Eftirlitsstofnun EFTA vísar innflutningsbanni á fersku kjöti til EFTA-dómstólsins

Fréttatilkynning send til fjölmiðla 20.12.2016
SVÞ – Samtök verslunar og þjónustu sendu þann 6. desember 2011 kvörtun á Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) vegna innleiðingar íslenskra stjórnvalda á reglugerð ESB um almennar meginreglur og kröfur samkvæmt lögum um matvæli, um stofnun Matvælaöryggisstofnunar Evrópu og um málsmeðferð vegna öryggis matvæla.

Íslensk löggjöf felur í sér innflutningstakmarkanir á fersku kjöti, unnu sem óunnu, kældu sem frosnu, sem og innmat og sláturúrgang hvort sem um ræðir svína-, nauta-, lamba-, geita- eða alifuglakjöt eða kjöt af villtum dýrum. Innflytjendur verða samkvæmt gildandi lögum að sækja um leyfi og leggja fram margvísleg gögn til Matvælastofnunar.

Töldu SVÞ bann þetta ganga gegn ákvæðum EES-samningsins varðandi frjálsa vöruflutninga. Þessu til viðbótar felur eftirlitskerfi hér á landi með innflutningi á kjöti í sér landamæraeftirlit sem er ekki í samræmi við löggjöf EES-samningsins. Að mati SVÞ hefur ekkert komið að íslenskum stjórnvöldum sé ekki unnt að gæta að heilbrigði manna og dýra innan ramma matvælalöggjafar EES-samningsins. Þá hafa stjórnvöld ekki sýnt fram á með rökstuddum hætti að innlendum hagsmunum sé ógnað með innflutningi á fersku kjöti en samkvæmt matvælalöggjöf EES-samningsins eru ríkar kröfur gerðar til áhættumats og öryggis matvæla og hvílir rík ábyrgð á framleiðendum kjöts hvað þetta varðar.

Eftir rannsókn sína á málinu hefur ESA komist að sömu niðurstöðu og SVÞ að núgildandi löggjöf á Íslandi varðandi innflutning á fersku kjöti frá öðrum EES-ríkjum er andstæð EES-samningnum. ESA taldi því íslensk stjórnvöld ekki hafa sýnt fram á að núverandi fyrirkomulag megi réttlæta með þeim rökum að það sé nauðsynlegt til að vernda líf og heilsu manna og dýra. Þau vísindalegu gögn sem íslensk stjórnvöld hafa framvísað renna ekki stoðum undir gildandi reglur heldur sýna þvert á móti að áhætta á sýkingu búfjár gegnum innflutning á fersku kjöti sé hverfandi. Tók ESA því að fullu undir sjónarmið SVÞ í málinu um að núverandi kerfi feli í sér óréttlætanlegar og ónauðsynlegar viðskiptahindranir.

Með vísan til niðurstöðu sinnar hefur ESA, og þar sem íslensk stjórnvöld hafa enn ekki brugðist við rökstuddu áliti stofnunarinnar og gripið til viðeigandi ráðstafana, vísað málinu til EFTA-dómstólsins samkvæmt frétt stofnunarinnar fyrr í dag.

Fréttatilkynning á pdf sniði.

Hlekkur á frétt ESA.

Samkeppnishæfni íslenskrar verslunar

Samantekt
Netverslun hefur að undanförnu fengið aukna athygli í umræðunni og er sú umræða ekki eingöngu bundin við Ísland. Þróun innlendrar netverslunar er í takt við aukna netverslun sem á sér stað annars staðar í heiminum.  Ef hlutfall netviðskipta á Norðurlöndunum á fyrri helmingi ársins er skoðað kemur ýmislegt áhugavert í ljós. Svíar kaupa í auknum mæli vörur af innlendum aðilum á meðan Finnar hafa hæsta hlutfall viðskipta við erlenda netverslun. Ástæða þessa er m.a. sú að töluverður fjöldi af sænskum netverslunum starfa í hagstæðu og samkeppnishæfu viðskiptaumhverfi á víðtækum grunni. Sænsk netverslun nær því að skapa sér hagstæða stöðu á þessu sviði, aðallega á grundvelli fjölbreytt vöruúrvals , með því að bjóða upp á notendavænar vefsíður, s.s. vefsíður fyrir farsíma og einfaldar lausnir hvað varðar  kaupferlið.  Því er mikilvægt að læra af reynslu Svía og útfæra svipaðar lausnir hér á landi m.t.t. hagsmuna neytenda.

Skýrslan er aðgengileg hér.

Jólaverslun fer af stað með krafti

Samkvæmt tilkynningu frá Rannsóknasetri verslunarinnar hófst jólaverslunin í nóvember með miklum krafti eins og sjá má af veltutölum verslana fyrir mánuðinn. Black Friday virðist hafa haft hvetjandi áhrif á verslun. Þannig jókst sala á stórum raf- og heimilistækjum um fjórðung frá sama mánuði í fyrra og aukning í sölu minni raftækja, eins og sjónvörpum, um 15%. Húsgagnaverslun var einnig blómleg í mánuðinum, eins og verið hefur það sem af er árinu. Sala á húsgögnum var 17,3% meiri í nóvember sl. en fyrir ári síðan.

Athyglisvert er að sala á fötum og skóm tók mikinn kipp í nóvember. Þannig var sala á fötum 12,7% meiri en í nóvember í fyrra og sala á skóm jókst um 16% á sama tólf mánaða tímabili. Þetta er töluverð breyting frá því sem verið hefur undanfarna mánuði. Líklega gætir áhrifa Black Friday í þessum vexti því margar fataverslanir höfðu útsölu þann dag í nóvember síðastliðnum sem ekki var í samanburðarmánuðinum í fyrra. Annar stór útsöludagur á fötum í nóvember er nefndur „Miðnætursprengja Kringlunnar“ og talið er að hafi haft nokkur áhrif á söluaukningu. Verð á fötum var 3,3% lægra í nóvember en í sama mánuði í fyrra, samkvæmt verðmælingum Hagstofunnar.

Velta dagvöruverslana eykst jafnt og þétt. Í nóvember jókst sala dagvöruverslana um 6,3% frá nóvember í fyrra og virðast landsmenn ætla að gera vel við sig fyrir jólin bæði í mat og drykk í tilefni árstíðarinnar. Verð á dagvöru fer lækkandi og var 0,6% lægra en fyrir ári síðan.

Óvenjulegt er að sjá samdrátt í sölu snjallsíma. En í nóvember var salan 3,9% minni en í sama mánuði í fyrra. Líklega er hér frekar um að ræða mánaðarsveiflur frekar en að markaðurinn sé mettaður vegna mikillar sölu undanfarna mánuði og ár. Venjulega er hægt að greina miklar sveiflur í sölu þegar vinsælir nýir símar koma á markað.
Spurnir eru af töluverðri aukningu í innkaupaferðum Íslendinga til útlanda fyrir þessi jól vegna sterkrar stöðu íslensku krónunnar og því má gera ráð fyrir að hluti af jólainnkaupunum fari þar fram.  Kreditkortavelta Íslendinga erlendis í nóvember síðastliðnum var 25% meiri en í nóvember í fyrra og nam 9,6 milljörðum kr. Á móti kemur að greiðslukortavelta útlendinga hér á landi í nóvember nam 15,4 milljörðum kr. sem er 68% aukning í kortaveltu frá nóvember í fyrra.

Veltuvísitala eftir vöruflokkum
Velta í dagvöruverslun jókst um 6,3% á breytilegu verðlagi í nóvember miðað við sama mánuð í fyrra og jókst um 6,9% á föstu verðlagi. Leiðrétt fyrir vikudaga- og árstíðabundnum þáttum jókst velta dagvöruverslana í nóvember um 5,4% frá sama mánuði í fyrra. Verð á dagvöru lækkaði um 0,6% á síðastliðnum 12 mánuðum og var í nóvember 0,8% lægra en í mánuðinum á undan.

Sala áfengis jókst um 24,7% á breytilegu verðlagi í nóvember miðað við sama mánuð í fyrra og jókst um 23,9% á föstu verðlagi. Leiðrétt fyrir vikudaga- og árstíðabundnum þáttum jókst velta áfengisverslana í nóvember um 19,2% frá sama mánuði í fyrra. Verð á áfengi var 0,6% hærra í nóvember síðastliðnum og 0,3% lægra en í mánuðinum á undan.
Fataverslun jókst um 12,7% í nóvember miðað við sama mánuð í fyrra á breytilegu verðlagi og jókst um 16,5% á milli ára á föstu verðlagi. Verð á fötum var 3,3% lægra í nóvember síðastliðnum en í sama mánuði í fyrra.

Velta skóverslunar jókst um 16% í nóvember á breytilegu verðlagi og jókst um 21,9% á föstu verðlagi miðað við sama mánuð í fyrra. Leiðrétt fyrir árstíðabundnum þáttum jókst skósala um 22,7% frá sama mánuði í fyrra á föstu verðlagi. Verð á skóm lækkaði í nóvember um 4,9% frá nóvember í fyrra.

Velta húsgagnaverslana var 17,3% meiri í nóvember en í sama mánuð í fyrra á breytilegu verðlagi og jókst um 13,6% á föstu verðlagi. Velta sérverslana með rúm jókst um 32,5% frá því í fyrra á breytilegu verðlagi. Velta sérverslana með skrifstofuhúsgögn jókst um 13,7% á breytilegu verðlagi. Verð á húsgögnum hefur hækkað um 3,2% á síðustu 12 mánuðum.

Verslun með byggingavörur jókst í nóvember um 3,1% í nóvember á breytilegu verðlagi og jókst um 2,8% á föstu verðlagi. Verð á byggingavöru er 0,3% hærra en fyrir tólf mánuðum síðan.

Velta í sölu á tölvum minnkaði í nóvember um 9,4% á breytilegu verðlagi miðað við sama mánuð í fyrra og farsímasala dróst saman um 12,2%. Sala minni raftækja, svokallaðra brúnvara, dróst saman um 1,7% á breytilegu verðlagi en sala stærri raftækja, svokallaðra hvítvara, jókst um 14,6% á milli ára.

Nánari upplýsingar veitir Árni Sverrir Hafsteinsson arni@bifrost.is og í síma 868-4341

Fréttatilkynningin á pdf sniði.

 

 

 

SVÞ og Neytendasamtökin gagnrýna matvælaeftirlit MAST

Fréttatilkynning send til fjölmiðla 5.12.2016
Í kjölfar fréttaumfjöllunar um eftirlit Matvælastofnunar (MAST) með tilteknum eggjaframleiðanda, þar sem sú starfsemi stóðst ekki þær kröfur sem gerðar eru til hennar s.s. hvað varðar aðbúnað dýra og villandi upplýsingar, er ljóst að stofnunin brást alfarið eftirlitshlutverki sínu. Þrátt fyrir að starfsemin hafi verið til skoðunar hjá MAST í tæp tíu ár og aðfinnslur hafi verið gerðar við þá starfsemi var hvorki verslun né neytendum veittar upplýsingar um þá meinbugi sem nú hafa komið í ljós.

Með þögn sinni um málið hefur MAST vegið alvarlega að hagsmunum verslana og neytenda sem í skjóli núverandi fyrirkomulags treysta á faglega starfsemi þeirra aðila sem lögum samkvæmt hefur verið falið eftirlit með matvælaframleiðslu. Á meðan engar athugasemdir berast frá eftirlitsaðila um tiltekna starfsemi eru verslun og neytendur því í góðri trú um að þau matvæli standist allar þær kröfur sem gerðar eru til hennar. Ítrekast einnig að upplýsingar um framleiðslu matvæla eru mikilvægur þáttur í upplýstu vali neytenda á matvælum sem og hvaða vörur verslun er tilbúin að hafa á boðstólum.

Umfjöllun undanfarið hefur orðið til þess fallin að vekja upp áleitnar spurningar um matvælaeftirlit MAST og það traust sem á að ríkja um eftirlitsstarfsemi stofnunarinnar. Þá er gagnrýnisvert að hagsmunir innlendrar matvælaframleiðslu hafi alfarið vikið til hliðar hagsmunum neytenda og verslana af því að fá upplýsingar um eftirlitsskylda starfsemi og þær vörur sem frá þeirri starfsemi berast. Að óbreyttu er nú uppi viðvarandi brestur í trausti hagsmunaaðila hvað varðar eftirlit með matvælaframleiðslu, sér í lagi þar sem MAST hefur heimilað afhendingu á matvælum til verslana og neytenda þrátt fyrir að búa yfir upplýsingum um margvísleg brot gegn löggjöf um matvæli og aðbúnað dýra.

Í ljósi þessa hafa Neytendasamtökin og SVÞ – Samtök verslunar og þjónustu sent sameiginlegt erindi á MAST þar sem óskað er upplýsinga frá stofnuninni um öll alvarleg frávik í innlendri eftirlitsskyldri matvælaframleiðslu sem hún hefur gert athugasemdir við í eftirlitsstörfum sínum. Er óskað eftir upplýsingum aftur til 1. janúar 2008. Telja Neytendasamtökin og SVÞ mikilvægt að afla þessara gagna enda hefur umfjöllun um eftirlit MAST leitt í ljós að réttur almennings til upplýsinga er verulega takmarkaður er viðkemur matvælaframleiðslu og frávikum frá kröfum sem gera verður til slíkrar framleiðslu.

Fréttatilkynning á pdf sniði.

Nýr starfmaður hjá SVÞ

Ingvar Freyr Ingvarsson hefur verið ráðinn sem hagfræðingur hjá Samtökum verslunar og þjónustu.
Ingvar hefur kennt hagfræði og skyldar greinar, bæði í menntaskóla og við Opna háskólann í Reykjavík, sem aðstoðarkennari í HÍ og við Norska lífvísinda- og umhverfisháskólann (NMBU). Auk þess  starfaði hann samhliða námi sem sérfræðingur hjá Hagfræðideild Landsbankans og við tölfræðilega greiningu hjá Seðlabanka Íslands.

Ingvar lauk M.Sc. gráðu frá Norska lífvísinda- og umhverfisháskólanum í september 2016, kennsluréttindum frá HÍ árið 2012 og B.s. gráðu í Hagfræði frá sama skóla árið 2011. Ingvar
lauk stúdentsprófi frá Verzlunarskóla Íslands árið 2007.

Verslun og þjónusta – verðþróun einstakra vöruflokka

Samantekt
Að undanförnu hefur farið fram töluverð umræða um að sterk staða krónunnar undanfarin misseri skili sér illa til neytenda í formi lægra vöruverðs á mörgum innfluttum vörum. Í því samhengi  er borin saman verðlagsþróun einstakra vöruflokka m.t.t. styrkingu krónunnar.  Raunveruleikinn er talsvert flóknari en slíkur einfaldur samanburður gerir ráð fyrir þar sem horft er framhjá veigamiklum þáttum sem hafa áhrif á vöruverð í landinu. Þessar aðferðir taka til dæmis ekki tillit til mögulegra áhrifa vegna verðþróunar erlendra aðfanga, þróunar launakostnaðar, flutningskostnaðar, húsaleigu og annars kostnaðar sem hefur áhrif á rekstur þessara fyrirtækja og þ.a.l. á verðþróun vara á innlendum markaði. Eins hafa breytingar á vsk talsverð áhrif. Til samanburðar má benda á að vísitala innfluttra mat- og drykkjavara reiknuð án vsk lækkar um 5,1% borið saman við 1,54% án vsk – þar sem vsk breyttist úr 7% í 11% þann 1. janúar 2015 er nauðsynlegt að taka tillit til slíkra breytinga.

Skýrslan er aðgengileg hér.