28/03/2018 | Fréttir
Að undanförnu hefur verið unnið að undirbúningi að stofnun hóps hreingerningarfyrirtækja innan SVÞ í því skyni að vinna að sameiginlegum hagsmunamálum fyrirtækja innan greinarinnar. Það eru fjölmörg mikilvæg mál sem brenna á hreingerningarfyrirtækjum og má þar nefna útboðsmál, kjarasamningamál, auk almennra ytri rekstrarskilyrða greinarinnar. Stefnt er að formlegum stofnfundi í apríl en helsti hvatamaður að stofnun hópsins er Ari Þórðarson, framkvæmdatjóri Hreint hf.
19/03/2018 | Fréttir, Í fjölmiðlum
Viðtalið birtist í dag í Morgunblaðinu og á mbl.is.
Hátt yfirvinnukaup kann að skýra langa vinnuviku
Þegar verslunar- og þjónustufyrirtæki auglýsa laus hlutastörf á yfirvinnutíma er enginn skortur á umsóknum, en treglega gengur að manna fullar stöður á hefðbundnum dagvinnutíma. Þetta segir Margrét Sanders, formaður Samtaka verslunar og þjónustu, en þetta fjallaði hún um á ársfundi SVÞ í síðustu viku og benti þar á að fylgja mætti fordæmi Dana þar sem yfirvinnukaup er hlutfallslega lægra en grunnlaunin aftur á móti hærri.
„Á Íslandi er launakostnaður fyrirtækja hlutfallslega sá sami og á hinum löndunum á Norðurlöndunum, en samt eru hinar Norðurlandaþjóðirnar að borga töluvert hærri grunnlaun. Þá bjóða hin löndin starfsfólki yfirleitt upp á meiri sveigjanleika svo það geti aðlagað vinnustundirnar betur eigin þörfum,“ segir Margrét og bendir á að hátt yfirvinnukaup kunni að skýra hvers vegna vinnuvikan er eins löng og raun ber vitni hjá meðal Íslendingnum. „Íslendingar vinna 15% meiri yfirvinnu en Danir og hlýtur m.a. að stafa af því að verið er að skapa ákveðna hvata þegar yfirvinnugreiðslur eru háar en grunnlaunin lág. Samt skilar þessi ofuryfirvinna á Íslandi okkur ekki miklu, og heildarafköstin eru svipuð og hjá hinum Norðurlandaþjóðunum þó að vinnuvikan sé mun lengri.“
Íslenska yfirvinnulaunakerfið, þar sem tiltölulega ströng viðmið gilda um á hvaða tímum dags og á hvaða dögum vikunnar á að borga yfirvinnu, kann að vera barn síns tíma að sögn Margrétar, og hefur kannski hentað best þegar yfirleitt var ekki nema ein fyrirvinna á heimilum og líf fólks einfaldara og fábrotnara. Í dag gæti verið öllum fyrir bestu að innleiða nýja hugsun, þar sem fólk gæti t.d. ráðið meira um það á hvaða tímum dagsins og vikunnar það vinnur. „Það hentar ekki endilega öllum best að vinna frá 8 til 4 eða 9 til 5. Ég sé fyrir mér að hjá sumum fjölskyldum þætti foreldrunum eftirsóknarvert að geta skipt deginum á milli sín, þar sem önnur fyrirvinnan hefur störf snemma og hin seint, með betri tíma fyrir báða til að sinna börnum og heimili á morgnana og kvöldin. Svo eru sumir sem fagna því að eiga frí í miðri viku eða geta raðað vöktum sínum þannig að falli að áhugamálum og fjölskyldulífi.“
Segir Margrét að tæknin sé þegar til staðar til að skapa þennan sveigjanleika með lítilli fyrirhöfn fyrir alla og útbúa vaktakerfi þar sem starfsfólkið getur ráðið meiru um vinnutíma sinn. „Vinnufyrirkomulagið gæti verið að hluta fast, og að hluta sveigjanlegt, en af hinu góða fyrir starfsmenn ef hægt er að auka sveigjanleikann frá því sem nú er. Verkalýðshreyfingin og atvinnurekendur þurfa að standa saman að þessum breytingum.“
Margrét segir einnig að tækniframfarir séu þegar farnir að valda miklum breytingum á vinnumarkaði og áríðandi að vinnuveitendur hjálpi starfsfólki sínu að aðlagast breyttum aðstæðum með menntun og þjálfun við hæfi. Margir óttast að störf í verslun og þjónustu séu í hættu og má t.d. finna veitingastaði sem taka við pöntunum í gegnum tölvu, og matvöruverslanir þar sem viðskiptavinirnir afgreiða sig sjálfir. „Sum störf munu hverfa, en það verða til ný störf í staðinn og þurfa vinnuveitendur að hjálpa starfsfólki sínu að vera í stakk búið fyrir breytingarnar.“
Margrét er með þessu ekki að segja að senda þurfi hvern sölumann og þjón á námskeið í forritun, heldur frekar að tryggja að fólk læri að taka tæknina í þjónustu sína. „Það þarf ekki að umturna störfum fólks og menntun, heldur einfaldlega tryggja að sem flestir geti verið samstiga þróuninni, læri í vinnunni og bæti við sig færni jafnóðum.“
16/03/2018 | Fréttir
Samtök verslunar og þjónustu, SVÞ, hafa í samvinnu við Tækniskólann, unnið að undirbúningi stúdentsbrautar við skólann þar sem lögð verður áhersla á stafrænar lausnir og færnisþjálfun. Þessi námsbraut er hugsuð fyrir nemendur sem stefna að störfum innan verslunar- og þjónustugeirans. Þetta kom fram í erindi Margrétar Sanders formanns SVÞ á ársfundi samtakanna í dag sem haldinn var á Hilton Reykjavík Nordica. „SVÞ er búið að leggja áherslu á að auka framboð menntunar til að mæta áskorunum sem fylgja þeim breytingum sem eru að eiga sér stað í samfélaginu vegna tækniframfara og breyttar neysluhegðunar fólks“ sagði Margrét ennfremur. Ráðstefnan bar yfirskriftina „Framtíðin er núna!“ og á henni var horft til framtíðar og á þá áhrifavalda sem hafa áhrif á breytingar á straumum og stefnum hvað viðkemur verslun og þjónustu. Ráðherra ferðamála, viðskipta- og iðnaðar, Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir opnaði dagskrá ráðstefnunnar auk ráðherra og Margrétar Sanders fluttu Magnus Lindkvist sænskur framtíðarfræðingur og Lisa Simpsson sérfræðingur hjá Deloitte erindi. Fundarstjóri var Bergur Ebbi Benediktsson.
Lisa Simpson sagði í erindi sínu að Blockchain væri sú tækni sem mun hafa ein mestu áhrif á og breyta því hvernig viðskiptamódel verða hugsuð og hvernig við höfum samskipti við hvert annað. „Tæknin mun hafa áhrif á atvinnustarfsemi og geira út um allan heima,“ sagði hún ennfremur.
Hér má nálgast fyrirlestur Lisu Simpson
Í erindi sínu sagði Magnus Lindkvist að of margir einstaklingar sjái framtíðina fyrir sér sem eitthvað sem gerist fyrir þá. „Hvort sem það er stáltollur Trumps, tæknibreytingar sem koma frá Silicon Valley eða afleiðingar ofsa veðurfars. Ég trúi því að framtíðin sé ekki staður eða dagsetning, hún er viss virkni. Við þurfum að hætta að vera fórnarlömb og byrja að skipuleggja og stýra eigin örlögum. Við þurfum að kenna öllum, frá börnum til forstjóra, markvisst að gera framtíðina betri,“ sagði Magnus Lindkvist.
16/03/2018 | Fréttir
Aðalfundur Samtaka verslunar og þjónustu var haldinn í gær í Húsi atvinnulífsins. Alls bárust sex framboð um almenna stjórnarsetu í stjórn SVÞ en kosið var um þrjú stjórnarsæti fyrir kjörtímabilið 2018 til 2020. Á fundinum var lýst kjöri þriggja meðstjórnenda en þeir eru Elín Hjálmsdóttir hjá Eimskipum, Gunnar Egill Sigurðsson hjá Samkaupum koma ný inn í stjórnina og Jón Ólafur Halldórsson hjá Olís var endurkjörinn. Aðrir í stjórn SVÞ eru Árni Stefánsson hjá Húsasmiðjunni, Gústaf B. Ólafsson hjá Bitter ehf. og Ómar Pálmason hjá Aðalskoðun. Margrét Sanders er formaður Samtaka verslunar og þjónustu (SVÞ) og hefur setið sem formaður samtakanna frá árinu 2014 en kosið er um formann til tveggja ára í senn.
„Ég hlakka til að vinna með nýkjörinni stjórn SVÞ að þeim stóru viðfangsefnum sem við okkur blasa ekki síst í kjaramálum og í menntamálum atvinnulífsins. Auk þess standa fyrirtæki í verslun og þjónustu nú frammi fyrir miklum breytingum þar sem ný tækni, breytt neysluhegðun, og möguleiki á annars konar nálgun í þjónustu mun hafa afgerandi áhrif á starfsemi fyrirtækja innan okkar raða. Verkefni stjórnarinnar verður því ekki síst að aðstoða fyrirtækin við að aðlaga sig að þeim breytingum sem framundan eru,“ segir Margrét Sanders formaður SVÞ
05/03/2018 | Fréttir, Samtök sjálfstæðra skóla
Þann 28. febrúar sl. hlutu tveir leikskólastjórar innan SSSK tilnefningar til Stjórnendaverðlauna Stjórnvísis 2018 fyrir frammistöðu við að móta og stjórna afburða leikskóla Þeir eru; Lovísa Hallgrímsdóttir stofnandi, rekstraraðili og f.v. skólastjóri Regnbogans í Reykjavík en hún hlaut tilnefningu 2. árið í röð. Hinn skólastjórinn er Hulda Jóhannsdóttir stjórnandi Heilsuleikskólans Króks í Grindavík.
Samtök sjálfstæðra skóla óska þessum frábæru stjórnendum til hamingju með tilnefninguna.