18/11/2024 | Bílgreinasambandið, Fréttir, Í fjölmiðlum
Hleðsluinnviðir fyrir rafknúna fólksbíla eru komnir á nokkuð góðan stað og er ekkert því til fyrirstöðu að ferðast um allt landið á rafmagnsbíl. Hins
vegar vantar innviði fyrir stærri rafknúin ökutæki og mikilvægt að byggja innviðina upp með markvissum hætti
ef orkuskipti atvinnubílaflotans eiga að geta orðið að veruleika.Þetta segir María Jóna Magnúsdóttir framkvæmdastjóri Bílgreinasambandsins, en í síðustu viku stóðu
samtökin fyrir málstofu þar sem þessi mál voru tekin til umfjöllunar og leitað lausna. „Í dag eru rafknúnir fólksbílar
á Íslandi orðnir um 30.000 talsins, en uppbygging innviða fyrir þá hefur að mestu verið handahófskennd þar sem bæði einstaklingar og fyrirtæki
hafa verið að þreifa sig áfram,“ segir María Jóna. „Þegar kemur að stærri ökutækjum getum við ekki treyst á svona „náttúrulega“ uppbyggingu.
Það þarf að leggja góðan grunn og vanda til verka, kortleggja hvar best er að staðsetja hleðslustöðvar, og tryggja að við hlustum á sjónarmið
þeirra sem munu nota stöðvarnar.Mikilvægt er að stjórnvöld stýri því verkefni í nánu samstarfi við atvinnulíf og aðra hagaðila.“ Stór ökutæki sem þurfa
mjög gott aðgengi Meðal þess sem þarf að hafa í huga, að sögn Maríu Jónu, er að ólíkar gerðir rafknúinna atvinnubíla hafa ólíkar
innviðaþarfir. „Rafknúnir vöruflutningabílar munu t.d. ekki endilega deila hleðslustöðvum með rafknúnum
strætisvögnum eða fólksbílum. Það er ekki rekstrarlega arðbært að taka ökutækin úr umferð og láta þau fara út af leið til að hlaða og vegna stærðar
sinnar þurfa þau mjög gott aðgengi,“ útskýrir María Jóna. María Jóna segir að orkuskipti atvinnubifreiða feli í sér mikil tækifæri; íslenska raforkan sé hagkvæmur kostur, og viðskiptavinir geri sífellt
ríkari kröfur um að fyrirtæki lágmarki kolefnisspor sitt. „Rafknúnir vinnubílar eru stór fjárfesting og fyrirtækin eru meira hikandi við að stíga fyrstu skrefin nema innviðir og stuðningur við kaup og rekstur ökutækjanna sé tryggður. Það þarf fyrirsjáanleika í þeim efnum til nokkurra ára í senn.“ Er ljóst að koma þarf upp hentugum hleðslustöðvum víða: „Á málstofunni var vitnað í erlendar rannsóknir
sem sýna hvar rafknúnir flutningabílar komast í hleðslu en í dag eru þessi ökutæki hlaðin á heimastöð í 40% tilvika, á hvíldarstöð í 40% tilvika og í 20% tilvika þegar verið er að afferma og ferma ökutækið,“ útskýrir María Jóna.
Ný Evrópureglugerð kveður á um að á meginæðum þjóðvegakerfisins sé æskilegt að hafa hleðslustöðvar með 60 km millibili, báðum megin við veginn. María Jóna segir íslenskar aðstæður ekki endilega kalla á að byggja
slíkt kerfi upp beggja vegna vegakerfisins og sennilegt að stjórnvöld byrji á að koma upp stöðvum með 100 km millibili. „En til að tryggja að uppbyggingin verði rétt þarf að hlusta á sérfræðingana – ökumennina sjálfa
– sem þekkja aðstæðurnar best.“ Styrkjakerfið verður að vera skilvirkt Þá segir María Jóna að til að orkuskiptin nái fram að ganga þurfi stjórnvöld einnig að koma til móts við fyrirtæki með styrkjum því rétt
eins og með fólksbíla í upphafi rafbíla ökutæki allt að tvöfalt til þrefalt dýrari en sambærileg ökutæki sem knúin eru jarðefnaeldsneyti. „Orkusjóður er byrjaður að úthluta styrkjum vegna kaupa rafknúinna atvinnubifreiða,
en ferlið þarf að vera gagnsærra og skilvirkara. Í ár var auglýstur umsóknarfrestur 11. júní en úthlutun átti sér ekki stað fyrr en 20. september. Fjórir mánuðir eru langur tími og hægir á allri ákvarðanatöku um fjárfestingakaup.“
Stjórnvöld þurfa að grípa til aðgerða strax þar sem málin þróast hratt, að sögn Maríu Jónu. „Í maí á þessu ári tók gildi í Evrópu reglugerð sem herðir á CO2-losunarstöðlum fyrir nýjar þungaflutningabifreiðar.
Umfang reglugerðarinnar hefur verið útvíkkað og nær nú til þungra og meðalstórra vörubíla, strætisvagna, hópferðabíla og eftirvagna. Samkvæmt reglugerðinni þurfa strætisvagnar að vera án útblásturs árið
2035. Einnig verða framleiðendur að ná 15% samdrætti í losun árið 2025 og 45% samdrætti árið 2030 miðað við núverandi ár.“
Morgunblaðið mánudagur 18. nóvember 2024
08/11/2024 | Fréttir, Í fjölmiðlum, Verslun
Matvöruverð verður til umfjöllunar í Pressu sem verður send út á vef Heimildarinnar í hádeginu í dag. Benedikt S. Benediktsson, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu, og Vilhjálmur Hilmarsson, hagfræðingur hjá stéttarfélaginu Visku, verða gestir þáttarins. Pressa hefst klukkan 12 að hádegi í dag og er þátturinn opinn öllum áskrifendum Heimildarinnar.
Bæði er hægt að horfa á þáttinn í beinni útsendingu og sem upptöku eftir útsendingu.
06/11/2024 | Bílgreinasambandið, Fréttir, Í fjölmiðlum
Frumvarp að lögum um kílómetragjald, sem taka eiga gildi um áramót, felur ekki aðeins í sér kerfisbreytingar heldur jafnframt verulegar skattahækkanir.
Benedikt S. Benediktsson framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu segir áhrif skattahækkananna víðtæk, en hann er viðmælandi viðskiptaþáttar Dagmála í dag.
„Það sem við heyrum frá okkar geirum er að flutningskostnaður er að fara að hækka, flutningur vara út á land og kostnaður við dreifingu hér í höfuðborginni. Rekstrarkostnaður þeirra sem nota dráttarvélar mun hækka, sem og þeirra sem aka mjólkurbílum og væntanlega aðila eins og Orkubús Vestfjarða sem keyrir á dísilolíu til framleiðslu á raforku yfir harðasta tímann, þannig að þetta eru ansi víðtæk áhrif,“ segir Benedikt
Skili sér út í verðlag
Hann segir breytingarnar bylmingshögg fyrir fyrirtækin og viðskiptavini þeirra. Aukinn rekstrarkostnaður skili sér út í verðlag.
„Fyrirtækin verða fyrir höggi og það má gera ráð fyrir að viðskiptavinir þeirra verði fyrir höggi, hvort sem það eru önnur fyrirtæki eins og til dæmis matvöruverslanir úti á landi, þær munu augljóslega þurfa að hækka verð til þess að mæta þessum kostnaðarhækkunum í vöruflutningi, og bara hinn almenni neytandi,“ segir Benedikt.
Áhrifin segir hann að munu koma fram í nokkrum undirliðum vísitölunnar.
„Öllum undirliðum þar sem menn reiða sig á vöruflutninga. Undirliðurinn sem snýr að veggjöldum verður ekki eini liðurinn sem gera má ráð fyrir að taki hækkunum,“ áréttar Benedikt.
Víðtæk áhrif skattahækkana Athugið að það þarf áskrift til að horfa á viðtalið!
04/11/2024 | Bílgreinasambandið, Fréttatilkynningar, Fréttir, Í fjölmiðlum
Á næstu einni til tveimur vikum ætlar Alþingi að fá lagagildi fjárlagafrumvarpi 2025 ásamt fylgitunglum.
Meðal fylgitunglanna er frumvarp fjármála- og efnahagsráðherra til laga um kílómetragjald, 7 milljarða
kr., skattahækkunarjólapakki fyrir næsta ár og tugmilljarða skattapakki til jóla næstu ára.
Jólagjöfin er kynnt undir formerkjum nokkurs konar dyggðar. Með hana eiga þegnarnir að vera
ánægðir þar sem henni er ætlað að leiða til jafnræðis, allir borgi. Gjöfin er svo skreytt með borða, u.þ.b.
100% hækkun kolefnisgjalds.
Máttlaus önd
Ríkisstjórnin er starfsstjórn eftir að einn stjórnarflokkanna boðaði skilnað í vor, annar ákvað að þá réttast að slíta sambandinu strax og var
í kjölfarið kallaður svikari. Þriðja flokknum finnst þetta vandræðalegt. Sumir ráðherrar skilnaðarstjórnarinnar gegna enn hlutverki sem embættismenn en eru sem slíkir
ekki í pólitísku hlutverki. Aðrir eruað gera eitthvað allt annað. Erlendis eru starfsstjórnir á ensku nefndar lame duck, máttlaus önd. Upprunalega voru orðin notuð til að lýsa önd sem getur ekki
haldið í við andahópinn og verður af þeim sökum skotspónn ránfugla. Seinna meir voru orðin notuð til að lýsa ógjaldfærum fyrirtækjum og einstaklingum. Á síðari tímum hafa orðin
máttlaus önd verið notuð til að lýsa því pólitíska samhengi þegar þing eða ríkisstjórn missa mátt sinn, t.d. í aðdraganda kosninga.
Er sælla að gefa en þiggja?
Skammur tími er frá því að drög að jólagjöfinni voru kynnt og enn skemmra síðan hún var afhent Alþingi til útdeilingar. Nú er orðið ljóst
að hún er til allra þegnanna. Jólagjöfin leiðir til þess að fyrirtæki sem annast flutning á fiski, matvöru, heyrúlluplasti, skepnufóðri og iðnaðarvöru munu þurfa að huga að því hvernig þau geta mætt 8-10% hækkun
rekstrarkostnaðar á næsta ári og sennilega um 15% hækkun árið 2027. Til viðbótar munu fyrirtækin standa frammi fyrir sambærilegri áskorun vegna hækkandi rekstrarkostnaðar eigin véla og tækja ásamt auknum rekstrarkostnaði þeirra sem veita fyrirtækjunum þjónustu. Skreyting gjafarinnar ber hins vegar vott um glamúr. Hver vill ekki að rekstrarkostnaður strandsiglinga hækki í ofanálag líka fyrst menn eru á annað borð byrjaðir að gefa? Í því samhengi er best af öllu að sú hækkun kemur til viðbótar sambærilegum álögum frá ESB. Gjöf sem heldur áfram að gefa. Allir vita að kostnaðarhækkanir leiðast í ríkum mæli út í verðlagningu. Hækkandi verðlagning hækkar
verðlag, m.a. verðlag á mat og öðrum nauðsynjum. En sanngirni er dyggð er það ekki?
Hangið kjöt
Þegar fjármála- og efnahagsráðherra kynnti jólagjöfina fyrir Alþingi gaf hann til kynna að hún gæti lækkað húsnæðisreikninga allra. Þunnu
hljóði muldraði hann hins vegar að hann vissi ekki alveg hvernig Hagstofan mundi bregðast við. Nú eru viðbrögðin komin í ljós því Hagstofan skaut öndina og nú hangir
hún til meyrnunar. Andfætlingar raunhagkerfisins á fjármálamarkaði andvörpuðu. Alþingi ætlar að ljúka afgreiðslu fjárlagafrumvarpsins og fylgihnatta
um miðjan nóvember. Samkvæmt orðum sem hafa fallið í viðtölum verður unnið eftir þeirri meginreglu að afgreiða málin eins og þau eru lögð fram.
Koma jólin?
Þingmenn geta varla beðið eftir að losna við þingstörfin, komast á kosningaferðalag og halda svo jólin. Þeir mega þó ekki gleyma því að
þeirra hlutverki er ekki lokið því það er m.a. þeirra að passa upp á að jólapakkarnir innihaldi raunverulegar gjafir og en ekki kartöflur og
ýsubein. Undir þessum kringumstæðum vil ég segja við þingmenn: Við vitum að þið eruð í spreng en þetta er
ekki rétti tíminn til að segja „þetta reddast“.
Benedikt S. Benediktsson
Höfundur er framkvæmdastjóri SVÞ
– Samtaka verslunar og þjónustu
25/10/2024 | Bílgreinasambandið, Fréttir, Greinar, Í fjölmiðlum, Umhverfismál
Nýtt kílómetragjald þrengir að grænum skrefum fyrirtækja og heimila, þrátt fyrir yfirlýst loftslagsmarkmið stjórnvalda
Í nýju frumvarpi um kílómetragjald er stefnt að því að allir notendur vegakerfisins leggi til jafns í ríkissjóð eftir því sem þeir aka. Þótt markmið frumvarpsins sé að tryggja sanngirni, mun nýtt gjald sennilega auka kostnað grænni samgangna og í raun refsa þeim sem hafa þegar fjárfest í umhverfisvænum ökutækjum. Þeir sem áður treystu á fyrri hvata stjórnvalda til að skipta yfir í rafmagns- eða sparneytna bíla standa nú frammi fyrir verulega auknum álögum, á meðan kostnaður við rekstur eyðslufrekari ökutækja lækkar. Á sama tíma munu hækkanir einnig falla á ýmsar atvinnugreinar utan vegakerfisins, sem í ljósi aukins skattburðar gætu átt í erfiðleikum með að halda uppi sömu samkeppnisstöðu og lífskjörum.
Morgunblaðið birtir í dag grein frá Maríu Jónu Magnúsdóttur, framkvæmdastjóra Bílgreinasambandsins og Benedikt S. Benediktssyni, framkvæmdastjória SVÞ – Samtökum verslunar og þjónustu undir fyrirsögninni;
UM FARNA KÍLÓMETRA Í ÓHAMINGJUSÖMU HJÓNABANDI
Næsta skref í nýju tekjuöflunarkerfi fyrir ökutæki og eldsneyti var lagt fram á Alþingi þann 22. október af fjármála- og efnahagsráðherra, í formi lagafrumvarps um kílómetragjald vegna notkunar ökutækja. Eigendur raf- og tengiltvinnbíla þekkja fyrsta skrefið. Markmiðið, samkvæmt frumvarpshöfundi, er að allir sem nota vegakerfið greiði gjald í samræmi við notkunina, innan sama kerfis.
Vont er þeirra ranglæti, verra þeirra réttlæti
Þrátt fyrir ætlað sanngirnimarkmið frumvarpsins mun það hafa verulegar afleiðingar og margir munu finna fyrir ójafnri ábyrgð.
Á næsta ári munu:
1. Eigendur rafmagnsfólksbíla greiða um 12% hærra kílómetragjald en á þessu ári.
2. Eigendur smábíla sem eyða 5 lítrum af bensíni á hundraðið greiða 19,2% meira en á þessu ári.
3. Eigendur jeppa og annarra stærri fólksbíla sem eyða 15 lítrum á hundraðið greiða 7% minna en á þessu ári.
4. Eigendur eyðslufrekra vöruflutningabíla greiða 8,9% minna en á þessu ári.
5. Eigendur hreinorku vöruflutningabíla greiða 3,1% meira en á þessu ári.
Samkvæmt frumvarpshöfundi er markmiðið að tryggja að allir greiði sanngjarnt gjald fyrir notkun vegakerfisins. Sanngirni er honum augljóslega ofarlega í huga. Hins vegar sýna áhrifin, sem rakin hafa verið, að þeir sem hafa fjárfest í grænni tækni munu bera þyngri byrðar á meðan þeir sem nýta eyðslufrekari ökutæki hagnast.
„Við ætlum að setja loftslagsmál í forgang“
Í aðdraganda hjúskapar síðustu ríkisstjórnar var gerður kaupmáli sem frumvarpið vísar til. Samkvæmt skoðanakönnunum voru skilnaðarbörnin, þegnarnir, því fegnir að því sambandi lyki. Ekkert barnanna átti hins vegar von á að fá reikning fyrir búskiptunum.
Fyrirsögnin hér að ofan er tekin úr kaupmálanum en óhætt er að segja að efni hans endurspeglaði bjartsýni. „Markmiðið er að bæta lífskjör þeirra sem verst standa og styrkja samkeppnisstöðu fyrirtækja. Áfram verður unnið að því að breytingar á sköttum og gjöldum styðji við loftslagsmarkmið.“
Um síðustu áramót tóku gildi lagabreytingar sem urðu þess valdandi að dýrara varð að fjárfesta í fólksbifreið sem eyðir litlu eða engu. Á sama tíma var eignarhald bifreiðanna gert óhagstæðara með hækkun bifreiðagjalds og upptöku kílómetragjalds.
Lagafrumvarpinu sem nú liggur fyrir er ætlað að bæta ríkinu tekjumissi vegna ökutækja og það mun að óbreyttu raungerast. Í þeim efnum er markmiðið að tekjurnar nemi rúmum 102 milljörðum kr. árið 2029, sé tekið mið af spá Hagstofunnar um þróun landsframleiðslu. Til samanburðar námu tekjurnar tæpum 52 milljörðum kr. árið 2023.
Markviss skot geiga síður
Með frumvarpinu er ætlunin að afnema aðra eldsneytisskatta en kolefnisgjald sem hækka mun 100%. Kílómetragjaldið á að stoppa í gatið sem myndast og rúmlega það. Hugmyndafræðin er sú að allir ökutækjaeigendur sem teljast hafa sambærileg áhrif á vegakerfið greiði það sama.
„Við ætlum að setja loftslagsmál í forgang“ sagði ríkisstjórnin.
Afleiðingar frumvarpsins, sem voru raktar hér að framan, bera þess ekki vott að loftslagsmál séu lengur í forgangi. Ekki er lengur gert ráð fyrir að skattar á eigendur ökutækja styðji loftslagsmarkmið. Sjálfur vegurinn er mönnum hins vegar ofarlega í huga og það á að sækja meira skattfé í hann og ríkissjóð en hliðaráhrifin eru orðin aukaatriði.
Hliðaráhrifin
Eins og glögglega má sjá af framangreindri upptalningu afleiðinga mun frumvarpið veikja hvata til orkuskipta í samgöngum. Núverandi kerfi hefur veitt talsverða hvata til einstaklinga og fyrirtækja sem hafa aðlagað sig bæði með kaupum á eyðslugrönnum og umhverfisvænum ökutækjum sem eyða engu eða litlu jarðefnaeldsneyti. Með þessu frumvarpi, ásamt skattabreytingum síðasta árs, birtist sú mynd að þessi aðlögun hafi frekar verið eins og að taka lán og nú sé gjalddagi kominn. Þeir sem hafa fylgt hvötum standa nú frammi fyrir auknum kostnaði, sem birtist hver á fætur öðrum.
Umfjöllun frumvarpsins beinist nær öll að umferð á vegum. Þess er hins vegar lítt getið að áhrifin verði víðtækari en svo að aðeins notkun veganna sé undir. Tvöföldun kolefnisgjalds lendir á þeim sem ekki nota vegi í sinni starfsemi. Eigendur báta, þeir sem hita hús með olíu, iðnaðurinn, landbúnaðurinn, sjávarútvegurinn og eigendur staðbundinna tækja á borð við ljósavélar taka á sig verulega hækkun álaga. Ef fram fer sem horfir munu álögur á strandsiglingar hækka á sama tíma og Vegagerðin er að skoða hvernig þá megi efla eftir skipun hins nýfráskilda innviðaráðherra.
Úr hvaða veski?
En hver mun greiða? Atvinnulífið, svaraði nýskilinn innviðaráðherrann. Flestir gera sér grein fyrir að svarið er ekki einlægt því skattar rata í verðlag vöru og þjónustu. Þeir sem hafa fjárfest í eyðslugrannri bifreið munu greiða og þá helst þeir sem fara þurfa langan veg. Sama á við um þá sem þurfa á vöruflutningi að halda og þá helst þeir sem reka starfsemi langt frá vörudreifingarmiðstöðvum og verslunum. Eigendur smábáta munu greiða, bændur munu greiða, iðnaðurinn mun greiða o.fl.
Á endanum munu tveir hópar fá reikninginn, annars vegar neytendur, líklega fá neytendur á landsbyggðinni hann hæstan, og hins vegar viðskiptavinir útflutningsfyrirtækjanna. Verði staða útflutningsfyrirtækjanna slík að þau geti ekki hækkað verð munu þau sitja uppi með reikninginn með mögulegum áhrifum í heimabyggð.
Tækifæri til úrbóta
SVÞ – Samtök verslunar og þjónustu og Bílgreinasambandið hafa þegar komið á framfæri ábendingum um hvernig megi milda áhrif frumvarpsins og munu halda því áfram. Fróðlegt verður að sjá hvort þingmenn í kosningaham muni gefa sér tíma til að leggja við hlustir.
Höfundar: María Jóna Magnúsdóttir framkvæmdastjóri Bílgreinasambandsins og Benedikt S. Benediktsson framkvæmdastjóri SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu
_____________________