Skortur á stefnu og heildarsýn í aðgerðaáætlun íslenskra stjórnvalda í loftslagsmálum

Í fjárlögum fráfarandi ríkistjórnar fyrir árið 2018 sem kynnt var í september síðastliðnum kom fram að stjórnvöld ætluðu sér að tvöfalda kolefnisgjald til að draga úr losun. Tvöföldun kolefnisgjalds hækkar gjöld á bensín um 5,5 kr./l eða tæplega 7 kr./l að meðtöldum virðisaukaskatti. Tvöföldun kolefnisgjalds ásamt jöfnun bensín- og olíugjalds hækkar gjöld á dísilolíu um 16,25 kr./l eða rúmlega 20 kr./l að meðtöldum virðisaukaskatti (ekki er tekið tillit til verðlagsuppfærslu vörugjalda).

Grænir skattar eru hluti af stefnu stjórnvalda um umhverfisvernd og loftslagsmál. Samtök verslunar og þjónustu fagna aðild Íslands að Parísarsamkomulaginu og viðleitni stjórnvalda til að setja upp aðgerðaáætlun til að fylgja markmiðum samkomulagsins eftir. En í ljósi mikillar útgjaldaaukningar einstakra geira atvinnulífsins er þó margt gagnrýnivert í nálgun stjórnvalda.

Sé eldsneytisskattur sem hlutfall af heildarverði eldsneytis á tímabilinu 2011 – 2013 skoðaður sést að eldsneytisskattar á Norðurlöndunum eru meðal þeirra hæstu í heiminum (sjá graf í viðhengi). Einnig er yfirleitt minni skattlagning á dísilolíu, bæði hvað varðar losun koltvísýrings og í raungildi, en  á bensíni.

Í skýrslu Hagfræðistofnunar Ísland og loftslagsmál kemur fram að á árinu 2014 nam útstreymi gróðurhúsalofttegunda frá samgöngum á landi 861 þúsund tonnum CO2 ígilda eða 19% af heildarútstreymi frá Íslandi. Þá er útstreymi í samgöngum næstmest á eftir  útstreymi frá iðnaði og efnanotkun. Þar segir einnig að reglugerðir sem miða að því að draga úr útstreymi gróðurhúsalofttegunda, ásamt þróun í sparneytni nýrra bifreiða á heimsvísu, hafa haft þau áhrif að útstreymi frá vegasamgöngum hefur ekki aukist í samræmi við aukinn vöxt hagkerfisins frá 2011.

Norska samgönguhagfræðistofnunin (Transportøkonomisk institutt, TØI)  fjallar um í skýrslu sinni A CO2-fund for the transport industry: The case of Norway að það sé hagkvæmast að styðja við fjárfestingar í ökutækjum sem nota lífdísil, en að framboð á sjálfbæru eldsneyti geti falið í sér áskorun. Samtök atvinnulífsins í Noregi leggja til að stofnaður verði CO2 sjóður og benda á að þörf sé fyrir bæði umbun og refsingu (carrot and sticks) . CO2 sjóðurinn er ætlaður fyrir einkageirann til að styðja hvað mest við grænni tæknibreytingar. Sjá umfjöllun hér. Þessi sjóður ætti að leggja áherslu á að veita styrki til ökutækja sem nota dýrari tækni, svo sem lífgas, rafmagn og vetni. Slíkur sjóður getur því stuðlað að aukinni eftirspurn eftir þessari tækni þar til að tæknin verður samkeppnishæf.

Enn sem komið er hafa hérlend stjórnvöld ekki sett sér markvissa tæknistefnu í loftslagsmálum gagnvart flutningageiranum. Stjórnvöld hafa fyrst og fremst lagt áherslu á skattlagningu án þess að draga úr áhættu aðila á allra fyrstu stigum tækniþróunar og smá saman hleypa tækninni í samkeppnisumhverfið. Sé frekari skattlagningu beitt án þess að styðja við greinina með öðrum hætti er hætt við að frekari eldsneytisskattur skili sér í hærra vöruverði til neytenda.

Samantektina má nálgast hér.

Höfundur: Ingvar Freyr Ingvarsson, hagfræðingur Samtaka verslunar og þjónustu

Enn frekari tafir á gildistöku landbúnaðarsamnings Íslands og ESB

Fréttatilkynning send á fjölmiðla 12.7.2017
Í september 2015 voru undirritaðir af fulltrúum Evrópusambandsins (ESB) og íslenskra stjórnvalda nýir samningar um viðskipti með matvæli. SVÞ hafa lýst því yfir að samkomulag þetta er sannarlega fagnaðarefni og jákvætt skref í þá átt að auka frelsi í viðskiptum með matvæli sem og veita innlendum neytendum aukið val á þessum vörum á samkeppnishæfu verði. Er um að ræða breytingar sem eiga samhljóm með áralangri baráttu samtakanna fyrir auknu frelsi í innflutningi á landbúnaðarafurðum og öðrum matvælum.

Samkomulagið felur í sér að felldir eru niður tollar af alls 101 tollnúmerum sem koma til viðbótar við þau númer sem tollar hafa þegar verið felldir niður af. Sem dæmi um vörur sem bera núna ekki toll eru sykurvörur, sósur, gerjaðir drykkir o.s.frv. Aftur á móti munu með samkomulaginu falla niður tollar á vörum eins og súkkulaði, sætu kexi, pizzum og fylltu pasta.

Þá felur samkomulagið í sér að stórauknir eru tollkvótar á kjöti, þ.m.t. svína-, alifugla- og nautakjöti en þess ber að geta að tollkvótar þessir verða innleiddir í áföngum en koma að fullu til framkvæmda að fjórum árum liðnum frá gildistöku samningsins.

Gildistaka samningsins er háð samþykki bæði íslenskra stjórnvalda og ESB en hinn 13. september 2016 samþykkti Alþingi þingsályktun sem heimilaði ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd samning milli Íslands og Evrópusambandsins um ívilnanir í viðskiptum með landbúnaðarvörur. Hins vegar hefur dregist af hálfu ESB að staðfesta fyrir sitt leyti samninginn. Upphaflega var gert ráð fyrir að samningurinn kæmi til framkvæmda um næstu áramót. SVÞ hafa hins vegar borist þær upplýsingar frá utanríkisráðuneyti að samningurinn hafi enn ekki verið staðfestur af hálfu ESB og samkvæmt sömu upplýsingum mun mál þetta koma á dagskrá Evrópuþingsins í september nk. Í umræddum samningi er ákvæði um gildistöku þar sem segir að hann muni taka gilda fyrsta dags þess mánaðar að sjö mánuðum liðnum frá staðfestingu hans og því mun hann ekki taka gildi og koma til framkvæmda fyrr en í fyrsta lagi 1. apríl 2018. Því er ljóst að gildistaka þessa samnings mun dragast enn frekar og harma SVÞ þann drátt sem rekja má til atvika er varða samþykkt hans innan ESB.

Fréttatilkynning til útprentunar.

Umsögn SVÞ um undanþágubeiðni Markaðsráðs kindakjöts

Í umsögn til Samkeppniseftirlitsins gera SVÞ – Samtök verslunar og þjónustu athugasemdir við framkomna beiðni Markaðsráð kindakjöts um undanþágu frá ákvæðum samkeppnislaga vegna boðaðs samstarfs fyrirtækja í útflutningi á kindakjöti. SVÞ telja að í framkominni undanþágubeiðni hafi ekki verið sýnt fram á að skilyrði slíkrar undanþágu séu uppfyllt.

Markaðsráð kindakjöts hefur sent beiðni á Samkeppniseftirlitið þar sem óskað er eftir undanþágu frá bannákvæðum samkeppnislega vegna samstarfs hagsmunaaðila hvað varðar markaðssetningu á kindakjöti erlendis. Telur ráðið nauðsynlegt til að koma á laggirnar samstarfi aðila og sameiginlegu markaðsátaki til að takast á við erfiðleika í útflutningi á kindakjöti sem stafi m.a. af mikilli styrkingu krónunnar og aðrar neikvæðar breytingar vegna gengisþróunar ásamt því að aðgengi að ýmsum mörkuðum hafi lokast eða er skert.

Í umsögn sinni benda SVÞ á að tilvísaðir erfiðleikar sem blasa við markaðssetningu kindakjöts eru á margan hátt sambærilegir þeim starfsskilyrðum sem aðrar útflutningsgreinar hér á landi fást við og hafa haft áhrif á starfsemi þeirra. Nú þegar hefur hið opinbera hlaupið undir bagga með framleiðendum kindakjöts þar sem segir að íslenska ríkið hafi þegar lagt til 100 milljónir króna í sérstöku markaðsátaki vegna óhagstæðra aðstæðna á evrópskum kjötmörkuðum og hækkunar krónunnar.

Þá ítreka SVÞ að undanþáguheimild samkeppnislaga grundvallast á því að öll skilyrði slíkrar heimildar séu uppfyllt að fullu en ekki að hluta og verða þeir sem óska undanþágu á grundvelli umræddrar undanþáguheimildar að sýna fram á að umrædd skilyrði séu uppfyllt. Í umsögninni benda SVÞ að ekki eru uppfyllt skilyrði samkeppnislaga um að neytendur njóti góðs af slíku samstarfi, þ.e. að stuðla að enn frekari skort á tilteknum pörtum kindakjöts en að óbreyttu er vöntun á innanlandsmarkaði eftir tilteknum pörtum, s.s. hryggjum, sem hefur haft í för með sér hækkun á verðsskrám afurðarstöðva og felur í sér hækkun á verði til neytenda.

Er það mat SVÞ að Markaðsráð kindakjöts hafi ekki í fyrirliggjandi beiðni tekist að sýna fram á að öll skilyrði samkeppnislaga fyrir undanþágu frá ákvæðum laganna séu uppfyllt. Telja SVÞ að ekki hafi verið sýnt fram á þá hagræðingu og hagsmuni sem umbeðin undanþága muni hafa í för með sér gagnvart neytendum og veita þeim sanngjarna hlutdeild í þeim ávinningi sem að boðuðu samstarfi hlýst.

Umsögn SVÞ um undanþágubeiðni Markaðsráðs kindakjöts

Brotalamir í burðarvirki matvælaeftirlits

Blaðagrein birt í Morgunblaðinu 27.5.2017
Höfundur: Lárus M.K. Ólafsson, lögmaður SVÞ

Hver gætir varðmannanna?
Nýlega féll dómur í Hæstarétti þar sem viðurkennd er skaðabótaskylda Matvælastofnunar (MAST) í svokölluðu kjötbökumáli og fer dómurinn engum silkihönskum um málsmeðferð stofnunarinnar í umræddu máli. Hæstiréttur gagnrýnir MAST fyrir framgöngu sína í málinu sem hafi verið slíkum annmörkum háð af hálfu starfsmanna stofnunarinnar að skilyrði um saknæmi hafi verið fullnægt. Dómur þessi er enn einn álitshnekkur hvað varðar starfsemi MAST sem eftirlitsaðila og vísast hér einnig til fréttaumfjöllunar um eftirlit stofnunarinnar með tilteknum eggjaframleiðanda sem stóðst ekki þær kröfur sem gerðar eru til þeirrar starfsemi s.s. hvað varðar aðbúnað dýra og villandi upplýsingar.

Í báðum þessum málum brást MAST þeim skyldum sem á stofnunina eru lagðar, annars vegar með þögn sinni um ófullnægjandi aðbúnað dýra í matvælaframleiðslu og hins vegar með gildishlöðnum yfirlýsingum um tiltekna matvælaframleiðslu. Málin eru til þess fallin að vekja upp áleitnar spurningar um starfshætti MAST og það traust sem á að ríkja um eftirlitsstarfsemi stofnunarinnar.

Glöggt er gests augað
SVÞ vekja athygli á úttekt Ríkisendurskoðunar á starfsemi MAST frá árinu 2013 þar sem segir m.a. að fjölgun verkefna samhliða hagræðingarkröfu hafi hamlað því að stofnunin geti sinnt lögbundnum verkefnum með ásættanlegum hætti. Það hefur m.a. átt þátt í að draga úr trausti eftirlitsskyldra aðila og annarra hagsmunaaðila til MAST og skapað styr um starfsemina. Þá segir einnig að MAST eigi nokkuð ógert í því að bæta starfsemi sína og verklag. Ráða má af umfjöllun um starfsemi MAST að gagnrýni á starfshætti stofnunarinnar megi m.a. rekja til álags sem á henni hvílir sökum umfangs verkefna sem henni ber að hafa umsjón með. Því telja SVÞ mikilvægt að taka til skoðunar hvort aðkoma einkarekinna og/eða faggiltra fyrirtækja að þeim verkefnum sem MAST hafa verið falin falin að annast geti leitt til þess að hún hafi svigrúm til að sinna öðrum lögbundnum verkefnum sínum með ásættanlegum hætti.

Útvistun verkefna er ekkert feimnismál
SVÞ benda á samkvæmt nýlegri skýrslu um starfsemi MAST sem unnin var fyrir stjórnvöld þá eru þess dæmi í nágrannaríkjum að matavælaeftirliti hafi verið falið til þess bærum faggiltum aðilum og ekki er að ráða að slík framkvæmd hafi reynst illa. SVÞ ítreka að faggiltar skoðunarstofur starfa eftir ströngum kröfum alþjóðlegra staðla um hlutleysi, verkferla og samræmi í framkvæmd verka. Faggiltar stofur hafa starfað hérlendis í tvo áratugi m.a. á sviði bifreiðaskoðana, rafskoðana, skipaskoðana og löggildinga mælitækja auk markaðsgæslu og hafa sannað gildi sitt sem öruggur og hagkvæmur kostur á sviði eftirlits.

Með hliðsjón af gagnrýni á starfsemi MAST og umfangi verkefna hennar má velta því fram hvort MAST ætti einna helst að einbeita sér að hlutverki sínu sem leiðbeinandi stjórnvald og þróun staðla varðandi framkvæmd eftirlits, eða hvort daglegt eftirlit eigi áfram að vera stór hluti af starfsemi stofnunarinnar. Faggiltir skoðunaraðilar hafa getu og þekkingu til að starfa eftir þeim reglum sem um opinbert eftirlit gilda og því gera SVÞ þá kröfu til stjórnvalda að daglegt eftirlit stofnunarinnar verði fært til faggiltra skoðunaraðila og að MAST einbeiti sér að hlutverki sínu sem leiðbeinandi stjórnvald.

Blaðagreinin á pdf sniði.

Fullgilding landbúnaðarsamnings Íslands og ESB dregst til áramóta

Í september 2015 voru undirritaðir af fulltrúum Evrópusambandsins (ESB) og íslenskra stjórnvalda nýir samningar um viðskipti með matvæli. SVÞ hafa lýst því yfir að samkomulag þetta er sannarlega fagnaðarefni og jákvætt skref í þá átt að auka frelsi í viðskiptum með matvæli sem og veita innlendum neytendum aukið val á þessum vörum á samkeppnishæfu verði. Er um að ræða breytingar sem eiga samhljóm með áralangri baráttu samtakanna fyrir auknu frelsi í innflutningi á landbúnaðarafurðum og öðrum matvælum.

Samkomulagið felur í sér að felldir eru niður tollar af alls 101 tollnúmerum sem koma til viðbótar við þau númer sem tollar hafa þegar verið felldir niður af. Sem dæmi um vörur sem bera núna ekki toll eru sykurvörur, sósur, gerjaðir drykkir o.s.frv. Aftur á móti munu með samkomulaginu falla niður tollar á vörum eins og súkkulaði, sætu kexi, pizzum og fylltu pasta.

Þá felur samkomulagið í sér að stórauknir eru tollkvótar á kjöti, þ.m.t. svína-, alifugla- og nautakjöti en þess ber að geta að tollkvótar þessir verða innleiddir í áföngum en koma að fullu til framkvæmda að fjórum árum liðnum frá gildistöku samningsins.

Gildistaka samningsins er háð samþykki bæði íslenskra stjórnvalda og ESB en hinn 13. september 2016 samþykkti Alþingi þingsályktun sem heimilaði ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd samning milli Íslands og Evrópusambandsins um ívilnanir í viðskiptum með landbúnaðarvörur. Hins vegar hefur dregist af hálfu ESB að staðfesta fyrir sitt leyti samninginn. SVÞ hafa fylgst náið með framgangi málsins á vettvangi ESB og er staða mála sú að samningurinn hefur verið samþykktur af ESB en hins vegar mun fullgilding hans dragast vegna tafa hjá Evrópuþingi. Því mun samningurinn að óbreyttu ekki koma til framkvæmda fyrr en um og kringum næstu áramót. SVÞ munu áfram fylgjast með málinu og upplýsa aðildarfyrirtæki um gang mála.

Eftirlitsstofnun EFTA telur að rekstur á fríhafnarverslun standist ríkisstyrkjareglur

Undanfarin ár hafa SVÞ haft til skoðunar ýmsa þætti varðandi starfsemi Fríhafnarinnar ehf. í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Hafa samtökin gagnrýnt þá mismunun sem sú opinbera starfsemi hefur í för með sér gagnvart almennri verslun utan veggja flugstöðvarinnar. Gagnrýnin hefur m.a. snúið að niðurgreiddri verslunarstarfsemi hins opinbera sem starfar í beinni samkeppni við aðrar verslanir hér á landi.

Í ljósi þessa sendu SVÞ í apríl 2016 kvörtun á Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) enda telja samtökin að núverandi framkvæmd feli í sér brot gegn ríkisstyrkjareglum EES-samningsins. Samhliða umræddri kvörtun SVÞ til ESA hafði stofnunin þá þegar haft til skoðunar sambærilegt fyrirkomulag í Noregi og afgreiddi ESA það mál í nóvember 2016.

ESA hefur nú lokið skoðun á málinu og birti stofnunin niðurstöðu sína í mars sl. þar sem komist er að þeirri niðurstöðu að fyrirkomulagið hvað varðar rekstur hins opinbera á fríhafnarverslun feli ekki í sér brot gegn ríkisstyrkjarreglum EES-samningsins. Telur ESA að íslensk stjórnvöld hafi í máli þessu sýnt fram á mikilvægi slíks rekstrar hins opinbera til að sporna gegn smygli og undanskotum hvað varðar opinber gjöld. Þá sé slíkt fyrirkomulag til þess fallið að einfalda tollaeftirlit í flugstöðinni. Niðurstaða þessi er í fullu samræmi við fyrri niðurstöðu ESA frá nóvember 2016 hvað varðar sambærilegt fyrirkomulag í Noregi og ljóst að stofnunin taldi þau sjónarmið sem þar komu fram eiga við hvað varðar svipaða starfsemi hér á landi.

SVÞ harma þessa niðurstöðu ESA í málinu enda er það staðföst trú samtakanna að núverandi fyrirkomulag raski að verulegu leyti samkeppni hér á landi og hafi skaðleg áhrif á þá samkeppni. Er með öllu óumdeilt að innlend verslun getur ekki keppt við opinbera starfsemi á sama sviði sem nýtur yfirburðarstöðu í formi niðurfellingar á opinberum gjöldum í þeirri samkeppni. SVÞ ítreka að samtökin hafa einnig þegar sent kvörtun til Samkeppniseftirlitsins vegna málsins og er það mál enn til skoðunar hjá eftirlitinu.