara en að eftirlitsaðilar væru óháðir og eftirlitsheimildir þeirra væru ótvíræðar.

Hvað gerist þegar eftirlit bregst?

Þegar eftirlit hefur brugðist getur komið til þess að Ríkisendurskoðun eða umboðsmaður Alþingis dragi af því ályktanir. Endapunkturinn er oft sá að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis ályktar um brestina. Fjölmiðlar taka við og við skrælingjarnir eigum ekki orð yfir því allsherjareftirlitsleysi sem ríkir. Sumir ganga svo langt að kalla eftir afsögn einhvers eða jafnvel refsingu. Það eru oft endalok málsins.

Af hverju gerum við þetta ekki betur?

En er ekki til skilvirkari leið til eftirlits með eftirliti en eftiráeftirlit sem skilar eftirlitsniðurstöðu sem efnislega felur í sér að einhver annar hafi brugðist við eftirlit? Svarið við spurningunni er jákvætt, bæði skilvirkara og vandaðra eftirlit með eftirliti er ekki bara til heldur er það í notkun á Íslandi. „HA!“ mundi einhver eflaust segja, „getur það verið?“

Um síðustu áramót voru 269.825 fólksbílar skráðir á Íslandi og eigendur þeirra fara með bílinn í reglulega skoðun á skoðunarstöð. Skoðunarstöðvum hefur verið falið að hafa eftirlit með því að ökutæki séu í ásættanlegu ásigkomulagi enda getur notkun þeirra verið frekar hættuleg. Til að skoðunarstöð sé heimilt að stunda bifreiðaskoðun þarf hún hafa hafa fengið svokallaða faggildingu. Í grófum dráttum er faggilding ekkert annað en vottorð um að starfsemi skoðunarstöðvarinnar sé í lagi, starfsmennirnir viti hvað þeir eru að gera og „eitthvað annað“ sé ekki að hafa áhrif á niðurstöðu skoðunar. Til að skoðunarstöð fái faggildingu og viðhaldi henni þarf hún að uppfylla ýmis skilyrði. Skilyrðin eru í grundvallaratriðum ákveðin á alþjóðlegum vettvangi og stefna þau að því að auka traust neytenda á vörum og þjónustu. Þegar ég fer með bílinn í skoðun get ég treyst því að einhver hefur eftirlit með skoðunarstöðinni. Því þarf ég ekki að hafa áhyggjur af því að kaupa köttinn í sekknum og haldi út á þjóðveginn á stórhættulegu tæki eða labbi ella heim eftir að skráningarnúmerið hefur að ósekju verið fjarlægt af bílnum.

Og hvað svo?

En þá kynni einhver að spyrja: „Fyrst fargsnyrpling er til (Innskot: Það getur verið erfitt að muna orðið faggilding) af hverju hafa ekki allir eftirlitsaðilar faggildingu?“. Á því eru margar skýringar og meðal þeirra eru lítil meðvitund um tilvist faggildingar, takmarkaður skilningur á faggildingu, m.a. af hálfu stjórnvalda og neytenda, og sérstakur áhugi þeirra sem hafa eftirlit á því að sæta ekki of miklu eftirliti sjálfir og þá helst aðeins eftirliti frá þeim sem þeir þekkja.

Af blómaverslunum, dyntóttum mönnum og óbreytanlegum ríkisvilja

Af blómaverslunum, dyntóttum mönnum og óbreytanlegum ríkisvilja

Benedikt S. Benediktsson, lögfræðingur SVÞ skrifar í Fréttablaðið þann 26. ágúst sl.:

Blóm gleðja

Sennilegast eru fáir sem heimsækja blómaverslanir daglega en þeim virðist þó hafa fjölgað sem kaupa blóm og plöntur í því skyni að fegra heimilið eða gleðja aðra. Ég leyfi mér að halda því fram að minningar manna um ferðir í blómaverslanir snúi fyrst og fremst að ferðum í litlar og huggulegar blómaverslanir sem eru reknar af fólki sem er annt um blóm og plöntur og hefur mikla þekkingu á hvernig ber að setja þær fram og annast þær. Flestar blómaverslanir eru litlar, oft einstaklings- eða fjölskyldufyrirtæki. Blóm gleðja og starfsfólk blómaverslana eyðir starfsorkunni í að gera einmitt það að verkum, að við gleðjumst.

Grunnrekstur blómaverslunar er ekki margbrotinn. Viðskiptavinir sækja þangað blóm og plöntur og e.t.v. gjafarvörur og tækifæriskort. Það er tilvistarforsenda blómaverslana að meginsöluvörurnar séu til staðar. Söluvörurnar eru í eðli sínu ferskvörur og eðlilega hafa blómaverslanir sóst eftir því að bjóða upp á vörur sem eru framleiddar á Íslandi.

Hvaðan koma blómin og plönturnar?

Eitt sinn gátu blómaverslanir keypt vörur beint frá bónda en það er ekki lengur hægt. Vilji blómaverslanir hafa íslenskar vörur á boðstólum þurfa þær að kaupa þær í tveimur blómaheildverslunum. Hjá þeim mæta blómaverslanir oft afgangi. Fyrir stóra viðskiptadaga eins og konudaginn hefur þeim jafnvel aðeins staðið til boða fyrirframákveðinn og mjög smár skammtur af söluvörum.

Auðvitað gerist það reglulega í viðskiptum að viðskiptavilji dvínar og við því bregðast menn oft með því að beina viðskiptunum annað. Vegna stöðunnar geta blómaverslanir aðeins snúið sér til erlendra birgja. En í innflutningnum er enn eina hindrunina að finna; þau blóm og plöntur sem blómaverslanir þurfa á að halda bera afar háa skatta.

Hlutur ríkisins í gleðinni

Ég held að fæstir geri sér grein fyrir því að þegar þeir kaupa eina rós í blómaverslun þá hefur verslunin e.t.v. þegar greitt nálega 150 kr. í tolla og virðisaukaskatt af blómi sem kostaði 80 kr. í innkaupum. Enn ýktari dæmi mætti taka, sum blóm kosta 25 kr. í innkaupum en hið opinbera hefur fengið nálega 130 kr. þegar varan er boðin til sölu.

Svona hefur þetta að meginstefnu verið í tuttugu og fimm ár hið minnsta. Ríkisvaldið ákvað að innlendir blóma- og plöntuframleiðendur skyldu njóta verndar fyrir samkeppni erlendis frá. Verndin er í formi svo hárra tolla að engin kemst yfir nema fuglinn fljúgandi. Á þessum tíma hefur hins vegar margt breyst. Neytendur vilja allt önnur blóm og plöntur, innlendum framleiðendum hefur fækkað verulega, blómaverslunum hefur fækkað, aðrar verslanir en blómaverslanir eru með blóm á boðstólum, blómaverslanir geta ekki lengur keypt beint af bónda og heildsölurnar ráða ferðinni.

Tvær kylfur og engin gulrót

Ekki hafa orðið teljandi breytingar á tollum af blómum og plöntum. Þegar gerðir hafa verið fríverslunarsamningar virðist þess jafnan hafa verið gætt að blómaverslanir og viðskiptavinir þeirra njóti ekki góðs af þeim. Þegar alþjóðasamfélagið felldi niður tolla af vörum sem koma frá fátækustu ríkjum heims var gengið sérstaklega úr skugga um íbúar þeirra kæmust ekki upp með að selja blómaverslunum afskorin blóm á hagstæðu verði.

Það má með sanni segja að umhverfi blómaverslana sé undarlegt. Hvorki innlendir birgjar né ríkisvaldið virðist hafa áhuga á að þær séu starfandi. Viðskiptavilji getur verið sveiflukenndur enda eru menn stundum dyntóttir. Afstaða ríkisvaldsins hefur hins vegar verið óbreytanleg og ósanngjörn.

 

Verslunin gengur almennt vel

Umdeild veltutrygging Borgunar

Í umfjöllun Vísis þann 4. ágúst um nýja skilmála Borgunar um veltutryggingar segir Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri SVÞ að ekki sé nokkur leið að verða við þeim. „Eins og við skiljum þetta ná þessir skilmálar til allra atvinnugreina, ekki bara ferðaþjónustunnar. Það er alveg ljóst að okkar mati að þetta eru skilmálar sem er ekki nokkur leið að samþykkja. Hvorki fyrir okkur né aðra.“

Lesa má umfjöllunina í heild sinni hér. 

Í kjölfarið bárust þær upplýsingar frá Borgun að veltutryggingin eigi eingöngu við viðskiptavini Borgunar sem fengu tölvupóst um málið. Hér má lesa framhaldsumfjöllun Vísis um málið þann 5. ágúst.

Vöruskortur vegna kórónufaraldursins

Vöruskortur vegna kórónufaraldursins

Í tíufréttum á RÚV 29. júlí sl. var fjallað um að eitthvað hafi borið á vöruskorti í verslunum vegna kórónufaraldursins. Í umfjölluninni er m.a. rætt við Andrés Magnússon, framkvæmdastjóra SVÞ sem segir að það geti komið upp tilvik þar sem ekki sér eðlilegt framboð á vörum en þó sé ekki hægt að tala um vöruskort sem slíkan heldur sé frekar um að ræða gífurlega eftirspurn eftir vörunni.

Smelltu hér til að horfa á fréttina sem hefst á 04:34

 

Hefur áhyggjur af litlum og meðalstórum netverslunum

Hefur áhyggjur af litlum og meðalstórum netverslunum

Í ViðskiptaMogganum 29. júlí sl. birtist eftirfarandi viðtal við markaðs- og kynningarstjóra SVÞ, Þórönnu K. Jónsdóttur:

Þóranna K. Jónsdóttir, markaðs- og kynningarstjóri Samtaka verslunar og þjónustu, segir í samtali við ViðskiptaMoggann að erfitt sé að spá með langtímaáhrif hér á landi af uppgangi netverslunar í kórónuveirufaraldrinum, en vegna samkomubanns jukust viðskipti við netverslanir umtalsvert á tímabilinu. „Ég held að breytingin verði meiri víða erlendis þar sem samkomubannið stóð mun lengur,“ segir Þóranna. „Samkomubannið varði styttra hér og því höfðum við ekki eins langan tíma til að festa þetta í sessi.“

Þóranna segist ekki hafa áhyggjur af stóru aðilunum á markaðnum, sem voru margir komnir vel af stað með sínar netverslanir fyrir faraldurinn. Það séu þeir litlu og meðalstóru, sem hún hafi áhyggjur af. „Því miður hafa kannanir hér sýnt að notendaupplifun af íslenskum netverslunum er ekki nógu góð, samanborið við erlendar vefverslanir. Það sem maður hefur áhyggjur af er að þeir sem ruku til og settu upp netverslanir þegar faraldurinn fór af stað, og sáu þar mikil tækifæri, falli aftur í sama farið, og haldi ekki dampi. Það mun þá enn frekar skemma fyrir notendaupplifuninni. Fólk er fljótt að dæma íslenskar netverslanir heilt yfir ef það upplifir ekki jafn góða þjónustu og það fær í erlendum netverslunum. Við erum mjög uggandi yfir því að þróunin verði sífellt meira í átt að erlendri netverslun, á kostnað innlendrar. Það hefur svo áhrif út í allt hagkerfið, á störf og verðlag hér á landi.“

Spurð að því hvað íslenskar netverslanir geti gert til að skapa sér sérstöðu í samkeppninni við erlendar netverslanir, segir Þóranna ákveðna vernd felast til dæmis í nálægðinni hér á landi. Hún segir að tölur frá Þýskalandi og Bretlandi sýni að mikið sé um að fólk skili vörum sem það kaupir í vefverslunum. „Þetta eru oft gríðarlega háar tölur. Það er ekki óalgengt að fólk kaupi kannski fimmtán hluti á netinu í einu, og skili svo tólf til baka, enda er þröskuldurinn mjög lágur, með frírri endursendingu til dæmis.“

Hún segir ákveðna vernd felast í því hérlendis að þó svo að Íslendingar panti mikið erlendis frá þá hiki þeir við pantanir, því vöruskil eru ekki eins auðveld.

Omni Channel nauðsynleg

Annað sem Þóranna nefnir er samþætting notendaupplifunarinnar (e. Omni Channel). „Með því að samþætta upplifun viðskiptavina, hvort sem er í netverslun, á samfélagsmiðlum, í hefðbundinni verslun og á öðrum vígstöðvum samtímis, getum við boðið betri þjónustu, með meiri nálægð við viðskiptavininn.“

Þóranna segir að íslensk netverslun lifi ekki af nema tileinka sér Omni Channel-hugmyndafræðina. Með henni skapist tækifæri til að byggja upp samband sem orðið getur miklu sterkara en netverslanir eins og Amazon og ASOS hafi tækifæri til að byggja upp. „Þessir aðilar verða alltaf bara á netinu úti í heimi.“

Sem dæmi um aðila sem hefur unnið að uppbyggingu Omni Channel-aðferðafræði hér á landi er verslanamiðstöðin Kringlan, en í október í fyrra hleypti hún af stokkunum nýjum vef þar sem neytendur geta flett upp yfir 100 þúsund vörum frá um 70 verslunum. „Margir íslenskir neytendur gera sér kannski ekki enn grein fyrir hvað er þarna í boði. En þarna má samt sjá dæmi um hvað hægt er að gera á Íslandi til að ná forskoti á erlendu aðilana.“

Þóranna segir að vissulega geti verið erfitt að keppa við erlend risafyrirtæki á sviði netverslunar, sem eru með nær ótakmörkuð fjárráð og vinnuafl. Því ríði á að byrja smátt, ódýrt og einfalt, og byggja svo stöðugt ofan á. „Hér áður fyrr settu menn kannski upp netverslun, og sinntu henni svo ekkert á löngum tímabilum. Í dag verður einfaldlega að hugsa þetta sem stöðuga vegferð, og að vera alltaf að bæta sig. Hugarfarið skiptir öllu máli.“

Þóranna segir það ekki þurfa að vera svo að netverslun sé eingöngu kostnaður og nefnir netverslun Nettó sem dæmi, en þar á bæ hafi menn frá upphafi nálgast verkefnið með því hugarfari að láta verslunina vera réttu megin við núllið. Það hafi tekist. „Nettó fór í samstarf við Aha.is varðandi netverslunina sjálfa og dreifinguna, en Nettó sinnir matvöruhlutanum.“

Spurð um það sem snýr að dreifingunni, segir Þóranna að það sé vandamál alls staðar. Hins vegar sé mikil framþróun í gangi á því sviði, bæði hér á landi og erlendis. Nefnir hún sem dæmi öfluga nýsköpun bæði hjá Aha.is og Íslandspósti. Pósturinn sé sem dæmi að fjölga boxum sem hægt verður að sækja vörur í hvenær sem er sólarhringsins, og Aha.is sé með öfluga þróun á sendingum með drónum.

Hæfnisetur í undirbúningi

Spurð að því hvort SVÞ ætli sér að aðstoða smærri og millistóra aðila á markaðnum við að fóta sig á sviði netverslunar, segir Þóranna að samtökin hafi undanfarin misseri haft stafræna þróun í forgangi, og unnið sé að ýmsum aðgerðum í þeim málum, m.a. í samstarfi við Háskólann í Reykjavík, VR og íslensk stjórnvöld. Von sé á frekari fréttum af þeirri vinnu með haustinu.

„Okkar nágrannalönd eru öll komin mun framar en við í þessum efnum, og við getum lært af þeim. Við erum núna til dæmis að skoða hvernig hægt er að fjármagna stafrænt hæfnisetur í samstarfi við þessa aðila. Hluti af því sem þar verður mun gagnast meðal annars netverslunum, stórum og smáum en setrið mun geta eflt fyrirtæki á flestum sviðum. Þetta snýst líka um samkeppnishæfni þjóðarinnar til framtíðar. Ef við sofnum á verðinum, endum við á að vera föst í torfkofunum.“