Sundabraut – að afloknum kosningum

Sundabraut – að afloknum kosningum

Á vel heppnuðum fundi, sem fjögur samtök í atvinnulífinu héldu með þátttöku frambjóðenda helstu framboðanna í Reykjavík, í aðdraganda nýafstaðinna sveitarstjórnarkosninga,  bar margt á góma. Fjölmörg hagsmunamál er varða samskipti atvinnulífs og borgaryfirvalda voru þar tekin til umfjöllunar. Eitt þeirra var viðhorf framboðanna til Sundabrautar, en það vakti sérstaka athygli að nær öll framboðin voru þeirrar skoðunar að ráðast ætti í þá stóru framkvæmd.

Sundabraut er búin að vera á inni á aðalskipulagi Reykjavíkurborgar frá 1984. Þegar fyrri umræður um málið eru skoðaðar,  kemur í ljós að þessi framkvæmd hefur jafnan notið almenns stuðnings, bæði borgaryfirvalda og þeirra ráðherra sem farið hafa með samgöngumál.  Ekki þarf að fjölyrða um ástand samgöngukerfisins og þann mikla umferðarþunga sem er á vegunum nú 34 árum eftir að Sundbraut kom fyrst á aðalskipulag.  Það má segja að ástandið sé nú orðið að stóru vandamáli, bæði út á þjóðvegum til og frá höfuðborgarsvæðinu og innan borgarinnar. Þegar horft er til þeirrar miklu aukningar á umferð til og frá borginni á undanförnum árum, bæði vegna vöruflutninga og ekki síður vegna fólksflutninga verður að teljast sérkennilegt að ekkert hafi gerst allan þennan tíma. Sennilega er engin ein samgönguframkvæmd hér á landi eins aðkallandi og Sundabraut.

Á síðustu tuttugu árum hefur samgöngukerfið til og frá Sundahöfn og Vogabakka ekkert breyst, engar umtalsverðar lagfæringar eða viðbætur. Sæbrautin er einfaldlega löngu sprungin, en um þá samgönguæð fara nær allir vöruflutningar til og frá landinu, ef frá er skilið eldsneyti og framleiðsla stóriðjuvera. Því til viðbótar fara um Sæbraut þeir 130 þúsund ferðamenn sem koma til landsins á hverju ári með skemmtiferðaskipum. Nýlegar kannanir sýna að ferðatími innan höfuðborgarsvæðisins er að aukast með tilheyrandi kostnaði og óþægindum bæði fyrir íbúana og atvinnulífið í borginni.

Öll rök í þessu máli hníga í eina átt. Pólitískur vilji er til staðar. Þörfin fyrir framkvæmdinni fyrir atvinnulíf og íbúa liggur í augum uppi. Kominn er tími á athafnir í stað orða.

Ferska kjötið inn á borð Hæstaréttar

Ferska kjötið inn á borð Hæstaréttar

Í desember 2011 sendu SVÞ kvörtun á Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) vegna innleiðingar íslenskra stjórnvalda á matvælalöggjöf EES-samningsins sem að mati samtakanna hafi ekki verið í samræmi við þá löggjöf. Íslenskar reglur fela þannig í sér innflutningstakmarkanir á fersku kjöti og ýmsum mjólkurvörum. Innflytjendur verða því að sækja um sérstakt leyfi til innflutnings á þessum vörum og leggja fram margvísleg gögn til Matvælastofnunar.

 

SVÞ telja bann þetta ganga gegn ákvæðum EES-samningsins hvað varðar frjálsa vöruflutninga og að eftirlitskerfi hér á landi með innflutningi feli í sér landamæraeftirlit sem er ekki í samræmi við löggjöf EES-samningsins. Að mati SVÞ hefur ekkert komið fram að íslenskum stjórnvöldum sé ekki unnt að gæta að heilbrigði manna og dýra innan ramma matvælalöggjafar EES-samningsins. Þá hafa stjórnvöld ekki sýnt fram á með rökstuddum hætti að innlendum hagsmunum sé ógnað með innflutningi á fersku kjöti en samkvæmt matvælalöggjöf EES-samningsins eru ríkar kröfur gerðar til áhættumats og öryggis matvæla og hvílir rík ábyrgð á framleiðendum kjöts hvað þetta varðar.

 

Eftir rannsókn sína á málinu komst ESA að sömu niðurstöðu og SVÞ að íslensk löggjöf hvað varðar innflutning á fersku kjöti frá öðrum EES-ríkjum er andstæð EES-samningnum. Tók ESA að fullu undir sjónarmið SVÞ í málinu um að núverandi kerfi feli í sér óréttlætanlegar og ónauðsynlegar viðskiptahindranir. Þar sem íslensk stjórnvöld höfðu enn ekki brugðist við rökstuddu áliti stofnunarinnar og gripið til viðeigandi ráðstafanna vísaði ESA málinu til EFTA-dómstólsins sem staðfesti einnig ólögmæti innflutningstakmarkana á fersku kjöti.

 

Þessu til viðbótar liggur fyrir dómur Héraðsdóms Reykjavíkur, og ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins í því tiltekna máli, frá nóvember 2016 um ólögmæti þessara innflutningstakmarkana. Var það aðildarfélag SVÞ sem lét reyna á umræddar takmarkanir í því máli. Íslenska ríkið áfrýjaði því máli til Hæstaréttar. Nú liggur fyrir að mál þetta er komið á dagskrá Hæstaréttar og verður það tekið fyrir 28. september nk., eða rúmum 4 árum eftir að málið kom fyrst inn á borð héraðsdóms og 7 árum eftir að SVÞ sendu upphaflega kvörtun til ESA – kvörtun sem kom hreyfingu á málið og markaði upphaf þess.

 

Um leið og SVÞ fagna því að loks fari að sjá fyrir endann á þessu máli þá gagnrýna samtökin tregðu stjórnvalda að bregðast við fyrirliggjandi og vel rökstuddum og málefnalegum niðurstöðum dómstóla og eftirlitsaðila í málinu. Er það krafa SVÞ að innflutningur á fersku kjöti, sem unnið er í samræmi við strangar samevrópskar kröfur og undir eftirliti annarra EES-ríkja, verði heimilaður hér á landi í samræmi við EES-löggjöf.

 

Tollstjóri óskar eftir fyrirtækjum til að taka þátt í tilraunaverkefninu „Viðurkenndir rekstraraðilar“ (AEO-vottun)

Tollstjóri óskar eftir fyrirtækjum til að taka þátt í tilraunaverkefninu „Viðurkenndir rekstraraðilar“ (AEO-vottun)

Tollstjóri hefur að undanförnu unnið að innleiðingu á AEO-vottun hér á landi. AEO er alþjóðleg gæðavottun sem felur í sér að fyrirtækið er talið vera öruggur hlekkur í aðfangakeðjunni, hefur tileinkað sér ábyrga tollmeðferð og uppfyllir kröfur um alþjóðlega vöruflutninga.

Markmiðið með innleiðingu á AEO öryggisvottun er að tryggja samkeppnishæfni íslensks útflutnings og stuðla að bættu markaðsaðgengi íslenskra útflutningsgreina. Fyrirtæki sem eru með starfsemi hér á landi og eru hluti af alþjóðlegu aðfangakeðjunni geta sótt um vottunina.  Þessi fyrirtæki geta verið eftirfarandi: Inn- og útflytjendur, framleiðendur, farmflytjendur og tollmiðlarar.

Embætti Tollstjóra leitar eftir fyrirtækjum til að taka þátt í tilraunverkefninu „Viðurkenndir rekstraraðilar“ (AEO-vottun). Valin verða nokkur fyrirtæki sem gegna mismunandi hlutverkum í aðfangakeðjunni til að vera þátttakendur í verkefninu. Markmiðið er að prófa umsóknar- og vottunarferlið áður en AEO-vottunin verður formlega tekin í notkun. Í lok verkefnisins mun fyrirtækið hljóta AEO-vottun þar sem það staðfestist að fyrirtækið stenst öll öryggisskilyrðin og getur sýnt fram á fullnægjandi ferla í tollframkvæmd.

Við val á fyrirtækjum í tilraunaverkefnið verður meðal annars tekið tillit til eftirfarandi atriða:

  • Umfang viðskipta, fjölda tollskýrslna og heildarfjárhæðir viðskipta.
  • Víðtæk alþjóðleg viðskipti og millilandaflutningar.
  • Staða öryggismála og öryggisvitund innan fyrirtækisins, einkum m.t.t. öryggis alþjóðlegu aðfangakeðjunnar.
  • Til staðar sé virkt gæðakerfi, hugað sé að meðhöndlun frávika, innra eftirliti og umbótastarfi.
  • Dótturfyrirtæki eða móðurfyrirtæki sem hlotið hafa AEO-viðurkenningu erlendis.
  • Hlutverk fyrirtækisins í aðfangakeðjunni.

Þeir rekstraraðilar sem hafa áhuga á að taka þátt í tilraunaverkefninu eru beðnir um að senda inn beiðni um þátttöku með því að senda tölvupóst á aeo@tollur.is. Nánari upplýsingar veitir Elvar Örn Arason, umsjónarmaður AEO, í gegnum tölvupóst elvar.arason@tollur.is eða í síma 894 2409. Fresturinn til að senda inn umsókn er miðvikudagurinn 6. júní 2018.

AEO kynningarbæklingur

Fræðslufundurinn „Hvað kaupa erlendir ferðamenn?“

Fræðslufundurinn „Hvað kaupa erlendir ferðamenn?“

„Hvað kaupa erlendir ferðamenn?“ var yfirskrift fræðslufundar á vegum SVÞ sem haldinn var 2. maí.
Fundurinn vakti mikla lukku og komust færri að en vildu, en sem betur fer var hann tekinn upp.
Hér má horfa á fundinn í heild sinni á Facebook.

Hér má svo lesa glærurnar frá fundinum:

Íslensk ferðaþjónusta – Elvar Orri Hreinsson & Bjarnólfur Lárusson

Smásöluverslun til útlendinga – Árni Sverrir Hafsteinsson

Leiðtogaumræður í Reykjavík 2018

Leiðtogaumræður í Reykjavík 2018

Oddvitar stærstu framboðanna í Reykjavík fyrir sveitarstjórnarkosningarnar 26. maí næstkomandi, mætast á opnum fundi í Gamla bíó, miðvikudaginn 9. maí kl. 8.30-10.

SA, SAF, SI og SVÞ boða til fundarins þar sem rætt verður um sambúð borgar og atvinnulífs.

Þátt taka, Dagur B. Eggertsson, Samfylkingunni, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Pírötum, Eyþór Arnalds, Sjálfstæðisflokknum, Ingvar Jónsson, Framsóknarflokknum, Líf Magneudóttir, Vinstri-grænum, Vigdís Hauksdóttir, Miðflokknum og Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, Viðreisn.

Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri SVÞ, Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður SAF, Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI spyrja frambjóðendur um helstu stefnumál þeirra gagnvart atvinnulífinu en Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, stýrir fundi.

Fundurinn er öllum opinn og aðgangur er ókeypis en nauðsynlegt er að skrá þátttöku hér á vefnum.
Boðið verður upp á létta morgunhressingu, kaffi og með því.

Hér má skrá sig