11/10/2017 | Fréttir, Menntun
Atvinnulífið er farið að leggja aukna áherslu á menntun mannauðs og það er jákvætt. Þróunin hefur verið hröð síðustu misseri og útfærslur eru ólíkar og fjölbreyttar. Fræðsla og þjálfun starfsfólks er komin í góðan farveg hjá mörgum fyrirtækjum. Stóru fyrirtækin geta gert meira í krafti stærðar sinnar á meðan lítil og meðalstór fyrirtæki þurfa að finna nýjar leiðir og vinna saman. Þar spilar tæknin stórt hlutverk sem veitir okkur gríðarleg tækifæri, tækifæri sem við verðum að grípa! Fyrirtæki þurfa ekki lengur að flytja fólk úr öllum áttum á sama stað, á sama tíma og fara yfir mikið efni í alltof löngun tíma. Tæknin gefur tækifæri til að ,,streama“ efni og fyrir upptökur. Og starfsmenn geta farið yfir efnið þegar þeim hentar, þar sem þeim hentar, á þeim tíma sem þeim hentar. Með aðstoð tækninnar getum við á miklu skilvirkari hátt verið tilbúin með þekkinguna þegar starfsmaðurinn þarf hana – en ekki þegar mannauðsstjórinn er búinn að bóka sal og fyrirlesara! Stafræn þjálfun gefur svo fjölbreytta möguleika, möguleika sem verður að nýta!
Menntun eykur virði fyrirtækja
Menntun skiptir fyrirtækin máli. Rannsóknir sýna að einstaklingar sem fá tækifæri til að auka þekkingu sína og vaxa í starfi eru ánægðari í starfi, hafa góð áhrif á liðsheild og starfa lengur innan viðkomandi fyrirtækis. Aukin menntun og fræðsla eykur sveigjanleika fyrirtækja, starfsfólk getur tekið að sér fjölbreyttari störf og er frekar tilbúið í breytingar. Með þessu verður mannauður fyrirtækja öflugri og fyrirtækin þá um leið samkeppnishæfari. Skýr menntastefna hefur líka jákvæð áhrif á ímynd fyrirtækja. Þetta allt skiptir máli enda er ör starfsmannavelta fyrirtækjum dýr. Kröfur um hæfni eru alltaf að aukast og vel þjálfað og hæft starfsfólk gerir færri mistök, er skilvirkara og nýtir tíma sinn betur. Hæft fólk skapar meira virði fyrir fyrirtækin.
Það er því mikilvægt að í boði séu fjölbreytt tækifæri hvort sem það er innan fyrirtækjanna sjálfra, hjá símenntunarmiðstöðvunum, í framhalds- fag- og háskólum, einkaaðilum eða öðrum fræðsluaðilum. Fullorðinsfræðsla er fjármögnuð af samfélaginu vegna þess að við teljum hana mikilvæga. Endurmenntun má ekki bara vera skírteini upp á vegg sem nýtist ekkert. Það þarf að skila sér í auknum tækifærum – bæði fyrir einstaklingana og fyrir fyrirtækin.
Vinnumarkaðurinn breytist hratt, talið er að allt að helmingur núverandi starfa muni breytast töluvert eða hverfa! Fjórða iðnbyltingin er hafin og við verðum að hlaupa með. Á meðan vinnumarkaðurinn breytist hratt hefur menntakerfið sem heild tilhneigingu til að breytast afskaplega hægt. Kerfi eru í eðli sínu þung og svifasein og við verðum að gæta þess að stjórnsýslan og lagaumhverfi torveldi ekki þeirri framþróun sem er byrjuð og þarf að eiga sér stað.
Höfundur: Áslaug Hulda Jónsdóttir, forstöðumaður menntasviðs SVÞ
Greinin til útprentunar.
11/10/2017 | Fréttir
Um áratugaskeið hefur það verið stefna hins opinbera að útvista verkefnum í auknum mæli til einkaaðila og sjálfstætt starfandi verktaka. Enn sem komið er hafa aðgerðir ríkisins hins vegar ekki verið í samræmi við þessa stefnu nema að litlu leyti; enn skortir á að hið opinbera nýti sér með markvissum hætti alla þá kosti sem í boði eru. SVÞ – Samtök verslunar og þjónustu hafa hvatt hið opinbera að nýta sér kosti útvistunar verkefna á þeim sviðum þar sem bæði þekking og reynsla fyrirtækja er til staðar enda getur ríkisrekstur ekki verið markmið í sjálfu sér og verkefni hins opinbera á að fela þeim sem leysa þau með sem bestum og ódýrustum hætti. Reynslan hefur sýnt okkur að einkaaðilar eru hæfir til að annast slíka þjónustu og má þar nefna sem dæmi bifreiðaskoðun, skólastarfsemi og heilbrigðisþjónustu.
Að mati SVÞ getur útvistun verkefna falið í sér hagræðingu og aukna skilvirkni í ríkisrekstri þar sem þjónusta er veitt á markaðslegum forsendum og hið opinbera fær greiðan aðgang að sérfræðiþekkingu sem eftir atvikum er ekki til staðar hjá ríkinu. Síðast en ekki síst dregur útvistun verkefna úr ýmsum kostnaði hjá ríkinu, s.s. launa- og rekstrarkostnaði. Þá hafa úttektir og skýrslur Ríkisendurskoðunar bent á að einstaka verkefni sem nú er sinnt af ríkinu séu illsamræmanleg hlutverki og starfsemi hins opinbera og hefur því mælt með að einkaaðilum sé falin framkvæmd þeirra.
Ein þeirra stofnana sem Ríkisendurskoðun hefur fjallað um er Vinnueftirlitið en í stjórnsýsluúttekt frá árinu 2007 kemst Ríkisendurskoðun að þeirri niðurstöðu að óheppilegt sé að stjórnvald veiti fyrirtækjum sérhæfða þjónustu og beina ráðgjöf. Bent er á að einkaaðilar á markaði séu í langflestum tilfellum færir um að annast þau verkefni. Þá segir í skýrslunni: „Við eðlilegar aðstæður, þ.e. þegar framboð og samkeppni á markaði eru nægjanleg, mælir hins vegar flest gegn því að stjórnsýslustofnunin sinni slíkri þjónustu enda hlýtur hún þá að lenda í samkeppni við einkaaðila. Slík starfsemi þarf þá að minnsta kosti að vera rekin sem sérstök eining með sjálfstæðu bókhaldi svo að tryggt sé að opinberu fé sé ekki varið til að niðurgreiða samkeppnisrekstur.“ Er þar m.a. lagt til að kannað verði með formlegum hætti hvort ekki megi ná samlegð og hagræðingu með því að flytja hluta eftirlitsverkefna til faggiltra skoðunarstofa. Þá er einnig samanburður við skipulag vinnueftirlits og vinnuverndar í nágrannalöndunum og er bent á að vinnueftirlitsstofnanir í Danmörku, Noregi og Svíþjóð annast allar fyrirtækjaeftirlit samkvæmt aðferðafræðinni um aðlagað eftirlit og einnig markaðseftirlit með tilteknum vöruflokkum. Faggiltar skoðunarstofur sinna hins vegar vinnuvélaeftirliti, viðurkenndir þjónustuaðilar sjá um námskeið og kennslu og rannsóknir fara fram á sérstökum rannsóknarstofnunum.
Af úttekt Ríkisendurskoðunar má því draga þá ályktun að starfsemi og hlutverk Vinnueftirlitsins sé á margan hátt frábrugðin því sem viðgengst á Norðurlöndum og orki verulega tvímælis er kemur að hlutverki þess sem leiðbeinandi stjórnvalds annars vegar og þjónustuveitanda hins vegar. Þrátt fyrir áfellisdóma í skýrslu Ríkisendurskoðunar hafa stjórnvöld ekki nýtt sér þær lagaheimildir sem til staðar eru að fela faggiltum aðilum umsjón verkefna Vinnueftirlitsins. Þess ber að geta að faggilt fyrirtæki starfa samkvæmt samevrópskum stöðlum og hafa eftirlit með samevrópskum kröfum sem ríkið hefur leitt í lög hérlendis. Hér er því um að ræða aðila sem eru fyllilega til þess bærir að annast þau verkefni.
Tæki og tól til að útvista verkefnum Vinnueftirlitsins og hæfir aðilar til að annast þau verkefni eru því sannarlega til staðar. Það sem enn skortir hins vegar er að yfirstjórn eftirlitsins, þ.m.t. ráðherrar, taki þá staðföstu ákvörðun að nýta sér þau úrræði til hagsbóta fyrir ríki, atvinnulíf og almenning.
Höfundur: Lárus M.K. Ólafsson, hdl., lögmaður SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu.
Greinin til útprentunar.
06/10/2017 | Fréttir, Viðburðir
SVÞ býður aðildarfyrirtækjum SVÞ á upplýsingafund um áhrif Blockchain tækni á verslun og þjónustu fimmtudaginn 12. október kl. 11.45 – 13.15 í Kviku, Húsi atvinnulífsins, Borgartúni 35. Fundurinn er aðildarfyrirtækjum að kostnaðarlausu.
Létt hádegissnarl í boði.
Dagskrá:
11.45 Setning fundar
Margrét Sanders, formaður SVÞ
Hversu mikils virði er Blockchain fyrir viðskipti?
Dr. Valdimar Sigurðsson, prófessor og forstöðumaður Rannsóknarseturs HR í markaðsfræði og neytendasálfræði
“Ekki vera risaeðla. Fyrirtæki ættu að spá vel í virði Blockchain og prófa sig áfram”
Hvað er Blockchain?
Kristinn Steinar Kristinsson, sérfræðingur hugbúnaðarlausna hjá Nýherja
„Blockchain mun gjörbylta samfélaginu líkt og Internetið gerði um aldamót“ – en hvað er Blockchain?
13.15 Fundaslit
Fundarstjóri: Margrét Sanders
Oops! We could not locate your form.
05/10/2017 | Fréttir, Viðburðir
Á Kaffi Nauthól kl. 13-16 þann 22. nóvember
Ráðstefna Starfsmenntasjóðs verslunar – og skrifstofufólks um þjónustu og hæfni:
- Þarftu að vera leikari til að veita góða þjónustu?
- Hvað er góð þjónusta?
- Geta allir boðið góða þjónustu?
- Er hægt að læra að bjóða góða þjónustu?
Erindi verða m.a. frá Bláa Lóninu, CCP, S4S, ASÍ, og Bjarti Guðmundssyni, frammistöðuþjálfara og leikara.
Í pallborði verða Jón Björnsson forstjóri Festi, María Guðmundsdóttir formaður Hæfniseturs ferðaþjónustunnar, Þórhallur Guðlaugsson forstöðumaður framhaldsnáms í þjónustustjórnun hjá HÍ ásamt fleirum.
Fundarstjóri verður Áslaug Hulda Jónsdóttir forstöðumaður menntamála hjá SVÞ.
Nánari dagskrá verður birt fljótlega.
SKRÁNING Á VIÐBURÐ
05/10/2017 | Fréttir
Eftirlit í þágu allra
Á tímum hagræðingar í ríkisrekstri er bæði sjálfsagt og eðlilegt að hið opinbera leiti leiða til að hagræða í rekstri sínum, ekki eingöngu til hagræðis fyrir opinberan rekstur heldur einnig til að lágmarka kostnað fyrir bæði atvinnulífið og neytendur. Með samkeppni á þeim sviðum sem er útvistað er kostnaði hins opinbera haldið í lágmarki án þess að slá af kröfum varðandi gæði og þjónustu. Í þessu samhengi ítrekast að einkaaðilar starfa undir ströngu eftirliti hins opinbera sem og staðfestum verklagsreglum og alþjóðlegum stöðlum. Með því að fela einkareknum aðilum tiltekin verkefni er því hvorki verið að slá af kröfum eða gefa afslátt á gæðum – þvert á móti má fullyrða að kröfur eru auknar frá því sem nú er. Sem dæmi um vel heppnaða framkvæmd á þessu sviði má nefna ökutækjaskoðun en vandfundir eru þeir aðilar sem telja heppilegt að snúa þeirri framkvæmd tilbaka í farveg bifreiðaskoðunar ríkisins.
Hins vegar má ráða að hið gagnstæða sé að meginstefnu til við lýði hjá hinu opinbera – þ.e. að verkefnum er haldið hjá ríkinu með ráðum og dáð. Þá eru þess dæmi að ýmis verkefni sem áður voru útvistuð eru tekin tilbaka þegar harðnar í ári í ríkisrekstri. Má í þessu samhengi nefna verkefni skoðunarstofa í sjávarútvegi sem í upphafi árs 2011 voru færð aftur til MAST og eru þess dæmi að í kjölfarið hækkaði kostnaður hjá eftirlitsskyldum aðilum um allt að 200% við innvistun þeirra verkefna.
Glöggt er gests augað
SVÞ vekja athygli á úttekt Ríkisendurskoðunar á starfsemi MAST frá árinu 2013 þar sem segir m.a. að fjölgun verkefna samhliða hagræðingarkröfu hafi hamlað því að stofnunin geti sinnt lögbundnum verkefnum með ásættanlegum hætti. Það hefur m.a. átt þátt í að draga úr trausti eftirlitsskyldra aðila og annarra hagsmunaaðila til MAST og skapað styr um starfsemina. Þá segir einnig að MAST eigi nokkuð ógert í því að bæta starfsemi sína og verklag. Ráða má af umfjöllun um starfsemi MAST að gagnrýni á starfshætti stofnunarinnar megi m.a. rekja til álags sem á henni hvílir sökum umfangs verkefna sem henni ber að hafa umsjón með. Því telja SVÞ mikilvægt að taka til skoðunar hvort aðkoma einkarekinna og/eða faggiltra fyrirtækja að þeim verkefnum sem MAST hafa verið falin að annast geti leitt til þess að hún hafi svigrúm til að sinna öðrum lögbundnum verkefnum sínum með ásættanlegum hætti.
Útvistun verkefna er ekkert feimnismál
SVÞ benda á samkvæmt nýlegri skýrslu um starfsemi MAST sem unnin var fyrir stjórnvöld þá eru þess dæmi í nágrannaríkjum að matavælaeftirliti hafi verið falið til þess bærum faggiltum aðilum og ekki er að ráða að slík framkvæmd hafi reynst illa. SVÞ ítreka að faggiltar skoðunarstofur starfa eftir ströngum kröfum alþjóðlegra staðla um hlutleysi, verkferla og samræmi í framkvæmd verka. Faggiltar stofur hafa starfað hérlendis í tvo áratugi m.a. á sviði bifreiðaskoðana, rafskoðana, skipaskoðana og löggildinga mælitækja auk markaðsgæslu og hafa sannað gildi sitt sem öruggur og hagkvæmur kostur á sviði eftirlits.
Með hliðsjón af gagnrýni á starfsemi MAST, þ.m.t. nýlegum áfellisdómi Hæstaréttar um starfsemi stofnunarinnar, og umfangi verkefna hennar má velta því fram hvort MAST ætti einna helst að einbeita sér að hlutverki sínu sem leiðbeinandi stjórnvald og þróun staðla varðandi framkvæmd eftirlits, eða hvort daglegt eftirlit eigi áfram að vera stór hluti af starfsemi stofnunarinnar. Faggiltir skoðunaraðilar hafa getu og þekkingu til að starfa eftir þeim reglum sem um opinbert eftirlit gilda. Því gera SVÞ þá kröfu til stjórnvalda að daglegt eftirlit stofnunarinnar verði fært til faggiltra skoðunaraðila og að MAST einbeiti sér að hlutverki sínu sem leiðbeinandi stjórnvald.
Höfundur: Lárus M.K. Ólafsson, hdl., lögmaður SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu.
Grein til útprentunar.
04/10/2017 | Fréttir, Greinar, Í fjölmiðlum, Stjórnvöld, Umhverfismál
Í fjárlögum fráfarandi ríkistjórnar fyrir árið 2018 sem kynnt var í september síðastliðnum kom fram að stjórnvöld ætluðu sér að tvöfalda kolefnisgjald til að draga úr losun. Tvöföldun kolefnisgjalds hækkar gjöld á bensín um 5,5 kr./l eða tæplega 7 kr./l að meðtöldum virðisaukaskatti. Tvöföldun kolefnisgjalds ásamt jöfnun bensín- og olíugjalds hækkar gjöld á dísilolíu um 16,25 kr./l eða rúmlega 20 kr./l að meðtöldum virðisaukaskatti (ekki er tekið tillit til verðlagsuppfærslu vörugjalda).
Grænir skattar eru hluti af stefnu stjórnvalda um umhverfisvernd og loftslagsmál. Samtök verslunar og þjónustu fagna aðild Íslands að Parísarsamkomulaginu og viðleitni stjórnvalda til að setja upp aðgerðaáætlun til að fylgja markmiðum samkomulagsins eftir. En í ljósi mikillar útgjaldaaukningar einstakra geira atvinnulífsins er þó margt gagnrýnivert í nálgun stjórnvalda.
Sé eldsneytisskattur sem hlutfall af heildarverði eldsneytis á tímabilinu 2011 – 2013 skoðaður sést að eldsneytisskattar á Norðurlöndunum eru meðal þeirra hæstu í heiminum (sjá graf í viðhengi). Einnig er yfirleitt minni skattlagning á dísilolíu, bæði hvað varðar losun koltvísýrings og í raungildi, en á bensíni.
Í skýrslu Hagfræðistofnunar Ísland og loftslagsmál kemur fram að á árinu 2014 nam útstreymi gróðurhúsalofttegunda frá samgöngum á landi 861 þúsund tonnum CO2 ígilda eða 19% af heildarútstreymi frá Íslandi. Þá er útstreymi í samgöngum næstmest á eftir útstreymi frá iðnaði og efnanotkun. Þar segir einnig að reglugerðir sem miða að því að draga úr útstreymi gróðurhúsalofttegunda, ásamt þróun í sparneytni nýrra bifreiða á heimsvísu, hafa haft þau áhrif að útstreymi frá vegasamgöngum hefur ekki aukist í samræmi við aukinn vöxt hagkerfisins frá 2011.
Norska samgönguhagfræðistofnunin (Transportøkonomisk institutt, TØI) fjallar um í skýrslu sinni A CO2-fund for the transport industry: The case of Norway að það sé hagkvæmast að styðja við fjárfestingar í ökutækjum sem nota lífdísil, en að framboð á sjálfbæru eldsneyti geti falið í sér áskorun. Samtök atvinnulífsins í Noregi leggja til að stofnaður verði CO2 sjóður og benda á að þörf sé fyrir bæði umbun og refsingu (carrot and sticks) . CO2 sjóðurinn er ætlaður fyrir einkageirann til að styðja hvað mest við grænni tæknibreytingar. Sjá umfjöllun hér. Þessi sjóður ætti að leggja áherslu á að veita styrki til ökutækja sem nota dýrari tækni, svo sem lífgas, rafmagn og vetni. Slíkur sjóður getur því stuðlað að aukinni eftirspurn eftir þessari tækni þar til að tæknin verður samkeppnishæf.
Enn sem komið er hafa hérlend stjórnvöld ekki sett sér markvissa tæknistefnu í loftslagsmálum gagnvart flutningageiranum. Stjórnvöld hafa fyrst og fremst lagt áherslu á skattlagningu án þess að draga úr áhættu aðila á allra fyrstu stigum tækniþróunar og smá saman hleypa tækninni í samkeppnisumhverfið. Sé frekari skattlagningu beitt án þess að styðja við greinina með öðrum hætti er hætt við að frekari eldsneytisskattur skili sér í hærra vöruverði til neytenda.
Samantektina má nálgast hér.
Höfundur: Ingvar Freyr Ingvarsson, hagfræðingur Samtaka verslunar og þjónustu