23/02/2016 | Fréttir, Menntun, Viðburðir
Morgunverðarfundur í fundarröðinni Menntun og mannauður, verður haldinn þriðjudaginn 15. mars kl. 8:30 – 9:30 í Húsi atvinnulífsins, Borgartúni 35, 1. hæð. Efni fundar er fræðsla erlendra starfsmanna.
Dagskrá:
Erlendir starfsmenn – áskoranir og tækifæri.
Sigríður Harðardóttir, mannauðsstjóri – Strætó
Að skilja íslensku rýfur einangrun
Guðmundur Oddgeirsson, framkvæmdastjóri – Hýsing, Vöruhótel
Vilt þú að ég læri íslensku ?
Selma Kristjánsdóttir M.ed, sérfræðingur VR og SVS
Kaffi, te og með því frá kl. 8.15.
Skráning hefst þegar nær dregur.
19/02/2016 | Fréttir, Samtök sjálfstæðra skóla, Viðburðir
Haldin í Gamla bíói kl. 16 – 18
Ráðstefnan hefst með ávarpi formanns SSSK, Áslaugar Huldu Jónsdóttur. Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra ávarpar síðan ráðstefnugesti.
Framsögumenn verða:
Elín María Björnsdóttir, alþjóðlegur ráðgjafi hjá stofnun FranklinCovey
Þórhildur Ósk Halldórsdóttir, sérfræðingur í sjálfbærni
Gerður Kristný Guðjónsdóttir, rithöfundur
11 ára nemendur Barnaskóla Hjallastefnunnar í Reykjavík bjóða upp á tónlistaratriði.
Ráðstefnustjóri: Ólöf Kristín Sívertsen, fagstjóri Skóla ehf
17/02/2016 | Fréttir, Verslun, Viðburðir
Morgunverðarfundur um möguleika íslenskra netverslana á Grand Hóteli, Hvammi, miðvikudaginn 24. febrúar.
SVÞ, í samvinnu við Póstinn, efnir til morgunverðarfundar um tækifæri íslenskra verslana í samkeppni við erlendar netverslanir. Fundurinn er öllum opinn, aðgangseyrir er kr. 2.900 og morgunverður innifalinn.
Dagskrá:
08.00-08.20 Mæting og léttur morgunverður
08.20- 08.30 Ávarp fundarstjóra – Margrét Sanders formaður SVÞ
08.30-08.50 Íslensk netverslun í tölum – Ólafur Elínarson viðskiptastjóri hjá Gallup
Hver er staða íslenskrar netverslunar? Versla Íslendingar frekar í erlendum en íslenskum netverslunum?
—
08.50-09.10 Netverslun verður að búð – Rakel Hlín Bergsdóttir eigandi Snúrunnar
Netverslunin Snúran.is var opnuð árið 2014 en 2015 var einnig opnuð verslun undir sama nafni í Síðumúlanum. Rakel Hlín Bergsdóttir eigandi Snúrunnar segir frá því af hverju hún opnaði netverslun og síðan verslun og hvað breyttist við opnun verslunarinnar.
—
09.10-09.30 Elko – Guðrún Ósk Sigurjónsdóttir vefstjóri Elko og Gestur Hjaltason
framkvæmdastjóri Elko
Hvaða breytingar hafa orðið í verslun hjá Elko síðan vefverslunin var tekin í gagnið?
—
09.30-10.00 Importance of e-commerce – Peter Somers CEO and owner at SPrintPack
Peter Somers hefur víðtæka reynslu af póstheiminum en hann hefur starfað sem stjórnandi hjá leiðandi dreifingarfyrirtækjum í 25 ár. Hann mun meðal annars fara yfir þá möguleika sem felast í netverslun og þau áhrif sem afhendingarmöguleikar hafa á netverslun.
Fyrirlesarar verða á svæðinu eftir að dagskrá er lokið til að ræða málin við fundargesti ásamt því að viðskiptastjórar Póstins verða til taks til að ræða þær lausnir sem Pósturinn býður upp á fyrir netverslanir.
SKRÁNINGOops! We could not locate your form.
15/02/2016 | Fréttir, Greining, Verslun
Samkvæmt tilkynningu frá Rannsóknasetri verslunarinnar var áfengisverslun kröftug í janúar. Velta áfengisverslunar var 11,6% meiri en á sama tíma í fyrra á breytilegu verðlagi. Verð áfengis hækkaði um 1% í janúar frá fyrri mánuði en um 0,8% borið saman við fyrra ár. Breytt fyrirkomulag við skattheimtu áfengis tók gildi um áramótin þegar áfengi fór í neðra þrep virðisaukaskatts en áfengisgjald hækkaði á móti, er tilgangur breytinganna að auka skilvirkni skattheimtunnar. Einn fylgifiskur breytinganna er að ódýrt áfengi hækkar hlutfallslega í verði á móti dýru áfengi en breytingarnar fela í sér að áfengislítrar eru skattlagðir af meiri þunga en útsöluverð.
Verslun með föt og skó var í minna lagi í janúar samanborið við janúar 2015 en fataverslun dróst saman um 2,3% og skóverslun minnkaði um 8,3%. Um áramótin voru tollar af fatnaði felldir niður en þess gætti þó ekki í verðlagi fatnaðar í janúar enda eldri vörur jafnan seldar á janúarútsölum. Verðlag á fatnaði hækkaði um 0,7% frá janúar í fyrra en lækkaði um 12,7% frá desember síðastliðnum vegna útsala.
Húsgagnaverslun í janúar var 31% meiri en í sama mánuði í fyrra og hefur vaxið stöðugt undanfarna mánuði. Þannig hefur velta síðustu sex mánaða verið 20,6% meiri en á sama tímabili 12 mánuðum fyrr. Verð húsgagna hefur farið lækkandi og var 5,2% lægra í janúar samanborið við janúar í fyrra en það þýðir ásamt veltuaukningunni magnvöxt um 38% frá janúar í fyrra.
Dagvöruverslun jókst um 3,7% í janúar frá fyrra ári á breytilegu verðlagi en 3,1% ef leiðrétt er fyrir verðlagsþróun. Verðlag dagvöru hækkaði um 0,9% frá fyrra ári en nú er rúmt ár liðið frá því að neðra þrep VSK hækkaði úr 7% í 11% samhliða niðurfellingu sykurskattsins. Er verðsamanburðurinn nú því raunhæfari á milli ára þar sem kerfisbreytingin í ársbyrjun 2015 fellur utan tímabilsins.
Eftir mikinn vöxt í veltu raftækja undanfarið hægðist nokkuð á vexti í verslun með farsíma og lítil (brún) raftæki í janúar borið saman við fyrra ár. Þannig var velta með farsíma 6,7% lægri í janúar en í sama mánuði í fyrra og velta með lítil raftæki 6,1% lægri en í janúar 2015. Velta með stærri (hvít) raftæki jókst í janúar um 12,3% frá sama mánuði í fyrra og velta með tölvur jókst um 19,5% í janúar eftir hægan vöxt undangenginna mánaða.
Veltuvísitala eftir vöruflokkum
Velta í dagvöruverslun jókst um 3,7% á breytilegu verðlagi í janúar miðað við sama mánuð í fyrra og um 2,8% á föstu verðlagi. Leiðrétt fyrir vikudaga- og árstíðabundnum þáttum jókst velta dagvöruverslana í janúar um 3,1% frá sama mánuði í fyrra. Verð á dagvöru hækkaði um 0,9% á síðastliðnum 12 mánuðum og var í janúar 0,5% hærra en í mánuðinum á undan.
Sala áfengis jókst um 11,6% í janúar miðað við sama mánuð í fyrra á breytilegu verðlagi og jókst um 10,7% á föstu verðlagi. Leiðrétt fyrir vikudaga- og árstíðabundnum þáttum jókst velta áfengis á föstu verðlagi í janúar um 11,7% frá sama mánuði í fyrra. Verð á áfengi var 0,8% hærra í janúar síðastliðnum en í sama mánuði í fyrra.
Fataverslun dróst saman um 2,3% í janúar miðað við sama mánuð í fyrra á breytilegu verðlagi og dróst saman um 2,8% á milli ára á föstu verðlagi. Verð á fötum var 0,7% hærra í janúar síðastliðnum en í sama mánuði í fyrra.
Velta skóverslunar minnkaði um 8,3% í janúar á breytilegu verðlagi og minnkaði um 6,4% á föstu verðlagi miðað við sama mánuð í fyrra. Leiðrétt fyrir árstíðabundnum þáttum minnkaði skósala um 5,6% frá sama mánuði í fyrra á föstu verðlagi. Verð á skóm lækkaði í janúar um 2,0% frá janúar í fyrra.
Velta húsgagnaverslana var 31% meiri í janúar en í sama mánuði í fyrra á breytilegu verðlagi og jókst um 38% á föstu verðlagi. Velta sérverslana með rúm jókst um 23,9% frá því í fyrra á breytilegu verðlagi. Velta sérverslana með skrifstofuhúsgögn jókst um 10% á breytilegu verðlagi. Verð á húsgögnum hefur lækkað um 5,2% á síðustu 12 mánuðum.
Verslun með byggingavörur jókst í janúar um 12,1% á breytilegu verðlagi og um 14,8% á föstu verðlagi. Verð á byggingavöru er 2,3% lægra en fyrir 12 mánuðum síðan.
Velta í sölu á tölvum jókst um 19,5% í janúar á breytilegu verðlagi miðað við sama mánuð í fyrra og farsímasala minnkaði um 6,1%. Sala minni raftækja, svokallaðra brúnvara, dróst saman um 6,7% á breytilegu verðlagi en sala stærri raftækja, svokallaðra hvítvara, jókst um 12,3% á milli ára. Verð á raftækjum fer almennt lækkandi. Þannig var verð á stórum raftækjum 11,6% lægra en fyrir 12 mánuðum síðan og á litlum raftækjum var verðið 1,1% lægra.
Nánari upplýsingar veitir Árni Sverrir Hafsteinsson arni@bifrost.is og í síma 868-4341
Slóð inn á vef RSV.
15/02/2016 | Fréttir, Greinar, Í fjölmiðlum
Blaðagrein birt í Morgunblaðinu 15.2.2016
Höfundur: Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri SVÞ
Enn á ný er til umfjöllunar á Alþingi sem og á samfélags- og fréttamiðlum frumvarp til laga þar sem lagðar eru til breytingar á smásölu áfengis. Eins og oft áður þegar mál þetta er til skoðunar er opnað á miklar og heitar umræður þeirra aðila sem taka afstöðu með eða á móti slíkum breytingum. Skoðanaskipti um mál sem okkur varða eru mikilvæg og til þess fallin að draga fram sjónarmið ólíkra skoðana og aðstoða okkur við taka upplýsta ákvörðun í þeim málum. Hins vegar er mikilvægt að öll sjónarmið nái fram að ganga og tekið sé tillit til þeirra á grundvelli fyrirliggjandi upplýsinga.
Í umræðunni um boðaðar breytingar hefur verið áberandi m.a. það sjónarmið að verslunin muni ekki sýna ábyrgð í verki varðandi eftirfylgni með ströngum skilyrðum um sölu áfengis. Sem afleiðing þessa muni áfengisneysla aukast vegna aukins aðgengis og meinta tilslökun á smásölu og afhendingu á áfengi. Hagsmunagæsla mismunandi sjónarmiða er því mikil varðandi þetta mál. Greina þarf þó á milli gagnrýni sem annars vegar grundvallast á lýðheilsusjónarmiðum og hins vegar tvískinnungs hagsmunaaðila sem telja að aukin samkeppni ógni einokun þeirra á vöruhillum og útstillingum ríkisins.
Verslunin telur mikilvægt að virða þær opinberu og lagalegu kröfur sem gerðar eru til hennar á hvaða sviði sem það er og væri áfengi þar engin undantekning á. SVÞ bendir á að nú þegar hefur einkaaðilum undanfarna áratugi verið falin í síauknum mæli hlutverk sem varða almannaheill eða sölu á vörum með tiltekna hættueiginleika, hvort sem það er sala á tóbaki, lyfjum, skotfærum og skoteldum, efnavörum o.s.frv. Þá hefur einkaaðilum einnig verið falin ýmisleg hlutverk varðandi eftirlit með öryggisþáttum og lýðheilsu í okkar samfélagi, s.s. ökutækjaskoðun og heilbrigðisþjónustu. Á þessum sviðum hefur ekki verið efast um faglega getu þessara aðila og heilindi til að sinna þessum verkefnum og hafa þessir aðilar staðið undir þeirri ábyrgð.
Í þessari umræðu má einnig bera saman þróun varðandi sölu og notkun á annarri vöru sem gjalda þarf varhug við út frá lýðheilsusjónarmiðum, þ.e. tóbak. Tóbak hefur um áratugi verið selt í verslunum samkvæmt ströngum reglum um þá sölu. Þrátt fyrir aukið aðgengi að þeirri vöru hafa opinberar upplýsingar sýnt fram á að reykingar hafa dregist verulega saman hér á landi og eru reykingar hér á landi hvað minnstar í Evrópu. Þessu til stuðnings vísast m.a. til Talnabrunns – Fréttabréfs landlæknis um heilbrigðismál (9. árg. 5. tölublað. Maí 2015). Taka verður undir það sem fram kemur í umræddu fréttabréfi að þennan árangur má rekja til öflugs tóbaksvarnarstarfs. Verður að draga þá ályktun að sömu sjónarmið hljóta að eiga við um aðra vöru, s.s. áfengi, að þar skipti mest máli að halda úti öflugu forvarnarstarfi og fræðslu um skaðsemi vörunnar og skiptir það jafnvel meira máli en hver sölustaðurinn er hverju sinni. Því ber að fagna þeirri tillögu frumvarpshöfunda að leggja til aukið fjármagn í lýðheilsusjóð og að Lýðheilsusjóður skuli leggja sérstaka áherslu á forvarnaverkefni á sviði áfengisvarna.
SVÞ telja því mikilvægt að upplýst ákvörðunartaka um hvort smásala á áfengi eigi að færast frá hinu opinbera yfir til einkaaðila verði að grundvallast á öðrum þáttum en eingöngu þeim sjónarmiðum að versluninni sé ekki treystandi að annast þá sölu. Með skýrum skyldum á verslunina og öflugu forvarnarstarfi er unnt að viðhalda skýrri lýðheilsustefnu í áfengismálum og mun þar tilfærsla á smásölustöðum ekki hafa úrslitaáhrif varðandi neysluhegðun er viðkemur áfengi. Verslunin er tilbúin að taka á sig þá ábyrgð og virðingu gagnvart almannaheill sem smásala áfengis hefur í för með sér. Hefur verslunin þegar tekið á sig ábyrgð varðandi aðra viðkvæma vöruflokka og gengið til þeirra verka af fullum heilindum.
Morgunblaðið 15.2.2016 – Ábyrgð fylgir frelsi
15/02/2016 | Fréttir, Greinar, Í fjölmiðlum, Stjórnvöld
Blaðagrein birt í Fréttablaðinu 10.2.2016
Höfundur: Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri SVÞ
Samkeppniseftirlit hafa mikilvægu hlutverki að gegna í öllum þeim ríkjum sem líta á virka samkeppni sem helsta drifkraft atvinnulífsins. Þetta á við um við um öll ríki í okkar heimshluta, báðum megin Atlantsála, enda er samkeppnislöggöf mjög þróuð í þeim ríkjum öllum, ekki hvað síst í Bandaríkjunum. Íslensk samkeppnislöggjöf er í öllum aðalatriðum sambærileg evrópskri löggjöf á þessu sviði, enda er það ein forsendan fyrir því að innri markaður Evrópska efnahagssvæðisins virki. Hin lagalega umgjörð samkeppnismála hér á landi er því að flestu leyti sambærileg og í þeim löndum sem við berum okkur að jafnaði saman við, þó þar séu óheppilegar undantekningar sem þarf að laga.
Af þessari lýsingu mætti því ætla að framkvæmd samkeppnislaga og –reglna sé í öllum aðalatriðum sambærileg á Íslandi og í nágrannalöndum okkar. Margt bendir til að svo sé ekki. Sá munur snýr einkum og sér í lagi að því hvernig Samkeppniseftirlitið hér á landi hagar samskiptum sínum við forsvarsmenn í atvinnulífinu. Þau samskipti virðast vera með öðrum hætti í mörgum nágrannalanda okkar.
Fullyrða má að allur þorri atvinnurekenda hafi það að leiðarljósi að virða lög og reglur í hvívetna. Það á ekki hvað síst við um samkeppnislög, enda geta brot á þeim lögum haft í för með sér víðtækar fjárhagslegar afleiðingar sem og orðsporshnekki fyrir fyrirtæki og forsvarsmenn þeirra. Forsvarsmenn fyrirtækja verða því að geta sótt leiðbeiningar til Samkeppniseftirlitsins um „hvað má og hvað má ekki“, án þess að slíkt hafi einhverjar sérstakar afleiðingar í för með sér eða feli í sér viðurkenningu á meintu broti.
Því miður upplifa forsvarsmenn fyrirtækja viðhorf Samkeppniseftirlitsins oft þannig, að eftirlitið líti á það sem sitt hlutverk að vinna gegn atvinnulífinu en ekki með því. Í mörgum tilfellum ríkir því fullkomið vantraust í atvinnulífinu í garð eftirlitsins. Forsvarsmenn fyrirtækja veigra sér við að gagnrýna störf eftirlitsins, af ótta við að kalla yfir sig það sem kalla mætti hefndaraðgerðir. Forsvarsmenn Samkeppniseftirlitsins tjá sig gjarnan með þeim hætti í fjölmiðlum að verið er að sá fræjum tortryggni í garð þeirra sem atvinnurekstur stunda.
Það skyldi þó ekki vera að þessi vinnubrögð Samkeppniseftirlitsins á Íslandi endurspeglist í mismunandi viðhorfi almennings í Danmörku annars vegar og á Íslandi hins vegar eins og hún birtist í nýlegri könnun Festu – samfélagsábyrgð fyrirtækja. Í þeirri könnun var leitað eftir viðhorfi almennings til fyrirtækja og áhrifa þeirra á samfélagið. Munurinn milli þessara landa er sláandi mikill eins og sést á meðfylgandi samanburði.
Fréttablaðið 10.2.2016 – Að vinna með atvinnulífinu en ekki gegn því