14/03/2023 | Fréttir, Í fjölmiðlum, Verslun, Þjónusta
Fyrirtæki milli steins og sleggju
„Það sem við er að glíma núna ef við horfum fyrst og fremst á matvöru- og dagvörugeirann, hvort sem það er heildsala eða smásala, þá höfum við aldrei fengið eins miklar hækkanir erlendis frá eins og á síðasta ári. Ástæðurnar eru flestum kunnar. Bæðið eftirmálar Covid-19 heimsfaraldursins og stríðið í Úkraínu leiddu af sér að heimsmarkaðsverð á hvers kyns hrávöru hækkaði verulega. Það er að stórum hluta orsök þeirrar innfluttu verðbólgu sem við höfum verið að glíma við.“ segir Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu í Morgunblaðinu í dag, 14. mars.
Verðhækkanir í pípunum – viðtal við Andrés Magnússon, framkvæmdastjóra SVÞ í Morgunblaðinu 14.mars 2023.
SMELLIÐ HÉR TIL AÐ LESA FRÉTTINA INNÁ MBL.IS
12/03/2023 | Fréttir, Í fjölmiðlum, Menntun, Stafræna umbreytingin, Umhverfismál
Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu var á Sprengisandi í morgun þar sem hann sagði m.a. frá þeim áskorunum sem verslun og þjónustugreinar standa frammi fyrir í málefnum sjálfbærnis, starfrænnar þróunar og framtíðarhæfni starfsfólks.
Talaði Andrés m.a. útfrá McKinsey & EuroCommerce skýrslunni sem kom út á haustmánuðum 2022 [Smella hér fyrir skýrsluna] en á ráðstefnu SVÞ ‘Rýmum fyrir nýjum svörum’ sem haldin verður á Hilton, Nordica Hóteli n.k. fimmtudag, 16.mars n.k. verður kafað nánar ofaní þessi þrjú áherslumál samtakanna.
[SMELLIÐ HÉR FYRIR NÁNARI DAGSKRÁ & SKRÁNINGU Á RÁÐSTEFNU]
[SMELLIÐ HÉR TIL AÐ HLUSTA Á VIÐTAL Á SPRENGISANDI]
15/02/2023 | Fréttir, Í fjölmiðlum, Verslun
Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri SVÞ – Samtök verslunar og þjónustu var í viðtali á Bylgunni í bítið í morgun þar sem hann m.a. hvatti fólk til þess að vera ekki að hamstra vörur í verslunum. Andrés talaði einnig um alvarleikan í stöðunni í baráttu SA og Eflingar.
SMELLTU HÉR til að hlusta á allt viðtalið.
11/02/2023 | Fréttir, Í fjölmiðlum, Verslun, Þjónusta
Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu, segir í samtali við Morgunblaðið í viðtali sem birtist í dag, 11.febrúar 2023 að blikur á lofti í versluninni sem þurfi að takast á við vaxtahækkanir og verðbólgu.
„Við óttumst jafnframt að verðhækkanir á erlendum mörkuðum á síðari hluta síðasta árs séu ekki að fullu komnar fram, enda er hækkandi hrávöruverð lengi að birtast í vöruverði. Þessar hækkanir eru mikið til bein afleiðing af stríðinu í Úkraínu og þá eru framleiðslukerfin í heiminum ekki að fullu komin í eðlilegt ástand eftir heimsfaraldurinn.“
Mikilvægi sjálfvirkni í versluninni.
Andrés bætir við að dýra kjarasamninga, lífskjarasamninginn 2019 og nýafstaðinn samning, þrýsta á aukna notkun sjálfvirkni í versluninni. Jafnframt muni hækkandi húsnæðiskostnaður draga úr spurn eftir atvinnurýmum.
SMELLTU HÉR TIL AÐ LESA ALLT VIÐTALIÐ!
31/01/2023 | Fréttir, Í fjölmiðlum, Verslun
Skipulagðir hópar stela fyrir milljarða!
Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu, var gestur Kveiks í kvöld þar sem sérstaklega var tekið fyrir hnupl í verslunum. Andrés benti þar á: Að reikna megi með því að hnupl úr búðum jafngildi einu prósenti af veltu í smásölu. Heildarveltan þar er sex hundruð milljarðar króna. „Þannig að við getum reiknað með að þetta séu svona sex milljarðar sem fara í súginn með þessum hætti,“ segir Andrés.
Andrés segist hafa meiri áhyggjur af eðli starfseminnar, því hún beri þess öll merki að vera skipulögð brotastarfsemi og bætir við; „Eins og þetta horfir við okkur þá eru send hérna gengi af glæpahópum erlendis til að stunda svona starfsemi. Og eftir að það er kannski búið að taka handtaka þau tvisvar eða þrisvar fyrir brot af þessu tagi eru þau horfin á braut, koma aldrei til Íslands aftur, vonlaust að ná í þau og aðrir komnir á vaktina.“
SMELLTU HÉR til að horfa á allan þáttinn.
09/01/2023 | Fréttir, Greinar, Í fjölmiðlum
Grein er birtist í Morgunblaðinu 7.janúar 2023 frá formanni SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu
Strengjum áramótaheit
Flestum líður best í stöðugu ástandi og bera jólahefðir þess merki. Við endurtökum leikinn ár eftir ár, sama steikin, sömu jólalögin og sama fjölskyldan safnast saman í jólaboðum. Við horfum á sömu kvikmyndirnar og meðtökum sama boðskapinn. Jafnvel á Tene snæddu íslenskir ferðamenn skötu og jólahangikjöt. Svo sprengjum við okkur leið út úr árinu og inn í nýtt ár, byrjum að nýju eftir að hafa rifjað upp liðið ár undir leiðsögn höfunda áramótaskaups og fréttaannála.
Eins og flestir standa atvinnurekendur á tímamótum um áramót. Rekstrarári lýkur og nýtt tekur við. Ársreikningur mun endurspegla athafnir fyrra árs en áætlunum er ætlað að skapa vissan fyrirsjáanleika um gerðir þess næsta. Liðnu ári er ekki unnt að breyta, atburðir þess eru orðnir að reynslu. Nú þarf að huga að því hvernig næsta ár mun þróast.
2022 ár árskorana fyrir fyrirtæki landsins.
Árið 2022 var fyrirtækjum ár áskorana. Snemma árs losnuðu allir sem betur fer undan beinum áhrifum sóttvarnarráðstafana, samkomutakmarkana og jafnvel lokana. Óbeinu áhrifin sitja þó í mörgum tilvikum eftir í formi hás innkaupsverðs vara og jafnvel birgðaskorti. Það bættist í safn áskorana þegar stríðsrekstur Rússa hófst í Úkraínu. Enn hækkaði innkaupsverð og í mörgum tilvikum þurfti að leita á ný mið við öflun vara. Það brotnuðu keðjulásar í virðiskeðju heimshagkerfisins. Allir sitja uppi með þá staðreynd að verðbólgudraugurinn er genginn aftur.
Það er verkefni ríkisstjórnar, Alþingis og sveitarfélaga að stýra þjóðarskútunni í átt að lygnari sjó og verkefni seðlabankans að lægja öldur peningamála. Í ýmsu tilliti tryggðu stjórnvöld að skipið hélt vel vatni þegar heimsfaraldurinn stóð sem hæst. Fyrirtækjum í nauð voru sendar líflínur sem drógu úr neikvæðum áhrifum á launþega. Á heildina litið tókst fyrirtækjum í verslun og þjónustu vel til, almenningi og öðrum fyrirtækjum til heilla. Breyttar áherslur neytenda urðu þess valdandi að hlutur stafrænnar verslunar og þjónustu hefur aukist og samfara hafa skapast tækifæri til hagræðingar og frekari breytinga. Ætla má að reynslan hafi gert fyrirtækin betur í stakk búin til að takast á við breytingar en áður. Við erum komin í var undir Grænuhlíð og þó dregið hafi úr storminum eru veðurhorfur hið minnsta óljósar.
Kjarasamningar á óvissutíma.
Í ljósi óvissu varð gildistími gerðra kjarasamninga frekar stuttur og því munu viðræður um það sem við tekur hefjast á árinu. Á sama tíma eru hagvaxtar- og verðbólguhorfur í Evrópu dökkar og á heimsvísu útlit fyrir að verulega hægi á vexti. Hækkandi orkuverð og hækkandi vextir geta dregið hratt úr erlendri neyslu og fjárfestingu. Ferðamönnum er tekið að fjölga að nýju en ferðaþjónustan er enn að rétta úr kútnum. Við fyrirtækjum í þeim geira blasa þau verkefni að bæta skuldastöðu og efla eigið fé til rekstrar og uppbyggingar. Við fyrirtækjum í verslun og þjónustu blasa fordæmalausar og kostnaðarsamar breytingar í ljósi tækniþróunar, áherslna á sjálfbærni og þörf á að efla þekkingu starfsfólks. Forsendur verðmætasköpunar eru í ýmsu tilliti brothættar.
Vonir um bjarta framtíð munu aðeins raungerast ef allir leggja sitt af mörkum. Sjaldan hefur þörf fyrir ábyrgt mat seðlabankans verið sterkari. Undir þessum kringumstæðum þurfa ríkisstjórnin, Alþingi og sveitarfélög í sameiningu að tryggja skynsamlegar forsendur til skemmri og lengri tíma. Í því samhengi eru jákvæð áhrif á hagkerfið lykilorðin. Fjárfesting þarf að styðja hagræðingu og verðmætasköpun og endurskoðun tekjuöflunar þarf að tryggja eðlilega þátttöku í kostnaði. Til að mynda þarf að huga betur að orkuskiptum í landi hagstæðs orkuverðs og á tímum umbreytinga er endurskoðun forsendna fasteignaskatts, tekjustofns sveitarfélaga, afar brýn. Þá gegna aðilar vinnumarkaðarins vissulega afar mikilvægu hlutverki. Þeir þurfa m.a. að tryggja að til staðar séu forsendur til hagræðingar í rekstri svo atvinnurekendum verði betur fært að mæta hækkandi rekstrarkostnaði án víðtækra áhrifa á verðlag. Í sama skyni þurfa neytendur að sýna því skilning að samhengi er milli kostnaðar sem hlýst af háu þjónustustigi og verðlagningar vöru og þjónustu.
Búum afkomendum okkar stöðugt efnahagslíf.
Ekki eru alltaf jólin en jólatíðin kemur sem betur fer alltaf aftur. Þess á milli sköpum við ró með efnahagsástandi sem gerir okkur fært að takast á við mögulegar áskoranir. Við skulum saman strengja þess heit að búa afkomendum okkar stöðugt efnahagslíf og von um góða framtíð.
Höf. Jón Ólafur Halldórsson, formaður SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu.