Veltuaukning í allri tegund verslunar

Rannsóknasetur verslunarinnar hefur birt samantekt fyrir septembermánuð sem sýnir að mikil veltuaukning var í smásöluverslun í síðasta mánuði og greinileg merki um kaupmáttaraukningu frá sama mánuði í fyrra. Í sumum vöruflokkum jókst veltan um fjórðung frá því í fyrra, má þar nefna húsgögn, byggingavöru og snjallsíma. Matur og drykkur var heldur ekki skorinn við nögl því velta dagvöruverslana var 9,1% meiri en í september í fyrra og velta áfengisverslana var 30% meiri en í sama mánuði í fyrra.
Við samanburð á veltu áfengis milli ára þarf að hafa í huga kerfisbreytingar sem urðu um síðustu áramót á virðisaukaskatti og áfengisgjaldi sem skekkir samanburð þegar horft er að vöxt án virðisaukaskatts. Engu að síður jókst sala áfengis í september, í lítrum talið, um 15,7% á milli ára.
Kippur varð í fataverslun í september, sem var 8,3% meiri en í september í fyrra. Að magni til jókst sala á fötum 14,8%. Magnaukningin orsakast af því að verð á fötum var 5,7% lægra en í samanburðarmánuðinum í fyrra. Þetta skýrist væntanlega aðallega af afnámi tolla á föt um síðustu áramót.

Þó vöxtur í sölu raftækja sé ekki eins afgerandi og í öðrum flokkum, í samanburði söluna í sama mánuði í fyrra skýrist það af mikilli sölu í fyrra. Þó var velta í sölu á snjallsímum 28,7% meiri en í fyrra. Mikill uppgangur er enn í húsgagnaverslun sem sést á því að veltan var fjórðungi meiri en í september í fyrra. Velta sérverslana sem selja rúm jókst um 65% á milli ára og sala skrifstofuhúsgagna um 36%. Þá njóta byggingavöruverslanir góðs af uppsveiflu í húsbyggingum þar sem salan jókst um 23,6%.

Kortavelta Íslendinga í september nam 73,9 milljörðum eða 5,5% meira en í sama mánuði 2015 samkvæmt tölum Seðlabankans. Af þeirri fjárhæð greiddu Íslendingar 10,3 milljarða erlendis en 63,6 milljarða hér á landi. Erlend kortavelta hérlendis nam í september 21,7 milljörðum og standa erlendir ferðamenn því að baki ríflega fjórðungi kortaveltu hérlendis þó komið sé fram í september. Nánar verður rýnt í kortaveltu erlendra ferðamanna þegar Rannsóknasetur verslunarinnar birtir mánaðarlegar tölur sínar á næstu dögum.

Veltuvísitala eftir vöruflokkum
Velta í dagvöruverslun jókst um 9,1% á breytilegu verðlagi í september miðað við sama mánuð í fyrra og jókst um 8,9% á föstu verðlagi. Leiðrétt fyrir vikudaga- og árstíðabundnum þáttum jókst velta dagvöruverslana í september um 7,2% frá sama mánuði í fyrra. Verð á dagvöru hækkaði um 0,2% á síðastliðnum 12 mánuðum og var í ágúst 0,2% lægra en í mánuðinum á undan.

Sala áfengis jókst um 30% á breytilegu verðlagi í september miðað við sama mánuð í fyrra og jókst um 29,4% á föstu verðlagi. Leiðrétt fyrir vikudaga- og árstíðabundnum þáttum jókst velta áfengisverslana í ágúst um 19% frá sama mánuði í fyrra. Verð á áfengi var 0,5% hærra í september síðastliðnum og 0,1% lægra en í mánuðinum á undan.

Fataverslun jókst um 8,3% í september miðað við sama mánuð í fyrra á breytilegu verðlagi og jókst um 14,8% á milli ára á föstu verðlagi. Verð á fötum var 5,7% lægra í september síðastliðnum en í sama mánuði í fyrra.

Velta skóverslunar jókst um 16,4% í september á breytilegu verðlagi og jókst um 13,9% á föstu verðlagi miðað við sama mánuð í fyrra. Leiðrétt fyrir árstíðabundnum þáttum jókst skósala um 13,9% frá sama mánuði í fyrra á föstu verðlagi. Verð á skóm hækkaði í september um 2,3% frá september í fyrra.

Velta húsgagnaverslana var 25,5% meiri í september en í sama mánuð í fyrra á breytilegu verðlagi og jókst um 22,7% á föstu verðlagi. Velta sérverslana með rúm jókst um 64,7% frá því í fyrra á breytilegu verðlagi. Velta sérverslana með skrifstofuhúsgögn jókst um 35,7% á breytilegu verðlagi. Verð á húsgögnum hefur hækkað um 2,3% á síðustu 12 mánuðum.

Verslun með byggingavörur jókst í ágúst um 23,6% í september á breytilegu verðlagi og jókst um 23,4% á föstu verðlagi. Verð á byggingavöru er 0,2% hærra en fyrir tólf mánuðum síðan.

Velta í sölu á tölvum jókst í september um 2,6% á breytilegu verðlagi miðað við sama mánuð í fyrra og farsímasala jókst um 28,7%. Sala minni raftækja, svokallaðra brúnvara, jókst um 0,2% á breytilegu verðlagi en sala stærri raftækja, svokallaðra hvítvara, jókst um 1,4% á milli ára.

Nánari upplýsingar veitir Árni Sverrir Hafsteinsson arni@bifrost.is og í síma 868-4341.

Fréttatilkynning RSV.

Undirritun yfirlýsingar um hæfniramma um íslenska menntun

Mennta- og menningarmálaráðuneyti, Alþýðusamband Íslands (ASÍ), Samtök atvinnulífsins (SA), BSRB, Kvasir, Leikn, Bandalag háskólamanna (BHM), Samtök íslenskra framhaldsskólanema (SÍF) og Landssamtök íslenskra stúdenta (LÍS) undirrituðu í dag yfirlýsingu um hæfniramma um íslenska menntun sem ætlað er að endurspegla stigvaxandi hæfnikröfur í formlegu og óformlegu námi á Íslandi. Undirritunin markar tímamót.

Sjá nánar á vef SA

Innra mat í leik-, grunn- og framhaldsskólum

Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur látið útbúa leiðbeiningar um innra mat í leik-, grunn- og framhaldsskólum og sent til allra leik-, grunn- og framhaldsskóla.

Leiðbeiningarnar:
Innra mat leikskóla
Innra mat grunnskóla
Innra mat framhaldsskóla

Til þess að leiðbeiningarnar nýtist skólum sem best við gerð innra mats fer ráðuneytið þess á leit við þá skóla sem nota leiðbeiningarnar í vetur að þeir sendi athugasemdir og tillögur um breytingar á innihaldi og texta leiðbeininganna á netfangið postur@mrn.is fyrir 10. júní 2017. Allar tillögur eru vel þegnar.

 

Loforð um þjóðarsamtal brotið

Alþýðusamband Íslands, Félag atvinnurekenda, Neytendasamtökin, Samtök skattgreiðenda, Samtök verslunar og þjónustu og Viðskiptaráð Íslands hafa birt sameiginlega auglýsingu vegna nýsamþykktra búvörusamninga. Samningarnir voru staðfestir með nítján greiddum atkvæðum á Alþingi án þess að tekið hafi verið tillit til framangreindra tillagna. Telja framangreind samtök að með afgreiðslu sinni hafi Alþingi mistekist að gæta hagsmuna almennings, neytenda og skattgreiðenda.

Í aðdraganda nýgerðra búvörusamninga óskuðu samtökin þess að stjórnvöld gættu hagsmuna alls almennings umfram sérhagsmuni einstakra starfsgreina enda hafa þessir samningar áhrif á fleiri aðila en þá sem að þeim koma með beinum hætti, samtök bænda og ríkið. Með vísan til tillagna verkefnisstjórnar Samráðsvettvangs um aukna hagsæld, þverpólitísks og þverfaglegs vettvangs sem ætlað er að tryggja hagsæld Íslendinga til lengri tíma litið, óskuðu samtökin þess að búvörusamningar hefðu m.a. að markmiði að:

1.    Lækka matvælaverð til neytenda.
2.    Tryggja rekstargrunn landbúnaðar sem atvinnugreinar.
3.    Niðurgreiðslur færist frá sértækum búgreinastuðningi í átt að almennari jarðræktarstuðningi.
4.    Stuðla að aukinni samkeppni á búvörumarkaði.
5.    Lækka tolla á landbúnaðarvörum um 50% og afnema tolla á alifuglum og svínakjöti.

Til að bregðast við harðri gagnrýni á búvörusamninga kallaði meirihluti atvinnuveganefndar eftir þjóðarsamtali um landbúnað með aðkomu neytenda, samtaka launafólks og atvinnulífs. Ljóst er að loforð um endurskoðun var brotið og búvörusamningar festa í sessi óskilvirkt og kostnaðarsamt landbúnaðarkerfi þar sem bændur hafa fullt vald til að hafna öllum þeim breytingum sem þeim hugnast illa.

Alþingi hefur því samþykkt búvörusamninga til tíu ára án þess að taka tillit til framangreindra sjónarmiða og þannig brugðist skyldu sinni að gæta hagsmuna almennings, neytenda og skattgreiðenda. Að sama skapi standast ekki nánari skoðun fullyrðingar einstakra þingmanna og ráðherra um að samningarnir gildi eingöngu til þriggja ára.

Er það því brýnt verkefni komandi þings að stuðla að sátt í þessu máli. Það er skýr krafa framangreindra samtaka að nýtt þing endurskoði núverandi landbúnaðarkerfi með heildarhagsmuni að leiðarljósi. Sátt um íslenskan landbúnað er öllum til hagsbóta, ekki síst bændunum sjálfum.

Heilbrigð samkeppni: Áskoranir og tækifæri í íslenskri heilbrigðisþjónustu

Efnahagssvið Samtaka atvinnulífsins kynnti í morgun greiningu sína á íslensku heilbrigðiskerfi á opnum umræðufundi Samtaka atvinnulífsins, Samtaka heilbrigðisfyrirtækja og Samtaka verslunar og þjónustu undir yfirskriftinni „Heilbrigð samkeppni: Áskoranir og tækifæri í íslenskri heilbrigðisþjónustu“ . Framsögu hafði Tryggvi Másson, viðskiptafræðingur á efnahagssviði SA.heilbrigdi-22

Dr. Stefán E. Matthíasson formaður Samtaka heilbrigðisfyrirtækja flutti erindi undir yfirskriftinni „Hvert stefnum við“ þar sem hann greindi stöðu íslensks heilbrigðiskerfis.

Að loknum framsögum gafst fundargestum tækifæri til að beina spurningum til fulltrúa stjórnmálaflokkanna sem lýstu áherslum og stefnumörkun sinna flokka til heilbrigðismála í aðdraganda Alþingiskosninga 2016.

Margrét Sanders, formaður SVÞ stýrði umræðum.

Glærur frá fundinum:

Hvert stefnum við? – Dr. Stefán E. Matthíasson
Heilbrigð samkeppni: Áskoranir og tækifæri í íslenskri heilbrigðisþjónustu – Efnahagssvið Samtaka atvinnulífsins

Umfjöllun á vef SA

6,5 milljarðar í gistingu í ágúst

Samkvæmt fréttatilkynningu frá Rannsóknasetri verslunarinnar nam erlend greiðslukortavelta í ágúst 30,6 milljörðum króna samanborið við 22,2 milljarða í sama mánuði 2015. Um er að ræða tæplega 38% aukningu frá ágúst í fyrra. Það sem af er ári hafa erlendir ferðamenn greitt tæpa 162 milljarða með kortum sínum en til samanburðar var erlend greiðslukortavelta allt árið í fyrra 154,4 milljarðar króna. Kortavelta á tímabilinu janúar til ágúst 2016 er því um 5% meiri en allt árið í fyrra.

Líkt og undanfarna mánuði var vöxtur í öllum útgjaldaliðum á milli ára. Tæpir 6,5 milljarðar króna fóru um posa gististaða í ágúst en gististarfsemi er veltuhæsti flokkurinn í kortaveltu ferðamanna. Upphæðin nú er 32,3% hærri en í ágúst 2015 þegar erlendir ferðamenn greiddu 4,9 milljarða króna til gististaða með kortum sínum. Erlend greiðslukortavelta til gististaða er jafnframt 4,8% hærri en í júlí síðastliðnum og hefur því aldrei verið meiri í einum mánuði.

Enn er mikill vöxtur í farþegaflutningum með flugi en erlend greiðslukortavelta til flugfélaga jókst um 128% frá fyrra ári. Erlendir aðilar greiddu í ágústmánuði 3,1 milljarða fyrir flugferðir samanborið við tæpan 1,4 milljarð í fyrra. Ekki fer öll starfsemi innlendra flugfélaga fram á Íslandi og því stafar hluti greiðslukortaveltu þeirra af ferðalögum til annarra áfangastaða en Íslands.

Um 57% aukning varð á milli ára í greiðslukortaveltu í flokknum ýmis ferðaþjónusta en flokkurinn inniheldur meðal annars ferðaskrifstofur og ýmsar skipulagðar ferðir ferðaþjónustufyrirtækja. Erlendir ferðamenn greiddu 3,5 milljarða á veitingahúsum í ágúst í ár eða 29,7% meira en íkortavelta-e-flokkum-08-2016 ágúst í fyrra og þá jókst greiðslukortavelta í verslun um 23,2% frá fyrra ári og var í ár 4,4 milljarðar. Í ágúst greiddu erlendir ferðamenn tæpar 900 milljónir fyrir menningar- afþreyingar og tómstundastarfsemi eða 47,2% meira en í sama mánuði árið 2015.
Í júlí komu 241.559 þúsund ferðamenn til landsins um Leifsstöð samkvæmt talningu Ferðamálastofu, 27,5% fleiri en í sama mánuði í fyrra og hafa aldrei verið fleiri í einum mánuði.

Kortavelta eftir þjóðernum
Ef miðað er við fjölda erlendra ferðamanna um Keflavíkurflugvöll greiddi hver þeirra að jafnaði með  greiðslukorti sínu fyrir 127 þús. kr. í ágúst, eða um 5% minna en í júlí. Það er um 8% hærri upphæð en í sama mánuði í fyrra.

Líkt og síðustu mánuði keyptu ferðamenn frá Sviss að jafnaði fyrir hæstar fjárhæðir með greiðslukortum sínum eða 150 þús. kr. á hvern ferðamann. Rússar eru í öðru sæti með 146 þús. kr. á hvern ferðamann. Norðmenn koma þar næst með 139 þús. kr. Athygli vekur þó að meðaleyðsla ferðamanna frá öðrum löndum er 171 þús. kr. á hvern ferðamann.

Velta eftir þjóðernum ræðst meðal annars af því hversu löng dvölin hér á landi er og hvort greitt hafi verið fyrir ferðina áður en komið er til landsins auk þess sem mismunandi er í hve miklum mæli ferðamenn greiða með greiðslukortum. Þá þarf að hafa í huga að tölur um fjölda ferðamanna um Keflavíkurflugvöll ná ekki til allra þeirra sem koma til landsins.

Í því talnaefni sem Rannsóknasetur verslunarinnar hefur yfir að ráða er nánar hægt að greina kortaveltu erlendra ferðamanna eftir útgjaldaliðum og þjóðerni.

Um kortaveltu ferðamanna
Rannsóknasetur verslunarinnar birtir mánaðarlega tölur um greiðslukortaveltu ferðamanna sundurliðaða eftir útgjaldaliðum og útgáfulandi korta. Gögnunum er enn fremur skipt eftir því hvort um er að ræða erlend eða innlend greiðslukort. Gögnin innihalda færslur bæði debet- og kreditkorta. Birtar eru upphæðir í íslenskum krónum ásamt hlutfallsbreytingum frá fyrri mánuði og sama mánuði fyrra árs.
Gögnin eru fengin frá innlendum færsluhirðingaraðilum, sundurliðuð eftir svonefndum MCC kóðum. MCC kóðarnir eru aftur greindir í flokka eftir því hvernig þeir eru taldir tengjast mismunandi greinum ferðaþjónustu. Gögnin lýsa kortaveltu eftir kauptímabilum (almanaksmánuðum) en ekki eftir uppgjörstímabilum.

Nánari upplýsingar veitir Árni Sverrir Hafsteinsson, arni@bifrost.is eða í síma 868- 4341.

www.rsv.is