06/07/2018 | Fréttir, Greinar
Menntakerfið og fjórða iðnbyltingin
Óhætt er að slá því föstu að fjórða iðnbyltingin muni hafa gríðarlegar samfélagslegar breytingar í för með sér. Hún mun verða knúin áfram af meiri og stórkostlegri tækninýjungum en áður hafa sést, nýjungum á borð við gervigreind, vélmenni, dróna og sýndarveruleika. Allar þessar breytingar eru af þeirri stærðargráðu að óhjákvæmilegt er að þær munu hafa veruleg áhrif á allt atvinnulíf eins og við þekkjum það í dag og þar með á allt daglegt líf fólks.
Þessar breytingar, sem eru aðeins handan við hornið, kalla á meiri og áður óþekktar áskoranir fyrir okkur öll. Það á ekki hvað síst við um menntakerfið. Stóra spurningin er því hvort menntakerfið okkar verður í stakk búið til að takast á við þessar breytingar. Hvernig búum við fyrirtæki í verslun og þjónustu undir þessar breytingar allar? Verður menntakerfið nógu fljótt að aðlaga sig að nýjum þörfum þessara mikilvægu atvinnugreina? Sennilega er ástæða til að hafa vissar áhyggjur, sagan segir manni nefnilega að „kerfið“ er mun seinna að bregðast við öllum breytingum en atvinnulífið, stundum miklu seinna.
Hvernig munu verslanir framtíðarinnar líta út? Verða þær kannski meira og minna „sjálfvirkar“ þar sem viðskiptavinir „skanna“ sig inn og út úr verslunum? Munu milliliðalaus viðskipti frá framleiðendum til neytenda verða næsta skref í þesssri þróun? Allt eru þetta áleitnar spurningar sem margir eru að velta fyrir sér nú um stundir.
Fjórða iðnbyltingin og allar þær breytingar sem hún mun kalla á, er stærsta áskorunin sem stjórnvöld standa frammi fyrir nú um stundir. Það skiptir lykilmáli við aðlögun að þeim breytingum verði aðlögun menntakerfisins sett í fyrsta sæti. Það er ein megin forsendan fyrir því að atvinnulíf á Íslandi haldi stöðu sinni inn í framtíðina og þar með forsendan fyrir því að unga fólkið okkar sem kemur út á vinnumarkaðinn á næstu árum, fái þau tækifæri sem það á skilið.
Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri SVÞ
27/06/2018 | Fréttir
Hægt er að senda inn tilnefningar fyrir Umhverfisverðlaun atvinnulífsins fram til 14. september næstkomandi með tölvupósti á sa@sa.is merkt: „Tilnefning til umhverfisverðlauna atvinnulífsins“.
Verðlaunin verða veitt á Umhverfisdegi atvinnulífsins sem fram fer í Hörpu miðvikudaginn 17. október. Veitt eru tvenn verðlaun; umhverfisfyrirtæki ársins og framtak ársins. Það er forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, sem afhendir verðlaunin. Að Umhverfisdegi atvinnulífsins standa Samtök atvinnulífsins, Samtök iðnaðarins, Samorka, Samtök ferðaþjónustunnar, Samtök fjármálafyrirtækja, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi og Samtök verslunar og þjónustu.
Icelandair hótel var valið umhverfisfyrirtæki ársins 2017 og Landsnet átti framtak ársins á sviði loftslagsmála 2017 fyrir snjallnet á Austurlandi. Umhverfisverðlaun atvinnulífsins voru fyrst afhent árið 2015 þegar Steinullarverksmiðjan á Sauðárkróki hlaut umhverfisverðlaunin og Orka náttúrunnar fékk viðurkenningu fyrir framtak ársins.
Dómnefnd velur úr tilnefningum og skoðar meðal annars eftirfarandi þætti:
Umhverfisfyrirtæki ársins:
Hefur innleitt umhverfisstjórnunarkerfi
Hefur aflað viðurkenninga fyrir starfsemina/afurðirnar
Hefur sjálfbæra nýtingu í stefnu sinni
Hefur dregið úr úrgangi og nýtir aðföng vel
Innra umhverfi er öruggt
Áhættumat hefur verið gert fyrir starfsemina
Gengur lengra en lög og reglur segja til um til að draga úr áhrifum starfseminnar á umhverfið
Framtak ársins:
Hefur komið fram með nýjung – nýja vöru, þjónustu eða aðferð – sem hefur jákvæð umhverfisáhrif
Hefur efnt til athyglisverðs átaks til að draga úr umhverfisáhrifum af starfsemi sinni
Gagnast í baráttu við loftslagsbreytingar
Hér er viðburðurinn fyrir Umhverfisdag atvinnulífsins 2018 á Facebook.
Á vef SA er hægt að skoða myndbandsupptöku frá Umhverfisdegi atvinnulífsins 2017.
14/06/2018 | Fréttir, Greiningar
Samantekt frá SVÞ um þróun undirliða vísitölu neysluverðs í maí 2018.
Hér má lesa greininguna í heild sinni.
11/06/2018 | Fréttir, Greinar, Stjórnvöld, Verslun
Brostin sátt um gildistöku tollkvóta á sérostum
Atvinnuveganefnd Alþingis hefur afgreitt álit sitt vegna breytinga á tollalögum og tekur til innflutning á svokölluðum sérostum. Um er að ræða mál sem upp kom í kjölfar lögfestingu á búvörusamningum en við þinglega meðferð málsins kom fram vilji Alþingis um að liðka fyrir innflutningi á svokölluðum sérostum, þ.e. ostum sem njóta sérstöðu vegna uppruna og landsvæða. Því átti að heimila innflutning á 210 tonnum af tollfrjálsum ostum strax á fyrsta ári tollasamningsins, þ.a. á þessu ári, til að vega á móti almennri tollahækkun á ostum sem búvörusamningar kveða á um. Þá skyldi þeim ostum vera úthlutað samkvæmt hlutkesti en ekki undirorpnir útboðsgjöldum. Þrátt fyrir sátt á Alþingi um þetta mál misfórst að gera nauðsynlega breytingu á lögum og því skilaði sá vilji þingsins sér ekki í lagatexta.
Fyrir liggur að mistök þessi voru tilkomin vegna atvika er varða lagaskrifstofu Alþingis og var í kjölfarið þrýst á um að nauðsynlegar breytingar verði gerðar á lögum til að koma þessum tollfrjálsa innflutningi á. Því lagði sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra fram frumvarp til breytinga á tollalögum til að leiðrétta þessi mistök og var í frumvarpinu lagt til að opna skyldi tollkvóta fyrir upprunatengdan ost úr vörulið 0406 þannig að viðbót árið 2018 verði 210 tonn, hlutfallslega í samræmi við dagsetningu gildistöku samnings, og tollkvóti á ári eftir gildistöku samnings Evrópusambandsins og Íslands um viðbótarfríðindi í viðskiptum með landbúnaðarafurðir verði 230 tonn.
Hefur atvinnuveganefnd Alþingis nú afgreitt frumvarpið út úr nefnd þar sem meirihlutinn leggur til breytingu á frumvarpinu í þá veru að viðbót árið 2018 verði 105 tonn og að viðbót árið 2019 verði 105 tonn. Magnið yrði samkvæmt því innleitt á tveimur árum en ekki einu. Því yrði tollkvótinn frá og með árinu 2019 230 tonn. Er afgreiðsla nefndarinnar þvert á markmið frumvarpsins og gengur gegn þeim fyrirheitum sem gefin voru við lögfestingu búvörusamninga. Þá leggur nefndin einnig til að fyrir 1. nóvember 2018 skuli sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hafa látið vinna úttekt þar sem metin verði þau áhrif á íslenskan markað sem orsakast af innflutningskvótum á ostum sem eru verndaðir með upprunatáknum eða með vernduðum landfræðilegum merkingum.
SVÞ gagnrýna harðlega þessa afgreiðslu atvinnuveganefndar og telja hana atlögu af þeirri sátt sem náðist á Alþingi vegna þeirra hækanna sem lögfesting búvörusamninga höfðu á tilteknar vörur. Telja SVÞ afgreiðslu þessa ganga freklega gegn hagsmunum bæði verslunar og neytenda til þess eins að vernda innlenda hagsmuni án þess þó að framleiðsla sérosta eigi sér hér stað.
08/06/2018 | Fréttir, Greinar, Samtök heilbrigðisfyrirtækja
Ekki verður betur séð en að heilbrigðisráðherra þjóðarinnar sé í einhverskonar afneitun þegar kostnaður og gæði heilbrigðisþjónustunnar eru annars vegar. Eitt virtasta tímarit heims í læknisfræði, The Lancet, birti fyrir nokkrum dögum úttekt á heilbrigðistengdum gæðavísum og aðgengi að heilbrigðisþjónustu 195 landa fyrir árið 2016. Til að gera langa sögu stutta toppar Ísland þennan lista. Erfitt er að ímynda sér hvernig hægt er að fá betri staðfestingu á góðu kerfi og glæsilegri frammistöðu heilbrigðisstarfsfólks. Sjálfsagt er að óska því fólki til hamingju. Við getum verið stolt af árangrinum enda þótt ráðherrann virðist ekki mega heyra á hann minnst.Hin almenna heilbrigðisþjónusta byggir á þremur grunnstoðum: Heilsugæslu, starfsemi sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsmanna og sjúkrahússþjónustu. Nokkuð góður samhljómur hefur verið um þessa þrískiptingu fram til þessa. Hér skiptir mestu að þarfir neytandans séu ávallt hafðar í forgangi. Sjúklingar hafi gott aðgengi að þjónustunni á sínum forsendum, gæði hennar séu fyrsta flokks og kostnaður, sem ávallt skal greiddur af hinu opinbera, sé samkeppnishæfur við það sem best gerist í nágrannalöndum okkar.
Sérfræðiþjónusta lækna hefur um áraraðir verið kjölfesta góðrar læknisþjónustu hér á landi. Á síðasta ári tóku sérfræðilæknar á rammasamningi við Sjúkratryggingar Íslands á móti um 500 þúsund heimsóknum. Þeir framkvæmdu meðal annars um átján þúsund skurðaðgerðir og þúsundir speglana auk margskonar lífeðlisfræðilega rannsókna. Á sama tíma voru um 244 þúsund komur á göngudeild Landspítala og um 250 þúsund komur á Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Þannig er stofustarfsemi sérfræðilækna stærri en göngudeildarstarfsemi þessara tveggja stærstu heilbrigðisstofnana landsins.
Um 350 læknar starfa á samningnum í ýmsum sérgreinum. Til viðbótar eru um 300 önnur stöðugildi fagfólks í ýmsum greinum. Enda þótt starfsemin sé afar umfangsmikil er athyglisvert að hún tekur einungis til sín um 6% af heildarútgjöldum til heilbrigðisþjónustunnar. Sérfræðiþjónustan er einfaldlega vel rekin, ódýr miðað við nágrannalöndin og með gott aðgengi sjúklinga. Gæðin þarf enginn að draga í efa. Það er vandséð annað en að hér sé vel sé farið með hverja krónu skattfjárins.
Engu að síður eru þeir til sem þreytast ekki á að agnúast út í þessa sjálfstæðu starfsemi lækna. Ýmist virðist sá málflutningur byggður á vanþekkingu, þráhyggju eða hagsmunagæslu – og stundum ef til vill allt í senn. Við hvetjum embættismenn í kerfinu, stjórnmálamenn og ekki síst ráðherra heilbrigðismála til að viðurkenna þær staðreyndir um ágæti og hagkvæmni þessarar þjónustu sem blasa við öllum þeim sem skilja vilja.
Samningur sérfræðilækna og SÍ rennur út um næstu áramót. Læknar hafa án árangurs kallað eftir áætlunum ráðherrans um margra mánaða skeið. Vísbendinguna fengu þeir loks í gegnum örstutta sjónvarpsfrétt. Samningurinn er að hennar mati til óþurftar og stórfelld uppbygging göngudeilda sjúkrahúsanna það sem koma skal í staðinn. Nokkuð sem gengur þvert á þróun í öðrum löndum. Öllum er ljóst að slík uppbygging tæki mörg ár og enginn sparnaður mun af hjótast. Við spurningu fréttamannsins um hvað myndi gerast í millibilsástandinu kom ekkert svar annað en að ráðherrann hefði ekki svarið. Margir sjúklingar eiga bókaða tíma hjá sérfræðilæknum eftir áramót og langt inn í næsta ár. Þeir hafa svarið ekki heldur.
Ein af helstu röksemdum, en um leið rangfærslum, ráðherrans er að samningurinn sé opinn og að til hans streymi ótakmarkað fé. Það er einfaldlega rangt og við leyfum okkur að fullyrða að ráðherrann veit betur. Sjúkratryggingar tryggja sér „einkarétt“ á þjónustu læknis á samningnum. Nýliðun í stétt sérfræðilækna á stofu hefur algerlega verið stöðvuð í meira en tvö ár. Til þess hafa stjórnvöld reyndar margsinnis þurft að þverbrjóta samninginn en ráðherrann virðist láta sér það í léttu rúmi liggja, væntanlega með það í huga að tilgangurinn helgi meðalið.
Með því að loka á nýliðun og læsa unga lækna úti í orðsins fyllstu merkingu er ráðherrann ekki að draga úr eftirspurn heldur minnka þjónustu og rýra gæði hennar. Veruleg hætta er á því að læknar sem ekki komast heim þegar þeim hentar ílengist erlendis og snúi jafnvel aldrei til baka. Samninginn þarf að opna strax. Verði hann látinn renna út án endurnýjunar er tvöfalt heilbrigðiskerfi þar sem hinir efnameiri kaupa sér forgang endanlega orðið að veruleika. Þjóðin hefur aldrei getað hugsað sér slíkt fyrirkomulag. Ráðherrann sýnist hins vegar stefna þangað með þessum háskalega leik sínum.
Höfundar:
Stefán E. Matthíasson, formaður Samtaka heilbrigðisfyrirtækja
Þórarinn Guðnason, formaður Læknafélags Reykjavíkur
31/05/2018 | Fréttir
Ný skýrsla um stöðu og horfur í íslenskri verslun er í undirbúningi og kemur út á næstu vikum. Í henni kemur fram að verslun er að mörgu leyti á tímamótum vegna tilkomu stafrænna tækni og aukningar netverslunar. Auk SVÞ, standa að skýrslunni atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið og VR. Skýrslan er unnin undir stjórn Rannsóknaseturs verslunarinnar og í samstarfi við Hagfræðistofnun HÍ.
Teknar hafa verið saman upplýsingar um þróun netverslunar og breytingar sem eiga sér stað á hefðbundnum verslunum með tilkomu stafrænnar tækni og breytts verslunarmynsturs. Sérstaklega er horft til áhrifa þessara breytinga á íslenska verslun, störf í greininni svo og tækifæri til nýsköpunar. Þá er einnig höfð til hliðsjónar sambærileg þróun í nágrannalöndum okkar og hvaða áhrif verslun almennings yfir landamæri hefur á íslenska verslun.
Birtar verða upplýsingar um umfang innlendrar netverslunar og þess sem landsmenn kaupa frá erlendum netverslunum. Þá eru birtar niðurstöður úr nýrri skoðanakönnum um netverslun Íslendinga og viðhorf þeirra sem reka íslenskar netverslanir.
Í skýrslunni eru skoðuð áhrif erlendrar samkeppni í verslun, m.a. netverslun, fatakaup Íslendinga erlendis o.fl. Þá verður fjallað um samruna sem nú á sér stað milli hefðbundinnar verslunar og netverslunar með tilkomu stafrænnar tækni og snjalltækjum. Settar verða upp sviðsmyndir um framtíð íslenskrar verslunar. Að lokum verða settar fram tillögur að stefnumótun hagsmunaaðila (bæði launþega og vinnuveitenda) í samstarfi við stjórnvöld. Markmiðið er að nýta sem best þau sóknarfæri sem felast í þeim stórstígu breytingum sem eiga sér stað með hagsmuni bæði verslunar og neytenda í huga.