17/04/2018 | Fréttir, Samtök sjálfstæðra skóla, Viðburðir
Aðalfundur Samtaka sjálfstæðra skóla verður haldinn þriðjudaginn 24. apríl 2018 milli kl. 15:00 og 16.30 í Húsi atvinnulífsins, Borgartúni 35, Kviku, 1. hæð
Setning: Kristján Ómar Björnsson, formaður SSSK
Margrét Theodórsdóttir, skólastjóri Tjarnaskóla, stýrir fundinum.
Hefðubundin aðalfundastörf skv. 7. grein samþykkta:
- Skýrsla stjórnar
- Stjórn leggur fram endurskoðaða reikninga samtakanna
- Umræður um skýrslu og reikninga
- Félagsgjöld ársins
- Kosning formanns og varaformanns
- Kosning meðstjórnenda og varamanna
- Kosning tveggja skoðunarmanna
- Önnur mál
Að loknum hefðbundnum aðalfundarstörfum fer Þorsteinn Guðmundsson, leikari, með gamanmál.
Framboð til stjórnar þurfa að berast formanni stjórnar í síðasta lagi fyrir upphaf aðalfundar.
Fulltrúar rekstraraðila, skólastjórar, aðstoðarskólastjórar og aðrir stjórnendur eru hjartanlega velkomnir.
Skráning hjá aslaug@svth.is
13/04/2018 | Fréttir, Greinar, Í fjölmiðlum
Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu
Greinin birtist í Morgunblaðinu 13.04.18.
Á aðalfundi Landssamtaka sauðfjárbænda sem haldinn var fyrir nokkru var vandi greinarinnar mjög til umræðu. Ætti það ekki að koma neinum á óvart enda hefur þessi vandi verið til umræðu í einhverri mynd, svo lengi sem undirritaður hefur fylgst með. Á undanförnum árum og áratugum er búið að verja gífurlegum fjárhæðum af opinberu fé í tilraunum til að leysa vandann, bæði með beinum og óbeinum framlögum, m.a. með fjárframlögum til að leita nýrra markaða fyrir íslenskar sauðfjárafurðir. Þrátt fyrir öll þessi opinberu inngrip, er staða íslenskra sauðfjárbúa nú verri en nokkru sinni fyrr. Afurðastöðvarnar, sem eru að mestu í eigu bænda, hafa s.l. tvö ár tilkynnt eigendum sínum um verulega lækkun á afurðaverði. Skýringar sem gefnar hafa verið eru tímabundnir erfiðleikar á erlendum mörkuðum. Enn var því seilst í vasa skattgreiðenda s.l. haust þegar 665 milljónum króna var úthlutað til að leysa hinn tímabundna vanda. Svo vísað sé til mats sauðfjárbænda sjálfra er staðan í greininni sú að búin teljast vart rekstrarhæf.
Erfitt er að sjá hvernig vandi greinarinnar geti verið tímabundinn. Samkvæmt nýútkominni ársskýrslu Sláturfélags Suðurlands er framleiðsla á kindakjöti um 50% umfram innanlandsmarkað. Útflutningur, án opinbers stuðnings, mun í fyrirsjáanlegri framtíð ekki geta skilað þeim tekjum sem réttlætt geta útflutning. Hann skilar afurðastöðvunum 30 – 50% lægra verði en innanlandsmarkaður.
Þrátt fyrir að afurðastöðvar séu flestar í eigu bænda dró formaður Landssamtaka sauðfjárbænda upp þá mynd af stöðunni, að bændur væru valdalausir í verðlagsmálum sínum og vandi þeirra lægi fyrst og fremst í „fákeppni í smásölunni“. Sala og markaðssetning sauðfjárafurða á innanlandsmarkaði er í höndum afurðastöðvanna. Afurðastöðvarnar eru í sömu stöðu og aðrir birgjar á markaði, hvort sem þeir heita heildsalar eða iðnrekendur, afurðir þeirra er í samkeppni við aðrar vörur um hylli neytenda. Sú spurning er óneitanlega áleitin hvort afurðastöðvarnar hafi sinnt þörfum viðskiptavina sinna vel, t.d. varðandi vöruþróun.
Vandi sauðfjárbænda hefur ekkert með aðstæður á smásölumarkaði að gera. Vandi sauðfjárbænda er einfaldlega sá að þeir framleiða langt umfram það sem markaðurinn hefur þörf fyrir. Fyrsta verkefnið til lausnar á vanda greinarinnar hlýtur því að vera að aðlaga framleiðsluna að þörfum markaðarins og að sinna betur þörfum viðskiptavina sinna.
09/04/2018 | Fréttir, Stjórnvöld, Umsagnir
Í sameiginlegri umsögn SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu, Samtaka atvinnulífsins, Samtaka iðnaðarins, Samtaka ferðaþjónustunnar, Samtaka fjármálafyrirtækja, Samorku, Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi og Viðskiptaráðs Íslands voru gerðar alvarlegar athugasemdir við drög að frumvarpi til nýrra persónuverndarlaga.
Fulltrúar samtakanna fylgdu umsögninni eftir með fundi með Sigríði Á. Andersen dómsmálaráðherra og embættismönnum. Á þeim fundi kom fram vilji til að koma til móts við einhverjar athugasemdir samtakanna, en hvergi nærri allar.
Þá er mjög líklegt að innleiðingu á löggjöfinni verði ekki lokið fyrir 25. maí nk., þegar hún tekur gildi í Evrópusambandinu.
Samtökin hafa varað við því að hætta gæti verið á því að einhver erlend fyrirtæki væru tregari til að ganga til samninga við íslensk fyrirtæki þar sem reynir á vernd persónuupplýsinga. Til þess að koma í veg fyrir það gæti þurft að útskýra fyrir þeim að persónuupplýsingar séu nægjanlega verndaðar hér þótt reglugerð Evrópusambandsins hafi ekki enn verið innleidd.
Samtökin lögðu áherslu á það á fundinum að ráðuneytið myndi setja upplýsingar um stöðu innleiðingarinnar á íslensku og ensku á vef sinn fyrir íslensk fyrirtæki og viðsemjendur þeirra.
Sjá nánar:
03/04/2018 | Fréttir
Á fyrsta fundi nýrrar stjórnar SVÞ var Árni Stefánsson forstjóri Húsasmiðjunnar kosinn varaformaður SVÞ. Einnig voru eftirtalin kosin sem fulltrúar SVÞ í stjórn SA 2018-2019: Margrét Sanders, Jón Ólafur Halldórsson, Elín Hjálmsdóttir og Gunnar Egill Sigurðsson.
28/03/2018 | Fréttir, Greinar, Í fjölmiðlum, Verslun
Samkeppnisstaða íslenskrar netverslunar
Andrés Magnússon framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu
Greinin birtist í Fréttablaðinu 28.03.18.
Á Íslandi jafnt sem annars staðar vex netverslun nú hröðum skrefum. Sífellt stærri hópur neytenda kýs að haga viðskiptum sínum með þessum hætti, ekki síst yngra fólkið, s.k. aldamótakynslóð (e. Millennials eða Generation Y). Þessi þróun mun ekkert gera nema halda áfram á næstunni, aðeins á mun meiri hraða en hingað til.
Nýjar áskoranir fyrir alla
Breytingar sem þessar hafa í för með sér nýjar áskoranir fyrir verslunar- og þjónustufyrirtæki. Samkeppnin tekur á sig nýjar myndir, en í netverslun er samkeppnin fyrst og fremst alþjóðleg og þannig þvert á landamæri ríkja. Þó að samkeppnin sé alþjóðleg er engu að síður mikilvægt að allir aðilar á markaði, standi jafnt að vígi, hvar sem þeir eru staðsettir í heiminum. Þessar breytingar hafa nefnilega ekki aðeins í för með sér áskoranir fyrir fyrirtækin sem keppa á þessum markaði. Áskorunin er ekki síðri fyrir tollayfirvöld, en þeim ber að tryggja að greidd séu lögboðin gjöld af viðskiptum sem fara fram með þessum hætti og þannig stuðla að heilbrigðri samkeppni hvað innheimtu gjalda varðar.
Netverslun eykst hröðum skrefum
Á sl. ári voru um 550.000 sendingar til einstaklinga sem keypt höfðu vöru í netviðskiptum tollafgreiddar hér á landi. Var þar um 60% aukningu að ræða frá árinu 2016 og óhætt er að fullyrða að þessi tala fer hækkandi með hverju ári. Samkvæmt lögum eru eingöngu sendingar sem eru annað hvort gjafir eða þar sem verðmæti innihaldsins er 2.000 kónur eða minna undanþegnar virðisaukaskatti. Eins og staðan er núna má fullyrða að stór hluti sendinga komi til landsins án þess að greidd séu af þeim lögboðin opinber gjöld, fyrst og fremst virðisaukaskattur. Ríkissjóður verður þar með af verulegum skatttekjum, sem miðað við umfangið hljóta að nema hundruðum milljóna króna. Þess utan er póstþjónusta í Kína, þaðan sem stærstur hluti þessara sendinga kemur, niðurgreidd af stjórnvöldum þar í landi sem augljóslega vegur þungt í alþjóðlegri samkeppni.
Allir sitji við sama borð
Eins og öllum má ljóst vera er samkeppnisstaða íslenskrar netverslunar mjög þröng við þær aðstæður sem hér er lýst, svo ekki sé fastar kveðið að orði. Aftur á móti er samkeppni mikilvægur hlekkur í að efla innlenda starfsemi og stuðla að framþróun á þeim mörkuðum þar sem samkeppni ríkir. Hins vegar er mikilvægt að tryggja að aðilar sitji við sama borð er viðkemur opinberum kröfum og samspil við leikreglur á samkeppnismarkaði. Því er krafan vegna netviðskipta einfaldlega sú að tryggt verði að greiddur verði virðisaukaskattur af öllum vörum sem keyptar eru í formi netviðskipta til landsins, nema af þeim vörum sem óumdeilanlega eru undanþegnar skattskyldu. Þar sem hér fara saman hagsmunir hins opinbera og hagsmunir íslenskrar verslunar, er þetta svo sjálfsagt mál, að það ætti ekki einu sinni að þurfa að nefna það.
28/03/2018 | Fréttir
Guðbjörg S. Jónsdóttir, skrifstofustjóri SVÞ hefur látið af störfum, en hún varð 67 ára í desember s.l. Um leið og henni er óskað alls hins besta ókomnum árum eru henni þökkuð farsæl störf í þágu samtakanna undanfarin tíu ár.