02/09/2019 | Fréttir, Greinar, Í fjölmiðlum, Stjórnvöld, Umhverfismál
Eftirfarandi grein eftir Andrés Magnússon, framkvæmdastjóra SVÞ, birtist í Fréttablaðinu 29. ágúst sl.:
Á undanförnum mánuðum hefur verulegt magn lambakjöts verið flutt út, m.a. til fjarlægra landa á borð við Japan og Víetnam. Þessi útflutningur varð það mikill að skortur myndaðist á innanlandsmarkaði, sérstaklega á lambahryggjum. Afurðastöðvar í landbúnaði sköpuðu skortinn vísvitandi í þeim tilgangi að geta hækkað verð á lambakjöti til íslenskra neytenda. Plottið gekk upp, verð frá afurðastöðvum hækkaði um tugi prósenta og íslenskir neytendur voru, eins og fyrri daginn, þeir sem borguðu brúsann. Forsvarsmenn afurðastöðvanna gerðu ekki minnstu tilraun til að fela þessa stöðu og greindu frá yfirvofandi skorti á fundi með sauðfjárbændum síðastliðið vor, þegar fjórir mánuðir voru þar til sláturtíð hæfist.
Þegar innlend framleiðsla getur ekki annað eftirspurn, ber lögum samkvæmt að heimila innflutning á viðkomandi vöru. Samtök verslunar og þjónustu sendu því erindi til ráðgjafarnefndar um inn- og útflutning landbúnaðarvara í júní sl., þar sem farið var fram á að heimild yrði veitt til tollfrjáls innflutnings á lambahryggjum. Eftir að hafa sinnt lögboðinni rannsóknarskyldu sinni, ákvað nefndin að leggja til við ráðherra að innflutningur, með lækkuðum tollum, yrði heimilaður í einn mánuð. Ekkert benti til annars en að heimildin yrði veitt, enda lögboðnar forsendur til staðar. Þá gripu pólitískir hagsmunaaðilar í taumana, landbúnaðarráðherra lét undan og heimildin var ekki veitt. Íslenskir neytendur sátu eftir með sárt ennið, lambahryggir voru fluttir inn á fullum tollum og neytendur nutu þ.a.l. ekki þess ábata sem að var stefnt. SVÞ hafa þegar sent viðeigandi stofnunum erindi vegna þeirra viðskiptahátta sem afurðastöðvarnar sýndu af sér í þessu máli.
Á Íslandi er nú framleitt um 30% meira af lambakjöti en þörf er fyrir á innanlandsmarkaði, eða um 3 þúsund tonn. Það magn er allt flutt út, á verði sem er langt undir því sem innlendri verslun stendur til boða. Kolefnisfótspor af þeim útflutningi hefur hins vegar ekki verið kannað. SVÞ munu því á næstunni senda erindi til umhverfisráðherra þar sem óskað verður eftir að kolefnisfótspor útflutnings á lambakjöti verði kannað sérstaklega.
Það er nefnilega full ástæða til að allur herkostnaður þess útflutnings sé uppi á borðinu. Skattgreiðendur eiga heimtingu á því.
27/08/2019 | Greinar, Í fjölmiðlum
Jón Ólafur Halldórsson, formaður SVÞ, skrifar í Fréttablaðið þann 27. ágúst:
Flestir eru á þeirri skoðun, að til þess að höfuðborg standi undir nafni, þurfi að vera þar öflugt atvinnulíf. Borg án fyrirtækja sé fábrotinn staður. Blómstrandi fyrirtæki leiði af sér blómstrandi mannlíf. Fyrirtækin, af öllum stærðum og gerðum, hafa augljóslega miklu hlutverki að gegna við þá sem þar búa og þá sem heimsækja höfuðborgina. Þau geta kallast andlit borgarinnar út á við. Þetta er a.m.k. sú stefna sem höfuðborgir nágrannalanda okkar leitast við að halda í heiðri. Öflug fyrirtæki, ekki síst í miðborg, taka vel á móti gestum og gangandi og veita fólki þá tilfinningu að þangað sé gott að koma.
Það er ekki alveg víst að þessi lýsing passi við miðborg Reykjavíkur nú um stundir. Ítrekað berast fréttir af fyrirtækjum í rekstrarvanda, það miklum að þau neyðast til að hætta starfsemi. Ítrekað berast kvartanir frá fyrirtækjum um samráðsleysi, ekki síst við verklegar framkvæmdir. Og það sem verst er, þá er þessi lýsing ekki ný af nálinni, þetta er ástand sem varað hefur í alltof langan tíma. Tilfinning margra þeirra sem stunda atvinnurekstur í miðborginni er, að þeim sem fara með stjórnartaumana í höfuðborg Íslands, sé fyrirmunað að eiga eðlileg samskipti. Skilningsleysi á atvinnurekstri og þörfum hans, er mikið meðal þeirra sem með stjórn borgarinnar fara, á því er ekki nokkur vafi.
En það er ekki aðeins á samskipasviðinu sem pottur er brotinn. Reykjavíkurborg, sem stærsta sveitarfélag landsins, er sér á báti þegar kemur að innheimtu fasteignaskatts. Þar sem meirihluti alls atvinnuhúsnæðis á landinu er í höfuðborginni, rennur meirihluti alls fasteignaskatts af atvinnuhúsnæði til borgarsjóðs Reykjavíkur. Borgin heldur áfram hæstu álagningarprósentu fasteignaskatts 2019, öfugt við mörg nágrannasveitarfélög. Eins og öllum má ljóst vera vegur þessi mikla skattheimta sífellt þyngra í rekstri fyrirtækja og með sama áframhaldi munu þau fyrirtæki sem þess eiga kost, leita annað með atvinnurekstur sinn.
Stjórnendur borgarinnar verða að gera sér grein fyrir þeirri miklu ábyrgð sem á þeim hvílir. Flókin og úrelt stjórnsýsla hefur lamandi áhrif á allt atvinnulíf í borginni. Embættismannakerfi, sem lifir í eigin heimi, gerir ógagn frekar en gagn. Skattheimta, sem er úr öllu hófi, letur fólk og fyrirtæki til athafna. Stjórnendur borgarinnar hafa öll ráð í hendi sér til að snúa þessari öfugþróun við.
29/06/2019 | Greinar, Í fjölmiðlum
Eftirfarandi grein eftir Andrés Magnússon, framkvæmdastjóra SVÞ, birtist í Morgunblaðinu 28. júní sl.
Enn á ný hafa hugmyndir um upptöku sykurskatts skotið upp kollinum. Þar með gengur aftur gamall draugur sem flestir töldu að hefði verið kveðinn niður fyrir fullt og allt. En lengi er von á einum enda er hið pólitíska umhverfi frjór jarðvegur fyrir allar hugmyndir um öflun meiri ríkistekna í formi skattheimtu.
Og sagan endurtekur sig eins og sagt er því þetta form skattheimtu er ekki nýtt af nálinni. Í stjórnartíð ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur, 2009–2013, var skattur í formi vörugjalds lagður á sykur og sykraðar vörur. Árangur þeirrar skattheimtu reyndist hins vegar dapur. Skattheimtan var afar flókin í framkvæmd, hún var dýr fyrir fyrirtæki og hið opinbera og skilaði hlutfallslega litlum tekjum í ríkissjóð. Samkvæmt könnun Rannsóknarseturs verslunarinnar hafði skatturinn lítil sem engin áhrif á neysluhegðun fólks. Niðurstaðan var sú að næsta ríkisstjórn sem við tók beitti sér fyrir afnámi sykurskattsins, m.a. á grundvelli tillagna Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, og á það féllst Alþingi.
Mikið vatn hefur runnið til sjávar frá árum sykurskattsins. Til þess ber að líta að neysluhegðun fólks hefur tekið stórstígum breytingum á undanförnum árum. Miðlægar upplýsingar um neyslu og innihaldsefni matvæla eru orðnar gamlar og gefa alls ekki rétta mynd neyslumynstri dagsins í dag. Ef litið er til nágrannaríkja okkar gefur t.d. nýleg könnun sem gerð var á neysluhegðun Svía þá mynd að ótrúlegar breytingar hafi orðið á hegðuninni sl. áratug.
Vöruframboð innlendrar verslunar ræðst óhjákvæmilega af eftirspurn. Hver hillumetri er verslunum afar verðmætur og staðsetning vöru skiptir máli. Í því ljósi er matvöruverslunin stöðugt vakandi fyrir nýbreytni og breytingum á áherslum neytenda. Síðustu ár hefur þróun í matvöruverslun tekið æ ríkara mið af breyttum áherslum og hegðun neytenda. Ört stækkandi hluti neytenda leggur áherslu á að neyta hollrar fæðu og sá hópur sneiðir kerfisbundið hjá sykruðum og fituríkum matvælum. Viðbrögð verslunarinnar endurspeglast í þeim stórkostlegu breytingum sem hafa orðið í vöruframsetningu þar sem nú er lögð mikil áhersla á að hafa hollustuvörur eins og ávexti, grænmeti o.fl. sem mest áberandi. Að sama skapi hefur framsetning sælgætis og sykraðra drykkja færst á síður áberandi staði. Ástæðan er í meginatriðum sú að neytendur vita hvað þeir vilja, hafa skýra hugmynd um afleiðingar neyslu matvæla og velja því hollustu.
Stjórnmálamenn hafa lengi haft ríka tilhneigingu til að hafa vit fyrir fólki. Öflun ríkistekna með aðferðum sem hafa jákvæðan blæ er vinsæl um þessar mundir. Í þetta skiptið á skatturinn að bæta hressa og kæta og að jafnvel gefa hraustlegt og gott útlit. En ríkiskassinn má hins vegar fitna á kostnað neytenda!
15/04/2019 | Fréttir, Í fjölmiðlum
Jón Ólafur Halldórsson, formaður SVÞ, ræddi fasteignaskattana við þá Gulla og Heimi Í bítinu á Bylgjunni á mánudegi í Dymbilviku. Útreikningur gjaldanna er flókinn og ógagnsær og þeir eru íþyngjandi fyrir fyrirtæki og einstaklinga.
>> Smelltu hér til að fara á vef Bylgjunnar til að hlusta á viðtalið.
11/04/2019 | Fréttir, Í fjölmiðlum
Jón Ólafur Halldórsson segir fasteignagjöld, eins og þau eru nú, fráleit og ekki hægt að bjóða atvinnulífinu upp á þau. Fyrirkomulagið sé galið. Fyrirkomulagið sé með allt öðrum hætti á hinum Norðurlöndunum, þar sem menn séu með varúðarfærslur sem ekki séu til staðar hér. Auk þess séu boðaðar lækkanir borgarinnar allt of langt undan.
Jón Ólafur ræðir einnig breytingar í verslun, bæði í miðborg Reykjavíkur en einnig almennt.
Hlusta má á viðtalið við Jón Ólaf hér (hefst á ca. 9:50).
21/03/2019 | Fréttir, Í fjölmiðlum
Nýr formaður SVÞ, Jón Ólafur Halldórsson, forstjóri Olís, var í viðtali hjá Jóni G. á Hringbraut í vikunni. Í viðtalinu ræða Jónarnir hin ýmsu mál, svo sem netverslun og framtíð íslenskrar verslunar, áhrif fjórðu iðnbyltingarinnar og fleira.
Viðtalið má sjá hér á vef Hringbrautar.