Snertilausar greiðslur – rafrænn bæklingur

Evrópusamtök verslunarinnar, EuroCommerce hafa gefið út rafrænan bækling sem ætlaður eru til að leiðbeina smásölum og öðrum seljendum vöru og þjónustu, um hvernig best verði staðið að innleiðingu á notkun snertilausra greiðslukorta og greiðslna sem fara fram í gegn um síma. Til þess að geta nýtt sér þessa nýju greiðslumiðlun á sem bestan hátt er nauðsynlegt að kynna sér hvaða búnaður er nauðsynlegur og ekki síður hvernig þjálfa skal starfsfólk í notkun á þessari nýju aðferð.

Bæklingur er til frjálsra afnota fyrir aðildarfyrirtæki SVÞ og má nálgast hér.

Umsögn SVÞ um undanþágubeiðni Markaðsráðs kindakjöts

Í umsögn til Samkeppniseftirlitsins gera SVÞ – Samtök verslunar og þjónustu athugasemdir við framkomna beiðni Markaðsráð kindakjöts um undanþágu frá ákvæðum samkeppnislaga vegna boðaðs samstarfs fyrirtækja í útflutningi á kindakjöti. SVÞ telja að í framkominni undanþágubeiðni hafi ekki verið sýnt fram á að skilyrði slíkrar undanþágu séu uppfyllt.

Markaðsráð kindakjöts hefur sent beiðni á Samkeppniseftirlitið þar sem óskað er eftir undanþágu frá bannákvæðum samkeppnislega vegna samstarfs hagsmunaaðila hvað varðar markaðssetningu á kindakjöti erlendis. Telur ráðið nauðsynlegt til að koma á laggirnar samstarfi aðila og sameiginlegu markaðsátaki til að takast á við erfiðleika í útflutningi á kindakjöti sem stafi m.a. af mikilli styrkingu krónunnar og aðrar neikvæðar breytingar vegna gengisþróunar ásamt því að aðgengi að ýmsum mörkuðum hafi lokast eða er skert.

Í umsögn sinni benda SVÞ á að tilvísaðir erfiðleikar sem blasa við markaðssetningu kindakjöts eru á margan hátt sambærilegir þeim starfsskilyrðum sem aðrar útflutningsgreinar hér á landi fást við og hafa haft áhrif á starfsemi þeirra. Nú þegar hefur hið opinbera hlaupið undir bagga með framleiðendum kindakjöts þar sem segir að íslenska ríkið hafi þegar lagt til 100 milljónir króna í sérstöku markaðsátaki vegna óhagstæðra aðstæðna á evrópskum kjötmörkuðum og hækkunar krónunnar.

Þá ítreka SVÞ að undanþáguheimild samkeppnislaga grundvallast á því að öll skilyrði slíkrar heimildar séu uppfyllt að fullu en ekki að hluta og verða þeir sem óska undanþágu á grundvelli umræddrar undanþáguheimildar að sýna fram á að umrædd skilyrði séu uppfyllt. Í umsögninni benda SVÞ að ekki eru uppfyllt skilyrði samkeppnislaga um að neytendur njóti góðs af slíku samstarfi, þ.e. að stuðla að enn frekari skort á tilteknum pörtum kindakjöts en að óbreyttu er vöntun á innanlandsmarkaði eftir tilteknum pörtum, s.s. hryggjum, sem hefur haft í för með sér hækkun á verðsskrám afurðarstöðva og felur í sér hækkun á verði til neytenda.

Er það mat SVÞ að Markaðsráð kindakjöts hafi ekki í fyrirliggjandi beiðni tekist að sýna fram á að öll skilyrði samkeppnislaga fyrir undanþágu frá ákvæðum laganna séu uppfyllt. Telja SVÞ að ekki hafi verið sýnt fram á þá hagræðingu og hagsmuni sem umbeðin undanþága muni hafa í för með sér gagnvart neytendum og veita þeim sanngjarna hlutdeild í þeim ávinningi sem að boðuðu samstarfi hlýst.

Umsögn SVÞ um undanþágubeiðni Markaðsráðs kindakjöts

Er verslunin á villigötum?

Blaðagrein birt í Morgunblaðinu 21.6.2017
Höfundur: Margrét Sanders, formaður Samtaka verslunar og þjónustu
Íslensk verslun stendur nú frammi fyrir nýjum áskorunum. Koma tveggja alþjóðlegra stórfyrirtækja inn á hinn litla íslenska markað hefur þegar haft áhrif  á smásölumarkaði, sem  gætu allt eins orðið meiri á næstu mánuðum.  Neytendur hafa tekið þessum breytingum fagnandi og hafa á undanförnum vikum staðið fyrir meiri og víðtækari umfjöllun um hagsmuni neytenda en dæmi eru um. Þessu ber að fagna, enda á verslunin allt sitt undir ánægðum neytendum og verslunin á Íslandi verður að standa sig í aukinni samkeppni.

Eins og oft gerist þegar breytingar sem hér um ræðir ganga yfir, þá falla stór orð í umræðunni. Margir eru óhræddir við að fella dóma. Sá sem harðast hefur gengið fram í þessari umræðu er Þórarinn Ævarsson, framkvæmdastjóri IKEA. Í grein sem birtist eftir hann í DV um s.l. helgi hefur hann uppi stór orð um félaga sína í hópi kaupmanna, en þar heldur hann því blákalt fram að íslensk verslun hafi stundað okur, hækkað verð fyrir útsölur og blekkt fólk.

Á meðan framkvæmdastjóri IKEA gerir ekki nánari grein fyrir því til hverra úr hópi kaupmanna hann beinir þessum orðum sínum, liggur allur sá stóri hópur „undir grun“. Þórarinn er því hér með hvattur til að stíga fram og segja með skýrum og ótvíræðum hætti við hverja hann á. Með því móti einu gefst þeim sem þessum orðum er beint til, möguleiki á að bera hönd fyrir höfuð sér. Þórarinn hefur oft sýnt það að hann hikar ekki við að segja það sem honum býr í brjósti. Það verður því varla hik á honum að upplýsa þetta. Framkvæmdastjóri IKEA hefur einnig sýnt það að hann er prýðilegur rekstrarmaður, um það vitna nýbirtar afkomutölur um rekstur IKEA, en framlegð þar er með því allra hæsta sem sést í smásöluverslun á Íslandi í dag.  Hann hefur einnig stigið fram í ræðu og riti og talað um hærra verð í IKEA verslun sinni en sambærilegum IKEA verslunum í þeim löndum sem við berum okkur saman við og gert það vel.  Verslun hans er til fyrirmyndar á erfiðum íslenskum örmarkaði, eykur á fjölbreytileikann á markaðnum eins og þessar verslunakeðjur gera sem eru að koma nýjar á markaðinn.

Íslensk verslun er ekki á villigötum þó hún takist nú á við stærri viðfangsefni en oft áður. Fjölbreytnin og samkeppnin er að aukast og því ber að fagna.  Umræða um íslenska verslun er hins vegar á villigötum á meðan hún er með þeim hætti sem verið hefur undanfarnar vikur. Atvinnugreinin sem slík og þeir 26.000 einstaklingar sem hafa atvinnu sína af verslun eiga skilið málefnalega umræðu, þar sem tekist er á með rökum en ekki með sleggjudómum.

Blaðagreinin í Morgunblaðinu

Verslunin er miðpunktur í grænum skiptum

Viðskiptin sjálf hafa ekki mikil bein áhrif á losun gróðurhúsaloftegunda, en hafa áhrif á birgja, umhverfisval neytenda og heildarlosun. Við verðum að hafa áhrif.
Heild- og smásala greiðir um 9,4% af launum og launatengdum gjöldum á Íslandi og um 14% vinnuafls starfar í heild- eða smásölu og er þetta því sú atvinnugrein sem veitir flestum atvinnu hér á landi.  Rúmlega 8% af landsframleiðslu á Íslandi árið 2016 átti rætur að rekja til heild- og smásöluverslunar og því er þessi geiri einn sá umfangsmesti á Íslandi.

Við teljum að viðræður, samvinna og breið þátttaka á vinnustað um umhverfismál styðji og styrki átak  á sviði umhverfismála.  Það eru einkum þrjú svið þar sem verslun getur haft áhrif í grænu skiptum:

• Með eigin aðgerðum (orkunýtni, draga úr notkun jarðefnaeldsneytistegunda í samgöngum, flokkun og  meðhöndlun úrgangs)
• Vera leiðandi fyrir birgja og framleiðendur
• Hvetja til grænnar neyslu

Naumur tími
Áætlað er að heildareftirspurn eftir auðlindum árið 2050 verði 140 milljarðar tonna en eftirspurnin var um 50 milljarðar árið 2014. Það er 400% meira en jörðin ræður við .  Við notum nú þegar meira en jörðin nær að endurnýja á hverju ári. Aukin eftirspurn og minna aðgengi er ekki sjálfbært. Árið 2050 verður skortur á ýmsum mikilvægum málmum og ný úrræði verða mjög dýr.

Mikilvægi hringhagkerfisins
Hringhagkerfi styður við sjálfbæran vöxt og störf í verslun og þjónustustörfum á Íslandi. Hringhagkerfi snýst í meginatriðum um að halda auðlindunum í umferð. Framleiðendur bera ekki aðeins ábyrgð á vörum allan líftíma þeirra, þeir hafa einnig efnahagslegan ábata af því að fá vörur og efni til baka eftir notkun.

Allt þetta skapar ný störf, með nýjum verkefnum og nýjum hugsunarhætti. Fyrirhugaðri sýn verður að ná, m.a. með atvinnuskapandi nýsköpun og alhliða þjálfun fyrir alla starfsmenn.  Fyrirtæki verða í miklu meira mæli að hafa virka nálgun til umhverfis- og loftslagsmála í virðiskeðjunni.  Verslanir verða t.a.m. að kortleggja virðiskeðju matvæla til að ná árangi við að sporna gegn matarsóun.

Nauðsynleg aðkoma stjórnvalda
Leiðarvísir að breyttu umhverfi getur komið úr ólíkum áttum – bæði með því að huga að verslunarviðskiptunum sjálfum sem stjórnvöld geta komið að. T.a.m.  getur verslun boðið upp á grænna vöruúrval sem er bæði aðlaðandi og aðgengilegt.  Þetta er hægt með því að samtvinna sjálfbærni og undirstöður hringhagkerfisins í hönnun verslana, innkaupum, svæðisskipulagi og öðrum þáttum sem verslunin notar til að auglýsa sig.  Umhverfisvottun verslana, umhverfisstaðlar á flutninga, þátttaka í mótun umhverfis og þróunarverkefnum í nærumhverfi verslunarinnar eru þættir sem verslunin gæti  nýtt til að skapa samkeppnisforskot.  Samhliða þessu ættu stjórnmálamenn að tryggja umhverfi sem gerir það einnig hagkvæmt fyrir verslunina að taka þátt í grænum skiptum.

Að endingu
Smásalar gegna lykilhlutverki í að  hringhagkerfið virki þar sem neytendur versla í búðunum þeirra á hverjum einasta degi og eru í auknum mæli að sýna áhuga á umhverfisáhrifum neytendavara. Auk þess hafa Íslendingar tækifæri til að stuðla að samkeppnishæfu hagkerfi sem einkennist af lítilli koltvísýringslosun með vali þeirra. Smásalar eru nú þegar virkir að upplýsa og hafa áhrif á val neytenda með því að bjóða þeim ábyrgar afurðir, pökkun með minni umhverfisáhrifum og veita ábendingar um hvernig á að geyma mat og elda með afgöngum til að draga úr  matarsóun og skipuleggja upplýsingaherferðir til neytenda um orkusparandi vörur.

Á næstu vikum munu samtökin birta fleiri og ítarlegri samantektir um einstaka þætti í hringhagkerfinu.

Höfundur: Ingvar Freyr Ingvarsson, hagfræðingur SVÞ.

Enn dregur úr vexti kortaveltu ferðamanna

Samkvæmt samantekt Rannsóknaseturs verslunarinnar nam erlend greiðslukortavelta 21,3 milljörðum króna í maí síðasliðnum samanborið við 19,9 milljarða í maí í fyrra. Hlutfallsvöxtur frá fyrra ári er því um 7,1% og hefur ekki verið minni frá því RSV hóf söfnun hagtalna um kortaveltu erlendra ferðamanna árið 2012. Í krónum jókst kortaveltan um 1,4 milljarða frá maí í fyrra. Meginástæðan fyrir minni vexti kortaveltu nú er vafalítið sterkt gengi krónunnar.

Í maí var samdráttur í nokkrum flokkum erlendrar kortaveltu. Ber þar helst að nefna verslun en í heild dróst greiðslukortavelta verslunar saman um 4,7% frá fyrra ári, úr 2,3 milljörðum króna í maí 2016 í 2,2 milljarða króna í maí síðastliðnum. Kortavelta í gjafa- og minjagripaverslun dróst saman um 18,9%, fataverslun dróst saman um 5,9%, tollfrjáls verslun um 7,4% og önnur verslun um 10,9%. Dagvöruverslun var eini flokkur verslunar þar sem erlend kortavelta jókst í mánuðinum, um 12,8% frá sama mánuði í fyrra. Meðal annarra flokka kortaveltunnar sem drógust saman frá fyrra ári eru bílaleigur en erlend greiðslukortavelta þeirra var 0,6% lægri í maí samanborið við sama mánuð í fyrra og var 1,7 milljarðar í maí síðastliðnum.
Kortavelta e. flokkum 05 2017
Mest jókst kortavelta í maí í flokki farþegaflutninga, um 22,7% eða um 852 milljónir frá sama mánuði í fyrra. Sem fyrr er vakin athygli á því að hluti erlendrar starfsemi innlendra flugfélaga er meðtalin, en farþegaflug er langstærsti einstaki hluti farþegaflutninga í erlendri greiðslukortaveltu. Næst mestur var vöxtur kortaveltunnar í flokki ýmissar ferðaþjónustu en undir flokkinn fellur þjónusta ferðaskrifstofa og ýmsar skipulagðar ferðir. Velta þess flokks jókst um 13,2% frá maí 2016 og nam 3,5 milljörðum króna í maí síðastliðnum.

Erlend greiðslukortavelta í gistiþjónustu jókst um 8,7% í maí síðastliðnum og nam 3,9 milljörðum króna samanborið við 3,6 milljarða í sama mánuði fyrir ári. Vöxtur kortaveltu veitingastaða var heldur minni eða 0,9% frá fyrra ári og nam í maí  síðastliðnum 2.044 milljónum króna, 18 milljónum króna meira en í sama mánuði í fyrra.

Gengi og verðlag
Gengi krónunnar hefur styrkst mjög hressilega síðasta árið og var 23% hærra í maí síðastliðnum borið saman við sama mánuð í fyrra ef miðað er við viðskiptavog SÍ. Gengi krónunnar hefur styrkst mis-mikið gagnvart viðskiptagjaldmiðlum á tímabilinu en sem dæmi var krónan 35% sterkari gagnvart sterlingspundi en 20% sterkari gagnvart Bandaríkjadal samanborið við maí í fyrra. Í mars greindi RSV frá því að ofan á þá gengistyrkingu sem þá hafði raungerst hefði verðlag ýmissa ferðaþjónustuafurða hækkað í undangengnum febrúarmánuði samanborið við febrúar í fyrra. Í maí er verðhækkun frá fyrra ári töluvert hóflegri en þá. Sem dæmi hækkaði verð gistiþjónustu um 1% í íslenskum krónum frá maí í fyrra, verðlag veitingahúsa um 4% og verð pakkaferða innanlands um 3% samkvæmt verðmælingu Hagstofunnar. Þrátt fyrir að verðhækkanir frá fyrra ári séu hóflegar bætast þær engu að síður við styrkingu krónunnar og endurspeglast í minni kaupmætti erlendra ferðamanna hérlendis.

Kortavelta eftir þjóðerni
Töf verður á birtingu talna Ferðamálastofu um fjölda ferðamanna og því ekki hægt að birta kortaveltu á mann eftir þjóðerni. Í töflunni hér til hliðar má sjá greiðslukortaveltu eftir helstu þjóðernum í maí síðastliðnum samanborið við maí í fyrra.

kortavelti e. þjóðerni 05 2017Töflunni er raðað eftir breytingu í milljónum króna í dálknum lengst til hægri. Í töflunni sést að mestu munar um auknar tekjur Bandaríkjamanna frá maí í fyrra en kortavelta þeirra jókst um 1,5 milljarð frá fyrra ári eða um 22,5%. Mest minnkar greiðslukortavelta Norðmanna, um 200 mkr. og Kanadabúa, um 194 mkr. frá fyrra ári.
Í því talnaefni sem Rannsóknasetur verslunarinnar hefur yfir að ráða er nánar hægt að greina kortaveltu erlendra ferðamanna eftir útgjaldaliðum og þjóðerni.

Um kortaveltu ferðamanna
Rannsóknasetur verslunarinnar birtir mánaðarlega tölur um greiðslukortaveltu ferðamanna sundurliðaða eftir útgjaldaliðum og útgáfulandi korta. Gögnunum er enn fremur skipt eftir því hvort um er að ræða erlend eða innlend greiðslukort. Gögnin innihalda færslur bæði debet- og kreditkorta. Birtar eru upphæðir í íslenskum krónum ásamt hlutfallsbreytingum frá fyrri mánuði og sama mánuði fyrra árs.
Gögnin eru fengin frá innlendum færsluhirðingaraðilum, sundurliðuð eftir svonefndum MCC kóðum. MCC kóðarnir eru aftur greindir í flokka eftir því hvernig þeir eru taldir tengjast mismunandi greinum ferðaþjónustu. Gögnin lýsa kortaveltu eftir kauptímabilum (almanaksmánuðum) en ekki eftir uppgjörstímabilum.

Nánari upplýsingar veitir Árni Sverrir Hafsteinsson, arni@bifrost.is eða í síma 868-4341.

Fréttatilkynning RSV.

Aukin velta þrátt fyrir innkomu Costco

Í fréttatilkynningu Rannsóknaseturs verslunarinnar kemur fram að innkoma Costco hefur sannarlega hreyft við verslunarmynstrinu hér á landi og viðbrögð neytenda hafa ekki látið á sér standa. Of snemmt er hins vegar að segja til um hver áhrifin verða, bæði hvað varðar markaðshlutdeild Costco á smásölu- og heildsölumarkaði og hins vegar áhrif á verðlag. Verslunin opnaði 23. maí sl. og var því aðeins starfrækt í rúma viku af þeim mánuði. Veltutölur þær sem Rannsóknasetur verslunarinnar birta hér ná ekki til veltu Costco. Af þeim tölum sem fyrirliggjandi eru um veltu frá verslunum sem fyrir voru á markaði í maí jókst heildarumfang þeirra frá sama mánuði í fyrra. Þetta á bæði við um dagvöruverslun og raftækjaverslun en samkeppni Costco við verslanir á þessum sviðum hafa verið í kastljósi fjölmiðlanna undanfarið.

Sjá nánar um markaðshlutdeild lágvöruverðsverslana á Norðurlöndunum hér að neðan.
Verð á dagvöru var 3,2% lægra í maí síðastliðinn en í sama mánuði í fyrra og jókst velta þeirra dagvöruverslana sem fyrir voru á markaði um 1,2% að nafnvirði eða 4,6% á raunvirði á sama tímabili. Ætla má að sú verðlækkun stafi annars vegar af styrkingu krónunnar gagnvart öðrum gjaldmiðlum og hins vegar af aukinni samkeppni með innkomu Costco. Verðlag dagvöru hefur lækkað hvern mánuð frá ágúst 2016, þó minnst í maí síðastliðnum.

Verðlagsmæling Hagstofunnar, sem hér er stuðst við, var síðast gerð um miðjan maímánuð, eins og venja er. Þó mælingin hafi verið gerð áður en Costco opnaði hafa verðlagsáhrif þegar verið farin að koma í ljós þegar ljóst var að samkeppnin ykist. Verðmælingar Hagstofunnar ná ekki til verðlags í Costco en endurspegla verðlagsáhrifin eins og þau koma fram í þeim verslunum sem fyrir voru á markaði.

Verð nær allra vöruflokka sem Smásöluvísitalan nær til lækkaði í árssamanburði í maí en einungis skófatnaður hækkaði í verði, um 3,5% frá maí í fyrra.
Raftækjaverslun jókst í maí síðastliðnum en velta svokallaðra hvítra raftækja (þvottavélar, ísskápar og o.s.fr.) var 13,7% meiri í maí síðastliðnum samanborið við maí 2016 á breytilegu verðlagi. Á sama mælikvarða jókst velta með tölvur og jaðarbúnað um 18,7%, velta brúnvara (sjónvörp o.fl.) um 3,8% og velta farsíma um 2,8% samanborið við sama mánuð í fyrra. Líkt og í dagvöruverslun miðar mælingin við þær verslanir sem fyrir voru og tekur ekki til veltu Costco.

Velta í byggingavöruverslun jókst um 10,6% í maí síðastliðnum frá sama mánuði í fyrra á breytilegu verðlagi, þá jókst velta sérverslana með gólfefni um 17,9% á sama tímabili. Verð byggingavara hefur lækkað um 1,2% frá sama mánuði í fyrra en verð gólfefna hefur lækkað um 1%

Markaðshlutdeild lágvöruverðsverslana á Norðurlöndunum
Ef horft er til áhrifa á markaðshlutdeild fjölþjóðlegra lágvöruverðsverslana, sem hafa haslað sér völl í hinum Norðurlöndunum, sést að markaðshlutdeild þeirra er á bilinu fjRSV Smásöluvísitalan 05 2017ögur til átta prósent af smásölumarkaði með dagvöru. Hvort það hlutfall hefur forspárgildi hér á landi vegna komu Coscto er nokkurri óvissu háð, en gætu þó gefið vísbendingar.
Þær lágvöruverðsverslanir sem hér er vísað til á hinum Norðurlöndunum eru einkum Lidl og Aldi, sem hafa takmarkað vöruúrval, selja gjarna í stórum einingum og leggja áherslu á lægra vöruverð en í þeim verslunum sem bjóða breiðara vöruval og hafa meiri þjónustu. Costco er að nokkur leyti líkt ofangreinum lágvöruverðsverslunum en hafa einnig önnur einkenni því þar er að finna ýmislegt fleira en matvörur og viðskiptamódelið byggir á áskriftargjaldi viðskiptavina. Þá er Costo frábrugðið lávöruverðskeðjunum í Skandinavíu að því leyti að hér er aðeins ein verslun en á Norðurlöndunum eru útsölustaðirnir mun fleiri.

Eins og sjá má af meðfylgjandi skýringarmyndum hefur lágvöruverðskeðjan Lidl um 4% markaðshlutdeild í Svíþjóð og liðlega 8% í Finnlandi. Samsetning þeirra verslana sem skilgreina má sem lágvöruverðsverslanir er nokkuð mismunandi á milli landa, en heildarmyndin sýnir að innlendu dagvöruverslunarkeðjurnar hafa yfirburðastöðu í öllum löndunum.
Athyglisvert er einnig að á öllum Norðurlöndunum eru tvær til þrjár verslunarkeðjur sem ráða langstærstum hluta markaðarins. Þetta á jafnt við um Ísland sem og hin Norðurlöndin.

Velta smásöluverslana í maí
Velta í dagvöruverslun jókst um 1,2% á breytilegu verðlagi í maí miðað við sama mánuð í fyrra og jókst um 4,6% á föstu verðlagi. Leiðrétt fyrir vikudaga- og árstíðabundnum þáttum jókst velta dagvöruverslana í maí um 3% frá sama mánuði í fyrra. Verð á dagvöru lækkaði um 3,2% á síðastliðnum 12 mánuðum og var í maí 0% lægra en í mánuðinum á undan.

Sala áfengis jókst um 7,7% á breytilegu verðlagi í maí miðað við sama mánuð í fyrra og jókst um 7,4% á föstu verðlagi. Leiðrétt fyrir vikudaga- og árstíðabundnum þáttum jókst velta áfengisverslana í maí um 4,5% frá sama mánuði í fyrra. Verð á áfengi var 0,3% hærra í maí síðastliðnum og 0,1% hærra en í mánuðinum á undan.

Fataverslun dróst saman um 17,7% í maí miðað við sama mánuð í fyrra á breytilegu verðlagi og dróst saman um 11,9% á milli ára á föstu verðlagi. Verð á fötum var 6,5% lægra í maí síðastliðnum en í sama mánuði í fyrra.

Velta skóverslunar minnkaði um 2,5% í maí á breytilegu verðlagi og minnkaði um 5,8% á föstu verðlagi miðað við sama mánuð í fyrra. Leiðrétt fyrir árstíðabundnum þáttum minnkaði skósala um -3,6% frá sama mánuði í fyrra á föstu verðlagi. Verð á skóm hækkaði í maí um 3,5% frá maí í fyrra.

Velta húsgagnaverslana var 14,2% meiri í maí en í sama mánuð í fyrra á breytilegu verðlagi og jókst um 23,1% á föstu verðlagi. Velta sérverslana með rúm jókst um 7,9% frá því í fyrra á breytilegu verðlagi. Velta sérverslana með skrifstofuhúsgögn jókst um 13,2% á breytilegu verðlagi. Verð á húsgögnum hefur lækkað um 7,3% á síðustu 12 mánuðum.

Verslun með byggingavörur jókst í maí um 10,6% í maí á breytilegu verðlagi og jókst um 11,9% á föstu verðlagi. Verð á byggingavöru er 1,2% lægra en fyrir tólf mánuðum síðan. Þá jókst velta gólfefnaverslana um 17,9% á breytilegu verðlagi miðað við sama mánuð í fyrra.

Velta í sölu á tölvum jókst í maí um 18,7% á breytilegu verðlagi miðað við sama mánuð í fyrra og farsímasala jókst um 2,8%. Sala minni raftækja, svokallaðra brúnvara, jókst um 3,8% á breytilegu verðlagi en sala stærri raftækja, svokallaðra hvítvara, jókst um 13,7% á milli ára.

Nánari upplýsingar veitir Árni Sverrir Hafsteinsson arni@bifrost.is og í síma 868-4341.

Fréttatilkynning RSV.