Frá vinnustofu um nýjustu tækni við markaðssetningu á netinu

Í framhaldi af ársfundi SVÞ þann 23. mars sl. þar sem fjallað var um byltingu og breytingu í þjónustu ætlar SVÞ að vera leiðandi við innleiðingu stafrænnar tækniþróunar hjá fyrirtækjum í verslun og þjónustu. Strax í kjölfar aðalfundar stóð SVÞ fyrir vinnustofu fyrir félagsmenn þar sem farið var yfir hvernig kauphegðun viðskiptavina hefur breyst og hvernig hefðbundin Markús Sigurbjörnsson 1verslun og stafræn verslun hafa runnið saman í eitt (s.k. „Omni Channel“ þjónusta).

Þann 29. maí stóð SVÞ síðan  fyrir vinnustofu í samvinnu við Magnús Sigurbjörnsson, framkvæmdastjóra Papaya, þar sem fjallað var um nýjustu tækni við markaðssetningu á netinu.

Á vinnustofunni var kafað dýpra ofan í samfélagsmiðlana og sýnt öll þau tól og tæki sem að fyrirtæki geta nýtt sér betur. Sýnileiki fyrirtækja á samfélagsmiðlum er orðinn mjög mikilvægur, sama í hvaða geira fyrirtækið er í. Markaðstólin og tækifærin á samfélagsmiðlum er orðin svo mörg að við höfum ekki tölu á þeim lengur.  Magnús fjallaði m.a. um Facebook Pixelinn og hvernig best sé að nota hann, dýpri pælingar um markhópa á samfélagsmiðlum ásamt því að tala um nýjustu tæknimöguleikana á netinu.  Magnús lagði áherslu á að nýta auglýsingafjármagn sem best með sem skilvirkustum hætti. Í því samhengi benti hann á mikilvægi markhópagreininga.

Hafa þessar vinnustofur mælst mjög vel fyrir hjá aðildarfyrirtækjum samtakanna og er ætlunin að bjóða upp á fleiri vinnustofur á þessu sviði á komandi hausti.

 

Brotalamir í burðarvirki matvælaeftirlits

Blaðagrein birt í Morgunblaðinu 27.5.2017
Höfundur: Lárus M.K. Ólafsson, lögmaður SVÞ

Hver gætir varðmannanna?
Nýlega féll dómur í Hæstarétti þar sem viðurkennd er skaðabótaskylda Matvælastofnunar (MAST) í svokölluðu kjötbökumáli og fer dómurinn engum silkihönskum um málsmeðferð stofnunarinnar í umræddu máli. Hæstiréttur gagnrýnir MAST fyrir framgöngu sína í málinu sem hafi verið slíkum annmörkum háð af hálfu starfsmanna stofnunarinnar að skilyrði um saknæmi hafi verið fullnægt. Dómur þessi er enn einn álitshnekkur hvað varðar starfsemi MAST sem eftirlitsaðila og vísast hér einnig til fréttaumfjöllunar um eftirlit stofnunarinnar með tilteknum eggjaframleiðanda sem stóðst ekki þær kröfur sem gerðar eru til þeirrar starfsemi s.s. hvað varðar aðbúnað dýra og villandi upplýsingar.

Í báðum þessum málum brást MAST þeim skyldum sem á stofnunina eru lagðar, annars vegar með þögn sinni um ófullnægjandi aðbúnað dýra í matvælaframleiðslu og hins vegar með gildishlöðnum yfirlýsingum um tiltekna matvælaframleiðslu. Málin eru til þess fallin að vekja upp áleitnar spurningar um starfshætti MAST og það traust sem á að ríkja um eftirlitsstarfsemi stofnunarinnar.

Glöggt er gests augað
SVÞ vekja athygli á úttekt Ríkisendurskoðunar á starfsemi MAST frá árinu 2013 þar sem segir m.a. að fjölgun verkefna samhliða hagræðingarkröfu hafi hamlað því að stofnunin geti sinnt lögbundnum verkefnum með ásættanlegum hætti. Það hefur m.a. átt þátt í að draga úr trausti eftirlitsskyldra aðila og annarra hagsmunaaðila til MAST og skapað styr um starfsemina. Þá segir einnig að MAST eigi nokkuð ógert í því að bæta starfsemi sína og verklag. Ráða má af umfjöllun um starfsemi MAST að gagnrýni á starfshætti stofnunarinnar megi m.a. rekja til álags sem á henni hvílir sökum umfangs verkefna sem henni ber að hafa umsjón með. Því telja SVÞ mikilvægt að taka til skoðunar hvort aðkoma einkarekinna og/eða faggiltra fyrirtækja að þeim verkefnum sem MAST hafa verið falin falin að annast geti leitt til þess að hún hafi svigrúm til að sinna öðrum lögbundnum verkefnum sínum með ásættanlegum hætti.

Útvistun verkefna er ekkert feimnismál
SVÞ benda á samkvæmt nýlegri skýrslu um starfsemi MAST sem unnin var fyrir stjórnvöld þá eru þess dæmi í nágrannaríkjum að matavælaeftirliti hafi verið falið til þess bærum faggiltum aðilum og ekki er að ráða að slík framkvæmd hafi reynst illa. SVÞ ítreka að faggiltar skoðunarstofur starfa eftir ströngum kröfum alþjóðlegra staðla um hlutleysi, verkferla og samræmi í framkvæmd verka. Faggiltar stofur hafa starfað hérlendis í tvo áratugi m.a. á sviði bifreiðaskoðana, rafskoðana, skipaskoðana og löggildinga mælitækja auk markaðsgæslu og hafa sannað gildi sitt sem öruggur og hagkvæmur kostur á sviði eftirlits.

Með hliðsjón af gagnrýni á starfsemi MAST og umfangi verkefna hennar má velta því fram hvort MAST ætti einna helst að einbeita sér að hlutverki sínu sem leiðbeinandi stjórnvald og þróun staðla varðandi framkvæmd eftirlits, eða hvort daglegt eftirlit eigi áfram að vera stór hluti af starfsemi stofnunarinnar. Faggiltir skoðunaraðilar hafa getu og þekkingu til að starfa eftir þeim reglum sem um opinbert eftirlit gilda og því gera SVÞ þá kröfu til stjórnvalda að daglegt eftirlit stofnunarinnar verði fært til faggiltra skoðunaraðila og að MAST einbeiti sér að hlutverki sínu sem leiðbeinandi stjórnvald.

Blaðagreinin á pdf sniði.

Örnámskeið fyrir flóttafólk um íslenska verslun og þjónustu

Fréttatilkynning send á fjölmiðla 24.5.2017
SVÞ – Samtök verslunar og þjónustu ásamt Rauða krossinum á Íslandi standa fyrir örnámskeiði fyrir flóttafólk á Íslandi um störf í íslenskri verslun og við þjónustustörf.

,,Atvinnulífið vill leggja sitt af mörkum til þess að hvetja þennan hóp til þátttöku í íslensku atvinnulífi. Hæsta hlutfall á íslenskum vinnumarkaði vinnur við verslun og þjónustustörf sem jafnframt er oft fyrsti viðkomustaður fólks sem er taka sín fyrstu skref á vinnumarkaði“ segir Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu._8100057

Samstarfið hófst í morgun, miðvikudaginn 24. maí, með örnámskeiði þar sem farið var yfir ferlið frá uppbyggingu ferilsskrár og þar til hafin eru störf á vinnustað. Hvernig getur þessi hópur sótt um vinnu á Íslandi, hvaða tækifæri eru í boði, hvernig er íslensk vinnustaðamenning og hvernig gengur þessum hópi almennt.  Mannauðsstjóri og ráðgjafi frá Festi og Hagvangi verða með erindi á námskeiðinu auk þess sem fulltrúar SVÞ og Rauða krossins koma með innlegg. Í undirbúningi eru heimsóknir til fyrirtækja og t.a.m. hefur Eimskip boðist til að bjóða í heimsókn og kynna vinnustaðinn og fara yfir praktísk atriði.

,,Við fögnum þessu framtaki enda mjög mikilvægt að við hlúum vel að þessum hópi og hjálpum þeim að komast inn í íslenskt samfélag og þar gegnir þátttaka á vinnumakaði mikilvægu hlutverki. Það er mikilvægt að læra líka um hluti eins og vinnustaðamenningu sem skiptir afar miklu máli en getur verið erfitt að átta sig á þegar maður er nýkominn til nýs lands með annarri menningu“ segir Kristín S. Hjálmtýsdóttir, framkvæmdastjóri Rauða krossins.

,,Að óbreyttu er líklegra að skortur verði á vinnuafli á Íslandi og að sama skapi tekur tíma að þjálfa og mennta nýtt starfsfólk, ekki síst til að hæfileikar og menntun hvers og eins nýtist. Að auki fáum við nýja þekkingu og fjölbreyttari reynslu inn í landið.“ segir Andrés að lokum.

Nánari upplýsingar gefa:

Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri SVÞ.  andres@svth.is / 820-4500
Brynhildur Bolladóttir, upplýsingafulltrúi. brynhildur@redcross.is /699-4627

Fréttatilkynning á pdf sniði.

 

 

SVTH-logo-NYTT_03 - 2010Rauði krossinn lógó

Hrávöruverð hefur hækkað frá síðasta ári 

Blaðagrein birt í Viðskiptablaðinu 24.5.2017
Höfundur: Ingvar Freyr Ingvarsson, hagfræðingur SVÞ

Verðbólga hefur verið undir verðbólgumarkmiði í meira en þrjú ár. Skýrist það m.a. af hækkandi gengi krónunnar og verðlækkun olíu og annarra hrávara. Íslandi er bæði stór innflytjandi og útflytjandi af hrávörum og því hafa verðsveiflur á erlendum hrávörumörkuðum töluverð áhrif hér á landi. Í því ljósi er áhugavert að skoða þróun og horfur á hrávörumarkaði.

Sé litið á þróun Macrobond hrávöruvísitölunnar síðustu þrjú ár sést að hún tekur að lækka á síðari hluta ársins 2014, tekur aðeins við sér í byrjun árs 2015 en nær síðan lágpunkti í febrúar 2016. Hrávöruverð hefur hækkað frá síðasta ári sem skýrist af sterkari vexti, væntinga um kröftugri eftirspurn í heimsbúskapnum auk samþykktra takmarkana á olíuframboði.

Verðvísitala matvæla og drykkja hefur lækkað á árinu
Sé verðvísitala Alþjóðabankans fyrir matvæli (mæld í Bandaríkjadölum) skoðuð sést að vísitalan hefur lækkað um 4,6% frá janúar til apríl 2017. Verðvísitala Alþjóðbankans fyrir drykki (mæld í Bandaríkjadölum) hefur einnig lækkað frá byrjun árs, eða um 5,4%.

Í þessu samhengi mætti nefna að matur og drykkur námu um 10% af heildarinnflutningi til Íslands árið 2015. Því er ljóst að samspil styrkingar krónunnar ásamt hagstæðum ytri áhrifum hefur komið sér vel fyrir neytendur. Innlendur launakostnaður hefur hækkað verulega sem hefur áhrif á söluverð vegna hærri kostnaðar í innlendri matvælaframleiðslu. Þó er vert að hafa í huga að tæplega 40% matarútgjalda íslenskra heimila eru vegna vörutegunda sem njóta tollverndar. Háir tollar gera innlendum framleiðendum kleift að halda verði hærra en nemur heimsmarkaðsverði á sambærilegum vörum.

Heimsmarkaðsverð á olíu stöðugt
Olíuverð hefur hækkað í kjölfar ákvörðunar OPEC – ríkjanna um að takmarka framleiðslumagn. Þrátt fyrir framleiðslutakmarkanir OPEC, hefur fatið af olíu farið hæst í 56 dollara á þessu ári. Það sem hefur haft dempandi verðáhrif á markaðinn er; aukin framleiðsla Bandaríkjanna á olíu, aukning í olíubirgðum í Bandaríkjunum, aukin olíuframleiðsla í Líbýu á undanförnum vikum og tortryggni gagnvart áhrifum takmarkana OPEC á olíuframleiðslu. Aftur á móti hefur Rússland náð samkomulagi við Saudi Arabíu um að framlengja framleiðslutakmörkunina til mars á næsta ári.

Samspil orkuverðs og matarverðs
Orkuverð hefur aðallega áhrif á matvöruverð í gegnum tvær leiðir. Í fyrsta lagi er eldsneyti lykilkostnaður í framleiðslu og flutningi matvæla. Orkunotkun er meira en 10% af kostnaði við landbúnaðarframleiðslu. Í öðru lagi hafa breytingar á orkuverði áhrif á hvata í viðskiptum og stuðning við lífeldsneyti, sem er að hluta til knúið áfram af markmiði um að vera óháðari innflutningi af hrávöruolíu.

Til lengri tíma mun ný tækni draga úr eftirspurn eftir olíu
Stór hluti af olíunotkun í heiminum tengist flutninga- og fólksbifreiðum. Sú tæknibylting, sem nú á sér stað með þróun rafmagnsbíla, sjálf-aksturs bílum, minni og sjálfkeyrandi hópbifreiðum, mun hafa áhrif á eftirspurn eftir olíu. Hið sama á við um þrívíddarprentun, sem mun spara sendingar- og geymslukostnað.

Eins og nefnt var hér að ofan er ljóst að áhrif hækkandi gengis og lækkandi alþjóðlegs olíu- og hrávöruverðs hefur stuðlað að því að verðbólgan hefur haldist lág, enn sú þróun kann að snúast við taki áhrifin þeirra að fjara út.

Alþjóðabankinn spáir því að jafnvægi náist á milli framboðs og eftirspurnar á olíumarkaði og verð á hráolíu hækki og verði að meðaltali 55 dollara fatið á þessu ári. Þá spáir Alþjóðabankinn því að verð á matvælum eigi eftir að hækka fram til 2020.

Blaðagreinin á pdf sniði.

 

 

 

 

Gengisáhrif krónunnar á erlenda kortaveltu

Samkvæmt tilkynningu frá Rannsóknasetri verslunarinnaar nam erlend greiðslukortavelta 18,6 milljörðum króna í apríl samanborið við 14,6 milljarða í sama mánuði í fyrra en um er að ræða 27,7% vöxt á tímabilinu. Þó ríflega fjórðungs vöxtur sé vissulega töluverð aukning virðist þó nokkuð vera að draga úr þeim mikla hlutfallsvexti sem hefur verið á kortaveltu ferðamanna undanfarin misseri. Vöxtur síðustu þriggja mánaða (febrúar til apríl) frá sama tímabili í fyrra hefur verið 29% en að meðaltali var árlegur hlutfallsvöxtur síðustu 12 mánuði þar á undan 52%. Vöxturinn í apríl er einnig minni í krónum talið en frá apríl 2016 jókst kortaveltan um 4 milljarða samanborið við 5,3 milljarða í apríl í fyrra.

Gengi krónunnar var 17,5% hærra gagnvart helstu viðskiptagjaldmiðlum í apríl síðastliðnum borið saman við apríl 2016. Ekki er ótrúlegt að sterkara gengi eigi sinn þátt í því að kortavelta vex minna núna en áður. Til að setja gengisstyrkinguna í samhengi má segja að kortavelta erlendra ferðamanna í apríl hafi aukist um 50% mælt í viðskiptagjaldmiðlum Íslands samanborið við áðurnefnd 27,7% mælt í íslenskum krónum.

Mest jókst erlend kortavelta í bensín, viðgerðir og viðhald, um 76,5% og dagvöruverslun 66,2% í apríl síðastliðnum. Aukning erlendrar kortaveltu dagvöruverslana umfram aðra liði kann að vera til marks um breytt neyslumynstur erlendra ferðamanna en undanfarna mánuði hefur hlutfallsleg aukning erlendrar kortaveltu dagvöruverslana verið töluvert meiri en á erleMeðalvelta pr. ferðamann 04 2017ndri kortaveltu alls.

Stærsti einstaka liður kortaveltu erlendra ferðamanna eru farþegaflutningar með flugi og nam kortavelta aprílmánaðar 4,5 milljörðum króna og jókst um 38,1% frá apríl í fyrra. Sem fyrr er vakin athygli á því að hluti erlendrar starfsemi innlendra flugfélaga er innifalinn í tölunum.

Erlendir ferðamenn greiddu 33,9% meira með kortum sínum til hótela og gistiheimila í apríl síðastliðnum samanborið við sama mánuð í fyrra. Kortavelta flokksins nam 3,3 milljörðum í apríl samanborið við 2,5 í apríl 2016. Þá var kortavelta veitingastaða 1,9 milljarðar króna í apríl eða 34,3% meiri en í sama mánuði í fyrra.
Aukning kortaveltu í flokknum ýmis ferðaþjónusta sem inniheldur meðal annars þjónustu ýmissa ferðaskipuleggjenda, dagsferðir og fleira var 13% í apríl og nam 2,5 milljörðum í apríl í ár samanborið við 2,2 milljarða í sama mánuði 2016.

Líkt og áður sagði var dagvöruverslun ferðamanna lífleg í apríl en heldur minni vöxtur varð í örðum flokkum verslunar í mánuðinum. Þannig jókst fataverslun um 27,7%, gjafa- og minjagripaverslun um 19,3% og tollfrjáls verslun um 32,6%. Önnur verslun dróst saman um tæplega 1% frá apríl í fyrra.
Fjöldi ferðamanna um Keflavíkurflugvöll samkvæmt mælingu ferðamálastofu var ríflega 153.500 í apríl síðastliðnum samanborið við 94.900 ferðamenn í apríl í fyrra. Um er að ræða 61,8% aukningu á milli ára.

Kortavelta eftir þjóðernum
Ef miðað er við fjölda erlendra ferðamanna um Keflavíkurflugvöll greiddi hver þeirra að jafnaði með greiðslukorti sínu fyrir 121 þús. kr. í apríl, eða um 3% meira en í mars. Það er um 21% lægri upphæð en í sama mánuði í fyrra.

Ferðamenn frá Bandaríkjunum greiddu að jafnaði hæstar fjárhæðir með greiðslukortum sínum í apríl eða 168 þús. kr. á hvern ferðamann. Kanadamenn eru í öðru sæti með 162 þús. kr. á hvern ferðamann. Svisslendingar koma þar næst með 152 þús. kr. á mann.

Velta eftir þjóðernum ræðst meðal annars af því hversu löng dvölin hér á landi er og hvort greitt hafi verið fyrir ferðina áður en komið er til landsins auk þess sem mismunandi er í hve miklum mæli ferðamenn greiða með greiðslukortum. Þá þarf að hafa í huga að tölur um fjölda ferðamanna um Keflavíkurflugvöll ná ekki til allra þeirra sem koma til landsins.
Í því talnaefni sem Rannsóknasetur verslunarinnar hefur yfir að ráða er nánar hægt að greina kortaveltu erlendra ferðamanna eftir útgjaldaliðum og þjóðerni.

Um kortaveltu ferðamanna
Rannsóknasetur verslunarinnar birtir mánaðarlega tölur um greiðslukortaveltu ferðamanna sundurliðaða eftir útgjaldaliðum og útgáfulandi korta. Gögnunum er enn fremur skipt eftir því hvort um er að ræða erlend eða innlend greiðslukort. Gögnin innihalda færslur bæði debet- og kreditkorta. Birtar eru upphæðir í íslenskum krónum ásamt hlutfallsbreytingum frá fyrri mánuði og sama mánuði fyrra árs.

Gögnin eru fengin frá innlendum færsluhirðingaraðilum, sundurliðuð eftir svonefndum MCC kóðum. MCC kóðarnir eru aftur greindir í flokka eftir því hvernig þeir eru taldir tengjast mismunandi greinum ferðaþjónustu. Gögnin lýsa kortaveltu eftir kauptímabilum (almanaksmánuðum) en ekki eftir uppgjörstímabilum.

Nánari upplýsingar veitir Árni Sverrir Hafsteinsson, arni@bifrost.is eða í síma 868-4341.

Fréttatilkynningin frá RSV

Vinnustofa – Nýjustu tæknimöguleikar í markaðssetningu á netinu

Samtök  verslunar og þjónustu ætla sér að vera leiðandi við innleiðingu stafrænnar tækniþróunar hjá fyrirtækjum í verslun og þjónustu. SVÞ mun aðstoða aðildarfyrirtæki við að takast á við þær áskoranir sem fyrirtæki standa frammi fyrir vegna framþróunar stafrænnar tækni og skoða hvaða sóknarfæri er að finna. Með tilliti til þessa stendur SVÞ fyrir vinnustofu fyrir félagsmenn um „Nýjustu tæknimöguleikana í markaðssetningu á netinu“.

Magnús Sigurbjörnsson mun stjórna vinnustofunni en hann hefur nýlega stofnað fyrirtækið Papaya sem býður upp á sérhæfðar lausnir á samfélagsmiðlum.

Þeir þættir sem helst verða teknir til umfjöllunar eru:

– Kynning á auglýsingamöguleikum Facebook & Instagram
– Kynning og tilgangur Facebook Pixel
– Hvernig náum við betur til okkar markhóps?
– Betri stefnumótun á samfélagsmiðlum fyrir fyrirtæki í netverslun
– Remarketing auglýsingaherferðir á samfélagsmiðlum
– Á hvaða samfélagsmiðlum eru tækifæri?
– Verður Facebook Messenger enn mikilvægara tól fyrir þjónustufyrirtæki?
– Nýjasta tækni á samfélagsmiðlum
– Kafað enn dýpra í sérhæfða auglýsingamöguleika á samfélagsmiðlum

Stjórn vinnustofu: Magnús Sigurbjörnsson, framkvæmdastjóri Papaya
Staður og stund: Kvika, Borgartúni 35, mánudaginn 29. maí kl. 08:30 – 11:30

SKRÁNING

Oops! We could not locate your form.