10% minni meðaleyðsla á hvern erlendan ferðamann í ágúst

Samkvæmt fréttatilkynningu frá Rannsóknasetri verslunarinnar nam erlend greiðslukortavelta hérlendis í ágúst síðastliðnum alls 32,8 milljörðum króna og var 6,2% meiri en í sama mánuði í fyrra. Sumarmánuðina þrjá, júní, júlí og ágúst, nam erlend greiðslukortavelta hérlendis alls 93,2 milljörðum kr., sem er 5,3% meiri velta en sömu mánuði sumarið 2016.
Ágúst var metmánuður í komum ferðamanna um Leifsstöð. Samkvæmt tölum Ferðamálastofu komu 284.124 ferðamenn um flugvöllinn í ágúst, 17,6% fleiri en í ágúst í fyrra og 4,5% fleiri en í júlí síðastliðnum. Eins og sést á þessum tölum var vöxtur í fjölda ferðamanna mun meiri en vöxtur í kortaveltu þessara sömu ferðamanna þannig að hver ferðamaður ver því um 10% lægri upphæðum með greiðslukortum til kaupa á vöru og þjónustu en fyrir ári síðan.
Þó töluvert hafi dregið úr þeim mikla vexti sem hefur verið í kortaveltu ferðamanna undanfarin ár er enn vöxtur í flestum útgjaldaliðum. Þannig var erlend kortavelta gististaða í ágúst Kortavelta e. flokkum 08 20177,4 milljarðar kr. og jókst um 11,4% frá ágúst í fyrra. Þá er enn aukning í kortaveltu vegna ýmissa skipulegra ferða eins og hvalaskoðun, gönguferðum  og ferðum með leiðsögn.
Þeir útgjaldaliðir sem helst dragast saman á milli ára eru gjafa- og minjagripaverslun (-17,1%) og flokkurinn önnur verslun (-10,5%). Verslun í heild jókst þó um 3,3% frá ágúst í fyrra en mestur vöxtur í verslun varð í dagvöruverslun, eða 18,3%. Kenningar eru um að erlendir ferðamenn velji í auknum mæli að kaupa mat í dagvöruverslunum frekar en á  veitingahúsum. Það gæti verið fótur fyrir þessu, því vöxtur í erlendri kortaveltu veitingahúsa nam aðeins 4,8% í ágúst. Mestur vöxtur erlendrar kortaveltu í mánuðinum, var í flokki farþegaflutninga, 21,4% frá ágúst í fyrra og nam í mánuðinum 4,2 milljörðum, samanborið við 3,4 milljarða í fyrra.

Bretar skera sig úr
Athygli vekur að hver Breti hefur undanfarna fjóra mánuði greitt töluvert meira með greiðslukortum sínum en áður. Þetta er sérstaklega áhugavert í ljósi þess hve veikt breska pundið er gagnvart krónunni. Á myndinni að neðan má sjá samanburð á greiðslukortaveltu hvers ferðamanns óháð þjóðerni í samanburði við greiðslukortaveltu hvers Breta. Ólíkt meðal-ferðamanninum sækja fleiri Bretar Ísland heim að vetri til en sumri og heldur færri breskir ferðamenn hafa komið hingað til lands í sumar samanborið við sumarið 2016. Þó erfitt sé að slá því föstu hvað veldur hærri greiðslukortaveltu Breta nú en áður má geta sér til að hluti ástæðunnar sé sú að fleiri breskir ferðamenn komi nú hingað til lands á eigin vegum en ekki fyrir tilstuðlan erlendra ferðaskrifstofa. Kortagögn RSV ná ekki til greiðslna erlendra ferðamanna til ferðaskrifstofa í heimalandinu. Mestur vöxtur greiðslukortaveltu Breta á tímabilinu er í gististarfsemi og styður það áðurnefnda tilgátu. Þá kann einnig að vera að í ljósi óhagstæðs gengis treysti eingöngu efnuðustu bresku ferðamennirnir sér í Íslandsferð en þeir sem minna hafa milli handanna velji aðra áfangastaði.

Kortavelta eftir þjóðerni
Ef miðað er við fjölda erlendra ferðamanna um Keflavíkurflugvöll greiddi hver þeirra að jafnaði með greiðslukorti sínu fyrir 115 þús. kr. í ágúst, eða 5,7% minna en í júlí. Það er um 10% lægri upphæð en í sama mánuði í fyrra.

Ferðamenn frá Bretlandi greiddu að jafnaði hæstar fjárhæðir með greiðslukortum sínum í júlí eða 170 þús. kr. á hvern ferðamann. Norðmenn eru í öðru sæti með 130 þús. kr. á hvern ferðamann. Athygli vekur að ferðamenn frá öðrum löndum en þau sem talin eru greiddu 146 þúsund á hvern mann í ágúst.
Velta eftir þjóðernum ræðst meðal annars af því hversu löng dvölin hér á landi er og hvort greitt hafi verið fyrir ferðina áður en komið er til landsins auk þess sem mismunandi er í hve miklum mæli ferðamenn greiða með greiðslukortum. Þá þarf að hafa í huga að tölur um fjölda ferðamanna um Keflavíkurflugvöll ná ekki til allra þeirra sem koma til landsins.

Í því talnaefni sem Rannsóknasetur verslunarinnar hefur yfir að ráða er nánar hægt að greina kortaveltu erlendra ferðamanna eftir útgjaldaliðum og þjóðerni.

Um kortaveltu ferðamanna
Rannsóknasetur verslunarinnar birtir mánaðarlega tölur um greiðslukortaveltu ferðamanna sundurliðaða eftir útgjaldaliðum og útgáfulandi korta. Gögnunum er enn fremur skipt eftir því hvort um er að ræða erlend eða innlend greiðslukort. Gögnin innihalda færslur bæði debet- og kreditkorta. Birtar eru upphæðir í íslenskum krónum ásamt hlutfallsbreytingum frá fyrri mánuði og sama mánuði fyrra árs.
Gögnin eru fengin frá innlendum færsluhirðingaraðilum, sundurliðuð eftir svonefndum MCC kóðum. MCC kóðarnir eru aftur greindir í flokka eftir því hvernig þeir eru taldir tengjast mismunandi greinum ferðaþjónustu.

Nánari upplýsingar veitir Árni Sverrir Hafsteinsson, arni@bifrost.is eða í síma 868-4341.

Fréttatilkynning RSV

Evrópuþingið staðfestir tollasamning um landbúnaðarvörur við Ísland

Fréttatilkynning send til fjölmiðla 12.9.2017
Eins og kunnugt er voru í september 2015 undirritaðir af fulltrúum Evrópusambandsins (ESB) og íslenskra stjórnvalda nýir samningar um viðskipti með matvæli. SVÞ hafa lýst því yfir að samkomulag þetta er sannarlega fagnaðarefni og jákvætt skref í þá átt að auka frelsi í viðskiptum með matvæli sem og veita innlendum neytendum aukið val á þessum vörum á samkeppnishæfu verði. Er um að ræða breytingar sem eiga samhljóm með áralangri baráttu samtakanna fyrir auknu frelsi í innflutningi á landbúnaðarafurðum og öðrum matvælum.

Samkomulagið felur í sér að felldir eru niður tollar af alls 101 tollnúmerum sem koma til viðbótar við þau númer sem tollar hafa þegar verið felldir niður af. Sem dæmi um vörur sem bera núna ekki toll eru sykurvörur, sósur, gerjaðir drykkir o.s.frv. Aftur á móti munu með samkomulaginu falla niður tollar á vörum eins og súkkulaði, sætu kexi, pizzum og fylltu pasta.

Þá felur samkomulagið í sér að stórauknir eru tollkvótar á kjöti, þ.m.t. svína-, alifugla- og nautakjöti en þess ber að geta að tollkvótar þessir verða innleiddir í áföngum en koma að fullu til framkvæmda að fjórum árum liðnum frá gildistöku samningsins.

Gildistaka samningsins er háð samþykki bæði íslenskra stjórnvalda og ESB en hinn 13. september 2016 samþykkti Alþingi þingsályktun sem heimilaði ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd samning milli Íslands og Evrópusambandsins um ívilnanir í viðskiptum með landbúnaðarvörur.

Þess hefur hins vegar verið beðið lengi að Evrópuþingið staðfesti samninginn fyrir sitt leyti. Í dag var samningurinn loksins á dagskrá þingsins. Eins og við mátti búast rann samningurinn átakalítið í gegn og var samþykktur með 665 atkvæðum gegn 7, en 18 þingmenn sátu hjá. Þar með er síðustu hindruninni rutt úr vegi fyrir gildistöku þessa mikilvæga samnings og eftir síðustu fréttum að dæma ætti gildistaka að geta orðið ekki seinna en 1. apríl 2018.

Hér má nálgast frétt Evrópuþingsins.

Fréttatilkynning til útprentunar

Frá fundi um nýjar áskoranir í framhaldsfræðslu

Mennta- og menningarmálaráðuneytið, Fræðslumiðstöð atvinnulífsins og Fræðslusjóður stóðu fyrir málþingi um nýjar áskoranir í framhaldssfræðslu 7. sept. sl. Málþingið var vel sótt og greinilega mikill áhugi á þróun framhaldsfræðslunnar og þeim leiðum sem farnar verða í þeim breytingum sem framundan eru. Áslaug Hulda Jónsdóttir, forstöðumaður menntamála hjá SVÞ – Samtökum verslunar og þjónustu var með erindi á ráðstefnunni þar sem hún fór yfir sýn atvinnurekenda á námi í fyritækjum. Kristján Þór Júlíusson, mennta- og menningarmálaráðherra setti ráðstefnuna og aðrir framsögumenn voru: Sveinn Aðalsteinsson, Fræðslumiðstöð atvinnulífsins, Svanhildur Kr. Sverrisdóttir, mennta- og menningarmálaráðuneyti, Fjóla Jónsdóttir, Efling stéttarfélag, Inga Dóra Halldórsdóttir, Símenntunarmiðstöð Vesturlands og Særún Rósa Ástþórsdóttir, Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum. Guðrún Ragnarsdóttir, ráðgjafi Strategía ehf og formaður Fræðslusjóðs stýrði fundi.

Í erindi Áslaugar Huldu kom m.a. fram:

Það skiptir máli að einstaklingar sem sækja sér meiri menntun fái eignarhald á því sem þeir hafa á sig lagt, fái vottun og viðurkenningu á sínu framlagi. Við verðum að tryggja að allt nám, þjálfun og fræðsla sé skráð og fylgi einstaklingnum – hvort sem það er í formlegu námi, hjá símenntunarmiðstöðvunum eða þálfun og námi innan fyrirtækis. Og svo þarf fjármagnið að fylgja þeim einstaklingum sem sækja sér endurmenntun – hvar sem hún er svo framarlega sem hún er viðurkennd. Það má ekki vera lokað inni í einhverju kerfi.

Það liggja gríðarleg tækifæri í stafrænum lausnum. Og við verðum að grípa þau! Við þurfum ekki lengur að flytja fólk úr öllum áttum á sama stað, á sama tíma, og fara yfir mikið efni í alltof langan tíma. Við getum streymt efninu. Tekið upp. Og starfsmenn geta farið yfir námsefnið þegar þeim hentar, þar sem þeim hentar, á þeim tíma sem þeim hentar. Með aðstoð tækninnar getum við líka á skilvirkari hátt verið tilbúin með þekkinguna þegar starfsmaðurinn þarf hana en ekki þegar fyrirtækið er búið að bóka sal og fyrirlesara. Tæknin kemur svo sterk inn með alla þá fjölbreyttu möguleika sem stafræn þjálfun gefur okkur.

Til eru rannsóknir sem sýna að einstaklingar sem hafa tækifæri til að auka þekkingu sína og vaxa í starfi eru ánægðari í starfi, hafa góð áhrif á liðsheild og starfa lengur innan viðkomandi fyrirtækis. Aukin menntun og fræðsla eykur sveigjanleika innan fyrirtækja, starfsfólk getur tekið að sér fjölbreyttari störf og er frekar tilbúið í breytingar. Með þessu verður mannauður fyrirtækisins öflugri og fyrirtækin þá um leið samkeppnishæfari. Þetta hefur líka jákvæð áhrif á ímynd fyrirtækja. Allt þetta skiptir fyrirtækin máli, ör starfsmannavelta er fyrirtækjum dýr. Kröfur um hæfni eru alltaf að aukast – vel þjálfað og hæft starfsfólk gerir færri mistök, er skilvirkara og nýtir tíma sinn betur. Hæft fólk skapar meira virði fyrir fyrirtækin.

Starfslýsingar og hæfnikröfur þurfa að vera lagðar til grundvallar þegar námsframboð er skipulagt. Hæfnigreiningar þurfa að liggja að baki námsskráa þegar þær eru unnar eða endurskoðaðar. Þær eiga að leggja grunn að menntun. Og það er mikilvægt að atvinnulífið takið formlega þátt í mótun stefnu um menntun. Menntun þarf að taka mið að þörfum atvinnulífsins.

Fræðslumál ólíkra fyrirtækja

Fyrsti morgunfundur vetrarins í fundaröð Húss atvinnulífsins um menntamál verður haldinn miðvikudaginn 27. september kl. 8.30 – 10.
Á fundinum verða kynntar niðurstöður nýrrar menntakönnunar á vegum Samtaka atvinnulífsins um umfang menntunar og fræðslu innan ólíkra fyrirtækja.

Að auki munu fundargestir fá innsýn í hvernig þessum málum er háttað hjá þremur ólíkum fyrirtækjum, sem öll fara sína leið í menntun og fræðslu síns starfsfólks.

Dagskrá:

Helstu niðurstöður nýrrar menntakönnunar
Þórður Höskuldsson, framkvæmdastjóri Outcome kannana og Guðrún Eyjólfsdóttir verkefnastjóri menntamála SA

Hvernig gerum við þetta?

Sigríður Guðmundsdóttir, mannauðsstjóri Eimskips.
Kristjana Milla Snorradóttir, verkefnastjóri mannauðsmála Nordic Visitor.
Guðrún Inga Guðlaugsdóttir, fræðslustjóri Sjóvá.

Fundarstjóri er Áslaug Hulda Jónsdóttir, forstöðumaður menntamála SVÞ.

Fundurinn fer fram  í Húsi atvinnulífsins, Borgartúni 35, í salnum Kviku á 1. hæð.

Heitt og könnunni og létt morgunhressing frá kl. 8.15.

SKRÁNING FER FRAM HÉR.

Umhverfisverðlaun atvinnulífsins – óskað er eftir tilnefningum

Umhverfisverðlaun atvinnulífsins verða afhent fimmtudaginn 12. október fyrirtækjum sem staðið hafa sig vel í umhverfismálum. Athöfnin fer fram á Hilton Reykjavík Nordica á Umhverfisdegi atvinnulífsins, sem að þessu sinni er helgaður loftslagsmálum.

Óskað er eftir tilnefningum fyrir 12. september nk. með tölvupósti á sa@sa.is merktum: „Tilnefning til umhverfisverðlauna atvinnulífsins“.

Veitt verða tvenn verðlaun. Annars vegar verður umhverfisfyrirtæki ársins og hins vegar framtak ársins verðlaunað. Dómnefnd velur úr tilnefningum og mun meðal annars skoða eftirfarandi þætti:

 Umhverfisfyrirtæki ársins
Hefur innleitt umhverfisstjórnunarkerfi
Hefur aflað viðurkenninga fyrir starfsemina/afurðirnar
Hefur sjálfbæra nýtingu í stefnu sinni
Hefur dregið úr úrgangi og nýtir aðföng vel
Innra umhverfi er öruggt
Áhættumat hefur verið gert fyrir starfsemina
Gengur lengra en lög og reglur segja til um til að draga úr neikvæðum áhrifum starfseminnar á umhverfið
Framtak ársins
Hefur komið fram með nýjung – nýja vöru, þjónustu eða aðferð – sem hefur jákvæð umhverfisáhrif
Hefur efnt til athyglisverðs átaks til að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum af starfsemi sinni
Gagnast í baráttu við loftslagsbreytingar
Að Umhverfisdegi atvinnulífsins standa Samtök atvinnulífsins, Samorka, Samtök ferðaþjónustunnar, Samtök fjármálafyrirtækja, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtök iðnaðarins og Samtök verslunar og þjónustu

Frá ráðstefnu um stafræna tækniþróun í flutningageiranum

Á ráðstefnu SVÞ um stafræna tækniþróun í flutningageiranum sem haldinn var á Grand hóteli 31. ágúst var rætt m.a. um stöðu flutningageirans og um alþjóðlega þróun sem hefur áhrif á geirann.

Jón Gunnarsson, samgönguráðherra,  fjallaði um þær breytingar sem eru að verða á viðskiptaháttum nýrrar kynslóðar og þær stórstígu framfarir í allri tækni sem orðið hafa á allra síðustu árum og gjörbreyta viðskiptaumhverfi fyrritækja. Það er því ögrandi verkefni sem við stöndum nú öll frammi fyrir. Vinnumarkaðinn mun óhjákvæmilega þurfa að aðlaga sig að þessum breytingum.

Sofia Fürstenberg, framkvæmdastjóri hjá nýsköpunar fyrirtækinu BLOC, fjallaði um „Blockchain“ tæknina sem nú ryður sér til rúms á öllum sviðum viðskipta og mun valda  straumhvörfum í flutningageiranum.

Anne-Claire Blet, einn af framkvæmdastjórum fyrirtækisins What3words, kynnti nýja tækni við aðfangastjórnun sem styttir tímann frá upphafstað til áfangastaðar vöru

Ingvar Freyr Ingvarsson fjallaði meðal annars um að  flutningageirinn er stór og mikilvæg atvinnugrein hér á landi, eins og víðast hvar í heiminum. Flutningageirinn grIMG_1538 f. vefeiðir um 8,1% af launum og launatengdum gjöldum á Íslandi og um 7% vinnuafls starfar í flutningageiranum.  Rúmlega 6,6%  af landsframleiðslu á Íslandi árið 2015 kom frá flutningageiranum og hefur samanlagt vægi geirans aukist frá árinu 1997 og má rekja aukninguna til aukinnar hlutdeildar farþegaflutninga með flugi og í vörugeymslu og stoðstarfsemi fyrir flutninga.  Ingvar minntist á að það  færi ekki mikið fyrir flutningastarfsemi í daglegri umræðu hér á landi. Samt sem áður er þetta ein mikilvægasta atvinnugrein landsins sem síðan þjónar öllum okkar stærstu atvinnugreinum og tryggir um leið aðgang landsmanna að vörum og þjónustu erlendis frá.

Kynningar fyrirlesara:

Sofia Fürstenberg – Solutions that can’t be hacked – 3 examples of real applications of blockchain that could change the world of transport and logistics

Anne-Claire Blet – „The Last Mile“: 3 words becoming easier to deliver

Ingvar Freyr Ingvarsson – Mikilvægi skilvirks flutningakerfis fyrir íslenskt efnahagslíf