SVÞ og Neytendasamtökin gagnrýna matvælaeftirlit MAST

Fréttatilkynning send til fjölmiðla 5.12.2016
Í kjölfar fréttaumfjöllunar um eftirlit Matvælastofnunar (MAST) með tilteknum eggjaframleiðanda, þar sem sú starfsemi stóðst ekki þær kröfur sem gerðar eru til hennar s.s. hvað varðar aðbúnað dýra og villandi upplýsingar, er ljóst að stofnunin brást alfarið eftirlitshlutverki sínu. Þrátt fyrir að starfsemin hafi verið til skoðunar hjá MAST í tæp tíu ár og aðfinnslur hafi verið gerðar við þá starfsemi var hvorki verslun né neytendum veittar upplýsingar um þá meinbugi sem nú hafa komið í ljós.

Með þögn sinni um málið hefur MAST vegið alvarlega að hagsmunum verslana og neytenda sem í skjóli núverandi fyrirkomulags treysta á faglega starfsemi þeirra aðila sem lögum samkvæmt hefur verið falið eftirlit með matvælaframleiðslu. Á meðan engar athugasemdir berast frá eftirlitsaðila um tiltekna starfsemi eru verslun og neytendur því í góðri trú um að þau matvæli standist allar þær kröfur sem gerðar eru til hennar. Ítrekast einnig að upplýsingar um framleiðslu matvæla eru mikilvægur þáttur í upplýstu vali neytenda á matvælum sem og hvaða vörur verslun er tilbúin að hafa á boðstólum.

Umfjöllun undanfarið hefur orðið til þess fallin að vekja upp áleitnar spurningar um matvælaeftirlit MAST og það traust sem á að ríkja um eftirlitsstarfsemi stofnunarinnar. Þá er gagnrýnisvert að hagsmunir innlendrar matvælaframleiðslu hafi alfarið vikið til hliðar hagsmunum neytenda og verslana af því að fá upplýsingar um eftirlitsskylda starfsemi og þær vörur sem frá þeirri starfsemi berast. Að óbreyttu er nú uppi viðvarandi brestur í trausti hagsmunaaðila hvað varðar eftirlit með matvælaframleiðslu, sér í lagi þar sem MAST hefur heimilað afhendingu á matvælum til verslana og neytenda þrátt fyrir að búa yfir upplýsingum um margvísleg brot gegn löggjöf um matvæli og aðbúnað dýra.

Í ljósi þessa hafa Neytendasamtökin og SVÞ – Samtök verslunar og þjónustu sent sameiginlegt erindi á MAST þar sem óskað er upplýsinga frá stofnuninni um öll alvarleg frávik í innlendri eftirlitsskyldri matvælaframleiðslu sem hún hefur gert athugasemdir við í eftirlitsstörfum sínum. Er óskað eftir upplýsingum aftur til 1. janúar 2008. Telja Neytendasamtökin og SVÞ mikilvægt að afla þessara gagna enda hefur umfjöllun um eftirlit MAST leitt í ljós að réttur almennings til upplýsinga er verulega takmarkaður er viðkemur matvælaframleiðslu og frávikum frá kröfum sem gera verður til slíkrar framleiðslu.

Fréttatilkynning á pdf sniði.

Nýr starfmaður hjá SVÞ

Ingvar Freyr Ingvarsson hefur verið ráðinn sem hagfræðingur hjá Samtökum verslunar og þjónustu.
Ingvar hefur kennt hagfræði og skyldar greinar, bæði í menntaskóla og við Opna háskólann í Reykjavík, sem aðstoðarkennari í HÍ og við Norska lífvísinda- og umhverfisháskólann (NMBU). Auk þess  starfaði hann samhliða námi sem sérfræðingur hjá Hagfræðideild Landsbankans og við tölfræðilega greiningu hjá Seðlabanka Íslands.

Ingvar lauk M.Sc. gráðu frá Norska lífvísinda- og umhverfisháskólanum í september 2016, kennsluréttindum frá HÍ árið 2012 og B.s. gráðu í Hagfræði frá sama skóla árið 2011. Ingvar
lauk stúdentsprófi frá Verzlunarskóla Íslands árið 2007.

Verslun og þjónusta – verðþróun einstakra vöruflokka

Samantekt
Að undanförnu hefur farið fram töluverð umræða um að sterk staða krónunnar undanfarin misseri skili sér illa til neytenda í formi lægra vöruverðs á mörgum innfluttum vörum. Í því samhengi  er borin saman verðlagsþróun einstakra vöruflokka m.t.t. styrkingu krónunnar.  Raunveruleikinn er talsvert flóknari en slíkur einfaldur samanburður gerir ráð fyrir þar sem horft er framhjá veigamiklum þáttum sem hafa áhrif á vöruverð í landinu. Þessar aðferðir taka til dæmis ekki tillit til mögulegra áhrifa vegna verðþróunar erlendra aðfanga, þróunar launakostnaðar, flutningskostnaðar, húsaleigu og annars kostnaðar sem hefur áhrif á rekstur þessara fyrirtækja og þ.a.l. á verðþróun vara á innlendum markaði. Eins hafa breytingar á vsk talsverð áhrif. Til samanburðar má benda á að vísitala innfluttra mat- og drykkjavara reiknuð án vsk lækkar um 5,1% borið saman við 1,54% án vsk – þar sem vsk breyttist úr 7% í 11% þann 1. janúar 2015 er nauðsynlegt að taka tillit til slíkra breytinga.

Skýrslan er aðgengileg hér.

Frá félagsfundi – Gerum betur í þjónustu um jólin

Þriðjudaginn 22. nóv. var haldinn fundur á vegum SVÞ með yfirskriftinni Gerum betur í þjónustu. Margrét Reynisdóttir, eigandi og ráðgjafi hjá Gerum betur ehf. sagði stuttlega frá bók sem hún var að gefa út og inniheldur 50 uppskriftir að góðri þjónustu. Fyrstu 15 uppskriftirnar snúa að því að skapa góðan anda á vinnustaðnum því þjónustan gagnvart viðskiptavinum verður aldrei betri en þjónustan innandyra. Dregið er fram mikilvægi þess að hlúa að starfsmönnum, þekkingu þeirra og færni og mæla árangur bæði inná við og gagnvart viðskiptavinum. Síðan eru 13 uppskriftir sem má nýta til að tryggja að starfsmenn viti til hvers er ætlast af þeim í þjónustu og hvernig hún á að vera framborin. Það reynir fyrst á þjónustu þegar eitthvað fer úrskeiðis þess vegna eru 17 uppskriftir sem má æfa fyrirfram og nota til að bræða reiðan viðskiptavin. Ef við lærum ekki af mistökum þá erum við í raun að gera önnur  mistök þess vegna er endað á 5 uppskriftum um ábendingastjórnun.  Þarna er áherslan á að halda markvisst utan um ábendingar, kvartanir og hrós til að gera stöðugt betur.

Kristinn Ólafsson, framkvæmdastjóri Sjónlags og Eyesland sagði frá gildum fyrirtækisins: Fagmennska, virðing og traust og hvernig þau endurspeglast í allri starfsemi fyrirtækisins. Hann lagði mikla áherslu á að hugsa vel um starfsfólkið og vitnaði í orð Richard Branson: „Clients do not come first. Employees come first. If you take care of your employees, they will take care of your customers.“ Í framhaldi vitnaði hann í niðurstöðu rannsóknar sem sýnir að jákvæð tengsl eru milli ánægju og stolts starfsfólks og ánægju viðskiptavina í samræmi við það sem fræðimenn hafa haldið fram. Næst fór Kristinn yfir þjónustumælingar sem sýndu á ótvíræðan hátt að fyrirtækið er með landsliðsmenn í þjónustu og þeirra góða orðspor og meðmæli er ástæðan fyrir stækkun fyrirtækisins. Einnig kom berlega fram að viðmótið vegur þungt í heildaránægju viðskiptavina Sjónlags.

Sigurbjörg Sigþórsdóttir, framkvæmdastjóri Bakarameistans útskýrði á líflegan hátt reynslu fyrirtækisins af markvissri nýliðaþjálfun síðastliðin tvö ár.  Bakarameistarinn fagnar á næsta ári 40 ára afmæli í en í upphafi voru starfsmenn 20 en eru núna yfir 150. Sigurbjörg vitnaði í orð Konfúsíusar sem eru leiðarljós þeirra í allri þjálfun:  Segðu mér og ég gleymi – sýndu mér og ég man – leyfðu mér að reyna og ég skil. Bakarameistarinn hefur útbúið þjónustuhandbók sem allir nýir starfsmenn fá og þar er bæði sagt frá í texta og sýnt með myndum hvernig uppskrift þeirra er að góðri þjónustu. Sigurbjörg sýndi einnig hvernig þau  hafa markað sporin í frekari nýliðaþjálfun skref fyrir skref og skrásetja verslunarstjórar þar framvindu þjálfunar og kunnáttu.

Sigrún Ósk Sigurðardóttir, aðstoðarforstjóri ÁTVR sagði frá hvernig þjónustustefnan með gildin: Lipurð, þekking og ábyrgð eru leiðarljós í allri þjónustu bæði inn á við og út á við hjá fyrirtækinu.  Þessi alúð við þjónustu hefur skilað ÁTVR hæstu einkunn allra fyrirtækja í niðurstöðu Íslensku ánægjuvogarinnar þrjú ár í röð. Ráðningar í stöður hjá fyrirtækinu, frammistöðusamtöl o.fl. taka mið af gildunum. Vínbúðirnar eru með mælanleg markmið sem birtast mánaðarlega í skortkortum hverrar Vínbúðar og byggja mikið á hulduheimsóknum. Þjónustukannanir eru síðan framkvæmdar tvisvar sinnum á ári. Árangurinn er því sýnilegur og þau eru alltaf með puttann á púlsinum.

Hverju þarf að huga að í rekstri minni og meðalstórra fyrirtækja? – Morgunfundur SVÞ og Deloitte 29. nóv.

Morgunfundur 29. nóvember kl. 8.30 – 10.00
Heitt á könnunni frá kl. 8.15
Fundarsalnum Kviku, Húsi Atvinnulífsins, Borgartúni 35

Hverju þarf að huga að í rekstri minni og meðalstórra fyrirtækja?
Farið er yfir hagnýt atriði fyrir minni og meðalstór fyrirtæki þegar kemur að bókhaldi, fjármálum, uppgjörum, áætlanagerð og sköttum.
Sérfræðingar Deloitte á þessum sviðum munu fara yfir lykilþætti þessara mála á einfaldan og skýran hátt, þar sem áhersla er lögð á leiðir til að bæta og einfalda ferla með áherslu á fjármálasvið.

Dagskrá:
• Bókhald, laun og aðrir ferlar í fjármáladeild – Jónas Gestur Jónasson & Sunna Einarsdóttir
• Ný ársreikningalög – helstu álitamál – Signý Magnúsdóttir
• Stjórnendaskýrslur og áætlanagerð í Excel – Lovísa Anna Finnbjörnsdóttir
• Skatta- og lögfræðiatriði sem þarf að hafa í huga – Haraldur Ingi Birgisson

Leiðbeinendur:
• Jónas Gestur Jónasson – Viðskiptalausnir – Löggiltur endurskoðandi og eigandi
• Signý Magnúsdóttir – Endurskoðunarsvið – Löggiltur endurskoðandi og eigandi
• Sunna Einarsdóttir – Viðskiptalausnir – Liðsstjóri og CFO
• Haraldur Ingi Birgisson – Skatta- og Lögfræðisvið – Liðsstjóri
• Lovísa Anna Finnbjörnsdóttir – Ráðgjafasvið – Liðsstjóri

Auglýsing til útprentunar.

Oops! We could not locate your form.

Umbúðir hvenær nauðsyn og hvenær sóun? Málþing UST og Reykjavíkurborgar 24. nóv.

Málþing í austurhluta Tjarnarsalarins í Ráðhúsi Reykjavíkur
Fimmtudaginn 24. nóvember 2016, kl. 8:30-12:00.
Boðið verður upp á kaffi og vörukynningu á umhverfisvænni umbúðum.
Skráning hér


DAGSKRÁ FUNDARINS
Ávarp Dags B. Eggertssonar, borgarstjóra Reykjavíkur

UMBÚÐIR OG UMHVERFIÐ
Kristín Linda Árnadóttir frá Umhverfisstofnunnytnivikan

HLUTVERK UMBÚÐA OG LEIÐIR TIL AÐ LÁGMARKA NOTKUN
Bryndís Skúladóttir frá Samtökum iðnaðarins

HLUTVERK OG VALD SVEITARFÉLAGA Í AÐ DRAGA ÚR UMBÚÐAAUSTRI
Eygerður Margrétardóttir frá Reykjavíkurborg

ÖRKYNNINGAR
—  KAFFI OG VÖRUKYNNINGAR —

EFNI, UMBÚÐIR, SAMHENGI
Garðar Eyjólfsson frá Listaháskóla Íslands

UMBÚÐIR OG MATVÆLI
Óskar Ísfeld frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur

UMBÚÐANOTKUN HJÁ VEITINGASÖLUM
Sæunn Ingibjörg Marinósdóttir frá Gló og Rakel Eva Sævarsdóttir frá Borðinu

Fundarstjóri verður Guðfinnur Sigurvinsson, upplýsingafulltrúi Umhverfisstofnunar


AÐGANGUR ER ÓKEYPIS OG ALLIR ERU VELKOMNIR.
Biðjum þó alla að skrá sig svo hægt sé að áætla fjölda og draga
úr matarsóun.

Strætóleiðir 1, 3, 6, 11, 12 og 14 stoppa hjá Ráðhúsinu
sem upplagt er að nýta sér!

Dagskráin á pdf sniði

reykjavikurborgumhverfisstofnun