25/04/2018 | Fréttir, Samtök sjálfstæðra skóla
Nýkjörin stjórn SSSK, frá vinstri: Ingibjörg Jóhannesdóttir, Þórdís Jóna Sigurðardóttir varaformaður, Sara Dögg Svanhildardóttir, formaður, Jón Örn Valsson, María Sighvatsdóttir, Guðmundur Pétursson, Sigríður Stephensen og Gísli Rúnar Guðmundsson.
Aðalfundur SSSK var haldinn þriðjudaginn 24. apríl í Kviku, Húsi atvinnulífsins. Þar var Sara Dögg Svanhildardóttir, Arnarskóla, kjörin formaður SSSK og Þórdís Jóna Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri Hjallastefnunnar var kjörin varaformaður. Meðstjórnendur voru kjörnir: Gísli Rúnar Guðmundsson, skólastjóri grunnskólans NÚ, Guðmundur Pétursson, framkvæmdastjóri Skóla ehf og María Sighvatsdóttir, leikskólastjóri Vinagarði.
Varamenn voru kjörnir: Ingibjörg Jóhannesdóttir, skólastjóri Landakotsskóla, Jón Örn Valsson, framkvæmdastjóri LFA ehf og Sigríður Stephensen, leikskólafulltrúi og leikskólastjóri hjá Félagsstofnun stúdenta.
Skoðunarmenn voru kjörnir: Sólveig Einarsdóttir, leikskólastjóri, Vinnaminni og Sigríður Anna Guðjónsdóttir skólastjóri Skóla Ísaks Jónssonar.
Margrét Theódórsdóttir, skólastjóri Tjarnarskóla, stýrði fundi.
Að hefðbundnum aðalfundarstörfum loknum fór Þorsteinn Guðmundsson, leikari, með gamanmál.
Hér má lesa skýrsluna í heild sinni: Ársskýrsla SSSK 2017
Hér má lesa ársreikninginn í heild sinni: Ársreikningur SSSK 2017
17/04/2018 | Fréttir, Samtök sjálfstæðra skóla, Viðburðir
Aðalfundur Samtaka sjálfstæðra skóla verður haldinn þriðjudaginn 24. apríl 2018 milli kl. 15:00 og 16.30 í Húsi atvinnulífsins, Borgartúni 35, Kviku, 1. hæð
Setning: Kristján Ómar Björnsson, formaður SSSK
Margrét Theodórsdóttir, skólastjóri Tjarnaskóla, stýrir fundinum.
Hefðubundin aðalfundastörf skv. 7. grein samþykkta:
- Skýrsla stjórnar
- Stjórn leggur fram endurskoðaða reikninga samtakanna
- Umræður um skýrslu og reikninga
- Félagsgjöld ársins
- Kosning formanns og varaformanns
- Kosning meðstjórnenda og varamanna
- Kosning tveggja skoðunarmanna
- Önnur mál
Að loknum hefðbundnum aðalfundarstörfum fer Þorsteinn Guðmundsson, leikari, með gamanmál.
Framboð til stjórnar þurfa að berast formanni stjórnar í síðasta lagi fyrir upphaf aðalfundar.
Fulltrúar rekstraraðila, skólastjórar, aðstoðarskólastjórar og aðrir stjórnendur eru hjartanlega velkomnir.
Skráning hjá aslaug@svth.is
05/03/2018 | Fréttir, Samtök sjálfstæðra skóla
Þann 28. febrúar sl. hlutu tveir leikskólastjórar innan SSSK tilnefningar til Stjórnendaverðlauna Stjórnvísis 2018 fyrir frammistöðu við að móta og stjórna afburða leikskóla Þeir eru; Lovísa Hallgrímsdóttir stofnandi, rekstraraðili og f.v. skólastjóri Regnbogans í Reykjavík en hún hlaut tilnefningu 2. árið í röð. Hinn skólastjórinn er Hulda Jóhannsdóttir stjórnandi Heilsuleikskólans Króks í Grindavík.
Samtök sjálfstæðra skóla óska þessum frábæru stjórnendum til hamingju með tilnefninguna.
16/02/2018 | Fréttir, Samtök sjálfstæðra skóla
Simon Steen, formaður Samtaka sjálfstæðra skóla í Evrópu – Ecnais, verður aðalræðumaður á ráðstefnu SSSK þann 2. mars nk.
Simon mun fjalla um sterka stöðu sjálfstæðra skóla í Hollandi undir yfirskriftinni „Freedom of education in the Netherlands – From a right for the minority to an inspirational form of pedagogical entrepreneurship for the majority“.
18/10/2017 | Fréttir, Greinar, Í fjölmiðlum, Menntun, Samtök sjálfstæðra skóla
Birt á visir.is 12.10.2017
Skólakerfið
Tökum stór skref í átt að því að skapa fjölbreyttara skólakerfi og hverfum markvisst frá þeirri einsleitni sem þar ræður ríkjum.
Nemandinn
Viðurkennum ólíkar þarfir ólíkra nemenda og kappkostum að mæta þeim.
Foreldrarnir
Veitum foreldrum val og treystum þeim til þess að velja það námsumhverfi sem þau telja að henti sínum börnum best.
Kennarinn
Aukum sjálfstæði kennara og sýnum þeim traust til þess að gera það sem þeir eru bestir í: Að kenna.
Einföldum kröfur á kennara og minnkum tíma þeirra sem fer í skriffinnsku.
Veitum kennurum, líkt og nemendum, möguleika á að velja starfsvettvang í ólíkum skólum og sérskólum þar sem þeirra sérsvið, þekking og áhugi getur nýst sem best
Innleiðum sveigjanleika í nám kennara og möguleikann á því að öðlast viss réttindi til kennslu á skemmri tíma.
Viðurkennum að kennsla er að talsverðu leyti listgrein; Engum dytti í hug að láta listamenn vinna eftir stimpilklukku!
Skólastjórnandinn
Tryggjum skólastjórum faglegt og rekstrarlegt sjálfstæði til þess að skapa sínum nemendum besta mögulega námsumhverfið.
Minnkum miðstýringu að hálfu skólayfirvalda í sveitarfélögum og leggjum meiri ábyrgð á hendur skólastjórnenda og skólaráðs í hverjum skóla.
Höfundur: Kristján Ómar Björnsson formaður SSSK, Samtaka sjálfstætt starfandi skóla
18/10/2017 | Fréttir, Greinar, Í fjölmiðlum, Samtök sjálfstæðra skóla
Birt á visir.is 11.10.2017
Mennta- og skólastarf á Íslandi hefur, í sögulegu samhengi, lengstum verið á höndum annarra aðila en ríkis eða sveitarfélaga. Fram að myndun þéttbýla á Íslandi var slíkt starf að mestu einskorðað við trúarhreyfingar og kennslu í heimahúsum. Stofnun Barnaskóla Reykjavíkur varð fyrir einstaklingsframtak árið 1830 en í byrjun 20. aldar voru 10% allra skólabarna í Reykjavík í því sem þá voru kallaðir einkaskólar. Á 19. öld. voru farandskólar settir upp víðsvegar en jafnvel eftir að íslensk stjórnvöld settu á lög um almenna fræðsluskyldu um 1900 þá hvíldi sú fræðsla að talsverðu leyti á heimilunum.
Elsta starfandi grunnskóla landsins var komið á fót á Eyrarbakka árið 1854 af athafnamönnum þar í sveit og sumir af elstu grunnskólum landsins hafa verið sjálfstæðir frá upphafi. Landakotsskóli var stofnaður 1896, Suðurhlíðarskóli hefur starfað undir ýmsum nöfnum frá 1905 og Skóli Ísaks Jónssonar reis árið 1926. Í seinni tíð hafa svo sjálfstæðir skólar eins og Tjarnarskóli og Hjallaskólarnir fest sig í sessi.
Á leik-, framhalds- og háskólastigi hefur fjöldi sjálfstæðra skóla vaxið sl. ár og fjölbreytni í námsframboði almennt aukist. Í ljósi þess og sögunnar er því merkilega hversu íhaldssöm viðhorf fyrirfinnast enn gagnvart sjálfstæðum grunnskólum. Það endurspeglast t.d. í því hversu torsótt það er fyrir sjálfstæða aðila að fá að stofna grunnskóla, sem útskýrir það að einungis rúm 2% íslenskra grunnskólanema sækja sjálfstæða grunnskóla sem er með því lægsta sem gerist meðal OECD-ríkjanna.
Frá ca. miðri síðustu öld hefur byggst upp einsleitt grunnskólakerfi á Íslandi. Einsleitni er líklega í eðli miðlægra kerfa enda má færa sannfærandi rök fyrir því að það ætti að vera skylda miðstýrðs skólakerfis á hendi hins opinbera að mismuna ekki nemendum sínum heldur bjóða þeim upp á nákvæmalega sama umhverfið, óháð því í hvaða hverfisskóla þeir eru. Vissulega fyrirfinnst nýsköpun og framsækni í opinberum grunnskólum og þá ekki síst í minni sveitarfélögum úti á landi þar sem miðstýringin er lítil og umhverfi skólanna líkara því sem sjálfstæðir skólar búa við.
Ein sterkustu rökin fyrir því að koma á skólakerfi þar sem fjölbreyttir valkostir mæta foreldrum og nemendum eru þau að í slíku kerfi er líklegra að hver nemandi finni nám við sitt hæfi þar sem honum gefst kostur á að nýta styrkleika sína, færni og áhugasvið. Önnur sterk rök fyrir því að æskilegt sé að greiða götu fleiri sjálfstætt starfandi grunnskóla lúta að breyttum kröfum nútímans og framtíðarinnar til starfandi fólks. Skólakerfi 20. aldarinnar kann að hafa dugað til þess að undirbúa nemendur fyrir fyrirsjáanlegt starfsumhverfi þess tíma en stöðugar tæknibyltingar nútímans gera þá kröfu á skólakerfið að það sé sveigjanlegra, frjálsara og í stöðugri framþróun.
Á Íslandi er lögbundin grunnskólaskylda og til þess að halda upp þeirri þjónustu borgar fólk skatta. Sveitarfélög innheimta útsvar til reksturs grunnskólanna í sínu umdæmi og hafa, lögum samkvæmt, algjörlega frjálsar hendur um hvort rekstur grunnskólanna sé á þeirra hendi eða annarra aðila. Það er eðlileg krafa að skattgreiðendur sem kjósa að senda sín börn til náms í sjálfstæðum skóla fái sömu þjónustu fyrir sína skattpeninga og þurfi ekki að greiða skólagjöld. Flestir sjálfstæðir skólar innheimta skólagjöld einfaldlega vegna þess að sveitarfélögin ákveða að útdeila þeim minna rekstrarfé en sínum eigin. Þetta er óréttlátt og útilokar sjálfstæða skólann sem raunverulegt val fyrir þá efnaminni. Fé ætti að fylgja barni, óháð því hvaða skóla það og foreldrarnir velja.
Að lokum er mikilvægt að hafa í huga í umræðu um sjálfstæða skóla að ekki er löglegt að greiða arð út úr starfssemi sjálfstæðra grunnskóla á Íslandi, ólíkt mörgum öðrum löndum. Almennir sem og sjálfstæðir skólar á Íslandi hrærast í krefjandi rekstrarumhverfi og að athuguðu máli ætti engum að detta í hug að stofna grunnskóla á Íslandi til þess að græða pening, heldur til þess að skapa umhverfi þar sem framtíð landsins fær að vaxa og blómstra.
Höfundur er formaður Samtaka sjálfstætt starfandi skóla (SSSK).