04/11/2024 | Bílgreinasambandið, Fréttatilkynningar, Fréttir, Í fjölmiðlum
Á næstu einni til tveimur vikum ætlar Alþingi að fá lagagildi fjárlagafrumvarpi 2025 ásamt fylgitunglum.
Meðal fylgitunglanna er frumvarp fjármála- og efnahagsráðherra til laga um kílómetragjald, 7 milljarða
kr., skattahækkunarjólapakki fyrir næsta ár og tugmilljarða skattapakki til jóla næstu ára.
Jólagjöfin er kynnt undir formerkjum nokkurs konar dyggðar. Með hana eiga þegnarnir að vera
ánægðir þar sem henni er ætlað að leiða til jafnræðis, allir borgi. Gjöfin er svo skreytt með borða, u.þ.b.
100% hækkun kolefnisgjalds.
Máttlaus önd
Ríkisstjórnin er starfsstjórn eftir að einn stjórnarflokkanna boðaði skilnað í vor, annar ákvað að þá réttast að slíta sambandinu strax og var
í kjölfarið kallaður svikari. Þriðja flokknum finnst þetta vandræðalegt. Sumir ráðherrar skilnaðarstjórnarinnar gegna enn hlutverki sem embættismenn en eru sem slíkir
ekki í pólitísku hlutverki. Aðrir eruað gera eitthvað allt annað. Erlendis eru starfsstjórnir á ensku nefndar lame duck, máttlaus önd. Upprunalega voru orðin notuð til að lýsa önd sem getur ekki
haldið í við andahópinn og verður af þeim sökum skotspónn ránfugla. Seinna meir voru orðin notuð til að lýsa ógjaldfærum fyrirtækjum og einstaklingum. Á síðari tímum hafa orðin
máttlaus önd verið notuð til að lýsa því pólitíska samhengi þegar þing eða ríkisstjórn missa mátt sinn, t.d. í aðdraganda kosninga.
Er sælla að gefa en þiggja?
Skammur tími er frá því að drög að jólagjöfinni voru kynnt og enn skemmra síðan hún var afhent Alþingi til útdeilingar. Nú er orðið ljóst
að hún er til allra þegnanna. Jólagjöfin leiðir til þess að fyrirtæki sem annast flutning á fiski, matvöru, heyrúlluplasti, skepnufóðri og iðnaðarvöru munu þurfa að huga að því hvernig þau geta mætt 8-10% hækkun
rekstrarkostnaðar á næsta ári og sennilega um 15% hækkun árið 2027. Til viðbótar munu fyrirtækin standa frammi fyrir sambærilegri áskorun vegna hækkandi rekstrarkostnaðar eigin véla og tækja ásamt auknum rekstrarkostnaði þeirra sem veita fyrirtækjunum þjónustu. Skreyting gjafarinnar ber hins vegar vott um glamúr. Hver vill ekki að rekstrarkostnaður strandsiglinga hækki í ofanálag líka fyrst menn eru á annað borð byrjaðir að gefa? Í því samhengi er best af öllu að sú hækkun kemur til viðbótar sambærilegum álögum frá ESB. Gjöf sem heldur áfram að gefa. Allir vita að kostnaðarhækkanir leiðast í ríkum mæli út í verðlagningu. Hækkandi verðlagning hækkar
verðlag, m.a. verðlag á mat og öðrum nauðsynjum. En sanngirni er dyggð er það ekki?
Hangið kjöt
Þegar fjármála- og efnahagsráðherra kynnti jólagjöfina fyrir Alþingi gaf hann til kynna að hún gæti lækkað húsnæðisreikninga allra. Þunnu
hljóði muldraði hann hins vegar að hann vissi ekki alveg hvernig Hagstofan mundi bregðast við. Nú eru viðbrögðin komin í ljós því Hagstofan skaut öndina og nú hangir
hún til meyrnunar. Andfætlingar raunhagkerfisins á fjármálamarkaði andvörpuðu. Alþingi ætlar að ljúka afgreiðslu fjárlagafrumvarpsins og fylgihnatta
um miðjan nóvember. Samkvæmt orðum sem hafa fallið í viðtölum verður unnið eftir þeirri meginreglu að afgreiða málin eins og þau eru lögð fram.
Koma jólin?
Þingmenn geta varla beðið eftir að losna við þingstörfin, komast á kosningaferðalag og halda svo jólin. Þeir mega þó ekki gleyma því að
þeirra hlutverki er ekki lokið því það er m.a. þeirra að passa upp á að jólapakkarnir innihaldi raunverulegar gjafir og en ekki kartöflur og
ýsubein. Undir þessum kringumstæðum vil ég segja við þingmenn: Við vitum að þið eruð í spreng en þetta er
ekki rétti tíminn til að segja „þetta reddast“.
Benedikt S. Benediktsson
Höfundur er framkvæmdastjóri SVÞ
– Samtaka verslunar og þjónustu
25/10/2024 | Bílgreinasambandið, Fréttir, Greinar, Í fjölmiðlum, Umhverfismál
Nýtt kílómetragjald þrengir að grænum skrefum fyrirtækja og heimila, þrátt fyrir yfirlýst loftslagsmarkmið stjórnvalda
Í nýju frumvarpi um kílómetragjald er stefnt að því að allir notendur vegakerfisins leggi til jafns í ríkissjóð eftir því sem þeir aka. Þótt markmið frumvarpsins sé að tryggja sanngirni, mun nýtt gjald sennilega auka kostnað grænni samgangna og í raun refsa þeim sem hafa þegar fjárfest í umhverfisvænum ökutækjum. Þeir sem áður treystu á fyrri hvata stjórnvalda til að skipta yfir í rafmagns- eða sparneytna bíla standa nú frammi fyrir verulega auknum álögum, á meðan kostnaður við rekstur eyðslufrekari ökutækja lækkar. Á sama tíma munu hækkanir einnig falla á ýmsar atvinnugreinar utan vegakerfisins, sem í ljósi aukins skattburðar gætu átt í erfiðleikum með að halda uppi sömu samkeppnisstöðu og lífskjörum.
Morgunblaðið birtir í dag grein frá Maríu Jónu Magnúsdóttur, framkvæmdastjóra Bílgreinasambandsins og Benedikt S. Benediktssyni, framkvæmdastjória SVÞ – Samtökum verslunar og þjónustu undir fyrirsögninni;
UM FARNA KÍLÓMETRA Í ÓHAMINGJUSÖMU HJÓNABANDI
Næsta skref í nýju tekjuöflunarkerfi fyrir ökutæki og eldsneyti var lagt fram á Alþingi þann 22. október af fjármála- og efnahagsráðherra, í formi lagafrumvarps um kílómetragjald vegna notkunar ökutækja. Eigendur raf- og tengiltvinnbíla þekkja fyrsta skrefið. Markmiðið, samkvæmt frumvarpshöfundi, er að allir sem nota vegakerfið greiði gjald í samræmi við notkunina, innan sama kerfis.
Vont er þeirra ranglæti, verra þeirra réttlæti
Þrátt fyrir ætlað sanngirnimarkmið frumvarpsins mun það hafa verulegar afleiðingar og margir munu finna fyrir ójafnri ábyrgð.
Á næsta ári munu:
1. Eigendur rafmagnsfólksbíla greiða um 12% hærra kílómetragjald en á þessu ári.
2. Eigendur smábíla sem eyða 5 lítrum af bensíni á hundraðið greiða 19,2% meira en á þessu ári.
3. Eigendur jeppa og annarra stærri fólksbíla sem eyða 15 lítrum á hundraðið greiða 7% minna en á þessu ári.
4. Eigendur eyðslufrekra vöruflutningabíla greiða 8,9% minna en á þessu ári.
5. Eigendur hreinorku vöruflutningabíla greiða 3,1% meira en á þessu ári.
Samkvæmt frumvarpshöfundi er markmiðið að tryggja að allir greiði sanngjarnt gjald fyrir notkun vegakerfisins. Sanngirni er honum augljóslega ofarlega í huga. Hins vegar sýna áhrifin, sem rakin hafa verið, að þeir sem hafa fjárfest í grænni tækni munu bera þyngri byrðar á meðan þeir sem nýta eyðslufrekari ökutæki hagnast.
„Við ætlum að setja loftslagsmál í forgang“
Í aðdraganda hjúskapar síðustu ríkisstjórnar var gerður kaupmáli sem frumvarpið vísar til. Samkvæmt skoðanakönnunum voru skilnaðarbörnin, þegnarnir, því fegnir að því sambandi lyki. Ekkert barnanna átti hins vegar von á að fá reikning fyrir búskiptunum.
Fyrirsögnin hér að ofan er tekin úr kaupmálanum en óhætt er að segja að efni hans endurspeglaði bjartsýni. „Markmiðið er að bæta lífskjör þeirra sem verst standa og styrkja samkeppnisstöðu fyrirtækja. Áfram verður unnið að því að breytingar á sköttum og gjöldum styðji við loftslagsmarkmið.“
Um síðustu áramót tóku gildi lagabreytingar sem urðu þess valdandi að dýrara varð að fjárfesta í fólksbifreið sem eyðir litlu eða engu. Á sama tíma var eignarhald bifreiðanna gert óhagstæðara með hækkun bifreiðagjalds og upptöku kílómetragjalds.
Lagafrumvarpinu sem nú liggur fyrir er ætlað að bæta ríkinu tekjumissi vegna ökutækja og það mun að óbreyttu raungerast. Í þeim efnum er markmiðið að tekjurnar nemi rúmum 102 milljörðum kr. árið 2029, sé tekið mið af spá Hagstofunnar um þróun landsframleiðslu. Til samanburðar námu tekjurnar tæpum 52 milljörðum kr. árið 2023.
Markviss skot geiga síður
Með frumvarpinu er ætlunin að afnema aðra eldsneytisskatta en kolefnisgjald sem hækka mun 100%. Kílómetragjaldið á að stoppa í gatið sem myndast og rúmlega það. Hugmyndafræðin er sú að allir ökutækjaeigendur sem teljast hafa sambærileg áhrif á vegakerfið greiði það sama.
„Við ætlum að setja loftslagsmál í forgang“ sagði ríkisstjórnin.
Afleiðingar frumvarpsins, sem voru raktar hér að framan, bera þess ekki vott að loftslagsmál séu lengur í forgangi. Ekki er lengur gert ráð fyrir að skattar á eigendur ökutækja styðji loftslagsmarkmið. Sjálfur vegurinn er mönnum hins vegar ofarlega í huga og það á að sækja meira skattfé í hann og ríkissjóð en hliðaráhrifin eru orðin aukaatriði.
Hliðaráhrifin
Eins og glögglega má sjá af framangreindri upptalningu afleiðinga mun frumvarpið veikja hvata til orkuskipta í samgöngum. Núverandi kerfi hefur veitt talsverða hvata til einstaklinga og fyrirtækja sem hafa aðlagað sig bæði með kaupum á eyðslugrönnum og umhverfisvænum ökutækjum sem eyða engu eða litlu jarðefnaeldsneyti. Með þessu frumvarpi, ásamt skattabreytingum síðasta árs, birtist sú mynd að þessi aðlögun hafi frekar verið eins og að taka lán og nú sé gjalddagi kominn. Þeir sem hafa fylgt hvötum standa nú frammi fyrir auknum kostnaði, sem birtist hver á fætur öðrum.
Umfjöllun frumvarpsins beinist nær öll að umferð á vegum. Þess er hins vegar lítt getið að áhrifin verði víðtækari en svo að aðeins notkun veganna sé undir. Tvöföldun kolefnisgjalds lendir á þeim sem ekki nota vegi í sinni starfsemi. Eigendur báta, þeir sem hita hús með olíu, iðnaðurinn, landbúnaðurinn, sjávarútvegurinn og eigendur staðbundinna tækja á borð við ljósavélar taka á sig verulega hækkun álaga. Ef fram fer sem horfir munu álögur á strandsiglingar hækka á sama tíma og Vegagerðin er að skoða hvernig þá megi efla eftir skipun hins nýfráskilda innviðaráðherra.
Úr hvaða veski?
En hver mun greiða? Atvinnulífið, svaraði nýskilinn innviðaráðherrann. Flestir gera sér grein fyrir að svarið er ekki einlægt því skattar rata í verðlag vöru og þjónustu. Þeir sem hafa fjárfest í eyðslugrannri bifreið munu greiða og þá helst þeir sem fara þurfa langan veg. Sama á við um þá sem þurfa á vöruflutningi að halda og þá helst þeir sem reka starfsemi langt frá vörudreifingarmiðstöðvum og verslunum. Eigendur smábáta munu greiða, bændur munu greiða, iðnaðurinn mun greiða o.fl.
Á endanum munu tveir hópar fá reikninginn, annars vegar neytendur, líklega fá neytendur á landsbyggðinni hann hæstan, og hins vegar viðskiptavinir útflutningsfyrirtækjanna. Verði staða útflutningsfyrirtækjanna slík að þau geti ekki hækkað verð munu þau sitja uppi með reikninginn með mögulegum áhrifum í heimabyggð.
Tækifæri til úrbóta
SVÞ – Samtök verslunar og þjónustu og Bílgreinasambandið hafa þegar komið á framfæri ábendingum um hvernig megi milda áhrif frumvarpsins og munu halda því áfram. Fróðlegt verður að sjá hvort þingmenn í kosningaham muni gefa sér tíma til að leggja við hlustir.
Höfundar: María Jóna Magnúsdóttir framkvæmdastjóri Bílgreinasambandsins og Benedikt S. Benediktsson framkvæmdastjóri SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu
_____________________
23/10/2024 | Fréttir, Í fjölmiðlum, Þjónusta
SVÞ vara við ríkisstyrkjum til Bíós Paradísar – skekkja samkeppni á kvikmyndamarkaði
Samtök verslunar og þjónustu (SVÞ) hafa lýst yfir áhyggjum af því að styrkbeiðni Bíós Paradísar um 50 milljóna króna framlag frá ríkinu skekki samkeppni á kvikmyndamarkaðnum. Samtökin telja að slíkir ríkisstyrkir, sem Bíó Paradís hefur nú óskað eftir annað árið í röð, séu óhjákvæmilega skaðlegir fyrir önnur kvikmyndahús sem einnig leggja mikið af mörkum til félagslegrar og menningarlegrar starfsemi.
Vitnað er í Benedikt S. Benediktsson, framkvæmdastjóra SVÞ, sem bendir á að: „Það er áhyggjuefni að ekki sé tryggt jafnræði í stuðningi við kvikmyndahús. Rekstrargrundvöllur Bíós Paradís virðist byggður á ríkisstyrkjum og slíkt skapar ósanngjarnt samkeppnisumhverfi. Við verðum að gæta þess að önnur bíóhús, sem eins og Bíó Paradís sinna menningarhlutverki og styðja íslenska kvikmyndagerð, fái einnig tækifæri til að blómstra.“
Þá leggur SVÞ einnig áherslu á nauðsyn þess að lækka virðisaukaskatt á kvikmyndahúsamiða úr 24% í 11%, til að jafna samkeppnisstöðu kvikmyndahúsa gagnvart erlendum streymisveitum. „Þetta misræmi er ósanngjarnt og dregur úr getu kvikmyndahúsa til að keppa á jafnréttisgrundvelli við risastórar erlendar veitur,“ segir Benedikt að lokum.
Smellið hér til að lesa alla greinina.
*Mynd frá vef VB.
25/09/2024 | Fréttir, Í fjölmiðlum, Verslun
Í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld, kom Benedikt S. Benediktsson, framkvæmdastjóri SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu, fram og lýsti áhyggjum af stöðugum innbrotum í verslanir á höfuðborgarsvæðinu. Hann greindi frá því að erlendir glæpahópar séu nú sérstaklega virkir í að herja á íslenskar verslanir.
„Við höfum fengið upplýsingar um að þjófagengi frá útlöndum starfi hér á landi með mjög skipulegum hætti,“ sagði Benedikt ma. í viðtalinu.
„Gengin eru með ákveðið kerfi þar sem menn koma inn í stórum hópum. Þar hafa t.d. einn til tveir það hlutverk að ná í vörur en hinir villa um fyrir starfsfólki svo auðveldara sé að koma vörunum undan,“
Samkvæmt Benedikt hafa verslanir orðið fyrir verulegu fjárhagslegu tjóni vegna þessara innbrota. Hann hvatti bæði almenning og verslunareigendur til að vera á varðbergi. „Það er gríðarlega mikilvægt að verslanir efli sínar varnir, t.d. með því að endurskoða öryggismyndavélakerfi og tryggja að öryggisþjónustur séu virkar,“ sagði hann.
Benedikt minnti einnig á að lögreglan hafi ítrekað kallað eftir aðstoð almennings við að tilkynna grunsamlega hegðun.
Þjófgengi ræna af eldri konum
Lögreglan hefur tvisvar á síðustu vikum varað við þjófagengjum á Facebook sem herja á eldar fólki í verslunum. Þá hafa Samtök fyrirtækja í fjármálaþjónustu (SFF) varað sérstaklega við slíkum þjófnuðum.
Í grein Visis er vitnað í Skúla Jónsson aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu sem veit um fimm slík tilvik á nokkrum vikum. Um sé að ræða skipulagða starfsemi af hálfu þjófagengja.
„Þjófarnir eru þá gjarnan nokkrir saman í hóp og aðgerðin er klárlega skipulög. Í þessum tilvikum sem hafa komið upp nýlega eru þetta erlendir aðilar. Þeir hafa verið að beina spjótum sínum að eldri konum um áttrætt.“
„Menn hafa verið gripnir við það að horfa yfir öxlina á eldri borgurum og virðast vera að safna frá þeim pinnúmerum,“ bendir Benedikt einnig á.
Hægt er að lesa alla greinina og horfa á viðtalið HÉR.
28/08/2024 | Fréttir, Í fjölmiðlum, Verslun
Viðskiptablað Morgunblaðsins birtir í dag, 28.ágúst 2024, viðtal við Benedikt S. Benediktsson, lögfræðing samtakanna en SVÞ – Samtök verslunar og þjónustu hafa lýst yfir óánægju með ummæli Breka Karlssonar, formanns Neytendasamtakanna, sem fullyrti að samkeppnisaðilar á dagvörumarkaði hefðu haft með sér þögult samkomulag um að halda markaðnum óbreyttum. Tilefni ummælanna var opnun lágvöruverðsverslunarinnar Prís við Smáralind í Kópavogi fyrr í ágúst.
SVÞ telja að Breki hafi með þessum orðum borið fyrirtækin á markaðinum þungum sökum án rökstuðnings. Þeir benda á að afkomutölur fyrirtækjanna sýni ekki merki um slíkt samkomulag og að það sé alvarlegt að setja fram slíkar ásakanir án sannana.
Benedikt S. Benediktsson, lögfræðingur SVÞ, segir ma., í viðtali við Morgunblaðið, að „það sé óraunhæft að saka fyrirtækin um að viðhalda stöðugleika á markaðnum þar sem afkomutölur sýni að þau hafi ekki grætt óeðlilega. Hann bendir á að verðkannanir séu eðlilegur hluti af samkeppni, bæði hér á landi og erlendis.“
Að lokum taka SVÞ fram að þau fagna aukinni samkeppni með innkomu Prís og telja að gagnrýni á markaðsaðstæður sé á misskilningi byggð.
02/08/2024 | Fréttir, Í fjölmiðlum, Verslun
SVÞ – Samtök verslunar og þjónustu lýsa yfir áhyggjum vegna aukinna innbrota og skipulagðrar glæpastarfsemi á Íslandi. Innbrot valda miklu tjóni og flest mál komast ekki til ákæru.
Í viðtali við VISI.is kallar Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri SVÞ, eftir aðgerðum stjórnvalda til að bregðast við þessum vanda. Hann bendir á að skipulögð glæpastarfsemi frá erlendum aðilum sé vaxandi vandamál. SVÞ hefur lengi bent á þetta vandamál og biðlað til stjórnvalda að taka málið fastari tökum.
Lestu alla fréttina HÉR!