17/02/2016 | Fréttir, Verslun, Viðburðir
Morgunverðarfundur um möguleika íslenskra netverslana á Grand Hóteli, Hvammi, miðvikudaginn 24. febrúar.
SVÞ, í samvinnu við Póstinn, efnir til morgunverðarfundar um tækifæri íslenskra verslana í samkeppni við erlendar netverslanir. Fundurinn er öllum opinn, aðgangseyrir er kr. 2.900 og morgunverður innifalinn.
Dagskrá:
08.00-08.20 Mæting og léttur morgunverður
08.20- 08.30 Ávarp fundarstjóra – Margrét Sanders formaður SVÞ
08.30-08.50 Íslensk netverslun í tölum – Ólafur Elínarson viðskiptastjóri hjá Gallup
Hver er staða íslenskrar netverslunar? Versla Íslendingar frekar í erlendum en íslenskum netverslunum?
—
08.50-09.10 Netverslun verður að búð – Rakel Hlín Bergsdóttir eigandi Snúrunnar
Netverslunin Snúran.is var opnuð árið 2014 en 2015 var einnig opnuð verslun undir sama nafni í Síðumúlanum. Rakel Hlín Bergsdóttir eigandi Snúrunnar segir frá því af hverju hún opnaði netverslun og síðan verslun og hvað breyttist við opnun verslunarinnar.
—
09.10-09.30 Elko – Guðrún Ósk Sigurjónsdóttir vefstjóri Elko og Gestur Hjaltason
framkvæmdastjóri Elko
Hvaða breytingar hafa orðið í verslun hjá Elko síðan vefverslunin var tekin í gagnið?
—
09.30-10.00 Importance of e-commerce – Peter Somers CEO and owner at SPrintPack
Peter Somers hefur víðtæka reynslu af póstheiminum en hann hefur starfað sem stjórnandi hjá leiðandi dreifingarfyrirtækjum í 25 ár. Hann mun meðal annars fara yfir þá möguleika sem felast í netverslun og þau áhrif sem afhendingarmöguleikar hafa á netverslun.
Fyrirlesarar verða á svæðinu eftir að dagskrá er lokið til að ræða málin við fundargesti ásamt því að viðskiptastjórar Póstins verða til taks til að ræða þær lausnir sem Pósturinn býður upp á fyrir netverslanir.
SKRÁNINGOops! We could not locate your form.
15/02/2016 | Fréttir, Greining, Verslun
Samkvæmt tilkynningu frá Rannsóknasetri verslunarinnar var áfengisverslun kröftug í janúar. Velta áfengisverslunar var 11,6% meiri en á sama tíma í fyrra á breytilegu verðlagi. Verð áfengis hækkaði um 1% í janúar frá fyrri mánuði en um 0,8% borið saman við fyrra ár. Breytt fyrirkomulag við skattheimtu áfengis tók gildi um áramótin þegar áfengi fór í neðra þrep virðisaukaskatts en áfengisgjald hækkaði á móti, er tilgangur breytinganna að auka skilvirkni skattheimtunnar. Einn fylgifiskur breytinganna er að ódýrt áfengi hækkar hlutfallslega í verði á móti dýru áfengi en breytingarnar fela í sér að áfengislítrar eru skattlagðir af meiri þunga en útsöluverð.
Verslun með föt og skó var í minna lagi í janúar samanborið við janúar 2015 en fataverslun dróst saman um 2,3% og skóverslun minnkaði um 8,3%. Um áramótin voru tollar af fatnaði felldir niður en þess gætti þó ekki í verðlagi fatnaðar í janúar enda eldri vörur jafnan seldar á janúarútsölum. Verðlag á fatnaði hækkaði um 0,7% frá janúar í fyrra en lækkaði um 12,7% frá desember síðastliðnum vegna útsala.
Húsgagnaverslun í janúar var 31% meiri en í sama mánuði í fyrra og hefur vaxið stöðugt undanfarna mánuði. Þannig hefur velta síðustu sex mánaða verið 20,6% meiri en á sama tímabili 12 mánuðum fyrr. Verð húsgagna hefur farið lækkandi og var 5,2% lægra í janúar samanborið við janúar í fyrra en það þýðir ásamt veltuaukningunni magnvöxt um 38% frá janúar í fyrra.
Dagvöruverslun jókst um 3,7% í janúar frá fyrra ári á breytilegu verðlagi en 3,1% ef leiðrétt er fyrir verðlagsþróun. Verðlag dagvöru hækkaði um 0,9% frá fyrra ári en nú er rúmt ár liðið frá því að neðra þrep VSK hækkaði úr 7% í 11% samhliða niðurfellingu sykurskattsins. Er verðsamanburðurinn nú því raunhæfari á milli ára þar sem kerfisbreytingin í ársbyrjun 2015 fellur utan tímabilsins.
Eftir mikinn vöxt í veltu raftækja undanfarið hægðist nokkuð á vexti í verslun með farsíma og lítil (brún) raftæki í janúar borið saman við fyrra ár. Þannig var velta með farsíma 6,7% lægri í janúar en í sama mánuði í fyrra og velta með lítil raftæki 6,1% lægri en í janúar 2015. Velta með stærri (hvít) raftæki jókst í janúar um 12,3% frá sama mánuði í fyrra og velta með tölvur jókst um 19,5% í janúar eftir hægan vöxt undangenginna mánaða.
Veltuvísitala eftir vöruflokkum
Velta í dagvöruverslun jókst um 3,7% á breytilegu verðlagi í janúar miðað við sama mánuð í fyrra og um 2,8% á föstu verðlagi. Leiðrétt fyrir vikudaga- og árstíðabundnum þáttum jókst velta dagvöruverslana í janúar um 3,1% frá sama mánuði í fyrra. Verð á dagvöru hækkaði um 0,9% á síðastliðnum 12 mánuðum og var í janúar 0,5% hærra en í mánuðinum á undan.
Sala áfengis jókst um 11,6% í janúar miðað við sama mánuð í fyrra á breytilegu verðlagi og jókst um 10,7% á föstu verðlagi. Leiðrétt fyrir vikudaga- og árstíðabundnum þáttum jókst velta áfengis á föstu verðlagi í janúar um 11,7% frá sama mánuði í fyrra. Verð á áfengi var 0,8% hærra í janúar síðastliðnum en í sama mánuði í fyrra.
Fataverslun dróst saman um 2,3% í janúar miðað við sama mánuð í fyrra á breytilegu verðlagi og dróst saman um 2,8% á milli ára á föstu verðlagi. Verð á fötum var 0,7% hærra í janúar síðastliðnum en í sama mánuði í fyrra.
Velta skóverslunar minnkaði um 8,3% í janúar á breytilegu verðlagi og minnkaði um 6,4% á föstu verðlagi miðað við sama mánuð í fyrra. Leiðrétt fyrir árstíðabundnum þáttum minnkaði skósala um 5,6% frá sama mánuði í fyrra á föstu verðlagi. Verð á skóm lækkaði í janúar um 2,0% frá janúar í fyrra.
Velta húsgagnaverslana var 31% meiri í janúar en í sama mánuði í fyrra á breytilegu verðlagi og jókst um 38% á föstu verðlagi. Velta sérverslana með rúm jókst um 23,9% frá því í fyrra á breytilegu verðlagi. Velta sérverslana með skrifstofuhúsgögn jókst um 10% á breytilegu verðlagi. Verð á húsgögnum hefur lækkað um 5,2% á síðustu 12 mánuðum.
Verslun með byggingavörur jókst í janúar um 12,1% á breytilegu verðlagi og um 14,8% á föstu verðlagi. Verð á byggingavöru er 2,3% lægra en fyrir 12 mánuðum síðan.
Velta í sölu á tölvum jókst um 19,5% í janúar á breytilegu verðlagi miðað við sama mánuð í fyrra og farsímasala minnkaði um 6,1%. Sala minni raftækja, svokallaðra brúnvara, dróst saman um 6,7% á breytilegu verðlagi en sala stærri raftækja, svokallaðra hvítvara, jókst um 12,3% á milli ára. Verð á raftækjum fer almennt lækkandi. Þannig var verð á stórum raftækjum 11,6% lægra en fyrir 12 mánuðum síðan og á litlum raftækjum var verðið 1,1% lægra.
Nánari upplýsingar veitir Árni Sverrir Hafsteinsson arni@bifrost.is og í síma 868-4341
Slóð inn á vef RSV.
19/01/2016 | Fréttir, Verslun, Viðburðir
Reykjavíkurborgar og samstarfsaðila sem
haldin verður í Hvalasýningunni, Fiskislóð 23-25
- janúar 2016 kl. 18:00 – 20:00
Njarðarskjöldurinn eru hvatningarverðlaun og nú veitt í tuttugasta sinn. Markmið verðlaunanna er að hvetja til bættrar og aukinnar þjónustu í verslun við ferðamenn.
Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra, ávarpar gesti og afhendir verðlaunin. Kristín Birna Óðinsdóttir mun flytja ljúfa tóna og Anna Svava Knútsdóttir flytur gamanmál. Kynnir verður Áshildur föðurnafn, forstöðumaður Höfuðborgarstofu.
Veittar verða léttar veitingar.
Allir eru velkomnir og eru áhugasamir beðnir um að skrá sig á www.visitreykjavik.is/skraning
Reykjavíkurborg, Miðborgin okkar, Félag atvinnurekenda, Samtök verslunar og þjónustu,
Kaupmannasamtök Íslands, Global Blue á Íslandi og Tax Free Worldwide – Ísland
15/01/2016 | Fréttir, Greining, Verslun
Samkvæmt mælingum Rannsóknaseturs verslunarinnar var jólaverslun í desember síðastliðnum meiri en í sama mánuði árið áður í flestum tegundum verslunar. Þannig var mun meira keypt af raftækjum og húsgögnum fyrir þessi jól en árið áður. Matarinnkaup voru þó með svipuðu sniði og undanfarin ár en velta áfengisverslunar jókst frá fyrra ári um 6,8%.
Þó jólaverslun fari að langmestu leyti fram í desember hefur heildarhlutfall hennar verið að færast fram til nóvember. Líklega hafa útsölur í nóvember síðastliðnum, eins og sú sem kennd er við Black Friday, hvatt neytendur til að ljúka innkaupunum fyrir hátíðarnar fyrr en ella. Þess utan virðist sem jólaverslunin undanfarin ár hafi smám saman verið að dreifast yfir fleiri mánuði ársins og hlutfall jólaverslunar í desember hafi minnkað.
Á meðan velta í flestum tegunda verslana var meiri í desember en í nóvember, er því öfugt farið í byggingavöru- og húsgagnaverslun. Velta í byggingavöruverslun var 19,5% minni í desember en í nóvembermánuði á undan og velta húsgagnaverslunar minnkaði 1,3% á milli þessara mánaða. Fataverslun var hins vegar næstum tvöfalt meiri í desember en í mánuðinum á undan. Ef faraverslun í desember er hins vegar borin saman við sama mánuð fyrir ári sést að velta hennar jókst um 2,8% á milli ára.
Það er líklega tímanna tákn að sala á tölvum fari minnkandi á meðan mikill vöxtur er í sölu snjallsíma. Þannig gegna snjallsímar í vaxandi mæli hlutverki einstaklingstölva. Í desember jókst sala snjallsíma um 35,4% frá desember í fyrra en sala á tölvum dróst saman um 4,9% að nafnvirði á sama tíma.
Smásöluverslun 2015
Þegar horft er yfir veltu í verslun allt árið 2015 í samanburði við árið á undan sést að í veltuhæsta vöruflokknum, dagvöruverslun, var afar lítill munur á milli ára. Veltan jókst að nafnvirði um 1,4% en dróst saman að raunvirði um 0,9%. Öðru máli gegnir um verslun með varanlega neyslumuni eins og raftæki sem sótti mjög í sig veðrið á árinu. Lægra verðlag á þessum vörum virðist hafa hvatt til þess að neytendur endurnýjuðu heimilistækin í auknum mæli. Sala á snjallsímum 2015 jókst um fjórðung frá árinu áður. Árið 2015 var hins vegar ekki hagsælt fyrir fataverslun sem dróst saman um 1,2% frá árinu áður.
Veltuvísitala eftir vöruflokkum
Velta í dagvöruverslun jókst um 2,4% á breytilegu verðlagi í desember miðað við sama mánuð í fyrra og minnkaði um 0,3% á föstu verðlagi. Leiðrétt fyrir vikudaga- og árstíðabundnum þáttum minnkaði velta dagvöruverslana í desember um 0,8% frá sama mánuði í fyrra. Verð á dagvöru hækkaði um 2,7% á síðastliðnum 12 mánuðum og var í desember 0,3% lægra en í mánuðinum á undan.
Sala áfengis jókst um 6,8% í desember miðað við sama mánuð í fyrra á breytilegu verðlagi og jókst um 8,1% á föstu verðlagi. Leiðrétt fyrir vikudaga- og árstíðabundnum þáttum jókst velta áfengis á föstu verðlagi í desember um 4,9% frá sama mánuði í fyrra. Verð á áfengi var 1,1% lægra í desember síðastliðnum en í sama mánuði í fyrra.
Fataverslun jókst um 2,8% í desember miðað við sama mánuð í fyrra á breytilegu verðlagi og jókst um 5,5% á milli ára á föstu verðlagi. Verð á fötum var 2,4% lægra í desember síðastliðnum en í sama mánuði í fyrra.
Velta skóverslunar dróst saman um 3,7% í desember á breytilegu verðlagi og minnkaði um 2,7% á föstu verðlagi miðað við sama mánuð í fyrra. Leiðrétt fyrir árstíðabundnum þáttum minnkaði skósala um 2,3% frá sama mánuði í fyrra á föstu verðlagi. Verð á skóm lækkaði í desember um 1,0% frá desember í fyrra.
Velta húsgagnaverslana var 13,2% meiri í desember en í sama mánuði í fyrra á breytilegu verðlagi og jókst um 13,3% á föstu verðlagi. Velta sérverslana með rúm jókst um 7,7% frá því í fyrra á breytilegu verðlagi. Velta sérverslana með skrifstofuhúsgögn jókst um 18,9% á breytilegu verðlagi. Verð á húsgögnum hefur lækkað um 0,1% á síðustu 12 mánuðum.
Verslun með byggingavörur jókst í desember um 6,3% á breytilegu verðlagi og um 9,0% á föstu verðlagi. Verð á byggingavöru er 2,5% lægra en fyrir 12 mánuðum síðan.
Velta í sölu á tölvum minnkaði um 4,9% í desember á breytilegu verðlagi miðað við sama mánuð í fyrra og farsímasala jókst um 35,4%. Sala minni raftækja, svokallaðra brúnvara, jókst um 16,2% á breytilegu verðlagi en sala stærri raftækja, svokallaðra hvítvara, jókst um 18,2% á milli ára. Verð á öllum raftækjum fer lækkandi. Þannig var verð á stórum raftækjum 8,4% lægra en fyrir 12 mánuðum síðan og á litlum raftækjum var verðið 2,6% lægra.
Nánari upplýsingar veita Árni Sverrir Hafsteinsson (arni@bifrost.is) og Emil B. Karlsson (emil@bifrost.is), forstöðumaður Rannsóknaseturs verslunarinnar í síma 822 1203
Fréttatilkynning RSV.