Gjaldabreytingar geta hraðað rafbílavæðingu – en áhrifin verða misjöfn

Gjaldabreytingar geta hraðað rafbílavæðingu – en áhrifin verða misjöfn

Breytingar á vörugjöldum bifreiða geta haft veruleg áhrif á þróun bílamarkaðarins á næstu misserum, þó að enn sé of snemmt að draga endanlegar ályktanir. Þetta segir Íris Hannah Atladóttir, hagfræðingur Samtaka verslunar og þjónustu, í viðtali í sérstöku bílablaði Morgunblaðsins í dag 20. janúar 2026.

„Tengiltvinnbílar hafa gagnast mörgum Íslendingum vel, og hjálpað þeim að taka skref í átt til rafvæðingar: Það geta verið alls konar ástæður að baki því hversvegna það hentar fólki ekki endilega að velja 100% rafmagnsbíl“ segir Íris.

Sjá viðtal við Írisi hér fyrir neðan:
Gjaldabreytingar geta hraðað rafbílavæðingu - Bílablað Morgunblaðsins 20.01.2026

Daði má leiðrétta!

Daði má leiðrétta!

Það er óhætt að segja að margir innan bílgreinarinnar hafi hváð þegar þeir hlýddu á orð fjármálaráðherra.

Miðvikudaginn 13. janúar 2026 var birt frétt á Vísi þar sem fjallað var um viðbrögð fjármála- og efnahagsráðherra vegna tíðinda af spám greiningardeilda bankanna um þróun verðbólgu í janúar. Í fréttinni mátti finna myndband með viðtali við ráðherra þar sem hann sagðist ekki rengja spá Landsbankans um 0,7 prósentustiga hækkun verðbólgu sem ætti að miklu leyti rót sína að rekja til þróunar á verðlagningu fólksbifreiða. Í viðtalinu sagði ráðherra m.a. eftirfarandi:

Það er hins vegar þannig að núna um áramótin eru ekki bara að verða breytingar á vörugjöldum heldur er það líka þannig að verð á bílum hefur verið að hækka alþjóðlega þannig að ég ætla ekki að rengja spánna en þetta er meira en það sem við höfðum gert ráð fyrir.

Stöðugt verð þrátt fyrir að ráðherra segi annað

Það er óhætt að segja að margir innan bílgreinarinnar hafi hváð þegar þeir hlýddu á þessi orð þar sem þeir telja sig ekki hafa orðið vara við þessa alþjóðlegu verðþróun ráðherrans. Nægir því til stuðnings að benda á að ekkert í fyrirliggjandi gögnum Hagstofu Íslands gefur til kynna að innkaupsverð bifreiða hafi farið hækkandi svo einhverju nemi að undanförnu. Sömu sögu segja gögn sem endurspegla þróun kaupverðs frá Hagstofu Íslands, Eurostat og Evrópska Seðlabankanum. Þvert á móti má halda því fram að verð hafi verið óvenjulega stöðug, a.m.k. frá byrjun árs 2024, og litlum breytingum tekið eftir að verð hækkuðu á árunum í kringum heimsfaraldur og upphaf Úkraínustríðsins. Þá hafa erlendir fjölmiðlar sagt í fréttum frá spám greiningaraðila sem eru heilt yfir á þeirri skoðun að verðstöðugleika muni áfram gæta á alþjóðavísu en verð fólksbifreiða muni þó áfram verða há árið 2026.

Ekki brugðist við

Það má hins vegar segja í hálfkæringi að ákveðið sannleikskorn sé fólgið í orðum ráðherra ef horft er til framtíðarþróunar innkaupsverðs nýrra tengiltvinnbifreiða eftir að hærra vörugjaldi hefur við það verið bætt. Þannig vill nefnilega til að SVÞ og Bílgreinasambandið bentu efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis ítrekað og með rökstuddum hætti á að gera þyrfti breytingar á tillögum nefndarinnar, um hækkun vörugjalds, í ljósi breytinga á alþjóðlegri prófunaraðferð tengiltvinnbifreiða. Við því var hins vegar ekki nægilega brugðist og af þeim sökum mun hækkun vörugjalda koma mun harðar niður á kaupendum slíkra bifreiða en annarra á næstu árum.

Á þennan hátt má sumsé halda því fram að þróun á sviði prófunaraðferða í samblandi við innlent fyrirkomulag vörugjalds muni leiða til mikillar hækkunar bæði innanlands sem og í öðrum þeim ríkjum sem leggja skatta á eigendur ökutækja með vísan til skráðrar losunar, a.m.k. að því marki sem þau hafa ekki brugðist við og lagfært fyrirkomulag skattlagningarinnar til mótvægis. Með svona leiðréttingu, sem er sett fram af ákveðinni lagni, getur ráðherra áfram haldið því fram að verðþróun fólksbifreiða hér á landi tengist þróun alþjóðlega.

Höfundur er framkvæmdastjóri SVÞ og Bílgreinasambandsins.

Grein Benedikts S. Benediktssonar má lesa í Viðskiptablaðinu Smelltu HÉR! 

 

Stjórnvöld styrkja bílakaup – en hækka svo skatta á móti

Stjórnvöld styrkja bílakaup – en hækka svo skatta á móti

Í nýju viðtali á Bílablogg.is bendir Benedikt S. Benediktsson, framkvæmdastjóri SVÞ, á mótsagnakennda stefnu stjórnvalda. Annars vegar hafa stjórnvöld gripið til aðgerða sem styðja við orkuskipti og styrkja bílakaup. Hins vegar er í fjárlagafrumvarpi boðað að hækka skatta á ökutæki og eldsneyti – sem bitnar á almenningi og fyrirtækjum.

„Þetta gengur einfaldlega ekki upp,“ segir Benedikt í viðtalinu. Hann leggur áherslu á að samræmi þurfi að vera í aðgerðum stjórnvalda svo þau skili árangri.

Lesa má viðtalið í heild á Bílablogg.is:
👉 Stjórnvöld styrkja bílakaup – en hækka svo skatta á móti

SVÞ varar við óljósum áformum um skattahækkanir á ökutæki og eldsneyti í fjárlögum

SVÞ varar við óljósum áformum um skattahækkanir á ökutæki og eldsneyti í fjárlögum

Óljós áform um skattahækkanir á ökutæki og eldsneyti

Í frétt Morgunblaðsins í dag, 24. september, kemur fram að í fjárlagafrumvarpi næsta árs sé gert ráð fyrir 7,5 milljarða króna tekjuöflun undir liðnum „endurskoðun á skattlagningu ökutækja og eldsneytis“.

Samkvæmt fréttinni er óljóst hvernig áform stjórnvalda eru útfærð, en flest bendir til þess að auknar tekjur verði sóttar með hækkun vörugjalda á ökutæki.

Benedikt S. Benediktsson, framkvæmdastjóri SVÞ, segir að áformin séu bæði óljós og illa tímasett:

„Í fjárlagafrumvarpinu er boðuð mjög mikil skattahækkun á almenning og fyrirtæki. Óljóst er hvaða breytingar eigi að ráðast í til að afla þeirra 7,5 milljarða sem eru merktir sem endurskoðun á skattlagningu ökutækja og eldsneytis. Flest bendi til að það fé eigi að sækja með hækkun vörugjalda af ökutækjum. Þetta er hrikalegur tímapunktur til að koma fram með svo óljós áform þar sem innflytjendur eru einmitt um þessar mundir að skila innkaupaáætlunum vegna næsta árs.“

SVÞ telur brýnt að stjórnvöld útskýri skýrt hvernig þau hyggjast standa að slíkri skattheimtu og hvaða áhrif hún muni hafa á markaðinn. Óvissa af þessu tagi torveldar áætlanagerð fyrirtækja og getur grafið undan stöðugleika í atvinnulífinu á viðkvæmum tíma.

Fjárlagafrumvarp-hrun-bílasölu

Vegna misvísandi upplýsinga um stofn bifreiðahlunninda

Vegna misvísandi upplýsinga um stofn bifreiðahlunninda

SVÞ og Bílgreinasambandinu bárust upplýsingar um að óljóst hefði þótt hvort draga ætti fjárhæð rafbílastyrks úr Loftslag- og orkusjóði frá kaupverði bíls við ákvörðun stofns bifreiðahlunninda. Með öðrum orðum og í dæmaskyni hvort stofn bifreiðahlunninda vegna rafbíls sem var keyptur á 9 millj. kr. nemi 9 millj. kr. eða 8,1 millj. kr., þegar fengist hefur 900 þús. kr. styrkur úr sjóðnum. Að höfðu samráði við Skattinn vilja samtökin koma því á framfæri að bifreiðahlunnindin reiknast af kaupverði að frádregnum styrknum, sé á annað borð sótt um og hann ákvarðaður.

Nánari umfjöllun um bifreiðahlunnindi má finna á vefslóðinni https://www.skatturinn.is/einstaklingar/tekjur-og-fradraettir/skattmat/.
Þá má einnig finna reiknivél bifreiðahlunninda á eftirfarandi vefsíðu: https://www.skatturinn.is/einstaklingar/reiknivelar/reiknivel-bifreidahlunninda/

SVÞ benda á annmarka á kílómetragjaldi  – óljóst hvort unnt verði að leggja það á erlend ökutæki

SVÞ benda á annmarka á kílómetragjaldi – óljóst hvort unnt verði að leggja það á erlend ökutæki

„Við sjáum fyrir okkur að gríðarleg flækja geti fylgt breytingum á kílómetragjaldi“ segir Benedikt S. Benediktsson, framkvæmdastjóri SVÞ, í samtali við Morgunblaðið í dag, 3. júní.

Í fréttinni er fjallað um hvort mögulegt verði að leggja kílómetragjald á erlend ökutæki, t.d. ökutæki í eigu ferðamanna og erlendra fyrirtækja. SVÞ telja líkur á að þegar upp verðir staðið geti reynst erfitt að leggja gjaldið á þessi ökutæki þar sem álagningin geti stangast á við regluverk EES-samningsins.

„Við veltum því fyrir okkur hvort skattlagning á erlend ökutæki verði lögmæt“ segir Benedikt.

SVÞ leggur áherslu á að vanda þurfi til verka við afgreiðslu frumvarpsins. Mikilvægt sé að tryggja að skattlagningin verði skilvirk, leggi ekki þungar kvaðir á herðar atvinnurekendum, tryggt verði að hún verði framkvæmanleg og síðast en ekki síst að auknar tekjur renni sannarlega til vegamála. Samtökin minna á mikilvægi þess að skattlagning og opinber gjöld rýri ekki samkeppnishæfni fyrirtækja á sviði verslunar og þjónustu.

Kílómetragjald á erlend ökutæki Morgunblaðið 3. júní 2025