17/12/2018 | Fréttir, Greinar, Í fjölmiðlum, Verslun
Í dag, 17. desember, birtist eftirfarandi grein eftir Andrés Magnússon, framkvæmdastjóra SVÞ og Margréti Sanders stjórnarformann, í Morgunblaðinu:
Traust og trúnaður er hin almenna regla í samskiptum vinnuveitenda og starfsfólks. Það er sem betur fer alger undantekning þegar samskipti þessara aðila eru á hinn veginn. Enda er það ein meginforsendan fyrir farsælum og árangursríkum atvinnurekstri að samskipti vinnuveitandans og starfsfólks hans séu byggð á trúnaði og trausti, þ.e. gagnkvæmri virðingu. Fullyrða má að atvinnurekendur upp til hópa, hvort sem þeir eru starfandi í verslun, þjónustu eða öðrum atvinnugreinum, leggi sig fram um að hafa þessi samskipti á sem bestan veg.
Þær sjónvarpsauglýsingar frá VR sem birtast þessa dagana eru að mati SVÞ fjarri öllum raunveruleika um það hvernig vinnuveitendur umgangast starfsfólk sitt. Það handrit að mannlegum harmleik sem sett er á svið á kómískan en um leið gildishlaðinn hátt er verulega vandmeðfarið og ekki til þess fallið að gera gaman að. Við þekkjum a.m.k. ekki þann vinnuveitanda sem vill misbjóða starfsfólki sínu á þann veg sem þar er lýst. Þó að mörgum þyki þessar auglýsingar með þeim hætti að þær nái að kitla hláturtaugar hjá fólki er undirtónn þeirra og þau skilaboð sem þær senda mjög alvarleg árás á atvinnurekendur almennt. Ef kaupmaðurinn á horninu, sem er aðalpersónan í auglýsingunum, er gott dæmi um „skúrkinn“ á íslenskum vinnumarkaði þá er sú lýsing okkur mjög framandi. Í það minnsta væri áhugavert að þeir aðilar sem standa að slíkri aðför standi keikir með staðreyndir að vopni í stað almennra alhæfinga um atvinnurekendur upp til hópa.
Hafa skal það sem sannara reynist en SVÞ hafa á undanförnum árum lagt sig fram við að eiga gott samstarf við VR á sem flestum sviðum. Þetta samstarf á ekki hvað síst að stuðla að bættri starfs- og endurmenntun félagsmanna VR, enda hafa báðir aðilar litið svo á að með því verði hinn almenni starfsmaður búinn undir þær miklu breytingar sem fyrirsjáanlegar eru í verslun og þjónustu á allra næstu árum. Breytt starfsumhverfi verslunar- og þjónustufyrirtækja kallar óhjákvæmilega á breyttar kröfur um hæfni starfsfólks.
Við lítum svo á að kröftum SVÞ og VR verði mun betur varið í að vinna í sameiningu við að takast á við þær miklu áskoranir sem eru framundan í stað þess að munnhöggvast um veruleika sem er flestum mjög fjarlægur. SVÞ mun a.m.k. leggja sig fram um að hafa samskiptin á þeim nótum og áfram hvetja sitt fólk til að hlúa vel að starfsfólki sínu og byggja upp gagnkvæmt traust vinnuveitanda og starfsfólks. Það er von SVÞ að VR sjái hag síns fólks að sama skapi betur borgið með því að tryggja slíkan framgang síns fólks í stað þess að mála upp þá hræðilegu mynd af framandi vinnusambandi sem auglýsingar undanfarið hafa teiknað upp.
04/12/2018 | Fréttir, Greinar, Í fjölmiðlum
Í grein á mbl.is 3. desember sl. leggur Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri SVÞ, til að Íslandspóstur hækki umsýslugjald sitt, til að mæta kostnaði við sendingar frá Kína. Umsýslugjald Íslandspósts er mun lægra en á hinum Norðurlöndunum. Sjá má greinina á mbl.is hér.
Mynd mbl.is/Ómar
29/11/2018 | Fréttir, Í fjölmiðlum, Verslun
Mikill vöxtur hefur verið í netverslun síðustu mánuði en stjórnendur netverslana segja metvöxt hafa verið yfir afsláttardaga síðustu vikna sem sífellt fleiri íslensk fyrirtæki taka þátt í. Vöxturinn hefur verið allt að 200% í netsölu á dagvöru, en enn erum við langt á eftir nágrannaríkjum.
Viðtal við Andrés Magnússon framkvæmdarstjóra Samtaka verslunar og þjónustu birtist í Viðskiptablaðinu 29. nóvember 2018. Sjá má brot úr því á vef vb.is hér.
29/11/2018 | Fréttir, Í fjölmiðlum
Birt í Fréttablaðinu 29. nóvember 2018
Stefna ríkinu vegna kjötsins
„Stjórnvöld eru ekki að sinna þeirri skyldu sinni að breyta reglunum eins og leiðir af dómi Hæstaréttar að skuli gera. Þetta hefur þá bara þessar afleiðingar að það hefur skapast skaðabótaskylda gagnvart kjötinnflytjendum þangað til þetta er lagað,“ segir Arnar Þór Stefánsson hæstaréttarlögmaður, sem hefur fyrir hönd Haga stefnt íslenska ríkinu vegna höfnunar á innflutningi á fersku kjöti. „Við gáfum stjórnvöldum færi á að greiða bætur strax. Þetta var skammur frestur eða ein vika en það kom svar að Ríkislögmaður ætlaði að leita umsagnar. Við teljum ekki efni til slíks enda er búið að dæma í Hæstarétti og þess vegna var ákveðið að stefna strax. Svo krefjumst við álags á málskostnað út af þessum ítrekuðu brotum ríkisins og því að greiða ekki skaðabætur strax.“ Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu, segist vita til þess að fleiri kjötsendingar séu væntanlegar til landsins á allra næstu dögum og vikum. „Kannski er stjórnvöldum bara sama um þessar skaðabætur en þá verða þau bara að segja það að þau séu tilbúin að greiða bætur til að friða talsmenn landbúnaðarins. Þótt fjárhæðirnar í þessu máli séu ekki háar þá vaknar sú spurning hvort einhver þurfi að taka af skarið og flytja inn fyrir 100 milljónir til að hreyfa við stjórnvöldum?“ – sar
13/11/2018 | Fréttir, Í fjölmiðlum, Verslun
Hulda og Logi á K100 fengu markaðs- og kynningarstjóra SVÞ, Þórönnu K. Jónsdóttur í heimsókn til sín 12. október sl. til að ræða netverslun í tilefni af „Singles Day“ og fréttum af gríðarlegri sölu Alibaba á þeim degi.
Hér má sjá fréttina á mbl.is og upptöku af viðtalinu.
13/11/2018 | Fréttir, Greinar, Í fjölmiðlum, Verslun
Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri SVÞ, skrifaði grein á Vísi þann 12. nóvember. Í greininni fjallar hann um skort á aðgerðum stjórnvalda til að bregðast við dómi Hæstaréttar þar sem staðfest var lögmæti innflutnings á fersku kjöti. Ríkið skapar sér nú skaðabótaskyldu með því að halda áfram að gera ferskt kjöt upptækt við komu til landsins. Greinina í heild sinni má lesa á vef Vísis hér.