Vegna misvísandi upplýsinga um stofn bifreiðahlunninda

Vegna misvísandi upplýsinga um stofn bifreiðahlunninda

SVÞ og Bílgreinasambandinu bárust upplýsingar um að óljóst hefði þótt hvort draga ætti fjárhæð rafbílastyrks úr Loftslag- og orkusjóði frá kaupverði bíls við ákvörðun stofns bifreiðahlunninda. Með öðrum orðum og í dæmaskyni hvort stofn bifreiðahlunninda vegna rafbíls sem var keyptur á 9 millj. kr. nemi 9 millj. kr. eða 8,1 millj. kr., þegar fengist hefur 900 þús. kr. styrkur úr sjóðnum. Að höfðu samráði við Skattinn vilja samtökin koma því á framfæri að bifreiðahlunnindin reiknast af kaupverði að frádregnum styrknum, sé á annað borð sótt um og hann ákvarðaður.

Nánari umfjöllun um bifreiðahlunnindi má finna á vefslóðinni https://www.skatturinn.is/einstaklingar/tekjur-og-fradraettir/skattmat/.
Þá má einnig finna reiknivél bifreiðahlunninda á eftirfarandi vefsíðu: https://www.skatturinn.is/einstaklingar/reiknivelar/reiknivel-bifreidahlunninda/

SVÞ benda á annmarka á kílómetragjaldi  – óljóst hvort unnt verði að leggja það á erlend ökutæki

SVÞ benda á annmarka á kílómetragjaldi – óljóst hvort unnt verði að leggja það á erlend ökutæki

„Við sjáum fyrir okkur að gríðarleg flækja geti fylgt breytingum á kílómetragjaldi“ segir Benedikt S. Benediktsson, framkvæmdastjóri SVÞ, í samtali við Morgunblaðið í dag, 3. júní.

Í fréttinni er fjallað um hvort mögulegt verði að leggja kílómetragjald á erlend ökutæki, t.d. ökutæki í eigu ferðamanna og erlendra fyrirtækja. SVÞ telja líkur á að þegar upp verðir staðið geti reynst erfitt að leggja gjaldið á þessi ökutæki þar sem álagningin geti stangast á við regluverk EES-samningsins.

„Við veltum því fyrir okkur hvort skattlagning á erlend ökutæki verði lögmæt“ segir Benedikt.

SVÞ leggur áherslu á að vanda þurfi til verka við afgreiðslu frumvarpsins. Mikilvægt sé að tryggja að skattlagningin verði skilvirk, leggi ekki þungar kvaðir á herðar atvinnurekendum, tryggt verði að hún verði framkvæmanleg og síðast en ekki síst að auknar tekjur renni sannarlega til vegamála. Samtökin minna á mikilvægi þess að skattlagning og opinber gjöld rýri ekki samkeppnishæfni fyrirtækja á sviði verslunar og þjónustu.

Kílómetragjald á erlend ökutæki Morgunblaðið 3. júní 2025

Ísland gengur lengra en Evrópa – Bílasala í uppnámi vegna reglna um peningaþvætti

Ísland gengur lengra en Evrópa – Bílasala í uppnámi vegna reglna um peningaþvætti

Ísland hefur tekið upp strangara regluverk um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka í bílasölu en Evrópa. Þetta hefur valdið bílaumboðum og bílasölum miklum vanda, þar sem þeim er gert skylt að safna viðkvæmum gögnum um viðskiptavini sína, halda úti ferlum og verklagi og tryggja varðveislu safnaðra upplýsinga. Það sem ætti að vera einfalt viðskiptasamband hefur breyst í flókna eftirlitsstarfsemi þar sem sölufólk er sett í hlutverk lögreglu. 

Benedikt S. Benediktsson, framkvæmdastjóri SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu, bendir á að þessi þróun hafi gert verslunarfólk að óviljugum eftirlitsaðilum. „Verslunarfólk upplifir sig sem sakamenn í eigin starfsemi. Við erum að tala um kerfi sem líkist forvirkri lögreglurannsókn,“ segir Benedikt í nýrri grein. 

Hann útskýrir að íslensk löggjöf gangi lengra en Evróputilskipanir kveða á um, þar sem bílasölur eru skyldugir til að safna upplýsingum sem jafnvel bankar hafa þegar aflað. Þetta auki kostnað, flækjustig og óöryggi í atvinnulífinu. 

„Þetta er sjálfnærandi kerfi þar sem breytilegar og huglægar kröfur leiða alltaf til sektar. Eina leiðin út er að samþykkja sekt og borga eða leita til dómstóla,“ segir Benedikt. 

SVÞ kallar eftir endurskoðun á núverandi regluverki. Fyrirtæki eru hvött til að fylgjast með.
_____

SMELLTU HÉR til að nálgast alla greinina.
SMELLTU HÉR til að lesa umfjöllun Viðskiptablaði Morgunblaðsins.

Breytt fyrirkomulag styrkja gæti hægt á rafbílavæðingu – SVÞ varar við ófyrirséðum afleiðingum

Breytt fyrirkomulag styrkja gæti hægt á rafbílavæðingu – SVÞ varar við ófyrirséðum afleiðingum

Tillögur um breytingar á stuðningi við kaup á rafbílum, sem kynntar voru í frétt á Vísi í dag, gætu haft óvæntar neikvæðar afleiðingar fyrir framgang orkuskipta. Benedikt S. Benediktsson, framkvæmdastjóri SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu, bendir þar á mikilvægi þess að styrkjakerfið styðji við raunverulegan árangur, ekki aðeins réttlætissjónarmið.

Í fréttinni á Visir.is er fjallað um endurskoðun stjórnvalda á því hvernig styrkir til rafbílakaupa eru veittir. Ný úttekt sýnir að stuðningurinn hefur að mestu runnið til tekjuhærri hópa og þeirra sem eru yfir miðjum aldri. Nú stendur til að færa stuðninginn nær tekjulægri og yngri kaupendum.

„Tilfærsla á styrkjum til hópa í lægri tekjutíundum og yngra fólks mun því ekki skila losunarsamdrætti en gæti hins vegar dregið úr kaupum eldra fólks og fólks í efri hluta tekjutíundanna. Þar með mundi draga úr hraða orkuskipta, að minnsta kosti að sinni,“ segir Benedikt.  Hann varar við því að ef styrkirnir verða eingöngu sniðnir að hópi sem sjaldnar kaupir nýja bíla, gæti það dregið úr innflutningi og þannig takmarkað framboð á notuðum rafbílum til framtíðar.

SVÞ leggja áherslu á að orkuskipti krefjist stefnumótunar sem tekur mið af markaðsvirkni, hagkvæmni og raunhæfum aðstæðum neytenda. Nauðsynlegt er að styðja við þá sem raunverulega geta hrundið breytingum af stað. Þá hvetur SVÞ stjórnvöld til samráðs við hagaðila áður en breytingar eru gerðar á styrkjakerfinu.

Markmiðin verða að vera skýr: að flýta orkuskiptum og tryggja að rafbílavæðing Íslands verði bæði hraðari og sanngjörn.

Óbreyttir styrkir til rafbílakaupa

Norðmenn auka hlutfall rafbíla á meðan Íslendingar minnka það

Samkvæmt frétt frá RÚV 3.janúar sl., hafa Norðmenn náð glæsilegum árangri í aukningu hlutfalls rafbíla í bílaflota sínum. Í Noregi eru rafbílar nú tæplega 90% nýskráninga, en á sama tíma hefur hlutfallið hér á landi minnkað úr um 75% árið 2022 niður í 47% árið 2023.

Í viðtali við RÚV segir Benedikt S. Benediktsson, framkvæmdastjóri Bílgreinasambandsins og SVÞ, að skýringar á þessari þróun megi m.a. rekja til breyttra skattareglna og ónógra innviða fyrir rafbílaeigendur á Íslandi.

„Það skiptir máli að stjórnvöld veiti stöðugan stuðning við orkuskipti, bæði með fjárhagslegum hvötum og markvissri uppbyggingu innviða,“ segir Benedikt.

Norðmenn sýni fyrirsjáanleika sem skorti hér

„Munurinn liggur kannski í grundvallaratriðum í því að Norðmenn tilkynntu það fyrir einhverjum áratug að þeir ætluðu að halda úti ívilnunarkerfi sem að myndi lifa væntanlega, ef ég man rétt, út árið 2025. Þeir hafa frá þeim tíma ekki gert grundvallarbreytingar á því kerfi og það er þá fólgið í vaskniðurfellingu, það er eftirgjöf á því sem mætti kalla ígildi vörugjalds hér og það í raun og veru hefur skilað rafbílakaupendum þar verulega hagstæðu verði.“

Kerfið í Noregi, segir Benedikt, er svipað og það var hér árið 2022 þegar ívilnanir voru hvað mestar. Eina ívilnunin hér núna er 900 þúsund króna styrkur úr Orkusjóði, á síðasta ári fyrir kaup á bíl upp að verðmæti tíu milljónir króna, en um áramótin hækkaði sú upphæð í tólf milljónir. Þá hafi hér bæst við kílómetragjald á rafbíla, sem ekki sé í Noregi og tiltölulega hátt bifreiðagjald. Breytingar sem hafi verið gerðar hafi verið óskynsamlegar, en fyrst og fremst skorti fyrirsjáanleika.

Fyrir áhugasama má sjá upphaflega frétt RÚV hér: Norðmenn auka hlutfall rafbíla.