03/10/2017 | Fréttir, Menntun, Viðburðir
Hátt í hundrað manns víða úr atvinnulífinu mættu í Hús atvinnulífsins á fyrsta fund vetrarins í fundaröðinni Menntun og mannauður sem fram fór í vikunni. Samtök atvinnulífsins, Samtök ferðaþjónustunnar, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtök fjármálafyrirtækja, Samtök iðnaðarins, Samorka og Samtök verslunar og þjónustu standa að fundaröðinni.
Þórður framkvæmdastjóri, Outcome kannana, og Guðrún S. Eyjólfsdóttir, verkefnastjóri menntamála hjá Samtökum atvinnulífsins, fóru yfir niðurstöður nýrrar menntakönnunar atvinnulífsins. Fram kom að í sex af hverjum tíu fyrirtækjum fer fram skipuleg fræðsla og að starfsreynsla, menntun á viðkomandi sviði og samskiptahæfni skorar hæst þegar verið er að ráða nýtt fólk.
Að auki voru flutt þrjú erindi frá ólíkum fyrirtækjum, bæði að stærð og gerð, þar sem fjallað var um fræðslu innan þeirra. Sigríður Guðmundsdóttir, mannauðsstjóri Eimskips, Kristjana Milla Snorradóttir, verkefnastjóri mannauðsmála Nordic Visitor og Guðrún Inga Guðlaugsdóttir, fræðslustjóri Sjóvá veittu innsýn í fræðslustarf fyrirtækjanna.
Í ljós kom ákveðinn samhljómur með þeim og var áhugavert var að heyra um mikilvægi nýliðaþjálfunar og mentora, tækifæri í stafrænni þjálfun og fræðslu svo eitthvað sé nefnt.
Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, opnaði fundinn og Áslaug Hulda Jónsdóttir, forstöðumaður menntamála hjá Samtökum verslunar og þjónustu stýrði fundinum.
Hér má nálgast erindi sem flutt voru á fundinum.
29/09/2017 | Fréttir
Forsætisráðuneytið óskaði nýverið eftir því við Hagfræðistofnun Háskóla Íslands að stofnunin tæki að sér að greina áhrif afnáms tolla og vörugjalda á verðlag. Skýrsla Hagfræðistofunar liggur nú fyrir. Afnám tolla og vörugjalda skilaði sér til neytenda samkvæmt úttekt Hagfræðistofnunar Háskóla Ísland. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá forsætisráðuneytinu.
Hagfræðistofnun mat álagningu kaupmanna á átta tegundum innfluttra matvara, fatnaðar og heimilistækja á árunum 2014-2017. Verð eru borin saman fyrir og eftir kerfisbreytingu. Álagning kaupmanna er reiknuð út sem afgangsstærð þegar tillit hefur verið tekið til annarra verðþátta, aðflutningsgjalda og virðisaukaskattshlutfalls. Þróun álagningar í krónum er síðan notuð sem mælikvarði á kjarabætur neytenda. Stofnunin telur rétt að miða við álagningu í krónum fremur en hlutfallslega álagningu því stærstur hluti af rekstrarkostnaði verslana er óháður innkaupsverði á þeim vörum sem verslað er með.
Niðurstaðan er sú að lækkun gjalda hafi skilað sér í vasa neytenda. Smásöluverð allra varanna lækkaði. Álagning kaupmanna, mæld í krónum, lækkaði eða breyttist lítið á sjö vörum af átta. Þannig lækkaði álagning á 1 kg. af strásykri úr 65 kr. árið 2014 í 41 kr. árið 2017, álagning á gallabuxum úr 8.462 kr. í 7.961 kr. og álagning á ísskápum úr 26.962 kr. í 20.515 kr. Álagning á skyrtum hækkaði hins vegar úr 5.729 kr. í 6.092 á sama tímabili.
29/09/2017 | Fréttir
Umræða um einkarekstur innan heilbrigðiskerfisins er oftar en ekki þannig að aukaatriði eru gerð að aðalatriðum. Minna fer fyrir því í umræðunni hvernig málin horfa við notendum þjónustunnar, sjúklingum og öðrum þeim sem þurfa á þjónustu heilbrigðiskerfisins að halda. Með öðrum orðum, neytendasjónarmið fá ekki mikið rúm í þeirri umræðu.
Margir sem tjá sig um íslenska heilbrigðiskerfið vilja sjá að norræna velferðarmódelið verði tekið til fyrirmyndar við uppbyggingu og framþróun heilbrigðiskerfisins. Í því ljósi er fróðlegt að sjá hvernig heilbrigðiskerfið hefur þróast á hinum Norðurlöndunum. Þar hefur mönnum nefnilega orðið ljóst, að fjölbreytt rekstrarform er það sem skilar mestum ábata, bæði fyrir þann aðila sem borgar reikninginn, ríkið, en þó fyrst og fremst fyrir notendur þjónustunnar.
Nokkur dæmi:
– Í Noregi er meirihluti heilsugæslustöðva einkarekin, eftir kerfisbreytingu sem gekk í gildi árið 2001, í kjölfar útboða;
– Í Svíþjóð var fyrirkomulagi heilsugæslunnar verið breytt fyrir nokkrum árum á þann veg að hún samanstendur bæði af einkareknum og opinbert reknum heilsugæslustöðvum;
– Í Finnlandi hefur sama þróun átt sér stað nú síðustu árin með stóraukinni þjónustu einkarekinna heilsugæslustöðva;
– Heilsugæslan í Danmörku er alfarið einkarekin og hefur svo verið um áratugaskeið.
Fyrir 13 árum var fyrsta einkarekna heilsugæslustöðin hér á landi sett á laggirnar, heilsugæslan Salahverfi. Það fyrirtæki lenti í þriðja sæti í kosningu um fyrirtæki ársins á s.l.ári. Rekstur þeirrar stöðvar hefur verið umtalsvert betri en hjá opinbert reknum heilsugæslustöðvum, um það vitna opinberar tölur. Tvær nýjar einkareknar heilsugæslustöðvar hafa nýlega hafið rekstur í Reykjavík. Af þeirri stuttu reynslu sem komin er á þá starfsemi, er ekki annað að sjá en að almenningur taki þeirri viðbót fagnandi.
Hér á landi eru um 1,6 milljónir heimsóknir til lækna á hverju ári. Af þeim heimsóknum eru um 480 þúsund til sjálfstætt starfandi lækna, eða um 30% allra heimsókna. Hingað til hafa á bilinu 4 – 6% útgjalda vegna heilbrigðismála runnið til starfsemi sjálfstætt starfandi heilbrigðisfyrirtækja. Þeim fjármunum telst því mjög vel varið.
Fullyrða má að með því að byggja upp samkeppni innan heilbrigðiskerfisins, batni þjónustan, heilbrigðisstarfsfólk búi við meiri starfsánægju en ella og hafi fleiri og fjölbreyttari atvinnumöguleika. Staðreyndin er nefnilega sú, að þar sem heilbrigð samkeppni fær að njóta sín, leysast úr læðingi hvatar þar sem fjármagnið nýtist best og þjónustan við þá sem eiga að njóta, batnar.
Þessi staðreynd á alls staðar við, einnig í heilbrigðiskerfinu.
Höfundur: Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu
20/09/2017 | Fréttir
Stjórn sjóðsins hefur samþykkt möguleika á sameiginlegum styrk launþega og fyrirtækis til sjóðsins
Launþega og fyrirtæki gefst kostur á að sækja um sameiginlegan styrk til sjóðsins ef nám launþega kostar kr. 500.000 eða meira. Umsókn er afgreidd eftir reglum sjóðsins um starfstengt nám. Launþegi sækir um styrkinn og með umsókn verður að fylgja lýsing á náminu og undirrituð yfirlýsing frá fyrirtækinu. Í yfirlýsingunni skal koma fram að um sé að ræða sameiginleg umsókn og að námið sé hluti af starfsþróunaráætlun starfsmannsins. Við samþykkt umsóknar dregst styrkupphæðin af rétti bæði launþega og fyrirtækis. Hámarksstyrkur getur orðið samtals sem nemur hámarksrétti einstaklings og hámarksrétti fyrirtækis. Sjá nánar ákvæði um hámarksstyrk á vefsíðu sjóðsins, www.starfsmennt.is
Hækkun styrkfjárhæða frá áramótum
Þann 1. janúar 2018 taka gildi ný fjárhæðarmörk á styrkjum bæði til launþega og fyrirtækja.
- Veittur verður hámarksstyrkur allt að 130.000 kr. á ári, var 90.000.
- fyrir 90% af námi / starfstengdu námskeiðsgjaldi/ ráðstefnugjaldi, var 75%.
Nánari upplýsingar á vefsíðu sjóðsins, www.starfsmennt.is
20/09/2017 | Fréttir, Menntun, Verslun
Um áramótin munu Háskólinn í Reykjavík og Háskólinn á Bifröst bjóða upp á nýtt nám. Markmiðið er að bjóða upp á valkost í námi fyrir þá sem vilja mennta sig í verslun og þjónustu og vilja jafnvel halda áfram í háskólanám í framhaldi en námið verður metið áfram í námi til BS gráðu í viðskiptafræði í báðum skólum.
Námið, sem verður 60 ECTS einingar, verður nám með vinnu og mun taka tvö ár í dreifinámi. Það byggir að hluta til á áföngum sem nú þegar eru kenndir til BS gráðu í viðskiptafræði við Bifröst og HR en að hluta er um nýja áfanga að ræða, sérstaklega þróaða með sérþarfir verslunar og þjónustu í huga með þátttöku lykilfyrirtækja í greininni. Námið byggir að auki á hæfnigreiningu fyrir starf verslunarstjóra og viðhorfskannana meðal starfandi verslunarstjóra. Styrkur námsins liggur í nánu samstarfi við atvinnulífið og samstarfi háskólanna tveggja um þróun námsins og kennslu.
Almenn inngönguskilyrði verða stúdentspróf eða sambærilegt nám en einnig verður litið til starfsreynslu og hæfni við inntöku nemenda. Stefnt er að því að fyrirtæki velji nemendur úr starfsmannahópum sínum inn í námið en aðrir munu einnig geta sótt um námið.
Það er mikið fagnaðarefni að slíkt nám verði valkostur. Verslunarstjórar sinna ábyrgðarmiklum stjórnendastörfum og algengt er að þeir stýri tugum starfsmanna og beri ábyrgð á hundruð milljóna veltu. SVÞ – Samtök verslunar og þjónustu ásamt VR gerðu könnun meðal verslunarstjóra í vor um menntun og þeirra menntunarþörf. Þar kom í ljós að þörf er á námi sem þessu, en 56% telja sig hafa mikla eða mjög mikla þörf fyrir menntun, þjálfun eða fræðslu í tengslum við núverandi starf. Jafnframt kom fram að meirihluti verslunarstjóra, eða hátt í 70%, telja sig hafa mjög eða frekar lítil tækifæri til endurmenntunar.
Slíkur valkostur á fagháskólastigi er því fagnaðarefni.
14/09/2017 | Fréttir
Samkvæmt fréttatilkynningu frá Rannsóknasetri verslunarinnar nam erlend greiðslukortavelta hérlendis í ágúst síðastliðnum alls 32,8 milljörðum króna og var 6,2% meiri en í sama mánuði í fyrra. Sumarmánuðina þrjá, júní, júlí og ágúst, nam erlend greiðslukortavelta hérlendis alls 93,2 milljörðum kr., sem er 5,3% meiri velta en sömu mánuði sumarið 2016.
Ágúst var metmánuður í komum ferðamanna um Leifsstöð. Samkvæmt tölum Ferðamálastofu komu 284.124 ferðamenn um flugvöllinn í ágúst, 17,6% fleiri en í ágúst í fyrra og 4,5% fleiri en í júlí síðastliðnum. Eins og sést á þessum tölum var vöxtur í fjölda ferðamanna mun meiri en vöxtur í kortaveltu þessara sömu ferðamanna þannig að hver ferðamaður ver því um 10% lægri upphæðum með greiðslukortum til kaupa á vöru og þjónustu en fyrir ári síðan.
Þó töluvert hafi dregið úr þeim mikla vexti sem hefur verið í kortaveltu ferðamanna undanfarin ár er enn vöxtur í flestum útgjaldaliðum. Þannig var erlend kortavelta gististaða í ágúst 7,4 milljarðar kr. og jókst um 11,4% frá ágúst í fyrra. Þá er enn aukning í kortaveltu vegna ýmissa skipulegra ferða eins og hvalaskoðun, gönguferðum og ferðum með leiðsögn.
Þeir útgjaldaliðir sem helst dragast saman á milli ára eru gjafa- og minjagripaverslun (-17,1%) og flokkurinn önnur verslun (-10,5%). Verslun í heild jókst þó um 3,3% frá ágúst í fyrra en mestur vöxtur í verslun varð í dagvöruverslun, eða 18,3%. Kenningar eru um að erlendir ferðamenn velji í auknum mæli að kaupa mat í dagvöruverslunum frekar en á veitingahúsum. Það gæti verið fótur fyrir þessu, því vöxtur í erlendri kortaveltu veitingahúsa nam aðeins 4,8% í ágúst. Mestur vöxtur erlendrar kortaveltu í mánuðinum, var í flokki farþegaflutninga, 21,4% frá ágúst í fyrra og nam í mánuðinum 4,2 milljörðum, samanborið við 3,4 milljarða í fyrra.
Bretar skera sig úr
Athygli vekur að hver Breti hefur undanfarna fjóra mánuði greitt töluvert meira með greiðslukortum sínum en áður. Þetta er sérstaklega áhugavert í ljósi þess hve veikt breska pundið er gagnvart krónunni. Á myndinni að neðan má sjá samanburð á greiðslukortaveltu hvers ferðamanns óháð þjóðerni í samanburði við greiðslukortaveltu hvers Breta. Ólíkt meðal-ferðamanninum sækja fleiri Bretar Ísland heim að vetri til en sumri og heldur færri breskir ferðamenn hafa komið hingað til lands í sumar samanborið við sumarið 2016. Þó erfitt sé að slá því föstu hvað veldur hærri greiðslukortaveltu Breta nú en áður má geta sér til að hluti ástæðunnar sé sú að fleiri breskir ferðamenn komi nú hingað til lands á eigin vegum en ekki fyrir tilstuðlan erlendra ferðaskrifstofa. Kortagögn RSV ná ekki til greiðslna erlendra ferðamanna til ferðaskrifstofa í heimalandinu. Mestur vöxtur greiðslukortaveltu Breta á tímabilinu er í gististarfsemi og styður það áðurnefnda tilgátu. Þá kann einnig að vera að í ljósi óhagstæðs gengis treysti eingöngu efnuðustu bresku ferðamennirnir sér í Íslandsferð en þeir sem minna hafa milli handanna velji aðra áfangastaði.
Kortavelta eftir þjóðerni
Ef miðað er við fjölda erlendra ferðamanna um Keflavíkurflugvöll greiddi hver þeirra að jafnaði með greiðslukorti sínu fyrir 115 þús. kr. í ágúst, eða 5,7% minna en í júlí. Það er um 10% lægri upphæð en í sama mánuði í fyrra.
Ferðamenn frá Bretlandi greiddu að jafnaði hæstar fjárhæðir með greiðslukortum sínum í júlí eða 170 þús. kr. á hvern ferðamann. Norðmenn eru í öðru sæti með 130 þús. kr. á hvern ferðamann. Athygli vekur að ferðamenn frá öðrum löndum en þau sem talin eru greiddu 146 þúsund á hvern mann í ágúst.
Velta eftir þjóðernum ræðst meðal annars af því hversu löng dvölin hér á landi er og hvort greitt hafi verið fyrir ferðina áður en komið er til landsins auk þess sem mismunandi er í hve miklum mæli ferðamenn greiða með greiðslukortum. Þá þarf að hafa í huga að tölur um fjölda ferðamanna um Keflavíkurflugvöll ná ekki til allra þeirra sem koma til landsins.
Í því talnaefni sem Rannsóknasetur verslunarinnar hefur yfir að ráða er nánar hægt að greina kortaveltu erlendra ferðamanna eftir útgjaldaliðum og þjóðerni.
Um kortaveltu ferðamanna
Rannsóknasetur verslunarinnar birtir mánaðarlega tölur um greiðslukortaveltu ferðamanna sundurliðaða eftir útgjaldaliðum og útgáfulandi korta. Gögnunum er enn fremur skipt eftir því hvort um er að ræða erlend eða innlend greiðslukort. Gögnin innihalda færslur bæði debet- og kreditkorta. Birtar eru upphæðir í íslenskum krónum ásamt hlutfallsbreytingum frá fyrri mánuði og sama mánuði fyrra árs.
Gögnin eru fengin frá innlendum færsluhirðingaraðilum, sundurliðuð eftir svonefndum MCC kóðum. MCC kóðarnir eru aftur greindir í flokka eftir því hvernig þeir eru taldir tengjast mismunandi greinum ferðaþjónustu.
Nánari upplýsingar veitir Árni Sverrir Hafsteinsson, arni@bifrost.is eða í síma 868-4341.
Fréttatilkynning RSV