Samkeppnislegur ómöguleiki

Blaðagrein birt í Fréttablaðinu 13.9.2016
Höfundar: Jón Björnsson, varaformaður SVÞ og Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri SVÞ
„Verslun og þjónusta þarf eins og aðrar atvinnugreinar að búa við samkeppnishæft umhverfi.“ Þessi hástemmdu orð eru inngangur landsfundarályktunar annars af ríkisstjórnarflokkunum um verslun og þjónustu. Sannarlega lofandi yfirlýsing frá flokki sem kennir sig við frelsi í viðskiptum og ætti að vera vegvísir um virðingu fyrir viðskiptafrelsi á samkeppnislegum forsendum.

Samkeppni er hampað í hvívetna þegar kemur að vel flestum athöfnum í daglegu lífi en þegar pottur er brotinn í innlendum viðskiptum er skorti á samkeppni kennt um að ekki hafi betur farið.

Hins vegar  er það svo að samkeppni á ekki upp á pallborðið hjá stjórnmálamönnum þegar kemur að innlendri mjólkur- og kjötframleiðslu og ræktun einstakra grænmetistegunda og lúta einstaka fyrirtæki í þeim geira ekki almennum lögmálum samkeppnislaga. Laga sem ætlað er að efla samkeppni í viðskiptum og vinna gegn skaðlegri fákeppni og samkeppnishömlum og auðvelda aðgang nýrra samkeppnisaðila að innlendum markaði. Rúmur þriðjungur matarútgjalda hjá venjulegu íslensku heimili fer til kaupa á innlendum landbúnaðarvörum. Þrátt fyrir þá vernd sem greinin býr við virðast framleiðendur svínakjöts og kjúklingakjöts vera þeir einu sem hagnast á núverandi fyrirkomulagi, um það vitna ársreikningar fyrirtækja í þeim greinum. Skoðun ársreikninga fyrirtækja í almennri kjötvinnslu og mjólkurvinnslu leiðir hins vegar í ljós að það er ekki ábatasamur rekstur, þrátt fyrir samkeppnisverndina. Ekki er hagur bænda frábær. Á sama tíma og erlendir ferðamenn streyma til landsins og veitingahús landsins eru yfirfull, þarf að lækka verð til bænda fyrir lambakjöt. Og þar erum við stödd með þetta ólánskerfi sem enginn er ánægður með. Það sem verra er að það virðist alla stjórnmálaflokka skorta vilja eða þor til að gera hagsmunaaðilum ljóst að það sé þeirra að koma með raunhæfar úrbætur á kerfinu.

Með búvörusamningum er enn og aftur meitluð í stein opinber niðurgreiðsla til handa einni atvinnugrein ásamt því að undanþiggja áfram tiltekna grein ákvæðum samkeppnislaga. Þá lét Alþingi sem vind um eyru þjóta gagnrýni varðandi úthlutun á tollkvótum fyrir landbúnaðarvörur þar sem allt samkeppnislegt hagræði til handa innlendum neytendum er afnumið með álagningu útboðsgjalda. Gjöld sem í eðli sínu eru skattur og keyra upp verð á innfluttum matvælum. Íslensk stjórnvöld höfðu tækifæri til að láta Mjólkursamsöluna og fleiri fyrirtæki vinna hylli neytenda í krafti betri vara og verðs en valdi fremur að pakka fyrirtækinu í þægilegar tollverndarumbúðir og halda áfram sömu vegferð og s.l. 20 ár.

Það er mikið til af hreinni og góðri íslenskri landbúnaðarvöru sem íslenskir framleiðendur ættu að gera meira af að segja frá. Séríslenskar vörur eins og skyr og lambakjöt ættu að vera á óskalista hvers ferðamanns  og við ættum að vera leiðandi  í dýravelferð og lífrænni ræktun. Við höfum allt til þess nema hinn samkeppnislega hvata.

Þrátt fyrir hávær mótmæli úr ýmsum áttum um ágalla á landbúnaðarkerfinu þá á það kerfi sér marga stuðningsmenn á Alþingi. Skiptir hér engu hvort um er að ræða rótgróinn flokk sem viðheldur íhaldssömum gildum í landbúnaði eða flokk sem hefur að stefnu að vinna í innanlandsmálum að víðsýnni og þjóðlegri umbótastefnu á grundvelli einstaklingsfrelsis og atvinnufrelsis með hagsmuni allra stétta fyrir augum.
Samtök verslunar og þjónustu eru einfaldlega þeirrar skoðunar að nýgerðir búvörusamningar komi ekki til með að skila bændum neitt fram á veginn, miklu fremur að verið sé að festa í sessi óbreytt ástand til næstu ára. Hins vegar er hægt að fullyrða að þeir muni ekki skila íslenskum neytendum neinum ávinningi.. Binda verður vonir við að það þing sem kosið verður í næsta mánuði verði þannig samansett að hægt verði að gera sér raunhæfar vonir um breytingu á þessu kerfi sem verði bæði bændum og neytendum til framdráttar.

Greinin í Fréttablaðinu.

Af ávöxtunum skuluð þið þekkja þá

Grein birt á Kjarnanum 1.9.2016 – Höfundur: Lárus M.K. Ólafsson, lögmaður SVÞ
Umræða um upp­runa­merk­ingu mat­væla hefur verið áber­andi að und­an­förnu m.a. í ljósi opin­berrar umfjöll­unar um búvöru­samn­inga. Í þeirri umræðu hefur verið rætt um að gera rík­ari kröfur um upp­runa­merk­ingu mat­væla og sú krafa m.a. gerð að sam­þykkt búvöru­samn­inga og tolla­samn­ings við ESB um inn- og útflutn­ing á mat­vælum grund­vall­ist á inn­leið­ingu á reglu­verki samn­ings­ins um Evr­ópska efna­hags­svæð­is­ins um upp­runa­merk­ingu mat­væla. Þannig hafa einnig for­menn Svína­rækt­ar­fé­lags Íslands og Félags kjúklinga­bænda nýlega ritað grein sem beint er að ákveðnum hags­muna­sam­tökum og fram­kvæmda­stjóra þeirra vegna afstöðu þeirra hags­muna­sam­taka gagn­vart kröfu um upp­runa­merk­ing­ar.

Af þess­ari umræðu, hvort sem hún á sér stað í þing­heim eða fjöl­miðl­um, má ráða að það sé ein­beittur vilji inn­flytj­enda og versl­ana að leyna upp­runa mat­væla fyrir neyt­end­um. Hér eru óneit­an­lega á ferð­inni dig­ur­barka­legar yfir­lýs­ingar um mein­tan vilja hags­muna­að­ila um að brjóta gegn trausti við­skipta­vina sinna. En er það virki­lega svo að neyt­endur eigi ekki rétt á upp­lýs­ingum um upp­runa mat­væla?

Í starf­semi sem grund­vall­ast á sam­keppn­is­legum for­sendum gera versl­un­ar­eig­endur sér fylli­lega grein fyrir því að virk sam­keppni leiðir til þess að upp­lýstur neyt­andi hefur val um við hvern hann versl­ar. Sé þjón­usta eða upp­lýs­inga­gjöf ekki að skapi neyt­enda þá velur hann að beina við­skiptum til sam­keppn­is­að­ila. Þannig virkar sam­keppni í sinni ein­föld­ustu mynd en vissu­lega á sam­keppni ekki við í öllum atvinnu­greinum enda eru til­teknar greinar und­an­skildar þeim lög­mál­um, s.s. til­tekin inn­lend mat­væla­fram­leiðsla.

Versl­unin hefur gert sér grein fyrir mik­il­vægi þess að veita neyt­endum upp­lýs­ingar um upp­runa mat­væla. Óhætt er að full­yrða að yfir­gnæf­andi meiri­hluti Íslend­inga vill bæta upp­runa­merk­ingar mat­væla og skiptir upp­runi mat­væla því miklu máli við ákvörðun um kaup. Í ljósi þessa tóku SVÞ höndum saman við Sam­tök atvinnu­lífs­ins, Sam­tök iðn­að­ar­ins, Sam­tök ferða­þjón­ust­unn­ar, Bænda­sam­tök Íslands og Neyt­enda­sam­tök­in, ásamt dyggri ráð­gjöf frá Mat­væla­stofn­un, og gáfu út í febr­úar 2015 ítar­legar leið­bein­ingar til aðild­ar­fyr­ir­tækja sinna um upp­runa­merk­ingar mat­væla. Þar eru á mjög svo upp­lýsandi hátt, bæði í rit- og mynd­máli,  settar fram ábend­ingar til fram­leið­enda, inn­flytj­enda og veit­inga­staða um upp­runa­merk­ingar á þeim vörum sem eru í boði. Eins og fram kemur í inn­gangi þeirra leið­bein­inga þurfa neyt­endur að fá vit­neskju á umbúðum mat­væla, eða með merk­ingum á sölu­stað og við fjar­sölu, um upp­runa­land þeirrar vöru sem þeir kaupa.

Í umræddum leið­bein­ingum er ekki ein­göngu tekið til­lit til þeirra reglna sem gilda hér á landi um upp­runa­merk­ingar heldur er þar gengið enn lengra og settar fram til­lögur um merk­ingar á þeim sviðum þar sem reglur um upp­runa­merk­ingar hafa enn ekki tekið gildi. Því má með sanni segja að íslensk verslun hefur axlað ábyrgð á skyldu um upp­runa­merk­ingar og í þeirri veg­ferð tekið á sig skyldur umfram laga­skyld­u.

Hags­munir neyt­enda verða ávallt að vera í for­gangi þannig að þeir geti tekið upp­lýstar ákvarð­anir um vöru­kaup og er upp­runa­merk­ing þar lyk­il­at­riði. SVÞ benda á að verslun hef­ur, og mun ávallt, axlað sína ábyrgð varð­andi upp­lýs­ingar til neyt­enda og því er bæði rétt­látt og sann­gjörn krafa að inn­lendir mat­væla­fram­leið­end­ur, þ.m.t. svína- og kjúklinga­fram­leið­end­ur, opni dyrnar hjá sér varð­andi aðbúnað og fram­leiðslu­ferli í sinni starf­semi til að upp­lýsa neyt­endur um sína starf­semi.

Höf­undur er lög­maður hjá Sam­tökum versl­unar og þjón­ustu.

Slóð inn á Kjarnann

SVÞ telja breytingar á búvörusamningum ganga of skammt

Fréttatilkynning send á fjölmiðla 30.8.2016
Atvinnuveganefnd Alþingis hefur afgreitt nefndarálit vegna búvörusamninga. SVÞ hafa verið gagnrýnin á umrædda samninga, t.d. varðandi fjárskuldbindingar vegna þeirra, tímalengd þeirra og að ekki eru lagðar til breytingar á öðrum tengdum málefnum s.s. framkvæmd úthlutunar á tollkvótum á landbúnaðarvörum. Í umsögn sinni um málið bentu SVÞ á að með þeim skuldbindingum sem íslenska ríkið hefur undirgengist með undirritun samninganna sé vegið verulega að fjárstjórnarvaldi Alþingis, stjórnarskránni, fjárlögum, fjáraukalögum og lögum um opinber fjármál. Þá gagnrýndu SVÞ framkvæmd varðandi úthlutun á tollkvótum á landbúnaðarvörum, þ.e. þá skyldu að leggja útboðsgjöld á kvótanna sem óneitanlega leiða til hækkunar á innlendu verði á þessum vörum, og lögðu samtökin til breytingu á núverandi fyrirkomulagi.

Nú liggur fyrir að atvinnuveganefnd Alþingis hefur lagt til m.a. þær breytingar að fram fari endurskoðun á samningunum eftir 3 ár í stað 10 ára  og að heimilaður verði án tolla innflutningur á tilteknu magni á svokölluðum upprunaostum, þ.e. ostum sem ekki eru framleiddir hér á landi.

SVÞ telja jákvætt að loksins hafi náðst fram eitt af baráttumálum samtakanna sem er tollfrjáls innflutningur á ostum sem hingað til hafa borið háan verndartoll. Hins vegar er það magn osta lítill hluti af innlendum ostamarkaði, eða alls um 3-5%, og mun því ekki hafa áhrif á markað sem ber öll merki einokunar. Þá er einnig jákvætt að lagt er til nýtt endurskoðunarákvæði varðandi gildistíma búvörusamninga sem þó felur ekki í sér styttingu á samningum eða niðurfellingu þeirra. Þá harma SVÞ að atvinnuveganefnd Alþingis hafi ekki tekið til skoðunar breytingar á úthlutun á tollkvótum með hliðsjón af innsendum tillögum samtakanna. Er því enn viðhaldið óréttlátri og íþyngjandi skattheimtu við úthlutun tollkvóta sem óhjákvæmilega felur í sér viðbótarkostnað fyrir neytendur. Þá hefur ekki verið litið til þess að tollkvótarnir taka ekki tillit til verulegrar aukningar ferðamanna sem hefur aukið verulega á eftirspurn eftir matvælum sem innlend framleiðsla hefur á engan hátt náð að anna.

Loks átelja SVÞ að tollur á tilteknar innfluttar vörur verði leiðréttur einhliða án frekari skoðunar á öðrum tollnúmerum sem sömu sjónarmið gilda um. Því harma SVÞ að ekki hafi verið stigið skref í átt að auknu frjálsræði og samkeppni í framleiðslu og innflutningi á alifugla- og svínakjöti og með því að lækka tolla á þessum afurðum. SVÞ telja að fyrirliggjandi samningar og tillögur atvinnuveganefndar um breytingar þar á sýni að lítill vilji virðist vera hjá stjórnvöldum að auka samkeppni í landbúnaði og þá trú að aukin samkeppni muni leiða af sér betri vörur, lægra verð og bættan rekstur fyrirtækja í landbúnaði. Því skora SVÞ á stjórnvöld að leggja til frekari breytingar á þessum málaflokki og þ.m.t. að taka til endurskoðunar núverandi framkvæmd við úthlutun á tollkvótum fyrir landbúnaðarvörum.

Fréttatilkynning á PDF sniði.

Uppgangur ferðaþjónustu kemur öllum til góða

Blaðagrein birt í Fréttablaðinu 13.8.2016
Höfundar: Andrés Magnússon framkvæmdastjóri SVÞ og Helga Árnadóttir framkvæmdastjóri SAF

Samspil atvinnugreinanna í okkar litla íslenska hagkerfi er öllum ljóst. Þannig hefur það alltaf verið og mun trúlega alltaf verða. Uppgangur einnar atvinnugreinar hefur jákvæð áhrif fyrir allt hagkerfið og öfugt.andres1

Sá gífurlegi vöxtur, sem ferðaþjónustan sem atvinnugrein hefur notið á undanförnum árum, sýnir okkur kannski betur en nokkru sinni fyrr hversu mjög hagsmunir atvinnugreina eru samtvinnaðir. Allt frá 2010 hefur mikilvægi ferðaþjónustu vaxið hröðum skrefum og eru fá ef nokkur dæmi um sambærilegan vöxt á jafn skömmum tíma. Á þessum tíma hefur fjöldi ferðamanna sem leggja leið sína til Íslands fjórfaldast. Á sama tíma hafa tekjur þjóðarbúsins vaxið gífurlega í formi gjaldeyristekna, VSK-tekna og annarra beinna og óbeinna skatttekna. Þá hefur atvinnusköpun aukist til muna um allt land og afleiddar tekjur vaxið samhliða. Ferðamenn eru nú í auknum mæli að kaupa hvers kyns innlenda þjónustu, versla og njóta þeirrar afþreyingar sem í boði er.

Þessi stórkostlegi vöxtur hefur sannarlega haft jákvæð áhrif á starfsemi verslunarinnar í landinu og raunar einnig á starfsemi fjölmargra helga_arnadottir_passamyndþjónustufyrirtækja. Á fyrri hluta þessa árs vörðu erlendir ferðamenn 11,6 milljörðum króna í verslun á Íslandi, sé horft til kortaveltu. Það er rúmlega 3 milljörðum meira en á sama tíma í fyrra. Menn þurfa raunar ekki að líta lengi í kring um sig til að sjá þessar breytingar með berum augum, mannlíf og yfirbragð allrar verslunar í miðborg Reykjavíkur og um allt land sýnir þetta svo ekki verður um villst. Fjöldi verslana og vöruúrval hefur aukist til muna hvert sem litið er og fjölbreytt þjónusta er nú í boði sem áður þekktist ekki. Í þessu samhengi má nefna að talið er að ferðamenn muni neyta um 22 tonna af innlendri matvöru á dag á þessu ári, setja um 54 tonn af eldsneyti á bílaleigubíla sína og kaupa íslenska hönnun sem aldrei fyrr.

Þá eru heildartekjur af hverjum ferðamanni innanlands að aukast á milli ára. Á fyrri hluta síðasta árs nam t.a.m. tekjuaukningin um 31% milli ára á meðan fjölgun ferðamanna á sama tímabili nam 27%. Vísbendingar gefa til kynna áframhaldandi aukningu í þessa átt á yfirstandandi ári. Það er okkar allra að nýta áfram þau tækifæri sem felast í fjölgun ferðamanna. Það hefur jákvæð og mikilvæg áhrif á hagkerfið allt, eykur velsæld og blómgar mannlíf. Vaxtarverkir eru óhjákvæmilegir en með yfirvegun, festu og samtakamætti okkar eru okkur allir vegir færir.

Fréttablaðið 13.8.2016 – Uppgangur ferðaþjónustu kemur öllum til góða

Einkarekstur eða opinber

Blaðagrein birt í Viðskiptablaðinu 23.6.2016
Höfundur: Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu
Fyrir nokkrum árum mætti Jón Gnarr, þá sem uppistandari, á jólafund SVÞ og ræddi um þjónustu. Hann rifjaði m.a. upp þá þjónustu sem menn urðu aðnjótandi hjá Bifreiðaeftirliti ríkisins, meðan sú stofnun var og hét og hjá áfengisversluninni við Snorrabraut, þar sem misjafnlega upplagðir starfsmenn í bláum vinnusloppum afgreiddu áfengið yfir búðarborð. Lýsingar Jóns voru með þeim hætti að menn veltumst um af hlátri þann klukkutíma sem uppistandið stóð yfir. Þó að tilgangur þessa fundar hafi fyrst og fremst verið að skemmta félagsmönnum SVÞ í amstri jólanna, var hann þörf áminning um að það er ekki sjálfgefið að fólk fái óaðfinnanlega þjónustu hjá þeim fyrirtækjum og stofnunum sem það á viðskipti við. Eitt er víst að það hvarflaði ekki að neinum sem sat þennan fund að endurvekja Bifreiðaeftirlit ríkisins eða byrja á ný að afgreiða áfengi yfir búðarborð.

Breytt viðhorf, en…
Viðhorf til rekstrar hins opinbera hefur breyst mikið á undanförnum árum. Lengi vel var litið svo á að aðeins ríkið gæti annast tiltekin verkefni, á þeirri forsendu að það eitt byggi yfir nægjanlegri þekkingu og mannafla og nauðsynlegu skipulagi til að stýra verkefnum. Lengi vel var nefnilega litið svo á að aðeins ríkið gæti innt af hendi þau verkefni sem áður voru á hendi stofnana á borð við Bifreiðaeftirlit ríkisins. Það er hins vegar langur vegur frá því að þessi almenna viðhorfbreyting hafi leitt til þess að ríkið hafi í nægjanlegum mæli dregið sig út úr starfsemi sem það hefur sinnt. Einkareknar stofur hafa hérlendis í tvo áratugi annast mörg þau verkefni sem áður hvíldu á herðum hins opinbera, s.s. á sviði bifreiðaskoðana, matvælaskoðana, rafskoðana, skipaskoðana og löggildinga mælitækja auk markaðsgæslu, og hafa þessi fyrirtæki því fyrir löngu sannað gildi sitt sem öruggur og hagkvæmur kostur á þeim sviðum sem áður voru eyrnamerkt hinu opinberra. Þrátt fyrir fögur fyrirheit stjórnvalda, virðast allar frekari breytingar á þessu sviði gerast með hraða snigilsins. Þrátt fyrir að þjónusta þeirra fyrirtækja sem nú sinna þeim verkefnum sem Bifreiðaeftirlit ríkisins sinnti áður, sé almennt óumdeild, gerast hlutirnir ótrúlega hægt.

Tækifærin eru víða
Þær skipta tugum þær stofnanir sem sinna verkefnum sem  frekar ættu að vera falin einkaaðilum. Hér má nefna sem dæmi starfsemi stofnana á borð við MAST, Fiskistofu, Vinnueftirlitsins og Neytendastofu. Ekkert bendir til annars en að stór hluti af þeirri starfsemi sem þessar stofnanir sinna, væri betur komin í höndum einkaaðila. Einkaaðilar starfa þar að auki upp til hópa eftir ströngum kröfum alþjóðlegra staðla um hlutleysi, verkferla og samræmi í framkvæmd verka – kröfur sem á tíðum eru strangari en hjá hinu opinbera. Allar þessar stofnanir sinna verkefnum er snúa með einhverjum hætti að öryggi borgaranna og þar sem opinbert eftirlit með öryggismálum bifreiða okkar hefur verið fært til einkaaðila, hlýtur að koma mjög sterklega til álita að færa einkaaðilum verkefni af sama toga enda búa þeir yfir nægjanlegri þekkingu, mannafla og nauðsynlegu skipulagi til að stýra verkefnum á við hið opinbera og gott betur.

Einkarekstur eða opinber – Viðskiptablaðið 23.6.2016

Boðskapurinn af Barónsstígnum

Blaðagrein birt í Morgunblaðinu 21.5.2016
Höfundar: Dr. Stefán E. Matthíasson, formaður Samtaka heilbrigðisfyrirtækja og Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu 

Á vefsíðu Embættis Landlæknis (EL) birti Birgir Jakobsson nýverið áskorun til heilbrigðisráðherra um tafarlausar úrbætur í heilbrigðismálum. Látið er í veðri vaka að heilbrigðiskerfið sé á vonarvöl og helsta ástæða þess sé að íslenskir læknar komi ekki heim til Íslands til vinnu á Landspítalanum. Það er erfitt að taka undir fyrri fullyrðinguna, enda þótt vissulega megi margt betur fara, en þá síðari mögulega auðveldara, en af allt öðrum ástæðum en Birgir virðist gera sér grein fyrir eða vilji horfast í augu við.

Af greininni er ljóst að honum er einstaklega í nöp við um 350 sérfræðilækna sem standa á eigin fótum og reka eigin heilbrigðisfyrirtæki skv. samningi við Sjúkratryggingar Íslands (SÍ). Kallar þetta í niðurlægingatón „einyrkjastarf sérfræðinga„. Sem þar að auki séu ekki „… í stakk búin til að takast á við vandamál sjúklinga..“. Þetta er ekki nýtt, enda vart formlega búin að taka við embættinu þegar hann var þá þegar búinn að úthúða starfsemi þeirra. Hafði furðuleg rök í frammi, þ.e. að þeim fjármunum, sem samningur SÍ og sjálfstætt starfandi lækna veitti til heilbrigðisþjónustunnar höfnuðu í „hít“ sem tæki fé frá annarri mun verðugri en fjársveltri heilbrigðisþjónustu. Þá helst Landspítalanum. Bætti og um betur með því að fullyrða að enginn vissi í hvað þessi peningar færu. Þessa skoðun sína hefur hann reyndar margítrekað síðan. En lesendum til upplýsingar þá fóru 157 milljarðar af opinberu fé til heilbrigðismála á sl. ári. Þar af runnu á um 5% þeirrar upphæðar til fjármögnunar á umræddum samningi SÍ. Fyrir þessa fjárhæð fékk kaupandi þjónustunnar (SÍ) um 470 þúsund læknisviðtöl ýmissa sérhæfðra sérfræðinga (um 30% allra koma til lækna á landinu það árið), 15-18.000 skurðaðgerðir af ýmsu tagi, nokkur þúsund maga- og ristilspeglanir, 76  þúsund rannsóknir af ýmsu tagi, 63 þúsund myndgreiningarrannsóknir ofl, ofl. Allt þetta er samviskusamlega skráð, kostnaðargreint og árlega sent frá SÍ til EL því til upplýsingar og til að gera EL eftirlitsskyldu sína skv. lögum mögulega.

Dettur einhverjum í hug að kaup ríkisins á ofangreindri sérfræðiþjónustu raski tilveru eða rekstri Landspítalans?  Allar þessar upplýsingar voru því innanbúðar hjá Birgi frá fyrsta starfsdegi hans og fyrr. Það er óumdeilt, ef menn hafa kynnt sér málin, að sú þjónusta sem ríkið hefur keypt af fyrirtækjum sjálfstætt starfandi lækna er í senn skilvirk og ódýr. Öll töluleg rök tala sama máli, bara ef menn lesa það sem að þeim er rétt. Bæði ef horft er til nágrannalandanna og hér innanlands. En mögulega er eitt af fótakeflum þessarar þjónustu hversu skilvirk og ódýr þjónustan er í samanburði við sambærilega opinbera þjónustu. Samanburðurinn er víða afar fróðlegur svo ekki sé meira sagt.

Bráða patentlausnir Birgis á vanda heilbrigðiskerfisins eru í fimm liðum:

•    Landspítalinn verður að fá skýr fyrirmæli um að sérfræðingar verði framvegis einungis ráðnir í fullar stöður.
•    Stefna verður að því að vaktabyrði sérfræðinga sé ekki meiri en 3–4 vaktir á mánuði.
•    Setja verður reglur um aukastörf lækna og annars heilbrigðisstarfsfólks.
•    Jafnframt verður LSH að fá fyrirmæli um að auka dag- og göngudeildarstarfsemi spítalans svo að hægt sé að auka aðgengi sjúklinga með króníska sjúkdóma að þjónustu, hvort sem þeir hafa legið inni á spítalanum eða ekki.
•    Segja verður upp samningi Sjúkratrygginga Íslands (SÍ) við samtök lækna og setja reglur um það að SÍ geri framvegis aðeins samninga við heilbrigðisfyrirtæki (opinber eða einkarekin) sem vinni samkvæmt ákveðinni kröfulýsingu og veiti þjónustu sem ríkið (greiðandinn) sér þörf fyrir.“

Hryggjarstykkið í tillögunum virðist að takmarka atvinnufrelsi lækna. Þvinga hámenntaða sérfræðinga til að vinna á einum vinnustað í fullu starfi og takmarka starfsemi sjálftætt starfandi lækna enda látið að því liggja að hennar sé ekki þörf.
Birgi virðist algerlega sjást yfir þá staðreynd að vandi Landspítalans er ekki starfsemi sjálfstætt starfandi lækna. Landspítalinn gæti hvort eð er aldrei undir nokkrum kringumstæðum tekið við þeirri starfsemi eða fjármagnað hana á þeim framlögum sem til hennar fara í dag af gjaldaliðum SÍ. Kraftaverk dygði ekki til. Vandi Landspítalans nær dýpra og lengra aftur í tímann sem aðlaðandi vinnustaður. Er ekki endilega skortur á nýjum byggingum eins og sumir telja sér og öðrum trú um. Vissulega skortur á tækjum nútímans. Vanda sem vanræktur hefur verið, en nú er verið að taka á. Mesta ógnin er mögulega stofnunin sjálf, stjórnendur hennar og sú fákeppni sem er á sjúkrahúsmarkaði.

Birgi hefur verið bent á þá staðreynd að stjórnendur stofnunarinnar brjóta lög um ráðningar lækna án þess að blikna. Ráða ekki hæfasta umsækjandann og eyða tugum milljóna af skattfé í málsóknir til að losa sig við eða hindra að viðkomandi fái starf á stofnuninni. Birgir hefur kært sig kollóttan yfir þessari staðreynd þrátt fyrir að vera lögbundinn eftirlitsaðili með starfseminni. Hvarflar það að Birgi að  þetta fæli lækna frá því að sækja um starf á Landspítalanum?
Minni á að fyrir 14 árum voru 4 sjúkrahús á höfuðborgarsvæðinu. Ekki alveg vandræðalaust, en það gaf möguleika til valfrelsis sjúklinga og ekki síst heilbrigðisstarfsmanna til vinnuveitanda.  Það er áhyggjuefni fyrir hönd sjúklinga og ekki síst verðandi starfsmanna hvernig Landspítalinn hefur haldið á málum sínum. Fjölbreytileiki í veitingu heilbrigðisþjónustu og valfrelsi sjúklinga til þjónustuveitenda er forsenda fyrir því að skapa góða heilbrigðisþjónustu sem sátt er um. Fákeppni í heilbrigðisþjónustu er engum til framdráttar.

Mannauðurinn er helsta verðmæti heilbrigðisþjónustunnar, sem er fyrst og fremst þekkingariðnaður. En valfrelsi til vinnuveitanda og mismunandi rekstarforma er lykilatriði, hvort sem er í spítalaþjónustu, heilsugæslu eða sérfræðiþjónustu. Ekki dugir að hengja bakara fyrir smið í þessu efni.

Blaðagreinin í Morgunblaðinu á pdf sniði.
Slóð inn á vefsíðu Samtaka heilbrigðisfyrirtækja.