SVÞ fagna frumvarpi um afnám einkaleyfis ríkisins á smásölu áfengis

Fréttatilkynning send á fjölmiðla 20.3.2017

SVÞ – Samtök verslunar og þjónustu hafa skilað umsögn um frumvarp til laga um afnám einkaleyfis ríkisins á smásölu áfengis, þar sem bæði nú sem og áður þegar samhljóða mál hafa verið lögð fram á þinginu, fagna samtökin markmiði þess um afnám þess einkaleyfis.

SVÞ benda á að frumvarpið er í samræmi við áherslur samtakanna um að færa verkefni frá hinu opinbera til einkaaðila og er verslun með áfengi engin undantekning þar á. SVÞ ítreka í þessu samhengi mikilvægi þess að hið opinbera dragi sig út úr smásölurekstri hvers konar en sama skapi verði lagaumgjörð þannig úr garði gerð að einkaaðilum verði treyst til að annast slíkan rekstur sem hér um ræðir. Þannig verði með lögum búið þannig um þessa starfsemi að gætt verði að þeim sjónarmiðum sem gæta þarf að þegar um er að ræða sölu á áfengi eða aðra vöru sem kallar á aðgát hvað varðar eiginleika hennar.

Þá felur frumvarpið í sér aukna möguleika til hagræðingar hjá hinu opinbera enda mun ríkið losna undan skuldbindingum sínum varðandi núverandi einkaleyfi, s.s. rekstrarkostnað, sem að óbreyttu fellur til við að halda úti starfsemi ÁTVR og viðhalda skyldum vegna einkaleyfis ríkisins á smásölu áfengis. Eftir sem áður mun ríkið halda eftir tekjum sem renna í ríkissjóð vegna m.a. álagningar áfengisgjalda. Að sama skapi felur frumvarpið í sér möguleika til hagræðingar hjá einkaaðilum þar sem unnt verður að samnýta verslunarrými sem þegar er nýtt undir aðrar vörur eða starfsemi. Þá fagna SVÞ sérstaklega því frumkvæði í frumvarpinu um að fella úr lögum banni við áfengisauglýsingum enda hefur núverandi bann ekki staðið í vegi fyrir að áfengisauglýsingar hafi birst hér á landi, m.a. í erlendum miðlum, og þannig mismunað framleiðendum eftir hvort um er að ræða innlenda eða erlenda aðila.

SVÞ ítreka einnig að frelsi í viðskiptum fylgi ábyrgð og verslun og einkaaðilar taka hlutverk sitt alvarlega enda hefur þessum aðilum undanfarana áratugi verið falin í síauknum mæli hlutverk sem varða almannaheill eða sölu á vörum með tiltekna hættueiginleika, s.s. sala á tóbaki, lyfjum, skotfærum og skoteldum, efnavörum o.s.frv. Þá hefur einkaaðilum einnig verið falin ýmisleg hlutverk varðandi eftirlit með öryggisþáttum og lýðheilsu í okkar samfélagi, s.s. ökutækjaskoðun og heilbrigðisþjónustu. Á þessum sviðum hefur ekki verið efast um faglega getu þessara aðila og heillindi til að sinna þessum verkefnum og benda SVÞ á að það sama eigi við varðandi smásölu áfengis. Verði frumvarpið samþykkt mun verslunin ekki láta sitt eftir liggja að annast hlutverk sitt með ábyrgum og öruggum hætti. Því fagna SVÞ sérstaklega þeirri áherslu sem lögð er á forvarnir í frumvarpinu og vísa m.a. til þess árangurs sem náðst hefur að draga úr tóbaksnotkun með öflugu forvarnarstarfi.

Fréttatilkynningin á pdf sniði

Umsögn SVÞ um frumvarp til laga um afnám einkaleyfis ríkisins á smásölu áfengis

Eftirlitsstofnun EFTA vísar innflutningsbanni á fersku kjöti til EFTA-dómstólsins

Fréttatilkynning send til fjölmiðla 20.12.2016
SVÞ – Samtök verslunar og þjónustu sendu þann 6. desember 2011 kvörtun á Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) vegna innleiðingar íslenskra stjórnvalda á reglugerð ESB um almennar meginreglur og kröfur samkvæmt lögum um matvæli, um stofnun Matvælaöryggisstofnunar Evrópu og um málsmeðferð vegna öryggis matvæla.

Íslensk löggjöf felur í sér innflutningstakmarkanir á fersku kjöti, unnu sem óunnu, kældu sem frosnu, sem og innmat og sláturúrgang hvort sem um ræðir svína-, nauta-, lamba-, geita- eða alifuglakjöt eða kjöt af villtum dýrum. Innflytjendur verða samkvæmt gildandi lögum að sækja um leyfi og leggja fram margvísleg gögn til Matvælastofnunar.

Töldu SVÞ bann þetta ganga gegn ákvæðum EES-samningsins varðandi frjálsa vöruflutninga. Þessu til viðbótar felur eftirlitskerfi hér á landi með innflutningi á kjöti í sér landamæraeftirlit sem er ekki í samræmi við löggjöf EES-samningsins. Að mati SVÞ hefur ekkert komið að íslenskum stjórnvöldum sé ekki unnt að gæta að heilbrigði manna og dýra innan ramma matvælalöggjafar EES-samningsins. Þá hafa stjórnvöld ekki sýnt fram á með rökstuddum hætti að innlendum hagsmunum sé ógnað með innflutningi á fersku kjöti en samkvæmt matvælalöggjöf EES-samningsins eru ríkar kröfur gerðar til áhættumats og öryggis matvæla og hvílir rík ábyrgð á framleiðendum kjöts hvað þetta varðar.

Eftir rannsókn sína á málinu hefur ESA komist að sömu niðurstöðu og SVÞ að núgildandi löggjöf á Íslandi varðandi innflutning á fersku kjöti frá öðrum EES-ríkjum er andstæð EES-samningnum. ESA taldi því íslensk stjórnvöld ekki hafa sýnt fram á að núverandi fyrirkomulag megi réttlæta með þeim rökum að það sé nauðsynlegt til að vernda líf og heilsu manna og dýra. Þau vísindalegu gögn sem íslensk stjórnvöld hafa framvísað renna ekki stoðum undir gildandi reglur heldur sýna þvert á móti að áhætta á sýkingu búfjár gegnum innflutning á fersku kjöti sé hverfandi. Tók ESA því að fullu undir sjónarmið SVÞ í málinu um að núverandi kerfi feli í sér óréttlætanlegar og ónauðsynlegar viðskiptahindranir.

Með vísan til niðurstöðu sinnar hefur ESA, og þar sem íslensk stjórnvöld hafa enn ekki brugðist við rökstuddu áliti stofnunarinnar og gripið til viðeigandi ráðstafana, vísað málinu til EFTA-dómstólsins samkvæmt frétt stofnunarinnar fyrr í dag.

Fréttatilkynning á pdf sniði.

Hlekkur á frétt ESA.

SVÞ og Neytendasamtökin gagnrýna matvælaeftirlit MAST

Fréttatilkynning send til fjölmiðla 5.12.2016
Í kjölfar fréttaumfjöllunar um eftirlit Matvælastofnunar (MAST) með tilteknum eggjaframleiðanda, þar sem sú starfsemi stóðst ekki þær kröfur sem gerðar eru til hennar s.s. hvað varðar aðbúnað dýra og villandi upplýsingar, er ljóst að stofnunin brást alfarið eftirlitshlutverki sínu. Þrátt fyrir að starfsemin hafi verið til skoðunar hjá MAST í tæp tíu ár og aðfinnslur hafi verið gerðar við þá starfsemi var hvorki verslun né neytendum veittar upplýsingar um þá meinbugi sem nú hafa komið í ljós.

Með þögn sinni um málið hefur MAST vegið alvarlega að hagsmunum verslana og neytenda sem í skjóli núverandi fyrirkomulags treysta á faglega starfsemi þeirra aðila sem lögum samkvæmt hefur verið falið eftirlit með matvælaframleiðslu. Á meðan engar athugasemdir berast frá eftirlitsaðila um tiltekna starfsemi eru verslun og neytendur því í góðri trú um að þau matvæli standist allar þær kröfur sem gerðar eru til hennar. Ítrekast einnig að upplýsingar um framleiðslu matvæla eru mikilvægur þáttur í upplýstu vali neytenda á matvælum sem og hvaða vörur verslun er tilbúin að hafa á boðstólum.

Umfjöllun undanfarið hefur orðið til þess fallin að vekja upp áleitnar spurningar um matvælaeftirlit MAST og það traust sem á að ríkja um eftirlitsstarfsemi stofnunarinnar. Þá er gagnrýnisvert að hagsmunir innlendrar matvælaframleiðslu hafi alfarið vikið til hliðar hagsmunum neytenda og verslana af því að fá upplýsingar um eftirlitsskylda starfsemi og þær vörur sem frá þeirri starfsemi berast. Að óbreyttu er nú uppi viðvarandi brestur í trausti hagsmunaaðila hvað varðar eftirlit með matvælaframleiðslu, sér í lagi þar sem MAST hefur heimilað afhendingu á matvælum til verslana og neytenda þrátt fyrir að búa yfir upplýsingum um margvísleg brot gegn löggjöf um matvæli og aðbúnað dýra.

Í ljósi þessa hafa Neytendasamtökin og SVÞ – Samtök verslunar og þjónustu sent sameiginlegt erindi á MAST þar sem óskað er upplýsinga frá stofnuninni um öll alvarleg frávik í innlendri eftirlitsskyldri matvælaframleiðslu sem hún hefur gert athugasemdir við í eftirlitsstörfum sínum. Er óskað eftir upplýsingum aftur til 1. janúar 2008. Telja Neytendasamtökin og SVÞ mikilvægt að afla þessara gagna enda hefur umfjöllun um eftirlit MAST leitt í ljós að réttur almennings til upplýsinga er verulega takmarkaður er viðkemur matvælaframleiðslu og frávikum frá kröfum sem gera verður til slíkrar framleiðslu.

Fréttatilkynning á pdf sniði.

Innflutningsbann á fersku kjöti dæmt ólögmætt

Fréttatilkynning send til fjölmiðla 18.11.2016
Héraðsdómur Reykjavíkur komst að þeirri niðurstöðu fyrr í dag að innflutningsbann á fersku kjöti fæli í sér brot gagnvart EES-skuldbindingum íslenska ríkisins og er því ólögmætt. Niðurstaða dómsins er því í fullu samræmi við fyrri ábendingar SVÞ en samtökin hafa undanfarin ár vakið athygli á málinu og barist fyrir afnámi bannsins en upphaf málsins má rekja til kvörtunar samtakanna til Eftirlitsstofnunar EFTA þar sem ESA komst að sömu niðurstöðu og SVÞ að núgildandi innflutningsbann á fersku kjöti frá öðrum EES-ríkjum er andstætt EES-samningnum.

Ferskar kjötvörur ehf., eitt aðildarfyrirtækja SVÞ, stefndi íslenska ríkinu og krafðist skaðabóta vegna tjóns sem það varð fyrir sökum synjunar á heimild til að flytja til landsins frá Hollandi ferskt lífrænt ræktað nautakjöt. Undir rekstri málsins krafðist fyrirtækið þess að aflað yrði ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins til að fá úr því skorið hvort íslensk löggjöf væri í samræmi við EES-samninginn. Var fallist á þá beiðni og var niðurstaða dómstólsins að bannið samræmist á engan hátt skuldbindingum íslenska ríkisins samkvæmt EES-samningnum.

Að mati Héraðsdóms Reykjavíkur er ekki fullt samræmi á milli EES-löggjafar og íslenskra laga og sýnist misræmið felast í því að innflutningur á fersku kjöti frá öðru aðildarríki EES-samningsins er háður sérstöku leyfi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra auk þess sem þess er krafist að innfluttum matvælum fylgi tiltekin gögn og vottorð. Þvert á móti gerir EES-löggjöfin á hinn bóginn að meginstefnu til ráð fyrir því að ábyrgð á dýraheilbrigðiseftirliti matvæla er hjá því aðildarríki sem matvælin eru send frá, í þessu tilviki Hollandi, og að sérstakt eftirlit fer ekki fram á landamærum viðtökuríkis. Því beri íslenskum stjórnvöldum að virða niðurstöður dýraheilbrigðiseftirlit sem fram fer í öðrum aðildarríkjum í samræmi við sameiginlegar EES-reglur. Þá segir í dóminum að þar sem íslenska ríkið hafi viðhaldið banninu þrátt fyrir niðurstöðu eftirlitsaðila þá hafi slíkt falið í sér vísvitandi og alvarlegt brot gegn skuldbindingum ríkisins.

SVÞ fagna þessum áfanga í málinu enda er það staðföst trú samtakanna að núverandi innflutningsbann á fersku kjöti frá aðildarríkjum EES-samningsins gangi gegn ákvæðum samningsins og samningsskuldbindingum íslenska ríkisins líkt og ESA og EFTA-dómstóllinn, og nú Héraðsdómur Reykjavíkur, hafa áður komist að. Er það krafa SVÞ að innflutningur á fersku kjöti, sem unnið er í samræmi við samevrópskar kröfur og undir eftirliti annarra EES-ríkja, verði heimilaður hér á landi í samræmi við EES-löggjöf.

Nánari upplýsingar gefa:
Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri SVÞ, s. 511-3000/820-4500
Lárus M. K. Ólafsson, lögmaður SVÞ, s. 511-3007/862-0558

Fréttatilkynning á pdf sniði

Kvörtun SVÞ til Eftirlitsstofnunar EFTA vegna faggildingar

Fréttatilkynning send til fjölmiðla 17.11.2016
SVÞ – Samtök verslunar og þjónustu hafa á undanförnum árum haft til skoðunar ýmsa þætti varðandi starfsumhverfi faggiltra skoðunarstofa á Íslandi en samtökin gæta hagsmuna meginþorra þessara fyrirtækja hér á landi. Faggiltar skoðunarstofur gegna mikilvægu hlutverki í íslensku atvinnulífi sem og eftirliti í þágu almennings. Faggiltar stofur hafa starfað hérlendis í tvo áratugi, s.s. á sviði bifreiðaskoðana, matvælaskoðana, rafskoðana, skipaskoðana og löggildinga mælitækja auk markaðsgæslu, og hafa því fyrir löngu sannað gildi sitt sem öruggur og hagkvæmur kostur á sviði eftirlits.

Að mati SVÞ hefur stjórnsýsla faggildingar ekki að öllu leyti staðið undir þeim væntingum og skyldum sem samevrópskt regluverk leggur á herðar innlendra stjórnvalda. Þar til íslenska ríkið bætir úr þeim ágöllum sem uppi eru mun starfsemi faggildingaryfirvalda hér á landi vera marklaus og sem afleiðing þessa er að faggildingar sem stafa frá Íslandi teljast ekki gildar og ekki unnt að byggja á þeim sem slíkum. Ástand þetta hefur haft í för með sér verulegan kostnað fyrir innlenda aðila og hafa faggiltar skoðunarstofur á mörgum sviðum þurft að sækja nauðsynlega þjónustu erlendis frá með tilheyrandi kostnaði og óhagræði.

Að mati SVÞ hefur núverandi ástand mála verulega skaðleg áhrif á starfsemi faggiltra skoðunarstofa og gengur gegn markmiði samningsins um Evrópska efnahagssvæðisins um frelsi til að veita þjónustu og frjálsa vöruflutninga. Í ljósi þessa sendu SVÞ í maí sl. kvörtun á Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) þar sem þess er óskað að stofnunin taki mál þetta til skoðunar.

Hinn 21. október sl. sendi ESA erindi á innlend stjórnvöld þar sem tekið er undir sjónarmið SVÞ í málinu um að starfsemi stjórnvalda á sviði faggildingar uppfylli á engan hátt þær kröfur sem gerðar eru til slíkrar starfsemi. Málinu er enn ekki lokið af hálfu ESA en SVÞ telja þó að framkomnar athugasemdir stofnunarinnar séu þess eðlis að ekki verður undan þeim vikið. Því skora SVÞ á stjórnvöld að taka stjórnsýslu faggildingar til gagngerar endurskoðunar með það að markmiði að uppfylla þær skyldur sem á íslenska ríkinu hvíla og þannig tryggja framgang faggildingar hér á landi.

Nánari upplýsingar gefur Lárus M. K. Ólafsson hdl., lögmaður SVÞ, s. 511-3007/862-0558

Fréttatilkynning á pdf sniði

Loforð um þjóðarsamtal brotið

Alþýðusamband Íslands, Félag atvinnurekenda, Neytendasamtökin, Samtök skattgreiðenda, Samtök verslunar og þjónustu og Viðskiptaráð Íslands hafa birt sameiginlega auglýsingu vegna nýsamþykktra búvörusamninga. Samningarnir voru staðfestir með nítján greiddum atkvæðum á Alþingi án þess að tekið hafi verið tillit til framangreindra tillagna. Telja framangreind samtök að með afgreiðslu sinni hafi Alþingi mistekist að gæta hagsmuna almennings, neytenda og skattgreiðenda.

Í aðdraganda nýgerðra búvörusamninga óskuðu samtökin þess að stjórnvöld gættu hagsmuna alls almennings umfram sérhagsmuni einstakra starfsgreina enda hafa þessir samningar áhrif á fleiri aðila en þá sem að þeim koma með beinum hætti, samtök bænda og ríkið. Með vísan til tillagna verkefnisstjórnar Samráðsvettvangs um aukna hagsæld, þverpólitísks og þverfaglegs vettvangs sem ætlað er að tryggja hagsæld Íslendinga til lengri tíma litið, óskuðu samtökin þess að búvörusamningar hefðu m.a. að markmiði að:

1.    Lækka matvælaverð til neytenda.
2.    Tryggja rekstargrunn landbúnaðar sem atvinnugreinar.
3.    Niðurgreiðslur færist frá sértækum búgreinastuðningi í átt að almennari jarðræktarstuðningi.
4.    Stuðla að aukinni samkeppni á búvörumarkaði.
5.    Lækka tolla á landbúnaðarvörum um 50% og afnema tolla á alifuglum og svínakjöti.

Til að bregðast við harðri gagnrýni á búvörusamninga kallaði meirihluti atvinnuveganefndar eftir þjóðarsamtali um landbúnað með aðkomu neytenda, samtaka launafólks og atvinnulífs. Ljóst er að loforð um endurskoðun var brotið og búvörusamningar festa í sessi óskilvirkt og kostnaðarsamt landbúnaðarkerfi þar sem bændur hafa fullt vald til að hafna öllum þeim breytingum sem þeim hugnast illa.

Alþingi hefur því samþykkt búvörusamninga til tíu ára án þess að taka tillit til framangreindra sjónarmiða og þannig brugðist skyldu sinni að gæta hagsmuna almennings, neytenda og skattgreiðenda. Að sama skapi standast ekki nánari skoðun fullyrðingar einstakra þingmanna og ráðherra um að samningarnir gildi eingöngu til þriggja ára.

Er það því brýnt verkefni komandi þings að stuðla að sátt í þessu máli. Það er skýr krafa framangreindra samtaka að nýtt þing endurskoði núverandi landbúnaðarkerfi með heildarhagsmuni að leiðarljósi. Sátt um íslenskan landbúnað er öllum til hagsbóta, ekki síst bændunum sjálfum.