Mikill kippur í verslun í mars

Samkvæmt fréttatilkynningu Rannsóknaseturs verslunarinnar var kaupgleði landsmanna mikil í mars og velta í stærstu flokkum Smásöluvísitölunnar með mesta móti miðað við árstíma. Sem dæmi var dagvöruverslun 10,8% meiri í mars en í sama mánuði í fyrra, byggingavöruverslun 28% meiri og einnig var áfengis- og húsgagnaverslun lífleg.
Velta dagvöruverslana var 10,8% hærri í mars síðastliðnum en í sama mánuði í fyrra á breytilegu verðlagi. Ein helsta ástæða fjörugrar verslunar með dagvöru er sú að í ár voru páskar í mars en í apríl árið 2015. Verðlag dagvöru hefur einnig hækkað um 1,7% frá mars í fyrra og er aukning frá fyrra ári á föstu verðlagi því nokkuð minni eða 8,9%. Árstíðaleiðrétt velta dagvöruverslana jókst um 5,6% á föstu verðlagi en með árstíðaleiðréttingu er leitast við að taka út áhrif þátta eins og páska og ólíkrar samsetningar vikudaga á milli mánaða. Telst sú aukning veltu þó enn nokkuð mikil fyrir jafn stöðugan vöruflokk og dagvöru.
Velta áfengisverslunar fyrir virðisaukaskatt var 29,3% meiri og voru 14,6% fleiri lítrar áfengis seldir í mars síðastliðnum en í sama mánuði í fyrra. Helsta skýring meiri áfengissölu nú en í fyrra má, líkt og í dagvöruverslun, rekja til tímasetningar páska. Sem fyrr stafar meiri veltuaukning en fjölgun lítra af þeim kerfisbreytingum sem tóku gildi um áramótin en veltutölur sem birtar eru hér eru án VSK en innihalda áfengisgjöld. Árstíðaleiðrétt velta áfengisverslunar á föstu verðlagi jókst um 14,2% og verðlag áfengis (með VSK) hækkaði um 0,8% frá mars í fyrra.
Líkt og undanfarna mánuði er mikill vöxtur í byggingavöruverslun en hún jókst um 28,1% frá síðasta ári á breytilegu verðlagi. Verðlag byggingavöru hefur lækkað um 2,3% frá fyrra ári og er ársbreyting veltu á föstu verðlagi því 31,1%. Verslun með byggingavörur er töluvert háð ástandi efnahagslífsins á hverjum tíma og mikil velta í flokknum vísbending um góðan gang hagkerfisins um þessar mundir.
Húsgagnaverslun var einnig kröftug í mars og jókst velta hennar um 20,7% frá fyrra ári á breytilegu verðlagi en 18,3% á föstu verðlagi. Líkt og í byggingavöruverslun hefur stöðugur vöxtur verið í veltu húsgagnaverslunar síðustu misseri. Þannig var húsgagnaverslun síðustu tólf mánuði 19,1% meiri á föstu verðlagi en á tólf mánaða tímabilnu þar á undan. Verðlag húsgagna í mars var 2,1% hærra en í sama mánuði í fyrra.

Veltuvísitala eftir vöruflokkum
Velta í dagvöruverslun jókst um 10,8% á breytilegu verðlagi í mars miðað við sama mánuð í fyrra og jókst um 8,9% á föstu verðlagi. Leiðrétt fyrir vikudaga- og árstíðabundnum þáttum jókst velta dagvöruverslana í mars um 5,6% frá sama mánuði í fyrra. Verð á dagvöru hækkaði um 1,7% á síðastliðnum 12 mánuðum og var í mars 0,2% hærra en í mánuðinum á undan.
Sala áfengis jókst um 29,3% á breytilegu verðlagi í mars miðað við sama mánuð í fyrra og um 28,3% á föstu verðlagi. Leiðrétt fyrir vikudaga- og árstíðabundnum þáttum jókst velta áfengisverslana í mars um 14,2% frá sama mánuði í fyrra. Verð á áfengi var 0,8% hærra í mars síðastliðnum og 0,1% lægra en í mánuðinum á undan.
Fataverslun dróst saman um 0,1% í mars miðað við sama mánuð í fyrra á breytilegu verðlagi og jókst um 4,2% á milli ára á föstu verðlagi. Verð á fötum var 3,9% lægra í mars síðastliðnum en í sama mánuði í fyrra.
Velta skóverslunar jókst um 4,3% í mars á breytilegu verðlagi og jókst um 11,3% á föstu verðlagi miðað við sama mánuð í fyrra. Leiðrétt fyrir árstíðabundnum þáttum jókst skósala um 8,8% frá sama mánuði í fyrra á föstu verðlagi. Verð á skóm lækkaði í mars um 6,2% frá mars í fyrra.
Velta húsgagnaverslana var 20,7% meiri í mars en í sama mánuð í fyrra á breytilegu verðlagi og jókst um 18,3% á föstu verðlagi. Velta sérverslana með rúm jókst um 28,7% frá því í fyrra á breytilegu verðlagi. Velta sérverslana með skrifstofuhúsgögn jókst um 6,4% á breytilegu verðlagi. Verð á húsgögnum hefur hækkað um 2,1% á síðustu 12 mánuðum.
Verslun með byggingavörur jókst í mars um 28,1% í mars á breytilegu verðlagi og jókst um 31,1% á föstu verðlagi. Verð á byggingavöru er 2,3% lægra en fyrir tólf mánuðum síðan.
Velta í sölu á tölvum jókst í mars um 2,7% á breytilegu verðlagi miðað við sama mánuð í fyrra og farsímasala jókst um 25,8%. Sala minni raftækja, svokallaðra brúnvara, dróst saman um 4,4% á breytilegu verðlagi en sala stærri raftækja, svokallaðra hvítvara, jókst um 3,1% á milli ára. Verðlag raftækja fer almennt lækkandi og lækkaði verð hvers flokks á bilinu 2-4% frá fyrra ári.
Nánari upplýsingar veitir Árni Sverrir Hafsteinsson arni@bifrost.is og í síma 868-4341

Fréttatilkynning RSV.

Menntun og mannauður – Fræðsla erlendra starfsmanna.

Næsti fundur í menntaröðinni Menntun og mannauður verður þriðjudaginn 19. apríl kl. 8.30-10:00 í Húsi atvinnulífsins, Borgartúni, 35, 1. hæð. Fundurinn er hluti af fundaröðinni Menntun og mannauður 2015-2016.

Á fundinum verður fjallað um erlent starfsfólk og fræðslu.

DAGSKRÁ

Erlendir starfsmenn – áskoranir og tækifæri.
Sigríður Harðardóttir, mannauðsstjóri – Strætó.

Að skilja íslensku rýfur einangrun
Guðmundur Oddgeirsson, framkvæmdastjóri – Hýsing, Vöruhótel.

Innflutningshöft á þekkingu?
Margrét Jónsdóttir, starfsmanna- og skrifstofustjóri – Íslenskum Fjallaleiðsögumönnum.

Spurningar og spjall

Kaffi, te og með því frá kl. 8.15. Allir velkomnir en nauðynlegt er að skrá þátttöku hér að neðan.

Skráning hér

Hvaða hagsmuna átt þú að gæta í þínum rekstri?

Haldinn verður kynningarfundur fyrir verslunar- og þjónustuaðila miðborgarinnar miðvikudaginn 20. apríl nk.  Fundurinn verður í Húsi atvinnulífsins, Borgartúni 35, og hefst kl. 8:30.

Fundurinn er framhald stefnumótandi fundar sem SVÞ átti með fulltrúum miðborgarinnar  þar sem skoðað var  hvar hagsmunir verslunar- og þjónustuaðila í miðborginni færu saman með hagsmunum SVÞ.  Ljóst var að áhugi er fyrir því að SVÞ og miðborgin taki höndum saman í hagsmunagæslu.

Dagskrá fundar

Starfsfólk SVÞ, ásamt framkvæmdastjóra, Andrési Magnússyni, kynnir starfsemi samtakanna, helstu niðurstöður stefnumótunarfundarins og stýrir umræðum um næstu skref.

Auglýsing til útprentunar.

Oops! We could not locate your form.

Sala áfengis – versluninni er treystandi

Í umræðunni um fyrirliggjandi lagafrumvarp til breytinga á sölu áfengis hafa þau sjónarmið verið áberandi að verslunin muni ekki sýna ábyrgð í verki þegar kemur að þeim ströngu skilyrðum sem gilda um sölu áfengis. Þeir sem lengst hafa gengið halda því eindregið fram að sala áfengis í almennum verslunum muni leiða til aukins aðgengis og tilslökunar á sölu og afhendingu á þeirri neysluvöru sem áfengið er.

Í þessari umræðu er mikilvægt að greina á milli þeirrar gagnrýni sem byggist á lýðheilsusjónarmiðum og hins vegar þeirrar gagnrýni sem sett hefur verið fram af einstaka hagsmunaaðilum sem halda því fram að aukin samkeppni ógni því þægilega umhverfi sem þeir sumir hverjir búa við í viðskiptum þeirra við einokunarfyrirtæki ríkisins.

Það er mjög mikilvægt að halda því til haga að versluninni hefur á undanförnum áratugum verið falin sala á ýmsum vörum sem hafa tiltekna hættueiginleika og varða almannaheill. Hér má nefna neysluvörur á borð við tóbak og lyf og aðrar vörur eins og skotfæri, skotelda, sprengiefni og vandmeðfarnar efnavörur.
Reynslan hefur sýnt það að versluninni er fyllilega treystandi til að annast sölu á þessum viðkvæmu vörum og að virða þær ströngu reglur sem um þessar vörur gilda. Á öðrum sviðum hefur einkaaðilum einnig verið treyst til að annast þjónustu á sviðum sem varða öryggi og almannaheill, eins og skoðun ökutækja. Af þessum dæmum ætti að vera nokkuð ljóst að versluninni er fyllilega treystandi til að annast sölu á áfengi til almennings.

Búvörusamningar sæta mikilli gagnrýni

Fundur sem haldinn var í byrjum þessa mánaðar um nýgerða búvörusamninga leiddi vel í ljós hversu illa var staðið að undirbúningi þeirra samninga. Að þessum fundi stóðu fjölmörg hagsmunasamtök, bæði atvinnurekenda og launþega, m.a. SVÞ. Viðræður, milli stjórnvalda og Bændasamtaka Íslands um gerð nýrra búvörusamninga höfðu þá staðið yfir allt frá því s.l. haust. Lengst af bárust litlar fréttir af gangi viðræðnanna og var það raunar ekki fyrr en skömmu fyrir áramót, að hópur hagsmunaaðila óskaði eftir því að fá upplýsingar um stöðu viðræðnanna. Þegar stjórnvöld hófu að gefa upplýsingar um efni og innihald væntanlegra samninga kom í ljós að nær ekkert var tekið tillit til annarra hagsmuna en bænda eingöngu. Þrátt fyrir að þarna væri verið að véla um gífurlega langan samning sem snérist um háar fjárhæðir, þótti ekki ástæða til að kalla aðra aðila að málinu, þó ekki væri nema til ráðgjafar.

Sú bylgja gagnrýni sem fór af stað í þjóðfélaginu eftir að nýir búvörusamningar voru undirritaðir í lok febrúar, sýndi og sannaði að málið er stærra í sniðum en svo að unnt sé að líta á það sem einkamál stjórnvalda og bændaforystunnar. Málið snýst fyrst og fremst um hagsmuni neytenda. En eins og fram kom í máli Daða Más Kristóferssonar, lektors við HÍ á umræddum fundi, eru hagsmunir neytenda að engu hafðir í þessum samningum. Tækifærið, sem stjórnvöld höfðu til að hefja undirbúning að kerfisbreytingu á fyrirkomulagi stuðnings við landbúnaðinn, var ekki gripið. Að óbreyttu munu það áfram verða neytendur sem bera skarðan hlut frá borði.

Staðan á málinu nú er sú að samningarnir eiga eftir að koma til kasta Alþingis. Þeir öðlast því ekki gildi fyrr en nauðsynlegar lagabreytingar sem þeir kalla á, hafa verið samþykktar af Alþingi. SVÞ, sem og fjölmörg önnur hagsmunasamtök, hafa sent umsagnir sínar um búvörusamningana til þingsins, jafnframt því að fara á fund fjárlaganefndar til að skýra viðhorf sitt til þeirra. Í ljósi þeirrar miklu gagnrýni sem fram hefur komið verður að gera ráð fyrir því að komið verði til móts við þá miklu gagnrýni sem fram hefur komið og samningunum breytt, og/eða að samhliða verið gerðar ráðstafanir til að auka samkeppni í viðskiptum með landbúnaðarvörur, neytendum til hagsbóta.

Frá fundi um búvörusamningana.

SVÞ kvarta undan starfsemi Fríhafnarinnar

Undanfarin ár hafa SVÞ haft til skoðunar ýmsa þætti varðandi starfsemi Fríhafnarinnar ehf. í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Hafa samtökin gagnrýnt þá mismunun sem sú opinbera starfsemi hefur í för með sér gagnvart almennri verslun utan veggja flugstöðvarinnar. Gagnrýnin hefur m.a. snúið að niðurgreiddri verslunarstarfsemi hins opinbera sem og markaðssetningu verslana fyrirtækisins, þ.m.t. pöntunarþjónusta sem boðið er upp á. Þá hafa samtökin bent á að með þessum verslunarrekstri er ríkið í beinni samkeppni við aðrar verslanir hér á landi og hafa samtökin í því samhengi bent á að þessar verslanir Fríhafnarinnar ehf. gera út á þennan aðstöðumun í markaðssetningu sinni þar sem auglýst er að verð er allt að fimmtíu prósent lægra í fríhöfninni en í miðbæ Reykjavíkur.

Þessu til viðbótar hafa SVÞ gagnrýnt pöntunarþjónustu verslana Fríhafnarinnar ehf. en samtökin telja að með þeirri þjónustu, sem á margan hátt er sambærileg netverslun, þar sem hver sem er getur pantað vörur án þess þó að fela í sér það skilyrði að sá hin sami sæki þær vörur, hafi þessar verslanir farið inn á hinn almenna markað utan flugstöðvarinnar og því sé sú starfsemi í virkri samkeppni á þeim markaði.

SVÞ benda á að gagnrýni samtakanna á starfsemi Fríhafnarinnar ehf. kemur ekki eingöngu frá SVÞ heldur hefur fjármálaráðherra einnig sett út á þá starfsemi. Í þessu samhengi vísast til ummæla fjármálaráðherra á fundi SVÞ hinn 17. mars sl. þar sem ráðherra sagðist vera ósáttur við að sjá skilti í Fríhöfninni sem auglýsa að verðið sé allt að fimmtíu prósentum lægra en í miðbænum og taldi hann að ríkið ætti að draga úr umsvifum sínum á þessum markaði. Þá sagði ráðherra það einnig vera rangt þar sem útsöluverðið í Fríhöfninni sé gert hærra með gríðarhárri leigu sem Isavia innheimtir af fyrirtækjunum sem eiga þar pláss.

Að mati SVÞ hefur starfsemi þessi skaðleg áhrif á samkeppni á innlendum markaði og skert til muna samkeppnisskilyrði á markaði með þær vörur sem seldar eru í verslunum Fríhafnarinnar ehf. Hafa SVÞ nú þegar sent erindi á Samkeppniseftirlitið þar sem kvartað var undan þessari starfsemi. Var skorað á Samkeppniseftirlitið að taka mál þetta skoðunar og vekja athygli viðkomandi ráðherra á þeim ágöllum sem þessi opinbera starfsemi felur sannarlega í sér. Samhliða erindi SVÞ á Samkeppniseftirlitið hafa samtökin ákveðið að óska eftir því að Eftirlitsstofnun EFTA taki álitamál þetta til skoðunar enda felur framkvæmd þessi í sér brot gegn ríkisstyrkjareglum EES-samningsins að mati SVÞ.