Upptaka af einkar gagnlegum fundi með lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins

Upptaka af einkar gagnlegum fundi með lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins

Mjög gagnlegar umræður voru á vel sóttum fundi með lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins í morgun. Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins, kynnti innri vinnu sem hefur verið í gangi hjá lögreglunni, árangur af henni og ýmislegt sem til mun koma í framhaldinu. Mikið var rætt um mögulegar aðgerðir til að bregðast með áhrifaríkari hætti við þjófnaði í verslunum og afgreiðslu brotamála. Í framhaldi af fundinum mun öryggishópur SVÞ vera í frekara sambandi við lögreglu varðandi samstarf og mögulegar aðgerðir.

Við hvetjum fólk til að horfa á upptöku af fundinum hér fyrir neðan og félagsmenn að setja sig í samband við okkur ef þeir hafa áhuga á að koma að frekari vinnu að þessum málum. Netfangið er svth(hjá)svth.is og síminn 511 3000.

Samskiptareglur milli lækna og lyfjafyrirtækja hafa sannað gildi sitt

Samskiptareglur milli lækna og lyfjafyrirtækja hafa sannað gildi sitt

Við setningu Læknadaga 2020 í Hörpu skrifuðu Reynir Arngrímsson, formaður Læknafélags Íslands, og Jakob Falur Garðarsson, framkvæmdastjóri Frumtaka, undir uppfærðan samning um samskipti lækna og fyrirtækja sem framleiða og flytja inn lyf. Siðareglurnar byggja á nýuppfærðum reglum EFPIA – Evrópusamtaka frumlyfjaframleiðenda og Frumtaka um samskipti við heilbrigðisstarfsfólk, heilbrigðisstofnanir og sjúklingasamtök.

Nokkur reynsla er komin á reglur sem þessar og hafa þær sannað gildi sitt í því að eyða tortryggni og taka af vafa um mörk í samskiptum framleiðenda lyfja og heilbrigðisstarfsfólks. Samkomulagið sem nú hefur verið uppfært og undirritað byggir á grunni fyrra samkomulags frá árinu 2013.

Sjá má umfjöllun um málið á Hringbraut/Fréttablaðinu hér.

Fréttatilkynning: Samkeppnishömlur við hugbúnaðarkaup í heilbrigðisþjónustu

Fréttatilkynning: Samkeppnishömlur við hugbúnaðarkaup í heilbrigðisþjónustu

Samkeppniseftirlitið leggur mat á hvort tilefni sé til rannsóknar á athöfnum einkaaðila og opinberra á markaði fyrir rafrænar sjúkraskrár og tengdar lausnir.

Hinn 12. desember sl. sendi Samkeppniseftirlitið einu einkafyrirtæki og nokkrum opinberum aðilum bréf þar sem óskað var eftir upplýsingum, viðbrögðum og athugasemdum svo stofnunin gæti tekið ákvörðun um hvort ástæða sé til rannsóknar á markaði fyrir rafrænar sjúkraskrár og tengdar lausnir.

Ástæðan er erindi SVÞ til Samkeppniseftirlitsins f.h. aðildarfyrirtækis samtakanna, Skræðu ehf., þar sem vakin var athygli á hegðun Origo á markaðnum og ákvarðanatöku á vettvangi hins opinbera.

Í júlí 2011 taldi Samkeppniseftirlitið sterkar vísbendingar um að Origo væri ráðandi á markaðnum. Í því ljósi hvatti stofnunin tiltekna opinbera aðila í heilbrigðisþjónustu til að huga sérstaklega að þeirri stöðu við innkaup á þjónustu.

SVÞ telur tilefni til að vekja sérstaka athygli á að af svari heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá 10. þingmanni Suðurkjördæmis (þskj. nr. 1615 og 1616 á 149. löggjafarþingi) verður ráðið að verulegu opinberu fé hafi verið ráðstafað til framþróunar og viðhalds á hugbúnaðarkerfunum sem eru í eigu markaðsráðandi aðilans, Origo. Í bréfum Samkeppniseftirlitsins frá 12. desember sl. kemur jafnframt fram að sterkar líkur séu á að hvatning Landspítala til heilbrigðisfyrirtækja þess efnis að taka upp sjúkraskrárkerfið Sögu muni raska samkeppni á markaðnum.

SVÞ, Samtök heilbrigðisfyrirtækja, sem starfa innan vébanda SVÞ, og fleiri samtök í heilbrigðisþjónustu hafa lýst verulegum áhyggjum af innkaupum hins opinbera á heilbrigðisþjónustu eins og fram kom í haust. SVÞ munu eftir sem áður standa við bakið á aðildarfyrirtækjum samtakanna í samskiptum við hið opinbera.

20-30% verslunar verður komin á netið innan skamms tíma

20-30% verslunar verður komin á netið innan skamms tíma

Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri SVÞ, mætti Í bítið á Bylgjunni á þrettándanum til að ræða breytingar í verslun, greiðslumiðlanir og stafræna þróun. Þróunin hérlendis fylgir erlendri þróun þar sem aukning er í netverslun og verslunarrými breytast, bæði hvað varðar stærðir og tilgang, en við erum þó seinni til. Greiðslumiðlanir eru í auknum mæli að færast frá greiðslukortum yfir í smáforrit (öpp) og risar á borð við Facebook, Google og Apple eru ýmist komin inn á greiðslumiðlunarmarkaðinn eða í startholunum. SVÞ fylgist náið með þessum málum sem og öðru sem fylgir stafrænni þróun s.s. breytingum á eðli starfa og upplýsir og styður við fyrirtæki innan sinna raða.

SMELLTU HÉR TIL AÐ HLUSTA Á VIÐTALIÐ

Hugarfarsbreyting er stærsta áskorunin

Hugarfarsbreyting er stærsta áskorunin

Eftirfarandi grein eftir Andrés Magnússon, framkvæmdastjóra SVÞ, birtist í Kjarnanum 29. desember sl.:

Það er sama hvert við horfum í atvinnulífinu, til lítilla fyrirtækja jafnt sem stórra, innan verslunar og þjónustu, ferða- og fjármálaþjónustu, stafræn tækni er að innleiða gríðarlegar breytingar. Allt frá litlum fyrirtækjum með heimasíður, og tímabókanir á netinu til stórfyrirtækja með vöruhús í umsjón vélmenna eða bálkakeðjutækni í flutningum, ekkert fyrirtæki er ósnortið af stafrænni tækni. Íslensk fyrirtæki eru þarna ekki undanskilin. Eins og staðan er í dag eiga íslensk fyrirtæki hinsvegar verulega á hættu að dragast aftur úr og verða ósamkeppnishæf í nútímaumhverfi. Fyrsta skrefið er að átta sig á að nauðsyn þess að taka þátt í þessari þróun af fullum þunga – hið nauðsynlega skref er hugarfarsbreyting.

Stafræn þróun snýst um mun fleira en kaup á tölvum, tækjum og forritum. Stafræn þróun á erindi við alla innan fyrirtæksins, ekki eingöngu tölvudeildina. Stafræn þróun snýst um grundvallarbreytingu á því hvernig við nálgumst viðskipti. Virðiskeðjur og viðskiptamódel eru að taka gagngerum breytingum og mörkin milli vöru og þjónustu verða sífellt óskýrari. Stafræn þróun kallar á breytingar sem ganga í gegnum fyrirtækið allt og því þarf stjórnun, menning, þróun ferla og uppbygging á hæfni að taka hana með í reikninginn á öllum stigum. Þetta snýst um algjörlega breytt hugarfar þar sem fyrirtæki hugsa alla starfsemi sína út frá viðskiptavininum og því að nýta stafræna tækni alls staðar þar sem hún á við. Viðskiptavinirnir gera kröfur sem alþjóðlegir samkeppnisaðilar okkar mæta og mæta þeim vel. Viðskiptavinir vilja fá lausnir sniðnar að persónulegu þörfum sínum, þeir vilja skjóta afgreiðslu og framúrskarandi þjónustu. Þeir vita að þetta er allt hægt – þau fá þetta frá Amazon, Aliexpress og Asos! Þessi og sambærileg fyrirtæki eru þau sem íslenskar nútímakynslóðir alast upp við að eiga viðskipti við. Þetta er samkeppnisumhverfi íslenskra fyrirtækja – einnig þeirra sem eru aðeins með þrjá starfsmenn og ætla sér ekki að þjónusta annað en sitt nærumhverfi. Staðreyndin er sú, að til þess að vera samkeppnishæf verða íslensk fyrirtæki að hafa getu til og vera tilbúin til að aðlaga starfsemi sína að þörfum og óskum viðskiptavina í sama mæli og öll önnur fyrirtæki. Þau verða að finna leið til að keppa við alþjóðlegu risana.

Öll þau lönd sem við horfum hvað helst til hafa markað sér stefnu í stafrænum málum. Stór þáttur í þeirri stefnumörkun eru aðgerðir til að efla fyrirtæki í stafrænni þróun svo að þau geti verið samkeppnishæf. Svíar og Danir hafa sett sér skýr markmið um að vera í fremstu röð í stafrænum heimi. Stefnumörkun í þessum málum er ekki síður mikilvæg en stefnumörkun í nýsköpun sem nýlega hefur verið sett fram af Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu. Gera má ráð fyrir að þær aðgerðir sem ráðist verður í á grunni nýsköpunarstefnu og stefnu í stafrænum málum verði á margan hátt samþættar og styðji hvor við aðra.

Þrátt fyrir að við séum fámenn þjóð þýðir það ekki að við getum ekki tekist á við þessar áskoranir. Færa má rök fyrir því að einmitt þess vegna séum við betur í stakk búin til að mæta þeim þar sem boðleiðir eru styttri og ákvarðanataka hraðari. Eistland, svo dæmi sé tekið, er með rúmlega 1,3 milljónir íbúa og með skýrri stefnu og markvissri ákvarðanatöku hafa þeir raðað sér fremst í flokk í stafrænni stjórnsýslu. Við íslendingar gætum allt eins markað slíka stefnu og fylgt henni eftir.

Stóru áskoranirnar í stafrænum heimi eru þekking og fjármagn. Nágrannalönd okkar eru þegar farin að vinna að þessum málum með fjárhagslegum stuðningi við stafræna þróun í formi styrkja, lána og eflingu þekkingar bæði innan almenna menntakerfisins en ekki síður með sí- og endurmenntun.

Ljóst er að miklar breytingar verða á ýmsum störfum á allra næstu árum, sem þarf ekki að vera neikvætt eða nokkuð sem ástæða er til að óttast. Stafræn þróun skapar störf um leið og hún gerir önnur störf óþörf. Áskorunin felst í því að gera fólk fært um að sinna þessum nýju störfum.

Mikilvægast af þessu öllu er samt sem áður hugarfarið. Með breyttu hugarfari erum við í stakk búin til að takast á við hinn nýja veruleika og taka honum fagnandi og sjá tækifærin sem í honum felast. Við verðum að marka okkur stefnu og grípa til markvissra aðgerða til að tryggja samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs í hinum alþjóðlega stafræna heimi. Það eina sem hægt er að ganga að sem vísu eru breytingar – sífellt hraðari breytingar.

SVÞ mun á næsta ári hafa forgöngu um vinnu sem nauðsynleg er til að íslensk fyrirtæki verði í stakk búin til að keppa í heimi nýrrar stafrænnar samkeppni.

Smelltu hér

Sara Dögg í Sprengisandi um PISA, kjarasamninga kennara o.fl.

Sara Dögg í Sprengisandi um PISA, kjarasamninga kennara o.fl.

Sara Dögg Svanhildardóttir, formaður Samtaka sjálfstæðra skóla var á Sprengisandi á Bylgjunni sunnudaginn 8. desember sl. ásamt Lilju Alfreðsdóttur, menntamálaráðherra og Ragnari Þór Péturssyni, formanni Kennarasambands Íslands.

Rætt var um niðurstöður PISA könnunarinnar og mál því tengd.

Sara Dögg bendir m.a. á að kjarasamningar kennara séu íþyngjandi að því leyti að þar sé of mikil stýring á
störfum kennara. Það skapi umhverfi með endalausum hindrunum fyrir framþróun og vexti skólastarfs og skortur sé á trausti milli sveitarfélaga, skólastjórnenda og kennara.

Hlusta má á þennan hluta þáttarins hér: https://www.visir.is/k/154a02c4-ae95-4ed0-bc5c-d27addf2b7d0-1575802502064