Fræðslufundur MAST: Breyttar reglur um innflutning á hráu kjöti

Fræðslufundur MAST: Breyttar reglur um innflutning á hráu kjöti

Matvælastofnun heldur fræðslufund um breyttar reglur um innflutning á hráu kjöti til Íslands fimmtudaginn 28. nóvember kl. 13:00 – 15:00 í húsnæði stofnunarinnar að Dalshrauni 1b í Hafnarfirði.

Markmið fundar er að upplýsa um þær reglur sem brátt taka gildi um innflutning á fersku hráu kjöti til Íslands og þær kröfur sem innflytjendur og dreifingaraðilar þurfa að uppfylla. Farið verður yfir viðbótartryggingar vegna salmonellu og sérreglur um kampýlóbakter.

Dagskrá:

  • Breyttar reglur um innflutning á fersku hráu kjöti til Íslands
  • Staðan á Íslandi og í Evrópu
  • Kampýlóbakter í alifuglakjöti – ábyrgð matvælafyrirtækja
  • Salmonella í eggjum og kjöti – ábyrgð matvælafyrirtækja
  • Eftirlit og viðurlög

Fundurinn er ætlaður matvælafyrirtækjum, einkum þeim sem flytja inn og dreifa hráum dýraafurðum, og öðrum áhugasömum.

Tilefni fundar er afnám frystikröfu og leyfisveitingar á innfluttum hráum dýraafurðum í kjölfar EFTA dóms.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur unnið að sérreglum um kampýlóbakter í alifuglakjöti og öflun viðbótartrygginga vegna salmonellu í samstarfi við Matvælastofnun. Í upphafi ársins samþykkti Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) heimild Íslands til að beita reglum um viðbótartryggingar vegna salmonellu í innfluttu kjúklinga- og kalkúnakjöti og eggjum. Viðbótartrygging vegna salmonellu í innfluttu svína- og nautakjöti var samþykkt á fundi sameiginlegu EES nefndarinnar 25. október sl.

Fræðslufundurinn er opinn öllum og þátttakendum að kostnaðarlausu. Honum verður streymt í gegnum Neytendavakt Matvælastofnunar á Facebook og upptaka gerð aðgengileg þar og á vef Matvælastofnunar að fundi loknum.

Lýsa yfir vantrausti á núverandi kerfi við kaup heilbrigðisþjónustu

Lýsa yfir vantrausti á núverandi kerfi við kaup heilbrigðisþjónustu

Í grein sem birtist á Vísi í dag lýsa forsvarsmenn fimm félaga í heilbrigðisþjónustu yfir vantrausti á núverandi kerfi við kaup ríkisins á heilbrigðisþjónustu og krefjast þess að stjórnvöld grípi inní áður en varanlegar skemmdir verða á mikilvægum lykilþáttum heilbrigðisþjónustu landsmanna.

Í nýrri úttekt KPMG kemur fram að verulegar brotalamir eru á núverandi kerfi sem geta haft mjög alvarlegar afleiðingar fyrir þjónustuveitanda og þjónustuþega. Ennfremur segja greinarhöfundar að Sjúkratryggingar Íslands valdi ekki núverandi hlutverki sínu og séu engan veginn í stakk búnar til að taka við innkaupum á allri heilbrigðisþjónustu, líkt og fyrirhugað er skv. núverandi heilbrigðisstefnu.

Greinina í heild sinni má lesa hér á vefnum visir.is.

Greinina skrifa:
Elín Sigurgeirsdóttir, f.v. formaður Tannlæknafélags Íslands
Eybjörg Hauksdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu
Haraldur Sæmundsson, formaður samninganefndar sjálfstætt starfandi sjúkraþjálfara
Jón Gauti Jónsson, formaður Samtaka heilbrigðisfyrirtækja
Þórarinn Guðnason, formaður Læknafélags Reykjavíkur

Upptaka frá upplýsingafundi um peningaþvætti

Upptaka frá upplýsingafundi um peningaþvætti

Fimmtudaginn 31. október stóðu SVÞ, SAF og SI fyrir upplýsingafundi um skyldur tilkynningaskyldra aðila innan raða samtakanna vegna stöðu Íslands á gráum lista Financial Action Task Force (FATF) vegna vegna ónógra varna gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Á fundinum héldu eftirtaldir aðilar erindi:

Eiríkur Ragnarsson, lögfræðingur hjá Ríkisskattstjóra

Birkir Guðlaugsson, lögfræðingur hjá Ríkisskattstjóra

Hér má hlaða niður glærum Eiríks og Birkis á PDF formi: RKS kynning – SVÞ 31. okt 2019

Áslaug Jósepsdóttir, sérfræðingur á skrifstofu almanna- og réttaröryggis Dómsmálaráðuneytisins

Guðrún Ögmundsdóttir, forstöðumaður á sviði fjármálastöðugleika hjá Seðlabankanum

Hér má hlaða niður glærum Áslaugar og Guðrúnar á PDF formi: DMR og Seðlabankinn Kynning SVÞ 31. október

Upptöku frá fundinum má nú sjá hér fyrir neðan:

SVÞ óskar eftir upplýsingum frá félagsmönnum sem mætti nýta við vinnu við einföldun regluverks

SVÞ óskar eftir upplýsingum frá félagsmönnum sem mætti nýta við vinnu við einföldun regluverks

Um þessar mundir stendur yfir vinna í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu sem miðar að einföldun regluverks. Verkefnið verður unnið í nokkrum áföngum.

Fyrsti áfangi verkefnisins er tvíþættur:

  1. Ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra birti drög að lagafrumvarpi á samráðsgátt stjórnvalda, Ísland.is., þar sem lagt er felldar verði niður nokkrar leyfisveitingar og skráningar sem ekki er talið nauðsynlegt að séu í lögum, sjá nánar: https://samradsgatt.island.is/oll-mal/$Cases/Details/?id=1514
  2. Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur kynnt áform um að fella brott 1.090 reglugerðir á sviði sjávarútvegs og landbúnaðar, sjá nánar: https://www.stjornarradid.is/efst-a-baugi/frettir/stok-frett/2019/10/21/Vel-yfir-thusund-reglugerdir-felldar-brott/

Vegna undirbúnings næsta áfanga hefur atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið kallað eftir virkri aðkomu atvinnulífsins. Óskað hefur verið eftir því að SVÞ sýni frumkvæði og sendi ráðuneytinu tillögur að frekari breytingum eða eftir atvikum afnámi reglna sem hafa stjórnsýslubyrði í för með sér.

Til að nauðsynleg yfirsýn starfsmanna SVÞ verði tryggð þurfa aðildarfyrirtækin að koma að verkefninu með virkum hætti.

SVÞ óska eftir því að aðildarfyrirtæki sendi samtökunum reynslusögur og ábendingar sem t.d. geta snúið að:

  1. Erfiðleikum við að nálgast hjá stjórnvöldum upplýsingar um laga- og framkvæmdarlega umgjörð starfsemi.
  2. Erfiðleikum eða flækjum í tengslum við öflun starfsleyfis.
  3. Örðugleikum sem kunna að hafa komið upp í samskiptum við eftirlitsstofnanir eða fyrirtæki í eigu hins opinbera.
  4. Mikilli vinnu við öflun gagna og upplýsinga vegna umsókna um leyfi eða annars sem snertir samskipti við opinbera aðila.
  5. Síendurtekinni vinnu við að afla og afhenda opinberum aðilum sömu upplýsingarnar.
  6. Eftirliti sem er þannig háttað að fleiri en ein eftirlitsstofnun virðast hafa eftirlit með sömu þáttum starfsemi.
  7. Flækjum sem komið hafa fram í því að eftirlitsstjórnvöld á sama sviði gera ólíkar eða ósamræmdar kröfur.

Tíminn er ekki að vinna með SVÞ en samtökin hafa aðeins eina viku til að koma tillögum sínum á framfæri við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið.

Allar upplýsingar og ábendingar aðildarfyrirtækja verða hins vegar afar vel þegnar og munu nýtast í næstu áföngum, jafnvel þó að þær berist ekki í tæka tíð. Allt sem þið sendið okkur mun gagnast og allt verður tekið til skoðunar, hversu smávægilegt sem þið teljið það vera.

Vinsamlegast sendið upplýsingar og ábendingar varðandi málið á lögfræðing samtakanna, Benedikt S. Benediktsson á benedikt(hjá)svth.is