31/05/2016 | Fræðsla, Fréttir, Viðburðir
Fundaröð Litla Íslands um farsælan rekstur lítilla fyrirtækja er nú í fullum gangi en næsti fundur er nk. föstudag 3. júní og fjallar um starfsmenn og markmið.
Ingunn Björk Vilhjálmsdóttir, MBA, atvinnufélagsfræðingur, ráðgjafi og eigandi hjá Attentus ræðir um réttu skrefin fyrir stjórnendur í átt að stefnumiðaðri mannauðsstjórnun og tengingu við góðan rekstrarárangur. Farið verður yfir helstu tól og tæki stjórnandans í mannauðsmálum.
Símon Þorleifsson rekstrarverkfræðingur og ráðgjafi í viðskiptagreind og árangursstjórnun hjá Capacent fjallar um markmiðasetningu sem byggir á framtíðarsýn stjórnenda og eigenda. Lögð er áhersla á að markmið séu skýr, hnitmiðuð og styðji við sýn stjórnenda um framtíð fyrirtækisins. Sýnd verða nokkur dæmi um markmið og hvernig fljótlegast er að setja fram markmið og viðeigandi mælikvarða ásamt dæmum um aðgerðir til að ná framúrskarandi árangri.
Að loknum erindum gefst góður tími til að spjalla og spyrja spurninga en fundurinn fer fram í Húsi atvinnulífsins, Borgartúni 35, í salnum Kviku á 1. hæð. Allir framtakssamir velkomnir á meðan húsrúm leyfir en vinsamlegast skráið þátttöku hér að neðan. Kaffi, te og með því frá kl. 8.15.
Grunnurinn að góðum rekstri er sterkur rekstrargrunnur. Nokkrir lykilþættir einkenna fyrirtæki með sterkan rekstrargrunn og er farið yfir þá í fundaröðinni sem lýkur föstudaginn 10. júní. Þá verður fjallað um samninga í fyrirtækjarekstri og skipulag, ákvarðanir og eftirfylgni í daglegum störfum.
Nánar um fundaröðina og skráning.
Samtök atvinnulífsins og aðildarsamtök SA eru bakhjarlar Litla Íslands.
27/05/2016 | Faggildingarstofur, Fréttatilkynningar, Fréttir, Greinar, Í fjölmiðlum, Stjórnvöld
Fréttatilkynning send á fjölmiðla 27.5.2016
Faggiltar skoðunarstofur gegna mikilvægu hlutverki í íslensku atvinnulífi sem og eftirliti í þágu almennings. Faggiltar stofur hafa starfað hérlendis í tvo áratugi, s.s. á sviði bifreiðaskoðana, matvælaskoðana, rafskoðana, skipaskoðana og löggildinga mælitækja auk markaðsgæslu, og hafa því fyrir löngu sannað gildi sitt sem öruggur og hagkvæmur kostur á sviði eftirlits. Þrátt fyrir að starfsemi faggiltra fyrirtækja grundvallist á ströngum skilyrðum og aðhaldi með þeirri starfsemi þá virðist sem brotalöm sé hvað varðar eftirfylgni stjórnvalda með þeim kröfum sem á þeim hvíla á þessu sviði.
SVÞ – Samtök verslundar hafa á undanförnum árum haft til skoðunar ýmsa þætti varðandi starfsumhverfi faggiltra skoðunarstofa á Íslandi en samtökin gæta hagsmuna meginþorra þessara fyrirtækja hér á landi. Að mati SVÞ hefur stjórnsýsla faggildingar ekki að öllu leyti staðið undir þeim væntingum og skyldum sem samevrópskt regluverk leggur á herðar innlendra stjórnvalda, m.a. á grundvelli reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins frá 2008 um kröfur varðandi faggildingu og markaðseftirlit í tengslum við markaðssetningu á vörum. Reglugerðin leggur ýmsar skyldur á herðar stjórnvalda s.s. þá skyldu að undirgangast svokallað jafningjamat þar sem sannreynt og staðfest er að stjórnvöld starfi að faggildingarmálum líkt og aðrar faggildingarstofur aðildarríkja Evrópska efnahagssvæðisins. Hins vegar hafa íslensk stjórnvöld enn ekki undirgengist slíkt jafningjamat og því uppfyllir íslenska ríkið þ.a.l. ekki kröfur áðurnefndar reglugerðar.
Þar til íslenska ríkið bætir úr þeim ágöllum sem uppi eru mun starfsemi faggildingaryfirvalda hér á landi vera marklaus og sem afleiðing þessa er að faggildingar sem stafa frá Íslandi teljast ekki gildar og ekki unnt að byggja á þeim sem slíkum. Ástand þetta hefur haft í för með sér verulegan kostnað fyrir innlenda aðila og hafa faggiltar skoðunarstofur á mörgum sviðum þurft að sækja nauðsynlega þjónustu erlendis frá með tilheyrandi kostnaði og óhagræði.
Að mati SVÞ hefur núverandi ástand mála skaðleg áhrif á starfsemi faggiltra skoðunarstofa og gengur gegn markmiði samningsins um Evrópska efnahagssvæðisins um frelsi til að veita þjónustu og frjálsa vöruflutninga. Í ljósi þessa hafa SVÞ sent kvörtun á Eftirlitsstofnun EFTA þar sem þess er óskað að stofnunin taki mál þetta til skoðunar.
Fréttatilkynningin á PDF sniði
Kvörtun til Eftirlitsstofnunar EFTA
26/05/2016 | Fréttatilkynningar, Fréttir, Greinar, Í fjölmiðlum, Stjórnvöld
Fréttatilkynning send á fjölmiðla 26.5.2016
SVÞ – Samtök verslunar og þjónustu hafa sent umsögn sína um frumvarp til laga um breytingu á búvörulögum, búnaðarlögum og tollalögum en frumvarpinu er ætlað að lögfesta svokallaða búvörusamninga stjórnvalda við Bændasamtök Íslands. Í umsögn sinni gagnrýna SVÞ frumvarpið og umrædda búvörusamninga og hvernig stefnt er að því að keyra mál þetta áfram í gegnum Alþingi.
Í umsögninni draga SVÞ í efa hvort og hvernig gerð samninganna standist stjórnarskrá, því fulltrúar framkvæmdavaldsins hafi bundið hendur Alþingis varðandi þau fjárútlát sem þessir samningar hafa í för með sér fyrir ríkissjóði. Samkvæmt þessum samningum hefur íslenska ríkið skuldbundið sig að reiða af hendi um 130 – 140 milljarða íslenskra króna á tíu ára tímabili til viðbótar við 9 milljarða króna árlegan stuðning sem innlendur landbúnaðar nýtur óbeint í formi tollverndar á innfluttar landbúnaðarvörur. Telja samtökin að sú framkvæmd gangi gegn stjórnarskránni sem og fjárlögum, fjáraukalögum og lögum um opinber fjármál og samræmist ekki almennt viðurkenndum sjónarmiðum um fjárstjórnarvald Alþingis og þrískiptingu ríkisvaldsins.
Í umsögninni er einnig lagt til að greint verði með skýrum hætti á milli hefðbundins landbúnaðar, s.s. sauðfjár- og nautgriparæktar, og iðnaðarframleiðslu, s.s. alifugla- og svínaræktar, enda ber síðarnefnda starfsemin með sér að um sé að ræða almenna iðnaðarframleiðslu sem á lítið skylt við hefðbundinn landbúnað.
Þá er gerðar athugasemdir varðandi úthlutun á tollkvótum á innfluttum landbúnaðarvörum, þá sér í lagi skyldu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra til að leggja svokölluð útboðsgjöld á slík kvóta sem óneitanlega leiða til hækkunar á innlendu verði á þessum vörum. Í umsögninni er því lögð til breyting á núverandi fyrirkomulagi þar sem byggt verði á blandaðri leið hlutkestis og sögulegs innflutnings á þessum vörum. Grundvallast sú tillaga á frumvarpsdrögum sem hafa verið unnin og fylgja með umsögninni.
Loks gagnrýna SVÞ að tollur á tilteknar innfluttar vörur verði leiðréttur einhliða án frekari skoðunar á öðrum tollnúmerum sem sömu sjónarmið gilda um. Því leggja SVÞ til að stigið verði skref í átt að auknu frjálsræði og samkeppni í framleiðslu og innflutningi á alifugla- og svínakjöti og með því að lækka tolla á þessum afurðum um helming.
Fréttatilkynningin á pdf sniði
Umsögn SVÞ um 680. mál – Búvörusamningar
Fylgiskjal 1 með umsgön SVÞ. Drög að frumvarpi til breytinga á 65. gr. búvörulaga
Fylgiskjal 2 með umsögn SVÞ um 680. mál
25/05/2016 | Fréttir, Greinar, Í fjölmiðlum, Verslun
Blaðagrein birt í Fréttablaðinu 25.5.2016
Höfundur: Margrét Sanders, formaður stjórnar SVÞ
Um síðustu áramót var tekið stórt skref til eflingar verslunar á Íslandi þegar tollar á fötum og skóm voru afnumdir og ber að þakka stjórnvöldum fyrir framsýnina.
Samtök verslunar og þjónustu (SVÞ) fögnuðu auðvitað þessari ákvörðun og var strax farið af stað með verslunum innan samtakanna að undirbúa þessa miklu aðgerð. Gerð var greining á því hversu hátt hlutfall af fötum og skóm bæru nú þegar ekki tolla, s.s. vegna fríverslunarsamninga og annarra milliríkjasamninga, og kom í ljós að um 35% af þessum vörum báru engan toll, þ.e. voru þá þegar tollfrjálsar. Fundað var með verslunareigendum og var mikill hugur í mönnum að sýna og sanna að þessi leið væri hagstæð fyrir neytendur og myndi skila sér í lækkuðu verði á þeim vörum sem enn báru tolla.
Strax fór að bera á því að ákveðnir aðilar voru mjög svo gagnrýnir á þessa ákvörðun stjórnvalda og sögðu beinlínis að verslunin myndi „stela“ þessari niðurfellingu og bar þar hæst skoðun Bændasamtakanna, örfárra þingmanna og einnig heyrðust gagnrýnisraddir frá ASÍ. Þetta kom verulega á óvart þar sem gerðar höfðu verið kannanir sem sýndu að fata- og skóverslun á Íslandi var stöðugt að færast til útlanda og að þessar breytingar myndu einna helst koma tekjulægri einstaklingum til hagsbóta sem kaupa þessar vörur á Íslandi.
Margar verslanir lögðu mikla vinnu í að upplýsa neytendur um verðlækkun og það mátti sjá í fjölda áberandi merkinga verslana þar sem kom fram verð fyrir niðurfellingu tolla og verð eftir niðurfellingu. Þetta framtak er til fyrirmyndar.
Þegar rýnt er í síðustu mælingar Hagstofu Íslands kemur í ljós að um 4% lækkun hefur verið á þessum vörum. Samkvæmt frumvarpi fjármála- og efnahagsráðherra sem tollalækkunin grundvallast á var búist við að um 10-13% lækkun yrði á fötum og skóm sem þá báru tolla, það ítrekast að ekki var um að ræða allar vörur því eins og að framan segir þá bar hluti þeirra ekki tolla. Hafa skal hugfast að 4% lækkun er örlítið meiri lækkun en efnahagssvið SA gerði ráð fyrir á þessum tímapunkti sem áhrif af þessum tollalækkunum þar sem litið var m.a. til kostnaðarsamra kjarasamninga og veltuhraða á þessum vörum, eitthvað sem gagnrýnisraddir í garð verslunarinnar hafa einhverra hluta vegna ekki tekið tillit til í sínum útreikningum.
Við hjá SVÞ erum sannfærð um að verðlækkun á fötum og skóm verður meiri. Samkeppnin á þessum markaði er ekki einungis á Íslandi heldur er hún alþjóðleg og því skiptir það okkur öll máli að verð og framboð verði sambærilegt við þau lönd sem við berum okkur saman við. Á móti kemur að aðhald með verslun verður að byggjast á réttum upplýsingum og málefnalegum rökum og ekki sett fram gegn betri vitund enda skaðar slíkt ekki eingöngu innlenda verslun heldur einnig þá aðila sem treysta á þá starfsemi, s.s. starfsfólk. Því vonumst við eftir, með allri auðmýkt, að neytendur og þau samtök sem bera hag þeirra fyrir brjósti treysti okkur þegar við segjum: Verslunin lækkar vörur í samræmi við niðurfellingu tolla – auðvitað.
Blaðagreinin í Fréttablaðinu 25.5.2016 – Verslunin lækkar vöruverð í samræmi við niðurfellingu tolla – Auðvitað
25/05/2016 | Fræðsla, Fréttir, Viðburðir
Litla Ísland er vettvangur þar sem smá fyrirtæki vinna saman óháð atvinnugreinum. Í tilefni sumarkomunnar efnir Litla Ísland til fundaraðar þar sem farsæll rekstur fyrirtækja verður í forgrunni.
Mikilvægt er að undirbúa stofnun fyrirtækis vel og leggja grunn að góðum rekstri strax í upphafi. Grunnurinn að góðum rekstri er sterkur rekstrargrunnur. Nokkrir lykilþættir einkenna fyrirtæki með sterkan rekstrargrunn og verður farið yfir þá í fundaröðinni.
Fyrsti fundurinn verður haldinn miðvikudaginn 25. maí í Húsi atvinnulífsins í salnum Kviku kl. 8.30-10, annar fundurinn verður föstudaginn 3. júní og sá þriðji föstudaginn 10. júní á sama stað og tíma. Allir eru velkomnir á meðan húsrúm leyfir en nauðsynlegt er að skrá þátttöku á vef SA. Skrá þátttöku hér.
Fundirnir þrír eru hugsaðir sem ein heild og því fær fólk mest út úr því að sækja þá alla en einnig er hægt að skrá sig á staka fundi. Dagskrá má sjá hér að neðan en að loknum erindum gefst góður tími fyrir fyrirspurnir og umræður.
Boðið verður upp á kaffi, te og með því auk áhugaverðra fyrirlestra.
Miðvikudagur 25. maí kl. 8.30-10
Bókhald
Bókhald er áttaviti og mikilvægt stjórntæki.
Inga Jóna Óskarsdóttir viðurkenndur bókari, ráðgjafi og eigandi hjá Bókhaldi og kennslu og formaður félags bókhaldsstofa fjallar um lykilatriði í bókhaldi, hvað ber að varast og mikilvægi bókhalds sem stjórntækis í rekstri.
Markaðsmál
Á sandi byggði heimskur maður … markaðsstarfið. Vertu með á hreinu hvernig þú getur byggt það á bjargi.
Þóranna K. Jónsdóttir markaðsnörd hjá Markaðsmálum á mannamáli fjallar um þau atriði sem skipta mestu máli í uppbyggingu öflugs markaðsstarfs en eru jafnframt oft vanrækt hjá fyrirtækjum.
Umræður og fyrirspurnir
Föstudagur 3. júní kl. 8.30-10
Starfsmenn
Starfsmannamál – réttu skrefin fyrir stjórnendur.
Ingunn Björk Vilhjálmsdóttir, MBA, atvinnufélagsfræðingur, ráðgjafi og eigandi hjá Attentus fjallar um helstu réttu skrefin í átt að stefnumiðaðri mannauðsstjórnun og tengingu við góðan rekstrarárangur. Farið verður yfir helstu tól og tæki stjórnandans í mannauðsmálum.
Markmið
Ögrandi markmið og þolinmæði.
Símon Þorleifsson rekstrarverkfræðingur og ráðgjafi í viðskiptagreind og árangursstjórnun hjá Capacent fjallar um markmiðasetningu sem byggir á framtíðarsýn stjórnenda og eigenda.
Lögð er áhersla á að markmið séu skýr, hnitmiðuð og styðji við sýn stjórnenda um framtíð fyrirtækisins. Sýnd verða nokkur dæmi um markmið og hvernig fljótlegast er að setja fram markmið og viðeigandi mælikvarða ásamt dæmum um aðgerðir til að ná framúrskarandi árangri.
Umræður og fyrirspurnir
Föstudagur 10. júní kl. 8.30-10
Samningar
Helstu samningar í fyrirtækjarekstri.
Inga Björg Hjaltadóttir héraðsdómslögmaður hjá Lögfræðistofu Reykjavíkur, ráðgjafi og eigandi hjá Attentus fjallar um helstu samninga í fyrirtækjarekstri og mikilvægi vandaðrar samningagerðar.
Skipulag
Skipulag, ákvörðunartaka og eftirfylgni í daglegum störfum.
Thomas Möller hagverkfræðingur, MBA og framkvæmdastjóri Rýmis fjallar um mikilvægi skýrleika (e. clarity) í rekstri og svörunar til starfsfólks (e. feedback). Hann mun einnig fjalla um helstu strauma í framkvæmd stefnumótunar (e. execution).
Umræður og fyrirspurnir
Samtök atvinnulífsins og aðildarsamtök SA eru bakhjarlar Litla Íslands.
25/05/2016 | Fréttatilkynningar, Fréttir, Í fjölmiðlum, Stjórnvöld, Verslun
Fréttatilkynning send á fjölmiðla 19.5.2016
Um 64% af innfluttum fatnaði og skóm báru 15% tolla fram að síðustu áramót þegar tollurinn var feldur niður. Þessi aðgerð leiddi af sér töluverða kostnaðarlækkun fyrir innflytjendur og niðurfelling tollana ætti því, að öðru óbreyttu, að leiða til ríflega 8% verðlækkunar á þessum vöruflokkum.
Þegar skoðað er hvort tollaniðurfellingin hafi skilað verðlækkun til neytenda þarf að skoða fleiri þætti en opinberar álaglögur. Innkaupsverð varanna, gengi gjaldmiðla, laun og annar innlendur kostnaður eru meðal þess sem hefur áhrif á rekstur þessara fyrirtækja og þar af leiðandi á þróun verðs á innlendum markaði.
Við mat á því hvort tollalækkanirnar hafi skilað sér með fullnægjandi hætti til neytenda þarf að skoða þróun annarra kostnaðarliða frá því að tollaniðurfellingin tók gildi. Því hefur efnahagssvið Samtaka atvinnulífsins reiknað vísitölu sem vegur saman þessa kostnaðarliði og ber hana saman við verðþróunina eins og hún hefur verið skv. verðvísitölu Hagstofunnar.
Eins og sést á myndinni hér að ofan hafa verðlækkanir á fötum og skóm í innlendum fataverslunum verið svipaðar og við mátti búast samkvæmt reiknuðu vísitölunni. Frá desember í fyrra fram í apríl s.l. lækkaði verð að meðaltali um 3,9% en reiknaða vísitalan gerir ráð fyrir 3,7% verðlækkun.
Helsta ástæða þess að verðlag hefur ekki lækkað eins mikið og tollabreytingarnar einar og sér gæfu tilefni til, er mikil hækkun innlendra kostnaðarliða. Hæst bera miklar launahækkanir en á tímabilinu hækkaði launavísitala Hagstofunnar um 4,8% og annar innlendur kostnaður um 0,7%. Þetta dregur úr áhrifum tollaniðurfellingarinnar og hagstæðrar gengisþróunar. En eftir stendur að niðurfelling tolla hefur skilað íslenskum neytendum um 4% lægra verði á fötum og skóm.
Verðbreytingar koma ekki fram strax og ný lög taka gildi, það þarf að hafa í huga í umræðu um skattkerfisbreytingar. Í fataverslun á meðalkaupmaðurinn um 120 daga vörubirgðir og því getur það því tekið 4 – 5 mánuði að sjá áhrif slíkra breytinga koma endanlega fram í verði vöru. Engu að síður sýna kannanir að verulegar lækkanir eru þegar komnar fram í einstaka vöruflokkum, s.s. kvenskóm, sem hafa lækkað um 17%.
SVÞ er ekki í minnsta vafa um að niðurfelling tolla af fötum og skóm muni skila sér til neytenda á sama hátt og skattkerfisbreytingar fyrri ára hafa gert það. Nýjasta dæmið í því sambandi er afnám vörugjalda um áramótin 2014-2015, en allar mælingar sýna að afnám þeirra gjalda skilaði sér í fullu til neytenda.
Fréttatilkynning 19.5.2016- Niðurfelling tolla og verðþróun á fötum og skóm