Upplýsingafundur um áhrif Blockchain tækni á verslun og þjónustu

SVÞ býður aðildarfyrirtækjum SVÞ á upplýsingafund um áhrif Blockchain tækni á verslun og þjónustu fimmtudaginn 12. október kl. 11.45 – 13.15 í Kviku, Húsi atvinnulífsins, Borgartúni 35. Fundurinn er aðildarfyrirtækjum að kostnaðarlausu.

Létt hádegissnarl í boði.

Dagskrá:
11.45 Setning fundar
Margrét Sanders, formaður SVÞ

Hversu mikils virði er Blockchain fyrir viðskipti?
Dr. Valdimar Sigurðsson, prófessor og forstöðumaður Rannsóknarseturs HR í markaðsfræði og neytendasálfræði
“Ekki vera risaeðla. Fyrirtæki ættu að spá vel í virði Blockchain og prófa sig áfram”

Hvað er Blockchain?
Kristinn Steinar Kristinsson, sérfræðingur hugbúnaðarlausna hjá Nýherja
„Blockchain mun gjörbylta samfélaginu líkt og Internetið gerði um aldamót“ – en hvað er Blockchain?

13.15 Fundaslit

Fundarstjóri: Margrét Sanders

 

Oops! We could not locate your form.

 

Ráðstefna um þjónustu og hæfni

Á Kaffi Nauthól kl. 13-16 þann 22. nóvember

Ráðstefna Starfsmenntasjóðs verslunar – og skrifstofufólks um þjónustu og hæfni:

  • Þarftu að vera leikari til að veita góða þjónustu?
  • Hvað er góð þjónusta?
  • Geta allir boðið góða þjónustu?
  • Er hægt að læra að bjóða góða þjónustu?

Erindi verða m.a. frá Bláa Lóninu, CCP, S4S, ASÍ, og Bjarti Guðmundssyni, frammistöðuþjálfara og leikara.

Í pallborði verða Jón Björnsson forstjóri Festi, María Guðmundsdóttir formaður Hæfniseturs ferðaþjónustunnar, Þórhallur Guðlaugsson forstöðumaður framhaldsnáms í þjónustustjórnun hjá HÍ ásamt fleirum.

Fundarstjóri verður Áslaug Hulda Jónsdóttir forstöðumaður menntamála hjá SVÞ.

Nánari dagskrá verður birt fljótlega.

SKRÁNING Á VIÐBURÐ

Ábyrg útvistun matvælaeftirlits

Eftirlit í þágu allra
Á tímum hagræðingar í ríkisrekstri er bæði sjálfsagt og eðlilegt að hið opinbera leiti leiða til að hagræða í rekstri sínum, ekki eingöngu til hagræðis fyrir opinberan rekstur heldur einnig til að lágmarka kostnað fyrir bæði atvinnulífið og neytendur. Með samkeppni á þeim sviðum sem er útvistað er kostnaði hins opinbera haldið í lágmarki án þess að slá af kröfum varðandi gæði og þjónustu. Í þessu samhengi ítrekast að einkaaðilar starfa undir ströngu eftirliti hins opinbera sem og staðfestum verklagsreglum og alþjóðlegum stöðlum. Með því að fela einkareknum aðilum tiltekin verkefni er því hvorki verið að slá af kröfum eða gefa afslátt á gæðum – þvert á móti má fullyrða að kröfur eru auknar frá því sem nú er. Sem dæmi um vel heppnaða framkvæmd á þessu sviði má nefna ökutækjaskoðun en vandfundir eru þeir aðilar sem telja heppilegt að snúa þeirri framkvæmd tilbaka í farveg bifreiðaskoðunar ríkisins.

Hins vegar má ráða að hið gagnstæða sé að meginstefnu til við lýði hjá hinu opinbera – þ.e. að verkefnum er haldið hjá ríkinu með ráðum og dáð. Þá eru þess dæmi að ýmis verkefni sem áður voru útvistuð eru tekin tilbaka þegar harðnar í ári í ríkisrekstri. Má í þessu samhengi nefna verkefni skoðunarstofa í sjávarútvegi sem í upphafi árs 2011 voru færð aftur til MAST og eru þess dæmi að í kjölfarið hækkaði kostnaður hjá eftirlitsskyldum aðilum um allt að 200% við innvistun þeirra verkefna.

Glöggt er gests augað
SVÞ vekja athygli á úttekt Ríkisendurskoðunar á starfsemi MAST frá árinu 2013 þar sem segir m.a. að fjölgun verkefna samhliða hagræðingarkröfu hafi hamlað því að stofnunin geti sinnt lögbundnum verkefnum með ásættanlegum hætti. Það hefur m.a. átt þátt í að draga úr trausti eftirlitsskyldra aðila og annarra hagsmunaaðila til MAST og skapað styr um starfsemina. Þá segir einnig að MAST eigi nokkuð ógert í því að bæta starfsemi sína og verklag. Ráða má af umfjöllun um starfsemi MAST að gagnrýni á starfshætti stofnunarinnar megi m.a. rekja til álags sem á henni hvílir sökum umfangs verkefna sem henni ber að hafa umsjón með. Því telja SVÞ mikilvægt að taka til skoðunar hvort aðkoma einkarekinna og/eða faggiltra fyrirtækja að þeim verkefnum sem MAST hafa verið falin að annast geti leitt til þess að hún hafi svigrúm til að sinna öðrum lögbundnum verkefnum sínum með ásættanlegum hætti.

Útvistun verkefna er ekkert feimnismál
SVÞ benda á samkvæmt nýlegri skýrslu um starfsemi MAST sem unnin var fyrir stjórnvöld þá eru þess dæmi í nágrannaríkjum að matavælaeftirliti hafi verið falið til þess bærum faggiltum aðilum og ekki er að ráða að slík framkvæmd hafi reynst illa. SVÞ ítreka að faggiltar skoðunarstofur starfa eftir ströngum kröfum alþjóðlegra staðla um hlutleysi, verkferla og samræmi í framkvæmd verka. Faggiltar stofur hafa starfað hérlendis í tvo áratugi m.a. á sviði bifreiðaskoðana, rafskoðana, skipaskoðana og löggildinga mælitækja auk markaðsgæslu og hafa sannað gildi sitt sem öruggur og hagkvæmur kostur á sviði eftirlits.

Með hliðsjón af gagnrýni á starfsemi MAST, þ.m.t. nýlegum áfellisdómi Hæstaréttar um starfsemi stofnunarinnar, og umfangi verkefna hennar má velta því fram hvort MAST ætti einna helst að einbeita sér að hlutverki sínu sem leiðbeinandi stjórnvald og þróun staðla varðandi framkvæmd eftirlits, eða hvort daglegt eftirlit eigi áfram að vera stór hluti af starfsemi stofnunarinnar. Faggiltir skoðunaraðilar hafa getu og þekkingu til að starfa eftir þeim reglum sem um opinbert eftirlit gilda. Því gera SVÞ þá kröfu til stjórnvalda að daglegt eftirlit stofnunarinnar verði fært til faggiltra skoðunaraðila og að MAST einbeiti sér að hlutverki sínu sem leiðbeinandi stjórnvald.

Höfundur: Lárus M.K. Ólafsson, hdl., lögmaður SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu.

Grein til útprentunar.

Skortur á stefnu og heildarsýn í aðgerðaáætlun íslenskra stjórnvalda í loftslagsmálum

Í fjárlögum fráfarandi ríkistjórnar fyrir árið 2018 sem kynnt var í september síðastliðnum kom fram að stjórnvöld ætluðu sér að tvöfalda kolefnisgjald til að draga úr losun. Tvöföldun kolefnisgjalds hækkar gjöld á bensín um 5,5 kr./l eða tæplega 7 kr./l að meðtöldum virðisaukaskatti. Tvöföldun kolefnisgjalds ásamt jöfnun bensín- og olíugjalds hækkar gjöld á dísilolíu um 16,25 kr./l eða rúmlega 20 kr./l að meðtöldum virðisaukaskatti (ekki er tekið tillit til verðlagsuppfærslu vörugjalda).

Grænir skattar eru hluti af stefnu stjórnvalda um umhverfisvernd og loftslagsmál. Samtök verslunar og þjónustu fagna aðild Íslands að Parísarsamkomulaginu og viðleitni stjórnvalda til að setja upp aðgerðaáætlun til að fylgja markmiðum samkomulagsins eftir. En í ljósi mikillar útgjaldaaukningar einstakra geira atvinnulífsins er þó margt gagnrýnivert í nálgun stjórnvalda.

Sé eldsneytisskattur sem hlutfall af heildarverði eldsneytis á tímabilinu 2011 – 2013 skoðaður sést að eldsneytisskattar á Norðurlöndunum eru meðal þeirra hæstu í heiminum (sjá graf í viðhengi). Einnig er yfirleitt minni skattlagning á dísilolíu, bæði hvað varðar losun koltvísýrings og í raungildi, en  á bensíni.

Í skýrslu Hagfræðistofnunar Ísland og loftslagsmál kemur fram að á árinu 2014 nam útstreymi gróðurhúsalofttegunda frá samgöngum á landi 861 þúsund tonnum CO2 ígilda eða 19% af heildarútstreymi frá Íslandi. Þá er útstreymi í samgöngum næstmest á eftir  útstreymi frá iðnaði og efnanotkun. Þar segir einnig að reglugerðir sem miða að því að draga úr útstreymi gróðurhúsalofttegunda, ásamt þróun í sparneytni nýrra bifreiða á heimsvísu, hafa haft þau áhrif að útstreymi frá vegasamgöngum hefur ekki aukist í samræmi við aukinn vöxt hagkerfisins frá 2011.

Norska samgönguhagfræðistofnunin (Transportøkonomisk institutt, TØI)  fjallar um í skýrslu sinni A CO2-fund for the transport industry: The case of Norway að það sé hagkvæmast að styðja við fjárfestingar í ökutækjum sem nota lífdísil, en að framboð á sjálfbæru eldsneyti geti falið í sér áskorun. Samtök atvinnulífsins í Noregi leggja til að stofnaður verði CO2 sjóður og benda á að þörf sé fyrir bæði umbun og refsingu (carrot and sticks) . CO2 sjóðurinn er ætlaður fyrir einkageirann til að styðja hvað mest við grænni tæknibreytingar. Sjá umfjöllun hér. Þessi sjóður ætti að leggja áherslu á að veita styrki til ökutækja sem nota dýrari tækni, svo sem lífgas, rafmagn og vetni. Slíkur sjóður getur því stuðlað að aukinni eftirspurn eftir þessari tækni þar til að tæknin verður samkeppnishæf.

Enn sem komið er hafa hérlend stjórnvöld ekki sett sér markvissa tæknistefnu í loftslagsmálum gagnvart flutningageiranum. Stjórnvöld hafa fyrst og fremst lagt áherslu á skattlagningu án þess að draga úr áhættu aðila á allra fyrstu stigum tækniþróunar og smá saman hleypa tækninni í samkeppnisumhverfið. Sé frekari skattlagningu beitt án þess að styðja við greinina með öðrum hætti er hætt við að frekari eldsneytisskattur skili sér í hærra vöruverði til neytenda.

Samantektina má nálgast hér.

Höfundur: Ingvar Freyr Ingvarsson, hagfræðingur Samtaka verslunar og þjónustu

Fyrirtæki eru námsstaðir

Hátt í hundrað manns víða úr atvinnulífinu mættu í Hús atvinnulífsins á fyrsta fund vetrarins í fundaröðinni Menntun og mannauður sem fram fór í vikunni.  Samtök atvinnulífsins, Samtök ferðaþjónustunnar, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtök fjármálafyrirtækja, Samtök iðnaðarins, Samorka og Samtök verslunar og þjónustu standa að fundaröðinni.

Þórður framkvæmdastjóri, Outcome kannana, og Guðrún S. Eyjólfsdóttir, verkefnastjóri menntamála hjá Samtökum atvinnulífsins, fóru yfir niðurstöður nýrrar menntakönnunar atvinnulífsins. Fram kom að í sex af hverjum tíu fyrirtækjum fer fram skipuleg fræðsla og að starfsreynsla, menntun á viðkomandi sviði og samskiptahæfni skorar hæst þegar verið er að ráða nýtt fólk.

Að auki voru flutt þrjú erindi frá ólíkum fyrirtækjum, bæði að stærð og gerð, þar sem fjallað var um fræðslu innan þeirra. Sigríður Guðmundsdóttir, mannauðsstjóri Eimskips, Kristjana Milla Snorradóttir, verkefnastjóri mannauðsmála Nordic Visitor og Guðrún Inga Guðlaugsdóttir, fræðslustjóri Sjóvá veittu innsýn í fræðslustarf fyrirtækjanna.

Í ljós kom ákveðinn samhljómur með þeim og var áhugavert var að heyra um mikilvægi nýliðaþjálfunar og mentora, tækifæri í stafrænni þjálfun og fræðslu svo eitthvað sé nefnt.

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, opnaði fundinn og Áslaug Hulda Jónsdóttir, forstöðumaður menntamála hjá Samtökum verslunar og þjónustu stýrði fundinum.

Hér má nálgast erindi sem flutt voru á fundinum.

 

 

Afnám tolla og vörugjalda skilaði sér til neytenda samkvæmt úttekt Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands

Forsætisráðuneytið óskaði nýverið eftir því við Hagfræðistofnun Háskóla Íslands að stofnunin tæki að sér að greina áhrif afnáms tolla og vörugjalda á verðlag. Skýrsla Hagfræðistofunar liggur nú fyrir. Afnám tolla og vörugjalda skilaði sér til neytenda samkvæmt úttekt Hagfræðistofnunar Háskóla Ísland. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá forsætisráðuneytinu.

Hagfræðistofnun mat álagningu kaupmanna á átta tegundum innfluttra matvara, fatnaðar og heimilistækja á árunum 2014-2017. Verð eru borin saman fyrir og eftir kerfisbreytingu. Álagning kaupmanna er reiknuð út sem afgangsstærð þegar tillit hefur verið tekið til annarra verðþátta, aðflutningsgjalda og virðisaukaskattshlutfalls. Þróun álagningar í krónum er síðan notuð sem mælikvarði á kjarabætur neytenda. Stofnunin telur rétt að miða við álagningu í krónum fremur en hlutfallslega álagningu því stærstur hluti af rekstrarkostnaði verslana er óháður innkaupsverði á þeim vörum sem verslað er með.
Niðurstaðan er sú að lækkun gjalda hafi skilað sér í vasa  neytenda. Smásöluverð allra varanna lækkaði. Álagning kaupmanna, mæld í krónum, lækkaði eða breyttist lítið á sjö vörum af átta. Þannig lækkaði álagning á 1 kg. af strásykri úr 65 kr. árið 2014 í 41 kr. árið 2017, álagning á gallabuxum úr 8.462 kr. í 7.961 kr. og álagning á ísskápum úr 26.962 kr. í 20.515 kr. Álagning á skyrtum hækkaði hins vegar úr 5.729 kr. í 6.092 á sama tímabili.