04/04/2017 | Fréttir, Stjórnvöld
Undanfarin ár hafa SVÞ haft til skoðunar ýmsa þætti varðandi starfsemi Fríhafnarinnar ehf. í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Hafa samtökin gagnrýnt þá mismunun sem sú opinbera starfsemi hefur í för með sér gagnvart almennri verslun utan veggja flugstöðvarinnar. Gagnrýnin hefur m.a. snúið að niðurgreiddri verslunarstarfsemi hins opinbera sem starfar í beinni samkeppni við aðrar verslanir hér á landi.
Í ljósi þessa sendu SVÞ í apríl 2016 kvörtun á Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) enda telja samtökin að núverandi framkvæmd feli í sér brot gegn ríkisstyrkjareglum EES-samningsins. Samhliða umræddri kvörtun SVÞ til ESA hafði stofnunin þá þegar haft til skoðunar sambærilegt fyrirkomulag í Noregi og afgreiddi ESA það mál í nóvember 2016.
ESA hefur nú lokið skoðun á málinu og birti stofnunin niðurstöðu sína í mars sl. þar sem komist er að þeirri niðurstöðu að fyrirkomulagið hvað varðar rekstur hins opinbera á fríhafnarverslun feli ekki í sér brot gegn ríkisstyrkjarreglum EES-samningsins. Telur ESA að íslensk stjórnvöld hafi í máli þessu sýnt fram á mikilvægi slíks rekstrar hins opinbera til að sporna gegn smygli og undanskotum hvað varðar opinber gjöld. Þá sé slíkt fyrirkomulag til þess fallið að einfalda tollaeftirlit í flugstöðinni. Niðurstaða þessi er í fullu samræmi við fyrri niðurstöðu ESA frá nóvember 2016 hvað varðar sambærilegt fyrirkomulag í Noregi og ljóst að stofnunin taldi þau sjónarmið sem þar komu fram eiga við hvað varðar svipaða starfsemi hér á landi.
SVÞ harma þessa niðurstöðu ESA í málinu enda er það staðföst trú samtakanna að núverandi fyrirkomulag raski að verulegu leyti samkeppni hér á landi og hafi skaðleg áhrif á þá samkeppni. Er með öllu óumdeilt að innlend verslun getur ekki keppt við opinbera starfsemi á sama sviði sem nýtur yfirburðarstöðu í formi niðurfellingar á opinberum gjöldum í þeirri samkeppni. SVÞ ítreka að samtökin hafa einnig þegar sent kvörtun til Samkeppniseftirlitsins vegna málsins og er það mál enn til skoðunar hjá eftirlitinu.
04/04/2017 | Fræðsla, Fréttir, Verslun, Viðburðir
Í framhaldi af ársfundi SVÞ þann 23. mars sl. þar sem fjallað var um byltingu og breytingu í þjónustu og verslun stóð SVÞ fyrir vinnustofu í samvinnu við Eddu Blumenstein, doktorsnema við Viðskiptaháskólann í Leeds á Englandi. Á vinnustofunni var farið yfir næstu skref hvað varðar innleiðingu stafrænnar tækni í verslun. Fór Edda m.a. yfir hvernig kauphegðun notenda hefur breyst með tilkomu stafrænnar tækni, netsins, samfélagsmiðla og fleira, og í raun hvernig smásalar, verslunar- og þjónustuaðilar eru að bregðast við þeirri þróun.
Fjallað var um hvernig við höfum þróast frá „single channel“ fyrirkomulagi þar sem kaupmaðurinn á horninu veitti persónulega þjónustu til viðskiptavina, út í það að vera með margar aðkomuleiðir að viðskiptavininum. Í því samhengi var sérstaklega farið yfir Omni Channel, eða samruna stafrænnar tækni og hefðundinnar verslunar.
Til að skýra Omni Channel hugmyndafræðina nefndi Edda verslunina Mothercare í Bretlandi, en sú verslun er mjög gott dæmi, að hennar sögn, um leiðandi Omni Channel fyrirtæki. Þ.e., verslunin er með allt samtengt, tækni og verslun. Starfsfólkið er til dæmis með spjaldtölvur og aðstoðar þig á alla lund. Það eina sem þarf að gera við þjónustuborðið er að borga.
Glærur Eddu Blumenstein: Viðbrögð verslunar- og þjónustufyrirtækja við áhrifum stafrænnar tækni á verslun og þjónustu.
03/04/2017 | Fréttir, Greining, Skýrslur, Verslun
Samantekt
Segja má að verslun standi á tímamótum hvað framtíðina varðar og því er engin tilviljun hversu áberandi umræða er í samfélaginu um netverslun og önnur málefni verslunar. Verslunin mun breytast meira á næstu 5 árum en hún hefur gert síðustu 50 ár. Í því tilliti má nefna að Svensk Handel, systursamtök SVÞ í Svíþjóð, spá að verslunum í Svíþjóð muni fækka um allt að 5 þúsund til og með árinu 2025 sökum aukinnar samkeppni við netverslanir. Gera má ráð fyrir að nokkur straumhvörf séu að verða í viðhorfi fólks þar sem neytendur eru nú sífellt kröfuharðari; þeir vilja fjölbreytni og að vörurnar séu afhentar með þeim hætti sem best samræmist daglegu lífi þeirra. Ljóst er að tækniþróunin hefur í för með sér að neytendur eru betur upplýstir bæði hvað varðar verð og gæði og hafa meira val vegna netverslunar sem leiðir til aukinnar samkeppni. Þessi þróun hvetur verslanir til að auka framleiðni og minnka kostnað sem leiðir til lægri verðbólgu í stað þess að hækka verð. Alþjóðavæðingin nær ekki síður til verslunarinnar vegna aukinnar samkeppni milli staðbundinna verslana hér á landi þar sem fyrirhugað er að stórir erlendir aðilar komi inn á markaðinn. Þessi aukna samkeppni mun að óbreyttu leysa úr læðingi krafta sem koma samfélaginu til góða, t.d. með hagkvæmari rekstri sem síðar geta stuðlað að lægra verði til neytenda. Þó þarf að halda vel á spilunum svo að það gangi eftir. Þróun kaupmáttar launa undanfarin misseri, fjölgun ferðamanna og afnám tolla og vörugjalda hafa ýtt undir vöxt innlendra verslana. Það er hins vegar margt sem skekkir þessa mynd og nægir þar að nefna þá ofurtolla sem enn eru lagðir á algengar tegundir innfluttra landbúnaðarvara og það háa vaxtastig sem fyrirtæki og almenningur býr við. Þá verður íslenska krónan seint talin stöðugur gjaldmiðill og vegna legu landsins mun flutningskostnaður alltaf hafa meiri áhrif á verð vöru hér á landi en í samanburðarlöndunum.
Skýrsluna má nálgast hér.
29/03/2017 | Fræðsla, Fréttir, Viðburðir
Haldinn í samvinnu Umhverfisstofnunar, Samtaka iðnaðarins, Samtaka verslunar og þjónustu og Félags atvinnurekenda
Staður og tími: Borgartúni 35, 5. apríl 2017, kl. 10:00-12:00
Dagskrá:
10.00-10.05 Opnun
10:05-10:15 Efnalögin og eftirlit með efnavörum – Björn Gunnlaugsson
10:15-10:25 Öryggisblöð – flæði upplýsinga í aðfangakeðjunni – Björn Gunnlaugsson
10:25-10:45 Flokkun og merking á efnavörum, ábyrgð fyrirtækja og eftirlit – Einar Oddsson
10:45-11:00 Hlé
11:00-11:20 Flokkun og merking á efnavörum, ábyrgð fyrirtækja og eftirlit frh. – Einar Oddsson
11:20-11:30 Þvingunarúrræði og viðurlög – Maríanna Said
11.30-12:00 Umræður
Fundarstjóri: Bryndís Skúladóttir, Samtökum iðnaðarins
28/03/2017 | Fréttir, Viðburðir
Hin hraða tækniþróun undanfarinna ára, með tilkomu netsins, snjallsíma og samfélagsmiðla hefur gjörbreytt kauphegðun viðskiptavina af aldamótakynslóðinni og þar með aukið samkeppni við hefðbundin verslunar- og þjónustufyrirtæki til muna.
Til þess að aðstoða fyrirtæki við að bregðast við þessari stöðu stendur SVÞ fyrir vinnustofu fyrir félagsmenn þar sem farið verður yfir hvernig kauphegðun viðskiptavina hefur breyst og hvernig hefðbundin verslun og stafræn verslun hafa runnið saman í eitt (s.k. „Omni Channel“ þjónusta).
Kynnt verða tól og tæki til að takast á við áskoranir og nýta tækifæri sem felast í innleiðingu „Omni Channel“ þjónustunnar. Sjá má stutta samantekt á https://eddablumenstein.com/
Stjórn vinnustofu: Edda Blumenstein, sem vinnur að doktorsrannsóknum í Omni Channel Retail Strategy við viðskiptaháskólann í Leeds.
Staður og stund: Kvika, Borgartúni 35, kl. 13:00 – 16:00 mánudaginn 3. apríl 2017
Oops! We could not locate your form.
27/03/2017 | Fréttir, Menntun, Verslun, Þjónusta
Námslínan Stjórnendur í verslun og þjónustu mun hefja göngu sína í annað sinn í september 2017.
Námslínan er samstarfsverkefni Opna háskólans í HR og Samtaka verslunar og þjónustu og er ætluð stjórnendum. Áherslan í náminu verður á hagnýta færni og þekkingu. Jafnframt verður áhersla lögð á raunhæf verkefni til að tengja við vinnuumhverfi og áskoranir í starfi þátttakenda.
Námið samanstendur af sjö efnisþáttum,
- Stjórnun og leiðtogahæfni
- Mannauðsstjórnun
- Framsögn og framkoma
- Tímastjórnun og skipulag
- Sölutækni og þjónustustjórnun
- Markaðsmál – Uppstilling og framsetning
- Rekstur og fjármál
Námslínan hefst 5. september og lýkur 5. desember.
Kennt verður á þriðjudögum frá kl. 13.00-17.00.
Frekari upplýsingar á vef Opna háskólans.