26/10/2016 | Fréttir, Greinar, Í fjölmiðlum, Verslun
Barnavagnar, barnaleikföng og snuð eru dæmi um vörur sem bera núna tolla sem falla niður.
Frá og með 1. janúar 2017 hafa allir tollar verið felldir niður hér á landi nema af hluta af matvöru. Þetta verður mikil kjarabót eins og hefur sýnt sig við niðurfellingu á almennum vörugjöldum 1. janúar 2015 og síðan niðurfellingu á tollum á fötum og skóm 1. janúar 2016.
Skilar niðurfellingin sér til neytenda?
Þrátt fyrir gagnrýnisraddir um annað þá hefur niðurfelling tolla og vörugjalda skilað sér til neytenda eins og efnahagssvið Samtaka atvinnulífsins hefur ítrekað sýnt fram á með tölulegum gögnum. Þetta getur hinn almenni neytandi einfaldlega sannreynt með því að skoða breytingu á vísitölu þessara vara. Neytendur finna þetta einnig á verulegri verðlækkun á þeim vörum sem áður báru þessi gjöld s.s. eldavélum, sjónvörpum, salernum og bílavarahlutum. Einnig hafa föt og skór lækkað töluvert. Þetta hefur haft góð áhrif á þróun verðlags sem kemur öllum til góða.
Það skal þó tekið fram að tollar höfðu þegar verið felldir niður af vörum sem komu frá aðildarríkjum Evrópusambandsins og ríkjum sem gerðir hafa verið fríverslunarsamningar við, s.s. Kína, og báru því um 40% af innfluttum fötum og skóm engan toll þegar tollar voru felldir niður af þessum vörum um síðustu áramót. Niðurfelling á almennum vörugjöldum og tollum hefur ekki eingöngu haft áhrif á verð á tilteknum vörum til neytenda heldur einnig mjög jákvæð áhrif á vísitöluna eins og áður sagði og þar með á verðtryggð lán landsmanna. Því er hagur neytenda af tollaniðurfellingu ekki eingöngu mældur í lægra vöruverði.
Fyrir hverja er niðurfelling tolla og vörugjalda?
Niðurfelling tolla og vörugjalda gagnast fyrst og fremst neytendum og þá ekki síst þeim tekjulægri. Hin þjóðhagslegu áhrif hafa einnig verið jákvæð. Þannig hefur innlend verslun aukist í kjölfar þessara breytinga, skattgreiðslur fyrirtækjanna hækkað og störfum í verslun fjölgað. Sjálfsagt hefur þetta líka haft þau áhrif að þekktar erlendar verslunarkeðjur horfa nú í auknum mæli til Íslands sem ákjósanlegs vettvangs fyrir starfsemi sína. Samtök verslunar og þjónustu hafa lagt áherslu á mikilvægi þess fyrir íslenskt samfélag að sem stærstur hluti verslunar landsmanna fari fram hér á landi, slíkt eykur vöruframboð og hefur jákvæð áhrif á vöruverð. Þannig verði tryggt að íslensk verslun starfi á samkeppnislegum grunni gagnvart erlendri verslun og að opinber álagning hér á landi raski ekki þeirri samkeppni.
Hvaða breytingar verða 1. janúar 2017?
Nú standa einungis eftir tollar á aðrar vörur sem og tollar af hluta af matvörum. Dæmi um vörur sem tollar verða felldir niður af næstu áramót eru barnavagnar, leikföng, reiðtygi, ýmsar hreinlætisvörur, heimilisvörur og húsgögn. Þessar breytingar eru enn ein kjarabótin fyrir heimilin sem skilar sé í lækkun á vöruverði og hefur því áhrif til lækkunar verðbólgu og kaupmáttaraukningu fyrir heimilin.
Samtök verslunar og þjónustu fagna þessum breytingum og eru verslunarmenn þegar farnir að undirbúa sig undir þær.
Birt á visir.is 25. okt. 2016
Höfundar: Andrés Magnússon framkvæmdastjóri SVÞ og Margrét Sanders formaður SVÞ
29/09/2016 | Fréttir, Greinar, Stjórnvöld
Alþýðusamband Íslands, Félag atvinnurekenda, Neytendasamtökin, Samtök skattgreiðenda, Samtök verslunar og þjónustu og Viðskiptaráð Íslands hafa birt sameiginlega auglýsingu vegna nýsamþykktra búvörusamninga. Samningarnir voru staðfestir með nítján greiddum atkvæðum á Alþingi án þess að tekið hafi verið tillit til framangreindra tillagna. Telja framangreind samtök að með afgreiðslu sinni hafi Alþingi mistekist að gæta hagsmuna almennings, neytenda og skattgreiðenda.
Í aðdraganda nýgerðra búvörusamninga óskuðu samtökin þess að stjórnvöld gættu hagsmuna alls almennings umfram sérhagsmuni einstakra starfsgreina enda hafa þessir samningar áhrif á fleiri aðila en þá sem að þeim koma með beinum hætti, samtök bænda og ríkið. Með vísan til tillagna verkefnisstjórnar Samráðsvettvangs um aukna hagsæld, þverpólitísks og þverfaglegs vettvangs sem ætlað er að tryggja hagsæld Íslendinga til lengri tíma litið, óskuðu samtökin þess að búvörusamningar hefðu m.a. að markmiði að:
1. Lækka matvælaverð til neytenda.
2. Tryggja rekstargrunn landbúnaðar sem atvinnugreinar.
3. Niðurgreiðslur færist frá sértækum búgreinastuðningi í átt að almennari jarðræktarstuðningi.
4. Stuðla að aukinni samkeppni á búvörumarkaði.
5. Lækka tolla á landbúnaðarvörum um 50% og afnema tolla á alifuglum og svínakjöti.
Til að bregðast við harðri gagnrýni á búvörusamninga kallaði meirihluti atvinnuveganefndar eftir þjóðarsamtali um landbúnað með aðkomu neytenda, samtaka launafólks og atvinnulífs. Ljóst er að loforð um endurskoðun var brotið og búvörusamningar festa í sessi óskilvirkt og kostnaðarsamt landbúnaðarkerfi þar sem bændur hafa fullt vald til að hafna öllum þeim breytingum sem þeim hugnast illa.
Alþingi hefur því samþykkt búvörusamninga til tíu ára án þess að taka tillit til framangreindra sjónarmiða og þannig brugðist skyldu sinni að gæta hagsmuna almennings, neytenda og skattgreiðenda. Að sama skapi standast ekki nánari skoðun fullyrðingar einstakra þingmanna og ráðherra um að samningarnir gildi eingöngu til þriggja ára.
Er það því brýnt verkefni komandi þings að stuðla að sátt í þessu máli. Það er skýr krafa framangreindra samtaka að nýtt þing endurskoði núverandi landbúnaðarkerfi með heildarhagsmuni að leiðarljósi. Sátt um íslenskan landbúnað er öllum til hagsbóta, ekki síst bændunum sjálfum.
13/09/2016 | Fréttir, Greinar, Í fjölmiðlum
Blaðagrein birt í Fréttablaðinu 13.9.2016
Höfundar: Jón Björnsson, varaformaður SVÞ og Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri SVÞ
„Verslun og þjónusta þarf eins og aðrar atvinnugreinar að búa við samkeppnishæft umhverfi.“ Þessi hástemmdu orð eru inngangur landsfundarályktunar annars af ríkisstjórnarflokkunum um verslun og þjónustu. Sannarlega lofandi yfirlýsing frá flokki sem kennir sig við frelsi í viðskiptum og ætti að vera vegvísir um virðingu fyrir viðskiptafrelsi á samkeppnislegum forsendum.
Samkeppni er hampað í hvívetna þegar kemur að vel flestum athöfnum í daglegu lífi en þegar pottur er brotinn í innlendum viðskiptum er skorti á samkeppni kennt um að ekki hafi betur farið.
Hins vegar er það svo að samkeppni á ekki upp á pallborðið hjá stjórnmálamönnum þegar kemur að innlendri mjólkur- og kjötframleiðslu og ræktun einstakra grænmetistegunda og lúta einstaka fyrirtæki í þeim geira ekki almennum lögmálum samkeppnislaga. Laga sem ætlað er að efla samkeppni í viðskiptum og vinna gegn skaðlegri fákeppni og samkeppnishömlum og auðvelda aðgang nýrra samkeppnisaðila að innlendum markaði. Rúmur þriðjungur matarútgjalda hjá venjulegu íslensku heimili fer til kaupa á innlendum landbúnaðarvörum. Þrátt fyrir þá vernd sem greinin býr við virðast framleiðendur svínakjöts og kjúklingakjöts vera þeir einu sem hagnast á núverandi fyrirkomulagi, um það vitna ársreikningar fyrirtækja í þeim greinum. Skoðun ársreikninga fyrirtækja í almennri kjötvinnslu og mjólkurvinnslu leiðir hins vegar í ljós að það er ekki ábatasamur rekstur, þrátt fyrir samkeppnisverndina. Ekki er hagur bænda frábær. Á sama tíma og erlendir ferðamenn streyma til landsins og veitingahús landsins eru yfirfull, þarf að lækka verð til bænda fyrir lambakjöt. Og þar erum við stödd með þetta ólánskerfi sem enginn er ánægður með. Það sem verra er að það virðist alla stjórnmálaflokka skorta vilja eða þor til að gera hagsmunaaðilum ljóst að það sé þeirra að koma með raunhæfar úrbætur á kerfinu.
Með búvörusamningum er enn og aftur meitluð í stein opinber niðurgreiðsla til handa einni atvinnugrein ásamt því að undanþiggja áfram tiltekna grein ákvæðum samkeppnislaga. Þá lét Alþingi sem vind um eyru þjóta gagnrýni varðandi úthlutun á tollkvótum fyrir landbúnaðarvörur þar sem allt samkeppnislegt hagræði til handa innlendum neytendum er afnumið með álagningu útboðsgjalda. Gjöld sem í eðli sínu eru skattur og keyra upp verð á innfluttum matvælum. Íslensk stjórnvöld höfðu tækifæri til að láta Mjólkursamsöluna og fleiri fyrirtæki vinna hylli neytenda í krafti betri vara og verðs en valdi fremur að pakka fyrirtækinu í þægilegar tollverndarumbúðir og halda áfram sömu vegferð og s.l. 20 ár.
Það er mikið til af hreinni og góðri íslenskri landbúnaðarvöru sem íslenskir framleiðendur ættu að gera meira af að segja frá. Séríslenskar vörur eins og skyr og lambakjöt ættu að vera á óskalista hvers ferðamanns og við ættum að vera leiðandi í dýravelferð og lífrænni ræktun. Við höfum allt til þess nema hinn samkeppnislega hvata.
Þrátt fyrir hávær mótmæli úr ýmsum áttum um ágalla á landbúnaðarkerfinu þá á það kerfi sér marga stuðningsmenn á Alþingi. Skiptir hér engu hvort um er að ræða rótgróinn flokk sem viðheldur íhaldssömum gildum í landbúnaði eða flokk sem hefur að stefnu að vinna í innanlandsmálum að víðsýnni og þjóðlegri umbótastefnu á grundvelli einstaklingsfrelsis og atvinnufrelsis með hagsmuni allra stétta fyrir augum.
Samtök verslunar og þjónustu eru einfaldlega þeirrar skoðunar að nýgerðir búvörusamningar komi ekki til með að skila bændum neitt fram á veginn, miklu fremur að verið sé að festa í sessi óbreytt ástand til næstu ára. Hins vegar er hægt að fullyrða að þeir muni ekki skila íslenskum neytendum neinum ávinningi.. Binda verður vonir við að það þing sem kosið verður í næsta mánuði verði þannig samansett að hægt verði að gera sér raunhæfar vonir um breytingu á þessu kerfi sem verði bæði bændum og neytendum til framdráttar.
Greinin í Fréttablaðinu.
02/09/2016 | Fréttir, Greinar, Í fjölmiðlum, Verslun
Grein birt á Kjarnanum 1.9.2016 – Höfundur: Lárus M.K. Ólafsson, lögmaður SVÞ
Umræða um upprunamerkingu matvæla hefur verið áberandi að undanförnu m.a. í ljósi opinberrar umfjöllunar um búvörusamninga. Í þeirri umræðu hefur verið rætt um að gera ríkari kröfur um upprunamerkingu matvæla og sú krafa m.a. gerð að samþykkt búvörusamninga og tollasamnings við ESB um inn- og útflutning á matvælum grundvallist á innleiðingu á regluverki samningsins um Evrópska efnahagssvæðisins um upprunamerkingu matvæla. Þannig hafa einnig formenn Svínaræktarfélags Íslands og Félags kjúklingabænda nýlega ritað grein sem beint er að ákveðnum hagsmunasamtökum og framkvæmdastjóra þeirra vegna afstöðu þeirra hagsmunasamtaka gagnvart kröfu um upprunamerkingar.
Af þessari umræðu, hvort sem hún á sér stað í þingheim eða fjölmiðlum, má ráða að það sé einbeittur vilji innflytjenda og verslana að leyna uppruna matvæla fyrir neytendum. Hér eru óneitanlega á ferðinni digurbarkalegar yfirlýsingar um meintan vilja hagsmunaaðila um að brjóta gegn trausti viðskiptavina sinna. En er það virkilega svo að neytendur eigi ekki rétt á upplýsingum um uppruna matvæla?
Í starfsemi sem grundvallast á samkeppnislegum forsendum gera verslunareigendur sér fyllilega grein fyrir því að virk samkeppni leiðir til þess að upplýstur neytandi hefur val um við hvern hann verslar. Sé þjónusta eða upplýsingagjöf ekki að skapi neytenda þá velur hann að beina viðskiptum til samkeppnisaðila. Þannig virkar samkeppni í sinni einföldustu mynd en vissulega á samkeppni ekki við í öllum atvinnugreinum enda eru tilteknar greinar undanskildar þeim lögmálum, s.s. tiltekin innlend matvælaframleiðsla.
Verslunin hefur gert sér grein fyrir mikilvægi þess að veita neytendum upplýsingar um uppruna matvæla. Óhætt er að fullyrða að yfirgnæfandi meirihluti Íslendinga vill bæta upprunamerkingar matvæla og skiptir uppruni matvæla því miklu máli við ákvörðun um kaup. Í ljósi þessa tóku SVÞ höndum saman við Samtök atvinnulífsins, Samtök iðnaðarins, Samtök ferðaþjónustunnar, Bændasamtök Íslands og Neytendasamtökin, ásamt dyggri ráðgjöf frá Matvælastofnun, og gáfu út í febrúar 2015 ítarlegar leiðbeiningar til aðildarfyrirtækja sinna um upprunamerkingar matvæla. Þar eru á mjög svo upplýsandi hátt, bæði í rit- og myndmáli, settar fram ábendingar til framleiðenda, innflytjenda og veitingastaða um upprunamerkingar á þeim vörum sem eru í boði. Eins og fram kemur í inngangi þeirra leiðbeininga þurfa neytendur að fá vitneskju á umbúðum matvæla, eða með merkingum á sölustað og við fjarsölu, um upprunaland þeirrar vöru sem þeir kaupa.
Í umræddum leiðbeiningum er ekki eingöngu tekið tillit til þeirra reglna sem gilda hér á landi um upprunamerkingar heldur er þar gengið enn lengra og settar fram tillögur um merkingar á þeim sviðum þar sem reglur um upprunamerkingar hafa enn ekki tekið gildi. Því má með sanni segja að íslensk verslun hefur axlað ábyrgð á skyldu um upprunamerkingar og í þeirri vegferð tekið á sig skyldur umfram lagaskyldu.
Hagsmunir neytenda verða ávallt að vera í forgangi þannig að þeir geti tekið upplýstar ákvarðanir um vörukaup og er upprunamerking þar lykilatriði. SVÞ benda á að verslun hefur, og mun ávallt, axlað sína ábyrgð varðandi upplýsingar til neytenda og því er bæði réttlátt og sanngjörn krafa að innlendir matvælaframleiðendur, þ.m.t. svína- og kjúklingaframleiðendur, opni dyrnar hjá sér varðandi aðbúnað og framleiðsluferli í sinni starfsemi til að upplýsa neytendur um sína starfsemi.
Höfundur er lögmaður hjá Samtökum verslunar og þjónustu.
Slóð inn á Kjarnann
30/08/2016 | Fréttir, Greinar, Í fjölmiðlum
Fréttatilkynning send á fjölmiðla 30.8.2016
Atvinnuveganefnd Alþingis hefur afgreitt nefndarálit vegna búvörusamninga. SVÞ hafa verið gagnrýnin á umrædda samninga, t.d. varðandi fjárskuldbindingar vegna þeirra, tímalengd þeirra og að ekki eru lagðar til breytingar á öðrum tengdum málefnum s.s. framkvæmd úthlutunar á tollkvótum á landbúnaðarvörum. Í umsögn sinni um málið bentu SVÞ á að með þeim skuldbindingum sem íslenska ríkið hefur undirgengist með undirritun samninganna sé vegið verulega að fjárstjórnarvaldi Alþingis, stjórnarskránni, fjárlögum, fjáraukalögum og lögum um opinber fjármál. Þá gagnrýndu SVÞ framkvæmd varðandi úthlutun á tollkvótum á landbúnaðarvörum, þ.e. þá skyldu að leggja útboðsgjöld á kvótanna sem óneitanlega leiða til hækkunar á innlendu verði á þessum vörum, og lögðu samtökin til breytingu á núverandi fyrirkomulagi.
Nú liggur fyrir að atvinnuveganefnd Alþingis hefur lagt til m.a. þær breytingar að fram fari endurskoðun á samningunum eftir 3 ár í stað 10 ára og að heimilaður verði án tolla innflutningur á tilteknu magni á svokölluðum upprunaostum, þ.e. ostum sem ekki eru framleiddir hér á landi.
SVÞ telja jákvætt að loksins hafi náðst fram eitt af baráttumálum samtakanna sem er tollfrjáls innflutningur á ostum sem hingað til hafa borið háan verndartoll. Hins vegar er það magn osta lítill hluti af innlendum ostamarkaði, eða alls um 3-5%, og mun því ekki hafa áhrif á markað sem ber öll merki einokunar. Þá er einnig jákvætt að lagt er til nýtt endurskoðunarákvæði varðandi gildistíma búvörusamninga sem þó felur ekki í sér styttingu á samningum eða niðurfellingu þeirra. Þá harma SVÞ að atvinnuveganefnd Alþingis hafi ekki tekið til skoðunar breytingar á úthlutun á tollkvótum með hliðsjón af innsendum tillögum samtakanna. Er því enn viðhaldið óréttlátri og íþyngjandi skattheimtu við úthlutun tollkvóta sem óhjákvæmilega felur í sér viðbótarkostnað fyrir neytendur. Þá hefur ekki verið litið til þess að tollkvótarnir taka ekki tillit til verulegrar aukningar ferðamanna sem hefur aukið verulega á eftirspurn eftir matvælum sem innlend framleiðsla hefur á engan hátt náð að anna.
Loks átelja SVÞ að tollur á tilteknar innfluttar vörur verði leiðréttur einhliða án frekari skoðunar á öðrum tollnúmerum sem sömu sjónarmið gilda um. Því harma SVÞ að ekki hafi verið stigið skref í átt að auknu frjálsræði og samkeppni í framleiðslu og innflutningi á alifugla- og svínakjöti og með því að lækka tolla á þessum afurðum. SVÞ telja að fyrirliggjandi samningar og tillögur atvinnuveganefndar um breytingar þar á sýni að lítill vilji virðist vera hjá stjórnvöldum að auka samkeppni í landbúnaði og þá trú að aukin samkeppni muni leiða af sér betri vörur, lægra verð og bættan rekstur fyrirtækja í landbúnaði. Því skora SVÞ á stjórnvöld að leggja til frekari breytingar á þessum málaflokki og þ.m.t. að taka til endurskoðunar núverandi framkvæmd við úthlutun á tollkvótum fyrir landbúnaðarvörum.
Fréttatilkynning á PDF sniði.
15/08/2016 | Fréttir, Greinar, Í fjölmiðlum
Blaðagrein birt í Fréttablaðinu 13.8.2016
Höfundar: Andrés Magnússon framkvæmdastjóri SVÞ og Helga Árnadóttir framkvæmdastjóri SAF
Samspil atvinnugreinanna í okkar litla íslenska hagkerfi er öllum ljóst. Þannig hefur það alltaf verið og mun trúlega alltaf verða. Uppgangur einnar atvinnugreinar hefur jákvæð áhrif fyrir allt hagkerfið og öfugt.
Sá gífurlegi vöxtur, sem ferðaþjónustan sem atvinnugrein hefur notið á undanförnum árum, sýnir okkur kannski betur en nokkru sinni fyrr hversu mjög hagsmunir atvinnugreina eru samtvinnaðir. Allt frá 2010 hefur mikilvægi ferðaþjónustu vaxið hröðum skrefum og eru fá ef nokkur dæmi um sambærilegan vöxt á jafn skömmum tíma. Á þessum tíma hefur fjöldi ferðamanna sem leggja leið sína til Íslands fjórfaldast. Á sama tíma hafa tekjur þjóðarbúsins vaxið gífurlega í formi gjaldeyristekna, VSK-tekna og annarra beinna og óbeinna skatttekna. Þá hefur atvinnusköpun aukist til muna um allt land og afleiddar tekjur vaxið samhliða. Ferðamenn eru nú í auknum mæli að kaupa hvers kyns innlenda þjónustu, versla og njóta þeirrar afþreyingar sem í boði er.
Þessi stórkostlegi vöxtur hefur sannarlega haft jákvæð áhrif á starfsemi verslunarinnar í landinu og raunar einnig á starfsemi fjölmargra þjónustufyrirtækja. Á fyrri hluta þessa árs vörðu erlendir ferðamenn 11,6 milljörðum króna í verslun á Íslandi, sé horft til kortaveltu. Það er rúmlega 3 milljörðum meira en á sama tíma í fyrra. Menn þurfa raunar ekki að líta lengi í kring um sig til að sjá þessar breytingar með berum augum, mannlíf og yfirbragð allrar verslunar í miðborg Reykjavíkur og um allt land sýnir þetta svo ekki verður um villst. Fjöldi verslana og vöruúrval hefur aukist til muna hvert sem litið er og fjölbreytt þjónusta er nú í boði sem áður þekktist ekki. Í þessu samhengi má nefna að talið er að ferðamenn muni neyta um 22 tonna af innlendri matvöru á dag á þessu ári, setja um 54 tonn af eldsneyti á bílaleigubíla sína og kaupa íslenska hönnun sem aldrei fyrr.
Þá eru heildartekjur af hverjum ferðamanni innanlands að aukast á milli ára. Á fyrri hluta síðasta árs nam t.a.m. tekjuaukningin um 31% milli ára á meðan fjölgun ferðamanna á sama tímabili nam 27%. Vísbendingar gefa til kynna áframhaldandi aukningu í þessa átt á yfirstandandi ári. Það er okkar allra að nýta áfram þau tækifæri sem felast í fjölgun ferðamanna. Það hefur jákvæð og mikilvæg áhrif á hagkerfið allt, eykur velsæld og blómgar mannlíf. Vaxtarverkir eru óhjákvæmilegir en með yfirvegun, festu og samtakamætti okkar eru okkur allir vegir færir.
Fréttablaðið 13.8.2016 – Uppgangur ferðaþjónustu kemur öllum til góða
Síða 14 af 16« Fyrsta«...1213141516»