05/01/2017 | Fréttir, Greining, Greiningar, Skýrslur
Samantekt
Sænski seðlabankinn birti í peningamálaskýrslu greiningu á mögulegum áhrifum stafrænnar tækniþróunar á verðbólgu. Í greiningu bankans kemur m.a. fram að þróunin hafi dempandi áhrif á verðbólgu en óvíst sé hversu mikil áhrifin eru. Það er mat bankans að lág verðbólga í Svíþjóð sé þó fyrst og fremst tengd öðrum þáttum. Samfara tækniþróuninni geta orðið breytingar í þá átt að mörg störf tapist í ákveðinni atvinnugrein/geira á stuttum tíma. Á sama tíma opnast möguleikar á starfi annarsstaðar í hagkerfinu. Því er full ástæða til að gæta varúðar og fylgja þróuninni eftir með tölfræðilegum greiningum svo hægt sé að aðlagast hratt að þeim breyttu aðstæðum og nýju tækifærum sem kunna að opnast. Stafræna tækniþróunin er að mestu leyti markaðsdrifin þróun en við getum ráðið miklu um framvinduna. Stjórnvöld geta með stefnumótun haft mikil áhrif á hana með því að undirbúa nýjar kynslóðir fyrir breytta tíma í gegnum menntakerfið. Auk þess sem atvinnulífið þarf að vera vakandi og stuðla að endurmenntun vinnuaflsins.
Skýrslan er aðgengileg hér.
28/12/2016 | Fréttir, Viðburðir
– verður haldinn 2. febrúar á Hilton Reykjavík Nordica
Menntadagur atvinnulífsins fer fram fimmtudaginn 2. febrúar 2017 á Hilton Reykjavík Nordica. Dagskrá verður birt þegar nær dregur en m.a. verða menntaverðlaun atvinnulífsins afhent.
Við hvetjum félagsmenn til að taka daginn frá!
Þetta er í fjórða skipti sem menntadagur atvinnulífsins er haldinn en hann er samstarfsverkefni Samtaka ferðaþjónustunnar, Samorku, Samtaka fjármálafyrirtækja, Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtaka iðnaðarins, Samtaka verslunar og þjónustu og Samtaka atvinnulífsins.
Í Sjónvarpi atvinnulífsins er hægt að horfa á svipmyndir frá dagskránni 2016 og horfa á innslög um Icelandair hotels og Securitas sem hlutu menntaverðlaun atvinnulífsins 2016.
28/12/2016 | Fréttir, Greinar, Í fjölmiðlum
Blaðagrein birt í Morgunblaðinu 27.12.2016
Höfundur: Lárus M. K. Ólafsson, lögmaður SVÞ
SVÞ skora því eindregið á borgaryfirvöld að sýna vilja í verki við það að takast á við samgöngumál í borginni með hagsmuni allra að leiðarljósi.
Reykjavík er allskonar borg fyrir allskonar fólk sem býr í allskonar hverfum. Tilvísun þessi er sótt í ítarefni með aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 sem samþykkt var í borgarstjórn hinn 26. nóvember 2013. Þessi stutta tilvísun gefur svo sannarlega fögur fyrirheit um skipulagsmál í sátt allra með heildarhagsmuni íbúa borgarinnar að leiðarljósi, hvort sem það eru heimili eða fyrirtæki, enda er sjálfsögð krafa að útsvarsgreiðendur borgarinnar séu jafnsettir gagnvart sveitarfélaginu.
Hins vegar hafa misvísandi skoðanir í fjölmiðlum undanfarið um samgöngumál Reykjavíkurborgar vakið áleitnar spurningar um forgangsröðun borgarinnar í þeim efnum. Í nýlegri frétt í Morgunblaðinu áréttar vegamálastjóri réttilega að ástand einstakra vegakafla í borginni er mjög slæmt. Gagnrýnir vegamálastjóri framkvæmdaleysi borgarinnar sem hamli um leið alla þátttöku Vegagerðarinnar að úrbótum á vegakerfinu. Það er sannarlega áhyggjuefni að þegar sérfræðistofnun hins opinbera á sviði vegaframkvæmda fellir slíkan áfellisdóm um ástand vega skuli Reykjavíkurborg ekki vinna úr slíkum ábendingum með uppbyggilegum hætti. Í stað þess að nýta sér framkomna gagnrýni vegamálastjóra er honum svarað af fulltrúa Reykjavíkurborgar í frétt næsta dags m.a. undir þeim formerkjum að ferðamenn ráði ekki áherslum á sviði samgöngumála.
Hvort sem það er við ferðamenn að sakast eður ei að umferð hefur aukist er staðreynd að vegakerfi borgarinnar er víðast hvar fyrir löngu sprungið. Langar biðraðir við gatnamót og umferðarteppur eru að verða meginregla frekar en undantekning og því er um að ræða ástand sem ekki er unnt að hunsa til lengri tíma. Bættar almenningssamgöngur og átak af því tagi er jákvæð nálgun á slíkt vandamál en getur aldrei verið hin eina lausn á því ástandi. Í því samhengi benda SVÞ – Samtök verslunar og þjónustu á að fjöldi aðildarfyrirtækja samtakanna grundvallar starfsemi sína á að afhenda vörur ýmsum þjónustuaðilum, s.s. veitingastöðum, stórum sem smáum verslunum, fyrirtækjum og opinberum fyrirtækjum og stofnunum svo dæmi séu tekin. Það er hagsmunamál fyrir þessa aðila og viðskiptavini þeirra að vörur séu afhentar á öruggan og ábyrgan hátt. Hins vegar er það staðreynd að takmörkun borgaryfirvalda á afhendingu, t.a.m. takmarkaðir losunarstaðir og takmarkað aðgengi sökum umferðarálags á vegakerfi, er til þess fallin að hamla verulega starfsemi þessara aðila. Breytingar á almenningssamgöngum munu ekki nýtast þessum aðilum enda verða vörur seint ferjaðar á milli staða með leiðarkerfi almenningsvagna.
Í áðurnefndu aðalskipulagi Reykjavíkurborgar er m.a. lögð áhersla á uppbyggingu miðborgarinnar sem ferðamanna-, veitinga- og verslunarmiðborgar, sem sagt allskonar miðborgar fyrir allskonar fólk. Slík allskonar borg kallar á allskonar þjónustu og aðföng og um leið allskonar lausnir varðandi afhendingu og ferjun á vörum.
Að mati SVÞ er óheppilegt að ekki er tekið tillit til faglegra ábendinga vegamálastjóra sem með ábyrgum hætti vekur athygli á þeim vandkvæðum sem blasa við vegakerfinu í Reykjavíkurborg. Til að standa undir nafni þarf allskonar borgin Reykjavík að mæta þörfum allra en ekki sumra. Bættar almenningssamgöngur munu ekki leysa þau vandamál sem nýjar akreinar geta tekist á við og umbætur í vegakerfi eru því fyrir löngu aðkallandi. SVÞ benda á að það er sérstakt hagsmunamál aðildarfyrirtækja samtakanna að grettistaki verði lyft af hálfu borgarinnar, og Vegagerðarinnar þar sem á við, að leysa úr þeim umferðarrembihnút sem vegakerfið í Reykjavíkurborg er fyrir löngu komið í. SVÞ skora því eindregið á borgaryfirvöld að sýna vilja í verki við það að takast á við samgöngumál í borginni með hagsmuni allra að leiðarljósi.
Blaðagreinin í Morgunblaðinu.
23/12/2016 | Fréttir, Greinar, Verslun
Íslendingar eru fyrr á ferðinni í ár að kaupa jólafagjafir heldur en áður. Aftur á móti er það ávallt tiltekinn hópur Íslendinga sem bíður með að kaupa gjafirnar allt fram á síðustu daga fyrir jól. Ef þú ert einn af þeim sem verður að takast á við jólakaupin þessa síðustu og erilsömu daga fyrir jól þá eru hér nokkrar ábendingar til að draga úr líkum á að lenda í vandræðum við innkaupin.
Gerðu eins og margir íslenskir neytendur eru farnir að gera, þ.e. athugaðu fyrst verð og úrval á netinu, þannig að þú vitir hvar þú getur fundið gjöfina á sem hagstæðasta verði. Ef þú vilt vera viss um að fá gjöfina afhenta tímanlega, svona skömmu fyrir fyrir jólin, þá er berst að kaupa hana í staðbundinni búð enda ekki í öllum tilvikum hægt að tryggja að vara berist með pósti með svo skömmum fyrirvara þó undantekningar kunni þar að vera á. Mundu að athuga hvort að hægt sé að skipta gjöfinni ef hún fellur ekki að smekk viðtakanda eða sá hin sami hafi fengið nokkur eintök af vörunni. Það er hægt að skipta í flestum búðum en það á ekki við allar.
Ef þú velur að kaupa gjöf á netinu, til þess að forðast að standa í röð og svitna af stressi í undirfatabúð eða skartgripabúð með öðrum á síðustu mínútum, verður þú að tryggja að það takist að afhenda vöruna tímanlega. Rétt er að ítreka að sífellt fleiri vefverslanir eru farnar að bjóða upp á sendingu samdægurs. Athugaða möguleika búðarinnar rækilega hvað varðar sendingar samdægurs. Margar verslanir hafa bæði staðbundna búð og vefverslun, sem bjóða upp á að þú getur pantað gjöfina fyrst á netinu og síðan sótt hana í búðina.
Verslanir hafa á undanförnum gert mikið til þess að auðvelda þér að gefa gjafir í friði og ró, líka á síðustu dögum fram að jólum. Á þessu ári er meirihluti verslana opin 23. desember og margar jafnvel langt fram á kvöldið.
Ef þú uppgötvar samt á aðfangadagsmorgni að þú þarft eina gjöf eða tvær, þá eru ýmsir valkostir sem standa þér til boða. Hvernig væri að gefa upplifun í formi gjafabréfa? Þessi bréf er hægt að kaupa og prenta út á heimilinu.
Ingvar Freyr Ingvarsson, hagfræðingur SVÞ
21/12/2016 | Fréttir, Greining
Rannsóknasetur verslunarinnar hefur birt samantekt um kortaverltu ferðamanna í nóvember. Samkvæmt samantektinni nam erlend greiðslukortavelta 15,3 milljörðum króna en það er 67% aukning frá sama mánuði í fyrra. Það sem af er ári hafa erlendir ferðamenn greitt um 217 milljarða með kortum sínum samanborið við 145 milljarða á sama tímabili í fyrra. Greiðslukortavelta fyrstu ellefu mánuði ársins er því um helmingi meiri en á sama tímabili í fyrra og 41% meiri en allt árið 2015. Nóvember er jafnan rólegur mánuður í ferðaþjónustu og er það til marks um mikinn vöxt greinarinnar að greiðslukortavelta undangengins nóvembermánaðar var svipuð og í júlí 2013.
Veruleg aukning varð í farþegaflutningum með flugi eða um 170% frá fyrra ári en flokkurinn er sá stærsti í þeim tölum sem Rannsóknasetur verslunarinnar tekur saman. Velta flokksins í nóvember nam ríflega 3,6 milljörðum en hluti þeirrar fjárhæðar stafar af erlendri starfsemi flugfélaga. Borið saman við fyrra ár var einnig töluverður vöxtur í öðrum flokkum sem tengjast samgöngum ferðamanna. Þannig jókst kortavelta bílaleiga um 68,3% og velta flokksins „Bensín, viðgerðir og viðhald“ jókst um 84,6%.
Þrátt fyrir styrkingu krónunnar gagnvart erlendum gjaldmiðlum er enn gífurleg aukning í sérsniðnar ferðir um landið með leiðsögn samkvæmt því sem kemur fram í flokknum „Ýmis ferðaþjónusta“. Þannig njóta skoðunarferðir um landið ekki síður vinsælda í skammdeginu en á sumrin. Kortavelta í þessum útgjaldaflokki jókst um 78,2% frá nóvember í fyrra og nam tæpum 2,5 milljörðum króna í mánuðinum.
Yfir helmingsaukning var í veltu gististaða í nóvember samanborið við sama mánuð í fyrra. Þannig jókst erlend kortavelta gististaða um 57,3% frá fyrra ári og nam í nóvember tæpum 2,6 milljörðum samanborið við 1,6 milljarð í nóvember 2015. Þá greiddu ferðamenn um 1,6 milljarð með kortum sínum á veitingastöðum í nóvember eða 45,1% meira samanborið við nóvember í fyrra.
Minni vöxtur í verslun
Erlend greiðslukortavelta í verslun nam um 1,8 milljarði kr. í nóvember síðastliðnum og jókst um 28% frá nóvember í fyrra. Mestur vöxtur kortaveltu í verslun var í flokki dagvöru, 59% og tollfrjálsri verslun, 58%. Athyglisvert er að vöxtur erlendrar kortaveltu í dagvöruverslunum helst nokkurn veginn í hendur við fjölgun ferðamanna sem koma til landsins, á meðan vöxtur greiðslukortaveltu sérvöruverslana er minni. Líklega má heimfæra þessa þróun á sterkt gengi krónunnar um þessar mundir en það veldur því að allt verðlag verður hærra frá sjónarhóli erlendra ferðamanna.
Í nóvember komu 131.723 þúsund ferðamenn til landsins um Leifsstöð samkvæmt talningu Ferðamálastofu, 61,4% fleiri en í sama mánuði í fyrra.
Kortavelta eftir þjóðernum
Ef miðað er við fjölda erlendra ferðamanna um Keflavíkurflugvöll greiddi hver þeirra að jafnaði með greiðslukorti sínu fyrir 116 þús. kr. í ágúst, eða 5,5% minna en í október. Það er 3,6% hærri upphæð en í sama mánuði í fyrra.
Líkt og síðustu mánuði keyptu ferðamenn frá Sviss að jafnaði fyrir hæstar fjárhæðir með greiðslukortum sínum eða 225 þús. kr. á hvern ferðamann. Bandaríkjamenn eru í öðru sæti með 160 þús. kr. á hvern ferðamann. Danir koma þar næst með 142 þús. kr. á mann.
Velta eftir þjóðernum ræðst meðal annars af því hversu löng dvölin hér á landi er og hvort greitt hafi verið fyrir ferðina áður en komið er til landsins auk þess sem mismunandi er í hve miklum mæli ferðamenn greiða með greiðslukortum. Þá þarf að hafa í huga að tölur um fjölda ferðamanna um Keflavíkurflugvöll ná ekki til allra þeirra sem koma til landsins.
Í því talnaefni sem Rannsóknasetur verslunarinnar hefur yfir að ráða er nánar hægt að greina kortaveltu erlendra ferðamanna eftir útgjaldaliðum og þjóðerni.
Um kortaveltu ferðamanna
Rannsóknasetur verslunarinnar birtir mánaðarlega tölur um greiðslukortaveltu ferðamanna sundurliðaða eftir útgjaldaliðum og útgáfulandi korta. Gögnunum er enn fremur skipt eftir því hvort um er að ræða erlend eða innlend greiðslukort. Gögnin innihalda færslur bæði debet- og kreditkorta. Birtar eru upphæðir í íslenskum krónum ásamt hlutfallsbreytingum frá fyrri mánuði og sama mánuði fyrra árs.
Gögnin eru fengin frá innlendum færsluhirðingaraðilum, sundurliðuð eftir svonefndum MCC kóðum. MCC kóðarnir eru aftur greindir í flokka eftir því hvernig þeir eru taldir tengjast mismunandi greinum ferðaþjónustu. Gögnin lýsa kortaveltu eftir kauptímabilum (almanaksmánuðum) en ekki eftir uppgjörstímabilum.
Nánari upplýsingar veitir Árni Sverrir Hafsteinsson, arni@bifrost.is eða í síma 868-4341.
www.rsv.is
20/12/2016 | Fréttir, Stjórnvöld
Fréttatilkynning send til fjölmiðla 20.12.2016
SVÞ – Samtök verslunar og þjónustu sendu þann 6. desember 2011 kvörtun á Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) vegna innleiðingar íslenskra stjórnvalda á reglugerð ESB um almennar meginreglur og kröfur samkvæmt lögum um matvæli, um stofnun Matvælaöryggisstofnunar Evrópu og um málsmeðferð vegna öryggis matvæla.
Íslensk löggjöf felur í sér innflutningstakmarkanir á fersku kjöti, unnu sem óunnu, kældu sem frosnu, sem og innmat og sláturúrgang hvort sem um ræðir svína-, nauta-, lamba-, geita- eða alifuglakjöt eða kjöt af villtum dýrum. Innflytjendur verða samkvæmt gildandi lögum að sækja um leyfi og leggja fram margvísleg gögn til Matvælastofnunar.
Töldu SVÞ bann þetta ganga gegn ákvæðum EES-samningsins varðandi frjálsa vöruflutninga. Þessu til viðbótar felur eftirlitskerfi hér á landi með innflutningi á kjöti í sér landamæraeftirlit sem er ekki í samræmi við löggjöf EES-samningsins. Að mati SVÞ hefur ekkert komið að íslenskum stjórnvöldum sé ekki unnt að gæta að heilbrigði manna og dýra innan ramma matvælalöggjafar EES-samningsins. Þá hafa stjórnvöld ekki sýnt fram á með rökstuddum hætti að innlendum hagsmunum sé ógnað með innflutningi á fersku kjöti en samkvæmt matvælalöggjöf EES-samningsins eru ríkar kröfur gerðar til áhættumats og öryggis matvæla og hvílir rík ábyrgð á framleiðendum kjöts hvað þetta varðar.
Eftir rannsókn sína á málinu hefur ESA komist að sömu niðurstöðu og SVÞ að núgildandi löggjöf á Íslandi varðandi innflutning á fersku kjöti frá öðrum EES-ríkjum er andstæð EES-samningnum. ESA taldi því íslensk stjórnvöld ekki hafa sýnt fram á að núverandi fyrirkomulag megi réttlæta með þeim rökum að það sé nauðsynlegt til að vernda líf og heilsu manna og dýra. Þau vísindalegu gögn sem íslensk stjórnvöld hafa framvísað renna ekki stoðum undir gildandi reglur heldur sýna þvert á móti að áhætta á sýkingu búfjár gegnum innflutning á fersku kjöti sé hverfandi. Tók ESA því að fullu undir sjónarmið SVÞ í málinu um að núverandi kerfi feli í sér óréttlætanlegar og ónauðsynlegar viðskiptahindranir.
Með vísan til niðurstöðu sinnar hefur ESA, og þar sem íslensk stjórnvöld hafa enn ekki brugðist við rökstuddu áliti stofnunarinnar og gripið til viðeigandi ráðstafana, vísað málinu til EFTA-dómstólsins samkvæmt frétt stofnunarinnar fyrr í dag.
Fréttatilkynning á pdf sniði.
Hlekkur á frétt ESA.