31/10/2019 | Fræðsla, Fréttir, Stjórnvöld, Viðburðir
Fimmtudaginn 31. október stóðu SVÞ, SAF og SI fyrir upplýsingafundi um skyldur tilkynningaskyldra aðila innan raða samtakanna vegna stöðu Íslands á gráum lista Financial Action Task Force (FATF) vegna vegna ónógra varna gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Á fundinum héldu eftirtaldir aðilar erindi:
Eiríkur Ragnarsson, lögfræðingur hjá Ríkisskattstjóra
Birkir Guðlaugsson, lögfræðingur hjá Ríkisskattstjóra
Hér má hlaða niður glærum Eiríks og Birkis á PDF formi: RKS kynning – SVÞ 31. okt 2019
Áslaug Jósepsdóttir, sérfræðingur á skrifstofu almanna- og réttaröryggis Dómsmálaráðuneytisins
Guðrún Ögmundsdóttir, forstöðumaður á sviði fjármálastöðugleika hjá Seðlabankanum
Hér má hlaða niður glærum Áslaugar og Guðrúnar á PDF formi: DMR og Seðlabankinn Kynning SVÞ 31. október
Upptöku frá fundinum má nú sjá hér fyrir neðan:
23/10/2019 | Fréttir, Innra starf, Stjórnvöld
Um þessar mundir stendur yfir vinna í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu sem miðar að einföldun regluverks. Verkefnið verður unnið í nokkrum áföngum.
Fyrsti áfangi verkefnisins er tvíþættur:
- Ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra birti drög að lagafrumvarpi á samráðsgátt stjórnvalda, Ísland.is., þar sem lagt er felldar verði niður nokkrar leyfisveitingar og skráningar sem ekki er talið nauðsynlegt að séu í lögum, sjá nánar: https://samradsgatt.island.is/oll-mal/$Cases/Details/?id=1514
- Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur kynnt áform um að fella brott 1.090 reglugerðir á sviði sjávarútvegs og landbúnaðar, sjá nánar: https://www.stjornarradid.is/efst-a-baugi/frettir/stok-frett/2019/10/21/Vel-yfir-thusund-reglugerdir-felldar-brott/
Vegna undirbúnings næsta áfanga hefur atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið kallað eftir virkri aðkomu atvinnulífsins. Óskað hefur verið eftir því að SVÞ sýni frumkvæði og sendi ráðuneytinu tillögur að frekari breytingum eða eftir atvikum afnámi reglna sem hafa stjórnsýslubyrði í för með sér.
Til að nauðsynleg yfirsýn starfsmanna SVÞ verði tryggð þurfa aðildarfyrirtækin að koma að verkefninu með virkum hætti.
SVÞ óska eftir því að aðildarfyrirtæki sendi samtökunum reynslusögur og ábendingar sem t.d. geta snúið að:
- Erfiðleikum við að nálgast hjá stjórnvöldum upplýsingar um laga- og framkvæmdarlega umgjörð starfsemi.
- Erfiðleikum eða flækjum í tengslum við öflun starfsleyfis.
- Örðugleikum sem kunna að hafa komið upp í samskiptum við eftirlitsstofnanir eða fyrirtæki í eigu hins opinbera.
- Mikilli vinnu við öflun gagna og upplýsinga vegna umsókna um leyfi eða annars sem snertir samskipti við opinbera aðila.
- Síendurtekinni vinnu við að afla og afhenda opinberum aðilum sömu upplýsingarnar.
- Eftirliti sem er þannig háttað að fleiri en ein eftirlitsstofnun virðast hafa eftirlit með sömu þáttum starfsemi.
- Flækjum sem komið hafa fram í því að eftirlitsstjórnvöld á sama sviði gera ólíkar eða ósamræmdar kröfur.
Tíminn er ekki að vinna með SVÞ en samtökin hafa aðeins eina viku til að koma tillögum sínum á framfæri við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið.
Allar upplýsingar og ábendingar aðildarfyrirtækja verða hins vegar afar vel þegnar og munu nýtast í næstu áföngum, jafnvel þó að þær berist ekki í tæka tíð. Allt sem þið sendið okkur mun gagnast og allt verður tekið til skoðunar, hversu smávægilegt sem þið teljið það vera.
Vinsamlegast sendið upplýsingar og ábendingar varðandi málið á lögfræðing samtakanna, Benedikt S. Benediktsson á benedikt(hjá)svth.is
16/10/2019 | Fréttir, Stjórnvöld
Í neðangreindu skjali frá Evrópusambandinu má finna helstu spurningar og svör um áhrif Brexit hvað varðar iðnaðarvörur. Smellið á hlekkinn til að hlaða niður skjalinu.
Q&A on Brexit with regards to industrial products
02/09/2019 | Fréttir, Greinar, Í fjölmiðlum, Stjórnvöld, Umhverfismál
Eftirfarandi grein eftir Andrés Magnússon, framkvæmdastjóra SVÞ, birtist í Fréttablaðinu 29. ágúst sl.:
Á undanförnum mánuðum hefur verulegt magn lambakjöts verið flutt út, m.a. til fjarlægra landa á borð við Japan og Víetnam. Þessi útflutningur varð það mikill að skortur myndaðist á innanlandsmarkaði, sérstaklega á lambahryggjum. Afurðastöðvar í landbúnaði sköpuðu skortinn vísvitandi í þeim tilgangi að geta hækkað verð á lambakjöti til íslenskra neytenda. Plottið gekk upp, verð frá afurðastöðvum hækkaði um tugi prósenta og íslenskir neytendur voru, eins og fyrri daginn, þeir sem borguðu brúsann. Forsvarsmenn afurðastöðvanna gerðu ekki minnstu tilraun til að fela þessa stöðu og greindu frá yfirvofandi skorti á fundi með sauðfjárbændum síðastliðið vor, þegar fjórir mánuðir voru þar til sláturtíð hæfist.
Þegar innlend framleiðsla getur ekki annað eftirspurn, ber lögum samkvæmt að heimila innflutning á viðkomandi vöru. Samtök verslunar og þjónustu sendu því erindi til ráðgjafarnefndar um inn- og útflutning landbúnaðarvara í júní sl., þar sem farið var fram á að heimild yrði veitt til tollfrjáls innflutnings á lambahryggjum. Eftir að hafa sinnt lögboðinni rannsóknarskyldu sinni, ákvað nefndin að leggja til við ráðherra að innflutningur, með lækkuðum tollum, yrði heimilaður í einn mánuð. Ekkert benti til annars en að heimildin yrði veitt, enda lögboðnar forsendur til staðar. Þá gripu pólitískir hagsmunaaðilar í taumana, landbúnaðarráðherra lét undan og heimildin var ekki veitt. Íslenskir neytendur sátu eftir með sárt ennið, lambahryggir voru fluttir inn á fullum tollum og neytendur nutu þ.a.l. ekki þess ábata sem að var stefnt. SVÞ hafa þegar sent viðeigandi stofnunum erindi vegna þeirra viðskiptahátta sem afurðastöðvarnar sýndu af sér í þessu máli.
Á Íslandi er nú framleitt um 30% meira af lambakjöti en þörf er fyrir á innanlandsmarkaði, eða um 3 þúsund tonn. Það magn er allt flutt út, á verði sem er langt undir því sem innlendri verslun stendur til boða. Kolefnisfótspor af þeim útflutningi hefur hins vegar ekki verið kannað. SVÞ munu því á næstunni senda erindi til umhverfisráðherra þar sem óskað verður eftir að kolefnisfótspor útflutnings á lambakjöti verði kannað sérstaklega.
Það er nefnilega full ástæða til að allur herkostnaður þess útflutnings sé uppi á borðinu. Skattgreiðendur eiga heimtingu á því.
28/08/2019 | Fréttir, Stjórnvöld
Við minnum verslanir á breytingar á virðisaukaskatti á tíðavörum en hann lækkar úr 24% í 11% nú um mánaðarmótin, 1. september 2019.