Samantekt frá SVÞ
Verðbólga hefur verið undir verðbólgumarkmiði í þrjú ár. Skýrist það m.a. af styrkingu krónunnar og verðlækkun olíu og annarra hrávara. Sé litið á þróun Macrobond hrávöruvísitölunnar síðustu þrjú ár; sést að hún tekur að lækka á síðari hluta ársins 2014 , tekur aðeins við sér í byrjun árs 2015 en nær síðan lágpunkti í febrúar 2016 – síðan þá hefur hrávöruverð leitað upp á við. Enn er þó langt í land með að hrávöruverð nái þeim hæðum sem það var í á árunum 2007 og 2008.
Nýkjörin stjórn, frá vinstri: Þórdís Jóna Sigurðardóttir varaformaður, Jón Örn Valsson, Ída Jensdóttir, Kristján Ómar Björnsson formaður, Guðmundur Pétursson, Ingibjörg Jóhannesdóttir, Sigríður Stephensen og María Sighvatsdóttir.
Á aðalfundi SSSK sem haldinn var þriðjudaginn 25. apríl síðast liðinn í Kviku, Húsi atvinnulífsins var Kristján Ómar Björnsson, heilsustjóri Grunnskólans NÚ kjörinn formaður SSSK og Þórdís Jóna Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri Hjallastefnunnar var kjörin varaformaður.
Meðstjórnendur voru kjörnir: Guðmundur Pétursson, framkvæmdastjóri Skóla ehf., Ída Jensdóttir skólastjóri leikskólans Sjálands og María Sighvatsdóttir, leikskólastjóri Vinagarði.
Varamenn vor kjörnir: Ingibjörg Jóhannesdóttir, skólastjóri Landakotsskóla, Jón Örn Valsson, framkvæmdastjóri LFA ehf. og Sigríður Stephensen, leikskólafulltrúi og leikskólastjóri hjá Félagsstofnun stúdenta.
Skoðunarmenn voru kjörnir: Sólveig Einarsdóttir, leikskólastjóri, Vinnaminni og Sigríður Anna Guðjónsdóttir skólastjóri Skóla Ísaks Jónssonar.
Samkvæmt fréttatilkynningu frá Rannsóknasetri verslunarinnar koma aukin umsvif í byggingaframkvæmdum greinilega fram í sölutölum byggingavöruverslana í marsmánuði. Þetta á bæði við um almennar byggingavörur svo og sérhæfðar verslanir sem selja gólfefni. Sömuleiðis var umtalsverð veltuaukning hjá húsgagnaverslunum og verslunum sem selja stór heimilistæki. Velta húsgagnaverslana jókst um 21,2% frá mars í fyrra og verð á húsgögnum lækkaði um 8,9% á þessu tímabili og velta byggingavöruverslana jókst um 13,3% en verð á byggingaefni hélst óbreytt frá mars í fyrra. Velta stórra raftækja jókst um 9,5% og verð þeirra var 5,9% lægra en fyrir tólf mánuðum síðan.
Athyglisvert er að velta í dagvöruverslun var nokkru meiri í mars síðastliðnum heldur en í sama mánuði í fyrra. Þetta þrátt fyrir að páskarnir hafi verið í mars í fyrra en mánuði síðar ár, – en páskamánuðurinn er jafnan mun söluhærri en næstu mánuðir á undan og eftir. Þegar leiðrétt hefur verið fyrir þessum árstíðamun nam veltuaukning dagvöruverslana 5,1%. Verð á dagvöru fer lækkandi, eins og á flestum öðrum vörutegundum, og var 2,2% lægra en fyrir ári síðan.
Velta fataverslunar í mars var 6,4% minni en í sama mánuði í fyrra. Kemur þar annars vegar til að hætt var rekstri nokkurra stórra fataverslana í byrjun þessa árs og hins vegar að staðið hefur yfir endurskipulagning á öðrum fataverslunum að undanförnu. Þar að auki má ætla að töluverður hluti fataverslunar Íslendinga fari fram erlendis þar sem mikil aukning hefur orðið í ferðum landsmanna til útlanda. Fatakaupmenn sem RSV hefur rætt við eru almennt sammála um að þó dregið hafi úr fatasölu á heildina litið sé aukning í sölu á dýrari merkjavöru, sem sé mjög samkeppnisfær við sambærilegar vörur í erlendum verslunum. Þannig virðist sem mestur samdráttur sé í sölu ódýrari fatnaði.
Óvenjulegt er að merkja samdrátt í sölu snjallsíma, eins og reyndin var í mars. En sala þeirra dróst saman um 16,9% frá sama mánuði í fyrra. Líklegasta skýringin er að í mars fyrir ári var nýkomin á markað ný útgáfa af vinsælum snjallsímum en sú var ekki raunin í ár.
Velta í dagvöruverslun jókst um 0,1% á breytilegu verðlagi í mars miðað við sama mánuð í fyrra og jókst um 2,4% á föstu verðlagi. Leiðrétt fyrir vikudaga- og árstíðabundnum þáttum jókst velta dagvöruverslana í mars um 5,1% frá sama mánuði í fyrra. Verð á dagvöru lækkaði um 2,2% á síðastliðnum 12 mánuðum og var í mars 0,8% lægra en í mánuðinum á undan.
Sala áfengis jókst um 7,1% á breytilegu verðlagi í mars miðað við sama mánuð í fyrra og jókst um 6,9% á föstu verðlagi. Leiðrétt fyrir vikudaga- og árstíðabundnum þáttum dróst velta áfengisverslana í mars saman um 100% frá sama mánuði í fyrra. Verð á áfengi var 0,2% hærra í mars síðastliðnum og 0,1% lægra en í mánuðinum á undan.
Fataverslun dróst saman um 6,4% í mars miðað við sama mánuð í fyrra á breytilegu verðlagi og dróst saman um 2,6% á milli ára á föstu verðlagi. Verð á fötum var 3,9% lægra í mars síðastliðnum en í sama mánuði í fyrra.
Velta skóverslunar jókst um 5% í mars á breytilegu verðlagi og jókst um 4,9% á föstu verðlagi miðað við sama mánuð í fyrra. Leiðrétt fyrir árstíðabundnum þáttum jókst skósala um 6,3% frá sama mánuði í fyrra á föstu verðlagi. Verð á skóm hækkaði í mars um 0,1% frá mars í fyrra.
Velta húsgagnaverslana var 21,2% meiri í mars en í sama mánuð í fyrra á breytilegu verðlagi og jókst um 33,1% á föstu verðlagi. Velta sérverslana með rúm jókst um 32,8% frá því í fyrra á breytilegu verðlagi. Velta sérverslana með skrifstofuhúsgögn jókst um 11,7% á breytilegu verðlagi. Verð á húsgögnum hefur lækkað um 8,9% á síðustu 12 mánuðum.
Verslun með byggingavörur jókst í mars um 13,3% í mars á breytilegu verðlagi og jókst um 13,2% á föstu verðlagi. Verð á byggingavöru er 0% lægra en fyrir tólf mánuðum síðan. Þá jókst velta gólfefnaverslana um 15,1% á breytilegu verðlagi miðað við sama mánuð í fyrra.
Velta í sölu á tölvum minnkaði í mars um 4,5% á breytilegu verðlagi miðað við sama mánuð í fyrra og farsímasala dróst saman um 16,9%. Sala minni raftækja, svokallaðra brúnvara, jókst um 7,7% á breytilegu verðlagi en sala stærri raftækja, svokallaðra hvítvara, jókst um 9,5% á milli ára.
Á ráðstefnu SVÞ þann 23. mars sl. sem haldin var í tengslum við ársfund samtakanna fjallaði Anna Felländer, ráðgjafi og hagfræðingur, í sinni framsögu um áhrif stafrænu byltingarinnar á verslun og þjónustu og þær breytingar sem eru framundan í þeim efnum. Breytt neysluhegðun aldamótakynslóðarinnar felur í sér ögrandi verkefni fyrir alla sem starfa við verslun og þjónustu í dag. Þróunin er hröð og á sér stað um allan heim og því var afar fróðlegt að heyra í einum helsta sérfræðingi nútímans á þessu sviði miðla af reynslu sinni og þekkingu.
Á ráðstefnunni kynnti Daníel Svavarsson forstöðumaður hagfræðideildar Landsbankans niðurstöður nýrrar greiningar á stöðu, þróun og horfum í íslenskri verslun. Á sama tíma var gefið út glæsilegt veftímarit um íslenska verslun.
Auk þess sem formaður SVÞ, Margrét Sanders, og ráðherra ferðamála, iðnaðar, og nýsköpunar, Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir héldu tölu á ráðstefnunni sem fór fram undir styrkri stjórn Guðmundu Óskar Kristjánsdóttur viðskiptastjóra verslunar og þjónustu hjá Landsbankanum.
Aðalfundur Samtaka heilbrigðisfyrirtækja var haldinn 30. mars s.l. en samtökin starfa sem kunnugt er undir hatti SVÞ. Gestur fundarins var Nichole Leigh Mosty, formaður velferðarnefndarnefndar Alþingis og flutti hún hreinskilið ávarp um stefnu ríkistjórnarinnar í málefnum heilbrigðiskerfisins. Formaður samtakanna, Stefán Einar Matthíasson flutti skýrslu stjórnar fyrir liðið starfsár og drap þar á því helsta sem samtökin hafa unnið að. Stefán var endurkjörinn formaður. Aðrir í stjórn eru Jón Gauti Jónsson, Knútur Óskarsson, Guðmundur Örn Guðmundsson og Gunnlaugur Sigurjónsson. Varamenn með seturétt og tillögurétt á stjórnarfundum eru þeir Kristján Guðmundsson og Kristján Zophoníasson.
Í september 2015 voru undirritaðir af fulltrúum Evrópusambandsins (ESB) og íslenskra stjórnvalda nýir samningar um viðskipti með matvæli. SVÞ hafa lýst því yfir að samkomulag þetta er sannarlega fagnaðarefni og jákvætt skref í þá átt að auka frelsi í viðskiptum með matvæli sem og veita innlendum neytendum aukið val á þessum vörum á samkeppnishæfu verði. Er um að ræða breytingar sem eiga samhljóm með áralangri baráttu samtakanna fyrir auknu frelsi í innflutningi á landbúnaðarafurðum og öðrum matvælum.
Samkomulagið felur í sér að felldir eru niður tollar af alls 101 tollnúmerum sem koma til viðbótar við þau númer sem tollar hafa þegar verið felldir niður af. Sem dæmi um vörur sem bera núna ekki toll eru sykurvörur, sósur, gerjaðir drykkir o.s.frv. Aftur á móti munu með samkomulaginu falla niður tollar á vörum eins og súkkulaði, sætu kexi, pizzum og fylltu pasta.
Þá felur samkomulagið í sér að stórauknir eru tollkvótar á kjöti, þ.m.t. svína-, alifugla- og nautakjöti en þess ber að geta að tollkvótar þessir verða innleiddir í áföngum en koma að fullu til framkvæmda að fjórum árum liðnum frá gildistöku samningsins.
Gildistaka samningsins er háð samþykki bæði íslenskra stjórnvalda og ESB en hinn 13. september 2016 samþykkti Alþingi þingsályktun sem heimilaði ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd samning milli Íslands og Evrópusambandsins um ívilnanir í viðskiptum með landbúnaðarvörur. Hins vegar hefur dregist af hálfu ESB að staðfesta fyrir sitt leyti samninginn. SVÞ hafa fylgst náið með framgangi málsins á vettvangi ESB og er staða mála sú að samningurinn hefur verið samþykktur af ESB en hins vegar mun fullgilding hans dragast vegna tafa hjá Evrópuþingi. Því mun samningurinn að óbreyttu ekki koma til framkvæmda fyrr en um og kringum næstu áramót. SVÞ munu áfram fylgjast með málinu og upplýsa aðildarfyrirtæki um gang mála.