16/02/2021 | Fræðsla, Fréttir, Menntun, Verslun, Þjónusta
Hefur þú kynnt þér fagnám verslunar- og þjónustu við Verzlunarskóla Íslands fyrir þitt starfsfólk?
Námið er 90 einingar og er blanda af fjarnámi og vinnustaðanámi í fyrirtækjunum. Umsækjendum stendur til boða að fara í raunfærnimat hjá Mími þar sem kunnátta og hæfni hvers og eins er metin til eininga á móti kenndum áföngum. Þannig fá einstaklingar með starfsreynslu og hæfni slíkt metið til eininga og styttingar á námi sínu. Markmið námsins, er meðal annars að nemendur auki þekkingu sína og færni á vinnustað, þjálfist í að veita viðskiptavinum framúrskarandi þjónustu og geti stýrt verkefnum í verslun í samræmi við skipulag og áætlanir.
04/02/2021 | Fræðsla, Fréttatilkynningar, Fréttir, Stafræn viðskipti, Stafræna umbreytingin, Verslun, Viðburðir
Vel yfir 600 manns eru skráðir á vikulanga ráðstefnu SVÞ og KoiKoi fyrir vefverslanir sem nú stendur yfir og vakið hefur mikinn áhuga.
Netverslun hefur aukist gríðarlega í kjölfar COVID-19. Fulltrúar SVÞ hafa áður lýst ánægju sinni með þróunina en jafnframt áhyggjum af gæðum netverslunar þegar margir flýta sér í þá vegferð sökum ástandsins. Því var ákveðið, í samstarfi við vefverslunarsérfræðingana í KoiKoi að efna til veglegrar vefverslunarráðstefnu sem opin yrði öllum endurgjaldslaust á netinu með því markmiði að efla gæði íslenskrar netverslunar. Innan SVÞ er fjöldi aðildarfyrirtækja með sérfræðinga á hinum ýmsu sviðum sem tengjast netverslun og því hæg heimatökin að fá góða aðila til að fjalla um þessi mál.
„Það er ljóst að ímynd íslenskrar netverslunar byggist á gæðum allra netverslana hérlendis, smárra sem stórra, og sú ímynd hefur áhrif á upplifun viðskiptavina af íslenskri vefverslun og þar með velgengni hennar í heild. Það er því ekki nóg fyrir okkur að fræða félagsmenn okkar um þessi mál, heldur þurfum við að breiða boðskapinn víðar, og þetta er ein leiðin til þess.“ segir Þóranna K. Jónsdóttir, markaðs- og kynningarstjóri SVÞ. Hún bendir á að þetta sé þó aðeins lítið brot af því sem samtökin geri til að efla íslenskar verslanir, þó að þetta sé mikilvægt innlegg.
„Íslensk verslun mætir síharðnandi samkeppni frá erlendum netverslunarrisum og eina leiðin til að mæta því er með því að efla íslenskar netverslanir svo að innlendir neytendur sjái þær sem vænlegan kost. Okkur er því ljúft og skylt að styðja við greinina í heild, enda hagsmunir íslenskrar verslunar, og fjölda starfa innan hennar, í húfi.“ segir Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri samtakanna.
Ráðstefnan stendur yfir út vikuna. Skráningu lauk um helgina en vegna fjölda áskorana hefur verið ákveðið að opna ráðstefnuna líka fyrir þeim sem ekki náðu að skrá sig í tíma. Upplýsingar má finna á www.svth.is/voxtur-og-bestun-vefverslana
01/02/2021 | Fréttir, Innra starf
Óskað er eftir framboði til formanns SVÞ, fjögurra meðstjórnenda í stjórn SVÞ og fulltrúa SVÞ í fulltrúaráð Samtaka atvinnulífsins.
Taktu þátt í að móta framtíðina í kjölfar heimsfaraldurs…
Heimsfaraldur COVID-19 hefur nú haft gríðarleg áhrif á starfsemi fyrirtækja í tæpt ár. Hvað tekur við að faraldrinum afstöðnum? Hver verða langtímaáhrifin? Munu viðskiptahegðun og neyslumynstur fólks verða gerbreytt?
Faraldurinn mun með einum eða öðrum hætti hafa afgerandi áhrif á starfsumhverfi fyrirtækja næstu ár og um ókomna framtíð. Helstu sérfræðingar eru sammála um að lykillinn að endurreisn efnahagskerfa heimsins liggi í stafrænni umbreytingu. Hvað getum við gert til að styðja fyrirtækin okkar á þessum róstursömu tímum? Hvernig getum við stutt fyrirtækin okkar á stafrænni vegferð?
Stjórn SVÞ hefur vakandi auga með breytingum sem verða á viðskiptaumhverfi fyrirtækja í verslun og þjónustu. Með setu í stjórn samtakanna gefst þér tækifæri til að hafa áhrif á áherslur SVÞ. Þín þátttaka getur skipt sköpum.
Ertu ekki alveg kjörin/n?
Kjörnefnd SVÞ leitar að áhugasömum stjórnendum til setu í stjórn samtakanna. Kjörgengir eru stjórnendur og stjórnarmenn í aðildarfyrirtækjum samtakanna.
Formaður SVÞ er kjörinn til tveggja ára.
Þrír stjórnarmenn taka sæti til næstu tveggja starfsára og einn til eins árs.
Þá er leitað eftir fulltrúum til setu í fulltrúaráði SA til eins árs.
Við hvetjum þig til að bjóða þig fram eða senda inn tilnefningu fyrir kl. 12:00 hinn 18. febrúar nk. en framboðsfrestur samkvæmt samþykktum rennur út 25. febrúar. Aðalfundur verður haldinn 18. mars nk.
Í stjórn SVÞ eiga sæti formaður og sex meðstjórnendur.
Eftirtaldir meðstjórnendur eiga sæti í stjórninni til loka næsta starfsárs, 2021/2022:
- Gunnar Egill Sigurðsson, Samkaup hf.
- Kjartan Örn Sigurðsson, Verslanagreining ehf.
Þrír meðstjórnendur skulu kosnir til setu í stjórn SVÞ fyrir næstu tvö starfsár. Einn meðstjórnandi mun ganga úr stjórninni á næsta aðalfundi og í hans stað þarf að kjósa nýjan meðstjórnanda til eins árs.
Tilnefningar til formanns SVÞ, stjórnar samtakanna og fulltrúaráðs SA skulu sendar til SVÞ – Samtök verslunar og þjónustu, Borgartúni 35, 105 Reykjavík, merktar „Kjörnefnd SVÞ“ eða á netfangið: kosning@svth.is. Það nægir að senda upplýsingar um nafn, starf og fyrirtæki ásamt tilnefningu, eða yfirlýsingu um framboð. Haft verður samband við frambjóðendur í kjölfarið varðandi fyrirkomulag framboðsins og kosninganna að öðru leyti.
Rétt er að minna á að tillögur um breytingar á samþykktum SVÞ þurfa að berast stjórn samtakanna eigi síðar en 18. febrúar 2021.
Konur, jafnt sem karlar, eru hvattar til að gefa kost á sér í stjórn SVÞ og í fulltrúaráð SA.
Kjörnefnd SVÞ
29/01/2021 | COVID19, Fréttir, Í fjölmiðlum, Stjórnvöld
Í Fréttablaðinu þann 28. janúar birtist umfjöllun þar sem Benedikt S. Benediktsson, lögfræðingur SVÞ, segir erfitt að horfa upp á tilvik þar sem fyrirtæki séu nálægt því að uppfylla skilyrði tekjufallsstyrks stjórnvalda, en gera það ekki í ljósi strangra lagaskilyrða og óheppilegra tímasetninga. Í umfjölluninni eru talin upp nokkur álitamál sem SVÞ hefur skoðað í þessu sambandi, s.s. er varða nýlega stofnuð fyrirtæki, lítil fyrirtæki þar sem eigendur gripu til þeirra ráða að greiða ekki laun á viðmiðunartímabilinu, fyrirtæki sem fengu einhverjar tekjur í sumar og fyrirtæki sem skráð voru á launagreiðendaskrá en ekki virðisaukaskattsskrá.
>> Umfjöllunina má lesa í heild sinni á vef Fréttablaðsins hér.
27/01/2021 | Fréttatilkynningar, Fréttir, Innra starf
Bílgreinasambandið og SVÞ – Samtök verslunar og þjónustu hefja í dag öflugt samstarf með undirritun samstarfsyfirlýsingar. Markmiðið er að efla þjónustu við félagsmenn í samskiptum við stjórnvöld, í lögfræðilegum álitamálum og í fræðslu- og menntunarmálum ásamt því að styrkja rekstur beggja samtaka.
Flóknara rekstrarumhverfi fyrirtækja kallar á samvinnu
Rekstrarumhverfi fyrirtækja í bílgreininni og í verslun og þjónustu verður sífellt flóknara með auknum kröfum af margvíslegu tagi sem m.a. leiða til aukinna samskipta við stjórnsýsluna. Samvinna eflir þessi samskipti, eykur þjónustu og upplýsingagjöf og er til mikillar hagræðingar fyrir félagsmenn. Hún er ekki síður hagræðing fyrir stjórnsýsluna sem þarf þá að taka við færri umsögnum sem oftar en ekki eru efnislega sambærilegar. Sífellt hraðari tækniþróun kallar á aukna fræðslu og menntun sem samtökin geta eflt enn frekar með samvinnu.
Miklar væntingar til samstarfsins
„Það eru klárlega samlegðaráhrif á fjölmörgum sviðum sem gerir samtökunum kleift að vinna enn betur fyrir félagsmenn sína. Samskipti við stjórnsýsluna verða markvissari og öflugri, félagsmenn Bílgreinasambandsins munu njóta góðs af aðgengi að fræðsludagskrá SVÞ, enda er eðli bílgreinarinnar í raun verslun og þjónusta, og hagræðing í rekstrarkostnaði samtakanna er augljós. Við væntum mikils af þessu samstarfi,” segir María Jóna Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Bílgreinasambandsins.
Stefnt að enn frekara samstarfi
Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri SVÞ, fagnar samstarfinu, enda ljóst að með því verði samtökin enn sterkara hagsmunaafl fyrir félagsmenn sína. „Hagsmunir þessara greina fara að langmestu leyti saman og í ljósi þess fögnum við þessum samstarfi og vonumst til að geta þróað það áfram enn frekar.”