Strengjum áramótaheit

Strengjum áramótaheit

Grein er birtist í Morgunblaðinu 7.janúar 2023 frá formanni SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu

Strengjum áramótaheit 2023

Strengjum áramótaheit

Flestum líður best í stöðugu ástandi og bera jólahefðir þess merki. Við endurtökum leikinn ár eftir ár, sama steikin, sömu jólalögin og sama fjölskyldan safnast saman í jólaboðum. Við horfum á sömu kvikmyndirnar og meðtökum sama boðskapinn. Jafnvel á Tene snæddu íslenskir ferðamenn skötu og jólahangikjöt. Svo sprengjum við okkur leið út úr árinu og inn í nýtt ár, byrjum að nýju eftir að hafa rifjað upp liðið ár undir leiðsögn höfunda áramótaskaups og fréttaannála.

Eins og flestir standa atvinnurekendur á tímamótum um áramót. Rekstrarári lýkur og nýtt tekur við. Ársreikningur mun endurspegla athafnir fyrra árs en áætlunum er ætlað að skapa vissan fyrirsjáanleika um gerðir þess næsta. Liðnu ári er ekki unnt að breyta, atburðir þess eru orðnir að reynslu. Nú þarf að huga að því hvernig næsta ár mun þróast.

2022 ár árskorana fyrir fyrirtæki landsins.

Árið 2022 var fyrirtækjum ár áskorana. Snemma árs losnuðu allir sem betur fer undan beinum áhrifum sóttvarnarráðstafana, samkomutakmarkana og jafnvel lokana. Óbeinu áhrifin sitja þó í mörgum tilvikum eftir í formi hás innkaupsverðs vara og jafnvel birgðaskorti. Það bættist í safn áskorana þegar stríðsrekstur Rússa hófst í Úkraínu. Enn hækkaði innkaupsverð og í mörgum tilvikum þurfti að leita á ný mið við öflun vara. Það brotnuðu keðjulásar í virðiskeðju heimshagkerfisins. Allir sitja uppi með þá staðreynd að verðbólgudraugurinn er genginn aftur.

Það er verkefni ríkisstjórnar, Alþingis og sveitarfélaga að stýra þjóðarskútunni í átt að lygnari sjó og verkefni seðlabankans að lægja öldur peningamála. Í ýmsu tilliti tryggðu stjórnvöld að skipið hélt vel vatni þegar heimsfaraldurinn stóð sem hæst. Fyrirtækjum í nauð voru sendar líflínur sem drógu úr neikvæðum áhrifum á launþega. Á heildina litið tókst fyrirtækjum í verslun og þjónustu vel til, almenningi og öðrum fyrirtækjum til heilla. Breyttar áherslur neytenda urðu þess valdandi að hlutur stafrænnar verslunar og þjónustu hefur aukist og samfara hafa skapast tækifæri til hagræðingar og frekari breytinga. Ætla má að reynslan hafi gert fyrirtækin betur í stakk búin til að takast á við breytingar en áður. Við erum komin í var undir Grænuhlíð og þó dregið hafi úr storminum eru veðurhorfur hið minnsta óljósar.

Kjarasamningar á óvissutíma.

Í ljósi óvissu varð gildistími gerðra kjarasamninga frekar stuttur og því munu viðræður um það sem við tekur hefjast á árinu. Á sama tíma eru hagvaxtar- og verðbólguhorfur í Evrópu dökkar og á heimsvísu útlit fyrir að verulega hægi á vexti. Hækkandi orkuverð og hækkandi vextir geta dregið hratt úr erlendri neyslu og fjárfestingu. Ferðamönnum er tekið að fjölga að nýju en ferðaþjónustan er enn að rétta úr kútnum. Við fyrirtækjum í þeim geira blasa þau verkefni að bæta skuldastöðu og efla eigið fé til rekstrar og uppbyggingar. Við fyrirtækjum í verslun og þjónustu blasa fordæmalausar og kostnaðarsamar breytingar í ljósi tækniþróunar, áherslna á sjálfbærni og þörf á að efla þekkingu starfsfólks. Forsendur verðmætasköpunar eru í ýmsu tilliti brothættar.

Vonir um bjarta framtíð munu aðeins raungerast ef allir leggja sitt af mörkum. Sjaldan hefur þörf fyrir ábyrgt mat seðlabankans verið sterkari. Undir þessum kringumstæðum þurfa ríkisstjórnin, Alþingi og sveitarfélög í sameiningu að tryggja skynsamlegar forsendur til skemmri og lengri tíma. Í því samhengi eru jákvæð áhrif á hagkerfið lykilorðin. Fjárfesting þarf að styðja hagræðingu og verðmætasköpun og endurskoðun tekjuöflunar þarf að tryggja eðlilega þátttöku í kostnaði. Til að mynda þarf að huga betur að orkuskiptum í landi hagstæðs orkuverðs og á tímum umbreytinga er endurskoðun forsendna fasteignaskatts, tekjustofns sveitarfélaga, afar brýn. Þá gegna aðilar vinnumarkaðarins vissulega afar mikilvægu hlutverki. Þeir þurfa m.a. að tryggja að til staðar séu forsendur til hagræðingar í rekstri svo atvinnurekendum verði betur fært að mæta hækkandi rekstrarkostnaði án víðtækra áhrifa á verðlag. Í sama skyni þurfa neytendur að sýna því skilning að samhengi er milli kostnaðar sem hlýst af háu þjónustustigi og verðlagningar vöru og þjónustu.

Búum afkomendum okkar stöðugt efnahagslíf.

Ekki eru alltaf jólin en jólatíðin kemur sem betur fer alltaf aftur. Þess á milli sköpum við ró með efnahagsástandi sem gerir okkur fært að takast á við mögulegar áskoranir. Við skulum saman strengja þess heit að búa afkomendum okkar stöðugt efnahagslíf og von um góða framtíð.

Höf. Jón Ólafur Halldórsson, formaður SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu.

Að loknum heimsfaraldri | Innherji

Að loknum heimsfaraldri | Innherji

Innherji birtir í dag neðangreinda grein eftir Andrés Magnússon, framkvæmdastjóra SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu undir heitinu: Að loknum heimsfaraldri

__________________________________

Nú þegar árið 2022 er á enda komið er vert að staldra við og líta á hvernig fyrirtækin í landinu komu út úr þeirri áraun sem heimsfaraldurinn sannarlega var. Eins og margoft hefur komið fram hitti faraldurinn einstakar atvinnugreinar mjög misjafnlega fyrir. En það sem skipti þó sköpum við að leiða fyrirtækin og samfélagið allt í gegn um þetta sérstaka tímabil voru þær margháttuðu stuðningsaðgerðir sem stjórnvöld innleiddu og voru flestar unnar í nánu samstarfi við hagsmunasamtök í atvinnulífinu. Ekki er neinum vafa undirorpið að þær aðgerðir breyttu miklu og má endlaust velta því fyrir sér hver staðan væri núna í hagkerfi landsins ef ekki hefði verið gripið til þessara aðgerða.

Fyrirtæki í ferðaþjónustu gengu í gegn um erfiða tíma þar sem ferðalög lögðust að mestu af. Ýmsar aðrar atvinnugreinar nutu hins vegar mjög góðs af ástandinu af sömu ástæðu og á það ekki hvað síst við um fyrirtæki í verslun og þjónustu. Þar sem ferðalög erlendis lögðust nær af þann tíma sem heimsfaraldurinn stóð yfir, fór verulegur hluti þeirrar neyslu sem að jafnaði fer fram erlendis, til íslenskra fyrirtækja. Fyrir mörg fyrirtæki í verslun og þjónustu var þetta því alls ekki slæmur tími, og hefur aldrei verið nein dul á það dregin.

Það er því ágætis tilefni til að líta yfir sviðið núna og horfa á hvernig viðskipti hafa þróast á árinu sem kveður brátt. Í því sambandi verður að líta til ársins 2019 til samanburðar þar sem árin þar á milli geta ekki talist samanburðarhæf vegna þeirra sérstöku aðstæðna, sem þá voru til staðar.

Í samanburði við flestar nágrannaþjóðir okkar getum við prísað okkur sæl yfir því að vera laus við þá orkukreppu sem hefur nú alvarlegar afleiðingar fyrir heimili og fyrirtæki víða um lönd.
Þegar kortavelta innlendra greiðslukorta innanlands, það sem af er ári 2022 (summa janúar til nóvember) er skoðuð og borin saman við sama tímabil árið 2019 kemur í ljós að kortavelta í verslun hefur aukist um 16% að raunvirði frá árinu 2019 og kortavelta í þjónustu hefur á sama tímabili aukist um 7%, að raunvirði. Nánari greining á þróun einstakra liða má sjá á meðfylgjandi mynd frá Rannsóknarsetri verslunarinnar sem sýnir hvernig breytingin hefur verið í öllum flokkum sem kortavelta rannsóknarsetursins nær til.

Við sem samfélag höfum fulla ástæðu til að horfa björtum augum fram á veginn. Allar forsendur eru til þess að það ár sem brátt gengur í garð verði okkur hagfellt, þó að glíman við verðbólguna verði enn um sinn eitt stóra viðfangsefnið. Í samanburði við flestar nágrannaþjóðir okkar getum við prísað okkur sæl yfir því að vera laus við þá orkukreppu sem hefur nú alvarlegar afleiðingar fyrir heimili og fyrirtæki víða um lönd. Við erum því í umtalsvert betri stöðu en flestar aðrar þjóðir að skapa hér grunn að öflugum hagvexti sem allir munu njóta góðs af. Það hlýtur að vera sameiginlegt verkefni okkar allra.

Í vasa hvers? | Innherji

Í vasa hvers? | Innherji

Innherji birtir í dag grein eftir Benedikt S. Benediktsson, lögfræðing SVÞ Samtaka verslunar og þjónustu undir heitinu Í vasa hvers? 

Þar vísar Benedikt m.a. í hádegisfréttir Bylgjunnar, hinn 13. desember síðastliðinn, gagnrýndi formaður Samfylkingarinnar stuðning stjórnvalda vegna kjarasamninga á almennum vinnumarkaði. Í viðtalinu lét hún í ljós afstöðu sem var efnislega á þá leið að svokölluð leigubremsa væri nauðsynleg svo komið yrði í veg fyrir að boðuð 13,8% hækkun húsnæðisbóta færi að öllu leyti til leigusala. Í sama fréttatíma sagði þingmaður Flokks fólksins efnislega að húsnæðisbætur ýttu undir hækkanir og gaf í skyn að þær væru í raun fé sem rynni beint til leigusala.

Athygli vekur að hvorki formaðurinn né þingmaðurinn nefndu framboðsskort á húsnæði sem rót hækkunar húsnæðiskostnaðar.

Þá heldur Benedikt áfram og segir; Skilja verður formanninn og þingmanninn þannig að með leigubremsu sé átt við það sem hefur verið nefnt leiguþak, eða á ensku rent control. Þar er á ferðinni eitt umdeildasta fyrirbæri leiguréttar þar sem í sögunni er að finna dæmi um að tilvist leigubremsu hafi til lengri tíma litið fækkað leiguhúsnæði í tilteknum borgum um allt að 15%. Auðsætt er að slík niðurstaða mundi gagnast fáum. Orð þeirra má einnig skilja þannig að húsnæðisbætur séu óþarfar sé litið til hagsmuna leigjenda. Má jafnvel, með skreytni, skilja þær þannig að það sé í raun formsatriði að greiða húsnæðisbætur til leigjenda, einfaldara væri að greiða fjárhæðir þeirra beint til leigusala. Slíkur skilningur endurspeglar raunveruleikann hins vegar ekki vel.

Fyrir það fyrsta eru fjölmargir þættir sem jafnan hafa áhrif á rekstrarforsendur leigusala, meðal annars viðhaldskostnaður, fasteignagjöld, kostnaður vegna trygginga, breytingar á húsgjöldum og breytingar á öðrum kostnaði. Þá getur fjárhæð húsaleigu tekið mið af því hvort sett sé trygging fyrir skilvísri greiðslu eður ei og hvort leiga hafi verið greidd fyrirfram. Í öðru lagi eru flestir húsaleigusamningar gerðir til nokkurs tíma, þeim þinglýst og engin dæmi virðast um að í þeim sé kveðið á um að leigufjárhæð breytist til samræmis við breytingar á húsnæðisstuðningi.

Í þriðja lagi er það ófrávíkjanleg regla húsaleigulaga að þrátt fyrir að aðilum sé frjálst að semja um fjárhæð húsaleigu og hvernig hún skuli breytast á leigutíma skuli hún vera sanngjörn og eðlileg í garð beggja. Þar gildir það meginviðmið að markaðsleiga sambærilegs húsnæðis skuli lögð til grundvallar ásamt atriðum á borð við almennan húsnæðiskostnað, staðsetningu, ástand og gerð eignar, endurbætur og viðhald, leigutíma og fyrirframgreidda leigu. Í framkvæmd hefur því verið slegið föstu að leigusala sé ekki heimilt að hækka leigufjárhæð einhliða á leigutíma nema að því leyti sem kveðið er á um í leigusamningi. Strangar kröfur eru gerðar til leigusala þegar kemur að hækkun leigu á leigutíma þó hún sé heimil samkvæmt húsaleigusamningi.

Í fjórða lagi þarf að horfa til þess að þegar samið hefur verið um húsaleigu er samningurinn annað hvort tímabundinn eða ótímabundinn. Sé hann ótímabundinn er sex mánaða lágmarksuppsagnarfrestur lögbundinn í tilviki íbúðarhúsnæðis en tólf mánaða frestur sé samningurinn til lengri tíma en tólf mánaða í tilviki leigusala sem leigja íbúðarhúsnæði í atvinnuskyni.

Húsaleigusamningar eru gagnkvæmir og jafnan gerðir í ljósi þess að báðir aðilar telja sig betur setta en án þeirra. Það eru hagsmunir beggja að hið leigða húsnæði sé vel úr garði gert og endurspeglar leigufjárhæð jafnan slíka stöðu. Það eru jafnframt hagsmunir beggja að framboð leiguhúsnæðis sé nægt. Það er ekki rétt, sem virðist hafa verið gefið í skyn, að aukinn húsnæðisstuðningur renni nær beint og óskipt í vasa leigusala. Þó húsaleiga geti vissulega tekið hækkun á sama tíma og húsnæðisbætur hækka eru fjölmargir aðrir þætti sem hafa áhrif bæði til lækkunar á hækkunar. Myndin er ekki eins svarthvít og gefið er til kynna. Hins vegar er alveg ljóst að framboð á húsnæði er ekki nægilegt.

SMELLTU HÉR TIL AÐ LESA ALLA GREININA Á INNHERJA

RÚV 2 | Verslun og verðbólga

RÚV 2 | Verslun og verðbólga

Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu var gestur Morgunútvarps Rásar 2 í morgun þar sem velt var upp að verðbólgan virðist ekki vera á niðurleið þrátt fyrir spár og víða heyrast þær gagnrýnisraddir að verslanir haldi verðinu uppi þrátt fyrir lækkun á heimsmarkaðsverði í ýmsum vöruflokkum.

SMELLIÐ HÉR TIL AÐ HLUSTA!

Fólk ferðast og það eyðir ekki sömu pen­ing­un­um tvisvar!

Fólk ferðast og það eyðir ekki sömu pen­ing­un­um tvisvar!

Morgunblaðið birtir í gær viðtal við Andrés Magnússon, framkvæmdastjóra SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu þar sem hann er m.a. spurður út í breyttar verslunarhegðanir íslendinga á tímum tilboðsdaga s.s. dagur einhleypra, (Singles Day), Svartur föstudagur (Black Friday) og rafrænn mánudagur (Cyber Monday).

Í viðtalinu bendir Andrés m.a. á að „Bara fyr­ir ör­fá­um árum var versl­un í des­em­ber 40% meiri en í nóv­em­ber. Núna er mun­ur­inn 20%. Des­em­ber er enn þá af­ger­andi stærst­ur en mun­ur­inn hef­ur minnkað á milli þess­ara tveggja mánaða síðan svona 2018-2019 sem eru eig­in­lega einu sam­an­b­urðar­hæfu árin. Það er eig­in­lega úti­lokað að taka árin 2020 og 2021 til sam­an­b­urðar.“ 

Þá bendir Andrés einnig á að Covid-árin ekki vera sam­an­b­urðar­hæf því þá ferðuðust Íslend­ing­ar lítið til út­landa. Viðskipti hafi gengið vel fyr­ir sig hér á landi af þeirri ástæðu.

„Nú er miklu stærri hluti viðskipta sem fer fram er­lend­is. Íslend­ing­ar ferðast eins og ég veit ekki hvað,“ seg­ir Andrés.Hann seg­ir ut­an­lands­ferðir Íslend­inga eitt­hvað spila inn í sölu hér á landi en minna sé um að flug­fé­lög­in aug­lýsi bein­lín­is versl­un­ar­ferðir til út­landa eins og áður var gert „Engu að síður, fólk ferðast og það eyðir ekki sömu pen­ing­un­um tvisvar, svo mikið er víst.“ segir Andrés að lokum.

SMELLTU HÉR til að lesa allt viðtalið.