29/11/2024 | Fréttir, Í fjölmiðlum, Verslun
Stærsti verslunardagur ársins er genginn í garð en framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu hvetur neytendur til að vara sig á vafasömum erlendum netverslunum sem eigi það til að klekkja á neytendum.
Bandaríska verslunarhefðin, sem hefur rutt sér til rúms hér á landi síðustu ár og er kennd við svartan föstudag, stendur nú yfir. Fjölmargar verslanir keppast nú við að bjóða upp á bestu afslættina á vörum og eru opnunartímar víða lengri en vanalega.
Megi ekki týna sér í kaupgleðinni
Benedikt S. Benediktsson, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu, segir daginn verða stærri og stærri með hverju árinu sem líður.
„Það var mikið að gera veit ég í morgun og erfitt að ná á verslunarmenn, það er svo mikill handagangur í öskjunni en það hljómar eins og það sé nokkuð skýrt að menn hafi væntingar um að þetta verði annamesti dagurinn í þessari hrinu.“
Dagurinn sé kominn til að vera en þó eru neytendur hvattir til að hafa varan á og týna sér ekki í kaupgleðinni. Einhver dæmi séu um að erlendum vefsíðum skorti nægilega upplýsingagjöf og skilmála sem neytendur eigi að vera vanir hér á landi og innan Evrópska efnahagssvæðisins (EES).
„Ekki gleyma að lifa og njóta“
„Annars konar upplýsingagjöf um kjör og afslætti en miðað er við hér. Hér eru náttúrulega gerðar nokkuð strangar kröfur, men þurfa að gæta sín hvernig þeir auglýsa og hvernig þeir senda frá sér skilaboð. Við heyrum alltaf ábendingar um það og kannski í einhverju mæli meira núna en áður að einhverjar erlendar vefsíður séu að auglýsa mjög háa afslætti en síðan er erfitt að finna fót fyrir því að það sé eitthvað sem þær muni standa við.“
Fólk eigi auðvitað að huga að umhverfinu og náttúrunni en að mati Benedikts má aðeins sleppa af sér beislinu öðru hvoru.
„Auðvitað við eigum kannski aldrei að sleppa því, en við megum ekki gleyma að lifa og njóta sko.“
„Við megum ekki gleyma að lifa og njóta sko“ – Vísir
19/11/2024 | Fréttir, Í fjölmiðlum
Framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu segir að umdeildar breytingar sem gerðar voru á búvörulögum í mars hafi hvorki þjónað hagsmunum bænda né neytenda. Erfiðara sé orðið fyrir matvöruverslanir að semja um hagstæð kjör frá afurðastöðvum.
Alþingi samþykkti í mars breytingar á búvörulögum sem veittu kjötafurðastöðvum undanþágu frá samkeppnislögum. Héraðsdómur Reykjavíkur komst að þeirri niðurstöðu í gær að afgreiðsla Alþingis og meirihluta atvinnuveganefndar á málinu hefði ekki verið í samræmi við stjórnarskrá og lögin því ógild.
Ekki liggur fyrir hvaða áhrif þetta á eftir að hafa á kaup Kaupfélags Skagfirðinga á Kjarnafæði-Norðlenska en kaupin voru gerð á grundvelli þessarar undanþágu. Beðið er eftir viðbrögðum frá Samkeppniseftirlitinu vegna dómsins.
Samtök verslunar og þjónustu gagnrýndu þessar undanþágur á sínum tíma. Benedikt S. Benediktsson framkvæmdastjóri samtakanna fagnar niðurstöðu héraðsdóms.
„Niðurstaða héraðsdóms, sem er þá bindandi, hefur það í för með sér að samkeppnislögin gilda. Þessi breytingarlög sem Alþingi samþykkti í vor þau eru gufuð upp. Þannig að samkeppnislögin, eins og við skiljum þau, hafa gilt allan tímann og það er kannski bara hið eðlilega ástand,“ segir Benedikt.
Hann segir að breytingarnar hafi hvorki þjónað hagsmunum bænda né neytenda heldur fyrst og fremst afurðastöðvum. Matvöruverslanir hafi fundið fyrir því á síðustu mánuðum.
„Við heyrum frá versluninni að þar telja menn sig hafa fundið það í samskiptum við afurðastöðvar að stemningin hafi verið að breytast og erfiðara að sækja fram hagstæðara verð en ella. Að einhverju leyti telja menn sig hafa orðið þess áskynja að verðin væru að samræmast. Hvort sem að frumvarpið sem slíkt, eða lagabreyting sem slík, sé orsakavaldur í því en það er eitthvað sem við höfum heyrt,“ segir Benedikt.
18/11/2024 | Bílgreinasambandið, Fréttir, Í fjölmiðlum
Hleðsluinnviðir fyrir rafknúna fólksbíla eru komnir á nokkuð góðan stað og er ekkert því til fyrirstöðu að ferðast um allt landið á rafmagnsbíl. Hins
vegar vantar innviði fyrir stærri rafknúin ökutæki og mikilvægt að byggja innviðina upp með markvissum hætti
ef orkuskipti atvinnubílaflotans eiga að geta orðið að veruleika.Þetta segir María Jóna Magnúsdóttir framkvæmdastjóri Bílgreinasambandsins, en í síðustu viku stóðu
samtökin fyrir málstofu þar sem þessi mál voru tekin til umfjöllunar og leitað lausna. „Í dag eru rafknúnir fólksbílar
á Íslandi orðnir um 30.000 talsins, en uppbygging innviða fyrir þá hefur að mestu verið handahófskennd þar sem bæði einstaklingar og fyrirtæki
hafa verið að þreifa sig áfram,“ segir María Jóna. „Þegar kemur að stærri ökutækjum getum við ekki treyst á svona „náttúrulega“ uppbyggingu.
Það þarf að leggja góðan grunn og vanda til verka, kortleggja hvar best er að staðsetja hleðslustöðvar, og tryggja að við hlustum á sjónarmið
þeirra sem munu nota stöðvarnar.Mikilvægt er að stjórnvöld stýri því verkefni í nánu samstarfi við atvinnulíf og aðra hagaðila.“ Stór ökutæki sem þurfa
mjög gott aðgengi Meðal þess sem þarf að hafa í huga, að sögn Maríu Jónu, er að ólíkar gerðir rafknúinna atvinnubíla hafa ólíkar
innviðaþarfir. „Rafknúnir vöruflutningabílar munu t.d. ekki endilega deila hleðslustöðvum með rafknúnum
strætisvögnum eða fólksbílum. Það er ekki rekstrarlega arðbært að taka ökutækin úr umferð og láta þau fara út af leið til að hlaða og vegna stærðar
sinnar þurfa þau mjög gott aðgengi,“ útskýrir María Jóna. María Jóna segir að orkuskipti atvinnubifreiða feli í sér mikil tækifæri; íslenska raforkan sé hagkvæmur kostur, og viðskiptavinir geri sífellt
ríkari kröfur um að fyrirtæki lágmarki kolefnisspor sitt. „Rafknúnir vinnubílar eru stór fjárfesting og fyrirtækin eru meira hikandi við að stíga fyrstu skrefin nema innviðir og stuðningur við kaup og rekstur ökutækjanna sé tryggður. Það þarf fyrirsjáanleika í þeim efnum til nokkurra ára í senn.“ Er ljóst að koma þarf upp hentugum hleðslustöðvum víða: „Á málstofunni var vitnað í erlendar rannsóknir
sem sýna hvar rafknúnir flutningabílar komast í hleðslu en í dag eru þessi ökutæki hlaðin á heimastöð í 40% tilvika, á hvíldarstöð í 40% tilvika og í 20% tilvika þegar verið er að afferma og ferma ökutækið,“ útskýrir María Jóna.
Ný Evrópureglugerð kveður á um að á meginæðum þjóðvegakerfisins sé æskilegt að hafa hleðslustöðvar með 60 km millibili, báðum megin við veginn. María Jóna segir íslenskar aðstæður ekki endilega kalla á að byggja
slíkt kerfi upp beggja vegna vegakerfisins og sennilegt að stjórnvöld byrji á að koma upp stöðvum með 100 km millibili. „En til að tryggja að uppbyggingin verði rétt þarf að hlusta á sérfræðingana – ökumennina sjálfa
– sem þekkja aðstæðurnar best.“ Styrkjakerfið verður að vera skilvirkt Þá segir María Jóna að til að orkuskiptin nái fram að ganga þurfi stjórnvöld einnig að koma til móts við fyrirtæki með styrkjum því rétt
eins og með fólksbíla í upphafi rafbíla ökutæki allt að tvöfalt til þrefalt dýrari en sambærileg ökutæki sem knúin eru jarðefnaeldsneyti. „Orkusjóður er byrjaður að úthluta styrkjum vegna kaupa rafknúinna atvinnubifreiða,
en ferlið þarf að vera gagnsærra og skilvirkara. Í ár var auglýstur umsóknarfrestur 11. júní en úthlutun átti sér ekki stað fyrr en 20. september. Fjórir mánuðir eru langur tími og hægir á allri ákvarðanatöku um fjárfestingakaup.“
Stjórnvöld þurfa að grípa til aðgerða strax þar sem málin þróast hratt, að sögn Maríu Jónu. „Í maí á þessu ári tók gildi í Evrópu reglugerð sem herðir á CO2-losunarstöðlum fyrir nýjar þungaflutningabifreiðar.
Umfang reglugerðarinnar hefur verið útvíkkað og nær nú til þungra og meðalstórra vörubíla, strætisvagna, hópferðabíla og eftirvagna. Samkvæmt reglugerðinni þurfa strætisvagnar að vera án útblásturs árið
2035. Einnig verða framleiðendur að ná 15% samdrætti í losun árið 2025 og 45% samdrætti árið 2030 miðað við núverandi ár.“
Morgunblaðið mánudagur 18. nóvember 2024
18/11/2024 | Fréttir, Í fjölmiðlum
Erlendar netverslanir gabba neytendur með gylliboðum um afslátt og beita þrýstingi við sölu. Íslendingar eyða hundruðum milljóna á slíkum síðum en eru afar illa varðir komi eitthvað upp á.
Þurfum að vara okkur á sumum vefsíðum – Sjónvarp – Vísir
08/11/2024 | Fréttir, Í fjölmiðlum, Verslun
Matvöruverð verður til umfjöllunar í Pressu sem verður send út á vef Heimildarinnar í hádeginu í dag. Benedikt S. Benediktsson, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu, og Vilhjálmur Hilmarsson, hagfræðingur hjá stéttarfélaginu Visku, verða gestir þáttarins. Pressa hefst klukkan 12 að hádegi í dag og er þátturinn opinn öllum áskrifendum Heimildarinnar.
Bæði er hægt að horfa á þáttinn í beinni útsendingu og sem upptöku eftir útsendingu.
06/11/2024 | Bílgreinasambandið, Fréttir, Í fjölmiðlum
Frumvarp að lögum um kílómetragjald, sem taka eiga gildi um áramót, felur ekki aðeins í sér kerfisbreytingar heldur jafnframt verulegar skattahækkanir.
Benedikt S. Benediktsson framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu segir áhrif skattahækkananna víðtæk, en hann er viðmælandi viðskiptaþáttar Dagmála í dag.
„Það sem við heyrum frá okkar geirum er að flutningskostnaður er að fara að hækka, flutningur vara út á land og kostnaður við dreifingu hér í höfuðborginni. Rekstrarkostnaður þeirra sem nota dráttarvélar mun hækka, sem og þeirra sem aka mjólkurbílum og væntanlega aðila eins og Orkubús Vestfjarða sem keyrir á dísilolíu til framleiðslu á raforku yfir harðasta tímann, þannig að þetta eru ansi víðtæk áhrif,“ segir Benedikt
Skili sér út í verðlag
Hann segir breytingarnar bylmingshögg fyrir fyrirtækin og viðskiptavini þeirra. Aukinn rekstrarkostnaður skili sér út í verðlag.
„Fyrirtækin verða fyrir höggi og það má gera ráð fyrir að viðskiptavinir þeirra verði fyrir höggi, hvort sem það eru önnur fyrirtæki eins og til dæmis matvöruverslanir úti á landi, þær munu augljóslega þurfa að hækka verð til þess að mæta þessum kostnaðarhækkunum í vöruflutningi, og bara hinn almenni neytandi,“ segir Benedikt.
Áhrifin segir hann að munu koma fram í nokkrum undirliðum vísitölunnar.
„Öllum undirliðum þar sem menn reiða sig á vöruflutninga. Undirliðurinn sem snýr að veggjöldum verður ekki eini liðurinn sem gera má ráð fyrir að taki hækkunum,“ áréttar Benedikt.
Víðtæk áhrif skattahækkana Athugið að það þarf áskrift til að horfa á viðtalið!