16/01/2017 | Fréttir, Greining
Í frétt frá Rannsóknasetri verslunarinnar segir að í desember hafi erlend greiðslukortavelta numið 14,9 milljörðum króna samanborið við 9,4 milljarða í desember 2015. Um er að ræða ríflega 58% aukningu frá sama mánuði árið áður. Allt árið 2016 greiddu erlendir ferðamenn 232 milljarða hérlendis með kortum sínum, meira en helmingi meira en árið 2015 þegar greiðslukortaveltan var 154,4 milljarðar. Nærri lætur að erlend greiðslukortavelta hafi verið fjórðungur heildarveltu greiðslukorta hérlendis árið 2016 en öll velta greiðslukorta á Íslandi á árinu 2016 nam 1.006 milljörðum. Af þeirri upphæð var velta innlendra korta 773 milljarðar og velta erlendra korta 232 milljarðar eins og áður sagði.
Líkt og undanfarna mánuði var vöxtur í öllum útgjaldaliðum á milli ára. Mest jókst greiðslukortavelta farþegaflutninga með flugi í desember, um 155,5% frá desember 2015 en velta flokksins nam 3,3 milljörðum í desember síðastliðnum. Hluti greiðslukortaveltu flokksins er tilkominn vegna starfsemi innlendra flugfélaga á erlendri grundu. Sem dæmi um mikinn vöxt í kortaveltu flugfélaga var nam greiðslukortavelta flokksins um 700 milljónum í desember 2014 samanborið við 3,3 milljarða í desember síðastliðnum og hefur því fjórfaldast á tveimur árum.
Greiðslukortavelta gististaða jókst í desember um 61,3% frá fyrra ári og greiddu erlendir ferðamenn 2,6 milljarða fyrir gistingu í mánuðinum samanborið við 1,6 milljarð í desember árið 2015. Kortavelta í flokknum ýmis ferðaþjónusta, sem meðal annars inniheldur starfsemi ferðaskrifstofa og ýmsar skipulagðar ferðir ferðaþjónustufyrirtækja nam 2,2 milljörðum í desember síðastliðnum og jókst um 46,4% frá sama mánuði árið áður.
Um 1,5 milljarðar fóru um posa veitingastaða í desember eða 49,5% meira en í desember í 2015. Þá jókst velta bílaleiga um 69,1% frá desember í fyrra en greiðslukortavelta bílaleiga nam 794 milljónum í desember síðastliðnum samanborið við 469 milljarða í sama mánuði árið áður.
Greiðslukortavelta í verslun nam tveimur milljörðum í desember og jókst um 25% frá fyrra ári. Líkt og undanfarna mánuði var vöxturinn mestur í flokkum óvaranlegrar neysluvöru líkt og dagvöru 50,5% og tollfrjálsri verslun 52,8% en minni í fataverslun, 13,1% og annarri verslun 1,2%.
Í desember komu 124.780 ferðamenn til landsins um Leifsstöð samkvæmt talningu Ferðamálastofu, 76% fleiri en í sama mánuði í fyrra. Alls komu 1.767.726 ferðamenn um Leifsstöð á árinu, 40% fleiri en árið 2015.
Kortavelta eftir þjóðernum
Ef miðað er við fjölda erlendra ferðamanna um Keflavíkurflugvöll greiddi hver þeirra að jafnaði með greiðslukorti sínu fyrir 119 þús. kr. í desember, eða um 6% meira en í nóvember. Það er um 3,6% hærri upphæð en í sama mánuði í fyrra.
Ferðamenn frá Sviss greiddu að jafnaði hæstar fjárhæðir með greiðslukortum sínum í desember eða 313 þús. kr. á hvern ferðamann. Norðmenn eru í öðru sæti með 256 þús. kr. á hvern ferðamann. Bandaríkjamenn og Danir koma þar næst með 187 þús. kr. á mann.
Velta eftir þjóðernum ræðst meðal annars af því hversu löng dvölin hér á landi er og hvort greitt hafi verið fyrir ferðina áður en komið er til landsins auk þess sem mismunandi er í hve miklum mæli ferðamenn greiða með greiðslukortum. Þá þarf að hafa í huga að tölur um fjölda ferðamanna um Keflavíkurflugvöll ná ekki til allra þeirra sem koma til landsins.
Í því talnaefni sem Rannsóknasetur verslunarinnar hefur yfir að ráða er nánar hægt að greina kortaveltu erlendra ferðamanna eftir útgjaldaliðum og þjóðerni.
Um kortaveltu ferðamanna
Rannsóknasetur verslunarinnar birtir mánaðarlega tölur um greiðslukortaveltu ferðamanna sundurliðaða eftir útgjaldaliðum og útgáfulandi korta. Gögnunum er enn fremur skipt eftir því hvort um er að ræða erlend eða innlend greiðslukort. Gögnin innihalda færslur bæði debet- og kreditkorta. Birtar eru upphæðir í íslenskum krónum ásamt hlutfallsbreytingum frá fyrri mánuði og sama mánuði fyrra árs.
Gögnin eru fengin frá innlendum færsluhirðingaraðilum, sundurliðuð eftir svonefndum MCC kóðum. MCC kóðarnir eru aftur greindir í flokka eftir því hvernig þeir eru taldir tengjast mismunandi greinum ferðaþjónustu. Gögnin lýsa kortaveltu eftir kauptímabilum (almanaksmánuðum) en ekki eftir uppgjörstímabilum.
Nánari upplýsingar veitir Árni Sverrir Hafsteinsson, arni@bifrost.is eða í síma 868-4341.
Fréttatilkynning RSV.
16/01/2017 | Fréttir, Menntun, Viðburðir
NÝJASTA MÁLTÆKNI & VÍSINDI
Menntadagur atvinnulífsins 2017 verður haldinn fimmtudaginn 2. febrúar á Hilton Reykjavík Nordica. Dagskrá og skráning hér að neðan.
DAGSKRÁ KL. 8.30-10.15
Íslensk máltækni og atvinnulífið
Björgólfur Jóhannsson, formaður Samtaka atvinnulífsins.
Ávarp menntamálaráðherra
Kristján Þór Júlíusson.
Íslenska í stafrænum heimi
Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor við Háskóla Íslands.
Áhrif máltækni á rekstur og þjónustu fyrirtækja
Birna Ósk Einarsdóttir, framkvæmdastjóri sölu og þjónustu hjá Símanum.
Á íslensku má alltaf finna svar
Þórarinn Eldjárn, rithöfundur og skáld.
Að tala íslensku við tölvur
Jón Guðnason, lektor við Háskólann í Reykjavík.
Málið og atvinnulífið
Guðfinna S. Bjarnadóttir
Menntaverðlaun atvinnulífsins 2017
Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, afhendir Menntaverðlaun atvinnulífsins.
Menntafyrirtæki ársins 2017 verður valið ásamt Menntasprota ársins.
Að lokinni sameiginlegri dagskrá og kaffihléi verður boðið upp á þrjár áhugaverðar málstofur.
MÁLSTOFUR KL. 10.45-12.15
FAGHÁSKÓLINN
•Jakobína Hólmfríður Árnadóttir, ráðgjafi hjá Capacent.
•Runólfur Ágústsson, ráðgjafi mennta og menningarmálaráðuneytis.
•Sólveig Lilja Snæbjörnsdóttir, fagstjóri starfsmenntamála VR.
•Pallborðsumræður. Auk frummælenda taka þátt Jón B. Stefánsson skólameistari Tækniskólans, Halldór Benjamín Þorbergsson framkvæmdastjóri SA og Halldór Grönvold aðstoðarframkvæmdastjóri ASÍ.
•Fundarstjóri er Pétur Reimarsson forstöðumaður hjá SA
TÆKNIÞRÓUN OG BREYTTAR ÁHERSLUR Í MENNTAMÁLUM
•Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, námssálfræðingur hjá Tröppu.
•Ingvi Hrannar Ómarsson, Grunnskólum Skagafjarðar.
•Ingvi Ásgeirsson og Trausti Björn Ríkharðsson hjá BL.
•Katrín Júlíusdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fjármálafyrirtækja.
•Sólrún Kristjánsdóttir, starfsmannastjóri Orkuveitu Reykjavíkur.
•Pallborðsumræður. Auk frummælenda taka þátt Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi og Haukur Harðarson, sérfræðingur hjá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins.
•Fundarstjóri er Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður Samtaka iðnaðarins.
HÆFNI, FRÆÐSLA OG ARÐSEMI Í FERÐAÞJÓNUSTU
•Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar.
•David Allen, framkvæmdastjóri Fólks í fyrirrúmi (e. People 1st), Skotlandi.
•María Guðmundsdóttir, fræðslustjóri Samtaka ferðaþjónustunnar.
•Pallborðsumræður þar sem þátt taka Óskar Jósefsson, framkvæmdastjóri Stjórnstöðvar ferðamála, Ásberg Jónsson, framkvæmdastjóri Nordic Visitor, Erla Ósk Ásgeirsdóttir, forstöðumaður starfsmanna -og gæðasviðs Icelandair hótela og Sigríður Margrét Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Landsnámssetursins í Borgarnesi.
•Fundarstjóri er Óskar Finnsson, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Íslandshótela.
Þetta er í fjórða skipti sem menntadagur atvinnulfsins er haldinn en hann er samstarfsverkefni Samorku, Samtaka ferðaþjónustunnar, Samtaka fjármálafyrirtækja, Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtaka iðnaðarins, Samtaka verslunar og þjónustu og Samtaka atvinnulífsins.
Allir eru velkomnir en nauðsynlegt er að skrá þátttöku hér að neðan.
SKRÁNING Á VEF SA.
13/01/2017 | Fréttir, Greining
Í takt við aukinn kaupmátt og vöxt í einkaneyslu jókst verslun í desember eins og við var að búast samkvæmt fréttatilkynningu frá Rannsóknasetri verslunarinnar. Neyslumynstrið í jólaversluninni hefur samt breyst nokkuð og fer hún nú fyrr af stað en áður. Þannig var hærra hlutfall jólaverslunar sem fór fram í nóvember en áður hefur sést. Líklega hefur Black Friday og aðrir söluhvetjandi viðburðir í nóvember áhrif á þessa þróun.
Töluverður munur var á veltu hinna ýmsu tegunda verslunar á milli vöruflokka í desember á nafnverði í samanburði við desember árið áður. Þannig varð 1,7% samdráttur í veltu fataverslana og 2,8% samdráttur í skóverslun. Á sama tíma jókst velta í húsgögnum um 31,9%, velta stórra raftækja jókst um 12,6% og í byggingavöruverslunum var aukningin 21,8%. Veltuaukning í dagvöru í desember var hófsamari, eða sem nam 3,6% að nafnvirði.
Verðlækkun hefur orðið í flestum vöruflokkum. Þannig lækkaði verð á dagvöru um 0,7% frá desember árinu áður, verð á fötum var 5,9% lægra, 2,2% verðlækkun var á skóm og húsgögn lækkuðu um 1,2%. Þegar leiðrétt hefur verið fyrir þessum verðbreytingum sjást raunbreytingar í veltu. Þannig jókst sala á fötum að raunvirði um 4,5% og velta svokallaðra brúnna raftækja (sjónvörp og minni raftæki) um 22,5%. Samkvæmt verðmælingum Hagstofunnar hefur verð á snjallsímum lækkað um 9,3% á einu ári. Sala snjallsíma í desember var að raunvirði 10% meiri en fyrir ári.
Erlend netverslun – 64% aukning í desember
Í desember jókst fjöldi þeirra pakkasendinga sem Íslandspóstur sá um dreifingu á frá útlöndum, og ætla má að sé vegna netverslunar, um 64% frá sama mánuði árið áður. Í nóvember og desember samanlagt nam þessi ársaukning pakkasendinga 61% . Mest aukning sendinga var frá Kína og öðrum Asíulöndum.
Þannig má ætla að Íslendingar hafi gert töluvert af jólainnkaupunum erlendis fyrir jólin. Bæði gegnum erlendar netverslanir og auk þess var mikil aukning í ferðir til útlanda síðustu tvo mánuði ársins. Brottfarir Íslendinga til útlanda gegnum Flugstöð Leifs Eiríkssonar, samkvæmt talningu Ferðamálastofu, voru alls 86.424 (um 26% þjóðarinnar) í nóvember og desember, sem er 26% aukning í fjölda farþega frá sömu mánuðum árið áður.
Jólaverslun útlendinga á Íslandi
Á móti aukinni verslun Íslendinga erlendis kemur mikill vöxtur í verslun erlendra ferðamanna hér á landi. Í desember greiddu erlendir ferðamenn með greiðslukortum sínum í íslenskum verslunum fyrir liðlega tvo milljarða króna. Það er fjórðungsaukning frá desember árið áður. Stærstur hluti erlendrar kortaveltu í verslunum í desember var til kaupa á dagvöru, eða 467 millj. kr.
Velta í dagvöruverslun jókst um 3,6% á breytilegu verðlagi í desember miðað við sama mánuð í fyrra og jókst um 4,3% á föstu verðlagi. Leiðrétt fyrir vikudaga- og árstíðabundnum þáttum jókst velta dagvöruverslana í desember um 3,2% frá sama mánuði í fyrra. Verð á dagvöru lækkaði um 0,7% á síðastliðnum 12 mánuðum og var í desember 0,4% lægra en í mánuðinum á undan.
Sala áfengis jókst um 17,9% á breytilegu verðlagi í desember miðað við sama mánuð í fyrra og jókst um 17,6% á föstu verðlagi. Leiðrétt fyrir vikudaga- og árstíðabundnum þáttum jókst velta áfengisverslana í desember um 8,7% frá sama mánuði í fyrra. Verð á áfengi var 0,3% hærra í desember síðastliðnum og 0,5% lægra en í mánuðinum á undan.
Fataverslun dróst saman um 1,7% í desember miðað við sama mánuð í fyrra á breytilegu verðlagi og jókst um 4,5% á milli ára á föstu verðlagi. Verð á fötum var 5,9% lægra í desember síðastliðnum en í sama mánuði í fyrra.
Velta skóverslunar minnkaði um 2,8% í desember á breytilegu verðlagi og minnkaði um 0,6% á föstu verðlagi miðað við sama mánuð í fyrra. Leiðrétt fyrir árstíðabundnum þáttum jókst skósala um 0,3% frá sama mánuði í fyrra á föstu verðlagi. Verð á skóm lækkaði í desember um 2,2% frá desember í fyrra.
Velta húsgagnaverslana var 31,9% meiri í desember en í sama mánuð í fyrra á breytilegu verðlagi og jókst um 33,5% á föstu verðlagi. Velta sérverslana með rúm jókst um 49,7% frá því í fyrra á breytilegu verðlagi. Velta sérverslana með skrifstofuhúsgögn jókst um 34,4% á breytilegu verðlagi. Verð á húsgögnum hefur lækkað um 1,2% á síðustu 12 mánuðum.
Verslun með byggingavörur jókst í desember um 21,8% í desember á breytilegu verðlagi og jókst um 22,5% á föstu verðlagi. Verð á byggingavöru er 0,5% lægra en fyrir tólf mánuðum síðan. Þá jókst velta gólfefnaverslana um 17,2% á breytilegu verðlagi miðað við sama mánuð í fyrra.
Velta í sölu á tölvum jókst í desember um 2,2% á breytilegu verðlagi miðað við sama mánuð í fyrra og farsímasala dróst saman um 0,3%. Sala minni raftækja, svokallaðra brúnvara, jókst um 3,3% á breytilegu verðlagi en sala stærri raftækja, svokallaðra hvítvara, jókst um 12,6% á milli ára.
Nánari upplýsingar veitir Árni Sverrir Hafsteinsson arni@bifrost.is og í síma 868-4341
Fréttatilkynning RSV.
12/01/2017 | Fréttir, Viðburðir
Aðalfundur SVÞ verður haldinn fimmtudaginn 23. mars nk. Hefðbundin aðalfundastörf verða afgreidd á lokuðum fundi fyrir hádegi en eftir hádegi verður haldin ráðstefna sem vert er að vekja athygli á. Ráðstefnan fer fram á Hilton Reykjavik Nordica og verður öllum opin.
Nánari dagskrá auglýst síðar.
09/01/2017 | Fréttir, Greinar, Í fjölmiðlum
Viðskiptamogginn bauð framkvæmdastjórum hagsmunasamtaka í atvinnulífinu að horfa fram á næsta ár og svara þessari spurningu: Hvað geta stjórnvöld gert á nýju ári til þess að bæta rekstrarumhverfi og samkeppnishæfni fyrirtækja sem tilheyra þínum samtökum?
Samtök verslunar og þjónustu: Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri
„Á undanförnum árum hefur meginmarkmið okkar hjá SVÞ verið að gera rekstrarumhverfi íslenskrar verslunar eins líkt rekstrarumhverfi verslunar annars staðar á Norðurlöndum og kostur er. Með afnámi almennra vörugjalda og afnámi flestra tolla höfum við nálgast þetta markmið mjög. Það er hins vegar enn margt sem skekkir þessa mynd og nægir þar að nefna þá ofurtolla sem enn eru lagðir á algengar tegundir innfluttra landbúnaðarvara og það háa vaxtastig sem fyrirtæki og almenningur býr við. Þá verður íslenska krónan seint talin stöðugur gjaldmiðill og vegna legu landsins mun flutningskostnaður alltaf hafa meiri áhrif á verð vöru hér á landi en í samanburðarlöndunum. Stjórnvöld hafa mismunandi mikla möguleika til að hafa áhrif á þessa þætti. Stóra áskorunin við þær aðstæður sem nú eru uppi í efnahagslífinu er hins vegar tvímælalaust sú, að leita leiða til að koma í veg fyrir frekari styrkingu krónunnar. Við Íslendingar vitum það allra þjóða best að slíkt leiðir til harðrar lendingar fyrr eða síðar. Þó ekki sé hægt að bera þær aðstæður sem nú eru saman við aðstæðurnar fyrir hrun, er ljóst að frekari styrking á gengi krónunnar er ógnun við stöðugleika í efnahagslífinu. Ljóst er að hækkandi raungengi getur leitt til erfiðleika í efnahagsmálum og því er mikilvægtað vinna á móti þenslunni til að koma í veg fyrir of snarpa og djúpa niðursveiflu í kjölfarið.“
Greinin í heild sinni. Úr viðskiptablaði Moggans 29.12.2016
09/01/2017 | Fréttir, Viðburðir
SVÞ boðar til félagsfundar um öryggismál þriðjudaginn 17. janúar nk. kl. 8.30 – 10.00 í Kviku, Húsi atvinnulífsins, Borgartúni 35. Boðið verður upp á kaffi, te og með því frá kl. 8.15.
SVÞ hafa undanfarin ár haft til skoðunar ýmis mál er varða þjófnað úr verslunum og öðrum brotum gegn hagsmunum aðildarfyrirtækja samtakanna. Í því starfi SVÞ hafa samtökin vakið athygli stjórnvalda á þessari vá sem steðjar að fyrirtækjum og hafa samtökin leitað leiða til að vinna sameiginlega með stjórnvöldum í þessum málum. Er það mat SVÞ að sú glæpastarfsemi hefur á undanförnum árum farið oftar en ekki að bera öll helstu einkenni að vera skipulögð starfsemi.
Til að ræða þessi mál mun:
Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri og
Rannveig Þórisdóttir, deildarstjóri upplýsinga- og áætlunardeildar Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu
halda erindi á fundinum og ræða ýmis mál er varða þjófnað úr verslunum og önnur álitamál því tengt. Farið verður m.a. yfir tölfræði afbrota og til hvaða aðgerða hefur þegar verið gripið til að stemma stigu við þessari glæpastarfsemi.
SKRÁNING HÉR
Oops! We could not locate your form.