28/03/2017 | Fréttir, Viðburðir
Hin hraða tækniþróun undanfarinna ára, með tilkomu netsins, snjallsíma og samfélagsmiðla hefur gjörbreytt kauphegðun viðskiptavina af aldamótakynslóðinni og þar með aukið samkeppni við hefðbundin verslunar- og þjónustufyrirtæki til muna.
Til þess að aðstoða fyrirtæki við að bregðast við þessari stöðu stendur SVÞ fyrir vinnustofu fyrir félagsmenn þar sem farið verður yfir hvernig kauphegðun viðskiptavina hefur breyst og hvernig hefðbundin verslun og stafræn verslun hafa runnið saman í eitt (s.k. „Omni Channel“ þjónusta).
Kynnt verða tól og tæki til að takast á við áskoranir og nýta tækifæri sem felast í innleiðingu „Omni Channel“ þjónustunnar. Sjá má stutta samantekt á https://eddablumenstein.com/
Stjórn vinnustofu: Edda Blumenstein, sem vinnur að doktorsrannsóknum í Omni Channel Retail Strategy við viðskiptaháskólann í Leeds.
Staður og stund: Kvika, Borgartúni 35, kl. 13:00 – 16:00 mánudaginn 3. apríl 2017
Oops! We could not locate your form.
27/03/2017 | Fréttir, Menntun, Verslun, Þjónusta
Námslínan Stjórnendur í verslun og þjónustu mun hefja göngu sína í annað sinn í september 2017.
Námslínan er samstarfsverkefni Opna háskólans í HR og Samtaka verslunar og þjónustu og er ætluð stjórnendum. Áherslan í náminu verður á hagnýta færni og þekkingu. Jafnframt verður áhersla lögð á raunhæf verkefni til að tengja við vinnuumhverfi og áskoranir í starfi þátttakenda.
Námið samanstendur af sjö efnisþáttum,
- Stjórnun og leiðtogahæfni
- Mannauðsstjórnun
- Framsögn og framkoma
- Tímastjórnun og skipulag
- Sölutækni og þjónustustjórnun
- Markaðsmál – Uppstilling og framsetning
- Rekstur og fjármál
Námslínan hefst 5. september og lýkur 5. desember.
Kennt verður á þriðjudögum frá kl. 13.00-17.00.
Frekari upplýsingar á vef Opna háskólans.
24/03/2017 | Fréttir, Samtök heilbrigðisfyrirtækja, Viðburðir
Fimmtudaginn 30. mars 2017 kl. 15.30
Kviku, 1. hæð, Húsi atvinnulífsins
Dagskrá:
15.15 Húsopnun – Kaffiveitingar
15.30 Málstofa – öllum opin
Hlutverk einkareksturs í heilbrigðisþjónustunni
Gestur fundarins er Nichole Leigh Mosty formaður velferðarnefndar Alþingis
a. Ávarp formanns SH
b. Ávarp Nichole Leigh Mosty
c. Almennar fyrirspurnir og umræður
16.45 Aðalfundur Samtaka heilbrigðisfyrirtækja – opinn fulltrúum meðlimafélaga
Setning fundar
Skipun fundarstjóra
Skipun ritara
Skýrsla stjórnar fyrir sl. starfsár
Stjórnarkjör
Kjör formanns
Kjör tveggja meðstjórnenda
Kjör tveggja varamanna
Önnur mál
Oops! We could not locate your form.
24/03/2017 | Fréttatilkynningar, Fréttir, Í fjölmiðlum, Viðburðir
Fréttatilkynning send til fjölmiðla 23.3.2017
„Þrátt fyrir batnandi umhverfi er snýr að tollum og vörugjöldum þá eru vextir ógnun við íslenskt atvinnulíf. Ef horft er til OECD og BRIC ríkja þá eru raunvextir á Íslandi einna hæstir, svipar til vaxtastigs í Rússlandi – er það landið sem við viljum bera okkur saman við?,“ þetta kom fram í erindi Margrétar Sanders, formanns Samtaka verslunar og þjónustu á ársfundi samtakanna sem haldinn var í dag á Hilton Reykjavík Nordica. Margrét sagði ennfremur að samkeppnin hafi aldrei verið jafn mikil, á sama tíma og verslun er að aukast þá er samkeppnin orðin harðari. „Þjónustufyrirtæki og verslunareigendur verða að varða veginn til að efla samkeppnishæfni sína og mæta þörfum nýrrar kynslóðar sem kýs að versla á netinu.“ Á fundinum var kynnt ný greining Hagfræðideildar Landsbankans á stöðu verslunar og þjónustu í tengslum við ársfund SVÞ. Þar kemur meðal annars fram að einkaneysla hafi aukist í takti við aukinn kaupmátt og að það stefni í lengsta vaxtarskeið einkaneyslu hér á landi. Í greiningu bankans kemur fram að hagvöxturinn sé ekki knúinn áfram af óhóflegri skuldsetningu heldur sýna tölur það að skuldir heimila og fyrirtækja hafa farið lækkandi undanfarin ár. Álagning í smásölu hefur lítið breyst undanfarin ár en fer lækkandi í heildverslun.
Aðrir framsögumenn á fundinum voru ráðherra ferðamála, iðnaðar og nýsköpunar, Þórdís Kobrún R. Gylfadóttir, Anna Felländer, ráðgjafi og hagfræðingur og Daníel Svavarsson forstöðumaður hagfræðideildar Landsbankans. Fundarstjóri var Guðmunda Ósk Kristjánsdóttir, viðskiptastjóri hjá Landsbankanum.
Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir ráðherra talaði um í sínu ávarpi að almennt sé ekki talið að net- og tæknibyltingin ryðji hefðbundnum verslunum alfarið úr vegi heldur muni „stafræn verslun“ og hefðbundin verslun frekar renna saman og nýta kosti hvorrar annarrar. Hún sagði ennfremur að Íslendingar þyrftu að gera sér grein fyrir þessum breytingum og taka þátt í þróuninni með því að laga sína starfsemi sem mest að nýjum og síbreytilegum þörfum neytenda.
Anna Felländer sagði í framsögu sinni að stafræna tæknivæðingin sé að gerast mjög hratt og hafi mikil áhrif bæði á hagkerfið í heild sinni, einstaklinga og fyrirtæki. „Það er að eiga sér stað hröð kerfisbreyting í sölu- og þjónustugeirum vegna áhrifa stafrænnar byltingar. Fyrirtæki þurfa að vera tilbúin að takast á við þessar stafrænu breytingar. Það sem skiptir sköpum er að klæðskerasníða stafræna þjónustu og sölu byggt á þörfum neytandans og innleiða það í alla virðiskeðjuna.“
Daníel Svavarsson, hagfræðingur sagði í erindi sínu að forsendur verslunar væru nú með besta móti. „Einkaneyslan eykst hröðum skrefum í takt við vaxandi kaupmátt og bætta stöðu heimilanna. Á sama tíma hefur kakan einnig stækkað með gríðarlegri fjölgun erlendra ferðamanna en neysla þeirra á vörum og þjónustu var alls um 29% af heildarveltunni á síðasta ári. Arðsemi verslunarfyrirtækja hefur vaxið síðustu ár og er vel viðundandi miðað við aðra geira“. Daníel talaði um að velta um helmingi verslunargreina væru í sögulegu hámarki meðan aðrir geirar höfðu ekki að fullu náð sér á strik. Hann sagði þróunina markast meðal annars af verslun ferðamanna hér á landi en einnig af aukinni verslun Íslendinga á ferðalögum erlendis og á netinu. „Neytendur virðast vera varkárari í eyðsluútgjöldum sínum en á fyrri uppgangstímum sem endurspeglast meðal annars í því að sala á ýmsum dýrari neysluvörum svo sem bílum og fellihýsum er enn lagt frá þeim hæðum sem hún náði fyrir hrun, “ sagði Daníel ennfremur.
Á aðalfundi SVÞ sem haldinn var í morgun var Margrét Sanders endurkjörin formaður samtakanna. Núverandi stjórn SVÞ skipa ásamt formanni, Árni Stefánsson, forstjóri Húsasmiðjunnar ehf., Gústaf B. Ólafsson, framkvæmdastjóri Parka ehf. og Ómar Pálmason, framkvæmdastjóri Aðalskoðunar hf. Þeir sem sitja fyrir í stjórn SVÞ eru Jón Björnsson, framkvæmdastjóri Festi hf., Jón Ólafur Halldórsson, forstjóri Olíuverzlunar Íslands hf. og Kjartan Örn Sigurðsson, framkvæmdastjóri verslunarinnar Kvosin ehf.
Anna Felländer – kynning
Greining Landsbanka Íslands um stöðu verslunar og þjónustu á Íslandi
Myndir frá ráðstefnu SVÞ 23.3.2017
Nánari upplýsingar veitir:
Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri SVÞ
Sími: 820 4500
Margrét Sanders formaður SVÞ
Sími: 863 9977
23/03/2017 | Fréttir, Viðburðir
Ný stjórn SVÞ, frá vinstri: Jón Björnsson, Árni Stefánsson, Margrét Sanders, Gústaf B. Ólafsson, Ómar Pálmason og Jón Ólafur Halldórsson. Á myndina vantar Kjartan Örn Sigurðsson.
Margrét Sanders var endurkjörin formaður Samtaka verslunar og þjónustu (SVÞ) á aðalfundi samtakanna sem var haldinn í dag. Margrét er ráðgjafi hjá Strategíu og hefur setið sem formaður samtakanna frá árinu 2014.
Á fundinum var jafnframt lýst kjöri þriggja meðstjórnenda í stjórn SVÞ fyrir kjörtímabilið 2017-2019 en þeir eru Árni Stefánsson, forstjóri Húsasmiðjunnar ehf., Gústaf B. Ólafsson, framkvæmdastjóri Parka ehf. og Ómar Pálmason, framkvæmdastjóri Aðalskoðunar hf. Þeir sem sitja fyrir í stjórn SVÞ eru Jón Björnsson, framkvæmdastjóri Festi hf., Jón Ólafur Halldórsson, forstjóri Olíuverzlunar Íslands hf. og Kjartan Örn Sigurðsson, framkvæmdastjóri verslunarinnar Kvosin ehf.
„Verslun og þjónusta á Íslandi stendur á tímamótum, samkeppnin hefur aldrei verið meiri og áskoranir hafa sjaldan verið jafn margar. Samtökin hafa löngum barist fyrir afnámi tolla og gjalda. Nú um áramótin var síðasti tollamúrinn afnuminn og telja samtökin það mikið framfaraskref fyrir neytendur og verslunareigendur. Við höfum einnig talað fyrir því að ríki og sveitarfélög úthýsi mun fleiri verkefnum til einkafyrirtækja. Það hefur jákvæð áhrif á nýsköpun og þróun og eykur jafnframt skilvirkni og dregur úr kostnaði.“ segir Margrét Sanders, formaður SVÞ.
Ársskýrslu SVÞ má nálgast hér.
21/03/2017 | Fréttir, Greining
Samkvæmt mælingum Rannsóknaseturs verslunarinnar nam erlend greiðslukortavelta hér á landi 16,8 milljörðum króna í febrúar sem er 27,5% hærri upphæð en í sama mánuði í fyrra. Ferðamenn í febrúar voru 47,3% fleiri en í febrúar í fyrra. Dregið hefur úr vexti kortaveltu á hvern ferðamann og greinilegt að erlendir ferðamenn fara sparlegar með útgjöld sín en áður var. Auk gengisáhrifa, sem orsaka þessa þróun, hafa orðið verðlagshækkanir í krónum talið á gistingu, veitingaþjónustu og pakkaferðum innanlands. Þrátt fyrir minnkandi vöxt geta ferðaþjónustuaðilar enn vel við unað því umtalsverð aukning er í erlendri kortaveltu þegar á heildina er litið.
Ferðamenn draga úr útgjöldum
Meðaltalsaukning erlendrar kortaveltu síðustu tólf mánaða var um 56% og því er 27,5% hækkun í febrúar töluvert undir því meðaltali. Þegar horft er til meðaltals- kortaveltu á hvern erlendan ferðamann minnkaði hún um 13,4% frá febrúar í fyrra.
Dæmi um útgjaldalið þar sem kortavelta dróst saman á hvern ferðamann er verslun. Hver ferðamaður varði í febrúar 25% lægri upphæð til kaupa í fataverslun en fyrir ári síðan. Þar er fyrst og fremst um að ræða íslenskan útivistafatnað. Einu tegundir verslana þar sem aukning var í veltu á hvern erlendan ferðamann voru tollfrjáls verslun og dagvöruverslun. Ætla má að erlendir ferðamenn færi í auknum mæli kaup sín á mat og drykkjarvöru frá veitingahúsum til verslana með hækkandi verðlagi en forðist kaup í dýrari sérvöruverslunum eins og á íslenskum útivistarfatnaði.
Innlend verðhækkun á gistingu og veitingahúsum
Minnkandi kortaveltu á hvern erlendan ferðamann má að mestu rekja til styrkingar íslensku krónunnar gagnvart erlendum gjaldmiðlum. Auk gengisþróunar var verð á gistingu 9,5% hærra, í íslenskum krónum, í febrúar miðað við sama mánuði í fyrra samkvæmt verðmælingu Hagstofunnar. Samkvæmt sömu mælingu hækkaði verð á innlendum pakkaferðum um 12,8% á milli ára og verð á veitingahúsum hækkaði um 4,6%. Verð á flugfargjöldum fer hins vegar lækkandi og sem dæmi lækkaði verð á innanlandsflugi um 10,6%.
Heildarvelta útlendinga áfram uppávið
Þrátt fyrir að dregið hafi úr vexti á erlendri kortaveltu hér á landi miðað við þann mikla vöxt sem verið hefur síðustu misseri og hver ferðamaður eyði minna en áður var, geta ferðaþjónustuaðilar vel við unað því fjölgun ferðamanna vegur upp hin óhagstæðu áhrif gengis og verðlags. Ferðamenn greiddu í heildina með kortum sínum í febrúar liðlega þrjá milljarða kr. fyrir gistingu sem er um 36% hærri upphæð en í febrúar í fyrra. Þá nam erlend kortavelta í ýmsa ferðaþjónustu, sem aðallega eru innlendir ferðaskipuleggjendur, 2,8 milljörðum en það er 24% hækkun frá febrúar í fyrra.
Kortavelta eftir þjóðernum
Ef miðað er við fjölda erlendra ferðamanna um Keflavíkurflugvöll greiddi hver þeirra að jafnaði með greiðslukorti sínu fyrir 113 þús. kr. í febrúar, eða um 11,6% minna en í janúar. Það er um 13,4% lægri upphæð en í sama mánuði í fyrra.
Ferðamenn frá Sviss greiddu að jafnaði hæstar fjárhæðir með greiðslukortum sínum í febrúar eða 188 þús. kr. á hvern ferðamann. Bandaríkjamenn fylgja fast á eftir og eru í öðru sæti með 186 þús. kr. á hvern ferðamann. Kanadamenn koma þar næst með 170 þús. kr. á mann.
Velta eftir þjóðernum ræðst meðal annars af því hversu löng dvölin hér á landi er og hvort greitt hafi verið fyrir ferðina áður en komið er til landsins auk þess sem mismunandi er í hve miklum mæli ferðamenn greiða með greiðslukortum. Þá þarf að hafa í huga að tölur um fjölda ferðamanna um Keflavíkurflugvöll ná ekki til allra þeirra sem koma til landsins.
Í því talnaefni sem Rannsóknasetur verslunarinnar hefur yfir að ráða er nánar hægt að greina kortaveltu erlendra ferðamanna eftir útgjaldaliðum og þjóðerni.
Um kortaveltu ferðamanna
Rannsóknasetur verslunarinnar birtir mánaðarlega tölur um greiðslukortaveltu ferðamanna sundurliðaða eftir útgjaldaliðum og útgáfulandi korta. Gögnunum er enn fremur skipt eftir því hvort um er að ræða erlend eða innlend greiðslukort. Gögnin innihalda færslur bæði debet- og kreditkorta. Birtar eru upphæðir í íslenskum krónum ásamt hlutfallsbreytingum frá fyrri mánuði og sama mánuði fyrra árs.
Gögnin eru fengin frá innlendum færsluhirðingaraðilum, sundurliðuð eftir svonefndum MCC kóðum. MCC kóðarnir eru aftur greindir í flokka eftir því hvernig þeir eru taldir tengjast mismunandi greinum ferðaþjónustu. Gögnin lýsa kortaveltu eftir kauptímabilum (almanaksmánuðum) en ekki eftir uppgjörstímabilum.
Nánari upplýsingar veitir Árni Sverrir Hafsteinsson, arni@bifrost.is eða í síma 868-4341.
www.rsv.is