08/07/2025 | Fréttir, Í fjölmiðlum, Stjórnvöld
Fyrirspurn sem Bergþór Ólason þingmaður Miðflokksins lagði fram á Alþingi í júní hefur vakið nokkra athygli í atvinnulífinu. Þar er leitað svara við því hvort íslensk stjórnvöld hafi gengið lengra en tilskipun Evrópusambandsins gerir ráð fyrir þegar ákveðið var hvaða fyrirtæki skuli sæta sérstöku eftirliti vegna aðgerða gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.
Göngum lengra en tilskipunin
Tilefni fyrirspurnarinnar er meðal annars umræða sem skapaðist eftir umfjöllun í Morgunblaðinu í maí, þar sem fjallað var um svokallaða gullhúðun íslensks regluverks á þessu sviði. Þar var því haldið fram að hér á landi væri eftirlit og tilkynningaskylda látin ná til fleiri aðila en kveðið sé á um í Evróputilskipuninni sem liggur til grundvallar lögum nr. 140/2018 um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.
Bent hefur verið á að fyrirspurn Bergþórs snúi meðal annars að stöðu fasteignafélaga, sem hér á landi eru tilkynningaskyld en ekki eru nefnd sérstaklega í Evróputilskipuninni. Þar kemur fram að tilkynningaskylda nái til fasteignasala og lögfræðinga þegar þeir koma að afmörkuðum þáttum fasteignaviðskipta, auk annarra tilgreindra aðila sem sinna tilteknum fjármála- og viðskiptalegum þjónustuverkefnum. Sama virðist eiga við þegar kemur að endurskoðendum og bókurum.
Fasteignafélögum bætt við
Við meðferð breytingalaga árið 2020 var ákvæði um fasteignafélög ekki hluti af frumvarpinu í upphafi, heldur var þeim bætt við að tillögu meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis. Sú breyting var rökstudd með vísan til reynslu af framkvæmd laganna og umsagnar Skattsins, sem hefur eftirlit með þeim.
Benedikt S. Benediktsson, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu (SVÞ), segir í samtali við Morgunblaðið áhyggjur hafa komið fram meðal fjölmargra fyrirtækja sem hafa þurft að ráðast í viðamiklar og kostnaðarsamar aðgerðir til að mæta settum kröfum á grundvelli regluverks sem hafi verið útvíkkað hér á landi umfram það sem tilskipunin krefst.
Vald framselt til eftirlitsaðila
Hann segir óljóst hvers vegna svo langt hafi verið gengið þegar það virðist hafa verið óþarft. Benedikt nefnir jafnframt að eftirgrennslan samtakanna hafi gefið til kynna að ákvörðunarvald um hvaða starfsemi og í hvaða umfangi væri hér tilkynningaskyld og sætti ströngu eftirliti hefði í raun verið framselt til eftirlitsaðila og ríkislögreglustjóra.
Að mati Benedikts virðist sem tiltölulega almenn aðvörunarorð í áhættumati ríkislögreglustjóra hafi leitt til þess að tiltekin starfsemi eða starfsgreinar hafi í heild sinni verið felldar undir regluverkið. Gaumgæfni eða viðspyrna á vettvangi Alþingis virðist hafa verið afar takmörkuð og lítið mat hafi verið lagt á áhrifin á þá starfsemi sem var undir hverju sinni.
Skatturinn og Seðlabanki Íslands hafa hins vegar áður vísað til þess að útvíkkanir á regluverkinu hafi verið byggðar á reynslu og því markmiði að tryggja að eftirlit nái til þeirra sviða þar sem hætta á peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka sé talin mest.
Viðskiptablað Morgunblaðsins, 8. júlí 2025.

03/06/2025 | Bílgreinasambandið, Fréttir, Í fjölmiðlum, Stjórnvöld
„Við sjáum fyrir okkur að gríðarleg flækja geti fylgt breytingum á kílómetragjaldi“ segir Benedikt S. Benediktsson, framkvæmdastjóri SVÞ, í samtali við Morgunblaðið í dag, 3. júní.
Í fréttinni er fjallað um hvort mögulegt verði að leggja kílómetragjald á erlend ökutæki, t.d. ökutæki í eigu ferðamanna og erlendra fyrirtækja. SVÞ telja líkur á að þegar upp verðir staðið geti reynst erfitt að leggja gjaldið á þessi ökutæki þar sem álagningin geti stangast á við regluverk EES-samningsins.
„Við veltum því fyrir okkur hvort skattlagning á erlend ökutæki verði lögmæt“ segir Benedikt.
SVÞ leggur áherslu á að vanda þurfi til verka við afgreiðslu frumvarpsins. Mikilvægt sé að tryggja að skattlagningin verði skilvirk, leggi ekki þungar kvaðir á herðar atvinnurekendum, tryggt verði að hún verði framkvæmanleg og síðast en ekki síst að auknar tekjur renni sannarlega til vegamála. Samtökin minna á mikilvægi þess að skattlagning og opinber gjöld rýri ekki samkeppnishæfni fyrirtækja á sviði verslunar og þjónustu.

21/05/2025 | Fréttir, Í fjölmiðlum, Stjórnvöld
„Stjórnmálin þurfa að skilja að fyrirtæki í atvinnulífinu ráða ekki við hvaða kröfur og byrði sem er og að í upphafi þurfi endinn að skoða. Margir virðast halda að fyrirtækjarekstur sé jafnvel ekki hluti af samfélaginu heldur verkefni afmarkaðs hóps sem hafi takmarkað með það að gera að hafa skoðun á fyrirhuguðum breytingum eða hvernig samfélagið virkar“ segir Benedikt S. Benediktsson, framkvæmdastjóri SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu m.a., í Svipmynd hjá Viðskiptablaði Morgunblaðsins í dag, 21. maí 2025.
Sjá allt viðtalið hér fyrir neðan:

13/05/2025 | Fréttir, Greinar, Greinaskrif, Í fjölmiðlum, Umhverfismál
Benedikt S. Benediktsson, framkvæmdastjóri SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu, varar við að fyrirhugaðar breytingar á frumvarpi til laga um kílómetragjald gætu leitt til aukins flækjustigs og kostnaðar, sérstaklega m.t.t. vöruflutninga. Þetta kemur fram í nýrri grein Benedikts þar sem hann greinir frá áhyggjum sínum vegna áforma stjórnvalda um að skipta út eldsneytissköttum fyrir víðtækt kílómetragjald.
Í greininni bendir Benedikt á að núverandi kerfi eldsneytisskatta hafi verið álitið einfalt, skilvirkt og sanngjarnt, þar sem þeir sem nota meira eldsneyti greiða meira. Með fyrirhugaðri breytingu, þar sem kílómetragjald verður lagt á alla bíla, óháð eldsneytistegund, skapast verulegar flækjur fyrir rekstraraðila vöruflutningabíla.
„Rekstraraðilar vörubíla munu þurfa að halda utan um skráningu fjölmargra bíla sem er ekið af mörgum bílstjórum. Þar sem kílómetragjald á bílana og eftirvagnana verður hátt mun nákvæmt utanumhald og regluleg skráning skipta sköpum,“ segir Benedikt í greininni.
Benedikt lýsir einnig áhyggjum sínum af því að nýja fyrirkomulagið auki álag á fyrirtæki og ríkissjóð þar sem eftirlit og skráningarkröfur verði flóknari. Hann varar við að rekstraraðilar vörubíla gætu lent í miklum viðbótarkostnaði og að aukinn rekstrarkostnaður skili sér að lokum í hærra verði.
SVÞ mun halda áfram að fylgjast með þróun málsins og beita sér fyrir skýru og sanngjörnu fyrirkomulagi sem tekur tillit til hagsmuna aðildarfyrirtækja samtakanna. Fyrirtæki eru hvött til að fylgjast með og kynna sér áhrif breytinganna á rekstur.
SMELLTU HÉR til að lesa alla greinina.
SMELLTU HÉR fyrir frétt á VB.is
02/05/2025 | Fréttir, Í fjölmiðlum, Stjórnvöld, Umhverfismál

Pure North Recycling, eitt af félagsaðilum SVÞ, hefur hlotið Kuðunginn 2024 – umhverfisverðlaun Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins – fyrir framúrskarandi árangur í umhverfismálum og hringrásarhagkerfi.
Í rökstuðningi dómnefndar kemur fram að Pure North hafi með afgerandi hætti markað sér sess sem leiðandi umhverfistæknifyrirtæki á Íslandi. Með nýtingu jarðhita við plastendurvinnslu hefur fyrirtækið náð að draga úr kolefnisspori framleiðslunnar um 82% miðað við sambærilega starfsemi í Evrópu – sem gerir plastið þeirra að einu því umhverfisvænsta sem í boði er á markaði.
Pure North hefur einnig lokað hringrás endurvinnslunnar með því að hefja eigin framleiðslu á vörum úr því plasti sem þau taka til endurvinnslu. Þá ber að nefna þróun háþróaðra úrgangslausna á borð við gervigreindarkerfið Úlli úrgangsþjarkur, sem greinir úrgangsgögn fyrirtækja og sveitarfélaga, og móttökustöðina Auðlind. Með samþættingu þessara kerfa hefur fyrirtækið skapað fyrirmyndarumgjörð fyrir skilvirka úrgangsstjórnun og hringrásarhugsun á Íslandi.
SVÞ fagnar þessum árangri félagsaðila síns og lítur á verkefni á borð við Pure North sem kraftmikil dæmi um hvernig framsýni, nýsköpun og sjálfbærni geta farið saman – með augljósum ávinningi fyrir atvinnulífið og samfélagið allt.
Sjá upphaflega frétt á MBL.is – Smelltu HÉR!
*Mynd frá MBL.is
29/04/2025 | Fréttir, Greinar, Í fjölmiðlum, Stjórnvöld, Umhverfismál
Benedikt S. Benediktsson, framkvæmdastjóri SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu, vekur athygli á áformum stjórnvalda um auknar álögur á fyrirtæki og einstaklinga í tengslum við vegamál. Í nýrri grein á Vísi bendir hann á mikilvægi þess að tryggja að nýir skattar renni raunverulega til uppbyggingar og viðhalds vegakerfisins.
„Það er ekki ósanngjörn krafa að nægilegu fjármagni sé á hverjum tíma veitt í vegamál,“ segir Benedikt og undirstrikar að góð vegamannvirki séu lykilforsenda verðmætasköpunar og hagkvæmrar nýtingar framleiðsluþátta.
Benedikt gagnrýnir einnig skort á gagnsæi í skattlagningu og bendir á að stjórnvöld hafi ekki alltaf tryggt að tekjur af ökutækjum og eldsneyti fari beint í vegamál. Hann kallar eftir ábyrgð og skýrleika í fjármálum ríkisins til að endurheimta traust almennings og atvinnulífsins.
Grein Benedikts má lesa í heild sinni á Vísi: Smelltu HÉR!