10/08/2020 | Fréttir, Í fjölmiðlum
Í umfjöllun Vísis þann 4. ágúst um nýja skilmála Borgunar um veltutryggingar segir Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri SVÞ að ekki sé nokkur leið að verða við þeim. „Eins og við skiljum þetta ná þessir skilmálar til allra atvinnugreina, ekki bara ferðaþjónustunnar. Það er alveg ljóst að okkar mati að þetta eru skilmálar sem er ekki nokkur leið að samþykkja. Hvorki fyrir okkur né aðra.“
Lesa má umfjöllunina í heild sinni hér.
Í kjölfarið bárust þær upplýsingar frá Borgun að veltutryggingin eigi eingöngu við viðskiptavini Borgunar sem fengu tölvupóst um málið. Hér má lesa framhaldsumfjöllun Vísis um málið þann 5. ágúst.
10/08/2020 | COVID19, Fréttir, Í fjölmiðlum
Í tíufréttum á RÚV 29. júlí sl. var fjallað um að eitthvað hafi borið á vöruskorti í verslunum vegna kórónufaraldursins. Í umfjölluninni er m.a. rætt við Andrés Magnússon, framkvæmdastjóra SVÞ sem segir að það geti komið upp tilvik þar sem ekki sér eðlilegt framboð á vörum en þó sé ekki hægt að tala um vöruskort sem slíkan heldur sé frekar um að ræða gífurlega eftirspurn eftir vörunni.
Smelltu hér til að horfa á fréttina sem hefst á 04:34
10/08/2020 | Fréttir, Í fjölmiðlum, Stafræna umbreytingin, Verslun
Í ViðskiptaMogganum 29. júlí sl. birtist eftirfarandi viðtal við markaðs- og kynningarstjóra SVÞ, Þórönnu K. Jónsdóttur:
Þóranna K. Jónsdóttir, markaðs- og kynningarstjóri Samtaka verslunar og þjónustu, segir í samtali við ViðskiptaMoggann að erfitt sé að spá með langtímaáhrif hér á landi af uppgangi netverslunar í kórónuveirufaraldrinum, en vegna samkomubanns jukust viðskipti við netverslanir umtalsvert á tímabilinu. „Ég held að breytingin verði meiri víða erlendis þar sem samkomubannið stóð mun lengur,“ segir Þóranna. „Samkomubannið varði styttra hér og því höfðum við ekki eins langan tíma til að festa þetta í sessi.“
Þóranna segist ekki hafa áhyggjur af stóru aðilunum á markaðnum, sem voru margir komnir vel af stað með sínar netverslanir fyrir faraldurinn. Það séu þeir litlu og meðalstóru, sem hún hafi áhyggjur af. „Því miður hafa kannanir hér sýnt að notendaupplifun af íslenskum netverslunum er ekki nógu góð, samanborið við erlendar vefverslanir. Það sem maður hefur áhyggjur af er að þeir sem ruku til og settu upp netverslanir þegar faraldurinn fór af stað, og sáu þar mikil tækifæri, falli aftur í sama farið, og haldi ekki dampi. Það mun þá enn frekar skemma fyrir notendaupplifuninni. Fólk er fljótt að dæma íslenskar netverslanir heilt yfir ef það upplifir ekki jafn góða þjónustu og það fær í erlendum netverslunum. Við erum mjög uggandi yfir því að þróunin verði sífellt meira í átt að erlendri netverslun, á kostnað innlendrar. Það hefur svo áhrif út í allt hagkerfið, á störf og verðlag hér á landi.“
Spurð að því hvað íslenskar netverslanir geti gert til að skapa sér sérstöðu í samkeppninni við erlendar netverslanir, segir Þóranna ákveðna vernd felast til dæmis í nálægðinni hér á landi. Hún segir að tölur frá Þýskalandi og Bretlandi sýni að mikið sé um að fólk skili vörum sem það kaupir í vefverslunum. „Þetta eru oft gríðarlega háar tölur. Það er ekki óalgengt að fólk kaupi kannski fimmtán hluti á netinu í einu, og skili svo tólf til baka, enda er þröskuldurinn mjög lágur, með frírri endursendingu til dæmis.“
Hún segir ákveðna vernd felast í því hérlendis að þó svo að Íslendingar panti mikið erlendis frá þá hiki þeir við pantanir, því vöruskil eru ekki eins auðveld.
Omni Channel nauðsynleg
Annað sem Þóranna nefnir er samþætting notendaupplifunarinnar (e. Omni Channel). „Með því að samþætta upplifun viðskiptavina, hvort sem er í netverslun, á samfélagsmiðlum, í hefðbundinni verslun og á öðrum vígstöðvum samtímis, getum við boðið betri þjónustu, með meiri nálægð við viðskiptavininn.“
Þóranna segir að íslensk netverslun lifi ekki af nema tileinka sér Omni Channel-hugmyndafræðina. Með henni skapist tækifæri til að byggja upp samband sem orðið getur miklu sterkara en netverslanir eins og Amazon og ASOS hafi tækifæri til að byggja upp. „Þessir aðilar verða alltaf bara á netinu úti í heimi.“
Sem dæmi um aðila sem hefur unnið að uppbyggingu Omni Channel-aðferðafræði hér á landi er verslanamiðstöðin Kringlan, en í október í fyrra hleypti hún af stokkunum nýjum vef þar sem neytendur geta flett upp yfir 100 þúsund vörum frá um 70 verslunum. „Margir íslenskir neytendur gera sér kannski ekki enn grein fyrir hvað er þarna í boði. En þarna má samt sjá dæmi um hvað hægt er að gera á Íslandi til að ná forskoti á erlendu aðilana.“
Þóranna segir að vissulega geti verið erfitt að keppa við erlend risafyrirtæki á sviði netverslunar, sem eru með nær ótakmörkuð fjárráð og vinnuafl. Því ríði á að byrja smátt, ódýrt og einfalt, og byggja svo stöðugt ofan á. „Hér áður fyrr settu menn kannski upp netverslun, og sinntu henni svo ekkert á löngum tímabilum. Í dag verður einfaldlega að hugsa þetta sem stöðuga vegferð, og að vera alltaf að bæta sig. Hugarfarið skiptir öllu máli.“
Þóranna segir það ekki þurfa að vera svo að netverslun sé eingöngu kostnaður og nefnir netverslun Nettó sem dæmi, en þar á bæ hafi menn frá upphafi nálgast verkefnið með því hugarfari að láta verslunina vera réttu megin við núllið. Það hafi tekist. „Nettó fór í samstarf við Aha.is varðandi netverslunina sjálfa og dreifinguna, en Nettó sinnir matvöruhlutanum.“
Spurð um það sem snýr að dreifingunni, segir Þóranna að það sé vandamál alls staðar. Hins vegar sé mikil framþróun í gangi á því sviði, bæði hér á landi og erlendis. Nefnir hún sem dæmi öfluga nýsköpun bæði hjá Aha.is og Íslandspósti. Pósturinn sé sem dæmi að fjölga boxum sem hægt verður að sækja vörur í hvenær sem er sólarhringsins, og Aha.is sé með öfluga þróun á sendingum með drónum.
Hæfnisetur í undirbúningi
Spurð að því hvort SVÞ ætli sér að aðstoða smærri og millistóra aðila á markaðnum við að fóta sig á sviði netverslunar, segir Þóranna að samtökin hafi undanfarin misseri haft stafræna þróun í forgangi, og unnið sé að ýmsum aðgerðum í þeim málum, m.a. í samstarfi við Háskólann í Reykjavík, VR og íslensk stjórnvöld. Von sé á frekari fréttum af þeirri vinnu með haustinu.
„Okkar nágrannalönd eru öll komin mun framar en við í þessum efnum, og við getum lært af þeim. Við erum núna til dæmis að skoða hvernig hægt er að fjármagna stafrænt hæfnisetur í samstarfi við þessa aðila. Hluti af því sem þar verður mun gagnast meðal annars netverslunum, stórum og smáum en setrið mun geta eflt fyrirtæki á flestum sviðum. Þetta snýst líka um samkeppnishæfni þjóðarinnar til framtíðar. Ef við sofnum á verðinum, endum við á að vera föst í torfkofunum.“
11/07/2020 | Fréttir, Í fjölmiðlum, Stafræna umbreytingin
Markaðsstjórinn okkar, Þóranna K. Jónsdóttir, var í viðtali í hlaðvarpinu hjá Óla Jóns nýverið þar sem hún talar m.a. um starfið hjá SVÞ, stafrænu málin, hugarfar og fleira áhugavert.
Hlustaðu á hlaðvarpið hér á vefnum jons.is eða í spilaranum hér fyrir neðan:
22/06/2020 | Fréttir, Í fjölmiðlum, Verslun
Eftirfarandi grein eftir Jón Ólaf Halldórsson, formann SVÞ, birtist í Morgunblaðinu í dag, 22. júní:
Ánægjulegur viðsnúningur
Verslunin fór ekki varhluta af afleiðingum samkomubannsins sem sett var þegar útbreiðsla kórónuveirunnar stóð sem hæst. Verulegur samdráttur mældist í einkaneyslu bæði í mars og apríl miðað við sömu mánuði árið áður. Þetta kom engan veginn á óvart enda lá þjóðfélagið meira og minna í dvala á þessum tíma.
Það er þess vegna ánægjulegt að sjá hversu viðsnúningurinn er afgerandi nú þegar slakað hefur verið á samkomubanni og lífið að verulegu leyti að sækja í eðlilegt horf. Velta innlendra greiðslukorta í maí sýnir svo ekki verður um villst að áfram er sterkur kaupmáttur meðal þorra almennings.Við Íslendingar höfum áður sýnt hvað í okkur býr þegar á móti blæs og bendir allt til að við ætlum einnig að sýna það núna. Við erum ólm í að mála húsin okkar og smíða palla við sumarbústaðina og svo þykir okkur áfram gott að gera vel við okkur í mat og drykk. Allt þetta lýsir íslenskri þjóðarsál vel og sýnir að sennilega erum við einfaldlega sterkust þegar mest á reynir.
Það er ljóst að vilji landans til að ferðast erlendis verður takmarkaður á þessu ári. Önnur hagkerfi munu því ekki njóta einkaneyslu okkar íslendinga í sama mæli og áður. Þetta hjálpar vissulega til. Það breytir hins vegar ekki þeirri staðreynd að sú aukning sem greinilega er að verða í einkaneyslunni, skiptir miklu við endurreisn efnahagslífsins. Öflug íslensk verslun mun gegna þar lykilhlutverki.
25/05/2020 | Fréttir, Í fjölmiðlum, Samtök sjálfstæðra skóla
Sara Dögg Svanhildardóttir, formaður Samtaka sjálfstætt starfandi skóla ræddi við strákana í Bítinu á Bylgjunni mánudaginn 25. maí um málefni Arnarskóla í Kópavogi sem er sérhæfður skóli fyrir fötluð börn. Reykjavíkurborg er ekki tilbúin að greiða fyrir börn úr höfuðborginni í skólann.
Þú getur hlustað á viðtalið hér: