Formaðurinn skrifar um ánægjulegan viðsnúning verslunarinnar

Formaðurinn skrifar um ánægjulegan viðsnúning verslunarinnar

Eftirfarandi grein eftir Jón Ólaf Halldórsson, formann SVÞ, birtist í Morgunblaðinu í dag, 22. júní:

Ánægjulegur viðsnúningur

Verslunin fór ekki varhluta af afleiðingum samkomubannsins sem sett var þegar útbreiðsla kórónuveirunnar stóð sem hæst. Verulegur samdráttur mældist í einkaneyslu bæði í mars og apríl miðað við sömu mánuði árið áður. Þetta kom engan veginn á óvart enda lá þjóðfélagið meira og minna í dvala á þessum tíma.

Það er þess vegna ánægjulegt að sjá hversu viðsnúningurinn er afgerandi nú þegar slakað hefur verið á samkomubanni og lífið að verulegu leyti að sækja í eðlilegt horf. Velta innlendra greiðslukorta í maí sýnir svo ekki verður um villst að áfram er sterkur kaupmáttur meðal þorra almennings.Við Íslendingar höfum áður sýnt hvað í okkur býr þegar á móti blæs og bendir allt til að við ætlum einnig að sýna það núna. Við erum ólm í að mála húsin okkar og smíða palla við sumarbústaðina og svo þykir okkur áfram gott að gera vel við okkur í mat og drykk. Allt þetta lýsir íslenskri þjóðarsál vel og sýnir að sennilega erum við einfaldlega sterkust þegar mest á reynir.

Það er ljóst að vilji landans til að ferðast erlendis verður takmarkaður á þessu ári. Önnur hagkerfi munu því ekki njóta einkaneyslu okkar íslendinga í sama mæli og áður. Þetta hjálpar vissulega til. Það breytir hins vegar ekki þeirri staðreynd að sú aukning sem greinilega er að verða í einkaneyslunni, skiptir miklu við endurreisn efnahagslífsins. Öflug íslensk verslun mun gegna þar lykilhlutverki.

 

 

Verslunin er að taka við sér

Verslunin er að taka við sér

Verslunin er að taka við sér. Þetta kemur klárlega fram í máli Andrésar Magnússonar, framkvæmdastjóra SVÞ í Bítinu á Bylgjunni mánudaginn 25. maí. Einnig ræddi mbl.is við Andrés sem hluta af umfjöllun um íslenska verslun sem má sjá hér á vef mbl.is

Íslendingar eru ekki að fara erlendis, en skv. nýlegri skýrslu Rannsóknarseturs verslunarinnar eyddu Íslendingar tugum milljarða erlendis síðasta sumar. Vísbendingar eru einnig um að við séum að versla minna af erlendum netsíðum, enda hefur gengið orðið mun óhagstæðara sl. vikur.

Hér má hlusta á viðtalið við Andrés á Bylgjunni:

Verslun að færast í fyrra horf

Verslun að færast í fyrra horf

Í Morgunblaðinu þann 6. maí er rætt við Andrés Magnússon, framkvæmdastjóra SVÞ og Sigurjón Örn Þórsson, framkvæmdastjóra Kringlunnar þar sem þeir segja verslunina vera að taka við sér aftur og að þorri íslenskra verslana muni standa af sér kórónuveirufaraldurinn.

Andrés segir í umfjölluninni, „Ef einkaneyslan heldur áfram að aukast eru allar líkur á að verslunin standi þetta af sér.“ Hann segir matvöru- og lyfjaverslun halda sínu og að byggingavöruverslunin hafi gengið mjög vel eftir páska. Raftækjaverslunum hafi gengið þokkalega en margar brugðust við með því að auka netverslun og húsgagnaverslunum hefði líka gengið þokkalega. Þá sé verslun í Kringlunni og Smáralind að nálgast eðlilegt horf en hinsvegar skeri verslun í miðborginni sig úr og útilokað sé að hún komist í eðlilegt form á meðan þetta ástand varir enda sé tekjufallið einna mest hjá verslunum í miðborginni þar sem ferðamenn hafa verið stór hluti viðskiptavina.

Andrés segir einnig netverslun við erlendar netverslanir ekki eins fýsilegar og áður, íslensk netverslun hafi aukið mikið og nokkuð stór hópur fólks sem keypti föt, raftæki og aðra smávöru erlendis nú vera farinn að versla innanlands.

Umfjöllunina í heild sinni má sjá í á bls. 29 í Morgunblaðinu þann 6. maí

Höldum áfram – samstaðan mun fleyta okkur langt

Höldum áfram – samstaðan mun fleyta okkur langt

Jón Ólafur Halldórsson, formaður SVÞ, skrifar í Morgunblaðið laugardaginn 4. apríl:

Eins og margoft hefur verið sagt á undanförnum vikum er það sameiginlegt viðfangsefni okkar allra að komast í gegn um þann skafl sem við blasir. Og þó að sá vetur sem brátt kveður hafi flutt til okkar fleiri óveðurslægðir en tölu verður á komið, þá var glíman við snjóskafla vetrarins barnaleikur í samanburði við þær appelsínugulu heilsufars- og efnahagslegu viðvaranir sem við nú horfumst í augu við.

Við Íslendingar höfum áður þurft að glíma við erfiðleika og oftast leyst þá með prýði. Við ætlum að gera það einnig núna, enda má segja að við séum hokin af reynslu í þeim efnum. Langflest berum við fullt traust til þess fólks sem skipar framvarðarsveitina og vísar okkur veginn, enda nálgast þau verkefni sitt af yfirvegun og hæfilegri festu. Við höfum einnig fulla ástæðu til að hafa trú á sjálfum okkur og framtíð okkar, enda höfum við aldrei verið eins vel í stakk búin til að takast á við áföll og nú.

Við þessar aðstæður skiptir miklu að allir sem eiga þess kost haldi áfram sínu daglega lífi. Þar með talið að eiga þau viðskipti við verslanir og önnur þjónustufyrirtæki sem hver og einn telur nauðsynleg. Með því móti leggjum við okkar að mörkum til að draga úr neikvæðum afleiðingum þess faraldurs sem á okkur dynur. Með því móti leggjum við einnig okkar að mörkum til að gera þeim fjölmörgu fyrirtækjum sem nú glíma við mikinn vanda, auðveldara að komast í gegn um erfiðleikana. Þar er sannarlega til mikils að vinna.

Sóttkví eða aðrar ástæður sem gera fólki ómögulegt að fara út úr húsi er þarna engin hindrun. Netverslun og heimsending er mál málanna við þessar aðstæður, enda er fjöldinn allur af verslunum og öðrum þjónustuaðilum farin að bjóða upp á slíkt. Ört stækkandi hópur neytenda nýtir sér þá þjónustu og leggur þar með sitt lóð á vogaskálina við að halda hagkerfinu gangandi.

Sýnum í verki samtakamátt okkar og skiptum við íslensk fyrirtæki. Með því hjálpum við fyrirtækjunum að komast yfir erfiðasta hjallann og leggja þar með grunn að kröftugri viðspyrnu atvinnulífsins þegar aftur birtir til.