16/05/2018 | Flutningasvið, Fréttir
Tollstjóri hefur að undanförnu unnið að innleiðingu á AEO-vottun hér á landi. AEO er alþjóðleg gæðavottun sem felur í sér að fyrirtækið er talið vera öruggur hlekkur í aðfangakeðjunni, hefur tileinkað sér ábyrga tollmeðferð og uppfyllir kröfur um alþjóðlega vöruflutninga.
Markmiðið með innleiðingu á AEO öryggisvottun er að tryggja samkeppnishæfni íslensks útflutnings og stuðla að bættu markaðsaðgengi íslenskra útflutningsgreina. Fyrirtæki sem eru með starfsemi hér á landi og eru hluti af alþjóðlegu aðfangakeðjunni geta sótt um vottunina. Þessi fyrirtæki geta verið eftirfarandi: Inn- og útflytjendur, framleiðendur, farmflytjendur og tollmiðlarar.
Embætti Tollstjóra leitar eftir fyrirtækjum til að taka þátt í tilraunverkefninu „Viðurkenndir rekstraraðilar“ (AEO-vottun). Valin verða nokkur fyrirtæki sem gegna mismunandi hlutverkum í aðfangakeðjunni til að vera þátttakendur í verkefninu. Markmiðið er að prófa umsóknar- og vottunarferlið áður en AEO-vottunin verður formlega tekin í notkun. Í lok verkefnisins mun fyrirtækið hljóta AEO-vottun þar sem það staðfestist að fyrirtækið stenst öll öryggisskilyrðin og getur sýnt fram á fullnægjandi ferla í tollframkvæmd.
Við val á fyrirtækjum í tilraunaverkefnið verður meðal annars tekið tillit til eftirfarandi atriða:
- Umfang viðskipta, fjölda tollskýrslna og heildarfjárhæðir viðskipta.
- Víðtæk alþjóðleg viðskipti og millilandaflutningar.
- Staða öryggismála og öryggisvitund innan fyrirtækisins, einkum m.t.t. öryggis alþjóðlegu aðfangakeðjunnar.
- Til staðar sé virkt gæðakerfi, hugað sé að meðhöndlun frávika, innra eftirliti og umbótastarfi.
- Dótturfyrirtæki eða móðurfyrirtæki sem hlotið hafa AEO-viðurkenningu erlendis.
- Hlutverk fyrirtækisins í aðfangakeðjunni.
Þeir rekstraraðilar sem hafa áhuga á að taka þátt í tilraunaverkefninu eru beðnir um að senda inn beiðni um þátttöku með því að senda tölvupóst á aeo@tollur.is. Nánari upplýsingar veitir Elvar Örn Arason, umsjónarmaður AEO, í gegnum tölvupóst elvar.arason@tollur.is eða í síma 894 2409. Fresturinn til að senda inn umsókn er miðvikudagurinn 6. júní 2018.
AEO kynningarbæklingur
25/04/2018 | Fréttir, Samtök sjálfstæðra skóla

Nýkjörin stjórn SSSK, frá vinstri: Ingibjörg Jóhannesdóttir, Þórdís Jóna Sigurðardóttir varaformaður, Sara Dögg Svanhildardóttir, formaður, Jón Örn Valsson, María Sighvatsdóttir, Guðmundur Pétursson, Sigríður Stephensen og Gísli Rúnar Guðmundsson.
Aðalfundur SSSK var haldinn þriðjudaginn 24. apríl í Kviku, Húsi atvinnulífsins. Þar var Sara Dögg Svanhildardóttir, Arnarskóla, kjörin formaður SSSK og Þórdís Jóna Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri Hjallastefnunnar var kjörin varaformaður. Meðstjórnendur voru kjörnir: Gísli Rúnar Guðmundsson, skólastjóri grunnskólans NÚ, Guðmundur Pétursson, framkvæmdastjóri Skóla ehf og María Sighvatsdóttir, leikskólastjóri Vinagarði.
Varamenn voru kjörnir: Ingibjörg Jóhannesdóttir, skólastjóri Landakotsskóla, Jón Örn Valsson, framkvæmdastjóri LFA ehf og Sigríður Stephensen, leikskólafulltrúi og leikskólastjóri hjá Félagsstofnun stúdenta.
Skoðunarmenn voru kjörnir: Sólveig Einarsdóttir, leikskólastjóri, Vinnaminni og Sigríður Anna Guðjónsdóttir skólastjóri Skóla Ísaks Jónssonar.
Margrét Theódórsdóttir, skólastjóri Tjarnarskóla, stýrði fundi.
Að hefðbundnum aðalfundarstörfum loknum fór Þorsteinn Guðmundsson, leikari, með gamanmál.
Hér má lesa skýrsluna í heild sinni: Ársskýrsla SSSK 2017
Hér má lesa ársreikninginn í heild sinni: Ársreikningur SSSK 2017
17/04/2018 | Fréttir, Samtök sjálfstæðra skóla, Viðburðir
Aðalfundur Samtaka sjálfstæðra skóla verður haldinn þriðjudaginn 24. apríl 2018 milli kl. 15:00 og 16.30 í Húsi atvinnulífsins, Borgartúni 35, Kviku, 1. hæð
Setning: Kristján Ómar Björnsson, formaður SSSK
Margrét Theodórsdóttir, skólastjóri Tjarnaskóla, stýrir fundinum.
Hefðubundin aðalfundastörf skv. 7. grein samþykkta:
- Skýrsla stjórnar
- Stjórn leggur fram endurskoðaða reikninga samtakanna
- Umræður um skýrslu og reikninga
- Félagsgjöld ársins
- Kosning formanns og varaformanns
- Kosning meðstjórnenda og varamanna
- Kosning tveggja skoðunarmanna
- Önnur mál
Að loknum hefðbundnum aðalfundarstörfum fer Þorsteinn Guðmundsson, leikari, með gamanmál.
Framboð til stjórnar þurfa að berast formanni stjórnar í síðasta lagi fyrir upphaf aðalfundar.
Fulltrúar rekstraraðila, skólastjórar, aðstoðarskólastjórar og aðrir stjórnendur eru hjartanlega velkomnir.
Skráning hjá aslaug@svth.is
05/03/2018 | Fréttir, Samtök sjálfstæðra skóla
Þann 28. febrúar sl. hlutu tveir leikskólastjórar innan SSSK tilnefningar til Stjórnendaverðlauna Stjórnvísis 2018 fyrir frammistöðu við að móta og stjórna afburða leikskóla Þeir eru; Lovísa Hallgrímsdóttir stofnandi, rekstraraðili og f.v. skólastjóri Regnbogans í Reykjavík en hún hlaut tilnefningu 2. árið í röð. Hinn skólastjórinn er Hulda Jóhannsdóttir stjórnandi Heilsuleikskólans Króks í Grindavík.
Samtök sjálfstæðra skóla óska þessum frábæru stjórnendum til hamingju með tilnefninguna.
16/02/2018 | Fréttir, Samtök sjálfstæðra skóla
Simon Steen, formaður Samtaka sjálfstæðra skóla í Evrópu – Ecnais, verður aðalræðumaður á ráðstefnu SSSK þann 2. mars nk.
Simon mun fjalla um sterka stöðu sjálfstæðra skóla í Hollandi undir yfirskriftinni „Freedom of education in the Netherlands – From a right for the minority to an inspirational form of pedagogical entrepreneurship for the majority“.

18/10/2017 | Fréttir, Greinar, Í fjölmiðlum, Menntun, Samtök sjálfstæðra skóla
Birt á visir.is 12.10.2017
Skólakerfið
Tökum stór skref í átt að því að skapa fjölbreyttara skólakerfi og hverfum markvisst frá þeirri einsleitni sem þar ræður ríkjum.
Nemandinn
Viðurkennum ólíkar þarfir ólíkra nemenda og kappkostum að mæta þeim.
Foreldrarnir
Veitum foreldrum val og treystum þeim til þess að velja það námsumhverfi sem þau telja að henti sínum börnum best.
Kennarinn
Aukum sjálfstæði kennara og sýnum þeim traust til þess að gera það sem þeir eru bestir í: Að kenna.
Einföldum kröfur á kennara og minnkum tíma þeirra sem fer í skriffinnsku.
Veitum kennurum, líkt og nemendum, möguleika á að velja starfsvettvang í ólíkum skólum og sérskólum þar sem þeirra sérsvið, þekking og áhugi getur nýst sem best
Innleiðum sveigjanleika í nám kennara og möguleikann á því að öðlast viss réttindi til kennslu á skemmri tíma.
Viðurkennum að kennsla er að talsverðu leyti listgrein; Engum dytti í hug að láta listamenn vinna eftir stimpilklukku!
Skólastjórnandinn
Tryggjum skólastjórum faglegt og rekstrarlegt sjálfstæði til þess að skapa sínum nemendum besta mögulega námsumhverfið.
Minnkum miðstýringu að hálfu skólayfirvalda í sveitarfélögum og leggjum meiri ábyrgð á hendur skólastjórnenda og skólaráðs í hverjum skóla.
Höfundur: Kristján Ómar Björnsson formaður SSSK, Samtaka sjálfstætt starfandi skóla