23/11/2017 | Fréttir, Viðburðir
Litla Íslands efnir til fræðslufundar í Húsi atvinnulífsins föstudaginn 24. nóvember kl. 9-10. Þar mun Inga Björg Hjaltadóttir, héraðsdómslögmaður hjá Lögfræðistofu Reykjavíkur, ráðgjafi og eigandi hjá Attentus, fjalla um helstu samninga í fyrirtækjarekstri og mikilvægi vandaðrar samningagerðar.
Rætt verður m.a. um ráðningarsamninga, hluthafasamkomulag, leigusamninga, samninga við birgja og viðskiptavini. Ef samningamálin eru í lagi geta stjórnendur einbeitt sér að því að láta reksturinn blómstra og því til mikils að vinna að vanda alla samningagerð.
Fundurinn er hluti af fræðslufundaröð Litla Íslands þar sem sjónum er beint að hagsmunum lítilla og meðalstórra fyrirtækja og því sem einkennir vel rekin fyrirtæki.
Fundirnir hafa verið vel sóttir og fjölmargir hafa auk þess horft á beina útsendingu frá fundunum í Sjónvarpi atvinnulífsins eða upptökur sem eru á vef Litla Íslands.
Fundurinn á morgun er öllum opinn á meðan húsrúm leyfir í Borgartúni 35, en beina útsendingu frá fundinum má nálgast á nýjum vef Litla Íslands – www.litlaisland.is.
22/11/2017 | Fréttir, Menntun
Sífellt eru gerðar auknar kröfur til stjórnenda í atvinnulífinu hvað menntun varðar og eru stjórnendur flestir með háskólanám að baki. Nýtt fagháskólanám í viðskiptafræði og verslunarstjórnun er ætlað að gefa verslunarstjórum færi á að styrkja sig í starfi með því að bæta aukinni menntun við reynslu sína og hæfni auk þess að gefa einstaklingum með víðtæka reynslu af verslunarstörfum tækifæri til að mennta sig í verslunarstjórnun.
Námið er samstarfsverkefni Háskólans á Bifröst, Háskólans í Reykjavík, VR og SVÞ en styrkt af Starfsmenntasjóði verslunar- og skrifstofufólks, Starfsmenntastjóði verslunarinnar og Mennta- og menningarmálaráðuneytinu.
Nánari upplýsingar um námið og umsóknir er að finna hér.
15/11/2017 | Fréttir, Verslun
Íslensk verslun í tölum er sérsniðinn gagnagrunnur um stærð og þróun íslenskrar verslunar. Grunnurinn er sérstaklega ætlaður þeim sem reka verslanir og/eða hyggja á stofnun nýrra verslana. Hér er bæði hægt að fá greinargott yfirlit yfir ytri forsendur fyrir verslunarrekstri eins og greining á neyslu Íslendinga og innri forsendum eins og stöðu og þróun einstakra tegunda verslunar, launum, starfsmannafjölda o.s.frv. Þá er í þessum gagnagrunni lýsing á lýðfræðilegum þáttum sem hafa m.a. áhrif á staðsetningu og tegund verslana eftir landssvæðum.
Rannsóknasetur verslunarinnar hefur síðastliðinn áratug gefið út á hverju ári Árbók verslunarinnar – Hagtölur um íslenska verslun. Gagnagrunnurinn, sem hér er birtur, tekur við hlutverki Árbókarinnar með þeirri breytingu að upplýsingar birtast rafrænt og eru uppfærðar reglulega, eða jafnskjótt og nýjar opinberar hagtölur birtast. Flestar hagtölur sem byggt er á, eru unnar úr opinberum gögnum eins og frá Hagstofu Íslands en einnig er byggt á upplýsingum og samantekt Rannsóknaseturs verslunarinnar auk gagna frá hagsmunasamtökum og öðrum þeim sem taka saman gögn um stöðu og þróun verslunar. Upplýsingar úr rafrænum upplýsingakerfum uppfærast sjálfkrafa inn í gagnagrunninn sem hér er kynntur. Aðrar tölur eru ýmist uppfærðar ársfjórðungslega eða árlega þar sem það á við.
Hér má nálgast gagnagrunninn.
14/11/2017 | Fréttir
SVÞ – Samtök verslunar og þjónustu sendu þann 6. desember 2011 kvörtun á Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) vegna innleiðingar íslenskra stjórnvalda á reglugerð ESB um almennar meginreglur og kröfur samkvæmt lögum um matvæli, um stofnun Matvælaöryggisstofnunar Evrópu og um málsmeðferð vegna öryggis matvæla. Íslensk löggjöf felur í sér innflutningstakmarkanir á fersku kjöti, unnu sem óunnu, kældu sem frosnu, sem og innmat og sláturúrgang hvort sem um ræðir svína-, nauta-, lamba-, geita- eða alifuglakjöt eða kjöt af villtum dýrum og ýmsum mjólkurvörum. Innflytjendur verða samkvæmt gildandi lögum að sækja um leyfi og leggja fram margvísleg gögn til Matvælastofnunar.
SVÞ telja bann þetta ganga gegn ákvæðum EES-samningsins varðandi frjálsa vöruflutninga og að eftirlitskerfi hér á landi með innflutningi á kjöti feli í sér landamæraeftirlit sem er ekki í samræmi við löggjöf EES-samningsins. Að mati SVÞ hefur ekkert komið fram að íslenskum stjórnvöldum sé ekki unnt að gæta að heilbrigði manna og dýra innan ramma matvælalöggjafar EES-samningsins. Þá hafa stjórnvöld ekki sýnt fram á með rökstuddum hætti að innlendum hagsmunum sé ógnað með innflutningi á fersku kjöti en samkvæmt matvælalöggjöf EES-samningsins eru ríkar kröfur gerðar til áhættumats og öryggis matvæla og hvílir rík ábyrgð á framleiðendum kjöts hvað þetta varðar.
Eftir rannsókn sína á málinu komst ESA að sömu niðurstöðu og SVÞ að núgildandi löggjöf á Íslandi varðandi innflutning á fersku kjöti frá öðrum EES-ríkjum er andstæð EES-samningnum. Tók ESA því að fullu undir sjónarmið SVÞ í málinu um að núverandi kerfi feli í sér óréttlætanlegar og ónauðsynlegar viðskiptahindranir. Þar sem íslensk stjórnvöld höfðu enn ekki brugðist við rökstuddu áliti stofnunarinnar og gripið til viðeigandi ráðstafanna vísaði ESA málinu til EFTA-dómstólsins.
EFTA-dómstóllinn kvað fyrr í dag upp dóm sinn þar sem staðfest er ólögmæti innflutningstakmarkana á fersku kjöti og er niðurstaðan því í fullu samræmi við upphaflega kvörtun SVÞ. SVÞ benda á að dómurinn er til samræmis við dóm Héraðsdóms Reykjavíkur, og ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins í því tiltekna máli, frá því í nóvember 2016 þar sem eitt aðildarfélaga samtakanna lét reyna á umræddar takmarkanir. Íslenska ríkið áfrýjaði því máli til Hæstaréttar og má vænta dóms vorið 2018.
SVÞ fagna niðurstöðu EFTA-dómstólsins sem er enn einn áfangasigur í baráttu samtakanna í máli þessu sem hófst með kvörtun SVÞ árið 2011. Að sama skapi gagnrýna SVÞ tregðu stjórnvalda að bregðast við rökstuddum og málefnalegum niðurstöðum dómstóla í málinu. Skora samtökin á stjórnvöld og nýtt þing að taka á málinu í samræmi við þjóðréttarlegar skuldbindingar íslenska ríkisins. Er það krafa SVÞ að innflutningur á fersku kjöti, sem unnið er í samræmi við strangar samevrópskar kröfur og undir eftirliti annarra EES-ríkja, verði heimilaður hér á landi í samræmi við EES-löggjöf.
Fréttatilkynning til útprentunar.
Dómur EFTA dómstólsins.
10/11/2017 | Fréttir, Viðburðir
Þriðjudaginn 28. nóvember standa Samtök ferðaþjónustunnar og Samtök verslunar og þjónustu fyrir sameiginlegum fundi um vetrarþjónustu, viðhald og öryggismál á vegakerfinu.
Á fundinum munu fulltrúar frá Vegagerðinni og Reykjavíkurborg fara yfir fyrirkomulag vetrarþjónustu, viðhalds og öryggismála ásamt því að taka þátt í umræðum við fundarmenn.
Fundurinn fer fram í Húsi atvinnulífsins, Borgartúni 35, kl. 8.30 – 10.00.
Skráning á fundinn fer fram HÉR.
10/11/2017 | Fréttir, Viðburðir
Samtök ferðaþjónustunnar og Samtök verslunar og þjónustu boða til sameiginlegs félagsfundar um nýja Evrópureglugerð um persónuvernd þriðjudaginn 5. desember kl. 8.30 – 10.00 í Kviku, Húsi atvinnulífsins, Borgartúni 35. Boðið verður upp létta morgunhressingu frá kl. 8.15.
Á næsta ári munu koma til framkvæmda umfangsmestu breytingar sem gerðar hafa verið á evrópskri persónuverndarlöggjöf í rúm 20 ár og fyrir þann tíma þurfa fyrirtæki að aðlaga starfsemi sína að breyttum – og auknum – kröfum til persónuverndar og öryggis persónuupplýsinga. Á fundinum munu Hörður Helgi Helgason lögmaður hjá Landslögum, en hann var settur forstjóri Persónuverndar 2013-2014, og Lárus M. K. Ólafsson, lögmaður SAF og SVÞ, fjalla um boðaðar breytingar.
Hverju breyta nýjar persónuverndarreglur í raun?
Hörður Helgi Helgason fer yfir nýja reglugerð ESB um persónuvernd sem tekur gildi í Evrópu vorið 2018. Mikið hefur verið fjallað um ný og breytt ákvæði í reglugerðinni, en hverju breyta reglurnar í raun fyrir verslunar- og þjónustufyrirtæki, þar á meðal fyrir ferðaþjónustuna?
Undirbúningur vegna nýrrar Evrópureglugerðar um persónuvernd
Lárus M. K. Ólafsson kynnir gátlista fyrir fyrirtæki, sem birtur verður á vettvangi SAF og SVÞ, um þau atriði sem vert er að taka til skoðunar vegna boðaðra breytinga sem taka mun gildi með nýjum persónuverndarreglum.
Þeir sem ekki hafa tök á að mæta á fundinn geta fylgst með honum í beinni útsendingu á heimasíðum SAF og SVÞ.
Skráning á fundinn fer fram HÉR.