04/11/2025 | Fréttir, Menntun, Ræktum vitið
Háskólinn á Bifröst hefur opnað fyrir umsóknir í BS-nám í Stjórnun í verslun og þjónustu á vorönn 2026. Námið er sérhannað fyrir þá sem starfa í verslunar- og þjónustugreinum og vilja efla hæfni sína í stjórnunar- og rekstrarhlutverkum innan einnar stærstu atvinnugreinar landsins.
Námið er sveigjanlegt og aðgengilegt — engin skólagjöld, engin mætingaskylda og fyrirlestrar aðgengilegir hvar og hvenær sem er. Þetta gerir þátttakendum kleift að samræma vinnu og nám á eigin forsendum. Umsóknarfrestur er til og með 7. desember – nánari upplýsingar má finna HÉR!
BS-námið í Stjórnun í verslun og þjónustu veitir traustan grunn að stjórnunarstarfi og styður við starfsþróun bæði til hagsbóta fyrir einstaklinginn og fyrirtækið. Samkvæmt nýlegri grein SVÞ starfar fjórði hver Íslendingur í verslun og þjónustu, en samt er algengur misskilningur að störf í greininni séu aðeins byrjunarstörf.
„Raunin er sú að á sviði verslunar og þjónustu fyrirfinnst eitt fjölbreyttasta starfsumhverfi landsins,“ segir Benedikt S. Benediktsson, framkvæmdastjóri SVÞ.
Námstilboðið fellur vel að samstarfsverkefni SVÞ og VR „Ræktum vitið“, sem hvetur fyrirtæki í verslun og þjónustu til sí og endurmenntunar til að efla menntun og hæfni starfsfólks – því mannauðurinn er besta samkeppnisforskot greinarinnar.
15/04/2025 | Fréttir, Greining, Greiningar, Menntun, Ræktum vitið, Stafræna umbreytingin, Verslun, Þjónusta
Niðurstöðuskýrsla úr svörum aðildarfyrirtækja SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu, í tengslum við könnun Menntadags atvinnulífsins sýnir m.a., að stjórnendur sjá fram á fjölgun starfsfólks á næstu fimm árum, sérstaklega utan höfuðborgarsvæðisins. Ekkert af þeim 23 fyrirtækjum sem svöruðu á landsbyggðinni ætlar að fækka starfsfólki – og hlutfallslega fleiri á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu áforma fjölgun.
Á sama tíma greina 42% fyrirtækja á landsbyggðinni frá því að skortur á starfsfólki hamli vexti þeirra – samanborið við 31% fyrirtækja á höfuðborgarsvæðinu. Hömlurnar eru jafnt yfir stór og lítil fyrirtæki, sem undirstrikar víðtæk áhrif á atvinnulífið.
Mestur er skorturinn í bílgreinum og heilbrigðisþjónustu, en einnig í flutningum og verslun. Þetta endurspeglar ákveðna hæfnibresti sem þarfnast markvissra lausna, bæði innan menntakerfisins og í gegnum símenntun og starfsþróun.
Þrátt fyrir að 89% fyrirtækja sem sjá tækifæri í gervigreind ætli ekki að fækka starfsfólki, eru fá fyrirtæki langt komin í nýtingu hennar. Tækifærin eru þó til staðar – og gervigreindin talin geta aukið samkeppnishæfni fyrirtækja.
Stuðningsúrræði til endurmenntunar, s.s. Áttin og starfsmenntasjóðir, virðast lítið þekkt – meira en 50% stjórnenda þekkja illa eða ekki til þeirra. Þrátt fyrir það nýta 53% fyrirtækja innan SVÞ slík úrræði, sem er örlítið hærra en meðaltal atvinnulífsins (46%).
SVÞ minnir á verkefnið ‘Ræktum vitið‘, sem er samstarfsverkefni SVÞ, VR og LÍV um hæfniaukningu starfsfólks í verslunar og þjónustugreinum.
Smelltu á SVÞ – Menntadagskönnun 2025 til að hlaða niður niðurstöðuskýrslu GALLUP 2025
31/03/2025 | Fréttir, Ræktum vitið, Verslun, Þjónusta
Samstarfsverkefni SVÞ, VR og LÍV er á góðri siglingu eftir formlega opnun á verkefninu Ræktum vitið.
Markmiðin eru skýr: að gera sí- og endurmenntun að eðlilegum og sjálfsögðum hluta af starfsumhverfi í verslunar- og þjónustugreinum.
Til að halda áfram á þessari braut og tryggja árangur – komum við til með að kanna árlega stöðuna hjá aðildarfélögum okkar og nú stendur einmitt yfir árleg könnun Maskínu og við hvetjum stjórnendur hjá aðildarfyrirtækjum SVÞ sérstaklega til þátttöku.
✔ Það tekur aðeins örfáar mínútur að svara
✔ Þín skoðun skiptir máli
✔ Með þátttöku leggur þú þitt af mörkum til áframhaldandi uppbyggingar
Líkt og áður eru tvær kannanir í gangi:
🔹 Ein fyrir starfsfólk innan VR
🔹 Og ein fyrir stjórnendur innan SVÞ
Við ætlum að ná þeim metnaðarfullu markmiðum sem sett voru í samstarfssamningnum – en við gerum það ekki án ykkar.
Maskína hefur nú sent út könnunartengil með tölvupósti – framlag þitt skiptir máli.