Minnkandi vöxtur í erlendri kortaveltu

Samkvæmt mælingum Rannsóknaseturs verslunarinnar nam erlend greiðslukortavelta hér á landi 16,8 milljörðum króna í febrúar sem er 27,5% hærri upphæð en í sama mánuði í fyrra. Ferðamenn í febrúar voru 47,3% fleiri en í febrúar í fyrra. Dregið hefur úr vexti kortaveltu á hvern ferðamann og greinilegt að erlendir ferðamenn fara sparlegar með útgjöld sín en áður var. Auk gengisáhrifa, sem orsaka þessa þróun, hafa orðið verðlagshækkanir í krónum talið á gistingu, veitingaþjónustu og pakkaferðum innanlands. Þrátt fyrir minnkandi vöxt geta ferðaþjónustuaðilar enn vel við unað því umtalsverð aukning er í erlendri kortaveltu þegar á heildina er litið.

Ferðamenn draga úr útgjöldum
Meðaltalsaukning erlendrar kortaveltu síðustu tólf mánaða var um 56% og því er 27,5% hækkun í febrúar töluvert undir því meðaltali. Þegar horft er til meðaltals- kortaveltu á hvern Kortavelta e. flokkum 02 2017erlendan ferðamann minnkaði hún um 13,4% frá febrúar í fyrra.
Dæmi um útgjaldalið þar sem kortavelta dróst saman á hvern ferðamann er verslun. Hver ferðamaður varði í febrúar 25% lægri upphæð til kaupa í fataverslun  en fyrir ári síðan. Þar er fyrst og fremst um að ræða íslenskan útivistafatnað. Einu tegundir verslana þar sem aukning var í veltu á hvern erlendan ferðamann voru tollfrjáls verslun og dagvöruverslun. Ætla má að erlendir ferðamenn færi í auknum mæli kaup sín á mat og drykkjarvöru frá veitingahúsum til verslana með hækkandi verðlagi en forðist kaup í dýrari sérvöruverslunum eins og á íslenskum útivistarfatnaði.

Innlend verðhækkun á gistingu og veitingahúsum
Minnkandi kortaveltu á hvern erlendan ferðamann má að mestu rekja til styrkingar íslensku krónunnar gagnvart erlendum gjaldmiðlum. Auk gengisþróunar var verð á gistingu 9,5% hærra, í íslenskum krónum, í febrúar miðað við sama mánuði í fyrra samkvæmt verðmælingu Hagstofunnar. Samkvæmt sömu mælingu hækkaði verð á innlendum pakkaferðum um 12,8% á milli ára og verð á veitingahúsum hækkaði um 4,6%. Verð á flugfargjöldum fer hins vegar lækkandi og sem dæmi lækkaði verð á innanlandsflugi um 10,6%.
Heildarvelta útlendinga áfram uppávið
Þrátt fyrir að dregið hafi úr vexti á erlendri kortaveltu hér á landi miðað við þann mikla vöxt sem verið hefur síðustu misseri og hver ferðamaður eyði minna en áður var, geta ferðaþjónustuaðilar vel við unað því fjölgun ferðamanna vegur upp hin óhagstæðu áhrif gengis og verðlags. Ferðamenn greiddu í heildina með kortum sínum í febrúar liðlega þrjá milljarða kr. fyrir gistingu sem er um 36% hærri upphæð en í febrúar í fyrra. Þá nam erlend kortavelta í ýmsa ferðaþjónustu, sem aðallega eru  innlendir ferðaskipuleggjendur, 2,8 milljörðum en það er 24% hækkun frá febrúar í fyrra.

Kortavelta eftir þjóðernum
Ef miðað er við fjölda erlendra ferðamanna um Keflavíkurflugvöll greiddi hver þeirra að jafnaði með greiðslukorti sínu fyrir 113 þús. kr. í febrúar, eða um 11,6% minna en í janúarMeðalvelta pr. ferðamann 02 2017. Það er um 13,4% lægri upphæð en í sama mánuði í fyrra.
Ferðamenn frá Sviss greiddu að jafnaði hæstar fjárhæðir með greiðslukortum sínum í febrúar eða 188 þús. kr. á hvern ferðamann. Bandaríkjamenn fylgja fast á eftir og eru í öðru sæti með 186 þús. kr. á hvern ferðamann. Kanadamenn koma þar næst með 170 þús. kr. á mann.
Velta eftir þjóðernum ræðst meðal annars af því hversu löng dvölin hér á landi er og hvort greitt hafi verið fyrir ferðina áður en komið er til landsins auk þess sem mismunandi er í hve miklum mæli ferðamenn greiða með greiðslukortum. Þá þarf að hafa í huga að tölur um fjölda ferðamanna um Keflavíkurflugvöll ná ekki til allra þeirra sem koma til landsins.
Í því talnaefni sem Rannsóknasetur verslunarinnar hefur yfir að ráða er nánar hægt að greina kortaveltu erlendra ferðamanna eftir útgjaldaliðum og þjóðerni.

Um kortaveltu ferðamanna
Rannsóknasetur verslunarinnar birtir mánaðarlega tölur um greiðslukortaveltu ferðamanna sundurliðaða eftir útgjaldaliðum og útgáfulandi korta. Gögnunum er enn fremur skipt eftir því hvort um er að ræða erlend eða innlend greiðslukort. Gögnin innihalda færslur bæði debet- og kreditkorta. Birtar eru upphæðir í íslenskum krónum ásamt hlutfallsbreytingum frá fyrri mánuði og sama mánuði fyrra árs.
Gögnin eru fengin frá innlendum færsluhirðingaraðilum, sundurliðuð eftir svonefndum MCC kóðum. MCC kóðarnir eru aftur greindir í flokka eftir því hvernig þeir eru taldir tengjast mismunandi greinum ferðaþjónustu. Gögnin lýsa kortaveltu eftir kauptímabilum (almanaksmánuðum) en ekki eftir uppgjörstímabilum.

Nánari upplýsingar veitir Árni Sverrir Hafsteinsson, arni@bifrost.is eða í síma 868-4341.

www.rsv.is

SVÞ fagna frumvarpi um afnám einkaleyfis ríkisins á smásölu áfengis

Fréttatilkynning send á fjölmiðla 20.3.2017

SVÞ – Samtök verslunar og þjónustu hafa skilað umsögn um frumvarp til laga um afnám einkaleyfis ríkisins á smásölu áfengis, þar sem bæði nú sem og áður þegar samhljóða mál hafa verið lögð fram á þinginu, fagna samtökin markmiði þess um afnám þess einkaleyfis.

SVÞ benda á að frumvarpið er í samræmi við áherslur samtakanna um að færa verkefni frá hinu opinbera til einkaaðila og er verslun með áfengi engin undantekning þar á. SVÞ ítreka í þessu samhengi mikilvægi þess að hið opinbera dragi sig út úr smásölurekstri hvers konar en sama skapi verði lagaumgjörð þannig úr garði gerð að einkaaðilum verði treyst til að annast slíkan rekstur sem hér um ræðir. Þannig verði með lögum búið þannig um þessa starfsemi að gætt verði að þeim sjónarmiðum sem gæta þarf að þegar um er að ræða sölu á áfengi eða aðra vöru sem kallar á aðgát hvað varðar eiginleika hennar.

Þá felur frumvarpið í sér aukna möguleika til hagræðingar hjá hinu opinbera enda mun ríkið losna undan skuldbindingum sínum varðandi núverandi einkaleyfi, s.s. rekstrarkostnað, sem að óbreyttu fellur til við að halda úti starfsemi ÁTVR og viðhalda skyldum vegna einkaleyfis ríkisins á smásölu áfengis. Eftir sem áður mun ríkið halda eftir tekjum sem renna í ríkissjóð vegna m.a. álagningar áfengisgjalda. Að sama skapi felur frumvarpið í sér möguleika til hagræðingar hjá einkaaðilum þar sem unnt verður að samnýta verslunarrými sem þegar er nýtt undir aðrar vörur eða starfsemi. Þá fagna SVÞ sérstaklega því frumkvæði í frumvarpinu um að fella úr lögum banni við áfengisauglýsingum enda hefur núverandi bann ekki staðið í vegi fyrir að áfengisauglýsingar hafi birst hér á landi, m.a. í erlendum miðlum, og þannig mismunað framleiðendum eftir hvort um er að ræða innlenda eða erlenda aðila.

SVÞ ítreka einnig að frelsi í viðskiptum fylgi ábyrgð og verslun og einkaaðilar taka hlutverk sitt alvarlega enda hefur þessum aðilum undanfarana áratugi verið falin í síauknum mæli hlutverk sem varða almannaheill eða sölu á vörum með tiltekna hættueiginleika, s.s. sala á tóbaki, lyfjum, skotfærum og skoteldum, efnavörum o.s.frv. Þá hefur einkaaðilum einnig verið falin ýmisleg hlutverk varðandi eftirlit með öryggisþáttum og lýðheilsu í okkar samfélagi, s.s. ökutækjaskoðun og heilbrigðisþjónustu. Á þessum sviðum hefur ekki verið efast um faglega getu þessara aðila og heillindi til að sinna þessum verkefnum og benda SVÞ á að það sama eigi við varðandi smásölu áfengis. Verði frumvarpið samþykkt mun verslunin ekki láta sitt eftir liggja að annast hlutverk sitt með ábyrgum og öruggum hætti. Því fagna SVÞ sérstaklega þeirri áherslu sem lögð er á forvarnir í frumvarpinu og vísa m.a. til þess árangurs sem náðst hefur að draga úr tóbaksnotkun með öflugu forvarnarstarfi.

Fréttatilkynningin á pdf sniði

Umsögn SVÞ um frumvarp til laga um afnám einkaleyfis ríkisins á smásölu áfengis

Aukin kaupgleði en minni umsvif fataverslunar

Aukinn kaupmáttur og vaxandi væntingar er jafnan ávísun á aukna kaupgleði. Þess sjást meðal annars merki í neyslu á mat og drykk. Samkvæmt tilkynningu frá Rannsóknasetri verslunarinnar eykst velta í dagvöruverslunum jafnt og þétt. Í febrúar var velta dagvöruverslana 3% meiri en í sama mánuði í fyrra og að jafnaði hefur velta dagvöruverslana aukist um 6% síðustu 12 mánuði. Þar sem verð á matvælum fer lækkandi er magn þess sem keypt meira en velta í krónum gefur til kynna. Velta áfengisverslunar vex einnig og var 8% meiri í febrúar en í sama mánuði í fyrra.
Athygli vekur að í hinum mikla hagvexti, sem að nokkru er drifinn áfram af aukinni neyslu, skuli velta í fataverslun dragast saman. Velta fataverslana var 12,4% minni í febrúar síðastliðnum en í sama mánuði í fyrra. Á þessu tólf mánaða tímabili lækkaði samt verð á fötum um 7,3%.  Þess ber að geta að fataverslunum hér á landi hefur farið fækkandi frá áramótum, en það er mikilvægur hluti skýringarinnar. Veltutölurnar byggja á upplýsingum frá öllum stærstu verslunarkeðjum, sem selja föt hér á landi. Sumar þeirra hafa lokað hluta af fataverslunum sínum.
Ætla má að hluti skýringar á minnkandi verslun með fatnað sé aukin netverslun frá útlöndum auk þess sem sterkar vísbendingar eru um að landsmenn kaupi stóran hluta fata þegar þeir ferðast til útlanda. Þetta á hins vegar ekki við um skóverslun því hún jókst um 23,7% í febrúar. Verð á skóm í síðasta mánuði var 6,1% lægra en í sama mánuði í fyrra.
Hraður vöxtur er jafnframt í húsgagnaverslun, sem jókst um 13,9% á tólf mánaða tímabili, og byggingavöruverslun, sem jókst um 14,2% frá febrúar í fyrra. Verð á húsgögnum fer lækkandi en verð á byggingavörum hækkaði lítillega í árssamanburði.
Eftir langt tímabil vaxtar í raftækjaverslunum og verslunum með skyldar vörur, virðist sem heldur hafi dragið úr vextinum. Sala á minni raftækjum, svokölluðum brúnum vörum, jókst vissulega um 10,3% í febrúar frá febrúar í fyrra en velta stærri heimilistækja var svipuð og í fyrra.
Greiðslukortavelta heimilanna innanlands var 57,2 milljarðar kr. í febrúar. Kortavelta erlendra ferðamanna hér á landi var 16,8 milljarðar kr. sem er næstum 30% af innlendu veltunni. Tölur um einstaka útgjaldaliði erlendar kortaveltu hér á landi sýnir að langstærstu upphæðir sem fara til verslana er til kaupa í dagvöruverslunum. Hins vegar virðist sem dragi úr vexti veltu á kaupum útlendinga á útivistarfatnaði, sem e.t.v. má rekja til styrkingar krónunnar að undanförnu. Athygli vekur að debetkortavelta Íslendinga í útlöndum jókst um 54% frá febrúar í fyrra, samkvæmt tölum Seðlabankans.

Velta í dagvöruverslun jókst um 3% á breytilegu verðlagi í febrúar miðað við sama mánuð í fyrra og jókst um 4,4% á föstu verðlagi. Leiðrétt fyrir vikudaga- og árstíðabundnum þáttum jókst velta dagvöruverslana í febrúar um 5,9% frá sama mánuði í fyrra. Verð á dagvöru lækkaði um 1,3% á síðastliðnum 12 mánuðum og var í febrúar 0,1% lægra en í mánuðinum á undan.
Sala áfengis jókst um 8% á breytilegu verðlagi í febrúar miðað við sama mánuð í fyrra og jókst um 7,7% á föstu verðlagi. Leiðrétt fyrir vikudaga- og árstíðabundnum þáttum jókst velta áfengisverslana í febrúar um 8,7% frá sama mánuði í fyrra. Verð á áfengi var 0,3% hærra í febrúar síðastliðnum samanborið við sama mánuð í fyrra og óbreytt frá mánuðinum á undan.
Fataverslun dróst saman um 12,4% í febrúar miðað við sama mánuð í fyrra á breytilegu verðlagi og dróst saman um 5,5% á milli ára á föstu verðlagi. Verð á fötum var 7,3% lægra í febrúar síðastliðnum en í sama mánuði í fyrra.
Velta skóverslunar jókst um 23,7% í febrúar á breytilegu verðlagi og jókst um 31,8% á föstu verðlagi miðað við sama mánuð í fyrra. Leiðrétt fyrir árstíðabundnum þáttum jókst skósala um 25% frá sama mánuði í fyrra á föstu verðlagi. Verð á skóm lækkaði í febrúar um 6,1% frá febrúar í fyrra.
Velta húsgagnaverslana var 13,9% meiri í febrúar en í sama mánuð í fyrra á breytilegu verðlagi og jókst um 19,6% á föstu verðlagi. Velta sérverslana með rúm jókst um 28,1% frá því í fyrra á breytilegu verðlagi. Velta sérverslana með skrifstofuhúsgögn jókst um 12,2% á breytilegu verðlagi. Verð á húsgögnum hefur lækkað um 4,8% á síðustu 12 mánuðum.
Verslun með byggingavörur jókst í febrúar um 14,2% í febrúar á breytilegu verðlagi og jókst um 14% á föstu verðlagi. Verð á byggingavöru er 0,1% hærra en fyrir tólf mánuðum síðan. Þá minnkaði velta gólfefnaverslana um 1,5% á breytilegu verðlagi miðað við sama mánuð í fyrra.
Velta í sölu á tölvum minnkaði í febrúar um 2,9% á breytilegu verðlagi miðað við sama mánuð í fyrra og farsímasala dróst saman um 13,8%. Sala minni raftækja, svokallaðra brúnvara, jókst um 10,3% á breytilegu verðlagi en sala stærri raftækja, svokallaðra hvítvara, jókst um 0,7% á milli ára.
Nánari upplýsingar veitir Árni Sverrir Hafsteinsson arni@bifrost.is og í síma 868-4341

Fréttatilkynning RSV.

Aðalfundur SVÞ 23. mars 2017

Fimmtudaginn 23. mars kl. 8.30 hefst aðalfundur SVÞ í Kviku, á 1. hæð í Húsi atvinnulífsins við Borgartún 35 í Reykjavík.

Dagskrá aðalfundar verður sem hér segir:

Boðið verður upp á léttan morgunverð frá kl. 8.00

8.30       Setning fundar

  • Skýrsla stjórnar
  • Reikningar samtakanna
  • Lýst kjöri formanns
  • Lýst kjöri þriggja meðstjórnenda
  • Ákvörðun árgjalda
  • Kosning löggilts endurskoðanda
  • Lýst kjöri í fulltrúaráð Samtaka atvinnulífsins
  • Lagabreytingar
  • Umræður og atkvæðagreiðsla um önnur mál

Tilnefningar fulltrúa SVÞ í fulltrúaráð SA.

Framboð til formanns og meðstjórnenda í stjórn SVÞ.

Vinsamlega skráið þátttöku í aðalfundi  hér fyrir neðan.

Oops! We could not locate your form.

 

Hér má skrá þátttöku á ráðstefnuna „Bylting og breytingar í þjónustu og verslun“ sem haldin verður í tengslum við aðalfund samtakanna.

Borði á heimasíðu

Orðsending til félagsmanna SVÞ – gjalddagar virðisaukaskatts

Allt frá 2009 hefur tilhögun á gjalddögum virðisaukaskatts verið með þeim hætti að hverjum gjalddaga hefur í raun verið skipt í tvennt. Þannig hefur þeim gjalddaga sem nú er 15. mars verið skipt með þeim hætti að helmingur gjaldanna hefur verið greiddur þann dag og seinni helmingurinn 5. apríl.  SVÞ hafði á sínum tíma forgöngu að því að þetta fyrirkomulag var tekið upp, enda aðstæður með þeim hætti í ársbyrjun 2009 að nauðsynlegt var fyrir hið opinbera að koma til móts við atvinnulífið með þessum hætti. Lagaheimildin sem þetta fyrirkomulag hefur byggst á hefur verið framlengd um ár í senn allar götur síðan.

Þegar þetta mál kom fyrir efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis á haustþingi 2016, var ekki vilji til að festa þetta fyrirkomulag í sessi til framtíðar, þó svo að viss fyrirheit hafi áður verið gefin um það. Skrifstofa SVÞ hefur undanfarnar vikur gert það sem í hennar valdi stendur til að fá þessu breytt, en án árangurs.  Ráðuneytið hefur bent á í því sambandi að aðstæður í efnahagslífinu séu allt aðrar en árið 2009.

Hins vegar liggur fyrir að innan fjármálaráðuneytisins er hafin vinna við að fækka gjalddögum opinberra gjalda, með það að markmiði að gera greiðslur til ríkisins gagnsærri og auðveldari og er stefnt að því að leggja fram lagafrumvarp þar að lútandi á haustþingi 2017.  SVÞ styðja þau áform heilshugar og munu leggja sig fram um að nýtt og betra fyrirkomulag á innheimtu opinberra gjalda geti komið til framkvæmda í ársbyrjun 2018.

Frá ráðstefnu SSSK – SKÖPUM FRAMTÍÐINA – Nýjasta tækni og vísindi

Það ríkti mikil gleði og kátína á glæsilegri ráðstefnu SSSK 3. mars sl. í Hörpunni. Yfirskrift ráðstefnunnar sem haldin var í fullum sal Norðurljósa var „SKÖPUM FRAMTÍÐINA – Nýjasta tækni og vísindi“

Áslaug Hulda Jónsdóttir formaður samtakanna ávarpaði ráðstefnugesti og og nefndi mikilvægi þess að við höfum ólíka og fjölbreytta valkosti í skólastarfi.

Að loknu ávarpi formanns steig í pontu forsetafrú Íslands Eliza Reid, sem heillaði ráðstefnugesti með alúðlegri framkomu og persónutöfrum.

Fyrirlestra fluttu Kristján Ómar Björnsson, heilsustjóri NÚ með fyrirlestur undir yfirskriftinni „Stofnaðu skóla! Áhugasviðstengdir grunnskólar. Er það framtíðin?, Ingvi Hrannar Ómarsson, verkefnastjóri í nýsköpun, skóla- og tækniþróun í grunnskólum í Skagafirði með fyrirlestur undir yfirskriftinni „Framtíðin þeirra“, Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, stofnandi og eigandi Köru Connect og Tröppu ehf.  var með fyrirlestur undir yfirskriftinni „Netfæddir nemendur“. Síðust tók til máls Anna Steinsen stofnandi og eigandi KVAN og jógakennari með erindi sem var með yfirskriftina „Lykill að hamingju barna er að þjálfa samskipti og styrkleika“

Miklar og góðar undirtektir voru við erindum allra fyrirlesara. Milli atriða voru ráðstefnugestir þjálfaðir í keðjusöng og tilheyrandi klappi og hreyfingu undir leiðsögn Nönnu Hlífar Ingvadótturfrá Landakotsskóla. Skemmtu allir sér mjög vel í þessu atriði sem var óvænt og skemmtilegt.

Ráðstefnan fór fram undir styrkri stjórn Ingibjargar Jóhannsdóttur skólastjóra Landakotsskóla.

Að lokinni ráðstefnu var boðið upp á léttar veitingar í Björtuloftum.

Myndir frá ráðstefnu.