05/11/2018 | Fréttir, Stafræn viðskipti, Verslun
Undirbúningsfundur að stofnun faghóps um stafræna verslun var haldin í Húsi atvinnulífsins 29. október sl. Rætt var um í hvers konar málefnum slíkur hópur gæti beitt sér og ákveðið að stefna að formlegum stofnfundi mánudaginn 12. nóvember næstkomandi.
Helstu mál sem talið var að faghópurinn gæti beitt sér í voru:
- Slæm samkeppnisstaða íslenskra netverslana gagnvart erlendum samkeppnisaðilum
- Hár flutnings- og sendingarkostnaður sem hamlar dreifingu
- Þjónustugæði flutnings- og sendingarþjónustu
- Afnám niðurgreiðslna póstflutninga frá Kína vegna alþjóðlegra samninga
- Tolla- og virðisaukaskattsmál í tengslum við stöðu íslenskra verslana gagnvart erlendri samkeppni
- Flækjustig tollamála og annarrar pappírsvinnu við útflutning, þ.e. fyrir sölu úr íslenskum vefverslunum inn á erlenda markaði
- Skortur á aðgengi að sjóðum sem styrkt geta nýsköpun í stafrænni verslun
- Nauðsyn þess að efla menntun á sviði stafrænnar verslunar
SVÞ hvetur alla þá sem koma að einhverju leyti að stafrænni verslun til að taka þátt í starfinu; vefverslanir, tæknifyrirtæki sem þjónusta stafræna verslun, flutningageirinn, markaðsfyrirtæki og aðrir.
Stofnfundurinn verður haldinn mánudaginn 12. nóvember nk. kl. 13:30 í Hyl, Húsi atvinnulífsins.
Þátttökurétt hafa allir þeir sem eru aðilar að SVÞ. Skráningarsíðu samtakanna má finna hér.
Þeir sem sækja ætla fundinn eru beðnir um að skrá sig hér fyrir neðan:
02/10/2018 | Fræðsla, Fréttir, Stafræn viðskipti, Viðburðir
VINSAMLEGAST ATHUGIÐ AÐ UPPSELT ER Á VIÐBURÐINN
SVÞ ásamt Rannsóknasetri verslunarinnar efna til morgunverðarráðstefnu um íslenska netverslun, fimmtudaginn 11. október kl. 8:30-10:00 í Norðurþingi á Hótel Natura.
Í kjölfar útgáfu nýrrar skýrslu um íslenska netverslun (sem finna má á www.svth.is/netverslun) mun fjallað um stöðu íslenskrar netverslunar og þær áskoranir sem í henni felast.
DAGSKRÁ
Árni Sverrir Hafsteinsson, forstöðumaður Rannsóknaseturs verslunarinnar kynnir nýútkomna skýrslu: Íslenskt netverslun – stafræn þróun og alþjóðleg samkeppni
Reynslusögur frá íslenskum netverslunum:
Aðalfyrirlesari: Pelle Petterson, sérfræðingur í netverslun með erindið The Challenge of Selling Across Borders: An Ecommerce Entrepreneur’s Insights.
Á síðustu árum hefur Pelle skapað sér nafn fyrir frábæran árangur innan vefverslunargeirans á Norðurlöndum. Hann hefur hlotið fjölda verðlauna, svo sem besti frumkvöðullinn í Svíþjóð og besti nýliðinn í Noregi. Í síðasta starfi sínu var Pelle yfir omnichannel og netverslun (omnichannel and ecommerce) hjá Cervera, og náði ævintýralegum árangri með +670% aukningu í veltu á milli ára. Í dag starfar Pelle við sérfræðiráðgjöf í netverslun og omnichannel og vinnur með stórum smásöluverslunum og þekktum vörumerkjum við að byggja upp vefverslanir. Þú getur fræðst meira um Pelle hér á LinkedIn.
Aðgangseyrir er 2.500 kr og er morgunverður innifalinn. Skráning fer fram hér fyrir neðan.
ATH! Ráðstefnan er upphaf glæsilegrar fræðsludagskrár SVÞ haustið 2018 þar sem fjallað verður um starfræna verslun og markaðssetningu á netinu, jafnt fyrir verslanir og þjónustu. Sjáðu dagskrána hér.
14/09/2018 | Fréttir, Greining, Skýrslur, Stafræn viðskipti, Verslun
Rannsóknarsetur verslunarinnar hefur gefið út skýrsluna „Íslensk netverslun – áhrif stafrænnar tækni og alþjóðlegrar samkeppni“, en útgáfa skýrslunnar var styrkt af Atvinnu- og nýsköpunarráðuneytinu, SVÞ – Samtökum verslunar og þjónustu og VR. Höfundur er Emil B. Karlsson.
Skýrslan sem greinist í þrjá kafla og fjallar á greinargóðan hátt um miklu breytingar sem verslun sem atvinnugrein stendur nú frammi fyrir, vegna þeirra stórstígu breytinga sem eru að verða í verslun og verslunarháttum hvar sem er í heiminum.
Í fyrsta kafla skýrslunnar er farið yfir áhrif og afleiðingar stafrænnar tækni á verslun almennt, með sérstakri áherslu á þau áhrif sem líklegt er að slíkt hafi á íslenska verslun. Í öðrum hluta skýrslunnar eru birtar niðurstöður þriggja rannsókna á íslenskri verslun, þar sem m.a. er birt ítarleg samantekt á umfangi netverslunar hér á landi og netverslunar frá útlöndum, upplýsingar sem ekki hafa birst áður. Einnig er þar að finna niðurstöður úr viðamikilli skoðanakönnun á netverslunarhegðun Íslendinga. Í þriðja kafla skýrslunnar eru síðan settar fram ályktanir byggðar á þeim rannsóknum sem kynntar eru í skýrslunni.
SVÞ fagna útkomu skýrslunnar, en hún kemur út á hárréttum tíma og er tímabært innlegg í umræðu um stöðu greinarinnar nú þegar hún stendur frammi fyrir meiri og víðtækari breytingum á allra næstu árum, en orðið hafa marga síðustu áratugi. Eru allir hagsmunaaðilar og áhugamenn um íslenska verslun og framtíð hennar hvattir til að kynna sér efni skýrslunnar.
Skýrsluna í heild sinni má finna hér.
06/07/2018 | Fréttir, Greiningar, Skýrslur, Stafræn viðskipti, Verslun
Samantekt
Neytendur eru í vaxandi mæli að tileinka sér stafrænan lífstíl. Val neytenda á vörum getur að miklu leyti ákvarðast af upplýsingum og samskiptum á veraldarvefnum. Í þessu samhengi verður sífellt mikilvægara fyrir netverslanir að fylgjast með og kortleggja ferðalag viðskiptavinarins — fyrir, á meðan og eftir kaupin — til að fylgjast með neysluhegðun hans. Í eftirfarandi greiningu verður fjallað um alþjóðlega þróun netverslunar á Norðurlöndum, utan Íslands . Stafræn tækniþróun felur í sér að kaup á vörum á netinu erlendis frá fer vaxandi sem hluti af alþjóðlegri smásölu. Á árinu 2017 hafði þriðjungur kaupenda á Norðurlöndum keypt vörur erlendis frá í gegnum netið.
Skýrsluna má nálgast hér.
08/06/2018 | Fréttir, Greinar, Samtök heilbrigðisfyrirtækja
Ekki verður betur séð en að heilbrigðisráðherra þjóðarinnar sé í einhverskonar afneitun þegar kostnaður og gæði heilbrigðisþjónustunnar eru annars vegar. Eitt virtasta tímarit heims í læknisfræði, The Lancet, birti fyrir nokkrum dögum úttekt á heilbrigðistengdum gæðavísum og aðgengi að heilbrigðisþjónustu 195 landa fyrir árið 2016. Til að gera langa sögu stutta toppar Ísland þennan lista. Erfitt er að ímynda sér hvernig hægt er að fá betri staðfestingu á góðu kerfi og glæsilegri frammistöðu heilbrigðisstarfsfólks. Sjálfsagt er að óska því fólki til hamingju. Við getum verið stolt af árangrinum enda þótt ráðherrann virðist ekki mega heyra á hann minnst.Hin almenna heilbrigðisþjónusta byggir á þremur grunnstoðum: Heilsugæslu, starfsemi sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsmanna og sjúkrahússþjónustu. Nokkuð góður samhljómur hefur verið um þessa þrískiptingu fram til þessa. Hér skiptir mestu að þarfir neytandans séu ávallt hafðar í forgangi. Sjúklingar hafi gott aðgengi að þjónustunni á sínum forsendum, gæði hennar séu fyrsta flokks og kostnaður, sem ávallt skal greiddur af hinu opinbera, sé samkeppnishæfur við það sem best gerist í nágrannalöndum okkar.
Sérfræðiþjónusta lækna hefur um áraraðir verið kjölfesta góðrar læknisþjónustu hér á landi. Á síðasta ári tóku sérfræðilæknar á rammasamningi við Sjúkratryggingar Íslands á móti um 500 þúsund heimsóknum. Þeir framkvæmdu meðal annars um átján þúsund skurðaðgerðir og þúsundir speglana auk margskonar lífeðlisfræðilega rannsókna. Á sama tíma voru um 244 þúsund komur á göngudeild Landspítala og um 250 þúsund komur á Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Þannig er stofustarfsemi sérfræðilækna stærri en göngudeildarstarfsemi þessara tveggja stærstu heilbrigðisstofnana landsins.
Um 350 læknar starfa á samningnum í ýmsum sérgreinum. Til viðbótar eru um 300 önnur stöðugildi fagfólks í ýmsum greinum. Enda þótt starfsemin sé afar umfangsmikil er athyglisvert að hún tekur einungis til sín um 6% af heildarútgjöldum til heilbrigðisþjónustunnar. Sérfræðiþjónustan er einfaldlega vel rekin, ódýr miðað við nágrannalöndin og með gott aðgengi sjúklinga. Gæðin þarf enginn að draga í efa. Það er vandséð annað en að hér sé vel sé farið með hverja krónu skattfjárins.
Engu að síður eru þeir til sem þreytast ekki á að agnúast út í þessa sjálfstæðu starfsemi lækna. Ýmist virðist sá málflutningur byggður á vanþekkingu, þráhyggju eða hagsmunagæslu – og stundum ef til vill allt í senn. Við hvetjum embættismenn í kerfinu, stjórnmálamenn og ekki síst ráðherra heilbrigðismála til að viðurkenna þær staðreyndir um ágæti og hagkvæmni þessarar þjónustu sem blasa við öllum þeim sem skilja vilja.
Samningur sérfræðilækna og SÍ rennur út um næstu áramót. Læknar hafa án árangurs kallað eftir áætlunum ráðherrans um margra mánaða skeið. Vísbendinguna fengu þeir loks í gegnum örstutta sjónvarpsfrétt. Samningurinn er að hennar mati til óþurftar og stórfelld uppbygging göngudeilda sjúkrahúsanna það sem koma skal í staðinn. Nokkuð sem gengur þvert á þróun í öðrum löndum. Öllum er ljóst að slík uppbygging tæki mörg ár og enginn sparnaður mun af hjótast. Við spurningu fréttamannsins um hvað myndi gerast í millibilsástandinu kom ekkert svar annað en að ráðherrann hefði ekki svarið. Margir sjúklingar eiga bókaða tíma hjá sérfræðilæknum eftir áramót og langt inn í næsta ár. Þeir hafa svarið ekki heldur.
Ein af helstu röksemdum, en um leið rangfærslum, ráðherrans er að samningurinn sé opinn og að til hans streymi ótakmarkað fé. Það er einfaldlega rangt og við leyfum okkur að fullyrða að ráðherrann veit betur. Sjúkratryggingar tryggja sér „einkarétt“ á þjónustu læknis á samningnum. Nýliðun í stétt sérfræðilækna á stofu hefur algerlega verið stöðvuð í meira en tvö ár. Til þess hafa stjórnvöld reyndar margsinnis þurft að þverbrjóta samninginn en ráðherrann virðist láta sér það í léttu rúmi liggja, væntanlega með það í huga að tilgangurinn helgi meðalið.
Með því að loka á nýliðun og læsa unga lækna úti í orðsins fyllstu merkingu er ráðherrann ekki að draga úr eftirspurn heldur minnka þjónustu og rýra gæði hennar. Veruleg hætta er á því að læknar sem ekki komast heim þegar þeim hentar ílengist erlendis og snúi jafnvel aldrei til baka. Samninginn þarf að opna strax. Verði hann látinn renna út án endurnýjunar er tvöfalt heilbrigðiskerfi þar sem hinir efnameiri kaupa sér forgang endanlega orðið að veruleika. Þjóðin hefur aldrei getað hugsað sér slíkt fyrirkomulag. Ráðherrann sýnist hins vegar stefna þangað með þessum háskalega leik sínum.
Höfundar:
Stefán E. Matthíasson, formaður Samtaka heilbrigðisfyrirtækja
Þórarinn Guðnason, formaður Læknafélags Reykjavíkur
16/05/2018 | Flutningasvið, Fréttir
Tollstjóri hefur að undanförnu unnið að innleiðingu á AEO-vottun hér á landi. AEO er alþjóðleg gæðavottun sem felur í sér að fyrirtækið er talið vera öruggur hlekkur í aðfangakeðjunni, hefur tileinkað sér ábyrga tollmeðferð og uppfyllir kröfur um alþjóðlega vöruflutninga.
Markmiðið með innleiðingu á AEO öryggisvottun er að tryggja samkeppnishæfni íslensks útflutnings og stuðla að bættu markaðsaðgengi íslenskra útflutningsgreina. Fyrirtæki sem eru með starfsemi hér á landi og eru hluti af alþjóðlegu aðfangakeðjunni geta sótt um vottunina. Þessi fyrirtæki geta verið eftirfarandi: Inn- og útflytjendur, framleiðendur, farmflytjendur og tollmiðlarar.
Embætti Tollstjóra leitar eftir fyrirtækjum til að taka þátt í tilraunverkefninu „Viðurkenndir rekstraraðilar“ (AEO-vottun). Valin verða nokkur fyrirtæki sem gegna mismunandi hlutverkum í aðfangakeðjunni til að vera þátttakendur í verkefninu. Markmiðið er að prófa umsóknar- og vottunarferlið áður en AEO-vottunin verður formlega tekin í notkun. Í lok verkefnisins mun fyrirtækið hljóta AEO-vottun þar sem það staðfestist að fyrirtækið stenst öll öryggisskilyrðin og getur sýnt fram á fullnægjandi ferla í tollframkvæmd.
Við val á fyrirtækjum í tilraunaverkefnið verður meðal annars tekið tillit til eftirfarandi atriða:
- Umfang viðskipta, fjölda tollskýrslna og heildarfjárhæðir viðskipta.
- Víðtæk alþjóðleg viðskipti og millilandaflutningar.
- Staða öryggismála og öryggisvitund innan fyrirtækisins, einkum m.t.t. öryggis alþjóðlegu aðfangakeðjunnar.
- Til staðar sé virkt gæðakerfi, hugað sé að meðhöndlun frávika, innra eftirliti og umbótastarfi.
- Dótturfyrirtæki eða móðurfyrirtæki sem hlotið hafa AEO-viðurkenningu erlendis.
- Hlutverk fyrirtækisins í aðfangakeðjunni.
Þeir rekstraraðilar sem hafa áhuga á að taka þátt í tilraunaverkefninu eru beðnir um að senda inn beiðni um þátttöku með því að senda tölvupóst á aeo@tollur.is. Nánari upplýsingar veitir Elvar Örn Arason, umsjónarmaður AEO, í gegnum tölvupóst elvar.arason@tollur.is eða í síma 894 2409. Fresturinn til að senda inn umsókn er miðvikudagurinn 6. júní 2018.
AEO kynningarbæklingur