09/01/2020 | Fræðsla, Fréttir, Umhverfismál, Viðburðir
Þátttakendur voru mjög áhugasamir á morgunfyrirlestri SVÞ um mótun, utanumhald og innleiðingu umhverfisstefnu, sem haldinn var nýverið. Fyrirlesturinn héldu Vilborg Einarsdóttir og Kjartan Sigurðsson frá BravoEarth en Vilborg er sérfræðingur í breytingastjórnun og Kjartan í sjálfbærni, samfélagslegri ábyrgð og viðskiptasiðferði.
Í fyrirlestrinum kom m.a. fram að fyrirtæki eru í auknum mæli að marka sér umhverfisstefnu til að minnka sóun, nýta betur auðlindir og minnka kolefnisspor. Einnig hefur sýnt sig að innleiðing umhverfisstefnu skilar sér í betri afkomu fyrirtækja, auknu stolti og ánægju starfsfólks og bættri ímynd. Umhverfisstefna snertir alla starfsemi fyrirtækja og alla starfsmenn og helsti vandinn liggur almennt í innleiðingu stefnunnar, þ.e. að samstilla aðgerðir og fá starfsmenn til breyta hegðun. Farið var yfir leiðir til þess að innleiða umhverfisstefnu á áhrifaríkan hátt og virkja starfsfólk til árangurs.
SVÞ félagar geta séð upptöku af fyrirlestrinum inni í lokaða Facebook hópnum okkar hér.
Í framhaldi af fyrirlestrinum eru fríar vinnustofur í boði fyrir SVÞ félaga þar sem þeir geta fengið aðstoð við mótun, utanumhald og innleiðingu umhverfisstefnu. KYNNTU ÞÉR VINNUSTOFURNAR HÉR!
18/12/2019 | Fræðsla, Fréttir, Umhverfismál, Viðburðir
Í framhaldi af morgunfyrirlestri um mótun umhverfisstefnu bjóða SVÞ og BravoEarth upp á fríar vinnustofur fyrir fyrirtæki innan SVÞ til að aðstoða þau við að móta, halda utan um og innleiða umhverfisstefnu. Vinnustofurnar eru liður í vöruþróun BravoEarth.
ATH! SVÞ félagar geta séð upptöku frá fyrirlestrinum hér inni á lokaða Facebook hópnum okkar. Ekki er nauðsynlegt þó að hafa horft á fyrirlesturinn til að nýta sér vinnustofurnar.
Fyrirtæki um allan heim eru að móta og innleiða umhverfisstefnu með það að markmiði að minnka sóun, nýta auðlindir betur og axla þannig ábyrgð fyrir framtíðina. Umhverfisstefna snertir alla starfsemi fyrirtækisins og er því mikil áskorun fólgin bæði í mótun og innleiðingu, þ.e. að framfylgja stefnunni. Mikilvægt er að virkja starfsmenn til að geta samstillt aðgerðir og fá starfsmenn til að breyta hegðun.
Ávinningur við innleiðingu á umhverfisstefnu er m.a.:
Betri afkoma: Minni sóun og betri nýting á auðlindum skilar sér í betri rekstrarniðurstöðum fyrir utan mikilvægi þess að vinna gegn loftslagsbreytingum.
Aukið stolt og starfsánægja: Það veldur mörgu starfsfólki vanlíðan að horfa upp á sóun á sínum vinnustað. Minni sóun og aukin umhverfisvernd skila sér í stoltara og ánægðara starfsfólki.
Bætt ímynd: Fólk beinir í auknum mæli viðskiptum sínum til þeirra sem standa sig vel í umhverfismálum. Árangursrík innleiðing er því gríðarlega mikilvæg fyrir verslun og þjónustu.
Dagskrá:
Kynning: Af hverju umhverfisstefna? Farið yfir stefnumótunar ferlið.
Umhverfisstefna: Farið verður yfir uppbyggingu umhverfisstefnu og hvað þarf að vera til staðar í henni. Greindir verða innri og ytri hagsmunaaðilar.
Hópastarf: Skilgreindir verða þættir sem vinna þarf með, s.s. endurvinnsla, heitt vatn, rafmagn, umbúðir o.s.frv. Verkefni í hverjum flokki skilgreind og hannaðir matsrammar til að meta framkvæmd.
Innleiðing: Breytingastjórnun. Hvernig komum við umhverfisstefnu í framkvæmd?
Afrakstur vinnustofunnar:
- Tilbúinn grunnur að umhverfisstefnu fyrir þína tegund af starfsemi.
- Skilgreindir verða helstu flokka sem vinna þarf með (s.s. endurvinnslu, orku, samgöngur o.s.frv.).
- Grunnur að verkefnum og matsrömmum sem fyrirtækið getur nýtt við innleiðingu.
Haldnar verða vinnustofur sem hugsaðar eru fyrir mismunandi starfsemi:
Þriðjudaginn 14. janúar kl. 9-12: Skrifstofustarfsemi
Unnið verður að umhverfisstefnu fyrir fyrirtæki með starfsemi sem rúmast getur innan skilgreiningar skrifstofustarfsemi. Þetta getur átt við velflest fyrirtæki þar sem skrifstofustarfsemi er oftast hluti af starfseminni. Mögulegt er að sækja fleiri en eina vinnustofu eftir eðli starfsemi fyrirtækisins. T.d. geta verslunarfyrirtæki sótt bæði þessa vinnustofu til að móta umhverfisstefnu fyrir skrifstofuhluta starfseminnar og næstu vinnustofu sem ætluð er verslun þar sem farið er yfir aðra hluti sem snúa sérstaklega að verslunarhluta starfseminnar.
Fimmtudaginn 16. janúar kl. 9-12: Verslun
Unnið verður að umhverfisstefnu fyrir fyrirtæki sem rúmast getur innan skilgreiningar verslunarstarfsemi, hvort sem um er að ræða heildverslun, sérverslun, matvöruverslun, netverslun eða annarskonar verslunarstarfsemi. Einnig geta fyrirtæki í verslun sem eru með sérstaka skrifstofustarfsemi sótt fyrri vinnustofu til að móta umhverfisstefnu fyrir skrifstofuhluta starfseminnar.
Leiðbeinendur:
Vilborg Einarsdóttir
Vilborg Einarsdóttir er stofnandi og framkvæmdastjóri BravoEarth ehf. Vilborg með MSc gráðu í Stjórnun og stefnumótun frá Háskóla Íslands og Verslunarháskólanum í Árósum. Vilborg er meðstofnandi og fyrrum framkvæmdastjóri Mentors ehf. Hún hefur yfirgripsmikla reynslu bæði úr menntageiranum og úr atvinnulífinu. Sat t.d. í stjórn Íslandsstofu, Tækniþróunarsjóðs, Samtaka iðnaðarins og í Samráðsvettvangi um aukna hagsæld. Vilborg var stundakennari við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands í stjórnun og stefnumótun auk þess að hafa haldið fjölda fyrirlestra bæði hérlendis og erlendis varðandi menntun, nýsköpun og að byggja upp alþjóðlegt þekkingafyrirtæki.
Kjartan Sigurðsson
Kjartan Sigurðsson er kennari og verkefnastjóri við Háskólann í Reykjavík. Kjartan hefur umsjón með framkvæmd og innleiðingu á PRME (Principles for Responsible Management Education) í HR, en PRME er frumkvæði Sameinuðu þjóðanna um alþjóðlegt samstarf viðskiptaháskóla til að efla menntun á svið samfélagslegrar ábyrgðar, sjálfbærni og viðskiptasiðferðis. Kjartan er með MSc gráðu í Alþjóðaviðskiptum frá Háskólanum í Reykjavík og BA gráðu í Félagsfræði frá Háskóla Íslands og mun ljúka doktorsnámi frá HR árið 2020. Kjartan hefur víðtæka reynslu sem framkvæmdastjóri og frumkvöðull og hefur einnig starfað víða í Evrópu og á Íslandi við ráðgjöf á innleiðingu og framkvæmd áætlanagerða í fyrirtækjum á sviði samfélagslegrar ábyrgðar, sjálfbærni og nýsköpunar. Kjartan hefur víðtæka reynslu á sviði rannsókna á samfélagslegri ábyrgð fyrirtækja, en rannsóknir hans fela meðal annars í sér skoða hvort að fyrirtæki hafi hagsmuni af því að innleiða og móta stefnu fyrirtækja um samfélagslega ábyrgð og sjálfbærni.
Um BravoEarth
BravoEarth er íslenskt nýsköpunarfyrirtæki með hugbúnaðarlausn sem ætlað er að auðvelda litlum og meðalstórum fyrirtækjum að móta og innleiða umhverfisstefnu í starfsemi sinni.
25/11/2019 | Fræðsla, Fréttir, Innri, Upptaka, Viðburðir
SVÞ og Fransk-íslenska viðskiptaráðið héldu í síðustu viku hádegisfyrirlestur með innanhússstílistanum Caroline Chéron hjá Bonjour. Fyrirlesturinn var vel sóttur og í honum fjallaði Caroline um ýmislegt varðandi hönnun vinnurýmist til að hafa áhrif á vellíðan starfsfólks og viðskiptavina. Hún fór m.a. yfir uppröðun í rýmum, liti, form og fleira gagnlegt og áhugavert.
Caroline vinnur bæði fyrir heimili og fyrirtæki og hefur unnið með fjölda fyrirtækja að því að bæta vinnurými til að auka vellíðan starfsmanna og viðskiptavina.
Þú getur séð myndir frá fyrirlestrinum hér á Facebook síðu Fransk-íslenska viðskiptaráðsins og upptöku frá fyrirlestrinum hér fyrir neðan.
19/11/2019 | Fræðsla, Fréttir, Stjórnvöld, Viðburðir
Matvælastofnun heldur fræðslufund um breyttar reglur um innflutning á hráu kjöti til Íslands fimmtudaginn 28. nóvember kl. 13:00 – 15:00 í húsnæði stofnunarinnar að Dalshrauni 1b í Hafnarfirði.
Markmið fundar er að upplýsa um þær reglur sem brátt taka gildi um innflutning á fersku hráu kjöti til Íslands og þær kröfur sem innflytjendur og dreifingaraðilar þurfa að uppfylla. Farið verður yfir viðbótartryggingar vegna salmonellu og sérreglur um kampýlóbakter.
Dagskrá:
- Breyttar reglur um innflutning á fersku hráu kjöti til Íslands
- Staðan á Íslandi og í Evrópu
- Kampýlóbakter í alifuglakjöti – ábyrgð matvælafyrirtækja
- Salmonella í eggjum og kjöti – ábyrgð matvælafyrirtækja
- Eftirlit og viðurlög
Fundurinn er ætlaður matvælafyrirtækjum, einkum þeim sem flytja inn og dreifa hráum dýraafurðum, og öðrum áhugasömum.
Tilefni fundar er afnám frystikröfu og leyfisveitingar á innfluttum hráum dýraafurðum í kjölfar EFTA dóms.
Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur unnið að sérreglum um kampýlóbakter í alifuglakjöti og öflun viðbótartrygginga vegna salmonellu í samstarfi við Matvælastofnun. Í upphafi ársins samþykkti Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) heimild Íslands til að beita reglum um viðbótartryggingar vegna salmonellu í innfluttu kjúklinga- og kalkúnakjöti og eggjum. Viðbótartrygging vegna salmonellu í innfluttu svína- og nautakjöti var samþykkt á fundi sameiginlegu EES nefndarinnar 25. október sl.
Fræðslufundurinn er opinn öllum og þátttakendum að kostnaðarlausu. Honum verður streymt í gegnum Neytendavakt Matvælastofnunar á Facebook og upptaka gerð aðgengileg þar og á vef Matvælastofnunar að fundi loknum.