Enn frekari tafir á gildistöku landbúnaðarsamnings Íslands og ESB

Fréttatilkynning send á fjölmiðla 12.7.2017
Í september 2015 voru undirritaðir af fulltrúum Evrópusambandsins (ESB) og íslenskra stjórnvalda nýir samningar um viðskipti með matvæli. SVÞ hafa lýst því yfir að samkomulag þetta er sannarlega fagnaðarefni og jákvætt skref í þá átt að auka frelsi í viðskiptum með matvæli sem og veita innlendum neytendum aukið val á þessum vörum á samkeppnishæfu verði. Er um að ræða breytingar sem eiga samhljóm með áralangri baráttu samtakanna fyrir auknu frelsi í innflutningi á landbúnaðarafurðum og öðrum matvælum.

Samkomulagið felur í sér að felldir eru niður tollar af alls 101 tollnúmerum sem koma til viðbótar við þau númer sem tollar hafa þegar verið felldir niður af. Sem dæmi um vörur sem bera núna ekki toll eru sykurvörur, sósur, gerjaðir drykkir o.s.frv. Aftur á móti munu með samkomulaginu falla niður tollar á vörum eins og súkkulaði, sætu kexi, pizzum og fylltu pasta.

Þá felur samkomulagið í sér að stórauknir eru tollkvótar á kjöti, þ.m.t. svína-, alifugla- og nautakjöti en þess ber að geta að tollkvótar þessir verða innleiddir í áföngum en koma að fullu til framkvæmda að fjórum árum liðnum frá gildistöku samningsins.

Gildistaka samningsins er háð samþykki bæði íslenskra stjórnvalda og ESB en hinn 13. september 2016 samþykkti Alþingi þingsályktun sem heimilaði ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd samning milli Íslands og Evrópusambandsins um ívilnanir í viðskiptum með landbúnaðarvörur. Hins vegar hefur dregist af hálfu ESB að staðfesta fyrir sitt leyti samninginn. Upphaflega var gert ráð fyrir að samningurinn kæmi til framkvæmda um næstu áramót. SVÞ hafa hins vegar borist þær upplýsingar frá utanríkisráðuneyti að samningurinn hafi enn ekki verið staðfestur af hálfu ESB og samkvæmt sömu upplýsingum mun mál þetta koma á dagskrá Evrópuþingsins í september nk. Í umræddum samningi er ákvæði um gildistöku þar sem segir að hann muni taka gilda fyrsta dags þess mánaðar að sjö mánuðum liðnum frá staðfestingu hans og því mun hann ekki taka gildi og koma til framkvæmda fyrr en í fyrsta lagi 1. apríl 2018. Því er ljóst að gildistaka þessa samnings mun dragast enn frekar og harma SVÞ þann drátt sem rekja má til atvika er varða samþykkt hans innan ESB.

Fréttatilkynning til útprentunar.

Gagnavísir SVÞ

Til að dýpka umræðuna og halda áfram að styrkja umfjöllun og meðvitund um stöðu og horfur í íslenskri verslun hafa Samtök verslunar og þjónustu ákveðið að birta lifandi mælaborð „Gagnavísir SVÞ“ á heimasíðu sinni sem sýnir þróun vísitölu neysluverðs og undirvísitölur ásamt þróun og horfum helstu hagvísa.  Við munum bæta við upplýsingum á næstu vikum.

Sigurður Baldursson vann að gagnavísinum en hann er útskrifaður tölvunarfræðingur. Sigurður hefur meðal annars unnið við að setja upp veflægt mælaborð fyrir flugstjórn ásamt streymandi gröfum í rauntíma hjá Tern Systems. Vann greiningarverkefni um kreditkortaveltu erlendra ferðamanna með gögnum frá RSV og vinnur nú hjá Háskólanum í Reykjavík við að sjá um forritunarvefinn hjá háskólanum.

Það er mikilvægt fyrir SVÞ  að starfa í nánu sambandið við háskólana. Þær breytingar sem allar atvinnugreinar ekki hvað síst verslun og þjónusta standa nú frammi fyrir eru meiri og róttækari en nokkur dæmi eru um. Breytingar sem eru að verða á viðskiptaháttum nýrrar kynslóðar og þær stórstígu framfarir í allri tækni sem orðið hafa á allra síðustu árum munu  gjörbreyta viðskiptaumhverfi fyrirtækja.

Smelltu á eftirfarandi slóð til að nálgast mælaborðið: gagnavisir.svth.is

Frá ráðstefnu í Berlín um nýjungar í fragtflutningum í netverslun

Samtök verslunar og þjónustu tóku þátt í Deliver ráðstefnu í Berlín þann 27. og 28. júní síðast liðinn. Í þeirri ráðstefnu tóku þátt 50 lönd, 450 leiðandi fyrirtæki í netverslRobotun, 150 nýsköpunarfyrirtæki og birgjar, 50 fjárfestar og 50 fjölmiðlafólk.

Á ráðstefnunni voru veittar viðurkenningar fyrir mestan viðsnúning, vonarljós/skærustu stjörnuna, bestu upplifun viðskiptavina, sjálfbærni, og nýjar leiðir á markaði. Fyrirtæki á borð við Urbantz, DS Smith, What3words og DPDgroup fengu umræddar viðukenningar.

Meðfylgjandi eru fyrirlestar og myndbönd frá aðalræðumönnum ráðstefnunnar:

Amazon

Delft Robotics

Picavi

TeleRetail

TwinswHeel

Zalando

 

 

 

 

 

 

Ný einkarekin heilsugæslustöð fer vel af stað

Þann 1. júní s.l. opnaði ný heilsugæslustöð, Heilsugæslan Höfða, að Bíldshöfða 9, í gamla Hampiðjuhúsinu. Þetta er fyrsta heilsugæslustöðin til að opna á höfuðborgarsvæðinu í mörg ár og er stofnsett á grundvelli útboðs sem fram fór á s.l. ári þar sem boðinn var út rekstur þriggja heilsugæslustöðva á höfuðborgarsvæðinu. Starfsemi heilsugæslustöðvarinnar fer mjög vel af stað en þegar hafa um 4500 manns skráð sig en ætlunin er að sinna a.m.k. þrefalt þeim fjölda.

Um áramótin voru innleiddar breytingar hjá Sjúkratryggingum Íslands þannig að fólk getur valið sér heimilislækni og heilsugæslustöð óháð því hvar þeir búa. Mikilvægt er að kynna þessa breytingu betur, en nokkuð hefur vantað á að fólk geri sér grein fyrir þessum breytingum á réttindum sínum til að sækja heilsugæsluþjónustu þar sem það óskar. Allir skjólstæðingar Heilsugæslunnar Höfða, sem þess óska, munu fá sinn eigin heimilislækni og geta þá einnig skráð fjölskylduna alla hjá sama lækni.  Gjaldtaka er eins og á öllum öðrum heilsugæslustöðvum og ákvörðuð af Sjúkratryggingum Íslands.

Lögð verður áhersla á gott aðgengi og stuttan biðtíma.  Þess vegna hefur sú nýjung verið innleidd að auk hefðbundinna tímabókana og síðdegisvakta frá kl. 16 -18 verði opin móttaka milli kl 8 og 10 á morgnana þar sem óþarft er að bóka tíma fyrirfram, ætlað fyrir stutt eða bráð erindi. Þannig verður stuðlað að því að engum sé vísað frá og skjólstæðingar þurfi ekki að leita annað nema í algerri neyð utan dagvinnu. Heilsugæslan Höfða mun þannig leitast við að gera heilsugæsluna að raunverulegum fyrsta viðkomustað í heilbrigðiskerfinu.
Heilsugæslan Höfða mun jafnframt bjóða upp á alla grunnþjónustu eins og mæðravernd, ungbarnavernd, hjúkrunarmóttöku og einnig verður ákveðin áhersla á lífstílssjúkdóma og vinnu í teymum fyrir skjólstæðinga með langvinna sjúkdóma.

Að heilsugæslunni standa 10 heimilislæknar og á henni starfa 6 hjúkrunarfræðingar þar af 2 ljósmæður, 5 ritarar og framkvæmdastjóri. Allt er þetta starfsfólk með mikla reynslu og mikinn áhuga á að bæta og styrkja heilsugæsluþjónustu á höfuðborgarsvæðinu.

Vonandi er opnun þessarar einkareknu heilsugæslustöðvar fyrsta skrefið í áframhaldandi þróun á því sviði og við megum sjá fleiri slíkar stöðvar opna á næstunni. Slíkt væri í fullu samræmi við þá þróun sem átt hefur sér stað í nágrannalöndum okkar að undanförnu, en bæði í Noregi og Svíþjóð hafa verið tekin afgerandi skref í átt til aukins einkareksturs í heilsugæslunni á undanförnum einum og hálfum áratug. Í Danmörku hefur heilsugælsan verið einkarekin áratugum saman.

Ráðstefna um stafræna tækniþróun í flutningageiranum

SVÞ býður aðildarfyrirtækjum SVÞ á ráðstefnu um stafræna tækniþróun í flutningageiranum þann 31. ágúst nk. Birgit Marie Liodden verður aðalræðumaður ráðstefnunnar og mun hún fjalla um stafræna tækniþróun í sjó-, land- og flugflutningum og hvernig sú þróun hefur áhrif víðar, ekki síst á smásölu og heildsölu.

Birgit  hefur þrátt fyrir ungan aldur sýnt að hún hefur mikla leiðtogahæfileika og er núna einn helsti talsmaður nýrrar kynslóðar fólks í flutningageiranum – bæði í Noregi og alþjóðlega.  Fyrir utan að vera stofnandi og fyrsti framkvæmdastjóri YoungShip internaional, þá hefur hún þegar unnið fyrir aðila á borð við Wilh. Wilhelmsen og OECD (ráðgjöf).  Hún vinnur nú sem stjórnandi í Nor-shipping og er stjórnarmaður í Norwegian Sea Rescue Academy og Wista Norway & Ocean Industry forum Oslo region.

Ráðstefna verður opin öllum. Nánar auglýst síðar.

Snertilausar greiðslur – rafrænn bæklingur

Evrópusamtök verslunarinnar, EuroCommerce hafa gefið út rafrænan bækling sem ætlaður eru til að leiðbeina smásölum og öðrum seljendum vöru og þjónustu, um hvernig best verði staðið að innleiðingu á notkun snertilausra greiðslukorta og greiðslna sem fara fram í gegn um síma. Til þess að geta nýtt sér þessa nýju greiðslumiðlun á sem bestan hátt er nauðsynlegt að kynna sér hvaða búnaður er nauðsynlegur og ekki síður hvernig þjálfa skal starfsfólk í notkun á þessari nýju aðferð.

Bæklingur er til frjálsra afnota fyrir aðildarfyrirtæki SVÞ og má nálgast hér.