Búvörusamningar sæta mikilli gagnrýni

Fundur sem haldinn var í byrjum þessa mánaðar um nýgerða búvörusamninga leiddi vel í ljós hversu illa var staðið að undirbúningi þeirra samninga. Að þessum fundi stóðu fjölmörg hagsmunasamtök, bæði atvinnurekenda og launþega, m.a. SVÞ. Viðræður, milli stjórnvalda og Bændasamtaka Íslands um gerð nýrra búvörusamninga höfðu þá staðið yfir allt frá því s.l. haust. Lengst af bárust litlar fréttir af gangi viðræðnanna og var það raunar ekki fyrr en skömmu fyrir áramót, að hópur hagsmunaaðila óskaði eftir því að fá upplýsingar um stöðu viðræðnanna. Þegar stjórnvöld hófu að gefa upplýsingar um efni og innihald væntanlegra samninga kom í ljós að nær ekkert var tekið tillit til annarra hagsmuna en bænda eingöngu. Þrátt fyrir að þarna væri verið að véla um gífurlega langan samning sem snérist um háar fjárhæðir, þótti ekki ástæða til að kalla aðra aðila að málinu, þó ekki væri nema til ráðgjafar.

Sú bylgja gagnrýni sem fór af stað í þjóðfélaginu eftir að nýir búvörusamningar voru undirritaðir í lok febrúar, sýndi og sannaði að málið er stærra í sniðum en svo að unnt sé að líta á það sem einkamál stjórnvalda og bændaforystunnar. Málið snýst fyrst og fremst um hagsmuni neytenda. En eins og fram kom í máli Daða Más Kristóferssonar, lektors við HÍ á umræddum fundi, eru hagsmunir neytenda að engu hafðir í þessum samningum. Tækifærið, sem stjórnvöld höfðu til að hefja undirbúning að kerfisbreytingu á fyrirkomulagi stuðnings við landbúnaðinn, var ekki gripið. Að óbreyttu munu það áfram verða neytendur sem bera skarðan hlut frá borði.

Staðan á málinu nú er sú að samningarnir eiga eftir að koma til kasta Alþingis. Þeir öðlast því ekki gildi fyrr en nauðsynlegar lagabreytingar sem þeir kalla á, hafa verið samþykktar af Alþingi. SVÞ, sem og fjölmörg önnur hagsmunasamtök, hafa sent umsagnir sínar um búvörusamningana til þingsins, jafnframt því að fara á fund fjárlaganefndar til að skýra viðhorf sitt til þeirra. Í ljósi þeirrar miklu gagnrýni sem fram hefur komið verður að gera ráð fyrir því að komið verði til móts við þá miklu gagnrýni sem fram hefur komið og samningunum breytt, og/eða að samhliða verið gerðar ráðstafanir til að auka samkeppni í viðskiptum með landbúnaðarvörur, neytendum til hagsbóta.

Frá fundi um búvörusamningana.

SVÞ kvarta undan starfsemi Fríhafnarinnar

Undanfarin ár hafa SVÞ haft til skoðunar ýmsa þætti varðandi starfsemi Fríhafnarinnar ehf. í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Hafa samtökin gagnrýnt þá mismunun sem sú opinbera starfsemi hefur í för með sér gagnvart almennri verslun utan veggja flugstöðvarinnar. Gagnrýnin hefur m.a. snúið að niðurgreiddri verslunarstarfsemi hins opinbera sem og markaðssetningu verslana fyrirtækisins, þ.m.t. pöntunarþjónusta sem boðið er upp á. Þá hafa samtökin bent á að með þessum verslunarrekstri er ríkið í beinni samkeppni við aðrar verslanir hér á landi og hafa samtökin í því samhengi bent á að þessar verslanir Fríhafnarinnar ehf. gera út á þennan aðstöðumun í markaðssetningu sinni þar sem auglýst er að verð er allt að fimmtíu prósent lægra í fríhöfninni en í miðbæ Reykjavíkur.

Þessu til viðbótar hafa SVÞ gagnrýnt pöntunarþjónustu verslana Fríhafnarinnar ehf. en samtökin telja að með þeirri þjónustu, sem á margan hátt er sambærileg netverslun, þar sem hver sem er getur pantað vörur án þess þó að fela í sér það skilyrði að sá hin sami sæki þær vörur, hafi þessar verslanir farið inn á hinn almenna markað utan flugstöðvarinnar og því sé sú starfsemi í virkri samkeppni á þeim markaði.

SVÞ benda á að gagnrýni samtakanna á starfsemi Fríhafnarinnar ehf. kemur ekki eingöngu frá SVÞ heldur hefur fjármálaráðherra einnig sett út á þá starfsemi. Í þessu samhengi vísast til ummæla fjármálaráðherra á fundi SVÞ hinn 17. mars sl. þar sem ráðherra sagðist vera ósáttur við að sjá skilti í Fríhöfninni sem auglýsa að verðið sé allt að fimmtíu prósentum lægra en í miðbænum og taldi hann að ríkið ætti að draga úr umsvifum sínum á þessum markaði. Þá sagði ráðherra það einnig vera rangt þar sem útsöluverðið í Fríhöfninni sé gert hærra með gríðarhárri leigu sem Isavia innheimtir af fyrirtækjunum sem eiga þar pláss.

Að mati SVÞ hefur starfsemi þessi skaðleg áhrif á samkeppni á innlendum markaði og skert til muna samkeppnisskilyrði á markaði með þær vörur sem seldar eru í verslunum Fríhafnarinnar ehf. Hafa SVÞ nú þegar sent erindi á Samkeppniseftirlitið þar sem kvartað var undan þessari starfsemi. Var skorað á Samkeppniseftirlitið að taka mál þetta skoðunar og vekja athygli viðkomandi ráðherra á þeim ágöllum sem þessi opinbera starfsemi felur sannarlega í sér. Samhliða erindi SVÞ á Samkeppniseftirlitið hafa samtökin ákveðið að óska eftir því að Eftirlitsstofnun EFTA taki álitamál þetta til skoðunar enda felur framkvæmd þessi í sér brot gegn ríkisstyrkjareglum EES-samningsins að mati SVÞ.

Kuðungurinn 2015

Umhverfisviðurkenning umhverfis- og auðlindaráðuneytisins
Úthlutunarnefnd á vegum umhverfis- og auðlindaráðuneytisins óskar eftir tilnefningum um fyrirtæki eða stofnanir, sem vegna verka sinna og athafna á síðasta ári, er þess verðugt að hljóta Kuðunginn fyrir árið 2015. Kuðungurinn verður afhentur í tengslum við dag umhverfisins 25. apríl.

Óskað er eftir því að stutt greinargerð fylgi með tilnefningunum. Fyrirtæki og stofnanir geta hvort heldur tilnefnt sig sjálf eða verið tilnefnd af öðrum. Til að koma til álita við veitingu Kuðungsins þarf fyrirtækið eða stofnunin að hafa skarað fram úr á einu eða fleiri eftirtöldum sviðum: Umhverfisstjórnun, innleiðingu nýjunga í umhverfisvernd, hreinni framleiðslutækni, lágmörkun úrgangs, mengunarvörnum, umhverfisvænni vöruþróun, framlagi til umhverfismála eða vinnuumhverfi.

Tillögur skulu berast umhverfis- og auðlindaráðuneytinu eigi síðar en 23. mars næstkomandi, merktar ,,Kuðungurinn 2015″, á póstfangið postur@uar.is eða með pósti í umhverfis- og auðlindaráðuneytið, Skuggasundi 1, 101 Reykjavík.

Nánari upplýsingar er að finna á: www.uar.is/kudungurinn

Frá ráðstefnu SSSK – Ábyrgð okkar allra

SSSK hélt glæsilega ráðstefnu undir yfirskriftinni „Ábyrgð okkar allra“ fyrir fullu húsi í Gamla bíói föstudaginn 11. mars sl. undir styrkri stjórn Ólafar Kristínar Sívertsen fagstjóra Skóla ehf.

Áslaug Hulda Jónsdóttir formaður samtakanna ávarpaði ráðstefnugesti og orðaði m.a. mikilvægi frelsis, fjölbreytni og fagmennsku.

Fyrirlestra fluttu Elín María Björnsdóttir, alþjóðlegur ráðgjafi hjá stofnun FranklinCovey með fyrirlestur undir yfirskriftinni „Sjö venjur til árangurs“ og Þórhildur Ósk Halldórsdóttir, sérfræðingur í sjálfbærni, fyrirlestur undir yfirskriftinni „Umhverfisvitund og vald þekkingar“. Fengu báðir fyrirlesarar mjög góðar undirtektir gesta.

Milli atriða fluttu nemendur frá Landakotsskóla frumsamin tónlistaratriði og hlutu mikið lófatak fyrir.

Að lokinni ráðstefnu var boðið upp á léttar veitingar við ljúfan píanóleik.

Myndir frá ráðstefnu

Frá ráðstefnu SVÞ – Hvað hefur örvandi áhrif á kauphegðun?

Frá ráðstefnu SVÞ – Hvað hefur örvandi áhrif á kauphegðun?

Húsfyllir var á ráðstefnu SVÞ sem haldin var á Hilton Reykjavík Nordica fimmtudaginn 17. mars sl. Ari Eldjárn kynnti fyrirlesara og kitlaði hláturtaugar ráðstefnugesta eins og honum einum er lagið.

Í ávarpi Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra gætti bjartsýni gagnvart íslenskri verslun sem hann taldi að ætti að geta staðið verslun í nágrannalöndum jafnfætis á samkeppnisgrundvelli í kjölfar afnáms tolla og vörugjalda. Kom einnig fram í máli ráðherra að vísitölur sýndu að verslunin væri að skila þessum ávinningi til neytenda. Þá sagðist ráðherra vera ósáttur við tilboðsauglýsingar Fríhafnarinnar og taldi að ríkið ætti að draga úr umsvifum sínum á þessum markaði.

Margrét Sanders formaður SVÞ lagði áherslu á útvistun verkefna frá hinu opinbera til einkageirans í erindi sínu undir yfirskriftinni „Einkarekstur eða opinber rekstur? – Hugarfarsbreytingar er þörf“. Kom fram í máli formanns að ríkið ætti að huga betur að fjármálum sínum og þyrfti að greina betur hvort það borgi sig alltaf að ráða starfsmann frekar en að úthýsa fleiri verkefnum og kaupa þjónustu frá utanaðkomandi sérfræðingum.

Ken Hughes, sérfræðingur í neytenda- og kauphegðun,  sló síðan botninn í ráðstefnuna með frábæru erindi undir yfirskriftinni“Shopper Marketing & Shopper Centricity“. Í erindi sínu sýndi Ken ráðstefnugestum hvað það er sem fær neytendur til að kaupa og hvernig er hægt að fá þá til að kaupa meira.

Kynning Margrétar Sanders, formanns SVÞ
Myndir frá ráðstefnu

Myndband – nokkrar staðreyndir um mikilvægi verslunar og þjónustu

Breytingar á stjórn  Samtaka verslunar og þjónustu

Breytingar á stjórn Samtaka verslunar og þjónustu

Á aðalfundi Samtaka verslunar og þjónustu sem haldinn var, fimmtudaginn 17. mars, var kosið um þrjú sæti í stjórn samtakanna. Kosningu hlutu Jón Björnsson, Festi hf.,  Jón Ólafur Halldórsson, Olíuverzlun Íslands hf. og Kjartan Örn Sigurðsson, frá verslunin Kvosin ehf.

Aðrir í stjórn samtakanna eru Margrét Sanders, Deloitte ehf., sem var endurkjörin formaður samtakanna til tveggja á síðasta aðalfundi, Árni Stefánsson hjá Húsasmiðjunni, Margrét G. Flóvenz frá KPMG og Ari Edwald frá MS. Úr stjórn SVÞ gengu Áslaug Hulda Jónsdóttir, formaður Samtaka Sjálfstæðra skóla, Gestur Hjaltason frá ELKO og Sigríður Margrét Oddsdóttir frá Já.

Eitt af helstu baráttumálum SVÞ er að ríki og sveitarfélög úthýsi mun fleiri verkefnum til einkafyrirtækja. Það eykur skilvirkni, bætir þjónustu og sparar umtalsvert fjármagn.

Breytingar á tollakerfinu eru annað af helstu baráttumálum SVÞ og í þeim málaflokki  voru stigin mikilvæg skref á starfsárinu, þegar Alþingi samþykkti breytingar á tollalögum sem tóku gildi um síðustu áramót og fela í sér afnám tolla af fötum og skó. Einnig má nefna fyrirhugaða niðurfellingu á tollum af öllum öðrum vörum en matvöru og sem taka mun gildi um áramótin 2016-2017. Um er að ræða sigur í áralöngu baráttumáli SVÞ og samtökunum þykir ástæða til að þakka stjórnvöldum, og þá sérstaklega fjármála- og efnahagsráðherra, fyrir að hafa stigið þetta skref. Þessi breyting, auk afnáms almennra vörugjalda um áramótin 2014-2015, eru veigamestu skref sem stjórnvöld hafa tekið um árabil til að jafna samkeppnisstöðu íslenskrar verslunar.

Mynd: Ný stjórn SVÞ, frá vinstri Jón Björnsson, Kjartan Örn Sigurðsson, Jón Ólafur Halldórsson, Margrét G. Flóvens,  Árni Stefánsson, Margrét Sanders, Ari Edwald og Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri SVÞ.

 

Ársskýrslu SVÞ má finna hér.