Alcoa Fjarðaál er menntafyrirtæki ársins 2017 og Keilir menntasproti ársins

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, afhenti í morgun menntaverðlaun atvinnulífsins á menntadegi atvinnulífsins sem haldinn var í fjórða sinn á Hilton Reykjavík Nordica.

Fjarðaál á Reyðarfirði er stærsta iðnfyrirtæki landsins en þar vinna um 530 starfsmenn auk fjölda verktaka. Metnaður er lagður í menntun, þjálfun og fræðslu starfsfólks á hverjum degi. Fyrirtækið rekur stóriðjuskóla sem er samstarfsverkefni Fjarðaáls, Austurbrúar og Verkmenntaskóla Austurlands en um 50 nemendur stunda nám við skólann á hverjum tíma.

„Ég er afar stoltur af því að taka við þessari viðurkenningu fyrir hönd starfsfólks Alcoa Fjarðaáls. Innan Fjarðaáls starfar fjölbreyttur hópur starfsfólks sem eru öll sérfræðingar á sínu sviði. Lykillinn að því að hámarka og viðhalda þekkingu, hæfni og reynslu innan fyrirtækisins er að allt starfsfólk sé reiðubúið að miðla sín á milli í gegnum fræðslustarf og skipulag fyrirtækisins. Ég vil því óska starfsfólki Alcoa Fjarðaáls til hamingju með Menntaverðlaunin og þakka þeim fyrir framlag sitt,“ segir Magnús Þór Ásmundsson forstjóri Fjarðaáls.

Hópur starfsfólks Alcoa Fjarðaáls tók á móti verðlaununum með Magnúsi Þór Ásmundssyni í morgun. Þau eru á meðfylgjandi mynd með forseta Íslands og Kristjáni Þór Júlíussyni menntamálaráðherra sem ávarpaði fundinn.

Frá vinstri á myndinni eru Hilmar Sigurbjörnsson, Sigrún Björnsdóttir, Guðný B. Hauksdóttir, Kristján Þór Júlíusson, Guðni Th. Jóhannesson, Magnús Þór Ásmundsson, Elísabet Sveinsdóttir, Hólmgrímur Elís Bragason og Valgerður Vilhelmsdóttir.

Alcoa Fjarðaál og sveitarfélagið Fjarðabyggð  hafa á undanförnum árum unnið að því að efla áhuga ungs fólks á Austfjörðum á verk- og tæknimenntun. Kennarar lögðu sitt af mörkum og aðstaða til kennslu var bætt, námsframboð á verklegum valgreinum var aukið og nemendur hvattir til nýsköpunar auk þess sem þeim var boðið að heimsækja Fjarðaál og kynna sér starfsemi fyrirtækisins.  Verkefnið heppnaðist mjög vel en fjöldi þeirra sem völdu verk- og tækninám að loknum grunnskóla tvöfaldaðist á aðeins þremur árum. Eitthvað sem atvinnulífið hefur lengi kallað eftir.

„Það er mikilvægt fyrir fyrirtæki í iðnaði að beita sér fyrir því að verk- og tækninámi sé haldið á lofti, það eflt og áhersla lögð á mikilvægi þess. Samvinna atvinnulífsins, skólakerfisins og sveitarfélaganna er lykilatriði í því að árangur náist og að orðum fylgi athafnir. Við munum halda áfram að leggja okkar af mörkum til eflingar verk- og tæknináms, sem og efla þekkingu og hæfni innan fyrirtækisins,“ segir Magnús.

Keilir – miðstöð vísinda, fræða og atvinnulífs, er menntasproti ársins 2017. Keilir var stofnaður árið 2007 og starfar á Ásbrú í Reykjanesbæ á gamla varnarsvæði Bandaríska hersins.

Keilir er alhliða menntafyrirtæki í eigu háskóla, fyrirtækja og almannasamtaka. Á aðeins tíu árum hefur tekist að breyta yfirgefinni herstöð í þekkingarþorp. Keilir hefur lyft grettistaki, innleitt nýjar hugmyndir og kennsluhætti og lagt sig fram um að hlusta á þarfir atvinnulífsins og mennta starfsfólk sem eftirspurn er eftir þegar námi lýkur.

Hlutfall háskólamenntaðra íbúa í Reykjanesbæ sem eru eldri en 25 ára hefur meira en tvöfaldast frá 2007 og 85% þeirra sem ljúka námi við Háskólabrú Keilis halda áfram í háskóla en margir þeirra hafa flosnað upp úr hefðbundnu háskólanámi.

„Fyrir hönd starfsfólks Keilis tek ég í auðmýkt við þessari skemmtilegu viðurkenningu.  Við höfum reynt að fara nýjar leiðir við að bjóða fólki menntaúrræði.  Þessi hvatning frá Samtökum atvinnulífsins hvetur okkur til frekari dáða. Við þökkum fyrir okkur,“ segir Hjálmar Árnason framkvæmdastjóri Keilis.

Á myndinni hér til hliðar eru frá vinstri Hjálmar Árnason framkvæmdastjóri Keilis, Árni Sigfússon stjórnarformaður og forseti Íslands.Keilir verdlaun

Í dómnefnd sátu Karen Kjartansdóttir fyrir Samtök atvinnulífsins, Magnea Þórey Hjálmarsdóttir, framkvæmdastjóri Icelandair Hotels sem var menntafyrirtæki ársins 2016, Sigurður Steinn Einarsson sérfræðingur hjá Síldarvinnslunni á Neskaupstað sem var menntasproti ársins 2015 og Ragnheiður H. Magnúsdóttir viðskiptastjóri hjá Marel sem var menntafyrirtæki ársins 2015.

Hópur starfsfólks Alcoa Fjarðaáls tók á móti verðlaununum með Magnúsi Þór Ásmundssyni í morgun. Þau eru á meðfylgjandi mynd með forseta Íslands og Kristjáni Þór Júlíussyni menntamálaráðherra sem ávarpaði fundinn.

Frá vinstri á myndinni eru Hilmar Sigurbjörnsson, Sigrún Björnsdóttir, Guðný B. Hauksdóttir, Kristján Þór Júlíusson, Guðni Th. Jóhannesson, Magnús Þór Ásmundsson, Elísabet Sveinsdóttir, Hólmgrímur Elís Bragason og Valgerður Vilhelmsdóttir.

 

Menntadagur atvinnulífsins er samstarfsverkefni Samorku, Samtaka ferðaþjónustunnar, Samtaka fjármálafyrirtækja, Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtaka iðnaðarins, Samtaka verslunar og þjónustu og Samtaka atvinnulífsins. Hjá aðildarfyrirtækjum samtakanna starfar um 70% launafólks á almennum vinnumarkaði.

Menntasúpa - ný

Samskipti og starfsgleði: Hlakkar þú til að mæta í vinnuna?

Þriðjudaginn 24. janúar sl. bauð SSSK upp á  námskeið fyrir skólastjórnendur um ánægju og vellíðan á vinnustað. Á námskeiðinu var farið yfir grundvallaratriði varðandi starfsánægju og samskipti, samskiptafærni, fjallað um viðhorf til verkefna, og vinnustaðar. Sérstaklega var unnið með hrós og endurgjöf og fleiri leiðir til að hlúa að góðu andrúmslofti / vinnustaðamenningu.

Sigríður Hulda Jónsdóttir, náms- og starfsráðgjafi og framkvæmdastjóri SHJ ráðgjafar sá um námskeiðið og var með framsögu.

Námskeiðið var mjög vel sótt og almenn ánægja með námsefnið og fyrirlesarann.

Nánari upplýsingar um Sigríði Huldu

Frá námskeiði um skattamál

Miðvikudaginn 25. janúar sl. bauð SVÞ félagsmönnum á námskeið um skattamál í samvinnu við KPMG ehf. Þau Steingrímur Sigfússon og Guðrún Björg Bragadóttir frá Skatta- og lögfræðisviði KPMG ehf. tóku m.a. fyrir eftirtalin atriði á námskeiðinu: Tekjuskráning, frádráttarbær kostnaður, ófrádráttarbæra kostnaður, launakostnaður og hlunnindi, verktakar vs. launamenn, reglur um dagpeninga, helstu reglur um virðisaukaskatt og hvað ber að varast og afdráttarskatta vegna keyptrar erlendrar þjónustu.

Námskeiðið var vel sótt og mikið um spurningar.

Hér má nálgast glærur frá námskeiðinu.

 

Menntadagur atvinnulífsins 2017

NÝJASTA MÁLTÆKNI & VÍSINDI
Menntadagur atvinnulífsins 2017 verður haldinn fimmtudaginn 2. febrúar  á Hilton Reykjavík Nordica. Dagskrá og skráning hér að neðan.

DAGSKRÁ KL. 8.30-10.15

Íslensk máltækni og atvinnulífið
Björgólfur Jóhannsson, formaður Samtaka atvinnulífsins.

Ávarp menntamálaráðherra
Kristján Þór Júlíusson.

Íslenska í stafrænum heimi
Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor við Háskóla Íslands.

Áhrif máltækni á rekstur og þjónustu fyrirtækja
Birna Ósk Einarsdóttir, framkvæmdastjóri sölu og þjónustu hjá Símanum.

Á íslensku má alltaf finna svar
Þórarinn Eldjárn, rithöfundur og skáld.

Að tala íslensku við tölvur
Jón Guðnason, lektor við Háskólann í Reykjavík.

Málið og atvinnulífið
Guðfinna S. Bjarnadóttir

Menntaverðlaun atvinnulífsins 2017
Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, afhendir Menntaverðlaun atvinnulífsins.
Menntafyrirtæki ársins 2017 verður valið ásamt Menntasprota ársins.

menntaverdlaun-2017-haus

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Að lokinni sameiginlegri dagskrá verður boðið upp á kaffi og með því. Fræðslusjóðir og fræðsluaðilar kynna sig á Menntatorgi.

Eftir kaffihlé verður boðið upp á þrjár áhugaverðar málstofur.

MÁLSTOFUR KL. 10.45-12.15

HÆFNI, FRÆÐSLA OG ARÐSEMI Í FERÐAÞJÓNUSTU

Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar.
David Allen, framkvæmdastjóri Fólks í fyrirrúmi (e. People 1st), Skotlandi.
María Guðmundsdóttir, fræðslustjóri Samtaka ferðaþjónustunnar.
Pallborðsumræður þar sem þátt taka Óskar Jósefsson, framkvæmdastjóri Stjórnstöðvar ferðamála, Ásberg Jónsson, stjórnarformaður og stofnandi Nordic Visitor, Erla Ósk Ásgeirsdóttir, forstöðumaður starfsmanna -og gæðasviðs Icelandair hótela og Sigríður Margrét Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Landsnámssetursins í Borgarnesi.
Fundarstjóri er Óskar Finnsson, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Íslandshótela.
Þetta er í fjórða skipti sem menntadagur atvinnulfsins er haldinn en hann er samstarfsverkefni Samorku, Samtaka ferðaþjónustunnar, Samtaka fjármálafyrirtækja, Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtaka iðnaðarins, Samtaka verslunar og þjónustu og Samtaka atvinnulífsins.

Allir eru velkomnir en nauðsynlegt er að skrá þátttöku hér að neðan.

FAGHÁSKÓLINN

Jakobína Hólmfríður Árnadóttir, ráðgjafi hjá Capacent.
Runólfur Ágústsson, ráðgjafi mennta og menningarmálaráðuneytis.
Sólveig Lilja Snæbjörnsdóttir, fagstjóri starfsmenntamála VR.
Pallborðsumræður. Auk frummælenda taka þátt Jón B. Stefánsson skólameistari Tækniskólans, Halldór Benjamín Þorbergsson framkvæmdastjóri SA og Halldór Grönvold aðstoðarframkvæmdastjóri ASÍ.
Fundarstjóri er Pétur Reimarsson forstöðumaður hjá SA

TÆKNIÞRÓUN OG BREYTTAR ÁHERSLUR Í MENNTAMÁLUM

Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, námssálfræðingur hjá Tröppu.
Ingvi Hrannar Ómarsson, Grunnskólum Skagafjarðar.
Ingvi Ásgeirsson og Trausti Björn Ríkharðsson hjá BL.
Katrín Júlíusdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fjármálafyrirtækja.
Sólrún Kristjánsdóttir, starfsmannastjóri Orkuveitu Reykjavíkur.
Pallborðsumræður. Auk frummælenda taka þátt Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi og Haukur Harðarson, sérfræðingur hjá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins.
Fundarstjóri er Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður Samtaka iðnaðarins.

Skráning á vef SA.

 

Anna Felländer verður aðalræðumaður á ársfundi SVÞ 2017

Anna Felländer sem er einn helsti sérfræðingur Svíþjóðar um áhrif stafrænnar tækni verður aðalræðumaður ársfundar SVÞ 23. mars 2017.  Anna hefur mikið rannsakað áhrif stafrænu byltingarinnar, m.a. hvaða áhrif hún mun hafa á verslun og þjónustu. Hún er ráðgjafi sænsku ríkisstjórnarinnar á sviði stafrænnar tækni og hefur veitt fjölda stofnana og nýsköpunarfyrirtækja ráðgjöf á þessu sviði.

Anna er leiðandi sérfræðingur á þessu sviði í Svíþjóð og þótt víðar væri leitar. Anna hefur gegnt ýmsum ábyrgðarstörfum, hún var m.a. aðalhagfræðingur Swedbank, þjóðhagfræðingur hjá sænska fjármálaráðuneytinu og yfirmaður fjármálagreiningar hjá áhættustýringardeild skrifstofu forsætisráðherra.

„Það er mikill fengur að því að fá Önnu Felländer til að flytja erindi á aðalfundi SVÞ. Stafræna byltingin hefur víðtæk áhrif á verslun og þjónustu. Breytt neysluhegðun aldamótakynslóðarinnar felur í sér ögrandi verkefni fyrir alla sem starfa við verslun og þjónustu og verður fróðlegt að heyra einn helsta sérfræðing nútímans á því sviði miðla af reynslu sinni og þekkingu.“ Segir Andrés Magnússon framkvæmdastjóri SVÞ um áhrif stafrænnar tækni á verslun og þjónustu.

Viðtal við Önnu Felländer þegar hún var aðalhagfræðingur Swedbank.

Frá félagsfundi um öryggismál

Þriðjudaginn 17. janúar sl. var haldinn félagsfundur á vegum SVÞ um öryggismál þar sem til umfjöllunar voru ýmis álitamál hvað varðar þjófnað úr verslunum. Á fundinum héldu Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri og Rannveig Þórisdóttir, deildarstjóri upplýsinga- og áætlunardeildar Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu erindi.

Í erindi sínu fór Sigríður Björk Guðjónsdóttir m.a. yfir þær breytingar sem gerðar hafa verið á innra skipulagi embættisins og helstu áherslur þess í samræmi við t.a.m. löggæsluáætlun. Fram kom í máli hennar að embættið leggur ríka áherslu að sinna skyldum sínum sem þjónustustofnun og fagnaði því öllum tillögum og ábendingum frá fyrirtækjum um hvað megi betur fara í starfsemi þess. Loks taldi Sigríður mikilvægt að láta framkvæma þjónustukönnun hjá fyrirtækjum hvað varðar starfsemi embættisins.

Í erindi sínu fór Rannveig Þórisdóttir yfir ýmsa tölfræði hvað varðar þjófnað úr verslunum og önnur sambærileg brot. Meðal þess sem fram kom í máli hennar þá hefur um 60% tilkynntra mála til embættisins verið lokið með ákærumeðferð eða sátt/sekt. Þá lagði hún sérstaka áherslu á að fjalla um tiltekna tegund fjársvika (e. social engineering) þar sem aðilar eru blekktir til að greiða fyrir vörur eða þjónustu sem ekki er afhent. Þessi tegund brota hefur farið vaxandi undanfarin ár og mikilvægt er að vekja athygli fyrirtækja sem og almenning á þessari hættu.

Í lokin sátu fulltrúar embættisins fyrir svörum og fóru fram jákvæðar umræður um þessi álitamál, hvað embættið hefur gert til að stemma stigu við þjófnaði og hvað mætti betur fara. Af þeim umræðum mátti ráða að margt hafi breyst til batnaðar og þá var ákveðið í lok fundarins að koma á samvinnu fyrirtækja innan SVÞ og embættisins enda ljóst að þekking innan fyrirtækjanna getur nýst við störf embættisins.

Meðfylgjandi er til upplýsingar kynning Rannveigar Þórisdóttur á fundinum.