26/02/2019 | Fréttir, Stjórnvöld, Umsagnir
SVÞ, Samtök atvinnulífsins og Samtök iðnaðarins hafa sent inn sameiginlega umsögn um drög að frumvarpi til laga um breytingu á efnalögum. Umsögnina má sjá hér: https://samradsgatt.island.is/oll-mal/$Cases/Details/?id=1303
Þú getur einnig hlaðið niður PDF skjali með umsögninni með því að smella hér: Umsögn um drög að frv um breytingu á efnalögum-feb 2019
17/09/2018 | Fréttir, Stjórnvöld
SVÞ hafa undanfarin ár gætt hagsmuna aðildarfyrirtækis samtakanna í samskiptum við stjórnvöld vegna kaupa á rafrænum sjúkraskrám. Að mati SVÞ hafa þau kaup á þjónustu í gegnum tíðina, frá einum og sama aðila, orkað tvímælis hvað varðar eftirfylgni með kröfum um opinber innkaup. Þá hafa þau kaup utan útboðs einnig haft skaðleg áhrif á samkeppni á markað með rafrænar sjúkraskrár.
Nú síðast kom til skoðunar álitamál er varða kaup Embætti landlæknis og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins á tölvukerfi vegna Veru – heilsuvef, þ.e. www.heilsuvera.is. Óskuðu SVÞ þá þegar eftir upplýsingum um þau kaup og fjárhæðir sem lágu þar að baki. Hins vegar var neitað um afhendingu á þeim gögnum en þeirri synjun var síðar snúið við af úrskurðarnefnd um upplýsingamál. Þá þegar og umbeðin gögn voru afhent lá fyrir að mati SVÞ og aðildarfyrirtækis þess, þ.e. Skræðu ehf., að ríkið hafi virt að vettugi útboðsskyldu sína vegna þeirra kaupa enda kostnaður við kaupin yfir útboðsskyldu.
Í kjölfarið sendu SVÞ, f.h. Skræðu ehf., kæru á kærunefnd útboðsmála þar sem þess var óskað að nefndin tæki máli til skoðunar sem og hún gerði. Efir yfirgripsmikla rannsókn á málinu, þar sem aðilar málsins voru m.a. boðaðir á fund nefndarinnar, komst kærunefndin að skýrri niðurstöðu að samkvæmt þeim kostnaði sem kaup á kerfinu og viðhald á því kallaði á bar Embætti landlæknis og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins að bjóða út gerð þess á Evrópska efnahagssvæðinu í samræmi við þau innkaupaferli með lög um opinber innkaup kveða á um. Þar sem það var ekki gert brutu þessir aðilar gegn ákvæðum laga um opinber innkaup. Þar að auki var Embætti landlæknis og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins gert að greiða málskostnað, alls að upphæð 900.000 kr.
Að mati SVÞ er mikilvægt að hið opinbera virði af fullum hug reglur um opinber innkaup og raski um leið ekki samkeppni á einstökum mörkuðum með því að skjóta sér undan þeirri skyldu sinni. Munu samtökin áfram fylgjast með framkvæmd þessara mála og grípa til aðgerða gerist þess þörf.
11/06/2018 | Fréttir, Greinar, Stjórnvöld, Verslun
Brostin sátt um gildistöku tollkvóta á sérostum
Atvinnuveganefnd Alþingis hefur afgreitt álit sitt vegna breytinga á tollalögum og tekur til innflutning á svokölluðum sérostum. Um er að ræða mál sem upp kom í kjölfar lögfestingu á búvörusamningum en við þinglega meðferð málsins kom fram vilji Alþingis um að liðka fyrir innflutningi á svokölluðum sérostum, þ.e. ostum sem njóta sérstöðu vegna uppruna og landsvæða. Því átti að heimila innflutning á 210 tonnum af tollfrjálsum ostum strax á fyrsta ári tollasamningsins, þ.a. á þessu ári, til að vega á móti almennri tollahækkun á ostum sem búvörusamningar kveða á um. Þá skyldi þeim ostum vera úthlutað samkvæmt hlutkesti en ekki undirorpnir útboðsgjöldum. Þrátt fyrir sátt á Alþingi um þetta mál misfórst að gera nauðsynlega breytingu á lögum og því skilaði sá vilji þingsins sér ekki í lagatexta.
Fyrir liggur að mistök þessi voru tilkomin vegna atvika er varða lagaskrifstofu Alþingis og var í kjölfarið þrýst á um að nauðsynlegar breytingar verði gerðar á lögum til að koma þessum tollfrjálsa innflutningi á. Því lagði sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra fram frumvarp til breytinga á tollalögum til að leiðrétta þessi mistök og var í frumvarpinu lagt til að opna skyldi tollkvóta fyrir upprunatengdan ost úr vörulið 0406 þannig að viðbót árið 2018 verði 210 tonn, hlutfallslega í samræmi við dagsetningu gildistöku samnings, og tollkvóti á ári eftir gildistöku samnings Evrópusambandsins og Íslands um viðbótarfríðindi í viðskiptum með landbúnaðarafurðir verði 230 tonn.
Hefur atvinnuveganefnd Alþingis nú afgreitt frumvarpið út úr nefnd þar sem meirihlutinn leggur til breytingu á frumvarpinu í þá veru að viðbót árið 2018 verði 105 tonn og að viðbót árið 2019 verði 105 tonn. Magnið yrði samkvæmt því innleitt á tveimur árum en ekki einu. Því yrði tollkvótinn frá og með árinu 2019 230 tonn. Er afgreiðsla nefndarinnar þvert á markmið frumvarpsins og gengur gegn þeim fyrirheitum sem gefin voru við lögfestingu búvörusamninga. Þá leggur nefndin einnig til að fyrir 1. nóvember 2018 skuli sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hafa látið vinna úttekt þar sem metin verði þau áhrif á íslenskan markað sem orsakast af innflutningskvótum á ostum sem eru verndaðir með upprunatáknum eða með vernduðum landfræðilegum merkingum.
SVÞ gagnrýna harðlega þessa afgreiðslu atvinnuveganefndar og telja hana atlögu af þeirri sátt sem náðist á Alþingi vegna þeirra hækanna sem lögfesting búvörusamninga höfðu á tilteknar vörur. Telja SVÞ afgreiðslu þessa ganga freklega gegn hagsmunum bæði verslunar og neytenda til þess eins að vernda innlenda hagsmuni án þess þó að framleiðsla sérosta eigi sér hér stað.
30/05/2018 | Fréttir, Stjórnvöld
Í desember 2011 sendu SVÞ kvörtun á Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) vegna innleiðingar íslenskra stjórnvalda á matvælalöggjöf EES-samningsins sem að mati samtakanna hafi ekki verið í samræmi við þá löggjöf. Íslenskar reglur fela þannig í sér innflutningstakmarkanir á fersku kjöti og ýmsum mjólkurvörum. Innflytjendur verða því að sækja um sérstakt leyfi til innflutnings á þessum vörum og leggja fram margvísleg gögn til Matvælastofnunar.
SVÞ telja bann þetta ganga gegn ákvæðum EES-samningsins hvað varðar frjálsa vöruflutninga og að eftirlitskerfi hér á landi með innflutningi feli í sér landamæraeftirlit sem er ekki í samræmi við löggjöf EES-samningsins. Að mati SVÞ hefur ekkert komið fram að íslenskum stjórnvöldum sé ekki unnt að gæta að heilbrigði manna og dýra innan ramma matvælalöggjafar EES-samningsins. Þá hafa stjórnvöld ekki sýnt fram á með rökstuddum hætti að innlendum hagsmunum sé ógnað með innflutningi á fersku kjöti en samkvæmt matvælalöggjöf EES-samningsins eru ríkar kröfur gerðar til áhættumats og öryggis matvæla og hvílir rík ábyrgð á framleiðendum kjöts hvað þetta varðar.
Eftir rannsókn sína á málinu komst ESA að sömu niðurstöðu og SVÞ að íslensk löggjöf hvað varðar innflutning á fersku kjöti frá öðrum EES-ríkjum er andstæð EES-samningnum. Tók ESA að fullu undir sjónarmið SVÞ í málinu um að núverandi kerfi feli í sér óréttlætanlegar og ónauðsynlegar viðskiptahindranir. Þar sem íslensk stjórnvöld höfðu enn ekki brugðist við rökstuddu áliti stofnunarinnar og gripið til viðeigandi ráðstafanna vísaði ESA málinu til EFTA-dómstólsins sem staðfesti einnig ólögmæti innflutningstakmarkana á fersku kjöti.
Þessu til viðbótar liggur fyrir dómur Héraðsdóms Reykjavíkur, og ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins í því tiltekna máli, frá nóvember 2016 um ólögmæti þessara innflutningstakmarkana. Var það aðildarfélag SVÞ sem lét reyna á umræddar takmarkanir í því máli. Íslenska ríkið áfrýjaði því máli til Hæstaréttar. Nú liggur fyrir að mál þetta er komið á dagskrá Hæstaréttar og verður það tekið fyrir 28. september nk., eða rúmum 4 árum eftir að málið kom fyrst inn á borð héraðsdóms og 7 árum eftir að SVÞ sendu upphaflega kvörtun til ESA – kvörtun sem kom hreyfingu á málið og markaði upphaf þess.
Um leið og SVÞ fagna því að loks fari að sjá fyrir endann á þessu máli þá gagnrýna samtökin tregðu stjórnvalda að bregðast við fyrirliggjandi og vel rökstuddum og málefnalegum niðurstöðum dómstóla og eftirlitsaðila í málinu. Er það krafa SVÞ að innflutningur á fersku kjöti, sem unnið er í samræmi við strangar samevrópskar kröfur og undir eftirliti annarra EES-ríkja, verði heimilaður hér á landi í samræmi við EES-löggjöf.
07/05/2018 | Fréttatilkynningar, Fréttir, Stjórnvöld
Meðfylgjandi er sameiginleg fréttatilkynning Neytendasamtakanna og Samtaka verslunar og þjónustu vegna erindis sem samtökin hafa sent á atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti þar sem óskað er upplýsinga um útreikning á tollkvótum á kjöti. Tilefni þessa erindis er frétt ráðuneytisins frá því í síðustu viku þar sem boðaðar voru breytingar á þeirri framkvæmd.
Nánari upplýsingar gefa:
- Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri SVÞ, s. 511-3000/820-4500
- Brynhildur Pétursdóttir, framkvæmdastjóri Neytendasamtakanna, s. 824-1225
Fréttatilkynning
Erindi SVÞ og NS vegna útreikninga tollkvóta á kjöti
09/04/2018 | Fréttir, Stjórnvöld, Umsagnir
Í sameiginlegri umsögn SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu, Samtaka atvinnulífsins, Samtaka iðnaðarins, Samtaka ferðaþjónustunnar, Samtaka fjármálafyrirtækja, Samorku, Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi og Viðskiptaráðs Íslands voru gerðar alvarlegar athugasemdir við drög að frumvarpi til nýrra persónuverndarlaga.
Fulltrúar samtakanna fylgdu umsögninni eftir með fundi með Sigríði Á. Andersen dómsmálaráðherra og embættismönnum. Á þeim fundi kom fram vilji til að koma til móts við einhverjar athugasemdir samtakanna, en hvergi nærri allar.
Þá er mjög líklegt að innleiðingu á löggjöfinni verði ekki lokið fyrir 25. maí nk., þegar hún tekur gildi í Evrópusambandinu.
Samtökin hafa varað við því að hætta gæti verið á því að einhver erlend fyrirtæki væru tregari til að ganga til samninga við íslensk fyrirtæki þar sem reynir á vernd persónuupplýsinga. Til þess að koma í veg fyrir það gæti þurft að útskýra fyrir þeim að persónuupplýsingar séu nægjanlega verndaðar hér þótt reglugerð Evrópusambandsins hafi ekki enn verið innleidd.
Samtökin lögðu áherslu á það á fundinum að ráðuneytið myndi setja upplýsingar um stöðu innleiðingarinnar á íslensku og ensku á vef sinn fyrir íslensk fyrirtæki og viðsemjendur þeirra.
Sjá nánar: