29/01/2016 | Fréttir, Viðburðir
Samtök atvinnulífsins og Alþýðusamband Íslands skrifuðu undir nýjan kjarasamning fimmtudaginn 21. janúar. Samningurinn fer nú til kynningar hjá samningsaðilum og atkvæðagreiðslu og skulu niðurstöður liggja fyrir eigi síðar en 26. febrúar. Samningurinn gildir til loka árs 2018 og byggir á svokölluðu Rammasamkomulagi frá 27. október sl. og bókun með kjarasamningum SA og aðildarfélaga ASÍ um jöfnun lífeyrisréttinda milli almenna og opinbera vinnumarkaðarins.
Sjá nánar á vef Samtaka atvinnulífsins
Samtök verslunar og þjónustu bjóða félagsmönnum sínum til kynningarfundar um stöðu kjaramála fimmtudaginn 4. febrúar kl. 8.30 – 10.00 í Kviku, 1. hæð, Húsi atvinnulífsins.
Frummælendur á fundinum verða þau Margrét Sanders, formaður SVÞ og Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri SA.
28/01/2016 | Fréttir, Viðburðir
Icewear Magasín í Austurstræti hlýtur í ár Njarðarskjöldinn, hvatningarverðlaun til ferðamannaverslana í Reykjavík. Verðlaunin voru afhent 21. janúar sl. við hátíðlega athöfn í Hvalasýningunni við Fiskislóð.
Að viðurkenningunni standa SVÞ – Samtök verslunar og þjónustu, Félag atvinnurekenda, Reykjavíkurborg, Miðborgin okkar, Kaupmannasamtök Íslands, Global Blue á Íslandi og Tax Free Worldwide Ísland.
Njarðarskjöldurinn var nú veittur í tuttugasta sinn en markmð verðlaunanna er að hvetja til bættrar og aukinnar verslunarþjónustu við ferðamenn í Reykjavík.
Við tilnefningu ferðamannaverslunar ársins er leitast við að verðlauna þá verslun sem hefur náð hvað bestum söluárangri til erlendra ferðamanna milli ára. Horft er til markaðs- og kynningarmála, svo sem auglýsinga, vefs og útlits almennt. Aðrir þættir eru einnig skoðaðir sérstaklega svo sem þjónustulund, opnunartími, merkingar um endurgreiðslu virðisauka, lýsing, tungumálakunnátta starfsfólks og þekking á söluvörunum.
28/01/2016 | Fréttir, Viðburðir
Icelandair Hotels var valið menntafyrirtæki ársins 2016 á menntadegi atvinnulífsins sem var haldinn í þriðja sinn á Hilton Reykjavík Nordica 28. janúar 2016. Fyrirtækið Securitas var valinn menntasproti ársins og eru bæði fyrirtækin vel að verðlaununum kominn.
Um 300 manns sótti ráðstefnuna og mátti heyra að mikil ánægja var með þau erindi sem voru á dagskrá sem og kynningar á menntatorgi. Í kjölfar ráðstefnunnar voru menntastofur þar sem ákveðin þemu voru til umræðu. Hjá SVÞ – Samtökum verslunar og þjónustu var yfirskrift menntastofunnar Fræðsla erlendra starfsmanna. Sigríður Harðardóttir, mannauðsstjóri Strætó og Guðmundur Oddgeirsson, framkvæmdastjóri Hýsingar – Vöruhótel, fluttu erindi og í kjölfar voru líflegar umræður um þær áskoranir sem fyrirtæki standa frammi fyrir með aukinni sókn í erlent vinnuafl.
Menntadagur atvinnulífsins er samstarfsverkefni Samtaka ferðaþjónustunnar, Samtaka fjármálafyrirtækja, Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtaka iðnaðarins, Samtaka verslunar og þjónustu og Samtaka atvinnulífsins.
Í Sjónvarpi atvinnulífsins getur þú nú séð svipmyndir frá deginum ásamt upptökur af erindum í sameiginlegu dagskránni.
Smelltu hér til að kveikja á sjónvarpinu
Við óskum Icelandair hótelum til hamingju með að vera Menntafyrirtæki ársins 2016 og Securitas fyrir að vera Menntasproti ársins 2016.
28/01/2016 | Fréttir, Viðburðir
Samtök verslunar og þjónustu bjóða félagsmönnum til kynningarfundar um nýgerða kjarasamninga og stöðu kjaramála fimmtudaginn 4. febrúar n.k. kl. 8.30 – 10.00 í Kviku á 1. hæð í Húsi atvinnulífsins.
Frummælendur á fundinum verða þau Margrét Sanders, formaður SVÞ og Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri SA.
26/01/2016 | Fréttir, Menntun, Viðburðir
Áfram verður haldið með morgunverðafundi um menntun og mannauð og er dagskrá funda fram á vorið sem hér segir:
16. febrúar 2016 Raunfærnimat
15. mars 2016 Fræðsla erlendra starfsmanna – hindranir og áskoranir
19. apríl 2016 Dagskrá í vinnslu
Morgunverðarfundirnir byrja stundvíslega kl. 8:30 og standa í rúman klukkutíma. Allir eru velkomnir en skráningar er þörf. Fundarboð verða send út þegar nær dregur.
20/01/2016 | Fréttir, Menntun, Viðburðir
Menntun og fræðsla sem nýtist öllu atvinnulífinu verður í kastljósinu á menntadegi atvinnulífsins 28. janúar næstkomandi en þetta er í þriðja sinn sem dagurinn er haldinn. Boðið verður upp á fjölbreytta og skemmtilega dagskrá auk þess sem menntaverðlaun atvinnulífsins verða veitt fyrirtækjum sem hafa staðið sig vel á sviði fræðslu- og menntamála.
Menntadagur atvinnulífsins er samstarfsverkefni Samtaka ferðaþjónustunnar, Samtaka fjármálafyrirtækja, Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtaka iðnaðarins, Samtaka verslunar og þjónustu og Samtaka atvinnulífsins. Menntadagurinn er haldinn á Hilton Reykjavík Nordica og er vissara að skrá þátttöku tímanlega til að tryggja sér pláss.
Sameiginleg dagskrá er frá kl. 8.30-10 en kl. 10.30-12 er boðið upp á fjölbreyttar málstofur þar sem samtökin fjalla um brýnustu menntamálin innan einstakra atvinnugreina. Hægt er að skrá sig eingöngu á sameiginlegu dagskrána eða daginn í heild.
Einnig verður boðið upp á kynningar fræðslusjóða og fræðsluaðila á sérstöku menntatorgi en þar geta stjórnendur m.a. fengið greinargóðar upplýsingar um hvernig hægt er á einfaldan hátt að sækja um styrki til fræðslu starfsfólks til að efla það í leik og starfi.
Dagskrá:
8.30 – 10:00
Setning. Guðrún Hafsteinsdóttir, varaformaður SA.
Þúsundir nýrra starfa. Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra.
Tækni og skólastarf. Kristín Pétursdóttir, forstjóri Mentor.
Tækifærin í skapandi greinum. Sigurlína Ingvarsdóttir, yfirframleiðandi Star Wars: Battlefront hjá DICE.
Æi ég Googla það bara! Er framtíð fræðslu í okkar höndum? Hlíf Böðvarsdóttir, fræðslu- og gæðastjóri Securitas.
Vinnumarkaður, færni og framtíðin. Karl Sigurðsson, sérfræðingur hjá Vinnumálastofnun. Menntaverðlaun atvinnulífsins 2016. Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra afhendir verðlaunin.
10.00 -10:30
Kaffi og með því. Fræðslusjóðir og fræðsluaðilar kynna sig á Menntatorgi.
10.30 – 12:00
Menntastofur samtaka í atvinnulífinu. SAF, SFS, SFF, SI og SVÞ ræða brýnustu menntamálin innan einstakra atvinnugreina.
Fundarstjóri: Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka.
Vinsamlegast skráið þátttöku á vef SA: www.sa.is