Neytendur spara 4 milljarða ef tollar á svína- og alifuglakjöti verða afnumdir

Fréttatilkynning send á fjölmiðla 20.1.2016
Lækkun og helst afnám tolla á svína- og alifuglakjöt er eitt af baráttumálum Samtaka verslunar og þjónustu, enda bera neytendur umtalsverðan kostnað af verndartollunum eins og glögglega kemur fram í útreikningum efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins. Þar sést að íslenskir neytendur greiða alls um fjóra milljarða króna á ári vegna tollverndar á innflutt svína- og alifuglakjöti.

Lækkun tollverndarinnar eða afnám hennar yrði veruleg kjarabót fyrir heimilin í landinu enda er alifuglakjöt vinsælasta kjöttegundin hérlendis með tæplega þriðjungs markaðshlutdeild. Sala svínakjöts er í þriðja sæti rétt á eftir lambakjöti en töluverð aukning hefur verið í sölu svínakjöts hérlendis að undanförnu og nam aukningin tæpum 12% á síðasta ári.

Samkvæmt útreikningum efnahagssviðs SA mun ávinningur heimilanna í landinu nema 21.249 krónum á ári að jafnaði ef tollar af svína- og alifuglakjöti verða lækkaðir um helming. Væru tollarnir felldir niður að fullu myndi hvert heimili spara 32.938 krónur að meðaltali á ári.

Við útreikningana var miðað við sölu svína- og kjúklingakjöts á síðasta ári. Ávinningur heimilanna yrði að líkindum meiri, því lækkun eða afnám tollanna mun væntanlega stuðla að aukinni neyslu þessara kjöttegunda.

Rannsóknir sem gerðar hafa verið á verðbreytingum vegna afnáms vörugjalda og breytinga á tollum hafa sýnt að breytingarnar hafa skilað sér sem varanleg verðlækkun til hagsbóta fyrir neytendur.

Viðhengi með útreikningum.

Fréttatilkynning til útprentunar.

 

 

 

Þjóðaratkvæði um 180 milljarða?

Þjóðaratkvæði um 180 milljarða?

VIÐSKIPTABLAÐIÐ DESEMBER 2015 – JANÚAR 2016

Skoðun – Finnur Árnason forstjóri Haga
Það er sagt að listin í stjórnsýslu sé að taka peninga af einum og gefa öðrum og George Bernard Shaw orðaði það þannig að stjórnvöld sem ræna Pétur til að borga Páli, geti alltaf reiknað með stuðningi Páls. Þetta hljómar bæði kunnuglega og sem sannindi, ekki síst ef við horfum á Pétur sem þig lesandi góður, íslenska neytandann.

Samkvæmt skýrslum OECD nemur stuðningur neytenda við landbúnaðarkerfið á Íslandi um 18 milljörðum króna árlega. Það þýðir einfaldlega að neytendur borga 18 milljörðum króna of mikið fyrir þennan flokk nauðsynjavara ár hvert. Hægt er að skipta stuðningi við landbúnaðinn í tvo flokka. Annars vegar beingreiðslur frá skattgreiðendum til bænda í gegnum ríkissjóð og hins vegar að neytendur greiða hærra verð en eðlilegt er vegna tollverndar, en flestar þessar vörur njóta verndar með svokölluðum ofurtollum. Helstu einkenni núverandi kerfis eru að neytendur greiða hátt verð, bændur bera lítið úr býtum og kostnaður ríkissjóðs er umtalsverður.

Nú ræðir sérhagsmunahópur um mikilvægi þess að gera nýjan búvörusamning til 10 ára, en núgildandi samningur nær til ársins 2017. Þeir sem eiga að greiða reikninginn, þ.e. neytendur, eru ekki aðilar að þeim viðræðum. En nýr samningur þýðir í raun að ætlast er til þess að neytendur greiði áfram hærra verð en eðlilegt er fyrir sjálfsagðar nauðsynjavörur. Samningur  til 10 ára þýðir skattlagningu í 10 ár. Samningurinn kemur til með að binda tvær næstu ríkisstjórnir, þó hvor um sig sitji fullt kjörtímabil. Núverandi ríkisstjórn ætlar því að ákveða útgjöld a.m.k. tveggja næstu ríkisstjórna og binda fjárveitingarvaldið til útgjalda á kostnað neytenda til ársins 2027.

Ég spyr mig hvort rétt sé að ríkisstjórnin taki ákvörðun um 180 milljarða skattlagningu á neytendur til næstu 10 ára og gefi hvorki neytendum, né tveim næstu ríkisstjórnum færi á því að hafa skoðun á svo umfangsmiklum skuldbindingum. Eðlilegt er að ítarleg umræða fari fram um málið áður en ákvörðun er tekin. Það má spyrja sig hvort neytandinn Pétur eigi engan málsvara á Alþingi. Samningur af því tagi sem hér er nefndur leggur álögur á Pétur neytanda til þess að hægt sé að borga sérhagsmunahópi Páls. Páll mun styðja þessa skattheimtu og berjast með kjafti og klóm gegn öllum þeim sem ætla að svipta hann þessum fyrirhafnarlausa tekjupósti.

Í haust upplýsti landbúnaðarráðuneytið í fréttatilkynningu að náðst hefði tímamótasamningur við ESB um tollfrjálsan innflutning á öllum unnum landbúnaðarvörum, nema jógúrti. Unnar kjötvörur, sbr. skinka og unnar mjólkurvörur, sbr. ostar falla ekki undir skilgreininguna „unnar landbúnaðarvörur“ í landbúnaðarráðuneytinu og þennan tollfrjálsa innflutning. Það gera aftur á móti hinar alræmdu landbúnaðarvörur súkkulaði og frosnar pitsur. Sagt var að tollar féllu niður á yfir 300 vöruflokkum, en staðreyndin er að yfir 200 vöruflokkar sem nefndir voru bera í dag enga tolla. Neytendur eru því ítrekað blekktir með misvísandi orðalagi og ósannindum. Með þessum vinnubrögðum kemur ráðherra upp um sig sem helsti andstæðingur neytenda. Hann segir ósatt og blekkir neytendur í þeirri von að geta áfram skattlagt þá fyrir sérhagsmunahópinn sinn.

Ýmis tilefni hafa verið nefnd til þjóðaratkvæðagreiðslu. Þar á meðal málefni sem varða fjárhagslegar skuldbindingar þjóðarinnar, sbr. Icesave. Samkvæmt mati fjármálaráðuneytisins frá maí 2012 hefði kostnaður vegna Bucheitsamningsins numið 64 milljörðum króna, nettó. Sambærilegt mat GAMMA á kostnaði vegna Icesave-samningsins í apríl 2012 var 59 milljarðar eftir að tekið hafði verið tillit til vaxtagreiðslna annars vegar og framlags úr tryggingasjóði innstæðueigenda hinsvegar. Er það fráleit hugmynd að almenningur fái að kjósa um það hvort hann vilji verja 180 milljörðum í að viðhalda úreltu landbúnaðarkerfi?Nýr búvörusamningur er á við þrefalda Icesave skuldbindingu miðað við framangreindar forsendur. Börnin okkar borga þennan reikning sem neytendur og í mínum huga er ákvörðun um þennan samning eitt stærsta hagsmunamál íslenskra heimila. Því er eðlilegt að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla um nýjan 180 milljarða búvörusamning.

Greinin til útprentunar.