EuroCommerce e-Report 2024: Vöxtur og áskoranir netverslunar í Evrópu

EuroCommerce e-Report 2024: Vöxtur og áskoranir netverslunar í Evrópu

Í nýútgefinni EuroCommerce e-Report 2024 kemur í ljós að evrópsk B2C netverslun óx um 3% árið 2023, en vöxtur var mismikill eftir svæðum. Vestri hluti Evrópu dróst lítillega saman, á meðan Suður- og Austur-Evrópa sýndu verulega aukningu um 14-15%. Áskoranir eins og samkeppni frá löndum utan ESB og nýjar sjálfbærnikröfur hafa áhrif á framgang greinarinnar. Spár benda þó til 8% vaxtar árið 2024.

Sjá nánar í skýrslunni hér.

Sjá upptöku af Webinar eCommerceEurope hér.

RSV | Áreiðanleiki gagna og mikilvægi samstarfs við færsluhirða: Áskoranir og ný þróun

RSV | Áreiðanleiki gagna og mikilvægi samstarfs við færsluhirða: Áskoranir og ný þróun

Aukinn fjöldi færsluhirða kallar á nýjar áskoranir

Rannsóknasetrur verslunarinnar (RSV) sendi í dag frá sér fréttatilkynningu þar sem kemur ma. fram að RSV leggur mikla áherslu á áreiðanleika gagna við öflun upplýsinga fyrir Veltuna, sem er eitt af mikilvægustu verkefnum setursins. Söfnun gagna byggir á sjálfviljugri þátttöku færsluhirða sem starfa á íslenskum markaði, þar sem RSV hefur engan lagalegan rétt til að krefja þá um upplýsingar. Í gegnum árin hefur setrið byggt upp gott samstarf við þessi fyrirtæki, sem hefur skilað mikilvægu gagnasafni fyrir íslenskt viðskiptalíf.

Þróun síðustu missera hefur þó kallað á nýjar áskoranir. Fjöldi færsluhirða hefur aukist verulega og verið hefur unnið hörðum höndum að því að kortleggja þessa aðila og fá þá til samstarfs. Því miður hefur sú vinna ekki gengið eins vel og vonir stóðu til. Þó íslenskir aðilar hafi verið opnir fyrir samtali, hefur reynst erfiðara að sannfæra erlenda færsluhirða um að afhenda gögn. Samræming á tölum RSV við Seðlabanka Íslands (SÍ) hefur sýnt fylgni, en erfiðleikar við að ná öllum aðilum hafa gert það nær ómögulegt að áætla heildarstærð markaðarins.

Greiðslumiðlunarfyrirtæki hafa þróast hratt með nýrri tækni, breyttum neytendavenjum og aukinni samkeppni. Þessi þróun, ásamt alþjóðavæðingu greiðslulausna, hefur leitt til þess að fyrirtæki geta náð til nýrra markaða með minna flækjustigi. Á sama tíma hefur þessi þróun gert það erfiðara fyrir RSV að tryggja heildstæð gögn.

Í byrjun sumars hættu gögn að berast frá einum af stærri færsluhirðunum hér á landi, sem leiddi til verulegra skekkja þegar gögnin voru borin saman við tölur Seðlabankans. Af þessum sökum var tímabundið gert hlé á birtingu gagna hjá RSV þar til hægt er að ná utan um alla færsluhirða á Íslandi. Stjórn RSV hefur sent beiðni til Seðlabankans um gögn beint frá þeim til að tryggja enn frekar áreiðanleika gagna og er von á svari fljótlega.

RSV leggur mikla áherslu á trúverðugleika gagna og hefur verið að vinna að breytingum á þessu ári til að styrkja áreiðanleika þeirra enn frekar. Það er nauðsynlegt að Ísland sé í takt við aðrar Evrópuþjóðir hvað varðar söfnun, greiningu og birtingu gagna um stóra útgjaldaliði í hagkerfinu, þar sem gott aðgengi að áreiðanlegum upplýsingum er lykilatriði.

Kíkið HÉR til að skoða Veltuna hjá RSV.

Nýr forstöðumaður ráðinn hjá Rannsóknarsetri verslunarinnar

Nýr forstöðumaður ráðinn hjá Rannsóknarsetri verslunarinnar

Klara Símonardóttir hefur verið ráðin forstöðumaður Rannsóknarseturs Verslunarinnar (RSV).

Klara kemur með umfangsmikla reynslu úr verslunar- og markaðsgeiranum, en hún starfaði áður sem framkvæmdastjóri Petmark. Hún hefur einnig víðtæka þekkingu á markaðsrannsóknum og viðskiptafræði, með BSc gráðu frá Háskólanum á Bifröst og MBA nám frá Háskólanum í Reykjavík.

“Það er fengur fyrir Rannsóknarsetrið að fá Klöru inn í hlutverk forstöðumanns en hún hefur stjórnunarreynslu úr íslenskri verslun og þekkingu á þörfum verslunarinnar á gögnum og hagnýtingu þeirra en einnig hefur hún bakgrunn úr markaðsrannsóknum og útgáfu sem kemur til með að nýtast afar vel við þróun starfseminnar”,

segir María Jóna Magnúsdóttir formaður stjórnar RSV í sérstakri fréttatilkynningu.

Nýjar áskoranir og tækifæri í sýndarveruleika: Áhrif á stjórnendur í verslun og þjónustu

Nýjar áskoranir og tækifæri í sýndarveruleika: Áhrif á stjórnendur í verslun og þjónustu

Í nýrri skýrslu um friðhelgi einkalífs og metaverse,frá Business at OECD er lýst möguleikum og áskorunum fyrir stjórnendur. Með vaxandi notkun sýndarveruleika [metaverse] verður mikilvægara en nokkru sinni fyrr að tryggja gagnavinnslu og friðhelgi viðskiptavina.

Fyrir verslun og þjónustu er mikilvægt að tryggja trúnað og öryggi við meðferð persónuupplýsinga, sérstaklega þar sem safna á og vinna úr líffræðilegum og persónulegum gögnum. Verslanir geta nýtt metaverse til að bæta viðskiptaupplifun með sýndarverslunum og persónusniðnum þjónustu, en það krefst skýrrar og öruggrar gagnavinnslu til að byggja upp traust viðskiptavina.

Þar kemur m.a. fram að stjórnendur þurfa að taka afstöðu til þess hvernig best er að innleiða nýja tækni á öruggan hátt, til að byggja upp traust og bæta viðskiptaupplifun.
Skýrslan leggur áherslu á að áhrifarík gagnaöryggi og stefnumótun verði lykillinn að velgengni í þessum nýja stafræna heimi.

Lesið nánar um áhrifin og tillögur skýrslunnar hér: Skýrsla OECD um metaverse.

„Rétturinn til viðgerðar“ samþykktur á vettvangi Evrópusambandsins

„Rétturinn til viðgerðar“ samþykktur á vettvangi Evrópusambandsins

Ráð Evrópusambandsins hefur samþykkti nýja tilskipun sem á að stuðla að viðgerð bilaðra eða gallaðra vara, einnig þekkt sem rétturinn til viðgerðar, R2R-tilskipunin. Með henni er ætlunin að gera neytendum auðveldara um vik að óska viðgerða í stað þess að skipta út vörum, og viðgerðarþjónusta verður aðgengilegri, gegnsærri o.fl.

Tilskipunin er hluti af neytendaáætlun ESB og aðgerðaáætlun um hringrásarhagkerfi og er viðbót við löggjöf ESB sem er ætlað að stuðla að sjálfbærri neyslu.

Tilskipunin felur í sér kröfur um að söluaðilar (framleiðendur) verði að laga vörur sem er hægt að laga samkvæmt lögum ESB; stöðlun upplýsingagjafar um viðgerðarferli (tímarammar, verð o.s.frv.); stofnun evrópsks netvettvangs þar sem neytendur eiga að geta fundið viðgerðarþjónustu og framlengingu á ábyrgðartíma vara um 12 mánuði ef neytendur velja viðgerð í stað útskipta.

Tilskipunin er merkt EES-tæk og því má búast við því að innan tíðar hefjist upptökuferli hennar í EES-samninginn og í kjölfarið verði íslenskum lögum breytt til samræmis við ákvæði tilskipunarinnar.

Sjá nánar frétt HÉR! 

Nýjar kröfur ESB um upplýsingar í sjóflutningum

Nýjar kröfur ESB um upplýsingar í sjóflutningum

ICS2 kerfið tekur til sjóflutninga 3. júní 2024
Evrópusambandið (ESB) hefur innleitt ICS2 (Import Control System 2) til að auka öryggi og bæta áhættugreiningu á vörusendingum. Nýja kerfið mun hafa áhrif á útflutning íslenskra fyrirtækja til ESB. Fyrirtæki þurfa að veita nákvæmari upplýsingar um vörusendingar áður en þær eru fluttar út.

Hvað er ICS2?
ICS2 er kerfi ESB sem geymir upplýsingar um vörusendingar áður en þær fara inn fyrir landamæri ESB. Fyrirtæki sem flytja vörur til eða í gegnum ESB, Noreg, Norður-Írland og Sviss sjóleiðina þurfa að uppfylla kröfur ICS2 til að forðast tafir í vöruflutningum.

Breytingar og afleiðingar
Nú þarf að skila ítarlegri upplýsingum um útfluttar vörur rafrænt með aðflutningsyfirlitsskýrslu (ENS). Ef upplýsingum er ekki skilað á réttum tíma stöðvast vörusendingin, tollafgreiðsla verður ekki framkvæmd og mögulega verða viðurlög.

Íslensk stjórnvöld hafa ekki tekið upp nýjar reglur en útflytjendur eru hvattir til að kynna sér kröfur erlendra tollyfirvalda.

Sjá nánari upplýsingar frá vef Skatturinn.is HÉR!