06/12/2019 | Fréttir, Greinar, Menntun, Samtök sjálfstæðra skóla
Sara Dögg Svanhildardóttir, formaður Samtaka sjálfstæðra skóla, skrifar á Vísi fimmtudaginn 5. desember sl.
Niðurstöður í alþjóðlegu Pisa-könnuninni valda vonbrigðum. Enn á ný vefst lesskilningur, túlkun og ályktunarhæfni fyrir íslenskum nemendum. Skýringa er leitað og nefnt að ekki sé farið nógu djúpt í viðfangsefnin í skólanum; skólakerfið svamli um á yfirborðinu. Er það kannski svo að kerfið sjálft sé statt á endastöð einhvers konar sjálfskapaðrar tilvistarkreppu? Niðurnjörvað í úreltum kjarasamningum fortíðar, sem eru fyrir óralöngu hættir að ríma við nútímann? Mæling kennslustunda upp á mínútur hér og þar virðist upphaf og endir allra kjarasamninga. Ekkert flæði, ekkert svigrúm, engin nýsköpun í uppbyggingu skólanna. Allir skulu mótast í nákvæmlega sama mót. Allir grunnskólar á Íslandi, alls staðar, bjóða upp á allt eins.
Þessi lýsing er mögulega nokkuð harðorð í garð kerfisins en það er full ástæða til að taka djúpt í árinni. Við hjá Samtökum sjálfstæðra skóla höfum talað fyrir sveigjanleika, nýsköpun og frelsi til athafna og á okkur hafa sumir viljað hlusta en svo sannarlega ekki allir. Sjálfstæðir skólar þykja með einhverjum óskiljanlegum hætti ógna kerfinu. Þessu svifaseina kerfi, sem virðist að mörgu leiti komið í þrot.
Við hjá Samtökum sjálfstæðra skóla teljum mikilvægt að búa við fjölbreytta skóla. Skóla sem þora að fara út fyrir hefðbundinn ramma og gefa þannig foreldrum meira vald til ákvarðana. Raunverulegt val um hvað hentar börnum þeirra best hverju sinni. Í skólakerfinu, rétt eins og annars staðar, hentar ekki öllum að vera felldir í sama mótið. Sjálfstæðir skólar hafa annars konar nálgun á menntun en hefðbundna skólakerfið. Sjálfstæðir skólar hafa sýnt frumkvæði og getu til breytinga og sýna það og sanna að nýsköpun og drifkraftur skiptir máli fyrir alla. Kennara jafnt sem nemendur. Og það er lykilfólkið í menntakerfinu, þegar öllu er á botninn hvolft. Grundvallaratriði er að nemendum farnist vel og að kennurum sé skapað rými og tími til athafna. Sjálfstæðir skólar á Íslandi eru afar fáir og miklu færri en þeir ættu að vera. Aðeins rúm 2% grunnskóla hér á landi eru sjálfstætt starfandi skólar, en svo lágt hlutfall er hvergi að finna í nágrannalöndum okkar, þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við og þar sem útkoman í Pisa-könnunum telst góð.
Sjálfstæðir skólar á Íslandi eru fámennir, faglegir og framsæknir. Allt gríðarlegir kostir þegar kemur að því að ná til allra nemenda, hafa yfirsýn og veita hefðbundna kerfinu einhvers konar viðmið eða samanburð. Sjálfstæðir skólar eru hvatning til annarra að fara nýjar leiðir til að breyta kerfinu til batnaðar og rjúfa vítahring endurtekninga.
Við þurfum fjölbreytni og frelsi svo foreldrar geti tekið upplýsta og meðvitaða ákvörðun um skólaval. En ekki síður til þess að kennarar hafi val um ólíkt starfsumhverfi og geti hrist af sér þann doða sem getur svo auðveldlega skapast í kerfi sem er ætlað að vera eins fyrir alla.
Af hverju eru enn svo fáir sjálfstætt starfandi skólar? Við hvað erum við hrædd? Varla óttumst við lélega útkomu í Pisa-könnunum? Væri ekki nær að viðurkenna að við þurfum að rétta þá skekkju í skólakerfinu, sem veldur því að nemendur ná ekki allir að blómstra? Sjálfstæðir skólar geta uppfyllt þarfir þeirra, sem finna sig ekki í hefðbundnu skólakerfi. Og hver veit nema niðurstöður í Pisa-könnunum færu þá batnandi.
11/11/2019 | Fréttir, Greinar, Samtök heilbrigðisfyrirtækja, Stjórnvöld
Í grein sem birtist á Vísi í dag lýsa forsvarsmenn fimm félaga í heilbrigðisþjónustu yfir vantrausti á núverandi kerfi við kaup ríkisins á heilbrigðisþjónustu og krefjast þess að stjórnvöld grípi inní áður en varanlegar skemmdir verða á mikilvægum lykilþáttum heilbrigðisþjónustu landsmanna.
Í nýrri úttekt KPMG kemur fram að verulegar brotalamir eru á núverandi kerfi sem geta haft mjög alvarlegar afleiðingar fyrir þjónustuveitanda og þjónustuþega. Ennfremur segja greinarhöfundar að Sjúkratryggingar Íslands valdi ekki núverandi hlutverki sínu og séu engan veginn í stakk búnar til að taka við innkaupum á allri heilbrigðisþjónustu, líkt og fyrirhugað er skv. núverandi heilbrigðisstefnu.
Greinina í heild sinni má lesa hér á vefnum visir.is.
Greinina skrifa:
Elín Sigurgeirsdóttir, f.v. formaður Tannlæknafélags Íslands
Eybjörg Hauksdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu
Haraldur Sæmundsson, formaður samninganefndar sjálfstætt starfandi sjúkraþjálfara
Jón Gauti Jónsson, formaður Samtaka heilbrigðisfyrirtækja
Þórarinn Guðnason, formaður Læknafélags Reykjavíkur
07/10/2019 | Fréttir, Greinar, Í fjölmiðlum
Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri SVÞ, skrifar á visir.is þann 7. október:
Netviðskipti, hið nýja form viðskipta, vex hröðum skrefum hvarvetna í heiminum. Við Íslendingar förum ekki varhluta af þessari þróun, enn sífellt stærri hluti íslenskra neytenda kýs að gera viðskipti sín með þessum hætti. Í þessum viðskiptum er heimurinn allur eitt markaðssvæði, þar sem stór og þekkt alþjóðleg fyrirtæki á borð við Amazon og Alibaba, ná síaukinni markaðshlutdeild. Að sama skapi eiga þau fyrirtæki sem einkum starfa á heimamarkaði, undir högg að sækja í samkeppninni við hina stóru alþjóðlegu risa. Sú samkeppni mun að öllum líkindum aukast verulega á komandi árum.
Margir hafa áhyggjur af þessari þróun og óttast að hið mikla samkeppnisforskot sem hin stóru alþjóðlegu fyrirtæki hafa náð, komi til með að raska eðlilegri samkeppni. Slíkt muni á endanum koma niður á neytendum og eru það vissulega skiljanlegar áhyggjur.
Það eru lítil sem engin takmörk á því hvaða vöru eða þjónustu hægt er að eiga viðskipti með á netinu. Hin vinsæla neysluvara, áfengi, er hér engin undantekning og fer sá hópur fólks sífellt stækkandi sem gerir innkaup sín á áfengi með þessum hætti.
Samkeppnisstaða þeirra sem vilja selja íslenskum neytendum áfengi á netinu getur engan veginn talist jöfn. Eins og staðan er núna, er það einungis ríkisfyrirtækið Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins af innlendum fyrirtækjum, sem hefur heimild til slíks. Fyrir utan ÁTVR eru það erlendar netverslanir sem einar hafa möguleika á að selja íslenskum neytendum áfengi með þessum hætti. Dómsmálaráðherra hefur nú boðað að hún muni leggja fram frumvarp seinna í vetur, sem breyta mun þessu kerfi á þann veg, að innlendar netverslanir hafi heimild til netsölu með áfengi til jafns við erlendar. Sú breyting mun væntanlega bæta samkeppnisstöðu innlendrar netverslunar að einhverju marki.
Það voru nokkrir sem stigu fram og lýstu andstöðu sinni við þessar breytingar af ótta við skaðvænlegar afleiðingar þeirra fyrir lýðheilsu þjóðarinnar. Erfitt er að koma auga á rökin fyrir slíku, þar sem hugsanleg áhrif á lýðheilsu yrðu þau sömu, hvort sem áfengið væri keypt í netverslun ÁTVR eða sambærilegri innlendri verslun sem ekki væri rekin af hinu opinbera.
24/09/2019 | Fréttir, Greinar, Greining, Verslun, Þjónusta
Starfsfólk SVÞ rakst á dögunum á einkar áhugaverða skýrslu sem gefin var út af Euromonitor og fjallar um helstu strauma hvað varðar neytendahegðun á árinu 2019. Þó nú sé vel liðið á árið eiga þeir þó ennþá vel við svo ég ákvað að stikla á stóru í þessum greinarstúf með grófri þýðingu á helstu þáttum skýrslunnar og deila svo skýrslunni í heild sinni með félagsmönnum inni í lokaða Facebook hópnum okkar.*
Í skýrslunni benda höfundarnir, Alison Angus og Gina Westbrook, á tíu atriði sem hafa áhrif og munu halda áfram að hafa áhrif og farið er stuttlega farið yfir hér fyrir neðan:
Aldur skiptir ekki máli (e. Age agnostic)
Við erum aldurslaus. Aldur er afstæður. Fólk heldur ekki lengur í gamlar hugmyndir um aldur heldur tengjumst við hvort öðru, sama á hvaða aldri við erum. Lykillinn að því að ná til viðskiptavina og halda tryggð þeirra er að bjóða vörur og þjónustu sem henta öllum aldri, þrátt fyrir að vera hannaðar með eldra fólk í huga. Það sem skiptir fólk máli sem fætt er á áratugunum eftir seinna stríð (e. baby boomers) er mun líkara því sem skiptir þúsaldarkynslóðina og yngra fólk máli heldur en við gerum okkur oft grein fyrir. Við þurfum að skilja þetta hugarfar betur og sníða vörur, þjónustu og markaðssamskipti að því. Það sem skiptir máli er að hugsa vel um sjálfan sig og njóta lífsins. Það sem skiptir máli er jafnvægið á milli hins andlega og hins líkamlega.
Minna er meira sem stöðutákn (e. Back to basics for status)
Við viljum sýna að við séum einlæg og ekta. Neytendur eru að leita að vörum sem eru ekta og öðruvísi og upplifun sem gerir þeim kleift að tjá persónuleika sinn. Neytendur í þróuðum hagkerfum eru að endurmeta hvernig þeir eyða peningunum sínum og færast frá neysluhyggju yfir í einfaldleika, einlægni og þörf fyrir að endurspegla sérstöðu sína sem einstaklings. Eftir því sem vaxandi markaðir þróast er líklegt að við sjáum samskonar breytingu þar: Neytendur verða leiðir á almennum vörum og vilja fá meiri gæði, vörur sem eru einstakar og öðruvísi og gefa ákveðna samfélagsstöðu til kynna.
Meðvitaðir neytendur (e. Conscious consumer)
Við viljum vera meðvituð. Hinir meðvituðu neytendur dagsins í dag eru sveigjanlegir og velja það sem hentar stað og stund. Þar sem áður fyrr voru lítil sérfyrirtæki sem tileinkuðu sér samfélagslega ábyrgð sækja nú hefðbundin fyrirtæki á með því að gera vörur, sem þegar eru á markaði, sjálfbærari. Meðvitaðir neytendur eru áhrifamiklir og munu hafa sífellt meiri áhrif á aðra.
Dýraverndunarsjónarmið munu þróast ferkar og hafa áhrif á fleiri sviðum en í mat, fegurð og tísku. Við munum sjá dýravernd skipta máli í vörum eins og heimilisvörum, húsgögnum, gæludýrafóðri o.s.frv. Markaðurinn gerir sífellt meiri kröfur um ábyrgð og ætlast til þess að vörur sem við notum dags daglega verði sífellt ábyrgari hvað varðar dýravernd.
Stafræn samvera (e. Digitally together)
Við getum raunverulega verið saman – á stafrænan hátt. Útbreiðsla háhraða nettengingar, sérstaklega farsímatenginga, er drifkrafturinn á bakvið gagnvirka upplifun á netinu og rauntíma samvinnu. Hvort sem um ræðir stefnumót eða menntun, þá höfum við vanist raunverulegum samskiptum á netinu. Eftir því sem tæknileg færni okkar verður meiri og eftir því sem okkur finnst þægilegra að nota tæknina, því meira munum við geta gert saman á stafrænan hátt.
Eftir því sem við verðum vanari því að deila hlutum á netinu; vinum okkar, staðsetningu, því sem við erum að gera, því meira munu stafrænar samskiptaleiðir þróast. Eftir því sem tæknileg geta okkar eykst og okkur finnst þægilegra að nota tæknina, því meira aukast möguleikarnir á því sem við getum skapað og upplifað saman þrátt fyrir að vera ekki á sama stað.
Allir eru sérfræðingar (e. Everyone’s an expert)
Við verðum sífellt upplýstari. Völdin eru að færast frá smásölum og til neytenda. Áður treystu viðskiptavinir á ákveðin vörumerki eða ákveðnar upplýsingarveitur í leit að því sem þeir vildu, en í dag verða fyrirtæki sífellt að koma með eitthvað nýtt, lækka verð, straumlínulaga og bæta útlit vara og þjónustu til að laða að viðskiptavini.
Kjarninn í þessari þróun er næstum því áráttukennd þörf neytenda til að nálgast og deila upplýsingum á stafrænan hátt. Eftir því sem netverslun í heiminum eykst munu allir geirar þurfa að aðlaga sig að kröfum neytenda um að fyrirtæki séu með á nótunum.
Að finna gleðina í að missa af hlutunum (e. Finding my JOMO)
Við viljum vera meðvituð um það sem við gerum. Hræðslan við að missa af (e. FOMO eða fear of missing out) víkur nú fyrir því að eignast tíma okkar aftur þegar við finnum gleðina í því að missa af hlutunum (e. JOMO eða the joy of missing out). Til að vernda andlega heilsu vill fólk vera meðvitaðra um hvernig það notar tímann sinn, setja mörk og vera vandlátara á það sem það gerir. Á heimsvísu finnur þúsaldarkynslóðin meiri þörf fyrir að efla sig á þennan hátt en aðrar kynslóðir. Skipulagður tími þar sem fólk aftengir sig, gefur sér frelsi til að hugsa og gera hluti sem þau virkilega vilja og njóta þess að gera. Á mörkuðum í þróun þar sem fólk reiðir sig sífellt meira á netið mun það orsaka aukna streitu, sérstaklega eftir því sem nettenging verður sífellt nauðsynlegri fyrir grundvallarþjónustu.
Ég get séð um mig sjálf(ur) (e. I can look after myself)
Við erum sífellt að verða meira sjálfum okkur næg. Kjarninn í þessari þróun er allt það sem fólk getur gert til að koma í veg fyrir veikindi, óhamingju og óþægindi án þess að þurfa á aðstoð fagfólks að halda. Fólk nýtir smáforrit og sérsniðnar þjónustu án þess að þurfa sífellt að vera á samfélagsmiðlum eða fylgjast með ímyndamarkaðssetningu fyrirtækja. Að geta séð um sjálfa(n) sig á þennan hátt er álitinn lúxus sem gerir fólki kleift að vera fjölhæfara og auka möguleika þeirra í lífinu. Með því að ráða lífi þínu, hanna það og sérsníða það á þann hátt sem þú vilt hefurðu meiri sveigjanleika.
Ég vil plastlausan heim (e. I want a plastic free world)
Við viljum hafa áhrif á heiminn okkar. Óskir fólks um plastlausan heim hafa haldið áfram að vaxa og munu halda áfram að vaxa. Plast mengar umhverfið og fólk er farið að skoða vandlega endingu plastpakkninga. Neytendur munu í sífellt meira mæli nota veskið til að mótmæla óábyrgri plastnoktun, sem getur leitt til jákvæðra áhrifa í ýmsum iðnaði sem aukið getur sjálfbærni sína, s.s. í mat, drykk, fegurðar- og hreinlætisvörum o.fl.
Ég vil fá þetta núna! (e. I want it now)
Við viljum að hlutirnir gerist strax. Skilvirkni skiptir sífellt meira máli. Neytendur vilja upplifanir án núnings eða árekstra, upplifanir sem henta lífstíl þeirra og gera þeim kleift að eyða meiri tíma í störf og félagslíf. Helsta áhyggjuefnið er meðferð notendaupplýsinga og aðgangur fyrirtækja að þeim upplýsingum. Traust almennings á því að vel sé farið með þennan upplýsingaaðgang og að hann sé notaður á ábyrgan hátt verður það sem sker úr um hversu lengi þessi þróun heldur áfram.
Einfaralíf (e. Loner living)
Við höfum aldrei verið eins mikið ein. Einbúum fjölgar á heimsvísu og það verður algengasta fyrirkomulagið á næstu árum. Búist er við að stór hluti þeirra sem koma til með að búa einir séu og verði fólk fætt á áratugunum eftir seinna stríð (e. Baby boomers). Margir af yngri kynslóðum hafa hafnað hjónabandi og sambúð algjörlega. Þetta er tilhneiging sem virðist ætla að halda áfram með næstu kynslóðum. Um allan heim þykir ekki lengur slæmt að búa ein(n) heldur nýtur fólk sjálfstæðs lífstíls og einfaralífsins. Skv. Pew Research Center er gert ráð fyrir að þegar ungt fólk í Bandaríkjunum í dag verður fimmtugt muni fjórðungur þeirra hafa verið einhleyp allt sitt líf.
* Til að fá aðgang að hópnum þarftu sækja um og svara nokkrum laufléttum spurningum svo við getum sannreynt að þú starfir hjá aðildarfyrirtæki í SVÞ. Við hlökkum til að sjá þig í hópnum!
Þóranna K. Jónsdóttir
Markaðs- og kynningarstjóri SVÞ
05/09/2019 | Fréttir, Greinar, Í fjölmiðlum, Menntun
Jón Ólafur Halldórsson, formaður SVÞ, skrifar í Morgunblaðið:
Samtök verslunar og þjónustu hafa undanfarin misseri lagt mikla áherslu á mikilvægi menntunar í því skyni að efla veg þeirra starfa sem unnin eru í verslunar– og þjónustufyrirtækjum. Menntun hefur gríðarlega miklu hlutverki að gegna þegar horft er til þeirra öru breytinga sem eru nú að eiga sér stað í öllum störfum, ekki síst störfum í verslun og þjónustu. Hin stafræna bylting hefur þegar haft umtalsverð áhrif á störf í þessum atvinnugreinum og þau áhrif munu aðeins aukast á næstu árum.
Ný námslína við Verzlunarskóla Íslands, unnin í samstarfi við SVÞ, er því mikið fagnaðarefni. Markmið námsins er að koma til móts við nýjar þarfir fyrirtækja í verslun og þjónustu. Þarfir sem lúta með beinum hætti að þeirri stafrænu byltingu sem er að eiga sér stað. Netverslun og -þjónusta eykst hröðum skrefum og upp er að vaxa kynslóð sem mun sækja meirihluta sinnar verslunar og þjónustu á netið. Í kjölfarið tekur umhverfi starfsfólks stórstígum breytingum og því skiptir öllu máli að sú hæfni sem nýr veruleiki krefst sé byggð upp með góðri menntun.
Þessari áskorun hafa SVÞ ákveðið að mæta með samstarfi við Verzlunarskóla Íslands. Nú í haust bauðst nýnemum að hefja nám á nýrri stafrænni viðskiptalínu. Eftirspurn eftir náminu fór fram úr björtustu vonum og komust mun færri að en vildu. Verslunar- og þjónustufyrirtæki munu gegna lykilhlutverki við framkvæmd og þróun námsins, annars vegar með því að miðla af eigin reynslu við innleiðingu stafrænna lausna innan fyrirtækjanna og hins vegar með því að vera leiðbeinendur og bjóða upp á vinnustaðanám fyrir ungmenni á þessari nýju námslínu við Verzlunarskólann.
Það eru mikil tímamót, nú þegar fyrsti nemendahópurinn leggur af stað í þessa vegferð. SVÞ væntir mikils af samstarfinu við Verzlunarskólann og munu vinna ötullega með skólanum að þróun námsins. Það er trú samtakanna að námið muni skila af sér öflugu fólki sem verður í stakk búið til takast á við krefjandi viðfangsefni í nýju og breyttu starfsumhverfi verslunar- og þjónustufyrirtækja.
02/09/2019 | Fréttir, Greinar, Í fjölmiðlum, Umhverfismál
Ingvar Freyr Ingvarsson aðalhagfræðingur og Benedikt S. Benediktsson lögfræðingur Samtaka verslunar og þjónustu, skrifa í Viðskiptablaðið 29. ágúst:
Ríkisstjórnin hefur gefið út metnaðarfullar yfirlýsingar í loftslagsmálum. Við höfum fyrir löngu spilað út okkar helsta trompi; orkuframleiðsla á Íslandi er að langmestu leyti sjálfbær. Við þurfum því að takast á við flóknar áskoranir til að draga úr losun. Í því liggja hins vegar jafnframt tækifæri því við munum þurfa að skapa og vinna með lausnir sem önnur ríki þurfa hugsanlega ekki að leggja jafn ríka áherslu á næstu ár. Haldi menn rétt á spilunum geta Íslendingar orðið nk. fyrirmyndarríki og slík ásýnd eykur seljanleika vöru og þjónustu frá Íslandi. Snemmbærar fjárfestingar í losunarsamdrætti draga úr framtíðaráhættu vegna kostnaðarhækkana. Undir þessum kringumstæðu þurfa bæði stjórnvöld og einkaaðilar að koma auga á tækifærin og nýta þau til hins ýtrasta.
Yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar tengjast skuldbindingum á vettvangi Parísarsamkomulagsins. Efasemdum hefur verið lýst um niðurstöður loftslagsráðstefnu SÞ árið 2015. Um þessar mundir hafa komið fram upplýsingar sem sýna að losun koltvísýrings heldur áfram að aukast þrátt fyrir tilvist samkomulagsins. Margir eru þó þeirrar skoðunar að árangur ráðstefnunnar sé meiri en menn gátu vonast eftir. Þeim fer einnig fjölgandi sem telja að það hefði verið æskilegt að ganga mun lengra en gert var. Hvað sem öðru líður er ljóst að árangurinn er m.a. háður því hvernig aðilar Parísarsamkomulagsins haga sér næstu missiri og ár.
Vísbendingar eru um að Parísarsamkomulagið hafi hið minnsta vakið menn til umhugsunar og skapað baráttunni gegn hlýnun jarðar nýjan farveg. Þó að með samkomulaginu hafi aðildarríkin sett sér töluleg markmið verður árangur a.m.k. fyrst um sinn helst mældur í skilgreindum aðgerðum sem aðildarríkin boða. Aðilar samkomulagsins hafa verið meðvitaðir um að þetta er langhlaup en ekki spretthlaup og því er aðildarríkjunum gert að endurmeta gerðar áætlanir fimm ára fresti auk þess sem upplýsingagjöf og eftirlit verður gegnsærra en áður hefur tíðkast. Líkur eru á að samanburður verði í því ljósi einfaldari og aðgengilegri.
Óhjákvæmilega krefst metnaður í loftslagsmálum þess að áætlanir einstakra ríkja séu verði skjótvirkar. Fjölmörg ríki stefna að góðum árangri hverjar svo sem heimturnar verða. Ætla verður að þær aðgerðir sem ráðist verður í muni með einhverjum hætti kalla á breytta hegðun fyrirtækja og einstaklinga.
Virðismat fyrirtækja er m.a. háð þróun rekstrarkostnaðar. Stjórnendur fyrirtækja sem standa í virkri samkeppni hafa það viðvarandi verkefni að lækka slíkan kostnað m.a. með upptöku nýrra rekstraraðferða og nýrra tæknilausna.
Til dæmis standa stjórnendur fyrirtækja sem reiða sig á notkun ökutækja frammi fyrir því að leggja mat á rekstrarkostnað þeirra yfir áætlaðan notkunar- eða líftíma. Efnahagslegir hvatar til orkuskipta í samgöngum eiga að stuðla að því að matið verði nýorkuökutækjum hagfellt. Ábati fyrirtækjanna gefur til kynna það verð sem fyrirtækið greiðir beinlínis fyrir losun. Til viðbótar kann að koma sá ábáti sem hlýst af góðu orðspori.
Kostnaður við losun í fluggeiranum endurspeglast í kostnaði vegna kaupa á ETS losunarheimildum og sama á við um önnur fyrirtæki sem eru háð slíkum kaupum. Flugfélög draga m.a. úr rekstrarkostnaði með því að draga úr eldsneytisnotkun. Verðið sem þau greiða fyrir losun endurspeglast í rekstrarhagræðinu sem þau ná fram annars vegar með minni eldsneytiskaupum og hins vegar sparnaði vegna minni þarfar fyrir losunarheimildir. Í mörgum tilvikum er losunarkostnaður hins vegar óljós til skemmri og lengri tíma litið enda eru loftslagsaðgerðir stjórnvalda enn í mörgu tilliti ófullburða. Þetta á t.d. við í tilviki margra fyrirtæki í orkuiðnaði.
Þessi fyrirtæki standa þannig frammi fyrir nokkrum vanda annars vegar þegar þau vinna rekstraráætlanir og hins vegar þegar þau taka ákvarðanir um fjárfestingar sem eiga að nýtast í meðallangan eða langan tíma. Ákveðin hætta er á að loftslagskostnaður verði þar með látinn liggja á milli hluta. Sterkar líkur eru á að þær aðgerðir sem ráðist verður í því skyni að draga úr losun í starfsemi fyrirtækja muni til framtíðar litið hafa áhrif á afkomu og eignaverð. Skyndilegar loftslagsaðgerðir geta því haft veruleg áhrif á horfur í rekstri fyrirtækja auk þess sem verðlækkun eigna kann að draga úr lánshæfi. Skyndileg áhrif loftslagsaðgerða geta því haft leitt til lakari efnahags- og fjármálastöðugleika.
Í framangreindu ljósi er nauðsynlegt að tryggja að stjórnendur og fjárfestar hafi tök á að taka tillit til loftslagsáhættu. Öðrum kosti geta þeir ekki baktryggt fyrir mögulegum áföllum. Óvissan kann þannig að leiða til lakari viðskiptakjara fyrirtækjanna. Skilvirk loftslagsstefna er helsta tækið sem stjórnvöld geta beitt til að draga úr loftslagsáhættu. Verði of seint í taumana gripið er hætt við að samfélagslegur kostnaður aukist. Því meira sem það dregst að stefnan liggi fyrir því meira eykst hættan á harðri aðlögun. Liggi loftslagsstefna fyrir snemma þannig að unnt verði að grípa til aðgerða fyrr en ella eykst hagkvæmni og fyrirsjáanleiki. Það kemur öllum til góða.
Markaðstengd stjórntæki hafa þótt ákjósanlegur kostur í loftslagsmálum. Með þeim er leitast við að fella kostnað vegna losunar inn í beinan kostnað við framleiðslu eða þjónustu sem veldur losun. Samfélagsleg áhrif losunar eru m.ö.o. verðlögð og sá sem losar ber þannig fjárhagslega ábyrgð henni sem aftur endurspeglast í verði sem kaupendur vara og þjónustu greiða. Með þessu móti er skapaður fjárhagslegur hvati fyrir fyrirtæki og neytendur til að velja loftslagsvænar lausnir. Þá aukast líkur á að ráðist verði í þær mótvægisaðgerðir sem skila mestum árangri. Stjórntækin geta því dregið úr heildarkostnaði mótvægisaðgerða, stýrt fjármagni í loftslagsvænar tækninýjungar og stuðlað að því að ríkisstjórnin standi við metnaðarfullar yfirlýsingar. Þegar horft er til þess hve mikil áhrif loftslagsbreytingar geta haft á samfélagið er ljóst að stjórntækin eru gríðarlega mikilvæg.
Eitt af mikilvægustu verkefnum fjármálamarkaðarins er að meta áhættu. Svo unnt sé að leggja raunhæft mat á loftslagsáhættu þurfa bestu mögulegu upplýsingar að liggja fyrir. Tilvist slíkra upplýsinga er því veruleg forsenda réttra ákvarðana. Án þeirra ríkir óvissa um kostnaðaráhrif losunaraukningar eða -samdráttar á rekstur og eignir. Þar með er hætt við að mat á félags- og efnahagslegri arðsemi verði skeikult. Engin er betur í stakk búin til að veita upplýsingarnar en stjórnvöld.