Vel yfir 600 manns eru skráðir á vikulanga ráðstefnu SVÞ og KoiKoi fyrir vefverslanir sem nú stendur yfir og vakið hefur mikinn áhuga.
Netverslun hefur aukist gríðarlega í kjölfar COVID-19. Fulltrúar SVÞ hafa áður lýst ánægju sinni með þróunina en jafnframt áhyggjum af gæðum netverslunar þegar margir flýta sér í þá vegferð sökum ástandsins. Því var ákveðið, í samstarfi við vefverslunarsérfræðingana í KoiKoi að efna til veglegrar vefverslunarráðstefnu sem opin yrði öllum endurgjaldslaust á netinu með því markmiði að efla gæði íslenskrar netverslunar. Innan SVÞ er fjöldi aðildarfyrirtækja með sérfræðinga á hinum ýmsu sviðum sem tengjast netverslun og því hæg heimatökin að fá góða aðila til að fjalla um þessi mál.
„Það er ljóst að ímynd íslenskrar netverslunar byggist á gæðum allra netverslana hérlendis, smárra sem stórra, og sú ímynd hefur áhrif á upplifun viðskiptavina af íslenskri vefverslun og þar með velgengni hennar í heild. Það er því ekki nóg fyrir okkur að fræða félagsmenn okkar um þessi mál, heldur þurfum við að breiða boðskapinn víðar, og þetta er ein leiðin til þess.“ segir Þóranna K. Jónsdóttir, markaðs- og kynningarstjóri SVÞ. Hún bendir á að þetta sé þó aðeins lítið brot af því sem samtökin geri til að efla íslenskar verslanir, þó að þetta sé mikilvægt innlegg.
„Íslensk verslun mætir síharðnandi samkeppni frá erlendum netverslunarrisum og eina leiðin til að mæta því er með því að efla íslenskar netverslanir svo að innlendir neytendur sjái þær sem vænlegan kost. Okkur er því ljúft og skylt að styðja við greinina í heild, enda hagsmunir íslenskrar verslunar, og fjölda starfa innan hennar, í húfi.“ segir Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri samtakanna.
Ráðstefnan stendur yfir út vikuna. Skráningu lauk um helgina en vegna fjölda áskorana hefur verið ákveðið að opna ráðstefnuna líka fyrir þeim sem ekki náðu að skrá sig í tíma. Upplýsingar má finna á www.svth.is/voxtur-og-bestun-vefverslana