Hrávöruverð hefur hækkað frá síðasta ári 

Blaðagrein birt í Viðskiptablaðinu 24.5.2017
Höfundur: Ingvar Freyr Ingvarsson, hagfræðingur SVÞ

Verðbólga hefur verið undir verðbólgumarkmiði í meira en þrjú ár. Skýrist það m.a. af hækkandi gengi krónunnar og verðlækkun olíu og annarra hrávara. Íslandi er bæði stór innflytjandi og útflytjandi af hrávörum og því hafa verðsveiflur á erlendum hrávörumörkuðum töluverð áhrif hér á landi. Í því ljósi er áhugavert að skoða þróun og horfur á hrávörumarkaði.

Sé litið á þróun Macrobond hrávöruvísitölunnar síðustu þrjú ár sést að hún tekur að lækka á síðari hluta ársins 2014, tekur aðeins við sér í byrjun árs 2015 en nær síðan lágpunkti í febrúar 2016. Hrávöruverð hefur hækkað frá síðasta ári sem skýrist af sterkari vexti, væntinga um kröftugri eftirspurn í heimsbúskapnum auk samþykktra takmarkana á olíuframboði.

Verðvísitala matvæla og drykkja hefur lækkað á árinu
Sé verðvísitala Alþjóðabankans fyrir matvæli (mæld í Bandaríkjadölum) skoðuð sést að vísitalan hefur lækkað um 4,6% frá janúar til apríl 2017. Verðvísitala Alþjóðbankans fyrir drykki (mæld í Bandaríkjadölum) hefur einnig lækkað frá byrjun árs, eða um 5,4%.

Í þessu samhengi mætti nefna að matur og drykkur námu um 10% af heildarinnflutningi til Íslands árið 2015. Því er ljóst að samspil styrkingar krónunnar ásamt hagstæðum ytri áhrifum hefur komið sér vel fyrir neytendur. Innlendur launakostnaður hefur hækkað verulega sem hefur áhrif á söluverð vegna hærri kostnaðar í innlendri matvælaframleiðslu. Þó er vert að hafa í huga að tæplega 40% matarútgjalda íslenskra heimila eru vegna vörutegunda sem njóta tollverndar. Háir tollar gera innlendum framleiðendum kleift að halda verði hærra en nemur heimsmarkaðsverði á sambærilegum vörum.

Heimsmarkaðsverð á olíu stöðugt
Olíuverð hefur hækkað í kjölfar ákvörðunar OPEC – ríkjanna um að takmarka framleiðslumagn. Þrátt fyrir framleiðslutakmarkanir OPEC, hefur fatið af olíu farið hæst í 56 dollara á þessu ári. Það sem hefur haft dempandi verðáhrif á markaðinn er; aukin framleiðsla Bandaríkjanna á olíu, aukning í olíubirgðum í Bandaríkjunum, aukin olíuframleiðsla í Líbýu á undanförnum vikum og tortryggni gagnvart áhrifum takmarkana OPEC á olíuframleiðslu. Aftur á móti hefur Rússland náð samkomulagi við Saudi Arabíu um að framlengja framleiðslutakmörkunina til mars á næsta ári.

Samspil orkuverðs og matarverðs
Orkuverð hefur aðallega áhrif á matvöruverð í gegnum tvær leiðir. Í fyrsta lagi er eldsneyti lykilkostnaður í framleiðslu og flutningi matvæla. Orkunotkun er meira en 10% af kostnaði við landbúnaðarframleiðslu. Í öðru lagi hafa breytingar á orkuverði áhrif á hvata í viðskiptum og stuðning við lífeldsneyti, sem er að hluta til knúið áfram af markmiði um að vera óháðari innflutningi af hrávöruolíu.

Til lengri tíma mun ný tækni draga úr eftirspurn eftir olíu
Stór hluti af olíunotkun í heiminum tengist flutninga- og fólksbifreiðum. Sú tæknibylting, sem nú á sér stað með þróun rafmagnsbíla, sjálf-aksturs bílum, minni og sjálfkeyrandi hópbifreiðum, mun hafa áhrif á eftirspurn eftir olíu. Hið sama á við um þrívíddarprentun, sem mun spara sendingar- og geymslukostnað.

Eins og nefnt var hér að ofan er ljóst að áhrif hækkandi gengis og lækkandi alþjóðlegs olíu- og hrávöruverðs hefur stuðlað að því að verðbólgan hefur haldist lág, enn sú þróun kann að snúast við taki áhrifin þeirra að fjara út.

Alþjóðabankinn spáir því að jafnvægi náist á milli framboðs og eftirspurnar á olíumarkaði og verð á hráolíu hækki og verði að meðaltali 55 dollara fatið á þessu ári. Þá spáir Alþjóðabankinn því að verð á matvælum eigi eftir að hækka fram til 2020.

Blaðagreinin á pdf sniði.

 

 

 

 

Stafrænn veruleiki – fjórða iðnbyltingin

Grein birt í Vísbendingu 11. maí 2017
Höfundur: Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri SVÞ

Þær breytingar sem allar atvinnugreinar, ekki hvað síst verslun og þjónusta standa nú frammi fyrir, eru meiri og róttækari en nokkur dæmi eru um. Breytingar sem eru að verða á viðskiptaháttum nýrrar kynslóðar og þær stórstígu framfarir í allri tækni sem orðið hafa á allra síðustu árum, gjörbreyta viðskiptaumhverfi fyrirtækja. Hér skiptir ekki máli hvað atvinngreinin heitir, áhrifanna mun gæta á öllum sviðum atvinnulífsins.

Hraðar og sögulegar framfarir
„Í dag stöndum við á barmi fjórðu iðnbyltingarinnar“ var nýlega haft eftir Klaus Schwab, stofnanda Alþjóða efnahagsþingsins (World Economic Forum). Þessi bylting lýsir sér í hröðum og sögulegum framförum á ólíkum sviðum, eins og erfðavísindum, gervigreind, örtækni og líftækni. Allar þessar ótrúlegu breytingar eru síðan að leggja grunninn að altækari byltingu en við höfum áður séð sem mun gjörbreyta atvinnulífi og vinnumarkaðnum öllum á aðeins örfáum árum.

Ögrandi verkefni framundan
Það eru því ögrandi verkefni sem við stöndum nú öll frammi fyrir.Vinnumarkaðinn mun óhjákvæmilega að þurfa að aðlaga sig að þessum breytingum. Það má hins vegar gefa sér að ákveðið þjóðfélagslegt umrót verði þegar slík umbreyting á sér stað. Slíkt hefur alltaf gerst við slíkar aðstæður. Spurningin er einungis hversu víðtækt þetta umrót verður. Tvö dæmi úr fortíðinni: Í upphafi 20. aldar störfuðu 40% vinnafls í Bandaríkjunum í landbúnaði, nú starfa 2% vinnuafls þar í landi í greininni. Þegar hraðbankar voru hins vegar kynntir til sögunnar á sjötta áratug liðinnar aldar, áttu flestir von á dagar bankagjaldkera væru taldir. Þeim hefur reyndar fjölgað síðan þá.

Helmingur starfa sjálfvirk árið 2055
Samkvæmt nýrri skýrslu frá McKinsey Global Institue mun næstum helmingur af öllu störfum verða sjálfvirk árið 2055. Hins vegar geta ýmis atriði haft áhrif á þessa þróun, t.a.m. geta stjórnmálamenn og almenningsviðhorf gagnvart nýrri tækni, seinkað innleiðingu hennar um 20 ár. Skýrslan bendir til þess að hreyfingin í átt að sjálfvirkni leiði til þess að framleiðni muni aukast í heimsbúskapnum. Samkvæmt líkani þeirra getur framleiðni á alþjóðavísu aukist um 0,8 til 1,4 prósent á ári. Tækniþróunin getur aukið framleiðni í fyrirtækjum með ýmsu móti; m.a. með nýrri framleiðslutækni sem eykur framleiðni vinnuaflsins. Það getur einnig átt sér stað samfara aukinni sjálfvirkni í framleiðslu sem kemur í stað vinnuaflsins.
Ein af afleiðingunum af þessu er t.a.m. að störf í verslunargeiranum munu breytast, minna verður í boði af störfum þar sem lítillar menntun er krafist, en meiri þörf verður á fólki með bæði góða félagslega- og tæknilega færni, svo það geti leiðbeint viðskiptavinunum í gegnum möguleikana sem tæknin býður upp á.

Aðlaga þarf virðiskeðjuna
Verslunin er sannarlega ein þeirra atvinnugreina sem verða að aðlaga virðiskeðju sína að þessum breytta veruleika. Verslunarfyrirtæki verða að bjóða upp á stafrænan vettvang þar sem boðið er upp á sérsniðna þjónustu í rauntíma sem nýtist við að bæta upplifunina af viðskiptunum. Mikilvægasta eign hvers fyrirtækis verður því gagnagrunnurinn yfir viðskiptavinina, en með því móti geta fyrirtæki veitt einstaklingsþjónustu með hjálp gervigreindar og þar með áætlað hvað hver viðskiptavinur er helst að leita eftir. Í þessu sambandi mætti nefna að fyrirtæki geta t.d. samtvinnað gervigreindartækni við sýndarveruleikabúnað sem settur yrði upp í veslunum til að geta gefið notandanum tækifæri til að átta sig betur á vörunni og hvernig hún myndi nýtast honum.

Óvissa um áhrif tækniþróunar
Eins og rakið er hér að ofan er töluverð óvissa um áhrif tækniþróunar á vinnumarkaðinn. Því er full ástæða til að gæta varúðar og fylgja þróuninni eftir með tölfræðilegum greiningum svo hægt sé að aðlagast hratt að þeim breyttu aðstæðum og nýju tækifærum sem munu opnast. Hætta er þó á að hinir hefðbundnu mælikvarðar dugi skammt til að meta þessar veigamiklu breytingar. Hið raunverulega verðmat á fjórðu iðnbyltingunni hefur ekki farið fram. Í þessu sambandi má nefna að hefðbundnir mælikvarðar á framleiðni mæla ekki aukinn ábata neytenda af nýrri tækni, þ.e. tækninni við að hámarka nýtingu frítíma viðskiptavina sinna sem mælikvarðarnir hafa hingað til ekki tekið tillit til. Sem dæmi um þennan falda ábata, þá er hagur neytenda af því að nýta sér netbankaþjónustu til að mynda mun meiri en kostnaðurinn sem bankarnir rukka fyrir þjónustuna, en þessi hagur er alla jafna ekki mældur.
Fjórða iðnbyltingin er að mestu leyti markaðsdrifin þróun, en við getum ráðið miklu um framvinduna. Stjórnvöld geta með stefnumótun haft mikil áhrif á hana með því að undirbúa nýjar kynslóðir fyrir breytta tíma í gegnum menntakerfið. Auk þess sem atvinnulífið þarf að vera vakandi og stuðla að endurmenntun vinnuaflsins.

Vísbending 17. tbl. 2017

Væntingar á nýju ári

Viðskiptamogginn bauð framkvæmdastjórum hagsmunasamtaka í atvinnulífinu að horfa fram á næsta ár og svara þessari spurningu: Hvað geta stjórnvöld gert á nýju ári til þess að bæta rekstrarumhverfi og samkeppnishæfni fyrirtækja sem tilheyra þínum samtökum?

Samtök verslunar og þjónustu: Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri
„Á undanförnum árum hefur meginmarkmið okkar hjá SVÞ verið að gera rekstrarumhverfi íslenskrar verslunar eins líkt rekstrarumhverfi verslunar annars staðar á Norðurlöndum og kostur er. Með afnámi almennra vörugjalda og afnámi flestra tolla höfum við nálgast þetta markmið mjög. Það er hins vegar enn margt sem skekkir þessa mynd og nægir þar að nefna þá ofurtolla sem enn eru lagðir á algengar tegundir innfluttra landbúnaðarvara og það háa vaxtastig sem fyrirtæki og almenningur býr við. Þá verður íslenska krónan seint talin stöðugur gjaldmiðill og vegna legu landsins mun flutningskostnaður alltaf hafa meiri áhrif á verð vöru hér á landi en í samanburðarlöndunum. Stjórnvöld hafa mismunandi mikla möguleika til að hafa áhrif á þessa þætti. Stóra áskorunin við þær aðstæður sem nú eru uppi í efnahagslífinu er hins vegar tvímælalaust sú, að leita leiða til að koma í veg fyrir frekari styrkingu krónunnar. Við Íslendingar vitum það allra þjóða best að slíkt leiðir til harðrar lendingar fyrr eða síðar. Þó ekki sé hægt að bera þær aðstæður sem nú eru saman við aðstæðurnar fyrir hrun, er ljóst að frekari styrking á gengi krónunnar er ógnun við stöðugleika í efnahagslífinu. Ljóst er að hækkandi raungengi getur leitt til erfiðleika í efnahagsmálum og því er mikilvægtað vinna á móti þenslunni til að koma í veg fyrir of snarpa og djúpa niðursveiflu í kjölfarið.“

Greinin í heild sinni.     Úr  viðskiptablaði Moggans 29.12.2016

Samgöngur í allskonar borg

Blaðagrein birt í Morgunblaðinu 27.12.2016
Höfundur:  Lárus M. K. Ólafsson, lögmaður SVÞ

SVÞ skora því eindregið á borgaryfirvöld að sýna vilja í verki við það að takast á við samgöngumál í borginni með hagsmuni allra að leiðarljósi.

Reykjavík er allskonar borg fyrir allskonar fólk sem býr í allskonar hverfum. Tilvísun þessi er sótt í ítarefni með aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 sem samþykkt var í borgarstjórn hinn 26. nóvember 2013. Þessi stutta tilvísun gefur svo sannarlega fögur fyrirheit um skipulagsmál í sátt allra með heildarhagsmuni íbúa borgarinnar að leiðarljósi, hvort sem það eru heimili eða fyrirtæki, enda er sjálfsögð krafa að útsvarsgreiðendur borgarinnar séu jafnsettir gagnvart sveitarfélaginu.
Hins vegar hafa misvísandi skoðanir í fjölmiðlum undanfarið um samgöngumál Reykjavíkurborgar vakið áleitnar spurningar um forgangsröðun borgarinnar í þeim efnum. Í nýlegri frétt í Morgunblaðinu áréttar vegamálastjóri réttilega að ástand einstakra vegakafla í borginni er mjög slæmt. Gagnrýnir vegamálastjóri framkvæmdaleysi borgarinnar sem hamli um leið alla þátttöku Vegagerðarinnar að úrbótum á vegakerfinu. Það er sannarlega áhyggjuefni að þegar sérfræðistofnun hins opinbera á sviði vegaframkvæmda fellir slíkan áfellisdóm um ástand vega skuli Reykjavíkurborg ekki vinna úr slíkum ábendingum með uppbyggilegum hætti. Í stað þess að nýta sér framkomna gagnrýni vegamálastjóra er honum svarað af fulltrúa Reykjavíkurborgar í frétt næsta dags m.a. undir þeim formerkjum að ferðamenn ráði ekki áherslum á sviði samgöngumála.

Hvort sem það er við ferðamenn að sakast eður ei að umferð hefur aukist er staðreynd að vegakerfi borgarinnar er víðast hvar fyrir löngu sprungið. Langar biðraðir við gatnamót og umferðarteppur eru að verða meginregla frekar en undantekning og því er um að ræða ástand sem ekki er unnt að hunsa til lengri tíma. Bættar almenningssamgöngur og átak af því tagi er jákvæð nálgun á slíkt vandamál en getur aldrei verið hin eina lausn á því ástandi. Í því samhengi benda SVÞ – Samtök verslunar og þjónustu á að fjöldi aðildarfyrirtækja samtakanna grundvallar starfsemi sína á að afhenda vörur ýmsum þjónustuaðilum, s.s. veitingastöðum, stórum sem smáum verslunum, fyrirtækjum og opinberum fyrirtækjum og stofnunum svo dæmi séu tekin. Það er hagsmunamál fyrir þessa aðila og viðskiptavini þeirra að vörur séu afhentar á öruggan og ábyrgan hátt. Hins vegar er það staðreynd að takmörkun borgaryfirvalda á afhendingu, t.a.m. takmarkaðir losunarstaðir og takmarkað aðgengi sökum umferðarálags á vegakerfi, er til þess fallin að hamla verulega starfsemi þessara aðila. Breytingar á almenningssamgöngum munu ekki nýtast þessum aðilum enda verða vörur seint ferjaðar á milli staða með leiðarkerfi almenningsvagna.

Í áðurnefndu aðalskipulagi Reykjavíkurborgar er m.a. lögð áhersla á uppbyggingu miðborgarinnar sem ferðamanna-, veitinga- og verslunarmiðborgar, sem sagt allskonar miðborgar fyrir allskonar fólk. Slík allskonar borg kallar á allskonar þjónustu og aðföng og um leið allskonar lausnir varðandi afhendingu og ferjun á vörum.

Að mati SVÞ er óheppilegt að ekki er tekið tillit til faglegra ábendinga vegamálastjóra sem með ábyrgum hætti vekur athygli á þeim vandkvæðum sem blasa við vegakerfinu í Reykjavíkurborg. Til að standa undir nafni þarf allskonar borgin Reykjavík að mæta þörfum allra en ekki sumra. Bættar almenningssamgöngur munu ekki leysa þau vandamál sem nýjar akreinar geta tekist á við og umbætur í vegakerfi eru því fyrir löngu aðkallandi. SVÞ benda á að það er sérstakt hagsmunamál aðildarfyrirtækja samtakanna að grettistaki verði lyft af hálfu borgarinnar, og Vegagerðarinnar þar sem á við, að leysa úr þeim umferðarrembihnút sem vegakerfið í Reykjavíkurborg er fyrir löngu komið í. SVÞ skora því eindregið á borgaryfirvöld að sýna vilja í verki við það að takast á við samgöngumál í borginni með hagsmuni allra að leiðarljósi.

Blaðagreinin í Morgunblaðinu.

Góðar ábendingar fyrir þá sem eru að versla jólagjafir á síðustu stundu

Íslendingar eru fyrr á ferðinni í ár að kaupa jólafagjafir heldur en áður. Aftur á móti er það  ávallt tiltekinn  hópur Íslendinga sem bíður með að kaupa gjafirnar allt fram á síðustu daga fyrir jól. Ef þú ert einn af þeim sem verður að takast á við jólakaupin þessa  síðustu og erilsömu daga fyrir jól þá eru hér nokkrar ábendingar til að draga úr líkum á að lenda í vandræðum við innkaupin.

Gerðu eins og margir íslenskir neytendur eru farnir að gera, þ.e. athugaðu fyrst verð og úrval á netinu, þannig að þú vitir hvar þú getur fundið gjöfina á sem hagstæðasta verði. Ef þú vilt vera viss um að fá gjöfina afhenta tímanlega, svona skömmu fyrir  fyrir jólin, þá er berst að kaupa hana í  staðbundinni búð enda ekki í öllum tilvikum hægt að tryggja að vara berist með pósti með svo skömmum fyrirvara þó undantekningar kunni þar að vera á. Mundu að athuga hvort að  hægt sé að skipta gjöfinni ef hún fellur ekki að smekk viðtakanda eða sá hin sami hafi fengið nokkur eintök af vörunni.  Það er hægt að skipta í flestum búðum en það á ekki við allar.

Ef þú velur að kaupa gjöf á netinu, til þess að forðast að standa í röð og svitna af stressi í undirfatabúð eða skartgripabúð með öðrum á síðustu mínútum, verður þú að tryggja að það takist að afhenda vöruna tímanlega. Rétt er að ítreka að sífellt fleiri  vefverslanir eru farnar að bjóða upp á sendingu samdægurs.  Athugaða möguleika búðarinnar rækilega hvað varðar sendingar samdægurs.  Margar verslanir hafa bæði staðbundna búð og vefverslun, sem bjóða upp á að þú getur pantað gjöfina fyrst á netinu og síðan sótt hana í búðina.
Verslanir hafa á undanförnum gert mikið til þess að auðvelda þér að gefa gjafir í friði og ró, líka á síðustu dögum fram að jólum. Á þessu ári er meirihluti verslana opin 23. desember og margar jafnvel langt fram á kvöldið.

Ef þú uppgötvar samt á aðfangadagsmorgni að þú þarft eina gjöf eða tvær, þá eru ýmsir valkostir sem standa þér til boða. Hvernig væri að gefa upplifun í formi gjafabréfa? Þessi bréf er hægt að kaupa og prenta út á heimilinu.
Ingvar Freyr Ingvarsson, hagfræðingur SVÞ

SVÞ og Neytendasamtökin gagnrýna matvælaeftirlit MAST

Fréttatilkynning send til fjölmiðla 5.12.2016
Í kjölfar fréttaumfjöllunar um eftirlit Matvælastofnunar (MAST) með tilteknum eggjaframleiðanda, þar sem sú starfsemi stóðst ekki þær kröfur sem gerðar eru til hennar s.s. hvað varðar aðbúnað dýra og villandi upplýsingar, er ljóst að stofnunin brást alfarið eftirlitshlutverki sínu. Þrátt fyrir að starfsemin hafi verið til skoðunar hjá MAST í tæp tíu ár og aðfinnslur hafi verið gerðar við þá starfsemi var hvorki verslun né neytendum veittar upplýsingar um þá meinbugi sem nú hafa komið í ljós.

Með þögn sinni um málið hefur MAST vegið alvarlega að hagsmunum verslana og neytenda sem í skjóli núverandi fyrirkomulags treysta á faglega starfsemi þeirra aðila sem lögum samkvæmt hefur verið falið eftirlit með matvælaframleiðslu. Á meðan engar athugasemdir berast frá eftirlitsaðila um tiltekna starfsemi eru verslun og neytendur því í góðri trú um að þau matvæli standist allar þær kröfur sem gerðar eru til hennar. Ítrekast einnig að upplýsingar um framleiðslu matvæla eru mikilvægur þáttur í upplýstu vali neytenda á matvælum sem og hvaða vörur verslun er tilbúin að hafa á boðstólum.

Umfjöllun undanfarið hefur orðið til þess fallin að vekja upp áleitnar spurningar um matvælaeftirlit MAST og það traust sem á að ríkja um eftirlitsstarfsemi stofnunarinnar. Þá er gagnrýnisvert að hagsmunir innlendrar matvælaframleiðslu hafi alfarið vikið til hliðar hagsmunum neytenda og verslana af því að fá upplýsingar um eftirlitsskylda starfsemi og þær vörur sem frá þeirri starfsemi berast. Að óbreyttu er nú uppi viðvarandi brestur í trausti hagsmunaaðila hvað varðar eftirlit með matvælaframleiðslu, sér í lagi þar sem MAST hefur heimilað afhendingu á matvælum til verslana og neytenda þrátt fyrir að búa yfir upplýsingum um margvísleg brot gegn löggjöf um matvæli og aðbúnað dýra.

Í ljósi þessa hafa Neytendasamtökin og SVÞ – Samtök verslunar og þjónustu sent sameiginlegt erindi á MAST þar sem óskað er upplýsinga frá stofnuninni um öll alvarleg frávik í innlendri eftirlitsskyldri matvælaframleiðslu sem hún hefur gert athugasemdir við í eftirlitsstörfum sínum. Er óskað eftir upplýsingum aftur til 1. janúar 2008. Telja Neytendasamtökin og SVÞ mikilvægt að afla þessara gagna enda hefur umfjöllun um eftirlit MAST leitt í ljós að réttur almennings til upplýsinga er verulega takmarkaður er viðkemur matvælaframleiðslu og frávikum frá kröfum sem gera verður til slíkrar framleiðslu.

Fréttatilkynning á pdf sniði.