Heildar greiðslukortavelta jókst um tæp 16,3% í desember | RSV

Heildar greiðslukortavelta jókst um tæp 16,3% í desember | RSV

Rannsóknasetur verslunarinnar birtir í dag niðurstöður á heildar greiðslukortaveltu í desember 2022.  Þar kemur fram að einkaneysla í jólamánuðinum var kröftug.

En heildar greiðslukortavelta hérlendis í desember sl. nam rúmum 115,7 milljörðum kr. og jókst um tæp 16,3% á milli ára miðað við breytilegt verðlag. Kortaveltu í desember sl. hefur verið bætt við tímaröð kortaveltu RSV á Sarpi.

Heildar greiðslukortavelta innlendra korta hérlendis nam tæpum 99,7 milljörðum kr. og jókst um tæp 10,2% á milli ára miðað við breytilegt verðlag. Kortavelta erlendra ferðamanna hérlendis nam tæpum 16,1 milljarði kr. og jókst um 77,3% á milli ára miðað við breytilegt verðlag.

Framlag erlendra korta til ársbreytingar heildar greiðslukortaveltu í desember sl. var 7% en framlag innlendra korta 9,2%.

SJÁ NÁNARI UPPLÝSINGAR INNÁ VEF RSV – HÉR – 

Strengjum áramótaheit

Strengjum áramótaheit

Grein er birtist í Morgunblaðinu 7.janúar 2023 frá formanni SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu

Strengjum áramótaheit 2023

Strengjum áramótaheit

Flestum líður best í stöðugu ástandi og bera jólahefðir þess merki. Við endurtökum leikinn ár eftir ár, sama steikin, sömu jólalögin og sama fjölskyldan safnast saman í jólaboðum. Við horfum á sömu kvikmyndirnar og meðtökum sama boðskapinn. Jafnvel á Tene snæddu íslenskir ferðamenn skötu og jólahangikjöt. Svo sprengjum við okkur leið út úr árinu og inn í nýtt ár, byrjum að nýju eftir að hafa rifjað upp liðið ár undir leiðsögn höfunda áramótaskaups og fréttaannála.

Eins og flestir standa atvinnurekendur á tímamótum um áramót. Rekstrarári lýkur og nýtt tekur við. Ársreikningur mun endurspegla athafnir fyrra árs en áætlunum er ætlað að skapa vissan fyrirsjáanleika um gerðir þess næsta. Liðnu ári er ekki unnt að breyta, atburðir þess eru orðnir að reynslu. Nú þarf að huga að því hvernig næsta ár mun þróast.

2022 ár árskorana fyrir fyrirtæki landsins.

Árið 2022 var fyrirtækjum ár áskorana. Snemma árs losnuðu allir sem betur fer undan beinum áhrifum sóttvarnarráðstafana, samkomutakmarkana og jafnvel lokana. Óbeinu áhrifin sitja þó í mörgum tilvikum eftir í formi hás innkaupsverðs vara og jafnvel birgðaskorti. Það bættist í safn áskorana þegar stríðsrekstur Rússa hófst í Úkraínu. Enn hækkaði innkaupsverð og í mörgum tilvikum þurfti að leita á ný mið við öflun vara. Það brotnuðu keðjulásar í virðiskeðju heimshagkerfisins. Allir sitja uppi með þá staðreynd að verðbólgudraugurinn er genginn aftur.

Það er verkefni ríkisstjórnar, Alþingis og sveitarfélaga að stýra þjóðarskútunni í átt að lygnari sjó og verkefni seðlabankans að lægja öldur peningamála. Í ýmsu tilliti tryggðu stjórnvöld að skipið hélt vel vatni þegar heimsfaraldurinn stóð sem hæst. Fyrirtækjum í nauð voru sendar líflínur sem drógu úr neikvæðum áhrifum á launþega. Á heildina litið tókst fyrirtækjum í verslun og þjónustu vel til, almenningi og öðrum fyrirtækjum til heilla. Breyttar áherslur neytenda urðu þess valdandi að hlutur stafrænnar verslunar og þjónustu hefur aukist og samfara hafa skapast tækifæri til hagræðingar og frekari breytinga. Ætla má að reynslan hafi gert fyrirtækin betur í stakk búin til að takast á við breytingar en áður. Við erum komin í var undir Grænuhlíð og þó dregið hafi úr storminum eru veðurhorfur hið minnsta óljósar.

Kjarasamningar á óvissutíma.

Í ljósi óvissu varð gildistími gerðra kjarasamninga frekar stuttur og því munu viðræður um það sem við tekur hefjast á árinu. Á sama tíma eru hagvaxtar- og verðbólguhorfur í Evrópu dökkar og á heimsvísu útlit fyrir að verulega hægi á vexti. Hækkandi orkuverð og hækkandi vextir geta dregið hratt úr erlendri neyslu og fjárfestingu. Ferðamönnum er tekið að fjölga að nýju en ferðaþjónustan er enn að rétta úr kútnum. Við fyrirtækjum í þeim geira blasa þau verkefni að bæta skuldastöðu og efla eigið fé til rekstrar og uppbyggingar. Við fyrirtækjum í verslun og þjónustu blasa fordæmalausar og kostnaðarsamar breytingar í ljósi tækniþróunar, áherslna á sjálfbærni og þörf á að efla þekkingu starfsfólks. Forsendur verðmætasköpunar eru í ýmsu tilliti brothættar.

Vonir um bjarta framtíð munu aðeins raungerast ef allir leggja sitt af mörkum. Sjaldan hefur þörf fyrir ábyrgt mat seðlabankans verið sterkari. Undir þessum kringumstæðum þurfa ríkisstjórnin, Alþingi og sveitarfélög í sameiningu að tryggja skynsamlegar forsendur til skemmri og lengri tíma. Í því samhengi eru jákvæð áhrif á hagkerfið lykilorðin. Fjárfesting þarf að styðja hagræðingu og verðmætasköpun og endurskoðun tekjuöflunar þarf að tryggja eðlilega þátttöku í kostnaði. Til að mynda þarf að huga betur að orkuskiptum í landi hagstæðs orkuverðs og á tímum umbreytinga er endurskoðun forsendna fasteignaskatts, tekjustofns sveitarfélaga, afar brýn. Þá gegna aðilar vinnumarkaðarins vissulega afar mikilvægu hlutverki. Þeir þurfa m.a. að tryggja að til staðar séu forsendur til hagræðingar í rekstri svo atvinnurekendum verði betur fært að mæta hækkandi rekstrarkostnaði án víðtækra áhrifa á verðlag. Í sama skyni þurfa neytendur að sýna því skilning að samhengi er milli kostnaðar sem hlýst af háu þjónustustigi og verðlagningar vöru og þjónustu.

Búum afkomendum okkar stöðugt efnahagslíf.

Ekki eru alltaf jólin en jólatíðin kemur sem betur fer alltaf aftur. Þess á milli sköpum við ró með efnahagsástandi sem gerir okkur fært að takast á við mögulegar áskoranir. Við skulum saman strengja þess heit að búa afkomendum okkar stöðugt efnahagslíf og von um góða framtíð.

Höf. Jón Ólafur Halldórsson, formaður SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu.

Menntamorgnar Samtaka atvinnulífsins hefja göngu sína á ný 5.janúar n.k.

Menntamorgnar Samtaka atvinnulífsins hefja göngu sína á ný 5.janúar n.k.

Metnaðarfullt fræðslustarf fyrirtækja – Lykill að framsæknu atvinnulífi.

Menntamorgnar hefja göngu sína á ný fimmtudaginn 5. janúar kl. 09:00-10:00 undir yfirskriftinni Metnaðarfullt fræðslustarf fyrirtækja – Lykill að framsæknu atvinnulífi.

Ásdís Eir Símonardóttir, formaður Mannauðs, félags mannauðsfólks, fjallar þar um tilnefningarferli menntaverðlaunanna og hvernig fyrirtæki geta sett sér skýr markmið í menntamálum.
Þá koma verðlaunahafar fyrri ára og fara yfir áherslur sínar í menntamálum innan fyrirtækjanna; Knútur hjá Friðheimum og Gunnar Egill hjá Samkaupum.

Fundurinn er hugsaður sem hvatning fyrir fyrirtæki og upptaktur að Menntadegi atvinnulífsins sem fer fram 14. febrúar nk.
SA og öll aðildarsamtök standa að menntamorgnum sem og Menntadegi atvinnulífsins.

Dagur: fimmtudagurinn 5.janúar 2023
Staður: Hús atvinnulífsins, Borgartúni 35, 105 Reykjavík
Tími: 09:00 – 10:00

Öll velkomin.
Skráning í mætingu eða streymi hér:

https://www.sa.is/starfsemin/vidburdir/6184037122211a

Menntadagur atvinnulífsins | Opið fyrir tilnefningar

Menntadagur atvinnulífsins | Opið fyrir tilnefningar

Menntaverðlaun atvinnulífsins verða afhent í Hörpu þriðjudaginn 14. febrúar 2023. Óskað er eftir tilnefningum um fyrirtæki sem hafa staðið sig vel á sviði fræðslu- og menntamála. Fyrirtækjum er velkomið að tilnefna sig sjálf. Einungis skráðir aðildarfélagar SA eru gildir með tilnefningu.

Tilnefningar sendist í tölvupósti til Samtaka atvinnulífsins á verdlaun@sa.is, eigi síðar en mánudaginn 23. janúar n.k.

Verðlaun eru sem fyrr veitt í tveimur flokkum;

Menntafyrirtæki ársins er valið og menntasproti ársins útnefndur, en fyrirtæki sem tilnefnd eru verða að uppfylla ákveðin viðmið.

Helstu viðmið fyrir menntafyrirtæki ársins eru:

  • að skipulögð og markviss fræðsla sé innan fyrirtækisins
  • að sem flest starfsfólk taki virkan þátt
  • að haldið sé utan um mælikvarða í fræðslumálum
  • að hvatning sé til staðar til frekari þekkingaröflunar

Helstu viðmið vegna menntasprota ársins eru:

  • að lögð sé stund á nýsköpun í menntun og fræðslu, innan fyrirtækis og/eða í samstarfi fyrirtækja
  • samstarf fyrirtækja og samfélags um eflingu fræðslu, innan sem utan fyrirtækja.

Skýr og skipulögð gögn hjálpa dómnefnd að meta tilnefningar. Vinsamlega skilið greinargerð, að hámarki þrjár A4 blaðsíður þar sem rökstutt er hvers vegna viðkomandi fyrirtæki er tilnefnt og hvernig það uppfyllir viðmiðin sem liggja til grundvallar.

Menntadagur atvinnulífsins er samstarfsverkefni SamorkuSamtaka ferðaþjónustunnarSamtaka fjármálafyrirtækjaSamtaka fyrirtækja í sjávarútvegiSamtaka iðnaðarinsSamtaka verslunar og þjónustu og Samtaka atvinnulífsins.

________________

Samkaup hlutu menntaverðlaun atvinnulífsins 2022. F.v. Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, Gunnar Egill Sigurðsson, forstjóri Samkaupa, Gunnur Líf Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri mannauðssviðs Samkaupa og Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.

Að loknum heimsfaraldri | Innherji

Að loknum heimsfaraldri | Innherji

Innherji birtir í dag neðangreinda grein eftir Andrés Magnússon, framkvæmdastjóra SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu undir heitinu: Að loknum heimsfaraldri

__________________________________

Nú þegar árið 2022 er á enda komið er vert að staldra við og líta á hvernig fyrirtækin í landinu komu út úr þeirri áraun sem heimsfaraldurinn sannarlega var. Eins og margoft hefur komið fram hitti faraldurinn einstakar atvinnugreinar mjög misjafnlega fyrir. En það sem skipti þó sköpum við að leiða fyrirtækin og samfélagið allt í gegn um þetta sérstaka tímabil voru þær margháttuðu stuðningsaðgerðir sem stjórnvöld innleiddu og voru flestar unnar í nánu samstarfi við hagsmunasamtök í atvinnulífinu. Ekki er neinum vafa undirorpið að þær aðgerðir breyttu miklu og má endlaust velta því fyrir sér hver staðan væri núna í hagkerfi landsins ef ekki hefði verið gripið til þessara aðgerða.

Fyrirtæki í ferðaþjónustu gengu í gegn um erfiða tíma þar sem ferðalög lögðust að mestu af. Ýmsar aðrar atvinnugreinar nutu hins vegar mjög góðs af ástandinu af sömu ástæðu og á það ekki hvað síst við um fyrirtæki í verslun og þjónustu. Þar sem ferðalög erlendis lögðust nær af þann tíma sem heimsfaraldurinn stóð yfir, fór verulegur hluti þeirrar neyslu sem að jafnaði fer fram erlendis, til íslenskra fyrirtækja. Fyrir mörg fyrirtæki í verslun og þjónustu var þetta því alls ekki slæmur tími, og hefur aldrei verið nein dul á það dregin.

Það er því ágætis tilefni til að líta yfir sviðið núna og horfa á hvernig viðskipti hafa þróast á árinu sem kveður brátt. Í því sambandi verður að líta til ársins 2019 til samanburðar þar sem árin þar á milli geta ekki talist samanburðarhæf vegna þeirra sérstöku aðstæðna, sem þá voru til staðar.

Í samanburði við flestar nágrannaþjóðir okkar getum við prísað okkur sæl yfir því að vera laus við þá orkukreppu sem hefur nú alvarlegar afleiðingar fyrir heimili og fyrirtæki víða um lönd.
Þegar kortavelta innlendra greiðslukorta innanlands, það sem af er ári 2022 (summa janúar til nóvember) er skoðuð og borin saman við sama tímabil árið 2019 kemur í ljós að kortavelta í verslun hefur aukist um 16% að raunvirði frá árinu 2019 og kortavelta í þjónustu hefur á sama tímabili aukist um 7%, að raunvirði. Nánari greining á þróun einstakra liða má sjá á meðfylgjandi mynd frá Rannsóknarsetri verslunarinnar sem sýnir hvernig breytingin hefur verið í öllum flokkum sem kortavelta rannsóknarsetursins nær til.

Við sem samfélag höfum fulla ástæðu til að horfa björtum augum fram á veginn. Allar forsendur eru til þess að það ár sem brátt gengur í garð verði okkur hagfellt, þó að glíman við verðbólguna verði enn um sinn eitt stóra viðfangsefnið. Í samanburði við flestar nágrannaþjóðir okkar getum við prísað okkur sæl yfir því að vera laus við þá orkukreppu sem hefur nú alvarlegar afleiðingar fyrir heimili og fyrirtæki víða um lönd. Við erum því í umtalsvert betri stöðu en flestar aðrar þjóðir að skapa hér grunn að öflugum hagvexti sem allir munu njóta góðs af. Það hlýtur að vera sameiginlegt verkefni okkar allra.