Fagnám verslunar og þjónustu

Fagnám verslunar og þjónustu

Nýtt nám fyrir starfsfólk í verslun hefur göngu sína í janúar 2020. Námið er 90 eininga nám á framhaldsskólastigi og er blanda af fjarnámi hjá Verzlunarskóla Íslands og vinnustaðanámi sem fer fram úti í fyrirtækjunum.

Umsækjendum með viðeigandi starfsreynslu úr verslun og þjónustu stendur til boða að fara í raunfærnimat hjá Mími. Raunfærnimat er ferli þar sem ákveðin aðferðarfræði er notuð til þess að meta og staðfesta færni án tillits til þess hvar hennar hefur verið aflað. Þeir sem fara í  raunfærnimat og fá hæfni sína staðfesta á formlegan hátt, geta látið staðar numið þar og nýtt niðurstöðuna til starfsþróunar. Aðrir, sem það kjósa, geta nýtt raunfærnimatið til styttingar á Fagnámi verslunar og þjónustu.

Sjá frekari upplýsingar hér á vef Stafsmenntasjóðs verslunar- og skrifstofufólks

Skólakerfi til framtíðar!

Skólakerfi til framtíðar!

Sara Dögg Svanhildardóttir, formaður Samtaka sjálfstæðra skóla skrifaði á Vísi um skólakerfi framtíðarinnar þann 7. nóvember sl.

Tveir áhugaverðir viðburðir um menntakerfið okkar voru haldnir í vikunni, árlegt skólaþing sveitarfélaganna og kynning Samtaka atvinnulífsins á áherslum samtakanna í menntamálum. Á skólaþingi sveitarfélaganna var verið að ræða hina einu sönnu spurningu: Hvað er menntun? Það gladdi okkur sem stöndum að Samtökum sjálfstæðra skóla að þingið sýndi það hugrekki í fyrsta sinn að hafa á dagskrá sinni erindi frá sjálfstætt reknum grunnskóla.

Erum við á réttu róli? var yfirskrift þingsins. Mikilvæg spurning og eins og oft áður er allt undir. Mikilvægi raungreina, styrk stoðþjónusta, vellíðan, sameining sveitarfélaga og allt þar á milli. Þegar við veltum fyrir okkur hvernig skólakerfi við viljum þá eru allar spurningar mikilvægar. Sjálfstæði skóla og sjálfstætt starfandi skólar, breytt aldursbilsdreifing skólastiga, fækkun grunnskólaáranna um eitt ár, framhaldsskóli og háskóli í meiri samfellu. Sveitarfélög og ríki þurfa að móta samfelluna á milli grunn- og framhaldsskólans í rekstrarlegu tilliti. Allt eru þetta mikilvæg mál og miseldfim. Við höfum rætt þau oft áður, en án nokkurrar niðurstöðu eða aðgerða í kjölfarið.

En viljum við í raun einhverjar aðgerðir? Eða komum við einhvern tímann til með að sammælast um hvaða aðgerðir eru þær réttu fyrir blessað kerfið? Er það lengd grunnskólans? Árabilin á milli skólastiga? tenging á milli skólastiga eða jafnvel meiri stuðningur við fjölbreytt rekstrarform?

Samhljóminn var einna helst að finna í því að gera kerfið okkar betra.

Við gætum þokast í átt að lausn með því að vera opin og taka fjölbreytileika fagnandi. Samrekstur leik- og grunnskóla er ein leið til að skapa faglegan styrk, svo kerfið nái að mæta hverjum nemanda á hans forsendum. Þekking sérfræðinga á ólíkum aldursskeiðum vinnur saman og getur þokað okkur áfram með velferð og menntun barna í fyrirrúmi. Sjálfstætt starfandi skólar er önnur leið, innan þeirra vébanda eru litlir skólar með, óhefðbundna nálgun á nám og kennslu. Slíkt felur í sér nýsköpun í skólastarfi, þar sem hugmyndafræði afmarkast við ákveðna þætti eins og jafnrétti, vellíðan eða lestrarfræði. Og er nýr kostur fyrir börn, ungmenni og foreldra, en ekki síður kennara um annars konar starfsvettvang.

Um skólakerfið vitum við fyrir víst að þar eru nemendur með alls konar þarfir. Sumir geta farið hraðar yfir þá grunnmenntun sem grunnskólinn byggir á, en mætti þó efla og dýpka til að auka almennan lesskilning, bæta stærðfræði og raungreinakennslu og ekki væri verra ef verk- og listgreinar fengju um leið aukið vægi. Aðrir þyrftu að komast út fyrir hefðbundna kerfið og fá að spreyta sig í annars konar námi líkt og sjálfstæðir skólar og lýðskólar bjóða upp á. Enn aðrir þyrftu að eiga aðgang að skóla þar sem meiri áhersla er á verk- og listgreinar. Loks er svo hópurinn sem er sáttastur við hefðbundnu 10 ára grunnskólaleiðina.

Viðurkennum ólíkar leiðir og gerum þeim jafnhátt undir höfði í stað þess að togast endalaust á um hvort skólinn eigi að vera svona eða hinsegin. Því fyrst og fremst snýst þetta um menntun og líðan barna og ungmenna til að geta eflst, þroskast og fundið sinn tilgang í lífinu. Til þess þurfum við fjölbreytta skóla, sjálfstæða, litla og stóra.

Engin verður þróunin ef engir eru kennararnir. Síðast en ekki síst þurfum við fleiri öfluga, unga kennara. Kennara sem þora og vilja takast á við faglega þróun og færa menntakerfið okkar inn í framtíðina í sátt við væntingar okkar og þarfir.

Jólaverslun færist framar

Jólaverslun færist framar

Rætt er við Andrés Magnússon, framkvæmdastjóra SVÞ, á mbl.is nýverið þar sem haft er eftir honum að jólaverslun hafi færst sífellt framar síðustu ár.

„Það er já­kvætt að dreifa álag­inu, það er eng­in að kvarta yfir því, en það eru þess­ir stóru dag­ar sem spila stærstu rull­una,“ segir hann m.a.

Umfjöllunina í heild sinni má sjá á vef mbl.is hér.

Ljómandi gott hljóð í kaupmönnum í upphafi jólaverslunar

Ljómandi gott hljóð í kaupmönnum í upphafi jólaverslunar

Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri SVÞ sagði hljóðið í kaupmönnum ljómandi gott þegar hann var spurður í fréttum RÚV í gærkvöldi. Hann sagði enga ástæðu til svartsýni í röðum kaupmanna. Aðspurður um helstu þætti sem hefðu áhrif á jólaverslun sagði Andrés „eins og staðan er hjá okkur í dag þá er nýbúið að gera kjarasamninga sem færir fólki aukinn kaupmátt, það er stöðugleiki framundan í þjóðfélaginu. Allar ytri ástæður eru þannig að það eru engar ástæður til að ætla annað en að jólaverslun fyrir þessi jól verði mjög öflug.“ Andrés segir verulega breytingu að verða á neyslumynstri og hegðun neytenda, bæði séu stórir alþjóðlegir verslunardagar afgerandi í verslun, Black Friday, Cyber Monday og fleiri dagar auk þess sem sífellt stærri hluti verslunar sé að færast á netið.

Fréttina má sjá hér – smellið á 00:07:44 – Jólavertíðin, undir myndbandinu til að fara á réttan stað.