Samtök verslunar og þjónustu tóku þátt í Deliver ráðstefnu í Berlín þann 27. og 28. júní síðast liðinn. Í þeirri ráðstefnu tóku þátt 50 lönd, 450 leiðandi fyrirtæki í netverslun, 150 nýsköpunarfyrirtæki og birgjar, 50 fjárfestar og 50 fjölmiðlafólk.
Á ráðstefnunni voru veittar viðurkenningar fyrir mestan viðsnúning, vonarljós/skærustu stjörnuna, bestu upplifun viðskiptavina, sjálfbærni, og nýjar leiðir á markaði. Fyrirtæki á borð við Urbantz, DS Smith, What3words og DPDgroup fengu umræddar viðukenningar.
Meðfylgjandi eru fyrirlestar og myndbönd frá aðalræðumönnum ráðstefnunnar:
Þann 1. júní s.l. opnaði ný heilsugæslustöð, Heilsugæslan Höfða, að Bíldshöfða 9, í gamla Hampiðjuhúsinu. Þetta er fyrsta heilsugæslustöðin til að opna á höfuðborgarsvæðinu í mörg ár og er stofnsett á grundvelli útboðs sem fram fór á s.l. ári þar sem boðinn var út rekstur þriggja heilsugæslustöðva á höfuðborgarsvæðinu. Starfsemi heilsugæslustöðvarinnar fer mjög vel af stað en þegar hafa um 4500 manns skráð sig en ætlunin er að sinna a.m.k. þrefalt þeim fjölda.
Um áramótin voru innleiddar breytingar hjá Sjúkratryggingum Íslands þannig að fólk getur valið sér heimilislækni og heilsugæslustöð óháð því hvar þeir búa. Mikilvægt er að kynna þessa breytingu betur, en nokkuð hefur vantað á að fólk geri sér grein fyrir þessum breytingum á réttindum sínum til að sækja heilsugæsluþjónustu þar sem það óskar. Allir skjólstæðingar Heilsugæslunnar Höfða, sem þess óska, munu fá sinn eigin heimilislækni og geta þá einnig skráð fjölskylduna alla hjá sama lækni. Gjaldtaka er eins og á öllum öðrum heilsugæslustöðvum og ákvörðuð af Sjúkratryggingum Íslands.
Lögð verður áhersla á gott aðgengi og stuttan biðtíma. Þess vegna hefur sú nýjung verið innleidd að auk hefðbundinna tímabókana og síðdegisvakta frá kl. 16 -18 verði opin móttaka milli kl 8 og 10 á morgnana þar sem óþarft er að bóka tíma fyrirfram, ætlað fyrir stutt eða bráð erindi. Þannig verður stuðlað að því að engum sé vísað frá og skjólstæðingar þurfi ekki að leita annað nema í algerri neyð utan dagvinnu. Heilsugæslan Höfða mun þannig leitast við að gera heilsugæsluna að raunverulegum fyrsta viðkomustað í heilbrigðiskerfinu.
Heilsugæslan Höfða mun jafnframt bjóða upp á alla grunnþjónustu eins og mæðravernd, ungbarnavernd, hjúkrunarmóttöku og einnig verður ákveðin áhersla á lífstílssjúkdóma og vinnu í teymum fyrir skjólstæðinga með langvinna sjúkdóma.
Að heilsugæslunni standa 10 heimilislæknar og á henni starfa 6 hjúkrunarfræðingar þar af 2 ljósmæður, 5 ritarar og framkvæmdastjóri. Allt er þetta starfsfólk með mikla reynslu og mikinn áhuga á að bæta og styrkja heilsugæsluþjónustu á höfuðborgarsvæðinu.
Vonandi er opnun þessarar einkareknu heilsugæslustöðvar fyrsta skrefið í áframhaldandi þróun á því sviði og við megum sjá fleiri slíkar stöðvar opna á næstunni. Slíkt væri í fullu samræmi við þá þróun sem átt hefur sér stað í nágrannalöndum okkar að undanförnu, en bæði í Noregi og Svíþjóð hafa verið tekin afgerandi skref í átt til aukins einkareksturs í heilsugæslunni á undanförnum einum og hálfum áratug. Í Danmörku hefur heilsugælsan verið einkarekin áratugum saman.
SVÞ býður aðildarfyrirtækjum SVÞ á ráðstefnu um stafræna tækniþróun í flutningageiranum þann 31. ágúst nk. Birgit Marie Liodden verður aðalræðumaður ráðstefnunnar og mun hún fjalla um stafræna tækniþróun í sjó-, land- og flugflutningum og hvernig sú þróun hefur áhrif víðar, ekki síst á smásölu og heildsölu.
Birgit hefur þrátt fyrir ungan aldur sýnt að hún hefur mikla leiðtogahæfileika og er núna einn helsti talsmaður nýrrar kynslóðar fólks í flutningageiranum – bæði í Noregi og alþjóðlega. Fyrir utan að vera stofnandi og fyrsti framkvæmdastjóri YoungShip internaional, þá hefur hún þegar unnið fyrir aðila á borð við Wilh. Wilhelmsen og OECD (ráðgjöf). Hún vinnur nú sem stjórnandi í Nor-shipping og er stjórnarmaður í Norwegian Sea Rescue Academy og Wista Norway & Ocean Industry forum Oslo region.
Evrópusamtök verslunarinnar, EuroCommerce hafa gefið út rafrænan bækling sem ætlaður eru til að leiðbeina smásölum og öðrum seljendum vöru og þjónustu, um hvernig best verði staðið að innleiðingu á notkun snertilausra greiðslukorta og greiðslna sem fara fram í gegn um síma. Til þess að geta nýtt sér þessa nýju greiðslumiðlun á sem bestan hátt er nauðsynlegt að kynna sér hvaða búnaður er nauðsynlegur og ekki síður hvernig þjálfa skal starfsfólk í notkun á þessari nýju aðferð.
Bæklingur er til frjálsra afnota fyrir aðildarfyrirtæki SVÞ og má nálgast hér.
Í umsögn til Samkeppniseftirlitsins gera SVÞ – Samtök verslunar og þjónustu athugasemdir við framkomna beiðni Markaðsráð kindakjöts um undanþágu frá ákvæðum samkeppnislaga vegna boðaðs samstarfs fyrirtækja í útflutningi á kindakjöti. SVÞ telja að í framkominni undanþágubeiðni hafi ekki verið sýnt fram á að skilyrði slíkrar undanþágu séu uppfyllt.
Markaðsráð kindakjöts hefur sent beiðni á Samkeppniseftirlitið þar sem óskað er eftir undanþágu frá bannákvæðum samkeppnislega vegna samstarfs hagsmunaaðila hvað varðar markaðssetningu á kindakjöti erlendis. Telur ráðið nauðsynlegt til að koma á laggirnar samstarfi aðila og sameiginlegu markaðsátaki til að takast á við erfiðleika í útflutningi á kindakjöti sem stafi m.a. af mikilli styrkingu krónunnar og aðrar neikvæðar breytingar vegna gengisþróunar ásamt því að aðgengi að ýmsum mörkuðum hafi lokast eða er skert.
Í umsögn sinni benda SVÞ á að tilvísaðir erfiðleikar sem blasa við markaðssetningu kindakjöts eru á margan hátt sambærilegir þeim starfsskilyrðum sem aðrar útflutningsgreinar hér á landi fást við og hafa haft áhrif á starfsemi þeirra. Nú þegar hefur hið opinbera hlaupið undir bagga með framleiðendum kindakjöts þar sem segir að íslenska ríkið hafi þegar lagt til 100 milljónir króna í sérstöku markaðsátaki vegna óhagstæðra aðstæðna á evrópskum kjötmörkuðum og hækkunar krónunnar.
Þá ítreka SVÞ að undanþáguheimild samkeppnislaga grundvallast á því að öll skilyrði slíkrar heimildar séu uppfyllt að fullu en ekki að hluta og verða þeir sem óska undanþágu á grundvelli umræddrar undanþáguheimildar að sýna fram á að umrædd skilyrði séu uppfyllt. Í umsögninni benda SVÞ að ekki eru uppfyllt skilyrði samkeppnislaga um að neytendur njóti góðs af slíku samstarfi, þ.e. að stuðla að enn frekari skort á tilteknum pörtum kindakjöts en að óbreyttu er vöntun á innanlandsmarkaði eftir tilteknum pörtum, s.s. hryggjum, sem hefur haft í för með sér hækkun á verðsskrám afurðarstöðva og felur í sér hækkun á verði til neytenda.
Er það mat SVÞ að Markaðsráð kindakjöts hafi ekki í fyrirliggjandi beiðni tekist að sýna fram á að öll skilyrði samkeppnislaga fyrir undanþágu frá ákvæðum laganna séu uppfyllt. Telja SVÞ að ekki hafi verið sýnt fram á þá hagræðingu og hagsmuni sem umbeðin undanþága muni hafa í för með sér gagnvart neytendum og veita þeim sanngjarna hlutdeild í þeim ávinningi sem að boðuðu samstarfi hlýst.
Blaðagrein birt í Morgunblaðinu 21.6.2017 Höfundur: Margrét Sanders, formaður Samtaka verslunar og þjónustu
Íslensk verslun stendur nú frammi fyrir nýjum áskorunum. Koma tveggja alþjóðlegra stórfyrirtækja inn á hinn litla íslenska markað hefur þegar haft áhrif á smásölumarkaði, sem gætu allt eins orðið meiri á næstu mánuðum. Neytendur hafa tekið þessum breytingum fagnandi og hafa á undanförnum vikum staðið fyrir meiri og víðtækari umfjöllun um hagsmuni neytenda en dæmi eru um. Þessu ber að fagna, enda á verslunin allt sitt undir ánægðum neytendum og verslunin á Íslandi verður að standa sig í aukinni samkeppni.
Eins og oft gerist þegar breytingar sem hér um ræðir ganga yfir, þá falla stór orð í umræðunni. Margir eru óhræddir við að fella dóma. Sá sem harðast hefur gengið fram í þessari umræðu er Þórarinn Ævarsson, framkvæmdastjóri IKEA. Í grein sem birtist eftir hann í DV um s.l. helgi hefur hann uppi stór orð um félaga sína í hópi kaupmanna, en þar heldur hann því blákalt fram að íslensk verslun hafi stundað okur, hækkað verð fyrir útsölur og blekkt fólk.
Á meðan framkvæmdastjóri IKEA gerir ekki nánari grein fyrir því til hverra úr hópi kaupmanna hann beinir þessum orðum sínum, liggur allur sá stóri hópur „undir grun“. Þórarinn er því hér með hvattur til að stíga fram og segja með skýrum og ótvíræðum hætti við hverja hann á. Með því móti einu gefst þeim sem þessum orðum er beint til, möguleiki á að bera hönd fyrir höfuð sér. Þórarinn hefur oft sýnt það að hann hikar ekki við að segja það sem honum býr í brjósti. Það verður því varla hik á honum að upplýsa þetta. Framkvæmdastjóri IKEA hefur einnig sýnt það að hann er prýðilegur rekstrarmaður, um það vitna nýbirtar afkomutölur um rekstur IKEA, en framlegð þar er með því allra hæsta sem sést í smásöluverslun á Íslandi í dag. Hann hefur einnig stigið fram í ræðu og riti og talað um hærra verð í IKEA verslun sinni en sambærilegum IKEA verslunum í þeim löndum sem við berum okkur saman við og gert það vel. Verslun hans er til fyrirmyndar á erfiðum íslenskum örmarkaði, eykur á fjölbreytileikann á markaðnum eins og þessar verslunakeðjur gera sem eru að koma nýjar á markaðinn.
Íslensk verslun er ekki á villigötum þó hún takist nú á við stærri viðfangsefni en oft áður. Fjölbreytnin og samkeppnin er að aukast og því ber að fagna. Umræða um íslenska verslun er hins vegar á villigötum á meðan hún er með þeim hætti sem verið hefur undanfarnar vikur. Atvinnugreinin sem slík og þeir 26.000 einstaklingar sem hafa atvinnu sína af verslun eiga skilið málefnalega umræðu, þar sem tekist er á með rökum en ekki með sleggjudómum.