Samskiptareglur milli lækna og lyfjafyrirtækja hafa sannað gildi sitt

Samskiptareglur milli lækna og lyfjafyrirtækja hafa sannað gildi sitt

Við setningu Læknadaga 2020 í Hörpu skrifuðu Reynir Arngrímsson, formaður Læknafélags Íslands, og Jakob Falur Garðarsson, framkvæmdastjóri Frumtaka, undir uppfærðan samning um samskipti lækna og fyrirtækja sem framleiða og flytja inn lyf. Siðareglurnar byggja á nýuppfærðum reglum EFPIA – Evrópusamtaka frumlyfjaframleiðenda og Frumtaka um samskipti við heilbrigðisstarfsfólk, heilbrigðisstofnanir og sjúklingasamtök.

Nokkur reynsla er komin á reglur sem þessar og hafa þær sannað gildi sitt í því að eyða tortryggni og taka af vafa um mörk í samskiptum framleiðenda lyfja og heilbrigðisstarfsfólks. Samkomulagið sem nú hefur verið uppfært og undirritað byggir á grunni fyrra samkomulags frá árinu 2013.

Sjá má umfjöllun um málið á Hringbraut/Fréttablaðinu hér.

Lögreglan ekki nægilega vel búin til að taka á þjófnaðarvandanum

Lögreglan ekki nægilega vel búin til að taka á þjófnaðarvandanum

Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri SVÞ, var í viðtali hjá Reykjavík síðdegis á Bylgjunni 2. janúar sl. þar sem hann ræddi jólaverslunina og talningar en fyrst og fremst um þjófnað í verslunum. Þjófnaður í verslunum er skipulögð glæpastarfsemi og erlend glæpagengi koma gagngert til landsins til að stunda þessa iðju. SVÞ hefur verið í stöðugu sambandi við lögregluyfirvöld vegna þessara mála en réttarvörslukerfið er einfaldlega ekki tæknilega nógu vel búið til að bregðast við þessum vanda. SVÞ hefur nýlega átt fund með dómsmálaráðherra og mun halda áfram að þrýsta á yfirvöld að tryggja að réttarvörslukerfið hafi þann tæknibúnað og annað sem til þarf til að taka á þessum málum. Ljóst er að tjón og kostnaður vegna þjófnaðar og öryggismála veltur á milljörðum á ársgrundvelli sem óhjákvæmilega hefur áhrif á rekstur verslana og þar með verðlag.

Verið er að skipuleggja félagsfund með lögreglu um málið. Við hvetjum SVÞ félaga til að fylgjast vel með viðburðadagatalinu, tölvupóstinum og á samfélagsmiðlunum: Facebook, Twitter, LinkedIn.

SMELLTU HÉR TIL AÐ HLUSTA Á VIÐTALIÐ

20-30% verslunar verður komin á netið innan skamms tíma

20-30% verslunar verður komin á netið innan skamms tíma

Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri SVÞ, mætti Í bítið á Bylgjunni á þrettándanum til að ræða breytingar í verslun, greiðslumiðlanir og stafræna þróun. Þróunin hérlendis fylgir erlendri þróun þar sem aukning er í netverslun og verslunarrými breytast, bæði hvað varðar stærðir og tilgang, en við erum þó seinni til. Greiðslumiðlanir eru í auknum mæli að færast frá greiðslukortum yfir í smáforrit (öpp) og risar á borð við Facebook, Google og Apple eru ýmist komin inn á greiðslumiðlunarmarkaðinn eða í startholunum. SVÞ fylgist náið með þessum málum sem og öðru sem fylgir stafrænni þróun s.s. breytingum á eðli starfa og upplýsir og styður við fyrirtæki innan sinna raða.

SMELLTU HÉR TIL AÐ HLUSTA Á VIÐTALIÐ

Hugarfarsbreyting er stærsta áskorunin

Hugarfarsbreyting er stærsta áskorunin

Eftirfarandi grein eftir Andrés Magnússon, framkvæmdastjóra SVÞ, birtist í Kjarnanum 29. desember sl.:

Það er sama hvert við horfum í atvinnulífinu, til lítilla fyrirtækja jafnt sem stórra, innan verslunar og þjónustu, ferða- og fjármálaþjónustu, stafræn tækni er að innleiða gríðarlegar breytingar. Allt frá litlum fyrirtækjum með heimasíður, og tímabókanir á netinu til stórfyrirtækja með vöruhús í umsjón vélmenna eða bálkakeðjutækni í flutningum, ekkert fyrirtæki er ósnortið af stafrænni tækni. Íslensk fyrirtæki eru þarna ekki undanskilin. Eins og staðan er í dag eiga íslensk fyrirtæki hinsvegar verulega á hættu að dragast aftur úr og verða ósamkeppnishæf í nútímaumhverfi. Fyrsta skrefið er að átta sig á að nauðsyn þess að taka þátt í þessari þróun af fullum þunga – hið nauðsynlega skref er hugarfarsbreyting.

Stafræn þróun snýst um mun fleira en kaup á tölvum, tækjum og forritum. Stafræn þróun á erindi við alla innan fyrirtæksins, ekki eingöngu tölvudeildina. Stafræn þróun snýst um grundvallarbreytingu á því hvernig við nálgumst viðskipti. Virðiskeðjur og viðskiptamódel eru að taka gagngerum breytingum og mörkin milli vöru og þjónustu verða sífellt óskýrari. Stafræn þróun kallar á breytingar sem ganga í gegnum fyrirtækið allt og því þarf stjórnun, menning, þróun ferla og uppbygging á hæfni að taka hana með í reikninginn á öllum stigum. Þetta snýst um algjörlega breytt hugarfar þar sem fyrirtæki hugsa alla starfsemi sína út frá viðskiptavininum og því að nýta stafræna tækni alls staðar þar sem hún á við. Viðskiptavinirnir gera kröfur sem alþjóðlegir samkeppnisaðilar okkar mæta og mæta þeim vel. Viðskiptavinir vilja fá lausnir sniðnar að persónulegu þörfum sínum, þeir vilja skjóta afgreiðslu og framúrskarandi þjónustu. Þeir vita að þetta er allt hægt – þau fá þetta frá Amazon, Aliexpress og Asos! Þessi og sambærileg fyrirtæki eru þau sem íslenskar nútímakynslóðir alast upp við að eiga viðskipti við. Þetta er samkeppnisumhverfi íslenskra fyrirtækja – einnig þeirra sem eru aðeins með þrjá starfsmenn og ætla sér ekki að þjónusta annað en sitt nærumhverfi. Staðreyndin er sú, að til þess að vera samkeppnishæf verða íslensk fyrirtæki að hafa getu til og vera tilbúin til að aðlaga starfsemi sína að þörfum og óskum viðskiptavina í sama mæli og öll önnur fyrirtæki. Þau verða að finna leið til að keppa við alþjóðlegu risana.

Öll þau lönd sem við horfum hvað helst til hafa markað sér stefnu í stafrænum málum. Stór þáttur í þeirri stefnumörkun eru aðgerðir til að efla fyrirtæki í stafrænni þróun svo að þau geti verið samkeppnishæf. Svíar og Danir hafa sett sér skýr markmið um að vera í fremstu röð í stafrænum heimi. Stefnumörkun í þessum málum er ekki síður mikilvæg en stefnumörkun í nýsköpun sem nýlega hefur verið sett fram af Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu. Gera má ráð fyrir að þær aðgerðir sem ráðist verður í á grunni nýsköpunarstefnu og stefnu í stafrænum málum verði á margan hátt samþættar og styðji hvor við aðra.

Þrátt fyrir að við séum fámenn þjóð þýðir það ekki að við getum ekki tekist á við þessar áskoranir. Færa má rök fyrir því að einmitt þess vegna séum við betur í stakk búin til að mæta þeim þar sem boðleiðir eru styttri og ákvarðanataka hraðari. Eistland, svo dæmi sé tekið, er með rúmlega 1,3 milljónir íbúa og með skýrri stefnu og markvissri ákvarðanatöku hafa þeir raðað sér fremst í flokk í stafrænni stjórnsýslu. Við íslendingar gætum allt eins markað slíka stefnu og fylgt henni eftir.

Stóru áskoranirnar í stafrænum heimi eru þekking og fjármagn. Nágrannalönd okkar eru þegar farin að vinna að þessum málum með fjárhagslegum stuðningi við stafræna þróun í formi styrkja, lána og eflingu þekkingar bæði innan almenna menntakerfisins en ekki síður með sí- og endurmenntun.

Ljóst er að miklar breytingar verða á ýmsum störfum á allra næstu árum, sem þarf ekki að vera neikvætt eða nokkuð sem ástæða er til að óttast. Stafræn þróun skapar störf um leið og hún gerir önnur störf óþörf. Áskorunin felst í því að gera fólk fært um að sinna þessum nýju störfum.

Mikilvægast af þessu öllu er samt sem áður hugarfarið. Með breyttu hugarfari erum við í stakk búin til að takast á við hinn nýja veruleika og taka honum fagnandi og sjá tækifærin sem í honum felast. Við verðum að marka okkur stefnu og grípa til markvissra aðgerða til að tryggja samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs í hinum alþjóðlega stafræna heimi. Það eina sem hægt er að ganga að sem vísu eru breytingar – sífellt hraðari breytingar.

SVÞ mun á næsta ári hafa forgöngu um vinnu sem nauðsynleg er til að íslensk fyrirtæki verði í stakk búin til að keppa í heimi nýrrar stafrænnar samkeppni.

Smelltu hér

Verkin vega þyngra en orðin

Verkin vega þyngra en orðin

Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri SVÞ, skrifar í Kjarnann í dag, föstudaginn 20. desember:

Við lestur greinar sem framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda (FA) skrifaði í Kjarnann í gær kemst maður ekki hjá því að álykta sem svo að hann hafi fundið til sviða við lestur greinar minnar í Morgunblaðinu 19. desember sl. Meðal annars sakar framkvæmdastjórinn mig um „að skrifa gegn betri vitund“, fara með „rökleysu“ og jafnvel aðhyllast lagabreytingar sem muni leiða af sér vöruskort. Í greininni reifar framkvæmdastjórinn efni umsagna FA um umrætt lagafrumvarp ráðherra um breytingu á ýmsum lagaákvæðum um tollkvóta fyrir innfluttar landbúnaðarafurðir og bendir á eitt og annað sem þar hafi komið fram máli sínu til stuðnings.

Hugsanlega var meginefni greinar minnar frá 19. desember sl. ekki nógu skýrt í huga framkvæmdastjórans og því tel ég rétt að koma útskýringu á framfæri.

Það ætti öllum að vera ljóst að breytingar á regluverki sem snertir búvöruframleiðslu með einum eða öðrum hætti eru viðkvæmar og erfiðar viðfangs. Hagsmunir bænda og búgreina njóta jafnan ríks stuðnings meðal þingmanna. Af þeim sökum hafa verið tekin afar stutt skref í átt sem gagnast gæti neytendum. Það er ekki annað hægt en að ætla að þessu hafi framkvæmdastjórinn gert sér grein fyrir.

Það væri hægt að eyða mörgum orðum í umfjöllun um hvort mikill munur sé á afstöðu FA og SVÞ til einstakra atriða lagafrumvarps ráðherra. Til að mynda lýstu SVÞ einnig efasemdum um niðurstöðu starfshóps um úthlutun tollkvóta landbúnaðarráðherra og töldu tillögu fulltrúa Neytendasamtakanna mun betri en sú sem endaði í frumvarpinu. Þá hafa SVÞ jafnframt lýst því yfir að árstíðarbundin og föst úthlutun tollkvóta fyrir tilteknar vörur gæti ekki orðið óbreytanleg og varanleg lausn. Slík umfjöllun eða samanburður mundi hins vegar ekki bæta neinu við. Ástæðan er sú að grundvallarmunurinn á afstöðu SVÞ og FA til lagafrumvarps ráðherra birtist einfaldlega ekki í umsögnum eða annarri opinberri umfjöllun heldur í gjörðum FA. Þrátt fyrir að FA hafi, líkt og SVÞ, síst talið frumvarpið gallalaust viðurkennir framkvæmdastjórinn það beinlínis í grein sinni að neytendur munu hið minnsta njóta tímabundins ávinnings af því breytta útboðsfyrirkomulagi tollkvóta sem nú hefur verið lögfest. SVÞ taldi að með því væri stigið skref í rétta átt þó vissulega hefði skrefið mátt vera annað og stærra. Umsögn FA um frumvarpið verður í ljósi greinar framkvæmdastjórans ekki skilin öðruvísi en að félagið hafi alfarið hafnað því skrefi. Lokahnykkinn rak FA svo  með þátttöku í yfirlýsingu sem framkvæmdastjóranum gat ekki dulist að mundi valda vatnaskilum. Enda fór svo að meiri hluti atvinnuveganefndar setti fram tillögur sem styttu skrefið enn meira en ráðherra lagði upp með. Við það tilefni gaf framsögumaður málsins, alþingismaðurinn Halla Signý Kristjánsdóttir frá sér yfirlýsingu þar sem eftirfarandi kom m.a. fram:

„[…] undirrituð fullyrðir að þær gagnrýniraddir sem bárust frá ólíkum hagsmunasamtökum bænda, félagi atvinnurekanda og neytendasamtökunum fengu framsögumann málsins til að taka í handbremsuna en með seiglunni og góðs stuðnings þingflokksins náðist að koma þeim í höfn.“

Þrátt fyrir alla ágallana á lagafrumvarpi ráðherra var það eindregin skoðun SVÞ að á heildina litið mundi samþykkt þess skila neytendum ábata. Mat ráðherra var að sá ábatinn gæti numið 240–590 milljónum króna á ári. SVÞ hafði ekki forsendur til að rengja það mat og ekki verður séð að það hafi FA heldur gert. Slíkur ábati hefði vissulega ekki verið nein himnasending en þó skref í rétta átt.

Nú hefur Alþingi fengið frumvarpinu lagagildi og virðist yfirlýsing FA hafa átt ríkan þátt í því að neytendaábatanum var að miklu leyti varpað fyrir róða.

Það var í framangreindu samhengi sem ég leyfði mér að vísa til svohljóðandi kínversks málsháttar í grein minni hinn 19. desember sl.: Það heyrist jafnan meira í því sem þú gerir en í því sem þú segir. Í efnissamhengi greinarinnar var merkingin sú að það skiptir í raun ekki máli þó þú berjist opinberlega fyrir tilteknum sjónarmiðum ef gjörðir þínar bera vott um að annarskonar hagsmunir ráði för.